Author: Hjalmar Gislason

About Hjalmar Gislason

Founder and CEO of GRID (https://grid.is/). Curious about data, technology, media, the universe and everything. Founder of 5 software companies.

Þriðjudagstæknin: Sniglapósturinn lifir

Efni Þriðjudagstækninnar í dag er framtíð póstþjónustu – ekki tölvupóstþjónustu heldur hins – sniglapóstsins

Það þótti voða fyndið svona í árdaga Netsins að vísa til bréfasendinga sem “sniglapósts” eða “snail mail”. Svoleiðis póstur var gamaldags, tók langan tíma, kostaði – með öðrum orðum tilheyrði gamla tímanum.

Enginn gekk þó auðvitað svo langt að spá aldauða póstsendinga. Það verður alltaf þörf fyrir að flytja atóm á milli staða. Það er lítið gagn af tölvupósti til að senda bók, bangsa eða brjóstsykur sem gjöf til fjarstaddra ættingja. Hann dugar varla einu sinni til að framkalla öfundartilfinninguna sem póstkort gera. Það er eitthvað raunverulegara við það að fá handskrifað kort með frímerki og mynd af kokteilglasi á sundlaugarbakkanum en að fá tölvupóst sama efnis. Að við tölum nú ekki um alla hlutina sem tilheyra kannski ekki hefbundnum póstsendingum, en þarf að flytja á milli landa: mat, húsgögn, bíla, súrál, síld og sjálf okkur.

En engu að síður hefur Netið breytt starfsemi póst og flutningafyrirtækja verulega og reyndar eru þær breytingar rétt að byrja.

Hefðbundin “sendibréf” eru svo að segja horfin úr umferð. Fyrir 100 árum, jafnvel bara 50 árum, var þetta eini raunverulegi valkosturinn fyrir venjulegt fólk til að eiga í samskiptum milli landa. Maður settist niður og handskrifaði nokkurra síðna bréf, sem síðan var flutt með bílum, skipum og jafnvel hestvögnum á áfangastað. Þó svarið væri sent um hæl gat hæglega liðið meira en mánuður milli sendingar og svars, þó ekki væri lengra að fara en til Danmerkur. Í dag skiptast kunningjar jafnvel á mörgum bréfum á dag milli Nýja Sjálands og Íslands. Engin furða að þessi samskiptamáti hafi orðið undir.

Á hinn bóginn hefur verslun á Netinu stóraukið bögglasendingar í hinum vestræna heimi. Margt af því sem áður var keypt í “heimabyggð”, er nú keypt á Netinu og flutt langar leiðir með pósti. Íslendingar eru reyndar slappir í netverslun samanborið við aðra net- og upplýsingatækninotkun. Árið 2005 verslaði einungis tæplega þriðjungur íslenskra netnotenda á netinu, sem er undir meðallagi í Evrópusambandinu (sjá skýrslu Hagstofunnar: Ísland í evrópsku upplýsingatæknisamfélagi). Netverslun innanlands er svo að segja óþekkt, þrátt fyrir nokkrar heiðarlegar tilraunir til að setja upp netverslanir hér á landi. Meira er um að verslað sé um netið frá útlöndum, en óskýrt kerfi tolla og aðflutningsgjalda hef ég grunað um talsverð fælingaráhrif þar. Sem betur fer heyrir nánast sögunni til að maður þurfi að fara upp í aðalmiðstöð póstsins uppi á Höfða til að leysa út Amazon sendingar, en það er ekki langt síðan það var reglan frekar en undantekningin.

Meiri stafrænn póstur
Í dag er stór hluti greiðsluseðla á Íslandi orðinn stafrænn. Greiðsluseðillinn birtist í heimabanka greiðandans og er greiddur þar, án þess að pappír komi þar nokkru sinni nálægt. Að vísu eru pappírsseðlarnir gefnir út og sendir samhliða, einkum vegna þess að pappír leikur mikilvægt hlutverk í bókhaldi, en þessi pappírsárátta mun hverfa.

Rafræn útgáfa af þessu tagi er afar þægileg fyrir alla aðila málsins. Fyrir fólk eins og mig, sem sitja við tölvu mestallan daginn, vil ég helst sjá sem mest af mínum samskiptum fara sömu leið og þar býð ég eftir næstu skrefum í póstþjónustu.

Ég vil helst bara fá allan póstinn minn sem tölvupóst. Ég vil geta stofnað pósthólf (svona físískt, úr málmi) og látið allan pappírspóstinn minn berast þangað. Þar tekur einhver við honum, skannar hann inn, gerir hann aðgengilegan í mínu rafræna pósthólfi á netinu og sendir afrit eða tilkynningu sem tölvupóst.

