Ég er búinn að komast að niðurstöðu. Ég ætla að kjósa Íslandshreyfinguna.
Áherslur þeirra eru nánast algerlega í samræmi við mína sýn á íslenskt samfélag. Mæli með að þið lesið þær, það er margt gott í þessu. Ég var ekki alveg viss með mannskapinn til að byrja með, en það hefur komið mér ánægjulega á óvart að sjá hvað Ómar er vel að sér í nær öllum málum – langt frá því að vera eins-málefnis-maður. Margrét Sverris er traust. Jakob Frímann er klárlega tækifærissinni, en hann hefur svosem sýnt í ýmsum málum að hann getur látið hlutina gerast.
Ég væri reyndar til í að kjósa einstaklinga úr nær öllum flokkum, en það er víst ekki í boði.
Ástæðan fyrir því að ég ákveð að gefa upp hvað ég kýs er sú að ég óttast að Íslandshreyfingin sé að lenda í því að fólk forðist að kjósa hana vegna þess að þau atkvæði “falli dauð”. Ef allir hugsa þannig kýs auðvitað enginn flokkinn. Óþarfi að láta h(r)æða sig frá því að kjósa I þess vegna. Skora á aðra sem hallast að Íslandshreyfingunni að segja það líka opinberlega svo þessum óvissu finnist þeir ekki einir á báti.
Loks ein ástæða fyrir því að ég get ekki kosið hvern hinna flokkanna:
- Sjálfstæðisflokkinn: Árni Johnsen (eins og áður er sagt)
- Samfylkingin: Ég trúi því að flokkar eigi að segja hvað þeir standa fyrir og fólkið að fylkja sér um þá stefnu, en ekki öfugt. Skoðanakannanir eru ömurleg leið til að móta stefnu og það skilar sér í linum áherslum.
- Vinstri grænir: Ögmundur var örugglega að grínast með þetta með bankana var það ekki?
- Framsókn: Landbúnaðar- og iðnaðarstefna þeirra ber vott um óskaplega gamaldags hugsanahátt.
- Frjálslyndir: Þarna er fólk með skoðanir í “útlendingamálum” sem ég hef sterka andúð á.
Svo mörg voru þau orð. Náum I á þing!
Þeir hafa mitt vote.
En hvað með VG? ;P
Mjög góður pistill, megi hann fara sem víðast!
Æ…
Íslandshreyfingin er sá flokkur sem samræmist mér best málefnalega. En ég treysti þeim ekki eitt andartak til að fylgja þessum málefnum eftir. Ómar er alltof mikið fiðrildi til þess.
Samfylkingin fær mitt atkvæði í ár. Það eru sósialdemókratar, jafnvel þótt þau séu ekki sæt í fjölmiðlum – og það sé voða mikið í tísku núna að vera á móti Ingibjörgu.
Gunni: Takk fyrir ábendinguna. Ég var með VG í kollinum þegar ég skrifaði en gleymdi þeim svo. Uppfærði færsluna með tilliti til þess.
Hugi: Persónulega finnst mér að maður eigi að láta málefnin ráða. Menn hætta svo miklu þegar þeir fara í stjórnmál að ef þeir fylgja ekki þeirri sannfæringu sem þeir setja fram þá er æran í húfi. Ómar hefur hana ennþá, sem er meira en hægt er að segja um marga aðra. En auðvitað dæmir hver fyrir sig.
Ég ætla að kjósa á móti núverandi stjórn, mitt atkvæði fer til Samfylkingarinnar. Í mínum huga er atkvæði til I tapað atkvæði, það eru hverfandi líkur á því að flokkurinn nái 5% til að komast inná þing.
Langar til að benda á þessa mýtu um Samfylkinguna:
“Ég trúi því að flokkar eigi að segja hvað þeir standa fyrir og fólkið að fylkja sér um þá stefnu, en ekki öfugt. ”
Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkur, sennilega hefur enginn flokkur verið gagnrýndur jafnmikið fyrir að vera ekki með neina skoðun eða ekki neina stefnu í neinu eins og Samfylkingin. Það er líka akkúrat ástæðan fyrir því að Samfylkingin hefur þurft að vinna harðar og meira til þess að sanna að svo sé einfaldlega ekki. Ef þú vilt sjá góða stefnu geturu t.d kíkt á efnahagsstefnuna þeirra sem fékk topp einkunn í síðasta Silfri frá Guðmundi hagfræðingi.
