Qlik kaupir DataMarket

dm-qlik-logos

Þær eru stórar og skemmtilegar fréttirnar sem við gátum loksins deilt opinberlega núna í kvöld.

Viðskiptagreindarfyrirtækið Qlik sendi eftir lokun markaða í Bandaríkjunum frá sér tilkynningu þess efnis að það hafi keypt allt hlutafé í DataMarket ehf.

DataMarket er því hér með í raun orðið “Qlik á Íslandi” (og já, það er fyndið þegar maður segir það upphátt! 🙂 )

Aðeins meira um Qlik og þetta allt saman á bloggsíðu DataMarket. Um kaupin sjálf og fyrirætlanirnar í framhaldinu munum við ekki segja meira en þar kemur fram í bili.

Þar sem ég þykist viss um að margir vilji vita hvað þetta þýðir fyrir starfsemi DataMarket á Íslandi og hvernig þetta gekk allt fyrir sig, þá er rétt að koma nokkrum hlutum að:

  • Óbreytt þjónusta við viðskiptavini: Þjónusta við viðskiptavini okkar á Íslandi verður óbreytt. Viðskiptavinir munu fá póst þess efnis eftir helgi og við munum glaðir veita frekari upplýsingar.
  • Fjárfest verður í aukinni þróun á Íslandi: Við erum ekki – frekar en fyrri daginn – að flytja úr landi. Þvert á móti stefnum við á umtalsverða uppbyggingu hér á næstu misserum og munum fljótlega þurfa að finna fólk til að fylla í ný og spennandi störf. Það verður virkilega gaman að geta boðið íslensku gagna- og hugbúnaðarfólki upp á tækifæri til að vinna hjá stóru og farsælu alþjóðlegu fyrirtæki.
  • Gjaldeyrishöftin verða að fara: Þetta er búið að vera langt og snúið ferli, og stærsti flækju- og áhættuþátturinn í ferlinu öllu var íslenskt efnahagsumhverfi. Gjaldeyrishöft, “gulir miðar”, undanþágur og lagabreytingar sem höfðu bein áhrif á fyrirhugaða útfærslu viðskiptanna kölluðu á mikla yfirlegu, ráðgjöf, kostnað, áhættu og óvissu sem hvorki kaupandinn né seljendur hefðu þurft að glíma við annars staðar. Það er þó rétt að taka fram að starfsmenn Seðlabanka reyndust okkur vel og á endanum fannst viðunandi lausn á öllum málum. Þeir sem eiga pirringinn skilinn eru þeir sem ollu því að setja þurfti höftin á til að byrja með, og svo stjórnvöld (núverandi og fyrrverandi) sem ekki hafa fundið leið út úr þeim.
  • Það munar um minna: Kaupverðið kemur svo sem fram í tilkynningunni, þannig að það er ekkert leyndarmál. Fjárfestar eru allir að fá mjög góða ávöxtun á sitt fé og eru ánægðir með árangurinn. Þetta er meira að segja nóg til að hreyfa nálina pínulítið í einhverjum hagstærðum, sem er umhugsunarvert. Að 15 manns sem setjast niður við Klapparstíg með svolitla fjármögnun, kaffi og aðgang að internetinu geti búið til slík verðmæti í formi hugverka. Með öðrum orðum: Með því einu að hugsa um það.

Ég er auðvitað stoltur af því að hafa fengið að leiða þessa uppbyggingu, en umfram allt er þetta árangur heildarinnar. Hópsins sem stóð að baki fyrirtækinu með fjármögnun og stjórnarsetu og hinum ýmsu sem gáfu okkur góð ráð og bendingar og studdu áfram þegar á þurfti að halda. Tækniþróunarsjóður og endurgreiðsla rannsóknar- og þróunarkostnaðar frá Ríkinu skipti okkur líka miklu. En umfram allt er þetta samt árangur starfsmanna, bæði núverandi og fyrrverandi. Þið hafið búið til afburðatækni sem nú finnur sér farveg á markað í gegnum stórt og alþjóðlegt fyrirtæki – og gæti breytt markaði viðskiptagreindarlausna til frambúðar þegar nýjum lausnum verður hleypt af stokkunum undir merkjum Qlik. En meira um það síðar.

Stórt TAKK til ykkar sem stóðuð með okkur í þessu. Nú tekur við nýr og spennanndi áfangi á nýjum vettvangi!

6 comments

  1. Innilega til hamingju, er stoltur af því að hafa fyrstur kynnt Qlik inn á íslenskan markað…

  2. Magnað, hvern hefði grunað. Greinilega mjög spennandi tímar framundan, get ekki beðið 🙂

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s