Til að byrja með gætu þetta bara verið á myndaformi, en seinna meir væri sjálfsagt að beita OCR-tækni (eða “ljóslestri” eins og það heitir á íslensku) á bréfin, þannig að textinn yrði stafrænn og þar með hægt að fara að leita (eins og í “gú…” ég meina “embla“) í pappírspóstinum sínum. Og þar með er ekki öll sagan sögð. Á hvert bréf væri hengt heimilsfang viðtakandans. Ég gæti þessvegna ýtt á “Reply” í póstforritinu mínu og svarað póstinum. Það svar yrði svo prentað út og sent í sniglapósti til baka. Að sjálfsögðu gæti ég líka sent slíkan póst á hvaða heimilsfang sem er að mínu eigin frumkvæði. Minn endi á póstsamskiptum er þar með orðinn stafrænn.

Langstærsti hluti bréfasendinga eru nefnilega í kjarnann “bara upplýsingar” og pappírinn bara miðill til að flytja þær. Upplýsingum líður svo miklu betur á stafrænu formi.

Það sem meira er – ef viðtakandinn er líka skráður í þessa stórgóðu þjónustu, þá þarf aldrei að prenta bréfið út. Smám saman flyst meira og meira af póstsamskiptum á Netið, en ég – sem notandi – þarf aldrei að velta því fyrir mér hvort viðkomandi sé þátttakandi í þjónustunni eða ekki.

Og þetta allt myndi ég borga fyrir, rétt eins og ég geri fyrir venjulegan pappírspóst í dag. Kannski Bill Gates hafi haft rétt fyrir sér eftir allt saman að við myndum kaupa frímerki á tölvupóstinn okkar í framtíðinni.

Póstfyrirtækin eru auðvitað í góðri aðstöðu til að setja upp svona þjónustu, en það er ekkert sem kemur í veg fyrir að einhver óháður aðili úti í bæ komi þessu á fót. Sá sem grípur tækifærið er svo í lykilaðstöðu þegar kemur að útgáfu rafrænna auðkenna og til að bjóða upp á allskyns viðbótarþjónustu – væri til dæmis ekki ljúft strákar – svona á Valentínusardaginn að geta sent frúnni blóm og skrautskrifað kort með einum einföldum tölvupósti? 😉


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Þriðjudagstæknin: Spáð í framtíðina

Efni Þriðjudagstækninnar að þessu sinni eru framtíðarspár, gagnsemi þeirra og tilgangur.

Í tækniheiminum er umtalsverður fjöldi fólks sem vinnur við það að spá fyrir um framtíðina. Þetta eru ráðgjafar stjórnvalda, stórfyrirtækja og stofnanna sem ætlað er að spá í spilin svo hægt sé að móta stefnu, skapa lagaramma, mæta ógnum og koma auga á ný viðskiptatækifæri.

Þetta er ekki einfalt starf. Allir þekkja fræga framtíðarspádóma sem ekki hafa ræst. Flugbíllinn hefur verið á næstu grösum allt frá 1920 og enn hefur (augljóslega) enginn spáð réttilega fyrir um heimsendi, þó margir hafi reynt.

Af óheppilegum dæmum úr tölvuheiminum má nefna tvö frábær dæmi:

  • 1943 spáði Thomas Watson, stjórnarformaður IBM, því að það væri markaður fyrir 5 tölvur í heiminum – nokkurntíman. Í byrjun 6. áratugarins hafði hann uppfært spána í 25.
  • Í kringum 1980 var settur upp vinnuhópur hjá sænska fjarskiptafyrirtækinu Ericsson, sem átti að kanna framtíðarmöguleika nýrrar tækni – svokallaðra farsíma. Niðurstaða hópsins var sú að – jú, líklega væri markaður fyrir ein 20þús tæki í heiminum. Líklegustu kaupendurnir væru trukkabílstjórar, en samkeppnin við símasjálfsala á bensínstöðum væri líklega of hörð. Í dag eru um 1.3 milljarðar farsíma í heiminum. Trukkabílstjórar ku vera meðal kaupenda.

En framtíðarspár eru alvarleg starfsgrein og er engan veginn rétt lýst með dæmum um misheppnaða spádóma eins og þessa hér að ofan – og kannski voru þessir spádómar ekki svo slæmir. Takið t.d. eftir því að Ericsson hafði þó framsýnina til að skoða málið, nærri 20 árum áður en farsímarnir slógu í gegn. Framtíðarspár af þessu tagi eru sambland af vísindum, ofvirkni í því að fylgjast með nýjustu straumum og stefnum og hugmyndaauðgi.