það sem greinir flokkinn kannski frá foringjaræðinu í öðrum flokkum, þá sérstaklega stjórnarflokkunum, er að þar rúmast fleiri skoðanir og fólk fær að viðra þær (samræðustjórnmál) þó svo að þær samrýmist ekki endilega opinberum markmiðum flokksins.
Auðvitað er Samfylking ungur flokkur sem ekki hefur fengið tækifæri til þess að stýra landinu og er því óskrifað blað að mestu. Orðrómur um óeingun og það sem ég kom inná hérna fyrir ofan er hinsvegar aðeins áróður, kominn frá mönnum eins og Hannesi H. og félögum. Ef þú endurtekur eitthvað nægilega oft, fer fólk að trúa því.
Andri: Í öllum könnunum sem hafa verið gerðar er mjög stór hluti óákveðinna. Ef allir hugsa svona eins og þú, þá já, þá er atkvæðið dautt. En ef fólk lætur ekki kannanir draga sig frá að greiða atkvæði eftir eigin sannfæringu þá kemst Íslandshreyfingin á þing.
Ég er sammála þér Hjálmar. Að öllu leiti. Ég hef, að sama skapi, ákveðið að kjósa Íslandshreyfinguna.
J#
Af því vísað er í Guðmund hagfræðing í kommentinu hans Andra, þá var ég eitt sinn í tíma hjá Lobba og þar sagði hann orðrétt “… og Samfylkinguna líst mér ekki á því þar er samankomið allt það fólk sem er vitlausast í efnahagsmálum á Íslandi”
Maður gat nú ekki annað en glott út í annað.
En ég verð nú líka að segja að ég treysti Guðmundi jafnlangt í efnahagsmálum og ég get kastað honum, sem er nú ekki mjög langt. Mér finnst hann ekkert sérstaklega trúverðugur.
Það er kannski rétt að það komi fram vegna síðasta komments að Lobbi = Guðmundur hagfræðingur = Guðmundur Ólafsson.
Ég sá reyndar ekki Silfrið, en ég gef mér að þetta hafi verið sami maður.
Þorsteinn, það er er rétt að Guðmundur gaf Samfylkingunnin ekki góða einkunn hérna um árið, en eins og kom fram í Silfrinu er hann búinn að skipa um skoðun, ástæðan er ný efnahagsstefna sem lögð var fram fyrir ekki svo löngu af Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi ráðherra og bankastjóra Norræna fjárfestingabankans.
Þú sást ekki Silfrið en getur samt sagt okkur að maðurinn sé ekki trúverðugur? Æðislegt.
Ég hugsa að Íslandshreyfingin fari inn. Við skulum ekki gleyma því að í hverjum kosningum er fjöldi fólks sem skilar auðu til að senda ákveðin skilaboð, svona hræðsluáróður dugar ekki á alla.
Svo er þetta auðvitað hið mesta rugl að maður sé að henda atkvæðinu, með því að kjósa I er maður auðvitað að hafa hlutfallslega mest áhrif, miðað við fylgi flokksins ;o)
Hjartanlega sammála.
http://baggalutur.is/gestapo/profile.php?mode=viewprofile&u=37&n=5849
Hmm…. 5000 atkvæði dugðu nú ekki til að því virðist…
En létt að vera vitur eftir á.
@Andri, rétt ég sá ekki silfrið, enda byggi ég þessa skoðun mína á Guðmundi ekki á einni klukkustundar langri session í sjónvarpi. Ég byrjaði að hlusta á manninn árið 1999. Held það hljóti að kvalifæja mig til að hafa skoðun á honum.
Þú getur náð honum vikulega í fjölmiðlum ef þú hefur áhuga á að byggja upp álit á honum byggt á meiru en þessum klukkutíma þætti.