íslenska

Viðurkenning fyrir Afríkumyndir

Best of Uganda and Rwanda Magga er búin að sitja sveitt við undanfarið að setja saman Tabblo með myndunum okkar frá Úganda og Rúanda.

Þetta skiptist í tvennt:

Bestu myndirnar fóru í loftið í gær og viti menn: Tabblo valdi þær “Tabblo dagsins” (sjá forsíðu – innskráðir notendur)!

Þannig að við erum orðnir frægir ljósmyndarar og Magga frægur Tabblo-smiður…

Al Gore, öfgar og staðreyndir

Þetta átti upphaflega bara að vera svar við bloggfærslu Sveins vinar míns Tryggvasonar um málið, en það stóð hvort eð er til að gera úr þessum pælingum bloggfærslu… 🙂

Ég mætti. Fyrirlesturinn var þrælgóður, enda þaulæft “performance”. Það gáfust 20-30 mínútur í spurningar svo vandinn var ekki að Gore gæfi ekki færi á sér, spurningarnar sem hann fékk voru bara svo lélegar og algerlega lausar við krítík. Í stað þess að velja fólk af handahófi til spurninga hefði verið miklu betra fyrirkomulag að senda inn spurningar fyrirfram (eða á staðnum í SMS) og velja svo úr þær bestu. Þetta er svo verðmætur tími að það var synd að hann færi í mismunandi útgáfur af “þú ert frábær og ég er sammála þér” dulbúið í spurningaformi.

Ég hefði t.d. haft gaman af að sjá Gore svara spurningunni um það hvort Íslendingar eigi að axla ábyrgð í losunarmálum heimsins með því að taka til okkar álver og framleiða þar með “aðeins” 1.6 tonn af CO2 fyrir hvert tonn af áli á móti ca. 20 tonnum eins og raunin er í flestum öðrum álverum heimsins (þó að miðað við þessi hlutföll megi vissulega ennþá tala um “koltvísýringsverksmiðjur” með ál sem aukaafurð). Það hefði verið fróðlegt að sjá upplitið á salnum ef svarið hefði verið á þann veg sem ég býst við.

Heilt yfir eru samt nokkrar óumdeildar staðreyndir í þessum málum:

  • Magn CO2 í andrúmsloftinu er langt yfir því sem það hefur verið í nokkur hundruð árþúsund og það er að megninu til vegna brennslu mannsins á kolefnaeldsneyti
  • Hitinn á jörðinni hefur hækkað um 0,5°C á síðustu 100 árum
  • Í vísindasögunni er sjaldgæft að sjá jafnmikla samstöðu vísindasamfélagsins um nokkurn hlut eins og það að maðurinn eigi þátt í þessari hitaaukningu. Þetta er sami vísindaprósessinn og færði okkur nútíma læknavísindi, iðnbyltinguna og Pepsi Maxið þannig að við skulum fara varlega í að vantreysta honum. Það er hins vegar enn deilt um það hversu stór þessi hlutur er, hversu mikil hitaukningin muni verða og hvaða afleiðingar hún muni hafa.

Ég hef áður bent á að þetta er ekki stóra vandamálið sem þarf að leysa. Vandamálið sem þarf að leysa er fátæktin í heiminum, þannig að það verði ekki bara við – ríku þjóðirnar – sem geta tekist á við mögulegar afleiðingar af loftslagsbreytingum (af mannavöldum eða ekki) heldur líka hinar. Það er ekkert stórmál að takast á við fólksflutninga, jafnvel tugmilljóna manna, í breytingum sem verða á áratugum með þægilegum fyrirvara EF það er nægilegt fjármagn á viðkomandi svæðum til að takast á við þá.

Ég minni á að á síðustu 50 árum höfum við “tekið við” meira en 3 milljörðum nýrra jarðarbúa á sama tíma og meðallífsskilyrði hafa snarbatnað – og það var ekki einu sinni skipulagt.

Frítt bensín!

Smá pæling í umræðuna um bensínverð.

Af hverju tekur ekki eitthvert olíufélagið sig til og fer að selja bensín án álagningar? Þetta hljómar auðvitað fáránlega, en skoðum þetta aðeins í ljósi ókeypis hagfræðinnar.