Hjá British Telecom vinnur maður að nafni Ian Pearson. Á vefsíðunni hans má finna pistla um það hvernig hann sér framtíðina fyrir sér, allt frá klósettinu til auglýsinga og frá heilsugæslu til heimsvæðingar. Fullt af áhugaverðum pælingum.

Pearson leiddi líka verkefni hjá BT sem hét BT Exact og átti að spá fyrir um framtíðina allt að 100 ár fram í tímann. Útkoman úr því var BT Technology Timeline (það er líka til voða fansí flash útgáfa), spá um framtíðarþróun á einum 20 sviðum tækni og mannlífs – hugmyndarík úttekt þó svo að það verði ekki sagt að hugmyndaauðgina vanti þegar frá líður.

Annar góður framtíðarspámaður sem reyndar vann líka hjá BT um tímar er Peter Cochrane og á vefnum Edge – the third culture er samfélag á annað hundrað hugsuða sem skiptast á skoðunum og birta reglulega áhugaverðar greinar. Virklega skemmtilegt efni, þegar maður loksins hefur áttað sig á því hvernig vefsíðan virkar, sem er á mörkunum að sé fyrir fólk með greindarvístölu á við okkur, venjulega fólkið.

Sumir tæknisnillingar hafa varað við framtíðinni, jafnvel þótt þeir hafi átt dágóðan hlut í að skapa nútímann. Þar fara einna fremst menn eins og Bill Joy, annar af stofnendum Sun tölvufyrirtækisins og aðalheilinn á bakvið smávægilega hluti eins og UNIX stýrikerfið og Java forritunarmálið. Hann varaði við nanótækni í frægri grein sem birtist í Wired árið 2001 og ber titilinn “Why the future doesn’t need us“. Það er kannski samt rétt að afskrifa spádóma Joy ekki alveg. Þann 11. september 2001 sat hann á hótelherbergi á Manhattan og var að skrifa bók um það hvernig stefna Bandaríkjanna í miðausturlöndum myndi á endanum leiða til alvarlegrar hryðjuverkaárásar á Bandaríkin!

Annað tæknigúrú sem hefur varað við óheillavænlegri þróun í tæknimálum er Raymond Kurzweil. Hann á aragrúa merkilegra uppfinninga á borð við fyrstu lesvélina fyrir blinda, hljómborð og hljóðgervla ýmiskonar og hugbúnað til greiningar á þróun á gengi hluta- og verðbréfa. Hann hefur skrifað tvær bækur – The Age of Intelligent Machines og The Age of Spiritual Machines – um það hvernig gervigreindar tölvur muni taka yfir heiminn – jafnvel á næstu 20 árum eða svo. Hann brást jafnframt ókvæða við þegar “uppskriftin” að spænsku veikinni var birt í vísindatímaritum, vegna þess að það gæfi hryðjuverkamönnum tækifæri til að fjöldaframleiða veiruna.

    Hliðarskref: Í þessari sífelldu hryðjuverkaumræðu minnist ég þess alltaf að það deyja fleiri í bílslysum á hverjum degi eins og hafa látist í hryðjuverkaárásum í heiminum öllum síðastliðin 10 ár, að ótöldum náttúruhamförum, hungursneiðum og sjúkdómum. Halló – fókus!

Bill Gates hefur ítrekað farið flatt á framtíðarspám. Á níunda áratugnum sagði hann að enginn tölva þyrfti meira en 640Kb minni. Í dag er meðal heimilistölva með 1.000-2.000 sinnum meira minni en svo. Hann gaf líka út bók árið 1995 um framtíð tölvutækninnar – en minntist ekki einu orði á Internetið. Gleymið því samt ekki að hann hefur svo oft veðjað á réttan hest að hann er ríkasti maður veraldarinnar (svo ríkur reyndar að það er vandkvæðum bundið að reikna út skattinn hans).

En í raun skiptir minnstu þó framtíðarspámenn hafi sjaldnast rétt fyrir sér. Einn tilgangur framtíðarspádóma er einfaldlega að koma nýjum hugmyndum í umferð og láta þær þróast í meðförum annarra.

Eða eins og tölvunarfræðingurinn og framtíðarspámaðurinn Alan Kay sagði svo snilldarlega: “Besta leiðin til að spá fyrir um framtíðina er að finna hana upp”!


