Ég hef gaman af samsæriskenningum og þessa dagana er enginn skortur á þeim. Allt eftir því hvernig hugur manna hallast virðist til dæmis hægt að kenna Davíð Oddssyni, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Evrópusambandinu eða nú síðast Magma Enegry um nær allt sem aflaga fer á Íslandi.
Ýmislegt hefur jú dunið yfir okkur og margt af því er gríðarlega flókið og illskiljanlegt. Í tilraun til að skilja þetta allt er þess vegna þægilegt að grípa til þeirrar kenningar að einhvers staðar á bakvið tjöldin sitji fámenn klíka – eða jafnvel einn valdamikill maður – sem togar í strengi og stjórnar því sem okkur ber að höndum.
Ekki samsæri: Heldur miklu flóknara en svo
Samsæriskenningar eru afsprengi óskhyggju. Óskhyggjunnar um það að óskiljanlegir atburðir í kringum okkur eigi sér einfaldar skýringar. Þversögnin við hinar fjölmörgu samsæriskenningar um raunverulegan valdastrúktúr heimsins er sú að aðeins ein þeirra getur mögulega verið rétt.
Hinna raunverulegu skýringa er einmitt að leita í andstæðunni. Heimurinn er svona óendanlega flókinn og óskiljanlegur einmitt vegna þess að það er enginn einn sem öllu ræður, heldur togast á hagsmunir ótal ólíkra aðila með ólík markmið og mismikið áhrifavald.
“Hagsmunir” eru lykilorðið. Til að skilja hvað vakir fyrir hverjum og einum er nauðsynlegt að skilja hverjir hagsmunir hans eru.
Það þýðir því ekkert að leita að einhverju einu fyrirtæki, einni alþjóðastofnun eða einum manni til að kenna um allt sem aflaga fer, heldur verðum við að reyna að skilja hagsmunina sem ráða gerðum hvers og eins. Hvar þeir rekast á við – eða fara saman með – hagsmunum okkar sjálfra og annarra og reyna þannig að skilja og mynda okkur skoðun á þeim málum sem upp koma.
Höfum fyrir því að styðja mál okkar!
Það er ekki ásættanlegt þegar málsmetandi fólk hefur sig í frammi í umræðunni með kenningar um samsæri sem hvorki eru studdar gögnum né góðum rökum – jafnvel þegar það er gert í nafni góðs málstaðar. Það kann að vissulega að skapa “heppilegan” æsing um málið til skemmri tíma, en skemmir fyrir málstaðnum og málshefjanda þegar upp er staðið.
Lykilupplýsingar um fjölmörg “leyndarmál” og skandala eru oft auðveldlega aðgengilegar ef einhver nennir að bera sig eftir þeim. Hversu margir skyldu t.d. hafa lesið tilkynningarnar sem Magma hefur svo til daglega sent inn á Kanadíska hlutabréfamarkaðinn síðustu daga? Eftir örstutta eftirgrennslan sé ég ekki betur en þar séu ýmsir punktar sem ættu heima í umræðunni, en enginn hefur borið sig eftir – þó ekki skorti skoðanirnar.
Gott fólk: Færri órökstuddar samsæriskenningar og fleiri yfirvegaðar og vel rannsakaðar greiningar.