íslenska

Þriðjudagstæknin: Símakurteisi

Efni þriðjudagstækninnar í dag er farsíminn og hvernig á því stendur að þegar síminn hringir þarf allt annað að víkja.

Hérna einu sinni voru símtöl fágæt. Það að fá símtal, var jafnvel merkilegara en að fá símskeyti eða sendibréf. Þetta var viðburður og var tekið alvarlega – þeim mun alvarlegar sem símtalið kom lengra að. Í þeim tilfellum átti fólk yfirleitt von á símtalinu og beið í ofvæni eftir því.

Þetta er auðvitað algerlega liðin tíð, en einhverra hluta vegna berum við enn ómælda virðingu fyrir símtalinu. Hver kannast ekki við það að vera í miðjum samræðum við einhvern augliti til auglitis – jafnvel á formlegum fundi – þegar síminn hjá einum fundarmanna hringir og hann eða hún svarar óhikað í símann?

Fólkið á fundinum er búið að taka frá tíma af deginum til að setjast niður með þér og ræða einhver mál – að svara óundirbúnu erindi annarsstaðar frá, er óvirðing við þá og þeirra tíma. Jafnvel þó þú sért bara í óformlegu spjalli við vinnufélaga þegar síminn hringir, þá fer það betur með þinn tíma og hans að ljúka erindinu – þagga niður í símakvikindinu og afgreiða það síðar.

Óundirbúin símtöl eru satt best að segja afar óhentugur samskiptamáti. Líkurnar á því að sá sem þú ert að hringja í, sé ekkert að gera og að þitt erindi sé akkúrat það sem hann vill helst afgreiða á þeim tímapunkti eru hverfandi.

Ekki misskilja mig, ég nota símann mikið. Eins og ég hef áður imprað á eiga sum erindi mun betur heima í símtali en t.d. í textasamskiptum – og eins er fólk bara misduglegt að nýta sér aðrar leiðir. Þetta spilar maður dálítið eftir eyranu.

Langoftast tek ég samt það sem ég kalla “hentisamskipti” fram yfir símtöl – allavegana í vinnunni. Með hentisamskiptum á ég við það að ég ber upp erindið þegar mér hentar og viðmælandinn svarar þegar honum hentar. Tölvupóstur og skilaboðaforrit á borð við MSN eru (a.m.k. þegar fólk hefur vanist þeim) góð dæmi um hentisamskipti. Ef fólk kemur sér upp þokkalegu vinnulagi með það hvernig það afgreiðir tölvupósta og önnur slík erindi, eru þessi samskipti miklu skilvirkari en símtölin og nýta tíma beggja aðila betur.

Það er líka alveg sjálfsagt að umgangast símann á sama hátt. Þú þarft ekkert að svara þó að síminn hringi – í alvöru – það eru engin lög sem kveða á um refsingu fyrir ósvöruð símtöl! Ef þú ert í miðjum samræðum við einhvern, eða jafnvel bara niðursokkinn í það sem þú ert að gera, þá má vel þagga niður í símanum, afgreiða erindið og hringja svo til baka seinna. Til þess er “atburðalistinn” í símanum.

Ef þú ert á mikilvægum fundi og átt ekki von á enn mikilvægara símtali, þá er sjálfsagt að taka hljóðið af símanum og afgreiða símtölin að fundinum loknum. Ef þú átt von á mikilvægu símtali, þá er kurteisi að láta fundarmenn einfaldlega vita af því. Það skilja það allir og hafa flestir verið í sömu aðstöðu.

Ef þú samviskusamlega hringir til baka og afgreiðir erindið, þá venst fólk því líka að svona notir þú símann, virðir það við þig og hringir ekki aftur, heldur bíður þar til þú hefur tök á að hringja til baka. Það er hins vegar að sama skapi dónalegt að hringja ekki til baka – rétt eins og það er dónalegt að svara ekki tölvupósti þar sem búist er við svari.

Síminn þarf ekki að hafa forgang á allt. Það eru jú ekki nema kannski 6-8 ár síðan fólk fór að venjast því að hafa símann alltaf við höndina, og það hafa hreinlega ekki enn skapast almennilegar hefðir í kringum það hvernig “eigi” að umgangast símana. Ég er þess fullviss að þróunin verður í þessa átt, einfaldlega vegna þess að á þennan hátt nýtir fólk sinn tíma betur og fækkar stressfaktorunum um einn – ekki veitir af.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Þriðjudagstæknin: Gamlar skruddur

Efni Þriðjudagstækninnar í dag eru gamlar tölvubækur og skemmtilegar tilvitnanir úr þeim

Nokkur undanfarin ár hef ég verið að sanka að mér gömlum íslenskum tölvubókum. Þetta átti nú ekki að verða alvarleg söfnun en hefur þó ágerst.