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Spurl leitar að forritara

Spurl ehf. leitar að forritara í spennandi verkefni.

Í starfinu felst forritun á næstu útgáfu Spurl.net bókamerkjaþjónustunnar sem nú hýsir 4,5 milljónir bókamerkja fyrir yfir 30 þúsund manns um allan heim. Jafnframt að aðstoða við viðmótsforritun og léttari bakendavinnslu við leitartæknina okkar – Zniff – sem meðal annars knýr leitarvélina Emblu á mbl.is.

Viðkomandi þarf að hafa reynslu af vefsíðu-scripting málum og gagnagrunnum, helst PHP og MySQL og hafa auga fyrir viðmótshönnun og framsetningu. Þekking á CSS, XML, RSS, Atom, Python, Java, Javascript og myndvinnslu eru allt stórir kostir.

Umfram allt leggjum við áherslu á brennandi áhuga á því að taka þátt í þróun á spennandi hugbúnaði, hugmyndaauðgi, vinnusemi og fjölhæfni.

Aldur og menntun eru ekki höfuðatriði, en reynsla og fyrri verkefni (hvort sem er í vinnu eða fikti) munu ráða miklu.

Þeir sem hafa áhuga eru beðnir um að senda póst á jobs@spurl.net með stuttum inngangi, lýsingu á fyrri verkum (tenglar ef mögulegt) og öðrum upplýsingum sem þið teljið að skipti máli. Öllum verður svarað.

Fjöllin og fræga fólkið á Emblu

Fyrir stuttu skrifaði ég um nokkur sæt Emblu trikk sem við erum búnir að vera að kóða inn í Embluna. Ég sagði að það væri meira á leiðinni og nú eru dottin inn tvö ný trikk.

  • Nöfn þekktra einstaklinga: t.d. Jón Arnar Magnússon. Birtir stuttan texta um viðkomandi og tengil á færslu um hann eða hana í bókinni Samtíðarmenn, frá Eddu. Alls eru þetta um 1700 einstaklingar.
  • Örnefni og staðir: t.d. Hólmavík. Þarna eru inni um það bil 9000 örnefni og með því að smella á tengilinn fæst kort af svæðinu úr Kortabók Íslands þar sem staðurinn er. Viðmótið á kortunum mætti vera betra (það þarf að skima kortið í leit að nafninu), en engu að síður er þetta mjög hjálplegt. Vonandi tökum við þetta lengra fljótlega.

Svo er von á fleiru svipuðu. Þið bíðið bara spennt á meðan 🙂

Þriðjudagstæknin: Svæðaskipt internet

Efni Þriðjudagstækninnar í dag eru tilraunir manna til að binda þjónustuþætti og dreifingu á efni á netinu við svæði og landamæri með misjöfnum árangri.

Vissir þú að Internetið er ekki alls staðar eins?

Ýmsar efnisveitur, þjónustur og vefir laga sig að því hvar notandinn er staddur í heiminum, ýmist til hins betra eða hins verra.

Ástæður þessa geta verið hinar og þessar. Í sumum tilfellum er um að ræða tilraunir til einhverskonar ritskoðunar, annað hvort að hálfu stjórnvalda, eða þess sem rekur síðuna. Í öðrum tilfellum er um að ræða leyfismál sem hafa ekki enn lagað sig að breyttum aðstæðum og stundum er verið að reyna að aðlaga þjónustuna að notandanum, t.d. með því að velja sjálfkrafa rétt tungumál, birta staðbundnar auglýsingar eða fela þjónustuþætti sem ekki eiga við á viðkomandi svæði.

Þegar farið er inn á vefsvæði Google í fyrsta skipti frá tölvu á Íslandi, birtist viðmót síðunnar á íslensku. Þessi eiginleiki, eins og flestir slíkir eiginleikar byggja á því að IP tölu tölvunnar (IP talan er eins konar auðkenni eða heimilisfang tölvunnar á netinu) er flett upp í töflum sem tengja ákveðnar IP tölur, eða öllu heldur raðir af IP tölum, við ákveðinn stað í heiminum. Oft er þetta bara ákveðið land, en stundum er þetta jafnvel enn þrengra og hægt að segja til um það í hvaða borg eða jafnvel borgarhluta notandinn er, hafi maður til þess nægilega góðar upplýsingar.

