CCP og loðnan

Ég rakst á það á vef Egils Helgasonar að nokkrir bloggarar eru að bera til baka þá fullyrðingu Kjartans Pierre, sem ég hafði óbeint eftir í Silfri Egils um daginn að hlutfall CCP í útflutningi sé svipað og loðnu.

Fyrst af öllu vil ég taka fram að fátt er mér fjær en að gera lítið úr sjávarútveginum og samanburðurinn einmitt gerður til að gera mikið úr CCP frekar en lítið úr loðnuveiðunum. Samanburðurinn er gerður vegna þess að allir vita að loðnuveiðar eru okkur miklvægar, en fólk á erfiðara með að skynja verðmæti á borð við þau sem CCP skapar. Sú staðreynd að þessar tölur séu af sömu stærðargráðu er því merkileg.

Kári Sölmundarson er einn þeirra sem dregur þetta í efa og birtir tölur sem sýna þetta svona:

  • Loðna: 9,9 milljarðar
  • CCP: 2,4 milljarðar

Ég finn reyndar ekki alveg sömu tölur og Kári. Þegar ég legg saman loðnuflokkana í tölum Hagstofunnar um Afla og verðmæti eftir tegundum og veiðisvæðum 2003-2007, fæ ég töluna 5,3 milljarða fyrir árið 2007.

lodnuveidar-2007

Mér sýnist á öðrum tölum á vef Hagstofunnar að árið í ár líti alls ekki eins vel út hvað loðnuna varðar. Skv. þessu er aflaverðmæti loðnu janúar-ágúst á þessu ári 2,9 milljarðar samanborið við 5,3 fyrir sama tímabil í fyrra. Veiðitímabilið er frá janúar til mars, þannig að ólíklegt er að þessi tala eigi eftir að hækka.

Ég veit líka að tekjur CCP á árinu 2008 stefna í að verða um $50 milljónir. Meðalgengi dollarans það sem af er ári er 84 krónur og verður líklega nálægt 90 krónum yfir árið í heild. Samkvæmt þessum tölum lítur dæmið því svona út fyrir árið í ár:

  • Loðna: 2,9 milljarðar
  • CCP: 4,5 milljarðar

Þetta er auðvitað með fyrirvara um það að við Kári erum ekki að horfa á sömu tölurnar og virðist sem ekki sé allt aflaverðmæti loðnunnar inni í þeim tölum Hagstofu sem ég er að horfa á.

Ef horft er til virðisauka, þá er erlend fjárfesting á móti tekjum CCP svo að segja engin, meðan útgerðin þarf eðli málsins samkvæmt að kaupa ýmis aðföng, s.s. olíu og ýmsan vélabúnað erlendis frá fyrir hluta af þessum gjaldeyri.

Einnig væri áhugavert að skoða muninn á þeim virðisauka sem þessar greinar skapa m.t.t. fjárfestinga og gjaldeyristekna.

Þegar öllu er á botninn hvolft, þá skiptir auðvitað minnstu hvort loðna eða CCP skili meiru í þjóðarbúið. Á tölunum má vel sjá að hvort tveggja skiptir umtalsverðu máli. Við eigum að stuðla að því að hvort tveggja þrífist sem allra best, að hér verði til sem fjölbreyttast efnahagslíf og hljótum að geta unað hvert öðru því að vel gangi í hverju sem fólk kýs að taka sér fyrir hendur.

P.S. Ég sé að Kjartan hefur sett inn sambærilega bloggfærslu seinnipartinn í gær.

Uppfært 25. nóv, kl 13:37 m.t.t. til athugasemdar Magnúsar hér að neðan.

8 comments

  1. Vil gera athugasemd við það sem þú segir að ,,erlend fjárfesting CCP sé hverfandi”. Stór hluti af tekjum CCP kemur aldrei til Íslands.

    Þeir eru með starfsemi bæði í Shanghai í Kina og í Atlanta í Bandaríkjunum. Auk þess held ég að bæði netþjónabúið þeirra svo og þjónustuborðið sé í Bretlandi.

    Þar að auki er stórum hluta af tekjum CCP eytt erlendis, t.d. í markaðssetningu osfrv.

