Hugsað út fyrir kassann

Eftir að hafa melt þessa ferð okkar til Ecuador í nokkrar vikur, held ég að eftirfarandi frásögn standi upp úr.

Í Amazon-skóginum fengum við tækifæri til að heimsækja indíánaþorp. Á þessu svæði býr ættbálkur indíána sem lifir að miklu leiti eins og þeir hafa gert í árhundruð, ef ekki þúsundir. Þeir sækja allt sitt í skóginn: mat, lyf, fatnað, byggingarefni o.s.frv. Síðan þeir tóku upp samskipti við umheiminn 1978 hafa þeir lítillega sótt sér utanaðkomandi þjónustu, einkum læknis- og skólaþjónustu. Til að borga fyrir þetta hafa þeir – í samstarfi við Ecuadorsk samtök – byggt upp látlausa en framúrskarandi góða ferðaþjónustu. Þetta er gert í þeirri von að þeir þurfi ekki að selja landsvæði sitt til skógarhöggs eða olíuvinnslu, en af hvoru tveggja (trjám og olíu) er land þeirra auðugt.

Heimsóknin fór þannig fram að við fengum að heimsækja eitt heimili í þorpinu. Hvert hús er í raun lítið annað en stórt þak úr pálmalaufum sem stendur á staurum. Engir veggir eru í húsinu og rúmin eru upphækkaðir bjálkar eða tréplötur sem standa á háum fótum – í raun ekki ósvipað borðstöfuborðum.

Heimsóknin fór þannig fram að við kynntum okkur hvert og eitt fyrir heimilisföðurnum og fengum að því loknu að spyrja spurninga eins og okkur lysti – og öfugt: hann mátti spyrja okkur að hverju sem er líka.

Það er krefjandi að finna leiðir til að útskýra fyrir manni með þennan bakgrunn, við hvað maður starfar, hvar maður býr og við hvaða aðstæður. Þó ég reyndi að vanda mig, heyrði ég að túlkurinn (sem túlkaði úr ensku yfir á spænsku og svo annar af spænsku yfir á indíánamálið) tók hugtök eins og “telecommunications” og útskýrði þau frekar. Eins fylgdu hugtaki eins og “London” (ferðafélagar okkar voru þaðan) útskýringin: “London er í Bretlandi eins og Quito er í Ecuador” (Quito verandi höfuðborgin þar). Eðlilega.

Á hinn bóginn var alveg ljóst af samræðunum að fólkið í skóginum áttaði sig á því að það sem gerist í heiminum hefur áhrif á þau. Að ákvarðanir annarra manna langt utan þeirra áhrifasviðs gæti kippt stoðunum undan lífi þeirra í einni svipan. Og þrátt fyrir takmarkaða þekkingu voru þau forvitin um heiminn fyrir utan, siði, venjur og aðstæður almennt þar sem við byggjum.

Í raun höfum við svipaða sögu að segja af heimsókn okkar í þorp við rætur Kilimanjaro í fyrra. Þar fóru þorpsbúar t.d. og báðust fyrir við stóra tréið í skóginum þegar árásirnar voru gerðar á tvíburaturnana í New York – m.a. til þess að biðja um að ferðamenn myndu ekki hætta að koma í einhvers konar ótta við restina af heiminum.

Morguninn eftir flugum við svo til Quito. Í túristaskoppi okkar þar rákumst við á Bandarískt par. Skemmtilegt og víðsýnt fólk og eins og flestir Bandaríkjamenn sem maður hittir – og höfðu þar af leiðandi hugmynd um að eitthvað er til utan þeirra heimabæjar og eru jafnvel með vegabréf.

Við fórum að segja þeim frá heimsókninni í indíánaþorpið. Þau sögðu okkur þá frá nágrannakonu sinni í heimabænum sínum í Illinois. Þetta er víst indælis kona á sjötugsaldri og ekkert nema gott um hana að segja. Hún hefur hins vegar lokað sig alveg frá umheiminum og vill helst ekki vita um neitt sem gerist utan götunnar sinnar. Hún hefur ekki horft á fréttir í 20 ár og segir aðspurð að fréttir séu bara óþægilegar. Hún stressist öll upp og vill bara lifa í sínum litla, þægilega og verndaða heimi. Myndin sem dregin er upp af heiminum í fréttum er af grimmum heimi sem best er að skipta sér sem minnst af. Að ferðast er óhugsandi. Hafiði ekki heyrt um öll morðin, stríðin, sjúkdómana og hugrið þarna úti. Best er að halda sig heima – og vita ekki neitt.

Þessi litla saga mín hefur engan endi, en á þessum vikum sem liðnar eru síðan við komum heim, hefur mér ítrekað verið hugsað til þeirra tveggja. Annars vegar indíánans sem býr einangraður í skóginum, hefur mjög takmarkaða menntun og aðgang að upplýsingum en skilur að allt í heiminum er tengt og hefur áhrif hvað á annað með ófyrirsjánalegum afleiðingum. Og hins vegar vinalegu konunnar í miðríkjum Bandaríkjanna sem hefur aðgang að öllum heimsins upplýsingum, en lokar sig af og vill sem minnst af neinu vita nema blómunum í garðinum og hvenær nágrannabörnin koma heim úr skólanum.

Líkindin og munurinn á aðstæðum þessarra tveggja einstaklinga eru bara eitthvað svo umhugsunarverð.

Leave a comment