Af netsíum, klámi og vondum hugmyndum

BigBrotherFyrir nokkrum vikum kynnti innanríkisráðherra á ríkisstjórnarfundi aðgerðir er lúta að klámi.

Í kjölfarið hefur skapast mikil umræða. Þar hafa margir orðið til þess að benda á þá stórkostlegu galla og hættur sem í þessum hugmyndum felast, þó svo þeir séu hratt og örugglega stimplaðir í “hagsmunagæslu fyrir klámiðnaðinn” af ráðherra sjálfum og af öðrum jafnvel eitthvað þaðan af verra. Ögmundur segir að þessar ábendingar séu gerðar “undir formerkjum tjáningarfrelsis”. Eins og það sé skammarlegt!

Í minnisblaði ráðherra sem vefritið Smugan hafði fengið í sínar hendur stendur orðrétt:

„Hópnum er gert að taka til sérstakrar skoðunar möguleg úrræði sem heimila lögreglu að knýja eiganda, hýsingaraðila eða fjarskiptafyrirtæki til að loka á dreifingu efnis, þ.m.t. efnis sem hýst er erlendis og/eða hýsingaraðili er óþekktur.“

Ímyndið ykkur þessa setningu í einhverju öðru samhengi. Mér er illmögulegt að lesa ofangreint á annan hátt en að til skoðunar sé að koma upp einhvers konar eftirlitsstofnun eða öðru valdi sem geti stjórnað því miðlægt hvaða efni sé aðgengilegt fólki á Íslandi á netinu.

Það er frægt að leiðin til heljar er vörðuð góðum ásetningi. Að baki þessum hugmyndum liggur meðal annars “mikilvægi þess að börn hafi ekki aðgang að grófu efni”.

Af þeim sem ég þekki og bent hafa á gallana og hætturnar við þessar hugmyndir, veit ég ekki um neinn sem er ósammála því að þetta sé mikilvægt. Til þess að sporna við því eru hins vegar ótalmargar leiðir sem ekki fela í sér miðlæga stjórnun á því hvaða efni sé aðgengilegt á Íslandi.

Fjarskiptafyrirtækin bjóða flest upp á lausnir sem leyfa foreldrum að stjórna slíku aðgengi mjög nákvæmlega (Síminn, Vodafone). Málið er mér nokkuð hugleikið, enda var ég meðal þeirra sem unnu að því að Síminn setti slíka lausn á markaðinn fyrst íslenskra fjarskiptafyrirtækja.

Jafnframt er til margskonar hugbúnaður sem setja má upp á tölvum og heimanetum til þess að stjórna aðgengi barna að netinu eða tilteknum hlutum þess. Leiðin til að taka á vandanum er nefnilega, eins og við svo mörgu öðru fræðsla og vitundarvakning. Ekki miðstýring og bönn!

Í hvert sinn sem við veitum stjórnvöldum ný tæki eða völd, verðum við líka að hugsa hvernig gætu stjórnvöld sem okkur hugnast síður nýtt sér þau sömu tæki og völd? Stjórnvöld með miðstýrð tæki og völd til að loka aðgengi að efni á internetinu og þar með – óhjákvæmilega – einnig til að fylgjast með netnotkun Íslendinga, eru stjórnvöld sem við eigum að óttast.

Í síðustu viku átti ég spjall við nokkuð áhrifamikinn bandaríkjamann sem er með áform uppi um að bjóða hýsingu á efni og þjónustu til félagasamtaka, einstaklinga og fyrirtækja sem vilja ekki vera undir ægivaldi því sem Patriot Act og önnur rannsóknaleyfi og takmörkun á frelsi sem bandarísk yfirvöld hafa sett upp í nafni hryðjuverkaógnar hafa haft í för með sér. Einn af þeim stöðum sem honum hafði þótt koma til greina fyrir slíka hýsingu var Ísland. Hann hafði hins vegar heyrt af þessum hugmyndum Ögmundar og afskrifaði landið umsvifalaust sem mögulegan hýsingarstað. Það kaldhæðnislega er að mig grunar að sumir fylgismenn hugmynda Ögmundar myndu að sama skapi rifna af stolti ef Ísland gæti veit meðlimum samtaka eins og t.d. Occupy skjól fyrir sambærilegu valdi bandaríkjastjórnar.