Ef þú hefur áhuga, getur þú séð þína eigin IP-tölu hér. Á þessum lista, má sjá IP-talnaraðir allra íslenskra tölvuneta. Hvert tölvunet tilheyrir einu fyrirtæki eða rekstraraðila, yfirleitt fjarskiptafyrirtæki. Með því að þekkja dreifisvæði viðkomandi fyrirtækis má nokkuð örugglega segja til um staðsetningu notanda með IP-tölu í viðkomandi runu. Meira að segja á Íslandi má þrengja hringinn nokkuð útfrá IP-tölu notandans.

Það má sækja svona lista allvíða á Vefnum og með slíkan lista við höndina getur í raun hver sem er á frekar einfaldan hátt sett upp staðbundna þjónustu á netinu. Sem dæmi má benda á vefsíðu GeoIP frá MaxMind, en þar er líka hægt að prófa að fletta upp IP tölum og sjá hvar þær eru staðsetta, skv. gögnum MaxMind. Á vefsíðunni IP-to-country er líka hægt að sækja stóran lista af slíkum upplýsingum frítt.

En nóg um tæknina. Hvernig er fólk að nota þetta?

Vondu notin

Allþekkt dæmi eru tilraunir nokkurra þjóða, s.s. Kína og Singapore til að takmarka aðgang þegna sinna að efni á Vefnum sem er stjórnvöldum þar miður þóknanlegt. Í báðum löndum voru stjórnvöld með fólk í vinnu við að ritskoða vefsíður og samþykkja eða hafna aðgangi að þeim fyrir íbúana.

Við skulum sleppa allri umræðu um réttmæti eða skynsemi þessarra aðgerða í bili, en þetta þýðir að venjulegun kínverskur netnotandi er mjög erfitt að komast í óritskoðaðar upplýsingar um það sem er að gerast í heiminum – enn erfiðara en okkur hinum, þ.e.a.s. 😉 Tæknilega er hins vegar mjög erfitt að koma fullkomlega í veg fyrir þennan aðgang. Nördarnir hafa svo sem fundið leiðir fram hjá þessu (með notkun proxy þjóna utan Kína), en slíkt er ólöglegt og aðstandendur slíkra tilrauna hafa verið fangelsaðir fyrir.

Nokkuð frægt er að vefsíða George Bush (ekki lengur til sem slík) var ósýnileg notendum utan Bandaríkjanna í aðdraganda kosninganna 2004. Þrátt fyrir allar samsæriskenningar var ástæða þess sú að óprúttnir aðilar einhvers staðar í heiminum stóðu fyrir árásum á vefsvæðið og tæknimenn Bush og félaga sáu þann möguleika einan í stöðunni að loka bara á allt utan US of A. Það er ekki svo margt þar fyrir utan hvort eð er, er það nokkuð?

Svo eru það blessuð leyfismálin. Það mun taka þau allnokkur ár til viðbótar að aðlaga sig að “heimsþorpinu” á Vefnum. Gott dæmi er iTunes verslunin sem er algerlega bundin við þau lönd þar sem Apple hefur náð samningum við eigendur flutningsréttar. Ísland er að sjálfsögðu ekki þar á meðal, enda áreiðanlega ekki ofarlega á lista Apple og STEF alveg áreiðanlega guðs lifandi fegnir. Og ekkert vera að reyna að svindla á þessu – jafnvel þó þú verðir þér úti um Bandarískt greiðslukort og borgir fyrir tónlistina sem þú halar niður af iTunes er hún alveg jafn stolin – þú ert ekki að greiða fyrir flutningsrétt á Íslandi. En sú hringavitleisa.

Nýja Google Video verslunin er enn eitt dæmið. Þar gefst Bandaríkjamönnum kostur á að horfa t.d. á NBA leiki fyrir 2$ stykkið, en ekki okkur hérna. 365 á nefnilega íslenska flutningsréttin og Google samdi bara um Ameríkumarkað.

Þetta er þó a.m.k. að einhverju leiti skiljanlegt. Lög eru jú lög og það tekur tíma að breyta þeim, ekki síst þegar hagsmunaaðilar telja það sér til góða að ekkert breytist. Prófið hins vegar að fara á vefsíðu SHO kvikmyndafyrirtækisins. Þetta er fyrirtækið sem framleiðir m.a. sjónvarpsþættina “The L Word” og “Dead like me” og kvikmyndir á borð við A Few Good Men, Farenheit 9/11 og Tombstone.

“We at Showtime Online express our apologies; however, these pages are intended for access only from within the United States.” – hvað meiniði eiginlega? Hver gæti mögulega verið ástæðan til að leyfa manni ekki að lesa um þætti sem maður sér í sjónvarpinu upp á hvern dag?