    Það mætti því alveg með sömu rökum og beint er gegn t.d. álbræðslum segja að virðisaukin sem eftir verður á Íslandi, sem hlutfall af tekjum fyrirtækisins, er hverfandi.

    Just my two cents….

  2. Tala Kára á blogginu hans er samanlagt útflutningsverðmæti allra loðnuafurða en þær upplýsingar getur maður nálgast hér. Ég er ekki of fróður um sjávarútveg en ég giska á að munurinn á aflaverðmæti og útflutningsverðmæti sé að það fyrra sé mat á verðmæti aflans sem kemur á land en síðari talan sé verðmæti fullunninar vöru sem seld er úr landi.

  3. Flott, þetta skýrir málið. Þarna koma þessir 9,9 milljarðar. Ef við reiknum með að hlutfall útflutningsverðmætis og aflaverðmætis sé svipað 2008 og það var 2007 (9,9 / 5,3 = 1,87), þá ætti útflutningsverðmæti loðnuafurða 2008 að vera einir 5,3 milljarðar.

    Ergo, umræddar tölur eru af mjög svipaðri stærðargráðu.

    Enn og aftur ekki aðalatriði að bera þetta saman, en ágætt að fá þetta á hreint.

  4. Sæll Hjálmar, ég sé að þú vitnar í bloggið mitt um útflutningsverðmæti loðnuafurða. Bjarki leiðréttir misskilning þinn á mínum tölum, fólk á nefnilega til að gleyma því að á Íslandi vinnur fjöldi fólks við að framleiða vörur og selja þær úr afla skipa okkar íslendinga. Fólk sem skapar verðmæti með hugviti enda þessi iðnaður orðinn ansi sjálfvirkur.

    En þú heldur áfram að nota rangar forsendur, á árinu 2008 höfðu margar fiskvinnslur fjárfest í betri tækjum og verð afurða og gengi þróaðist á jákvæðan hátt þegar leið á árið. Því er líklegt að afurðaverðið verði lítið lægra en á árinu 2007. Það sem hefur haldið lífi í sjáfarútvegi á íslandi er hin landlæga græjudella og að menn hætta aldrei að bæta sig.

    Það er skemmtileg tilviljun að CCP skuli hafa sínar skrifstofur í gömlu frystihúsi og vonandi veita þeir sjávarútvegnum harða samkeppni á næstu árum.

  5. Tek enn einu sinni fram að samanburðinum er ekki ætlað að rýra neina atvinnugrein. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því virði sem skapað er í sjávarútvegi og því hugviti sem að baki býr. Munurinn á afla- og útflutningsverðmætinu er skýr áminning um það.

    Það er líka frábært að enn sé verið að auka útflutningsverðmæti aflans með hugviti. Þar sem heildarloðnuaflinn 2008 er um 149 tonn á móti 308 tonnum árið 2007, er samt ljóst að sú aukning verður að hafa verið mjög veruleg til að verðmætið nái að standa í stað milli áranna. Gengisáhrifin voru aðeins að litlu leyti komin fram í upphafi ársins, þegar loðnuveiðarnar standa sem hæst.

    Bottom line: Verðmæti loðnuútflutnings 2008 verður meira en velta CCP. Munurinn er samt ekki þannig að þar muni stærðargráðum. (Kjartan sagði “Hlutur EVE í útflutningi Íslands hinsvegar er líklega sambærilegur við heildarútflutning loðnu”, ég notaði orðin “CCP er að skapa jafnmikinn gjaldeyri til Íslands og loðnuveiðar Íslendinga”)

    Hugbúnaðargerð og loðnuveiðar eru hvort tveggja mikilvægt. Hlúum að hvoru tveggja. Ég sé ekki að þetta sé einhverskonar samkeppni, heldur fara hagsmunir þessarra greina að miklu leyti saman.

    P.S. Sammála því að það er skemmtilegt að höfuðstöðvar CCP séu í gamla BÚR-húsinu. Það segir einhverja skemmtilega sögu.

  6. Eftir stendur í mínum huga upphæðin sem CCP veltir. Það þarf ekki að bera hana saman við loðnu til að maður átti sig á því að lífið er ekki bara saltfiskur 🙂

Leave a comment