Tæknispá 2026: Gervigreind og netöryggi

Þriðja árið í röð er það gervigreindin sem tekur mest pláss í tæknispá ársins (sjá fyrri tæknispár hér). Þetta er ekki að ástæðulausu. Gervigreind er að breyta heiminum meira og hraðar en nokkur tækninýjung hefur gert áratugum saman. En vendingar í alþjóðamálum setja líka sitt mark á spána að þessu sinni. Á sviði netöryggis, stafræns fullveldis og gagnaverndar eru krefjandi úrlausnarefni sem munu kalla á athygli á árinu.

Gervigreindarleiðrétting

Eftir því sem leið á árið 2025 fóru raddir um “gervigreindarbólu” að verða háværari. Sumir hafa vísað til “dotcom”-bólunnar um síðustu aldamót sem hliðstæðu, en þá varð gríðarlegt verðfall á hlutabréfum tæknifyrirtækja í kjölfar mikilla væntinga á lokaárum síðustu aldar.

Í þessu samhengi er rétt að hafa tvennt í huga:

  1. Framfarirnar sem netbólan lofaði í lok síðustu aldar gengu að mestu eftir. Í raun urðu þær langt umfram það sem jafnvel framsýnasta fólk sá fyrir sér: Samskipti, verslun, viðskipti og vinna tóku stórstígum breytingum með útbreiðslu netsins og snjallsímanna. Sýnin tók bara tvo áratugi í stað tveggja ára að verða að veruleika – og sér raunar ekki fyrir endann á þessum breytingum ennþá.
  2. Stór hluti fyrirtækjanna í netbólunni sköpuðu sér sáralitlar ef nokkrar tekjur fyrstu árin og verðmat þeirra var alfarið byggt á væntingum. Núna slær hvert gervigreindarfyrirtækið á fætur öðru met um hraðasta og mesta tekjuvöxt sögunnar. Sem dæmi má nefna hið 4 ára gamla fyrirtæki Anthropic (framleiðendur Claude) sem á þessu ári verður með tekjur af sömu stærðargráðu og útgjöld íslenska ríkisins. Nú eða sænska fyrirtækið Lovable sem setti forritunarumhverfi sitt á markað í nóvember 2024 og hefur á því ári sem liðið er síðan byggt upp tekjustraum sem svarar til 25 milljarða íslenskra króna á ári (sem nemur rétt tæplega áætluðum tekjum Símans á árinu til að setja það í samhengi).

Þessar tekjur eru greiðslur frá einstaklingum og fyrirtækjum sem sjá verðmæti í gervigreindarlausnum. Þetta er því að minnsta kosti ekki eintóm bóla. Gervigreindarfyrirtækjum er að takast að búa til vörur og þjónustu sem fólk er tilbúið að greiða fyrir. Ég tel hins vegar að við munum sjá þessi verðmæti þjappast enn frekar saman hjá fáum leiðandi fyrirtækjum og leyfi mér að segja að OpenAI og Anthropic séu mjög líkleg til að verða meðal 10 stærstu fyrirtækja heims innan 5 ára. Google – sem átti brösuglega byrjun með sínar gervigreindarlausnir – er sömuleiðis að ná að fóta sig og er í einstakri stöðu til að byggja margþættar gervigreindarlausnir með samþættingu við vefleit, tölvupóst, skjöl, kort og allt það annað sem fyrirtækið hefur þegar yfir að ráða.

Þessir framleiðendur almennu módelanna (e. foundational models) verða sigurvegararnir og þeirra almennu lausnir eru að verða ótrúlega góðar, líka í sértækum verkefnum. Ég held þess vegna að þeir muni á þessu ári ryðja fjölmörgum fyrirtækjum úr sessi sem mörg hver hafa fengið mikla fjármögnun og jafnvel náð skjótum árangri út á sértækari lausnir. Það gæti til dæmis orðið erfitt fyrir áðurnefnt Lovable að halda forskoti sínu sem “forritunar- og keyrsluumhverfi fyrir fólk sem er ekki forritarar” eftir því sem Claude Code frá Anthropic og Codex frá OpenAI verða betri og aðgengilegari og umhverfin þeirra samþætt við hýsingu og þeirra eigin lausnir.

Fjárfestingarnar sem hafa átt sér stað í gervigreind síðustu 3 árin eru meiri en í nokkrum öðrum bransa áratugum saman – mögulega síðan í járnbrautunum á síðari hluta 19. aldar – og ekki mun allt ganga upp frekar en áður. Fjárfestar munu þannig tapa stórfé á mörgum þessarra fjárfestinga, en ég er jafn sannfærður um að fjárfesting í gervigreindartækninni sem heild á eftir að skila gríðarlegum verðmætum – og þá einkum og sér í lagi í kringum grunntæknifyrirtækin sjálf: OpenAI, Anthropic, Google og Nvidia. Það síðastnefnda gæti reyndar verið búið að taka út verðmætaukninguna sína fyrirfram og ég efast um að það haldi alveg sama fluginu næstu misserin, en hver veit.