Það var merkilega mikið skrifað um tölvur strax fyrir 20-30 árum síðan og margir sem virðast hafa ráðist í að skrifa frekar eigin bækur en að þýða erlend rit. Eins er athyglisvert hversu snemma hefur verið ráðist í að finna og koma í umferð íslenskum orðum yfir allskyns tölvutengda hluti. Þeir sem segja að við tölum ekki um tölvur á íslensku hafa einfaldlega ekki rétt fyrir sér.

Við tölum um tölvur, skjái, lyklaborð og mýs; vistum og opnum skrár á harða diskinum, vöfrum um Netið, lesum tölvupóst, færum okkur í nyt ritvinnsluforrit og töflureikna, leikum okkur í tölvuleikjum og kippum okkur ekkert upp við það. Í samanburði við t.d. hin Norðurlandamálin er þetta alger hátíð.

Auðvitað ganga orðin misvel í fólk og ná ekki öll góðri útbreiðslu. Þannig tala flestir um að skrolla, pana og súmma í stað þess að skruna, skotra og þysja. Víðómurinn hefur ekki náð að ryðja steríóinu úr vegi og sniðmátið hefur mátt sín lítils gegn templeitinu.

Þessum samt sem áður góða árangri er held ég – a.m.k. óbeint – ekki síst að þakka framtaki Orðanefndar Skýrslutæknifélagsins sem strax árið 1983 gaf út fyrstu útgáfu Tölvuorðasafns – rit sem hefur verið endurnýjað reglulega síðan, nú síðast í fyrra. Á þeim tíma sem þessi bók kemur út hafa þeir sem unnu við og léku sér með tölvur ekki talið mörg þúsund og merkilegt að ráðast í þessa vinnu.

Það er athyglisvert að að samantekt orðasafnsins komu margir sem seinna áttu eftir að láta mikið að sér kveða í upplýsingatækni hér heima, þar á meðal þeir Jóhann Malmquist og Snorri Agnarsson sem stofnuðu Softis (sem í dag heitir OpenHand), Ólafur Daðason, stofnandi Hugvits / GoPro og auðvitað Oddur Benediktsson guðfaðir tölvubyltingarinnar á Íslandi.

Gömlu tölvubækurnar sýna annars glöggt stöðu tölvutækninnar á þessum tíma og þær breytingar sem hún hefur haft í för með sér. Á hverjum einasta degi notum við t.d. ritvinnsluforrit sem jafna texta, skipta milli síða og leyfa okkur að breyta textanum að vild fram og til baka. Hér er stutt lýsing á vinnu “setjara” sem var stór stétt manna í prentsmiðjum fyrir tíð umbrotsforrita:

Þegar til setningar kemur, þarf setjarinn að taka tillit til markvíslegra þátta vegna uppsetningar efnisins. Oftast er textinn í föstum dálkum og verður setjarinn að gæta þess að orðin fylli sérhverja línu þannig að það bil sem ófyllt er í lok línunnar og er of lítið fyrir næsta orð sé jafnað út með því að breikka bilið milli orðanna. Þetta nefnist útjöfnun. Ef línan verður of löng í fyrstu lotu verður setjarinn að flytja síðasta orðið yfir í næstu línu eða að skipta því milli lína. Þó er ekki mögulegt að skipta öllum orðum milli lína, t.d. ekki orðinu “steinn”. Við útjöfnunina verður setjarinn jafnframt að gæta þess að bil milli orða í mörgum samliggjandi línum tengist ekki saman í hvítan taum sem liggur niður eftir dálkinum.

Þurfi að breyta texta, eftir að hann hefur verið settur, jafnvel þótt ekki þurfi nema að skjóta inn einu orði eða fella niður, þarf oft að setja alla málsgreinina að nýju.

Þessi tilvitnun er úr bókinni Tölvur að starfi sem var skrifuð 1969, en Almenna Bókafélagið gaf út 1979 – ekki víst að útgáfa 10 ára gamalla tölvubóka þætti fínt í dag. Í framhaldinu er svo jöfnun og annarri setningu texta fyrir prent lýst, eins og hún fer fram með hinni byltingakenndu umbrotstækni og klikkir þýðandinn út með:

Sú aðferð við rafeindastýrða setningu texta sem hér hefur verið lýst er farin að ryðja sér nokkuð til rúms hérlendis og var til dæmis notuð við setningu þessarar bókar.

Um tölvur og flugbókanir segir:

Fyrir þann sem afgreiðir slíkar pantanir sparar þetta mikinn tíma því nú þarf ekki að fletta upp í flóknum töflum til að finna hvenær flogið er milli einhverra borga, því tölvan getur á svipstund veitt slíkar upplýsingar, og nú er unnt að ganga frá hverri umsókn strax án þess að senda þurfi skeyti eða skrifa bréf og bíða síðan svars.