Olíufélögin þreytast ekki á því að kvarta yfir því að þau eigi minnstan þátt í bensínverðinu og að hver króna sem þau leggi á lítrann margfaldist vegna virðisaukaskatts, bensíngjalds og annarrar skattlagningar. Sem sagt – fyrir hverja krónu sem olíufélag vill taka aukalega af lítranum þarf félagið að hækka útsöluverðið á lítranum sjálfum um kannski 2-3 krónur.

En af hverju ekki að lækka frekar verðið á lítranum þannig að hann komi út á sléttu? Með því mætti sennilega margfalda viðskiptavinafjöldann og svo gæti félagið einbeitt sér síðan að því að selja vörur og virðisaukandi þjónustu sem eru með margfalt betri álagningu. Staðreyndin er sú að krónurnar sem olíufélag fær útúr því að selja viðskiptavini eitt Prins Póló (sem er líklega selt með 40% álagningu á svona stöðvum) eru fleiri en þeir fá af heilum bensíntanki þó þær hækki lítrann um eina krónu (40 krónur af fullum tanki af hverjum þeir fá etv. 15-20).

Þetta er alþekkt módel – “loss leaders”. Mjólk er gjarnan seld í dagvöruverslunum án álagningar og jafnvel með neikvæðri framlegð, metsölubækur í Bónus fyrir jólin, flugmiðar hjá lággjaldaflugfélögum og svo framvegis. Framlegðinni er svo náð af vörunum sem hafa miklu hærri álgagningu, gosi, hangikjöti og bílaleigubílum svo dæmi séu tekin. Þetta er líka ástæðan fyrir því að það er varla til sú verslun lengur sem reynir ekki að troða upp á mann gosflösku og Mentos-tyggjói við afgreiðsluborðið. Kreista nokkrar ódýrar krónur útúr viðskiptavininum fyrst það er búið að lokka hann inn.

Kaldhæðnin við þetta er það að í rauninni eru það sjálfsafgreiðslustöðvarnar sem hafa ekkert nema álagninguna til að lifa af. Þjónustustöðvarnar hafa hins vegar ótal tækifæri til að ná peningum af viðskiptavinum sínum og hafa því tækifærið til að gera eitthvað að “skekjandi” (e. disruptive) í verðlagningu á þessum markaði.

Ofangreind viðskiptaráðgjöf til olíufélaganna er í boði hússins 😉

Aðgangur að opinberum gögnum

Uppfært: Viðtalið er hér á Vísi.is

Ég hélt á dögunum fyrirlestur á málþingi Tungutækniseturs og Íslenskrar málnefndar. Yfirskrift málþingsins var “Á íslenska sér framtíð innan upplýsingatækninnar?” og fjallaði að mestu um tungutækni annars vegar og hins vegar þýðingar á hugbúnaði.

Mitt erindi fjallaði um mikilvægi aðgengis að góðum gögnum, einkum gagnasöfnum í eigu opinberra aðila fyrir nýsköpun. Þetta tel ég reyndar að eigi ekki bara við í tungutækni, heldur á mörgum öðrum sviðum nýsköpunar og reyndi að færa rök fyrir því. Glærurnar eru aðgengilegar á Slideshare.

Blaðamaður Markaðarins heyrði af þessu erindi (sem annars var haldið í litlum hópi íslensku- og tungutækinörda) og birti í dag viðtal við mig um málið (síða 13).

Textinn viðtalsins fylgir líka hér:

„Þjóðhagslegur ávinningur af því að tryggja opið aðgengi að opinberum gögnum er margfaldur á við mögulegar leyfistekjur og kostnað,“ segir Hjálmar Gíslason, tæknistjóri hjá Já – Upplýsingaveitum.

Hjálmar flutti á dögunum erindi um nýsköpun og mikilvægi aðgengis að opinberum gagnasöfnum.

Hann bendir á að í höndum opinberra aðila sé gríðarlega mikið af gögnum sem megi nýta til ýmiss konar nýsköpunar. Þar megi telja gögn frá Stofnun Árna Magnússonar í Íslenskum fræðum (einkum Orðabók Háskólans), Ríkisútvarpinu, Hagstofunni, Landmælingum, Seðlabankanum, Veðurstofunni, Alþingi, Þjóðskjalasafninu og mörgum fleirum.