Þó “gervigreindarbransinn” geti varla talist nema þriggja ára gamall í þeirri mynd sem við þekkjum hann núna, tekur hann – sökum möguleikanna og hraðans – þroska sinn út mjög hratt. Strax árið 2026 verður líklega komið að þeim tímapunkti að markaðurinn fari refsa fjárfestingum í gervigreind ef tekjur ná ekki að fylgja eftir. Þannig verður minna þol fyrir fyrirtækjum sem selja miklar væntingar en ná ekki að sýna sterkan rekstrargrunn.  

Gervigreind styttir leiðina frá hugmynd að veruleika

Það sem gervigreindin er að gera á nær öllum sviðum er að stytta leiðina frá hugmynd að veruleika. Þetta á við hvort sem um er að ræða hugmynd að hugbúnaði, teikningu, hreyfimynd, texta, lyfjum, efnasamböndum, hönnunarvöru eða tónlist. Í stuttu máli hverju sem vinna má stafrænt.

Í sinni einföldustu mynd sjáum við þetta í notkun gervigreindarmynda í glærukynningum eða myndskreytingum á vefnum. Á fáeinum sekúndum getur hæfileikalaus teiknari – á borð við mig – töfrað fram mynd sem gerir efnið sem ég læt frá mér aðeins myndrænna og skemmtilegara. Ef ég er hugmyndaríkur getur myndin jafnvel verið svolítið sniðug og gert efnið betra. Stutt leið frá hugmynd að veruleika, en samt undir minni stjórn.

Þarna liggur held ég lykillinn að því hvernig réttast sé að hugsa um þessa tækni og þá byltingu sem hún er að valda. Styttri og ódýrari leið frá hugmynd að veruleika, en undir leiðsögn og stjórn hugmyndaríks fólks.

Ég spái því sem dæmi að kvikmyndagerðarmaður muni hljóta Óskarsverðlaun fyrir kvikmynd sem er að öllu leyti gerð með gervigreindartólum innan fárra ára.

Ég segi “kvikmyndagerðarmaður” vegna þess að handritið og sýnin verður frá manneskju. Þegar kostnaður, tengslanet og umfang kvikmyndagerðarinnar er ekki lengur hindrun leyfir tæknin hugmyndaflugi fleiri skapandi einstaklinga að njóta sín.

Að gamni fylgir hér veggspjald myndarinnar sem fyrst hlaut Óskarsverðlaun í flokki stuttra teiknimynda (1931), þar beitti Walt Disney nú aldeilis nýjustu tækni þess tíma:

Að sama skapi held ég að ótti rithöfunda, tónlistarmanna og annarra skapandi stétta við gervigreindarefni sé ekki á réttum forsendum. Það er engin gervigreind að fara að skrifa sögur sem byggja á djúpri heimildarvinnu eins og Sigríður Hagalín, prósa eins og Jón Kalmann eða ljúfsárar flæðandi sögur á borð við Ólaf Jóhann. Hins vegar munu bókmenntir á borð við Rauðu ástarseríurnar og einfalda krimma verða fjöldaframleiddar sem aldrei fyrr.

Á sama hátt er gervigreindin ekki að fara skáka Laufeyju eða Ásgeiri Trausta í þeirra sköpun, en það breytir ekki því að fjöldi fólks lætur gervigreindarsamda tónlist leika um eyru sín nú þegar – ekki í leit að bestu listinni, heldur einhverju “heiladauðu” til að láta rúlla í bakgrunni.

Þetta eru breytingar, en samkeppnin er ekki við bestu sköpunina heldur við meðalmennskuna annars vegar og stoðhlutverkin hins vegar. Það er stórkostlega valdeflandi ef hugmyndaríkur einstaklingur hvar sem er í heiminum getur gert sína hugmynd að stuttmynd að veruleika án aðkomu annarra, en hlutverk annarra en hugmyndasmiðanna er ansi stórt á öllum sviðum sköpunar.

Hugbúnaðargerð er annað dæmi – og þar sem mestu breytingarnar eru farnar að sjást nú þegar. Annars vegar þarf umtalsvert færri hendur til að láta reyna á nýjar hugmyndir eða til að útfæra flestan almennan hugbúnað, sem aftur á mót eykur eftirspurnina eftir hugbúnaði þegar það kostar minni vinnu og peninga að smíða hann.

