íslenska

Íslenskar auglýsingar í MSN Messenger


Tók eftir þessari íslensku auglýsingu á MSN Messenger í morgun.

Hún bendir einfaldlega á forsíðuna á vefnum hjá BT.

Það er gott að íslensk fyrirtæki eru að átta sig á því hvað er hægt að gera í gegnum þessi auglýsinganet eins og t.d. hjá MSN (þeir eru líklega með eitt allra sveigjanlegasta kerfið), og þar sem MSN Messenger er nær einráður á skyndiskilaboða (IM) markaðnum hérna heima, er þetta alveg príma pláss.

Hérna er hægt að sjá alla auglýsingamöguleikana í MSN Messenger og þar má sjá að þessar banner auglýsingar er t.d. hægt að miða eftir landsvæði, aldri, kyni og tungumáli.

Þriðjudagstæknin: Er Internetið að hrynja?

Efni Þriðjudagstækninnar í dag eru endalok Internetsins.

Grein í nýjasta hefti tækniblaðsins Technology Review hefur vakið nokkra athygli í tækniheiminum síðustu daga. Greinin fjallar um galla og takmarkanir Internetsins sem viðmælendur rekja til skorts á skipulagningu og hönnun við uppbyggingu netsins og þeirra staðla sem það byggir á.

Einn þeirra, David D. Clark segir m.a.s. að Netið sé á vatnaskilum – ef ekkert verði að gert muni allt heila klabbið bara hrynja. Einhverra hluta vegna varð mér hugsað til Unga Litla í þessu samhengi.

Gamlir nethundar muna kannski eftir svipuðum fullyrðingum Bob Metcalfe (mannsins sem stofnaði 3Com og fann upp Ethernetið – hvort tveggja stórir þættir í því að gera Netið að því sem það er) árið 1995 þegar hann skrifaði að hann myndi borða dálkinn sinn í Info World ef Internetið myndi ekki hrynja árið 1996 – sem hann og gerði á ráðstefnu ári síðar fyrir framan þúsundir áhorfenda – með stórri skeið 🙂

Nú er ég ekki að segja að Netið sé gallalaust. Langt því frá. Og hún er ekki falleg myndin sem dregin er upp í greinni. Nokkrir punktar:

  • Tölvur 43% Bandaríkjamanna hafa sýkst af njósnahugbúnaði
  • Tilraunum til tölvuglæpa fjölda vírusskeyta í tölvupósti fjölgaði um 50% á fyrri helmingi ársins 2005
  • 60% af öllum tölvupósti í heiminum er kæfa og sem dæmi jókst kæfumagn þeirra fyrirtækja sem Symantec þjónustar um 77% frá 1. júlí til 31. desember á síðasta ári
  • Að auki er netsamband víða ótryggt eins og við þekkjum mætavel

Til að mæta þessum ósköpum öllum vilja ýmsir byrja upp á nýtt. Hanna nýtt Internet með innbyggðum öryggisstöðlum, forgangsmöguleikum, dulkóðun og vörnum gegn ýmiskonar óværu.

Það hljómar alltaf voða vel að hanna eitthvað frá grunni og byrja upp á nýtt. En það vill gleymast að hlutir sem hafa fengið að þróast í langan tíma – hafa byggt inn ýmiskonar þekkingu og lausnir á vandamálum sem nær ógerlegt er að sjá fyrir á hönnunarstiginu. Sveigjanleika og fjölbreytni Internetsins má að stórum hluta rekja til þess að það var voða lítið hannað og planað fyrirfram. Fyrir hendi var einfaldur grunnur og hugmyndaríkir menn og konur fundu leiðir til að nýta það til hins ýtrasta.

Ef reynt er að hugsa fyrir of miklu í upphafi er líklegt að óafvitandi yrði lokað á ýmsa stórsnjalla möguleika sem ómögulegt var að sjá fyrir.

Öryggismál, vírusar og áreiðanleiki eru vissulega vandamál, en þau verða leyst og er verið að leysa með þróun – þau verða ekki leyst með byltingu.