Aðgengi að þessum gögnum sé hins vegar oft á tíðum háð ýmis konar hindrunum. Þau séu ekki til á stafrænu formi, erfitt sé að nálgast gögnin og finna, leyfismál séu óljós, gjöld séu tekin fyrir þau eða stofnanir einfaldlega liggi á þeim, „eins og ormar á gulli“.

„Verst af öllu er þegar gjaldtaka er jafnvel aðeins til málamynda, þá er bara verið að hindra notkun gagnanna – og þar með nýsköpun – án þess að nokkur von sé til þess að hafist upp í kostnaðinn við söfnun þeirra.“

Hjálmar nefnir dæmi af Emblu, íslensku leitarvélinni, og leitarvélum já.is. Þar er til að mynda gert ráð fyrir mismunandi myndum orða, leitarvélin þekkir nöfn þjóðþekktra einstaklinga, bókartitla, íslensk örnefni og jafnvel gert ráð fyrir skammstöfunum. „Þetta hefði ekki verið mögulegt án góðra gagna,“ segir Hjálmar. Sum þessarra gagna hafi fengist að kostnaðarlausu, önnur með samvinnu við hlutaðeigandi um endurgerð eða aðra nýtingu þessarra gagnasafna. Sem opnast aðgengi skiptir mjög miklu máli þar sem verkefni af þessu tagi séu oftar en ekki unnin af litlum fyrirtækjum, einstaklingum eða nemendum „með lítil fjárráð en mikinn áhuga“. Í þessum tilfellum hafi hins vegar tekist að leysa úr læðingi mikil verðmæti í umræddum gagnasöfnum. „Þá verður að hafa í huga að þegar um opinber gögn er að ræða, þá hefur almenningur þegar greitt fyrir að láta búa þau til,“ segir Hjálmar.

Tölur frá Bretlandi sýni að þjóðahagslegt tap af takmörkuðum aðgangi að opinberum gagnasöfnum, nemi einum milljarði punda á ári í glötuðum þjóðartekjum. „Þetta samsvarar 700 milljónum króna hér á landi ef höfðatölureglunni er beitt. Mér liggur við að segja milljarði. Hluta af þessum fjármunum mætti verja í aukna gagnasöfnun og umfram allt í að bæta aðgengi að gögnum sem þegar eru til – og samt komið út í þjóðhagslegum plús,“ segir Hjálmar Gíslason.

Fordómar og frjáls viðskipti (lexía frá Afríku)

Landslag � RúandaEin af ástæðunum fyrir því að okkur þykir svo gaman að ferðast á óhefðbundnar slóðir er að það er alltaf eitthvað sem fær mann til að sjá lífið og tilveruna í aðeins öðru ljósi en áður. Ferðin okkar til Úganda og Rúanda núna í lok febrúar var síst undantekning.

Hugmyndir okkar flestra um svona framandi slóðir byggjast að miklu leyti á þeim myndum sem eru dregnar upp af þeim í fjölmiðlum. Sjaldan eru sagðar jákvæðar fréttir frá Afríku. Vissulega er nóg af hörmungum í þessari stóru heimsálfu, en eins og alltaf verðum við að muna að það sem við sjáum í fréttunum eru undantekningarnar frá því sem almennt gerist: það versta, það stórfenglegasta og það hrikalegasta.

Nærtækt dæmi lýsir þessu nokkuð vel. Þegar Suðurlandsskjálftarnir riðu yfir árið 2000 voru fréttamyndirnar ekki yfirlitsmyndir af Hvolsvelli eða Hellu að sýna að byggðin væri heil og í raun ákaflega lítill skaði. Þvert á móti er farið inn í þau fáu hús sem urðu fyrir alvarlegu tjóni og myndavélum er stillt upp þannig að skaðinn virðist sem mestur. Teknar voru myndir af hrikalegum sprungum í vegum og úti í móa á Skeiðunum. Af myndmálinu að dæma er tjónið gríðarlegt. Þegar búið er að vinna þetta niður í 45 sekúndna fréttainnslag í alþjóðapressunni á sá sem ekki þekkir þeim mun betur til aldrei möguleika á að átta sig á hinu rétta. Ég man að hér á landi var gert grín að einhverjum fjölmiðlum erlendis sem hefðu blásið málið upp – hvílík fáviska.