Ef þið viljið sjá hvað er á þessari stórhættulegu síðu (eða öðrum lokuðum síðum), þá getið þið notað síður á borð við SpySurfing og slegið þar inn veffang viðkomandi síðu.

Góðu notin

Á hinn bóginn er þessi sama tækni líka notuð í góðum tilgangi. Áður hefur verið nefnt dæmið um að velja tungumál eftir því hvaðan notandinn kemur. En það er bara lítið dæmi. MSN spjallforritið sem flestir tölvuvæddir Íslendingar kannast við lítur talsvert öðruvísi út fyrir notanda í Bandaríkjunum en hjá okkur hérna. Það eru þá aðallega allskyns viðbótarmöguleikar sem við missum af – tengingar MSN spjallforritsins við aðra hluta MSN þjónustunnar, s.s. fjármálaupplýsingar, sölu á hótelgistingu og ferðum og einkamálaþjónusta svo dæmi séu tekin. Þetta birtist sjálfgefið sem aukaflipar í MSN spjallforritum þar en er ekki aðgengilegt héðan – enda ágætt því að þjónustan á ekki við fyrir okkur. Lítið fútt í að finna deit, ef það er statt á Nýja-Sjálandi 🙂

Staðsetningin okkar er líka stundum notuð, án þess að við vitum, til að velja hvaðan í heiminum gögn eru send til okkar til að hraða gagnasamskiptum. Þar fer fyrirtækið Akamai einna fremst í flokki, en þjónustu þess fyrirtækis notum við sennilega mörg oft á dag án þess að hafa hugmynd um það. Gott dæmi er t.d. þegar við heimsækjum vefsvæði CNN eða Yahoo!

Stærstu möguleikarnir eru samt sennilega fólgnir í auglýsingamarkaðnum. Þeir sem lesa bloggsíður á erlendum vefjum, t.d. á Blogspot hafa sjálfsagt tekið eftir að þar birtast stundum íslenskar auglýsingar. Þetta gerist á sama hátt og annað sem hér hefur verið lýst. Bandarískar vefsíður birta sumar hverjar auglýsingar frá fyrirtækjum í heimaborg notandans og í MSN spjallforritinu mínu hefur verið auglýsing frá BT-tölvum, í fjórar vikur eins og ég vakti athygli á þegar hún dúkkaði upp.

Nærþjónusta af þessu tagi er af mörgum talinn einn af áhugaverðustu vaxtarmöguleikum í Netauglýsingum í dag, enda skiptir staðsetningin eðlilega miklu þegar fyrirtæki velja sér markhópa fyrir auglýsingaherferðir og slíkt. Og ekkert nema gott um það að segja – ef ég þarf að borga fyrir efnið sem ég les á Vefnum með því að horfa (framhj)á auglýsingar, þá er auðvitað bara betra að þær hafi sem mest notagildi fyrir mig sem notanda.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Displaying your Spurl.net bookmarks on your own page

I was playing with this new blog’s template. I had actually forgotten how incredibly easy it is to include your own bookmarks in your own page, complete with folders and everything. The following assumes that you are a Spurl.net user and make note that it will only show the links that you’ve chosen to publicly display (publish).

When that’s set, here are the steps to integrate with your page:

  1. Download this file, extract the php file inside it – called spifdata.php – and put it into a directory called “spif” under the path where you want to use the tree-view. For this page – hjalli.com – the path needs to be: http://www.hjalli.com/spif/spifdata.php (not that it will do anything on its own though).

    Make sure that the “spif” directory is writable by the user “apache” (or whatever the web server user on your server is). This is likely to be a default setting on the server though.

  2. Include this code in your page where you want the tree to appear (you can this very page as an example)

    <div class="spTree">
    <div id="spfc-0" class="spTreeFolderContent">Loading...</div>
    </div>
    <iframe id="spLoader" style="display:none;" width="0" height="0">
    </iframe>
    <script src="http://www.spurl.net/spif/user/user2.js"></script>
    <script>initPage('hjalli');</script>

    …replacing ‘hjalli’ with your username.

  3. Include this line in the section of your page:

    <link href="http://www.spurl.net/variants/default/css/sptree.css"
    type=text/css rel=StyleSheet>

That’s it!

Dauði DV

Deiglan.com lagðist á hliðina, svo vinsæll var undirskriftalisti þeirra gegn ritstjórnarstefnu DV – líklega farið yfir bandvíddarkvótann sinn. Annars væri full ástæða til að hvetja fólk til að skrifa sig á listann.

