Þriðjudagstæknin: Skoðun

Einu sinni á ári fer ég með bílinn minn í skoðun. Þetta er lögbundið eftirlit sem tryggja á öryggi mitt og annarra í umferðinni. Ef ég trassa það að fara með bílinn í skoðun er númerið klippt af honum og hörð refsing sem liggur við því að aka honum um göturnar.

Það er sjálfsagt mál að vera með vírusvörn og eldvegg á tölvunni sinni til að koma í veg fyrir að tölvuvírusar og önnur óværa taki sér bólfestu í henni. Ef ég trassa það og tölvan mín verður alvarlega lasin er eins víst að netþjónustan mín loki á mig til að hún hætti að smita aðrar tölvur og taka bandbreidd og vinnslugetu frá venjulegri netnotkun annarra notenda.

Í sveitinni eru tekin sýni úr mjólkinni reglulega og uppfylla þarf allströng skilyrði um hreinlæti til að fá framleiðsluleyfi, hvort sem er á kjöti, mjólk eða grænmeti. Þetta er gert til að tryggja heilsu neytenda sem neyta afurðanna.

Öðru gildir hins vegar um okkur sjálf. Ef ég kýs að borða McDonalds og franskar í hvert mál er það mitt mál. Ég þarf að bera mig sjálfur eftir bólusetningu á haustin ef ég vil vera laus við skæðustu vírusana yfir veturinn og ef ég hringi í lækni eða heilsugæslustöð með þá grillu í höfðinu að fá einhver til að “bara skoða mig” – er skellt á hlæjandi. Fæ í mesta lagi tíma hjá geðlækni til að taka á sjúkdómafælninni.

Ok – fariði aðeins með mér í gegnum þetta: Ég er skyldugur til að láta skoða bílinn til að tryggja að hann sé ekki hættulegur fyrir mig og aðra, en ef ég sækist eftir því að vita hvort ég sé þegar skaddaður eða jafnvel hættulegur öðrum (t.d. með smitandi sjúkdóm), þá er það kjánalegt.

Ég hef í gegnum tíðina borið þessa skoðun mína á skoðunum undir ýmsa – suma í heilbrigðisstéttunum, aðra leikmenn eins og mig sjálfan. Einu mótrökin sem ég hef heyrt er að þetta væri einfaldlega of dýrt. Við værum að fylla tíma lækna með reglulegum skoðunum, meðan þeir gætu verið að lækna fólk sem raunverulega er eitthvað að.

Gott og vel, skoðum aðeins hvernig svona lagað gæti farið fram.

Þetta væri staðlað próf þar sem helstu heilsuþættir væru skoðaðir. Rétt eins og að í bifreiðaskoðuninni eru hjólbarðarnir, ljósin og útblásturinn skoðuð, myndi persónuskoðun kíkja á fæturna, sjónina og öndunarfærin. Heilinn og rafkerfið; mótorinn og meltingin; rúðupissið og hitt pissið – ég veit þið fylgið mér…

Ég er ekki læknisfræðimenntaður, en ég veit að stór þáttur í meðferð flestra helstu kvilla sem hrjá okkur í dag felast í að einkennin greinist snemma í ferlinu. Og við erum að tala um ferla sem taka marga mánuði og ár. Krabbamein, hjarta- og æðasjúkdómar, hrörnunarsjúkdómar, beinþynning, offita og ég veit ekki hvað og hvað. Margt af þessu er tiltölulega léttvægt ef það uppgötvast snemma í ferlinu og í VERSTA falli eykur það batahorfurnar verulega. Mörgu er hægt að afstýra með lítillega breyttu mataræði, lífsháttum eða einföldum aðgerðum eða lyfjameðferð.

Lyfjameðferð vegna “fullþroskaðs” krabbameins kostar hins vegar margföld árslaun læknis, hver dagur sjúklings á sjúkrahúsi kostar að mig minnir að ég hafi séð einhversstaðar á þriðja hundrað þúsund króna! Það má nú renna nokkrum í gegnum skoðun fyrir slíkan pening.

Hver einasti bíll á landinu er skoðaður einu sinni á ári. Við bifreiðaskoðun starfa held ég innan við 200 manns og það er einn bíll á hverja tvo íslendinga, ekki satt? 400 manns? Það er ekkert ógnvænleg tala. Ekki eru þeir sem starfa við bifreiðaskoðun síður með dýrar græjur en læknarnir. Sennilega heldur minni sérfræðiþekkingu, en það má líka vafalaust nota ódýrari starfskrafta í svona rútínutékk, heldur en fullnuma lækna.

Fordæmin eru meira að segja til: Á fyrstu árum ævinnar (og reyndar tæpt ár áður en hún hefst) er framfylgt öflugu skoðanakerfi og gripið til ráðstafana ef þroskinn er ekki í samræmi við væntingar eða einhverjir óvæntir sjúkdómar greinast. Þetta minnkar svo eftir því sem líður á grunnskólann og fjarar alveg út á unglingsárunum – eftir það erum við “on our own” þangað til eitthvað kemur upp á.

Á hinum enda skalans eru svo skoðanir sem forstjórar og mikilvægir stjórnendur – a.m.k. í Bandaríkjunum – eru sendir í reglulega af tryggingafélögunum sínum. Þar er það hagur fyrirtækisins að ekkert komi upp á og það tryggir sig fyrir því. Tryggingafélagið lætur því framkvæma ítarlegar læknisskoðanir á viðkomandi, jafnvel tvisvar á ári. Að öðrum kosti getur tryggingin fallið úr gildi.