Að lokum: Fólk í ábyrgðarstöðum verður að tala af ábyrgð. Ágæt regla fyrir ráðamenn gæti verið að viðra hugmyndir sínar fyrst í litlum hópum áður en þeir fara með mál í formlegan feril í kerfinu. Nýlega höfum við séð fleiri mál þar sem farið er af stað með alvarlega vitleysu (t.d. græðaraályktun Ólínu og co) í feril hjá Alþingi eða ráðuneytum og því svo haldið fram – þegar umræðan leiðir þau út í horn – að þetta hafi bara verið gert “til að hefja umræðu” eða “setja mál til skoðunar”. Er virkilega “vert að efna til umræðu um” miðlægt ríkisvald til að stjórna því hvaða efni sé aðgengilegt fólki á Íslandi í upphafi 21. aldar?

10 comments

    1. Ég tel mig hafa útskýrt það nokkuð vel hér að ofan, og get ekki svarað þessari almennu spurningu þinni betur en orðið er. Ég vona að þú hafir lesið færsluna og velt henni aðeins fyrir þér áður en þú skrifaðir þessa athugasemd, en ekki bara skrunað beint hingað og skráð þetta með fyrirfram gefnar hugmyndir um hvað þú ætlaðir að segja.

      Hafirðu lesið greinina er ég líka viss um að þú getir komið með mikið einbeittari spurningar eða gagnrýni á efni hennar sem ég er meira en tilbúinn að svara, skýra og taka þátt í umræðu um.

  1. þetta snýst ekki beint um að hefta dreifingu á klámi, heldur snýst þetta í raun um að gefa yfirvöldum verkfæri til þess að hefta aðgang landsmanna að efni á netinu. Þetta myndi byrja með klámi en svo er aldrei að vita hvað ríkistjórninni myndi detta í hug að stoppa næst…og ef þetta heldur áfram eins og hefur verið þá verður þessi ríkisstjórn búin að setja upp svona gervi internet þar sem Steingrímur J. bjargaði heiminum eða fann upp hamborgarann líkt og fréttist af Kim Jong-un í fyrra (okey kannski soldið öfgafullt, en hver veit).

  2. Bretar með Gordon Brown í broddi fylkingar eru gott dæmi um misnotkun lagaheimilda þegar svokölluðum hriðjuverkalögum var beitt gegn ‘islandi

  3. Ef við lítum til þeirra lista sem önnur lönd, t.d. Danmörk og Ástralía hafa verið með í síunum sínum, þá má sjá að þar er farið út fyrir heimildir og skilgreiningar sem almenningi er sagt að unnið sé út frá. Nokkur dæmi eru t.d. að “politically objectionable” efni sé blokkað og fjárhættuspilasíður, þegar vinnureglur og/eða heimildir þeirra sem blokka hafa verið á að loka bara á klám eða jafnvel bara barnaklám.
    Þessir listar eru nánast alltaf leynilegir og ástæðan fyrir því að við vitum hvað var á þeim er að þeim hefur verið lekið, m.a. af Wikileaks.

    Málið snýst ss. alls ekki um klám, heldur hvort að við treystum ríkisstjórninni fyrir valdi til að velja hvað við getum skoðað á netinu, enda væri hægt að nota það í pólitískum tilgangi.

    Hvað verður svo næst? Til að tryggja jafnrétti, þá ætlum við að tryggja að fyrir hverja blog færslu sem þú lest sem er skrifuð af karli, verðuru að lesa eina eftir konu og þangað til þú gerir það, þá geturu ekki skoðað síður karla? Það er bara réttlátt og því ætti ríkið að hafa vald til að tryggja að það gerist…

    Forræðishyggja ríkisstjórnarinnar heftir rétt einstaklingsins!

    (NB. Ég er ss. sammála pistlinum, þetta rant er til þeirra sem ekki skilja afhverju þetta er slæmt)

  4. Sæll,
    nú hafa verið unnar alþjóðlegar skýrslur um lagaumhverfi fjölmargra ríkja hvað varðar takmörkun á efni á netinu, og um hversu mismunandi leiðir ríki hafa farið í þessu skyni. Það kemur auðvitað til af ýmsum samfélagslegum þáttum en einnig stofnanalegum, enda hafa mörg ríki leyi- eða öryggislögreglur sem hafa annars konar heimildir og úrræði en lögregla almennt. Þegar ég skoða þennan samanburð gengur mér illa að sjá hvernig íslensk stjórnvöld og þessar hugmyndir sem þú vísar til séu dæmi um forræðishyggju.
    Þú virðist vera vel inní netheimaumræðunni og mér þykir þú oft hafa ýmislegt athyglisvert til málanna að leggja. Mér þætti áhugavert að vita hvort að þú sért á þeirri skoðun að stjórnvöld eigi ekki að gera neitt í þessum málum, hvort þú leggir síur að jöfnu við blocking í þessari umræðu og hvort að þú hafir kynnt þér hvernig þetta gengur fyrir sig á hinum norðurlöndunum?

    1. Sæl, þakka hlý orð.

      Það væri gaman ef þú ættir tengla á einhverjar af þeim alþjóðlegu skýrslum sem þú hefur kynnt þér. Alltaf gott að kynnast meira efni um málið.

      Þau dæmi sem ég þekki hvað best í þessu eru tilfelli Ástralíu og Danmerkur (þá undanskil ég einræðis- og harðstjórnarríki sem hafa farið í svona – og auðvitað miklu víðtækari – ráðstafanir af þesu tagi).

      Salvar Þór Sigurðarson rekur ástralska dæmið – og reyndar fleira áhugavert í tengslum við þetta mál í þessu viðtali. Hvað danska málið varðar hefur komið upp úr dúrnum að meira að segja þar – hjá frændum okkar sem við teljum okkur síst að baki í mannréttindum og frelsi – stóðust stjórnvöld ekki mátið og notuðu áþekk lög til að loka á fleira en bara það barnaofbeldisefni sem upphaflega stóð til að loka á. Um þetta má t.d. lesa hér.

      1. Sæll,
        þú gætir skoðað vinnuna sem í gangi hjá ÖSE út frá þessari slóð á upptökur frá ráðstefnu sem þau stóðu fyrir í síðustu viku http://www.youtube.com/watch?v=_t_90Ww3l9Y. Grundvöllur ráðstefnunnar er umfangsmikil rannsókn ÖSE á tjáningarfrelsi á netinu, sem er mjög áhugaverð.
        Unesco gaf úr rannsókn fyrir nokkru sem er á þessari slóð: http://www.unesco.org/new/en/communication-and-information/freedom-of-expression/freedom-of-expression-on-the-internet/internet-freedom-law-and-regulation/, og á eurodig.org má sjá þróunina í umræðunni í Evrópu.

        Í þessu viðtali sem þú bendír á er umfjöllunin um Ástralíu nokkurra ára gömul sýnist mér, hérna eru nýrri upplýsingar: http://www.acma.gov.au/WEB/STANDARD/pc=PC_600165

        Varðandi það sem þú bendir á um reynslu dana þykir mér dæmi um hvernig umræðan um frelsi og ábyrgð á netinu vill oft verða – það hýtur að vera hægt að ræða prinsippið í sjálfu sér og svo útfærsluna og mögulegar hættur við hana.

  5. Ég þarf að gefa mér betri tíma í að skoða þessa ÖSE og UNESCO linka og hef hann því miður ekki aflögu akkúrat núna. Ég tek hins vegar eftir því að í áströlsku greininni sem þú tengir í er ekki lengur talað um netsíun, heldur bara aðgerðir til að koma í veg fyrir birtingu ólöglegu efni. Ég skil það þannig að þjónustuaðilar og aðrir séu aðilar að viljayfirlýsingu um að taka slíkt efni niður með öllum tiltækum ráðum. Þetta er allt annars eðlis en síun á netumferð.

    Ég vil enn og aftur vekja athygli á því að í því skyni að verja börn fyrir óæskilegu efni eru til fjölmargar lausnir sem hver netnotandi getur sett upp á sínum búnaði, eða – með milligöngu fjarskiptafyrirtækisins síns – á sína nettengingu. Það væri frábært að sjá stjórnvöld fara í átak í að kynna og jafnvel stuðla að aðgengi á slíkum lausnum. Því er ég eindregið fylgjandi.

    Það er hins vegar – einmitt í prinsippinu – vond hugmynd að stunda miðlæga síun á netumferð. Ég hef rakið margar ástæður þess hér að ofan og aðrir gert bætt um betur annars staðar. Hætturnar, gallarnir og fórnirnar eru einfaldlega of margar og ávinningurinn miklu minni en ég held að fylgjendur vonist til.

Leave a Reply to Hjalmar Gislason Cancel reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s