Það er að vísu all-langt síðan ég hætti svo mikið sem að fletta DV – ég man ekki einu sinni hvaða ósvífni varð til þess á endanum að ég gafst upp. Margir gleyma nefnilega að þeir borga fyrir blað með því einu að fletta því, auglýsingar skila flestum blöðum meiri tekjum en sala og áskrift.

Það er því ekki síður ástæða til að hvetja auglýsendur til að hundsa blaðið – hver vill setja nafn sitt við margt af því sem er birt þarna?

Annars held ég reyndar að hávaðinn sé orðinn nógu mikill. Það kæmi mér á mjög á óvart ef ritstjórn blaðsins verður óbreytt eftir helgina. Það gæti meira að segja verið að sjálf útgáfa blaðsins myndi gerbreytast, eða jafnvel leggjast af.

Það er gott.

4 milljónir bókamerkja á Spurl.net

Í gær dúkkaði 4 milljónasta “spurlið” upp á bókamerkjaþjónustunni okkar, Spurl.net. Það er innan við ár síðan þau voru bara milljón og ekki einu sinni 3 mánuðir síðan þau voru 3 milljónir.

Núna er okkar helsta vandamál að höndla öll þessi gögn þannig að allir séu samt ánægðir með hraðann og gæðin. Það eru uppfærslur á leiðinni, en þetta er forgangatriði – að bæta hraða og nytsemi, áður en við förum að bæta við mjög miklu af viðbótarmöguleikum.

Hvað um það – gaman að sjá svona ört vaxandi kúrvu – vaxtarverkir eru góðir verkir 😉

Þriðjdagstæknin: CES sýningin

Efni Þriðjudagstækninnar í dag er CES raftækjasýningin í Las Vegas

Á hverju ári flykkjast tækjanördar í stórum hópum til Las Vegas í byrjun janúar til að vera viðstaddir CES (Consumer Electronics Show) raftækjasýninguna. Þarna keppast framleiðendur við að sýna það nýjasta í raftækjum fyrir neytendamarkað, allt frá risastórum flatskjám og vélmennum niður í sólgleraugu með innbyggðum skjám, tölvupenna og minniskort.

Það setur að vísu smá svip á samkomuna á hverju ári að Apple tekur ekki þátt í sýningunni, enda halda þeir sýna eigin pílagrímasamkomu – Macworld – í vikunni á eftir (þ.e. í þessari viku), en nóg er nú samt af flottum græjum á svæðinu:

Sony Reader
Rafbókum var ætlað stórt hlutverk í kringum aldamótin, en þær sem komu á markaðinn þá voru stórar og þungar, höfðu lélega skjái, rafhleðslan entist stutt og það sem verst var, það var ósköp lítið efni að fá í þær.

Sony kynnti á CES nýja rafbók, sem nefnist Sony Reader. Tæknilega felst helsta snilldin í Sony Reader-num í skjánum, sem er alveg nýrrar gerðar. Þetta er ekki kristals eða plasmaskjár eins og við þekkjum úr lófatölvum og flatskjám, heldur svokallað eInk, eða rafBlek – tækni sem hefur verið í þróun hjá samnefndu fyrirtæki síðan 1997 og kom upphaflega úr rannsóknaverkefni við MIT tækniháskólann í Boston.

Í stuttu máli samanstendur “skjárinn” af ótalmörgum litlum kúlum, sem hver um sig er á stærð við breidd mannshárs. Með því að hleypa rafstaumi á kúlurnar færast til örsmáar svartar og hvítar agnir inni í þessum kúlum – þær hvítu eru jákvætt hlaðnar og þær svörtu neikvætt með réttri spennu má þannig fá yfirborðið sem snýr að lesandanum til að sýna grátóna allt frá svörtum niður í hvítt (nánar hér).

Með þessu móti fæst háupplausnarskjár sem notar ákaflega lítið rafmagn (ekkert þegar ekki er verið að fletta). Það er ekkert innbyggt ljós og því þarf skjárinn utanaðkomandi birtu og þolir jafnvel vel sólarljós – rétt eins og venjuleg bók, en öfugt við alla skjái hingað til. Og rafhlaðan endist fyrir vikið í 7.500 flettingar.

Með öðrum orðum, þú gætir rennt í gegnum allar Harry Potter bækurnar, biblíuna, Íslendingasögurnar og Þúsund og eina nótt og átt samt eftir nóg eftir af batteríinu til að lesa Símaskrána í ár og í fyrra 🙂

Sony hefur líka komið sér í mjúkinn hjá allmörgum stórum bókaútgefendum sem munu selja bækur sínar í gegnum Sony Connect – vefverslun Sony – í þeirri von að rafbækur verði jafnvinsælar og rafræn tónlist og myndbönd – en það sem hefur helst staðið í vegi fyrir því eru yfirburðir bókaformsins.