Raunin er auðvitað sú að það sama á við um þær fréttir sem við fáum af því sem er að gerast annarsstaðar í heiminum. Afríka er ekki “öll í steik” þó að við fáum oft fréttir af hræðilegum hlutum sem eiga sér stað einhversstaðar í álfunni. Löndin tvö sem við heimsóttum í þessari ferð – Úganda og Rúanda – hafa vissulega fengið ríflega sinn skammt af hörmungum heimsins síðustu 150 árin eða svo. Þekking flestra á hvoru landi fyrir sig takmarkast nær alfarið við tvö hugtök: “Idi Amin” og “þjóðarmorð”. Hvorugt er endilega eitthvað sem maður myndi nota í auglýsingaherferð – en staðreyndin er sú að í dag eru þetta tiltölulega friðsöm og örugg lönd sem hafa upp á ótrúlega hluti að bjóða fyrir gesti sína: ólýsanlega náttúrufegurð (myndirnar eru væntanlegar), fjölskrúðugt dýralíf, gott veður, framúrskarandi gististaði, góðan mat og lipra þjónustu. Þetta er auðvitað ekki algilt frekar en annarsstaðar í heiminum, en ég bendi bara á vefsíður staða sem við gistum á s.s. Mweya Lodge og Lake Mburo Mantana Camp sem dæmi um algerar perlur.

Í Úganda hefur ríkt tiltölulega stöðugt ástand síðan 1986; í Rúanda að mestu síðan 1997. Vissulega er þarna mikil fátækt. Algengasta gerð heimilis er lítill múrsteinakofi með dálítilli landspildu þar sem ræktað er til heimilisins og 3-5 geitur hafðar á beit. Í báðum löndunum er hins vegar mikil uppbygging í gangi og mjög fáir sem líða skort, enda eru þetta einhver frjósömustu svæði jarðarinnar. Vöxtur þjóðarframleiðslu í báðum löndunum hefur verið á bilinu 4-9% á ári síðasta áratuginn. Þarna eru víða miklar auðlindir í jörðu og gríðarleg tækifæri í aukinni ferðaþjónustu. Ekki spillir heldur fyrir að í Úganda (líkt og í Kenía og Tansaníu) er enska opinbert tungumál (franska í Rúanda). Þetta eru með öðrum orðum lönd mikilla tækifæra.

Nú er erfitt að halda því fram að maður hafi djúpa innsýn í þjóðlíf þessara landa eftir tveggja vikna túristaferð. Grunurinn sem að mér læddist var samt sá að það sem stendur í vegi fyrir því að þessar þjóðir virkilega blómstri sé tvennt:

  • trú fólksins á það að stöðugleikinn sé kominn til að vera
  • vilji og áhugi ríkari þjóðanna til að eiga í viðskiptum við þessi lönd

Fyrst um stöðugleikann: Fólk á þessum svæðum er búið að ganga í gegnum svo miklar hörmungar eftir nýlendutímann, illa skipulagt brotthvarf nýlenduherranna og loks valdtöku geðsjúklinga sem nýttu sér upplausnina í kjölfarið að það telur (með réttu eða röngu) að friðurinn sé bara tímabundinn. Það kemur alltaf stríð á endanum! Þetta veldur því að eðlilegt hagkerfi nær ekki að myndast. Þegar stríðið skellur á er til lítils að eiga peninga og hafa sérhæft sig sem smiður eða rafvirki. Þá er betra að eiga bara sitt hús, sína geit og sína landspildu og vera þannig sjálfum sér nógur um allar nauðsynjar.