Við þessir venjulegu fornbílar (bíll er fornbíll 20 árum eftir framleiðslu – er það ekki?) fáum hins vegar ekki kost á svona þjónustu – jafnvel þó við værum tilbúin að borga fyrir það: “Ég verð að láta þig hafa grænan miða. Aðeins að lækka kólestrólið, ná þessari vöðvabólgu úr öxlunum og svo sjáumst við aftur eftir 8 vikur – annars verðum við að láta klippa af þér…”

4 comments

 1. Hjartavernd býður skoðun – sem kostar og er mælt með fyrir alla 40+ EN það er fj… langur afgreiðslutími

 2. Ef við höldum áfram með þennan samanburð. Það kostar rúmlega 5þús að láta skoða bílinn er það ekki? Þar starfa einstaklingar sem vinna á talsvert lægri launum en læknar þannig að ekki væri ólíklegt að hver svona skoðun myndi kosta jafn mikið eða meira, segjum bara 6þús til að vera á lægri kantinum. Það myndi þýða kostnað upp á 1,8 milljarða til að skoða alla þjóðina á ári. Þessa 1,8 milljarða sem þyrfti einhversstaðar að taka – fólk borgar bifreiðaskoðun úr eigin vasa, ef þessi skoðun væri líka greidd úr eigin vasa þá væri það 30þús á ári fyrir fimm manna fjölskyldu. Og ef einhver hjón væru svo ósvífin að eignast 14 börn (eins og afi og amma) þá myndi svona skoðun kosta þau 96.000 á ári :o)
  Ok, þetta er slatti og ekki yrðu allir ánægðir en kannski ekki svo mikið borið saman við tannlæknakostnað. (En mörgum þykir auðvitað nóg um tannlæknakostnaðinn og þá er þessu kannski ekki á bætandi)
  En hugmyndin er auðvitað að innan einhverra ára fari þetta að skila hagnaði og því sé þetta hagkvæmt fyrir ríkið. En það er óvíst hvenær sá hagnaður kæmi inn, eftir 2 ár eða 10 ár?

 3. eþ: já, svo er líka krabbameinsskoðunin, en hvort tveggja tekur á ákveðnum, afmörkuðum þáttum.

  gummih: Í fyrsta lagi þyrftu þetta ekki að vera læknar eins og fram kemur í textanum. Í öðru lagi er skrítið að vera tilbúnari til að eyða 5þús krónum í bifreiðaskoðunina en sjálfan sig, svo ekki sé talað um að eyða 20.000 krónum í tannskoðun frekar en 5.000 í almenna heilbrigðistékk (sem eðlilegt væri að fæli í sér einfalt tanntékk líka). Meðalfjölskyldan er með innan við 1 barn á framfæri hvers fullorðins, þannig að 96þús króna dæmið er gróft.

 4. Jájá, það þurfa ekkert allir að vera skoðaðir af lækni en einhverjir læknar þurfa nú samt að koma nálægt þessu og ég tók mið af því þegar ég hugsaði mér að hafa verð hverrar skoðunar bara 6þús. Ef allir ættu að fá skoðun hjá lækni þá myndi þetta vera mun dýrara geri ég ráð fyrir (en þetta verð er auðvitað algjört skot í myrkri ég viðurkenni það fúslega).
  Svo er 96þús kr dæmið auðvitað gróft, ég nefndi það bara til þess að benda á ókost þess að láta fólk borga fyrir þetta úr eigin vasa því mín skoðun er að börn eigi að eiga rétt á frírri heilsugæslu sama hvort foreldrar þeirra eru efnaðir eða ekki eða tóku skynsamlegar ákvarðanir varðandi barnaeignir eða ekki og með því að láta fólk borga þetta úr eigin vasa myndum við vera að hnika þróuninni í ranga átt. Þess vegna þyrfti að taka þetta af skattpeningum ef þetta ætti virkilega að virka og þá er vandamálið blessaðir stjórnmálamennirnir því þetta myndi kalla á aukna fjárveitingu upp á einhverja milljarða í einhver ár áður en einhver sparnaður færi að sjást og miðað við almenna skammsýni stjórnmálamanna þá er ég svartsýnn á að slíkt myndi takast. En auðvitað væri þetta góð hugmynd. Svo mætti auðvitað ná fram svipuðum árangri á einfaldari hátt, t.d. með því að hvetja fólk betur til að nýta sér þá þjónustu sem í boði er eins og t.d. að fara í almenna læknisskoðun hjá heimilislækninum sínum. Einföld herferð sem myndi spyrja fólk hvort það hefði farið í læknisskoðun í ár myndi gera mikið gagn hugsa ég og þá sérstaklega fyrir þá sem er farið að vera aðeins umhugað um heilsuna en finnst kannski ekkert vera að og því ekki ástæða að fara til læknis.
  Slíkar skoðanir gætu gert mörgum gott hugsa ég en þú ert svosem að tala um nákvæmari og viðameiri rannsóknir heldur en er farið í í almennri læknisskoðun. Vandamálið með svoleiðis próf er samt alltaf false positives, þess vegna er fólk sjaldnast sent í þannig próf nema önnur atriði bendi til þess að fólkið sé hrjáð af viðkomandi kvilla. Ef þú myndir t.d. senda alla þjóðina í frumpróf gegn HIV er ansi líklegt að fjöldi false positives væri talsvert hærri en fjöldi raunverulega sýktra. Hér er t.d. grein sem fer pínulítið út í ónákvæmni HIV prófa: http://www.aim.org/special_report/2767_0_8_0_C/

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s