Enn sem komið er hefur engum tekist að spá réttilega fyrir um heimsenda og ég leyfi mér að fullyrða að það sama gildi um spádóma um endilok Internetsins. Hins vegar geta slíkar hrakspár verið gagnlegar til að hrista upp í fólki og vekja það til umhugsunar – og líklega er það nú bara það sem vakir fyrir David Clark og félögum.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Þorláksmessa 2005

Allir sem vilja þekkja okkur velkomnir að venju á Þorláksmessu á:

Laugaveg 82
allskonar
JÓLAGLÖGG

allsnægtir af ávöxtum og öðru góðgæti. Úrvals vörur. Ekkert verð. Þjer ættuð að líta inn í fallegu íbúðina okkar. Hvar sem þjer annars eigið heima í bænum.

Magga&Hjalli

—–

As always, our friends and families are invited to drop in on December 23rd on:

Laugaveg 82
all kinds of
JÓLAGLÖGG

fruits and other delicatessen plentiful. Quality products. Moderate prices 🙂 Thou should drop by wherever thou lives in thee world.

Magga&Hjalli

Upphaflega auglýsingin er úr Morgunblaðinu laugardaginn 14. desember 1935


Helstu reglur:

  • Ykkur er óhætt að koma hvenær sem er eftir klukkan svona 16-17.
  • Það má stoppa stutt.
  • Það má stoppa lengi.
  • Það má koma tvisvar.
  • Það má koma með börn, vini, fjarskylda ættingja og nýfundna kunningja, hunda, hesta og kanínur, en helst ekki mjög rauðhærða.
  • Það má sleppa því að koma – en það er litið hornauga.
  • Gleðinni lýkur þegar síðasti gesturinn rúllar niður stigann.

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest, við ykkur hin segjum við:

Gleðileg jól
og
farsælt komandi ár

Stofnfundur samtaka vefiðnaðarins (SVEF)

Stofnfundur Samtaka Vefiðnaðarins var haldinn í gær, en samtökin eru samtök áhugafólks um vefmál.

Nánar um það á SVEF.is

Undirritaður var með kynningu um þróun Emblunnar, en hópurinn sem stóð að stofnun samtakanna er einmitt sami hópur og hefur borið veg og vanda af Íslensku vefverðlaununum undanfarin ár og mbl.is hlaut einmitt í ár fyrir Emblu.

Glærurnar úr fyrirlestrinum eru hér:

Þriðjudagstæknin: Samskipti við tölvur

Efni Þriðjudagstækninnar í dag eru boðleiðirnar sem við notum til að koma vitinu fyrir tölvurnar okkar – og þær fyrir okkur.

Samskipti okkar við tölvur eru í rauninni afar frumstæð. Við notum mús og lyklaborð til að skipa tölvunni fyrir og hún birtir okkur skilaboð á skjá. Einhver myndi vilja bæta við hljóði og jafnvel mynd, en sannleikurinn er sá að bæði hljóðnema og hátalara notum við nær eingöngu til afþreyingar, eða til að eiga í samskiptum við annað fólk í gegnum tölvuna, ekki við tölvuna sjálfa.

Skjáir
Skjáirnir sem við notum í dag eru í raun pínulitlir. 19 eða jafnvel 21 tommu skjár kann að virðast stór, en það er bara vegna samanburðar við enn minni skjái sem við höfum vanist í gegnum tíðina.

Skjárinn og skjáborðið er vinnusvæði okkar “þekkingariðnaðarmanna” – þetta er okkar skrifborð. Hver myndi láta bjóða sér 19 tommu skrifborð? Og hversu miklu kæmi maður í verk ef maður þyrfti sífellt að umraða til að koma öllum bókum og skjölum fyrir þar?

Nær allar fartölvur ráða við að birta skjámynd á viðbótarskjá og stækka þannig vinnusvæðið. Það sama er hægt að gera á borðtölvum en þá þarf reyndar tvö skjákort í vélina. Fyrir þá sem vinna með mikið af upplýsingum eða stór skjöl (t.d. forritara, verðbréfamiðlara og grafíkera) er ekki spurning að fjárfesting í öðrum skjá borgar sig.

Músin
Það er svolítið skondið að það tól sem við notum hvað mest til að koma tölvunni í skilning um hvað við viljum, er jafn frumstætt og við getum ímyndað okkur að hellisbúar hafi notast við áður en tungumálið var fundið upp. Við bendum í áttina að einhverju (færum músarbendilinn yfir það), rymjum (smellum) og bendum svo í áttina að einhverju öðru og rymjum aftur – stundum jafnvel tvisvar (tvísmellum). Ekki ósviparð og Þorsteinn Guðmundsson í “búddí-búddí” auglýsingunni frá KB banka (titillinn er “Tungumál”).