Hvað viðskiptin varðar er boltinn hjá okkur – ríka fólkinu. Fordómar (í bókstaflegri merkingu þess orðs – við dæmum áður en við reynum að afla okkur meiri upplýsinga) loka augum okkar fyrir tækifærunum sem felast í viðskiptum við þessi ríki. Áðurnefnd hörmungamynd sem dregin er upp af svæðinu veldur þessu. Það þurfa fleiri að heimsækja þessi lönd (sem eru viðskipti eitt og sér), sjá hvernig þetta er í raun og veru og koma á tengslum. Með tengslum koma viðskipti og með viðskiptum erum við byrjuð að fæða virðiskeðjur sem teygja sig um allt hagkerfið: Gefðu einhverjum pening og hann getur stungið honum í vasann, kauptu eitthvað af honum og hann þarf sjálfur að kaupa eitthvað af öðrum til að búa til vöruna. Þessi lönd þurfa viðskipti – ekki ölmusu.

Með viðskiptunum kemur síðan öryggið, því að um leið og Vesturlönd eiga nægra hagsmuna að gæta, munu þau sannarlega gæta þessara sömu hagsmuna með kjafti og klóm. Snilldarlegasta bragðið sem notað var til að tryggja friðinn í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöldina var að auka frelsi í viðskiptum á milli Evrópulanda – þannig varð það hagur allra að halda friðinn þar sem það einfaldlega kostaði of mikið að fara í stríð við helstu viðskiptalöndin. Á sama hátt munu hagsmunir í Afríku tryggja það að erjur innan eða milli landa verða ekki liðnar á sama hátt og hingað til hefur verið.

Frelsi í viðskiptum og fræðsla á báða bóga er það sem þarf.

Raftað á – og í – Níl (vídeó)

Ferðin okkar til Úganda og Rúanda var í stuttu máli stórkostleg. Maður skilur heiminn alltaf örlítið betur eftir því sem maður sér fleiri hliðar hans. Meira um það í alvarlegari færslu næstu daga. Hér eru hins vegar smá sýnishorn frá föstudeginum var.

Við sigldum sem sagt niður efstu 36 kílómetra Nílar (nánar tiltekið Hvítu-Nílar) á föstudaginn var. Á myndinni hér til hliðar má sjá undirritaðan í vondum málum í flúðum sem kallaðar eru “Bad Place”. Þetta eru einar af fjórum “fimmtu gráðu” flúðum á leiðinni.

YouTube vídeóin hér að neðan sýna svo fleiri góð augnablik úr ferðinni. Fyrri senan er “highlights” vídeó af bátunum 6 sem fóru í ferðina þennan dag, en í seinni senunni er ég búinn að klippa saman skotin af okkar bát – “Team Iceland”.


Ferðasagan kemur svo í ítarlegu máli og myndum í næstu viku eða svo þegar við erum búin að vinna úr öllum myndunum.

Þessi biður að heilsa ykkur á meðan…

Að kryfja texta…

IBM hefur undanfarin tvö ár eða svo verið að þróa tölfræði-, gagna- og graf-græju sem nefnist ManyEyes.

Í síðustu viku var ég svo heppinn að fá að sjá fyrirlestur frá höfuðpaurnum á bakvið þessa þjónustu. Þar var hann að sýna tiltölulega nýlega viðbót sem eru tól til að grafa í hreinan texta (frekar en töflugögn sem ManyEyes gengur að mestu út á).

Ég var alveg heillaður af þessari græju og ákvað að skjóta þarna inn séríslenskum gögnum til að prófa græjuna.

Hér er fyrsta tilraunin: Texti Egils Sögu greindur í orðatré.

Til að koma ykkur af stað:

  • Stærðin á orðunum sem koma á eftir upphafsorðinu (Egill) er hversu oft það kemur fyrir næst á eftir orðinu Egill í texta Eglu
  • Smellið á eitt af orðunum í tréinu og grafið ykkur þannig niður í textann

Athugið að það er hægt að byrja á hvaða orði sem er, þó orðið “Egill” sé notað sem útgangspunktur þarna. Prófiði t.d. að þurrka “egill” út úr innsláttarreitnum og skrifa eitthvað annað orð úr Eglu í staðinn. Ég ímynda mér að þetta geti verið ómetanlegt rannsóknartól fyrir málfræðinga og reyndar ýmsa aðra til að greina algeng mynstur t.d. í lögfræðitexta eða fjármálaskjölum.