Ein áhugaverð breyting sem ég á von á að sjá er að almennar lausnir – svo sem þær ótal skýjaþjónustur (SaaS) sem mörg fyrirtæki hafa keypt áskrift að síðustu 10-15 árin muni víkja ýmist fyrir enn almennari gervigreindarlausnum eða fyrir sérsmíðuðum lausnum sem smellpassa að þörfum fyrirtækisins. Þetta er ekki ósvipað ýmsum innri lausnum sem hvert fyrirtæki þurfti að koma sér upp á fyrstu árum tölvutækninnar. Nú er bara hægt að gera margfalt meira og betra með minni fyrirhöfn. Framleiðendur SaaS-hugbúnaðar eru sumir hverjir nú þegar farnir að finna fyrir þessu með fækkandi áskrifendum og fleiri valkostum væntanlegra viðskiptavina.

Heilt yfir þýðir þessi stytta leið frá hugmynd að veruleika að við munum láta reyna á margfalt fleiri hugmyndir á næstu misserum. Ekki bara á sviðum lista, hönnunar og hugbúnaðargerðar, heldur almennt á sviði vísinda, tækni, viðskipta og allrar nýsköpunar. Góðu hugmyndirnar verða hlutfallslega ekkert fleiri – sennilega verður hlutfall þeirra jafnvel lægra – en fleiri framfaraskref verða stigin einfaldlega vegna þess að við getum látið reyna á fleiri hluti, hraðar og með minni tilkostnaði.

Netöryggi, stafrænt fullveldi og gagnavernd

Öryggis- og varnarmál eru mun ofar á baugi um þessar mundir en verið hefur lengi og netöryggi leikur þar stóran þátt. Netógnir eru ekki bara vandamál fyrir tölvudeildir fyrirtækja heldur fyrir stjórnsýslu, innviði og rekstur samfélagsins í heild. Mögulegar árásir á heilbrigðiskerfi, fjarskiptainnviði, fjármálakerfi eða opinbera þjónustu eru veruleiki.

Óvissa í alþjóðamálum setur staðsetningu tölvukerfa, gagna og svokallað “stafrænt fullveldi” (digital sovereignty) rækilega á dagskrá. Þetta þýðir í stuttu máli að ríki, stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar þurfa að huga að því hvaða áhrif atburðir erlendis gætu haft á þeirra rekstur, öryggi og daglegt líf:

  • Þolir greiðslukerfi innanlands rof á fjarskiptum við umheiminn?
  • Getur fyrirtækið gefið út reikninga og skipulagt vaktir án þess að hafa samband við skýjalausnir erlendis?
  • Eru mikilvæg gögn – jafnvel viðkvæmar persónuupplýsingar – örugg ef umpólun verður í lagaumhverfi í hýsingarlandinu?
  • Eru til afrit þannig að hægt væri að koma kerfum upp á nýjum stað innan ásættanlegs tímaramma?

Sumar þessarra spurninga og annarra svipaðra eru verulega krefjandi og svörin – eins og stendur – ekki endilega mjög uppörvandi.

Gervigreindin mun efla báðar hliðar í þessari jöfnu. Árásaraðilar munu nýta gervigreind til að gera leit að veikleikum, gagnaþjófnað og árásarkeðjur sjálfvirkari, ódýrari og meira sannfærandi og fjöldinn eykst þegar þröskuldurinn lækkar. Varnaraðilar munu á sama tíma nota gervigreind til að greina frávik í rauntíma, gera árásarprófanir, spá fyrir um ógnir og bregðast sjálfvirkt við.

Bæði einkaaðilar og hið opinbera þurfa að gera meiri kröfur um hvar gögn eru geymd, hvaða lögsaga gildir og hvernig öryggi er vottað. Staðbundnar lausnir verða stundum lausnin – ekki vegna þess að alþjóðlegar skýjalausnir verði verri, heldur vegna þess að hluti gagna og ferla verður metinn of mikilvægur til að treysta alfarið á erlenda hýsingu og erlent réttarfar.

Í stuttu máli: árið 2026 verður árið þar sem við þurfum að fara að líta á stafræna innviði, styrk þeirra og öryggi með sama hætti og veitukerfin, orkuframleiðsluna og samgöngunar – þetta eru lífæðar samfélagsins og við þurfum að umgangast þær sem slíkar.

Tæknin er samofin sögunni

Tækni er ekki bara hluti af lífi okkar – hún er samofin manninum sem tegund. Þetta gleymist oft. Allt sem færir okkur mat, hlýju, skjól, ferðamáta, afþreyingu og hefur með öðrum hætti mótað daglegt líf okkar – frá einföldum steinverkfærum og ritmáli til snjallsíma og gervigreindar – var eitt sinn byltingarkennd tækninýjung.

Hvað svo sem árið 2026 ber í skauti sér verður tæknin í lykilhlutverki og þar munu gervigreind annars vegar og netöryggi hins vegar verða í fyrirrúmi.

Leave a comment