…og ekki að spyrja að hraðanum í gagnasendingum:

Með boðum eftir venjulegri símalínu má fá texta sem fyllir heila blaðsíðu á aðeins 10 sekúndum.

Í lok bókarinnar má svo finna þessa vægast sagt framsýnu klausu sem segja má að hafi gengið fullkomlega eftir:

Enn er þó ekkert lát á framförum í rafeindatækni og tölvusmíði. Á sama hátt og vasatölvur eru nú algengar á heimilum, má gera ráð fyrir að útstöðvar, með umtalsverðri eigin reiknigetu, verði algengar á heimilum eftir 1-2 áratugi og að unnt verði að nota þessar útstöðvar til að komast í samband við öflugar tölvur í gegnum símalínu, við fréttamiðstöðvar, við upplýsingabanka (þar verði t.d. hægt að fá upplýsingar úr alfræðibók eða fletta upp í venjulegri orðabók), senda greiðslur af bankareikningi inn á gírónúmer og svo mætti lengi telja.

Í allnokkrum bókum ber á ótta manna við tölvutæknina, annað hvort að tölvurnar taki yfir, eða að fólk missi vinnuna unnvörpum vegna þeirra. Höfundur “Tölvur að störfum” slær á óttann með þessum orðum:

Sumir óttast áhrif tölvanna, telja að þær geti farið að stjórna manninum. En það er ávallt maðurinn sem hefur stjórnina. Ekki þarf nema að þrýsta á hnapp til að slökkva á tölvunni.

Annað er hins vegar uppi á teningnum í bókinni Tölva og vinna sem Menningar- og fræðslusamband alþýðu gaf út 1983. Bókin er nánast áskorun til yfirvalda að fara sér hægt í tölvuvæðingu þar sem hún muni valda svo miklu atvinnuleysi. Ásmundur Stefánsson skrifar t.d. í formála:

Víða einangrast fólk við tækjaborð, verkefnin verða skýrar og ófrávíkjanlegar afmörkuð og verkfyrirkomulagið ákveðið að ofan án þess að starfsmaðurinn komi sínum sjónarmiðum og reynslu að. Presónuleg samskipti á vinnustaðnum verða oft minni. Tækniþróunin getur valdið því að maðurinn verði viðhengi véla í flóknu framleiðslukerfi og þá framleiðslukerfi sem er stýrt úr stjórnstöð forstjóravaldsins í hinu smæsta. Hjá slíkri þróun þurfum við að komast. Og við verðum einnig að sjá til þess að ekki komi til atvinnuleysis.

– – –

Í samningunum 1982 gerði ASÍ sérstakt samkomulag við Vinnumálasamband samvinnufélaganna þar sem m.a. stjórnendum fyrirtækjanna, sem hyggjast taka upp tölvutækni er skylt að gera starfsfólki grein fyrir ástæðum og afleiðingum.

…og kannski var þetta ekki alrangt:

Það skiptir okkur öllu að sjá fyrir í tíma hvert tækniþróun stefnir og á hvaða sviðum er líklegast að ný tækni muni valda straumhvörfum á næstu árum. Ef vélmenni leysa mannshöndina af hólmi í fiskvinnslu á næstu árum, gæti orðið alvarlegt ástand í stórum landshlutum.

Í lokaorðum bókarinnar kveður aðeins við jákvæðan tón:

Umföllunin um vinnutilhögun hér að framan hefur vonandi nægt til að gera grein fyrir því, að mögulegt er að nota örtölvutæknina til góðs. Ef vel tekst til – það er m.a. undir launafólki og samtökum þess komið – má búast við bjartri framtíð; framtíð án andlegra og líkamlega slítandi vinnu. Kjósi menn einnig að skipuleggja örtölvutæknina með þeim hætti að sem flestir fái hlutdeild í henni, er líklegt að mannkyninu auðnist að fullnægja þörfum sínum betur en nú, og geti þannig dregið úr hugri, sjúkdómum og atvinnuleysi.

…en þó klikkt út með þessum orðum:

Fái atvinnurekendur hins vegar einir að ráða ferðinni og verði tölvuvæðingin eingöngu notuð til þess að þjóna atvinnurekendum munu afleiðingarnar verða m.a. stórfellt atvinnuleysi í nær öllum stéttum, störf verða í auknum mæli einhæf og niðurdrepandi og atvinnuöryggi verður enn minna en það er í dag.

Svo mörg voru þau orð!

– – –

Auðvitað er auðvelt að sitja hérna, tuttugu og eitthvað árum seinna og hlæja að þessum skrifum og líklega segja þau meira um tíðarandann í stóru samhengi hlutanna en viðhorfið til tölvutækninnar einnar og sér. Þetta er samt voða skemmtilegt 🙂

Ég á talsvert meira af góðum gullkornum úr þessum bókum og kem kannski með eitthvað af þeim síðar. Ef þið eigið óborganlegar tilvitnanir úr gömlum tölvuskrifum, endilega sendið mér þau í tölvupósti á hjalli@hjalli.com eða í komment hér að neðan.