Ég skil það svo eftir sem æfingu fyrir lesendur að setja inn aðra texta. Til þess þurfið þið að skrá ykkur sem notendur að ManyEyes og svo rekið þið ykkur í gegnum “Upload data set” og “Create Visualization”. Að flestu leiti leiti er þetta ágætlega notendavænt, þó það taki vissulega mið af nörda-notendahópnum, en ykkur ætti nú ekki að vera það fjötur um fót.

Þarna eru svo líka nokkur önnur svipuð textarannsóknartól sem eru líka býsna merkileg.

Skemmtið ykkur!

Tæknispá 2008

Fyrir tveimur árum, þegar ég var með vikulega pistla á NFS um tölvur og tækni skrifaði ég Tæknispá fyrir árið 2006 – um átta hluti sem myndu gerast það ár. Árangurinn verður hver að meta fyrir sig, en hér er a.m.k. samskonar spá fyrir komandi ár.

7 hlutir sem munu gerast 2008:

  • Hægir á ráðningum í tölvugeiranum: Bankarnir hafa sogað til sín mikið af tölvutalent undanfarin 3-4 ár. Önnur fyrirtæki hafa átt fullt í fangi við að ná í og halda fólki. Fæstir hafa getað yfirboðið þau launakjör sem bankarnir hafa boðið, helst að aðrir hafi kannski getað boðið áhugaverðari verkefni og náð til sín fólki þannig.
    Með “kólnandi hagkerfi” er þetta að breytast hratt og sumar af tölvudeildum bankanna hafa þegar ákveðið að standa ekki í frekari nýráðningum að sinni. Reyndar hlýtur í sjálfu sér talsvert starf að vera óunnið ennþá í að byggja upp skilvirkar einingar úr þessum mikla fjölda nýrra starfsmanna þannig að kannski kemur þetta sér bara vel fyrir þá. Ég ætla ekki að ganga svo langt að spá því að bankarnir muni fara í uppsagnir í tölvudeildunum, en gæti þó trúað því að eitthvað af verktökum og lausafólki í verkefnum – sem þeir hafa nýtt sér umtalsvert – muni verða fækkað. Til þess er jú leikurinn að hluta til gerður að verktökum er hægt að fækka mun hraðar og einfaldar en venjulegu launafólki. Eins er líklegt að bankarnir muni prófa sig í frekara mæli áfram með úthýsingu verkefna – einkum til Austur-Evrópu.

  • Ár “Netsins í símanum”: Gagnaumferð og notkun á netinu í farsíma mun springa út hér á landi á komandi ári. Tilkoma þriðju kynslóðarneta hjá öllum símafyrirtækjunum, aukið efnis- og þjónustuframboð og eðlilegri gjaldheimta fyrir þessa notkun mun ýta undir þetta. Flöt mánaðargjöld fyrir ótakmarkaða gagnanotkun verða í boði fyrir lok ársins, en einstakir þjónustuþættir (t.d. aðgangur að tónlistarsöfnum, íþróttum eða öðru sérefni) verða gjaldfærðir á einfaldan og sýnilegan hátt.
    Öflugari handtæki munu enn auka á þessa notkun og iPhone mun sem dæmi ná verulegri útbreiðslu hvort sem hann verður formlega seldur hér á landi á árinu eða ekki. Ég spái því reyndar að ólæstir 3G iPhone símar verði fáanlegir í verslunum hér í haust. Aðrir framleiðendur munu líka koma með mjög frambærileg tæki á árinu.

