Tvær skemmtilegar tæknisögur

Ég er svo heppinn að vera þessa dagana staddur á ráðstefnu sem nefnist Web 2.0 Expo í San Francisco. Fyrsti dagurinn var í gær og margt fróðlegt sem þar kom fram. Að öðrum ólöstuðum stóð þó fyrirlestur Clay Shirky, prófessors við NYU. Shirky er einskonar upplýsingatækni-félagsfræðingur, þ.e. hann veltir mikið fyrir sér þeim breytingum sem eru að verða á samfélaginu samhliða þróun upplýsingatækninnar.

Hér eru tvær stórskemmtilegar og merkilegar sögur sem hann sagði í erindi sínu í gær – hér lauslega endursagðar af mér á íslensku:

Shirky var í viðtali við sjónvarpsfréttamann sem var að velta fyrir sér samfélagsmiðlum á borð við Wikipediu. Shirky byrjar að segja henni sögu um færsluna um Plútó og hvernig Wikipedia-samfélagið tók á því þegar Plútó var lækkaður í tign úr reikistjörnu í loftstein á óvenjulegri braut um sólina. Þetta var nokkuð stórt mál og menn tókust á um breytingarnar, en komust þó að niðurstöðu.

Viðbrögð fréttamannsins sem Shirky hafði ætlað að heilla með þessari sögu voru svona “lúser-stara”, þögn og svo “Hvernig hefur fólkið tíma í svona lagað?”.

Við þetta snappaði Shirky víst og benti henni á að engum sem ynni við sjónvarp réttlættist að spyrja svona. Og svo fór hann að reikna: Heildartíminn sem hefur farið í að byggja upp Wikipediu – allar greinar á öllum tungumálum – er núna um 100 milljón vinnustundir. Þetta er vissulega há tala – enda stórkostlegt verk í flesta staði – en ef hún er sett í samhengi við sjónvarpsáhorf verður hún að nánast engu. Um síðustu helgi eyddu Bandaríkjamenn einir 100 milljón stundum í það eitt að horfa á auglýsingar í sjónvarpinu! Á ári horfa Bandaríkjamenn á sjónvarp í 200 milljarða klukkustunda og heimurinn allur um það bil 1000 milljarða stunda. Það eru 10.000 Wikipediur – á ári!

Tíminn sem fréttakonan var að spyrja um kemur til af minnkandi sjónvarpsáhorfi og Shirky bað menn um að ímynda sér hvað við gætum átt von á að sjá ef núverandi trend um minnkandi sjónvarpsáhorf heldur áfram að gefa af sér svipaða vinnu.

Hin sagan er miklu sætari, en bendir líka á áhugaverða breytingu.

Faðir og fjögurra ára dóttir eru að horfa á Disney-teiknimynd í sjónvarpinu. Nú kemur að einhverjum kafla í myndinni þar sem dótturinni fannst heldur lítið vera að gerast. Hún stendur upp og skríður á bakvið sjónvarpið.

Pabbinn á von á einhverju skemmtilegu eins og að hún sé að athuga hvort hún geti náð teiknmyndafígúrunum sem séu þarna einhvernvegin inni í eða á bakvið imbakassann, en í staðinn fer hún að róta í snúrunum.

Pabbinn spyr hana hvað hún sé að gera.

“Leita að músinni” var auðvitað svarið sem hann fékk.

Fjögurra ára krakkar vita nefnilega að skjár sem ekki er með mús eða ekki a.m.k. hægt að eiga í gagnvirkum samskiptum við með einhverjum hætti – er bilaður skjár. Þetta er kynslóðin sem við erum að ala upp og segir sennilega mikið um það hvernig upplýsinga- og afþreyingarneysla á eftir að breytast á næstu árum.

Datt í hug að deila þessu með ykkur 🙂

Leave a comment