Auðvitað virkar þetta ágætlega, en það rúmast ekki miklar upplýsingar í hverri músaraðgerð.

Lyklaborðið
Öflugasta tækið sem við höfum til að tjá okkur við tölvur í dag er lyklaborðið. Það er ekki endilega vegna þess að það sé svo notendavænt, heldur vegna þess að þar erum við að nota þann tjáskiptamáta sem gefst best okkar á milli – tungumálið (eða allavegana svona eitthvað í áttina).

Þeir sem eru vanir að nota skipanalínu og flýtitakka í forritum eru mun fljótari að vinna flest verk en við hin sem þurfum að færa höndina á músina í hvert sinn sem þarf að gefa einhverja skipun.

Á margan hátt má segja að skipanalínan hafi fengið endurnýjun lífdaga með Google-leitarboxinu – sem er eins konar skipanalína okkar á Vefinn: Við sláum inn það sem við viljum gera eða finna og það birtist eins og hendi væri veifað.

Slík notkun á bara eftir að aukast og þessi aðferðafræði verður tekin lengra þegar leitarvélar fara að skilja betur hvað átt er við, t.d. með því að þekkja nöfn á hlutum svo sem fólki, stöðum og viðburðum og reyna að vinna meira með það. Ofurlítið dæmi um slíkt má m.a.s. finna í Emblunni okkar, sem þekkir m.a. heimilisföng, bókatitla, símanúmer og skammstafanir og reynir að veita viðbótarupplýsingar eða -þjónustu byggða á því.

Aðra athyglisverða (og mjög svo nördalega) tilraun til að endurvekja skipanalínuna má sjá í YubNub þjónustunni sem nota má til að gefa hinar og þessar skipanir á leitarvélar, reiknivélar og vefþjónustur með textaskipunum.

Talviðmót
Það er okkur mjög eðlilegt að tjá okkur með tali. Jafnvel þó það væri ekki samfellt tal, heldur stakorðar skipanir væri það stórt skref í áttina að bættum samskiptum manns og tölvu: “opnaðu ársskýrsluna”, “finndu símanúmer Jóns Jónssonar” o.s.frv. Slíkt er tæknilega mögulegt í dag (jafnvel á íslensku), en samt þyrfti býsna umfangsmikið kerfi til að skilja alla þá ótal vegu sem hægt er að segja sömu hlutina.

Talviðmót hafa líka ákveðna praktíska galla. Ímyndið ykkur til dæmis kliðinn sem myndi myndast ef allir vinnufélagar ykkar væru í sífellu að tala við tölvuna sína? Mér finnst nógu truflandi þegar menn í kringum mig grípa símann í eitt og eitt símtal. Að sama skapi myndi slíkt mal reyna talsvert á raddböndin, nokkuð sem t.d. fólk í kennarastétt kannast við – og þá ekki af góðu.

Talviðmót munu þó án efa verða notuð í auknum mæli eftir því sem talgreiningu fleygir fram og ekki spillir að sífellt fleiri eiga nú heyrnatól með hljóðnema, samhliða aukinni notkun Skype og annarra VoIP lausna.

Augn- og líkamshreyfingar
Bendingar, augnatillit og líkamstjáning er stór hluti af okkar náttúrulegu samskiptum. Stundum hafa menn reynt að kasta einhverri tölu á það hve stór hluti merkingarinnar sé tjáður á þennan hátt og man ég þar eftir að hafa heyrt tölur á bilinu 25-50% – hvernig í ósköpunum sem það er nú mælt.

Það eru þegar til tól sem geta fylgst mjög nákvæmlega með því hvert fólk er að horfa. Slík tól hafa m.a. verið notuð til að gera áhugaverðar rannsóknir á því hvernig fólk les vefsíður. Einnig mætti hugsa sér að á sama hátt mætti stýra bendli á skjá í stað músarkvikindisins.

Og jafnvel þó nútíma myndgreining kæmist sjálfsagt ekki langt í að lesa í líkamstjáningu okkar, gæti tölva lesið mikilvægar upplýsingar ef hún “sæi” umhverfi sitt. Það eitt hvort yfirhöfuð einhver hreyfing sé við tölvuna gæti hjálpað til við gáfulega hegðun tölvunnar, t.d. hvenær á að keyra vírusleit, eða hvenær á að starta skjásvæfunni.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.