  • Nova og farsímamarkaðurinn: Nýja farsímafyrirtækið Nova mun skipta um markaðsnálgun snemma á árinu og slagorðið “Stærsti skemmtistaður í heimi” verður lagt niður. Fyrirtækið mun þó halda áherslunni á afþreyingu og gagnalausnir (sbr. liðinn hér að ofan). Eftir því sem líður á árið (og reikisamningum þeirra fjölgar) mun Nova einbeita sér meira að fyrirtækjamarkaði og ná allt í allt á bilinu 3-5% markaðshlutdeild á árinu. Þreifingar munu verða uppi um samruna Nova og Vodafone, en ólíklegt að það gangi í gegn á árinu 2008.
  • Bankaútrás á Netinu: Tiltölulega óþekktur armur íslensku bankaútrásarinnar er alþjóðleg starfsemi þeirra á Netinu. Kaupþing rekur sem dæmi nokkuð vinsælan innlánabanka á netinu í Svíþjóð og Finnlandi undir nafninu Kaupthing Edge og Landsbankinn rekur sambærilega þjónustu í Bretlandi undir heitinu Icesave. Búast má við að þessi starfsemi verði útvíkkuð til fleiri landa og heilt á litið eiga íslensku bankarnir mjög mikil sóknarfæri í því að nýta sér þá reynslu og tækni sem þeir hafa aflað sér við þróun íslensku netbankanna í alþjóðlegu samhengi, enda finnst óvíða jafngóð netbankaþjónusta.
  • Vélabú mun rísa:Lagning a.m.k. tveggja nýrra sæstrengja til landsins, annars vegar DanIce strengsins og hins vegar Greenland Connect strengsins sem liggja mun frá Íslandi til Grænlands og þaðan áfram til Nova Scotia (mögulega með séríslenskri hjáleið til að sleppa við krókinn upp til Nuuk sem er á annað þúsund kílómetrar). Þannig verður Ísland á næstu 2 árum orðið vel tengt til bæði Ameríku og Evrópu. Það er jafnvel ekki útséð um lagningu Hibernia á streng til Skotlands Írlands. Að því sögðu er ljóst að á árinu verður hafið að reisa að minnsta kosti eitt stórt vélabú hér á landi á árinu og mögulega tekið í notkun þegar árið 2009.
    Áhugi á ferkari uppbyggingu vélabúa hér mun vaxa ef eitthvað er. Leggst þar á eitt skortur á grænni og hagkvæmri orku og sú þróun að hugbúnaður keyrir í síauknum mæli á Netinu, jafnvel í sveigjanlegu keyrsluumhverfi eins og gagnagrunns-, reikni- og geymsluþjónustum Amazon og Force.com. Möguleikinn á, og hagkvæmnin við slíkar lausnir fæst einmitt af því að þau eru rekin í gríðarstórum vélabúum sem þjóna meira eða minna öllum heiminum frá einum stað.

  • Decodeme og 23andme: Decode mun fara í samstarf með fyrirtækinu 23andme á sviði persónulegra erfðaprófa. Eftirspurn er þegar eftir slíkum prófum og hún mun fara vaxandi. 23andme er stofnað af Anne Wojcicki, eiginkonu Sergey Brin sem er annar af stofnendum Google, og fær sitt fjármagn að mestu þaðan. Athyglin sem það hefur vakið hefur gefið 23andme verulegt forskot á Decodeme í þessari glænýju grein (sjá gróflega bloggathygli og umferðartölur). Decode er aftur á móti í frumrannsóknum og hefur að líkindum mun sterkari vísindalegan bakgrunn en 23andme. Með peninga og markaðsafl Google á bakvið 23andme og vísindalega getu og þekkingu Decode er þetta gríðarlegt tækifæri fyrir báða aðila.
  • CCP ungar út: Nú þegar leikjaframleiðandinn CCP er orðið stórt og öflugt fyrirtæki eftir aðdáunarverða þrautseigju í hartnær áratug er ljóst að fleiri horfa til leikjamarkaðarins. Þetta er markaður í örum vexti, íslenskir fjárfestar hafa orðið skilning á tækifærunum sem í honum felast og góð þekking er orðin til í þessum hópi á þeirri tækni, nálgun og aðferðafræði sem gerir góðan fjölspilunarleik. Fyrirtæki með svipaðar hugmyndir munu spretta upp og byggja á þessari reynslu og aðstæðum – og ekkert nema gott um það að segja. Við megum búast við að sjá allar stærðir og gerðir af slíkum pælingum – allt frá veflægum “kaffipásu”-útgáfum sem notast etv. við Flash yfir í stóra og flókna þrívíddarleiki sem ganga lengra en EVE Online í stærð, umfangi og flækjustigi.

Er ég að gleyma einhverju? 😉