…og ekki henda gömlum tölvubókum – ég er meira en til í að taka við þeim 😉


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Þriðjudagstæknin: Ekki þennan tón…

Efni Þriðjudagstækninnar í dag eru samskipti á textaformi og hvernig okkur hættir við að lesa rangt í “tón” samskiptanna.

Nú orðið fer umtalsverður hluti samskipta margra okkar fram á textaformi, annað hvort í tölvupósti eða í skilaboðaforritum á borð við MSN Messenger. Í þess háttar samskiptum vantar allskyns vísbendingar sem við höfum í töluðu máli eða þegar við erum augliti til auglitis við fólk. Handahreyfingar, líkamsstaða og tónninn í röddinni segja býsna mikið um það hvernig túlka beri það sem sagt er.

Einhverntíman heyrði ég sagt að 50% af merkingu þess sem sagt er fælist í orðunum, 30% í raddblænum og 20% í líkamstjáningunni, án þess að það fylgdi sögunni endilega hvernig þetta hefði verið mælt.

Þetta undirstrikar í öllu falli þá staðreynd að orðin segja bara hálfa söguna. Það getur þess vegna verið mjög varasamt að lesa einhvern tón í textasamskipti. Sjálfur hef ég oftar en einu sinni lent í svona “oftúlkun” á MSN. Hér eru tvö dæmi eftir minni:

Viðmælandi: [einhver fyndinn brandari sem ég man ekki]
Ég: haha
Viðmælandi: Voðalega ertu eitthvað daufur – er ekki allt í lagi?

Viðmælandi 2: Fyrirgefðu, ég er búinn að vera mjög upptekinn og hef ekki getað sinnt þessu
Ég: Ég hef tekið eftir því
Viðmælandi 2: Hvað áttu við með því? Heldurðu að ég sé ekki að vinna vinnuna mína?

Í bæði skiptin tók dágóðan tíma að settla málið. Nei, ég var ekki daufur í dálkinn og nei, ég var ekki að ásaka neinn um að vinna ekki vinnuna sína. Í seinna tilfellinu varð meira að segja fljótt ljóst að MSN myndi ekki duga til og ég hringdi í viðkomandi til að settla málið og útskýra að þetta væri alger misskilningur.

Á MSN koma líka inn tveir faktorar í viðbót sem tölvupósturinn þarf ekki að glíma við. Viðmælendur geta farið að lesa í þagnir (sem geta stafað af öllu frá klósettferðum til viðskiptafunda) og þar sem forritið sýnir hvort notandi á hinum endanum er að slá inn texta eða ekki, vekur það spurningar um öll hik, svo ekki sé talað um ef viðmælandinn sló eitthvað inn en sendi svo aldrei neitt.

Broskallarnir og öll hin “emoticonin” (getum við kallað þetta “skaptákn”?) í MSN eru ekki bara upp á punt, þau hjálpa til við að koma einhverskonar skapi eða tón á framfæri og gera það iðulega 😉

Þegar við skrifum texta, þá “heyrum” við það sem við skrifum. Tónninn fer því ekki á milli mála í okkar huga. Þegar viðmælandinn les textann kemur hann að málinu með allt öðrum huga og getur túlkað hann algerlega útfrá eigin hugarástandi. Ef viðkomandi hefur farið öfugu megin fram úr rúminu geta jafnvel einföldustu setningar orðið gildishlaðnar og fullar af duldri merkingu eins og hann eða hún “heyrir” það við lesturinn.

Nýlega birtist grein um rannsókn á þessháttar túlkun tölvupóstsamskipta í hinnu bandaríska Journal of Personality and Social Psychology*. Í ljós kom að lesendur mistúlkuðu tón tölvuskeyta í 50% tilfella, meðan þeir sem skrifuðu póstinn töldu yfirleitt ómögulegt að mistúlka þennan tón. Það sem meira er fólk taldi sig hafa túlkað tóninn rétt í 90% tilfella. Þarna er 40% bil sem er fullt af misskilningi og getur hæglega leitt til allskyns leiðinda.

Lausnin er auðvitað ekki að hætta að nota textasamskipti. Til þess eru þau of skilvirk og þægileg. En það er gott að vita af þessu og bæði skrifa og lesa tölvupóst og annan texta með þetta í huga. Skrifa skýrt, lesa ekki of mikið á milli línanna og taka strax á því ef grunur er um einhvern misskilning. Þá er síminn eða samtal augliti til auglitis yfirleitt betra. Misskilningur á misskilning ofan getur hæglega gert illt verra.

– – –

* Greinina er hægt að kaupa. Hún heitir “Egocentrism over e-mail: Can we communicate as well as we think?” og er númer 7 á þessari síðu.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Tölvuheimur og Ísland í dag

Tölvuheimur hætti að koma út á pappírsformi um áramótin. Ég er búinn að skrifa í blaðið meira og minna í næstum 10 ár og held mig þrátt fyrir allt við sama heygarðshornið, en vefútgáfa blaðsins var að líta dagsins ljós núna fyrir helgi og verður að mér skilst uppfærð daglega.

Fyrsti pistillinn minn birtist þar í morgun. Hann fjallar um það hvernig gögnin sem við notum eru í sífellt meiri óreiðu, en þrátt fyrir það hefur aldrei verið einfaldara að finna þau. Pistlarnir mínir verða þarna annan hvern mánudag.

Ég var svo líka í Íslandi í dag áðan – ásamt Stefáni Hrafni félaga mínum – að fjalla um skynsamlega notkun unglinga á Netinu (á mínútu 32:30 ca.) og hvernig foreldrar geta fylgst með því sem þau eru að gera – auðvitað með þeirra samþykki. Tilefnið var áhrifamikil umfjöllun í fréttaskýringaþættinum Kompási á NFS í gærkvöldi, en þar lögðu Kompásmenn gildrur fyrir nokkra barnaníðinga á Netinu.

Smá Firefox trikk

Eitt af því sem fer í taugarnar á mér við vefsíður er þegar höfundur síðunnar vill ákveða fyrir mig hvort ég vilji opna tengil í nýjum glugga eða ekki. Ég nota alla helstu vafrana (IE, Firefox og Opera) eitthvað, en þó er Firefox aðalvafrinn.

Ég tók svo eftir því áðan að Firefox (1.5 og nýrri) er kominn með stillingar sem leyfa manni að ráða nákvæmlega hvernig svona linkar haga sér. Trikkið er eftirfarandi:

  1. Opnaðu stillingarnar í Firefox, með því að skrifa about:config í slóðarreitinn (address field).
  2. Leitaðu að strengnum open_newwindow. Þetta skilar tveimur línum:
    • browser.link.open_newwindow
    • browser.link.open_newwindow.restriction

  3. Breyttu þessum stillingum eins og þér hentar. Fyrri línan (browser.link.open_newwindow) ræður því hvernig tenglar sem opna nýja glugga eru höndlaðir:
    1 = opnaðir í sama flipa,
    2 = opnaðir í nýjum glugga,
    3 = opnaðir í nýjum flipa.

    Sú seinni (browser.link.open_newwindow.restriction) ræður því hvernig javascript sem heimta að opna nýja glugga (window.open()) eru höndluð:

    0 = Opna alla nýja glugga eins og open_newwindow segir til um,
    1 = leyfa javascripti alltaf að opna nýja glugga,
    2 = opna javascript glugga í nýjum glugga ef tilgreint er nánar hvernig þeir eigi að líta út (týpískir sprettigluggar (pop-ups) í vefforritum.

    Persónulega vel ég:

    • browser.link.open_newwindow = 1
    • browser.link.open_newwindow.restriction = 2

…og þá vitiði það.

Þriðjudagstæknin: Sniglapósturinn lifir

Efni Þriðjudagstækninnar í dag er framtíð póstþjónustu – ekki tölvupóstþjónustu heldur hins – sniglapóstsins

Það þótti voða fyndið svona í árdaga Netsins að vísa til bréfasendinga sem “sniglapósts” eða “snail mail”. Svoleiðis póstur var gamaldags, tók langan tíma, kostaði – með öðrum orðum tilheyrði gamla tímanum.

Enginn gekk þó auðvitað svo langt að spá aldauða póstsendinga. Það verður alltaf þörf fyrir að flytja atóm á milli staða. Það er lítið gagn af tölvupósti til að senda bók, bangsa eða brjóstsykur sem gjöf til fjarstaddra ættingja. Hann dugar varla einu sinni til að framkalla öfundartilfinninguna sem póstkort gera. Það er eitthvað raunverulegara við það að fá handskrifað kort með frímerki og mynd af kokteilglasi á sundlaugarbakkanum en að fá tölvupóst sama efnis. Að við tölum nú ekki um alla hlutina sem tilheyra kannski ekki hefbundnum póstsendingum, en þarf að flytja á milli landa: mat, húsgögn, bíla, súrál, síld og sjálf okkur.

En engu að síður hefur Netið breytt starfsemi póst og flutningafyrirtækja verulega og reyndar eru þær breytingar rétt að byrja.

Hefðbundin “sendibréf” eru svo að segja horfin úr umferð. Fyrir 100 árum, jafnvel bara 50 árum, var þetta eini raunverulegi valkosturinn fyrir venjulegt fólk til að eiga í samskiptum milli landa. Maður settist niður og handskrifaði nokkurra síðna bréf, sem síðan var flutt með bílum, skipum og jafnvel hestvögnum á áfangastað. Þó svarið væri sent um hæl gat hæglega liðið meira en mánuður milli sendingar og svars, þó ekki væri lengra að fara en til Danmerkur. Í dag skiptast kunningjar jafnvel á mörgum bréfum á dag milli Nýja Sjálands og Íslands. Engin furða að þessi samskiptamáti hafi orðið undir.

Á hinn bóginn hefur verslun á Netinu stóraukið bögglasendingar í hinum vestræna heimi. Margt af því sem áður var keypt í “heimabyggð”, er nú keypt á Netinu og flutt langar leiðir með pósti. Íslendingar eru reyndar slappir í netverslun samanborið við aðra net- og upplýsingatækninotkun. Árið 2005 verslaði einungis tæplega þriðjungur íslenskra netnotenda á netinu, sem er undir meðallagi í Evrópusambandinu (sjá skýrslu Hagstofunnar: Ísland í evrópsku upplýsingatæknisamfélagi). Netverslun innanlands er svo að segja óþekkt, þrátt fyrir nokkrar heiðarlegar tilraunir til að setja upp netverslanir hér á landi. Meira er um að verslað sé um netið frá útlöndum, en óskýrt kerfi tolla og aðflutningsgjalda hef ég grunað um talsverð fælingaráhrif þar. Sem betur fer heyrir nánast sögunni til að maður þurfi að fara upp í aðalmiðstöð póstsins uppi á Höfða til að leysa út Amazon sendingar, en það er ekki langt síðan það var reglan frekar en undantekningin.

Meiri stafrænn póstur
Í dag er stór hluti greiðsluseðla á Íslandi orðinn stafrænn. Greiðsluseðillinn birtist í heimabanka greiðandans og er greiddur þar, án þess að pappír komi þar nokkru sinni nálægt. Að vísu eru pappírsseðlarnir gefnir út og sendir samhliða, einkum vegna þess að pappír leikur mikilvægt hlutverk í bókhaldi, en þessi pappírsárátta mun hverfa.

Rafræn útgáfa af þessu tagi er afar þægileg fyrir alla aðila málsins. Fyrir fólk eins og mig, sem sitja við tölvu mestallan daginn, vil ég helst sjá sem mest af mínum samskiptum fara sömu leið og þar býð ég eftir næstu skrefum í póstþjónustu.

Ég vil helst bara fá allan póstinn minn sem tölvupóst. Ég vil geta stofnað pósthólf (svona físískt, úr málmi) og látið allan pappírspóstinn minn berast þangað. Þar tekur einhver við honum, skannar hann inn, gerir hann aðgengilegan í mínu rafræna pósthólfi á netinu og sendir afrit eða tilkynningu sem tölvupóst.

Til að byrja með gætu þetta bara verið á myndaformi, en seinna meir væri sjálfsagt að beita OCR-tækni (eða “ljóslestri” eins og það heitir á íslensku) á bréfin, þannig að textinn yrði stafrænn og þar með hægt að fara að leita (eins og í “gú…” ég meina “embla“) í pappírspóstinum sínum. Og þar með er ekki öll sagan sögð. Á hvert bréf væri hengt heimilsfang viðtakandans. Ég gæti þessvegna ýtt á “Reply” í póstforritinu mínu og svarað póstinum. Það svar yrði svo prentað út og sent í sniglapósti til baka. Að sjálfsögðu gæti ég líka sent slíkan póst á hvaða heimilsfang sem er að mínu eigin frumkvæði. Minn endi á póstsamskiptum er þar með orðinn stafrænn.

Langstærsti hluti bréfasendinga eru nefnilega í kjarnann “bara upplýsingar” og pappírinn bara miðill til að flytja þær. Upplýsingum líður svo miklu betur á stafrænu formi.

Það sem meira er – ef viðtakandinn er líka skráður í þessa stórgóðu þjónustu, þá þarf aldrei að prenta bréfið út. Smám saman flyst meira og meira af póstsamskiptum á Netið, en ég – sem notandi – þarf aldrei að velta því fyrir mér hvort viðkomandi sé þátttakandi í þjónustunni eða ekki.

Og þetta allt myndi ég borga fyrir, rétt eins og ég geri fyrir venjulegan pappírspóst í dag. Kannski Bill Gates hafi haft rétt fyrir sér eftir allt saman að við myndum kaupa frímerki á tölvupóstinn okkar í framtíðinni.

Póstfyrirtækin eru auðvitað í góðri aðstöðu til að setja upp svona þjónustu, en það er ekkert sem kemur í veg fyrir að einhver óháður aðili úti í bæ komi þessu á fót. Sá sem grípur tækifærið er svo í lykilaðstöðu þegar kemur að útgáfu rafrænna auðkenna og til að bjóða upp á allskyns viðbótarþjónustu – væri til dæmis ekki ljúft strákar – svona á Valentínusardaginn að geta sent frúnni blóm og skrautskrifað kort með einum einföldum tölvupósti? 😉


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Þriðjudagstæknin: Spáð í framtíðina

Efni Þriðjudagstækninnar að þessu sinni eru framtíðarspár, gagnsemi þeirra og tilgangur.

Í tækniheiminum er umtalsverður fjöldi fólks sem vinnur við það að spá fyrir um framtíðina. Þetta eru ráðgjafar stjórnvalda, stórfyrirtækja og stofnanna sem ætlað er að spá í spilin svo hægt sé að móta stefnu, skapa lagaramma, mæta ógnum og koma auga á ný viðskiptatækifæri.

Þetta er ekki einfalt starf. Allir þekkja fræga framtíðarspádóma sem ekki hafa ræst. Flugbíllinn hefur verið á næstu grösum allt frá 1920 og enn hefur (augljóslega) enginn spáð réttilega fyrir um heimsendi, þó margir hafi reynt.

Af óheppilegum dæmum úr tölvuheiminum má nefna tvö frábær dæmi:

  • 1943 spáði Thomas Watson, stjórnarformaður IBM, því að það væri markaður fyrir 5 tölvur í heiminum – nokkurntíman. Í byrjun 6. áratugarins hafði hann uppfært spána í 25.
  • Í kringum 1980 var settur upp vinnuhópur hjá sænska fjarskiptafyrirtækinu Ericsson, sem átti að kanna framtíðarmöguleika nýrrar tækni – svokallaðra farsíma. Niðurstaða hópsins var sú að – jú, líklega væri markaður fyrir ein 20þús tæki í heiminum. Líklegustu kaupendurnir væru trukkabílstjórar, en samkeppnin við símasjálfsala á bensínstöðum væri líklega of hörð. Í dag eru um 1.3 milljarðar farsíma í heiminum. Trukkabílstjórar ku vera meðal kaupenda.

En framtíðarspár eru alvarleg starfsgrein og er engan veginn rétt lýst með dæmum um misheppnaða spádóma eins og þessa hér að ofan – og kannski voru þessir spádómar ekki svo slæmir. Takið t.d. eftir því að Ericsson hafði þó framsýnina til að skoða málið, nærri 20 árum áður en farsímarnir slógu í gegn. Framtíðarspár af þessu tagi eru sambland af vísindum, ofvirkni í því að fylgjast með nýjustu straumum og stefnum og hugmyndaauðgi.

Hjá British Telecom vinnur maður að nafni Ian Pearson. Á vefsíðunni hans má finna pistla um það hvernig hann sér framtíðina fyrir sér, allt frá klósettinu til auglýsinga og frá heilsugæslu til heimsvæðingar. Fullt af áhugaverðum pælingum.

Pearson leiddi líka verkefni hjá BT sem hét BT Exact og átti að spá fyrir um framtíðina allt að 100 ár fram í tímann. Útkoman úr því var BT Technology Timeline (það er líka til voða fansí flash útgáfa), spá um framtíðarþróun á einum 20 sviðum tækni og mannlífs – hugmyndarík úttekt þó svo að það verði ekki sagt að hugmyndaauðgina vanti þegar frá líður.

Annar góður framtíðarspámaður sem reyndar vann líka hjá BT um tímar er Peter Cochrane og á vefnum Edge – the third culture er samfélag á annað hundrað hugsuða sem skiptast á skoðunum og birta reglulega áhugaverðar greinar. Virklega skemmtilegt efni, þegar maður loksins hefur áttað sig á því hvernig vefsíðan virkar, sem er á mörkunum að sé fyrir fólk með greindarvístölu á við okkur, venjulega fólkið.

Sumir tæknisnillingar hafa varað við framtíðinni, jafnvel þótt þeir hafi átt dágóðan hlut í að skapa nútímann. Þar fara einna fremst menn eins og Bill Joy, annar af stofnendum Sun tölvufyrirtækisins og aðalheilinn á bakvið smávægilega hluti eins og UNIX stýrikerfið og Java forritunarmálið. Hann varaði við nanótækni í frægri grein sem birtist í Wired árið 2001 og ber titilinn “Why the future doesn’t need us“. Það er kannski samt rétt að afskrifa spádóma Joy ekki alveg. Þann 11. september 2001 sat hann á hótelherbergi á Manhattan og var að skrifa bók um það hvernig stefna Bandaríkjanna í miðausturlöndum myndi á endanum leiða til alvarlegrar hryðjuverkaárásar á Bandaríkin!

Annað tæknigúrú sem hefur varað við óheillavænlegri þróun í tæknimálum er Raymond Kurzweil. Hann á aragrúa merkilegra uppfinninga á borð við fyrstu lesvélina fyrir blinda, hljómborð og hljóðgervla ýmiskonar og hugbúnað til greiningar á þróun á gengi hluta- og verðbréfa. Hann hefur skrifað tvær bækur – The Age of Intelligent Machines og The Age of Spiritual Machines – um það hvernig gervigreindar tölvur muni taka yfir heiminn – jafnvel á næstu 20 árum eða svo. Hann brást jafnframt ókvæða við þegar “uppskriftin” að spænsku veikinni var birt í vísindatímaritum, vegna þess að það gæfi hryðjuverkamönnum tækifæri til að fjöldaframleiða veiruna.

    Hliðarskref: Í þessari sífelldu hryðjuverkaumræðu minnist ég þess alltaf að það deyja fleiri í bílslysum á hverjum degi eins og hafa látist í hryðjuverkaárásum í heiminum öllum síðastliðin 10 ár, að ótöldum náttúruhamförum, hungursneiðum og sjúkdómum. Halló – fókus!

Bill Gates hefur ítrekað farið flatt á framtíðarspám. Á níunda áratugnum sagði hann að enginn tölva þyrfti meira en 640Kb minni. Í dag er meðal heimilistölva með 1.000-2.000 sinnum meira minni en svo. Hann gaf líka út bók árið 1995 um framtíð tölvutækninnar – en minntist ekki einu orði á Internetið. Gleymið því samt ekki að hann hefur svo oft veðjað á réttan hest að hann er ríkasti maður veraldarinnar (svo ríkur reyndar að það er vandkvæðum bundið að reikna út skattinn hans).

En í raun skiptir minnstu þó framtíðarspámenn hafi sjaldnast rétt fyrir sér. Einn tilgangur framtíðarspádóma er einfaldlega að koma nýjum hugmyndum í umferð og láta þær þróast í meðförum annarra.

Eða eins og tölvunarfræðingurinn og framtíðarspámaðurinn Alan Kay sagði svo snilldarlega: “Besta leiðin til að spá fyrir um framtíðina er að finna hana upp”!


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Spurl leitar að forritara

Spurl ehf. leitar að forritara í spennandi verkefni.

Í starfinu felst forritun á næstu útgáfu Spurl.net bókamerkjaþjónustunnar sem nú hýsir 4,5 milljónir bókamerkja fyrir yfir 30 þúsund manns um allan heim. Jafnframt að aðstoða við viðmótsforritun og léttari bakendavinnslu við leitartæknina okkar – Zniff – sem meðal annars knýr leitarvélina Emblu á mbl.is.

Viðkomandi þarf að hafa reynslu af vefsíðu-scripting málum og gagnagrunnum, helst PHP og MySQL og hafa auga fyrir viðmótshönnun og framsetningu. Þekking á CSS, XML, RSS, Atom, Python, Java, Javascript og myndvinnslu eru allt stórir kostir.

Umfram allt leggjum við áherslu á brennandi áhuga á því að taka þátt í þróun á spennandi hugbúnaði, hugmyndaauðgi, vinnusemi og fjölhæfni.

Aldur og menntun eru ekki höfuðatriði, en reynsla og fyrri verkefni (hvort sem er í vinnu eða fikti) munu ráða miklu.

Þeir sem hafa áhuga eru beðnir um að senda póst á jobs@spurl.net með stuttum inngangi, lýsingu á fyrri verkum (tenglar ef mögulegt) og öðrum upplýsingum sem þið teljið að skipti máli. Öllum verður svarað.

Fjöllin og fræga fólkið á Emblu

Fyrir stuttu skrifaði ég um nokkur sæt Emblu trikk sem við erum búnir að vera að kóða inn í Embluna. Ég sagði að það væri meira á leiðinni og nú eru dottin inn tvö ný trikk.

  • Nöfn þekktra einstaklinga: t.d. Jón Arnar Magnússon. Birtir stuttan texta um viðkomandi og tengil á færslu um hann eða hana í bókinni Samtíðarmenn, frá Eddu. Alls eru þetta um 1700 einstaklingar.
  • Örnefni og staðir: t.d. Hólmavík. Þarna eru inni um það bil 9000 örnefni og með því að smella á tengilinn fæst kort af svæðinu úr Kortabók Íslands þar sem staðurinn er. Viðmótið á kortunum mætti vera betra (það þarf að skima kortið í leit að nafninu), en engu að síður er þetta mjög hjálplegt. Vonandi tökum við þetta lengra fljótlega.

Svo er von á fleiru svipuðu. Þið bíðið bara spennt á meðan 🙂