Google selur myndefni
Google er strax farið að fylla upp eitthvað af spádómum mínum frá síðustu viku og kynnti til leiks endurbætta myndefnisveitu með því að útvíkka Google Video í Google VideoStore (sjá fréttatilkynningu hér).

Google menn virðast veðja á tvo megin efnisstrauma til að byrja með, efni frá CBS sjónvarpsstöðinni (svo sem Star Trek, CSI, Survivor og I love Lucy) og efni úr bandaríska NBA körfuboltanum.

Mér þykja Google menn fara full hratt yfir sviðið og gamla mottóið þeirra að “gera einn hlut og gera hann vel” er löngu farið fyrir bí. Google Video gæti alveg orðið “player” í þessum leik, en þeir munu seint ná samstarfi við nógu stóran hluta markaðarins til að verða eitthvað á borð við það sem t.d. iTunes er fyrir tónlist. Til þess eru þeir búnir að höggva of nærri aðilum eins og Sony, Microsoft og News Corp á öðrum vígstöðvum – sem síðan eiga ítök í stórum efnisframleiðendum sem munu seint veita sínu efni í gegnum Google.

Gáfaðir pennar
Ég hef í nokkur ár fylgst með og dáðst að sænsk-ættaða fyrirtækinu Anoto. Fyrirtækið framleiðir penna sem auk þess að skrifa – rétt eins og ætlast er til af slíkum gripum – taka líka upp það sem skrifað er og færa á stafrænt form, annað hvort sem teikningar eða texta.

Dæmi: Þú krotar hjá þér glósur á fundi eða í tíma í skólanum og í staðinn fyrir að þurfa að vélrita fundargerðina eða glósurnar inn í tölvu, hleðurðu textanum bara inn í tölvuna yfir þráðlausa tengingu (Bluetooth). Tóm snilld.

Á CES var annað fyrirtæki á ferðinni með sams konar hugmyndir og komst talsvert í pressuna fyrir vikið, en það var EPOS með sinn Digital Pen. EPOS pennarnir eiga að koma á markað seinna á árinu og kosta allt niður í 50$ eða um 3.000 krónur – spurning hvort BIC eigi svar við þessu? 😉

Með skjánn á nefinu
Að minnsta kosti tvö fyrirtæki kynntu sólgleraugu með aukabúnaði. Annars vegar EMagin með Eyebud-línuna sína, þar á meðal Eyebud 800, sem er með pínulítinn skjá innbyggðan í gleraugun þannig að hægt er að horfa á video, t.d. úr iPod video græjunni sem við skoðuðum í Þriðjudagstækninni um jólin. X800 módelið er hægt að tengja við fartölvuna í staðinn. Skyldi mega keyra með þennan “handfrjálsa” búnað? Z800 er svo stóri bróðirinn, en sú útfærsla er einkum hugsuð fyrir leikjafrík og getur skynjað hreyfingar höfuðsins og stýrt með því t.d. leikmanni í þrívíðum skotleikjum.

Hins vegar hefur hinn ofursvali sólgleraugnaframleiðandi Oakley tekið höndum saman með Motorola og framleitt ný sólgleraugu með þráðlausum (Bluetooth aftur) heyrnatólum sem tengjast ROKR símanum (þessum með iTunes í). Gripurinn heitir OROKR og spurning hvort að Ray-Ban fari ekki að verða svoldið gamaldags í kjölfarið.

– – –

Til að sjá meira af öllum þeim aragrúa af dóti sem kynntur var á CES, má t.d. kíkja á eftirfarandi greinar:


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Nýjasta Windows öryggisholan

Nýjasta Windows öryggisholan er býsna alvarleg (sjá frétt mbl.is hér).

Fólk hefur verið að spyrja mig hvort ástæða sé til að gera eitthvað í málinu.

Ég er ekki öryggissérfræðingur, en eftir því sem mér sýnist best, þá er ágætt að gera eftirfarandi – ekki síst ef þið eruð ekki með veiruvarnir og eldveggi alveg á hreinu:

  1. Smella á Start > Run og slá inn:
    regsvr32 -u %windir%\system32\shimgvw.dll
    Smella svo á OK.
  2. Smella á OK í litla glugganum sem sprettur upp.

Þá eruði nánast örugg fyrir þessari holu.

Nánari upplýsingar: