Author: Hjalmar Gislason

About Hjalmar Gislason

Founder and CEO of GRID (https://grid.is/). Curious about data, technology, media, the universe and everything. Founder of 5 software companies.

Þriðjudagstæknin: Tæknispá – átta hlutir sem gerast árið 2006

Í Þriðjudagstækninni í dag ætlum við að kíkja í kristalskúluna og velta fyrir okkur hvað árið 2006 muni hafa í för með sér í tölvu- og tæknigeiranum.

“Það er erfitt að spá, einkum um framtíðina” er haft eftir danska eðlisfræðingnum Niels Bohr. Engu að síður keppast menn um hver áramót við að reyna að spá fyrir um það hvað komandi ár muni hafa í för með sér og ég get auðvitað ekki verið minni maður.

Hér eru átta hlutir sem ég spái að muni gerast á árinu 2006 í heimi tækni, tölva og internetsins:

  • Íslenskt sprotafyrirtæki verður keypt af erlendu stórfyrirtæki. Það eru nokkur lítil fyrirtæki að gera virkilega flotta hluti þessa dagana. Félagar mínir í Hex og dohop, eru þar á meðal. 3-plus (sem framleiðir DVD-kids) kemur vel til greina líka. CCP, Industria og Friðrik Skúlason geta nú líklega ekki talist sprotafyrirtæki lengur en eru öll að gera hluti sem gætu hæglega lent þeim á innkaupalista einhvers risanna sem eru margir í innkaupaleiðöngrum þessa dagana, eiga gríðarlega fjármuni og standa frammi fyrir aukinni samkeppni.

  • Tölvudeild a.m.k. eins af bönkunum verður spunnið frá og gert að sér fyrirtæki sem mun herja á alþjóðamarkað. Það sem bankarnir eru að bjóða upp á hér á landi, t.d. heimabankarnir okkar eru líklega þeir bestu í heiminum. Eins gæti vel verið að einhver finni áhugaverðan flöt á að nýta einstaka möguleika Reiknistofu Bankanna í stærra samhengi, en það er staðreynd að víðast hvar í heiminum tekur 2-3 daga að millifæra peninga á milli bankastofnanna og jafnvel á milli reikninga hjá sama banka, sem hlýtur að þýða að það séu tækifæri í bættri þjónustu.

    …og ekki spillir fyrir að slíkt “spin-of” ætti að hafa tiltölulega góðan aðgang að fjármagni.

  • Leitarvélar halda áfram að breyta heiminum. Vefsíður fyrirtækja munu í auknum mæli leggja áherslu á leit, frekar en flokkuð veftré og leitarboxin fá aukið vægi á síðunum (hér ætti ég náttúrulega skammlaust að vera með auglýsingu enda er Spurl ehf. mér vitanlega eina fyrirtækið á landinu sem sérhæfir sig í hverskonar leit).

    Leit á hörðum diskum og í tölvupósti verður líka gerð öflugari og einfaldari, en innbyggða leitarvélin í Windows Vista sem kemur út í haust mun valda vonbrigðum – ekki síst vegna þess að Microsoft þarf að passa sig á samkeppnisyfirvöldum eftir rimmur síðustu ára.

  • Vöxtur í tölvugeiranum heldur áfram, en þó hægar og með meira á bakvið sig en fyrir 5-6 árum síðan. Þetta mun valda tilfinnanlegum skorti á góðu fólki í tölvugeiranum hér heima. Fyrirtæki munu mæta þessu með úthýsingu að einhverju leiti, en einnig verður ýtt á að boðið verði upp á stuttar, praktískar námsbrautir þar sem efnilegum tölvunörðum og fikturum er breytt í hæft starfsfólk á skemmri tíma en hefðbundið háskólanám, t.d. 12 mánaða nám án sumarfrís.

  • Græjur verða í auknum mæli nettengdar. Uppfærslur á PlaystationPortable (sjá pistil síðustu viku) munu gera mun meira úr nettengunum, notkun á neti í gegnum síma mun byrja að ná sér á flug samhliða auknu framboði á slíkum þjónustum. Mac Mini frá Apple og Playstation 3 munu keppa um að vera “stofutölvan”, þ.e. nettengda boxið sem við notum til að stýra tónlist, sjónvarpsefni og annarri afþreyingu inni í stofu.

  • Google, Yahoo!, TiVo, Netflix, MSN og Apple munu öll stórbæta eða koma fram með nýjar myndveitur og “sjónvarps”-þjónustur. Jafnframt munu koma fram nýjar og áhugaverðar myndveitur sem byggja á peer-to-peer lausnum – löglega.

  • “End-user generated content”, sem e.t.v. má kalla “Efni frá alþýðunni” 🙂 upp á íslensku, þ.e. blogg, tónlist án hefðbundinna útgáfenda, heimagerð myndbönd og slíkt mun skipa sífellt stærri sess og fram koma módel sem gera þessu skapandi fólki færi á að hafa einhverjar tekjur af því sem það er að gera.

  • Síminn mun fara í útrás, enda erfitt að sjá hvernig Íslandsmarkaður einn getur staðið undir verðmati fyrirtækisins og þeim skuldbindingum sem fjárfestarnir hafa gert til að kaupa það. Fyrirtækið er tæknilega fullkomið fjarskiptafyrirtæki og hefur á að skipa þekkingu sem getur hæglega nýst annarsstaðar, ekki síst á ört vaxandi mörkuðum t.d. í Austur-Evrópu og í Bandaríkjunum (já þetta er ekki ásláttarvilla, það eru ýmis sóknarfæri í Bandaríkjunum), en það eru vissulega fleiri um hituna.

Spennandi ár framundan. Kannski verð ég fenginn til að skrifa Tölvuspá Vikunnar fyrir 2007 😉


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Nokkur sæt Emblu trikk

Við Spurl-menn erum búnir að vera að kenna leitarvélinni okkar, sem meðal annars knýr Emblu hjá mbl.is, nokkur ný og sniðug trikk síðustu vikurnar og kannski ekki vitlaust að vekja smá athygli á þeim.

Hugmyndin er sem sagt sú að reyna að veita notendum meiri þjónustu en bara hráa textaleit í þeim tilfellum þegar hægt er að þekkja leitarstrenginn sem eitthvað ákveðið eins og nöfn á fólki, símanúmer eða bókaheiti, svo dæmi séu tekin.

Meðal þess sem er komið inn er eftirfarandi. Endilega smellið á tenglana með hverju dæmi til að sjá hvernig hvert dæmi fyrir sif er afgreitt:

  • Mannanöfn: t.d. Jón Jónsson. Ef leitarstrengurinn þekkist sem nafn, birtum við tengla á uppflettingu í símaskrám Já.is og Og Vodafone eftir sama nafni. Nú þarf bara að slá nafnið á nýjasta skotinu inn á einum stað þegar verið er að leita að upplýsingum um viðkomandi 🙂
  • Símanúmer: t.d. 4404000. Hver var að hringja? Embla birtir tengla á símaskráruppflettingu.
  • Heimilisföng: t.d. Efstaleiti 1. Enn og aftur símaskrár-uppfletting, en líka tengill í uppflettingu á bestu leið þangað með strætó.
  • Nöfn rithöfunda: t.d. Arnaldur Indriðason. Smá upplýsingar um höfundinn og tengill yfir á nánari upplýsingar hjá útgefanda (enn sem komið er bara fyrir Eddu-útgáfu – u.þ.b. 200 höfundar)
  • Bókartitlar: t.d. Íslandsatlas. Smá upplýsingar um bókina og tengill á nánari upplýsingar hjá bóksöluvefjum (enn sem komið er Edda og Bækur.is – u.þ.b. 1800 bókatitlar)
  • Netföng: t.d. hjalli@hjalli.com. Uppfletting í símaskrá og tengill til að senda póst á viðkomandi addressu.

Við erum með langan lista af svipuðum tilfellum sem við ætlum að þekkja og veita viðbótarupplýsingar um. Eins og sjá má af sumum dæmanna að ofan, þá eru þau gerð í samvinnu við fyrirtæki, þ.e. eins konar auglýsingar. Hugmyndafræðin á bak við þetta er engu að síður sú að gagnsemin fyrir notandann sé alltaf í fyrsta sæti. Þessar “sérstöku leitarniðurstöður” eiga alltaf að vera upplýsingar og tenglar sem eru líklegar til að koma notandanum til góða miðað við þau leitarorð sem hann eða hún sló inn. Ef hægt er að samtvinna það við einhverjar tekjuleiðir fyrir okkur eða samstarfsaðila okkar, þá er það svo bara kostur.

Notandinn fær gagnlegar upplýsingar, samstarfsaðilinn góða augýsingu og við nýja tekjustrauma. Allir vinna 🙂

Ég verð að monta mig pínulítið af beygingartækninni okkar sem nýtur sín vel þegar leitað er að nöfnum (t.d. leit að Hjálmar Gíslason) og sýnir nöfnin í réttri beygingu. Þetta er þjónusta frá okkur, byggð á gögnum frá Orðabók Háskólans. Ef einhver hefur áhuga þá er hægt að fá aðgang að þessum möguleikum sem einfaldri vefþjónustu gegn vægu gjaldi.

Ef þið eruð með hugmyndir að fleiri tegundum “sérstakra leitarniðurstaðna” hvort sem er frá sjónarhóli notanda eða samstarfsaðila, þá endilega setjiði ykkur í samband við mig (hjalli@spurl.net) eða skiljið eftir komment hér að neðan.

P.S. Hér er nýrri færsla um fleiri Emblu-trikk

Að fella, drepa eða myrða – þar er efinn

Þegar ég var lítill í sveitinni hjá afa og ömmu, þurfti að fella gamlan hest. Ef ég man rétt var þetta sorglegt, en nauðsynlegt – það er skilningurinn sem ég legg í orðið að “fella”.

Nýlega fannst mér ég svo taka eftir ákveðnu mynstri í umfjöllun íslenskra fjölmiðla. Getur verið að Írakar og Palestínumenn séu felldir, en Bandaríkjamenn og Ísraelar frekar drepnir, myrtir eða falli (að “falla” er mildur dauðdagi, og mun manneskjulegara en að “vera felldur”)?

Ef þetta eru ekki bara hugarórar í mér, hvaðan er þá þessi munur kominn og hvað veldur?

Ég komst svo auðvitað að því þegar ég fór að leita á Emblunni að fleiri hafa velt þessu fyrir sér:

  • Fyrirhyggju við gerð fyrirsagna: Ef við drögum þetta saman til einföldunar getum við sagt að Palestínumenn séu felldir og drepnir til jafns en Ísraelsmenn eru drepnir í eingöngu þriðjungi tilfella en falla í hinum tveim þriðju.
  • Fjöldamorðin í Palestínu og hneykslanleg umfjöllun fjölmiðla: Ein sorglegasta þumalputtaregla sem íslenskir fjölmiðlar nota þegar sagt er frá atburðum dagsins er sú að Palestínumenn eru sagðir “skotnir til bana”, “felldir” eða “hafa orðið fyrir” kúlum ísraelskra “öryggissveita”. Á meðan eru Ísraelsmenn “myrtir” af Palestínumönnum, í sumum tilfellum á “hrottalegan hátt af æstum múg”.

Massively Multiplayer game as a work place

More than two years ago, I wrote a post titled When People are Cheaper than Technology. The basic premise there was that the cheapest and best solution to many problems we are trying to solve by building software systems could be to make people part of those systems – basicly what Amazon is now trying to do with the Mechanical Turk.

I also wrote another one on what I called Games With a Cause – trying to make simple, fun games that whose use would result in data with some research or even monetary value. I even made one, with limited success 🙂

But earlier this week, in yet another nutty conversation with my friend Haukur, we started discussing the incredible amount of time that people all over the world are spending, playing Massively Multiplayer games (MMORPGs). What if just a tiny portion of this playing time could be turned into some “real work”?

The numbers are staggering:

  • A MMORPG game player will spend on average between 12 and 21 hours per week playing their favorite game. (source)
  • Ultima Online players spent more than 160 million man hours playing the game per year around the year 2000
  • World of Warcraft recently reached 5 million subscribers. If the 12 hour number from above holds true that’s more than 3.1 billion man-hours in a year.

A typical man-year (must they be called person-hours to be politicaly correct?) has about 1600-2000 man-hours in western coutries, so Blizzard (the maker of World of Warcraft) is controlling what equals a work force of 1.5 million people! Even if you could only turn a miniscule amount of this time into monetizable work…

And what could that work be? Most of these games have advanced trading systems. Maybe some financial simulations could be run in the game world, if I remember correctly the Nobel prize was awarded a couple of years ago for work in experimental economics. The MMORPGs could be ideal testbeds. Or maybe “stealing” a few computing cycles in the vast grid of connected computers. Or maybe somehow building tasks like image recognition (a la Amazon’s Mechanical Turk) into the gameplay. Or…

My hunch is that simulations of how markets and societies respond to different settings, rules and events would be a good bet.

Imagine – if you could make Blizzard a 0.30$ per hour, that would amount to about 15$ a month, which is incidentally the same as the month subscription – and you could play for free!

Þriðjudagstæknin: Flottustu jólagjafirnar

Efni Þriðjudagstækninnar í dag verður í anda jólanna. Ekki að við ætlum að gefa neitt, heldur ætlum við að kíkja á heitustu græjurnar sem komu upp úr jólapökkunum þetta árið.

Jólin í ár voru mikil græjujól. Það sem hefur líklega staðið uppúr voru flatskjáirnir sem margir versluðu sér fyrir jólin, ýmist fyrir tölvuna, sem sjónvarp inn í stofu eða bæði.

Við ætlum hins vegar að kíkja á þrjá heitustu smápakkana: iPod Video myndspilarann, Playstation Portable leikjatölvuna og Vodafone Simply símann.

iPod Video
Það er erfitt að setja saman pakka af flottustu græjunum öðru vísi en Apple komi þar einhvers staðar við sögu. iPod Video er ein fjölmargra ólíkra útgáfa iPos spilarans sem notið hafa ómældra vinsælda síðan fyrsti iPod MP3 spilarinn kom út 2001. Tæknilega séð er “iPod Video” bara nýjasta útgáfan af “stóra” iPoddinum – afkomandi upphaflegu græjunnar í beinan karllegg. Önnur útgáfa af iPod-inum, iPod nano – MP3 spilari sem er lítið stærri en kreditkort var líka meðal flottustu jólagjafanna í ár.

iPod Video er semsagt MP3 spilari með býsna flottu “twist”-i – hann er með hágæða litaskjá og getur geymt og spilað vídeómyndir, auk tónlistar. Sjálft tækið er reyndar meira að segja örlítið minna en upphaflegi iPodinn, en skjárinn er 320×240 depla háskerpu litaskjár. Þetta er á allan hátt aðdáunarverð græja, en á kannski sínu betur við erlendis þar sem fólk þarf að eyða góðum tíma á leið í vinnu eða skóla með neðanjarðarlestum eða öðrum almenningssamgöngum, þar sem ég sé vel fyrir mér að maður gæti allt eins horft á eina góða bíómynd, og að lesa blöðin á leiðinni í vinnuna – nú eða sækja sér safn af drepfyndnum myndböndum á netið og hlaða inn á iPoddinn.

Helst ókosturinn er kannski að það er ekki mjög auðvelt að verða sér úti um myndefni í græjuna. Minnið nægir fyrir 1-2 bíómyndir í fullum gæðum, en til þess þarf að “rippa” myndina af DVD, minnka hana og þjappa henni svo upp á nýtt fyrir iPoddinn – allflókið, tímafrekt og alls ekki “mömmuhelt” ferli. Eins er iTunes verslunin ekki enn farin að selja myndefni, en það skiptir kannski ekki máli fyrir okkur uppi á Íslandi þar sem við fáum ekki að kaupa neitt efni á iTunes hvort eð er.

Sem sagt – dúndurflott græja, en sennilega aðeins á undan sinni samtíð og ekki endilega fyrir íslenskar aðstæður. Ég hef Steve Jobs satt að segja grunaðan um að hafa komið með þessa útgáfu til að geta sannað mátt sinn og megin og vera fyrstur með flottan lófamyndspilara. Nano-græjan er meira eitthvað fyrir praktíska notendur.

…og svo er Apple að koma út með nýja Mac Mini um miðjan janúar – þetta verður gott ár hjá Apple!

PSP (Playstation Portable)
Fyrr á árinu gaf Sony út Playstation Portable leikjatölvuna. Þarna er meira og minna búið að taka kubbasettið úr gömlu Playstation2 vélinni og þjappa saman í litla og netta 280 gramma vél.

Auk kraftsins sem flestir kannast orðið við úr vinsælustu leikjatölvu allra tíma, var bætt við nokkrum viðbótarmöguleikum, s.s.:

  • Þráðlausu netkorti
  • Vafra
  • Fjölspilunarmöguleikum

Þar fyrir utan er auðvitað búið að breyta stjórntækjunum og koma þeim fyrir á vélinni, auk þess sem sambyggður 480×272 depla “breiðskjár” prýðir vélina. Rétt eins og forverinn getur PSP spilað mynddiska, en sökum stærðar þarf sérstaka diska, svokallaða UMD diska – í hana. Þetta eru litlir mynddiskar í innbyggðu hulstri – ekki ósvipaðir hörðum diskettum sem notðar voru í Amstrad vélarnar fyrir svona 15 árum síðan – sem geta geymt lítil 1.8 GB (feykinóg fyrir mynd í miklu meiri gæðum en vélin ræður við að spila).

Það er orðið magnað hvað er hægt að koma miklu afli í svona litlar – og ódýrar – græjur.

Gallarnir eru einkum tveir. Annars vegar er Sony að reyna að pranga sömu bíómyndunum inn á mann eina ferðina enn á enn einu forminu með UMD útgáfunum. Sko – ég er búinn að sjá I, Robot í bíó, leigja hana á myndbandaleigunni, kaupa DVD-inn og svo Special Edition – svo er hún sýnd á Stöð2 í desember og nú á ég að fara að kaupa hana eina ferðina enn á UMD. Vissulega æðislegt viðskiptaplan, en þeim verður ekki stætt á þessu mikið lengur. Fólk vill kaupa myndefni, ekki plastefni og stafræna tónlistarsalan er reyndar að ryðja brautina í þá átt.

Hinn gallinn er sá að flottasti möguleikinn við PSP – fjölspilunarmöguleikinn – nýtur sín aðeins takmarkað. Tiltölulega fáir leikir styðja hann, og jafnvel þó að hægt sé að lána þessa leiki í eina tölvu (og spila þannig þó aðeins annar leikandinn eigi leikinn), hefði ég viljað sjá Sony innbyggja í stýrikerfið nokkra einfalda fjölspilunarleiki. Bara einhverja einfalda borðleiki og spil. Annars vegar til að kynna möguleikana (og selja þar með meira af alvöru leikjunum) og hins vegar til að þú getir boðið hverjum sem er á kaffihúsinu, í flugvélinni, eða – erhemm – í skólastofunni í leik, jafnvel þó þið þekkist ekki neitt (og þorið ekki að tala saman).

Á næsta ári kemur Sony svo með Playstation3! Jólin 2006 – einhver?

Vodafone Simply
Ég dáist að þessu skrefi hjá Vodafone. Afar og ömmur þessa heims hafa tautað í fimm ár að sími sé tæki til að tala í, ekkert annað – ekkert MMS, GPS eða BSRB eins og Darri segir (nokkurnveginn) í Simply-auglýsingunum.

Konan mín þreytist ekki á að minna okkur tölvunerðina á að fæstir skilja tæknina eða kæra sig um að setja sig inn í hana. Notkunin þarf að vera einföld og augljós og það er þetta sem Simply síminn (hlekkurinn virkar bara í Internet Explorer) gerir. Einfaldur sími, með einföldu viðmóti. Það er hægt að hringja úr honum og í hann og senda SMS – “that’s it”, ekkert meir. Punktur, búið, basta. Og það sem meira er – þeim hefur tekist mjög vel til. Síminn er einfaldur í notkun og skýrir sig nokkurnveginn sjálfur – meira að segja leiðbeiningarnar eru einfaldar og hnitmiðaðar – hver les doðrant á 17 tungumálum þar sem leitun er að upplýsingum um sjálfsögðustu eiginleikana?

Hugsunin á bakvið Simply símann minnir mig á frábæra tilvitnun sem höfð er eftir stærðfræðingnum Blaise Pascal, en hann endaði bréf til vinar síns á orðunum: “Afsakaðu hvað þetta bréf er langt, ég hafði engan tíma til að gera það styttra” – það er nefnilega flókið að gera hlutina einfalda.

Simply síminn er ekki fyrir mig, og ekki fyrir marga af tæknitröllunum sem ég umgengst dags daglega, en ég myndi mæla með honum fyrir svona helming farsímanotenda. Þeir þurfa ekkert meira og vilja ekkert meira.

Það er kannski helst að manni finnist uppgjöf hjá Vodafone að sleppa nettengingunni (vafranum) alveg – en líklega sjá þeir það sem seinni tíma mál. Stríðið við að gera símaupplifunina einfalda vinnst með einum sigri í einu. Vitiði til, innan skamms munum við sjá svipaðan, einfaldan síma, með einföldum vafra, og auglýsingar þar sem Darri er að lesa nýjustu fréttirnar í símanum, gerandi grín að því að Nonni á næsta borði kunni ekki á þetta í sínum síma 🙂


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

dohop.com – íslenskt hugvit kemur þér milli heimshorna


Sennilega hafa nú flestir sem fylgjast með íslenska upplýsingatækniheiminum heyrt af dohop.com nú þegar og jafnvel prófað ferðaleitarvélina þeirra.

Fyrir ykkur hin, þá er þetta sem sagt leitarvél sem leitar að flugi á milli hvaða tveggja staða sem vera skal með hvaða flugfélagi sem er. Takmarkið er að ná inn öllum flugfélögum heimsins og nú þegar eru 650 flugfélög á skrá – þar af nær öll flugfélög í Evrópu, bæði lággjaldafélögin og þessi gömlu góðu. Leitarvélin er einstök í sinni röð og hefur vakið athygli nokkuð víða, m.a. var grein um þá á CNN.com fyrir 3 vikum síðan.

Dohop fór sem sagt úr Beta-prófunum og í loftið “fyrir alvöru” í síðustu viku og það er skemmst frá því að segja að nýja leitarvélin og viðmótið er hrein snilld. Endilega prófiði græjuna. Ég veit að þeim dauðlangar í viðbrögð frá fólki sem prófar og notar þjónustuna til að vita hvað má betur fara og svo framvegis.

Það er félagi minn í Spurl, Frosti Sigurjónsson, sem er upphafsmaður dohop, og hann er búinn að safna saman hóp af snillingum sem sjá um tæknihliðina. Við vorum einmitt að flytja í sameiginlegar skrifstofur á Klapparstígnum ásamt farsímaþjónustufyrirtækinu Hex.

Spennandi tímar framundan!

Íslenskar auglýsingar í MSN Messenger


Tók eftir þessari íslensku auglýsingu á MSN Messenger í morgun.

Hún bendir einfaldlega á forsíðuna á vefnum hjá BT.

Það er gott að íslensk fyrirtæki eru að átta sig á því hvað er hægt að gera í gegnum þessi auglýsinganet eins og t.d. hjá MSN (þeir eru líklega með eitt allra sveigjanlegasta kerfið), og þar sem MSN Messenger er nær einráður á skyndiskilaboða (IM) markaðnum hérna heima, er þetta alveg príma pláss.

Hérna er hægt að sjá alla auglýsingamöguleikana í MSN Messenger og þar má sjá að þessar banner auglýsingar er t.d. hægt að miða eftir landsvæði, aldri, kyni og tungumáli.

Þriðjudagstæknin: Er Internetið að hrynja?

Efni Þriðjudagstækninnar í dag eru endalok Internetsins.

Grein í nýjasta hefti tækniblaðsins Technology Review hefur vakið nokkra athygli í tækniheiminum síðustu daga. Greinin fjallar um galla og takmarkanir Internetsins sem viðmælendur rekja til skorts á skipulagningu og hönnun við uppbyggingu netsins og þeirra staðla sem það byggir á.

Einn þeirra, David D. Clark segir m.a.s. að Netið sé á vatnaskilum – ef ekkert verði að gert muni allt heila klabbið bara hrynja. Einhverra hluta vegna varð mér hugsað til Unga Litla í þessu samhengi.

Gamlir nethundar muna kannski eftir svipuðum fullyrðingum Bob Metcalfe (mannsins sem stofnaði 3Com og fann upp Ethernetið – hvort tveggja stórir þættir í því að gera Netið að því sem það er) árið 1995 þegar hann skrifaði að hann myndi borða dálkinn sinn í Info World ef Internetið myndi ekki hrynja árið 1996 – sem hann og gerði á ráðstefnu ári síðar fyrir framan þúsundir áhorfenda – með stórri skeið 🙂

Nú er ég ekki að segja að Netið sé gallalaust. Langt því frá. Og hún er ekki falleg myndin sem dregin er upp í greinni. Nokkrir punktar:

  • Tölvur 43% Bandaríkjamanna hafa sýkst af njósnahugbúnaði
  • Tilraunum til tölvuglæpa fjölda vírusskeyta í tölvupósti fjölgaði um 50% á fyrri helmingi ársins 2005
  • 60% af öllum tölvupósti í heiminum er kæfa og sem dæmi jókst kæfumagn þeirra fyrirtækja sem Symantec þjónustar um 77% frá 1. júlí til 31. desember á síðasta ári
  • Að auki er netsamband víða ótryggt eins og við þekkjum mætavel

Til að mæta þessum ósköpum öllum vilja ýmsir byrja upp á nýtt. Hanna nýtt Internet með innbyggðum öryggisstöðlum, forgangsmöguleikum, dulkóðun og vörnum gegn ýmiskonar óværu.

Það hljómar alltaf voða vel að hanna eitthvað frá grunni og byrja upp á nýtt. En það vill gleymast að hlutir sem hafa fengið að þróast í langan tíma – hafa byggt inn ýmiskonar þekkingu og lausnir á vandamálum sem nær ógerlegt er að sjá fyrir á hönnunarstiginu. Sveigjanleika og fjölbreytni Internetsins má að stórum hluta rekja til þess að það var voða lítið hannað og planað fyrirfram. Fyrir hendi var einfaldur grunnur og hugmyndaríkir menn og konur fundu leiðir til að nýta það til hins ýtrasta.

Ef reynt er að hugsa fyrir of miklu í upphafi er líklegt að óafvitandi yrði lokað á ýmsa stórsnjalla möguleika sem ómögulegt var að sjá fyrir.

Öryggismál, vírusar og áreiðanleiki eru vissulega vandamál, en þau verða leyst og er verið að leysa með þróun – þau verða ekki leyst með byltingu.

Enn sem komið er hefur engum tekist að spá réttilega fyrir um heimsenda og ég leyfi mér að fullyrða að það sama gildi um spádóma um endilok Internetsins. Hins vegar geta slíkar hrakspár verið gagnlegar til að hrista upp í fólki og vekja það til umhugsunar – og líklega er það nú bara það sem vakir fyrir David Clark og félögum.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Þorláksmessa 2005

Allir sem vilja þekkja okkur velkomnir að venju á Þorláksmessu á:

Laugaveg 82
allskonar
JÓLAGLÖGG

allsnægtir af ávöxtum og öðru góðgæti. Úrvals vörur. Ekkert verð. Þjer ættuð að líta inn í fallegu íbúðina okkar. Hvar sem þjer annars eigið heima í bænum.

Magga&Hjalli

—–

As always, our friends and families are invited to drop in on December 23rd on:

Laugaveg 82
all kinds of
JÓLAGLÖGG

fruits and other delicatessen plentiful. Quality products. Moderate prices 🙂 Thou should drop by wherever thou lives in thee world.

Magga&Hjalli

Upphaflega auglýsingin er úr Morgunblaðinu laugardaginn 14. desember 1935


Helstu reglur:

  • Ykkur er óhætt að koma hvenær sem er eftir klukkan svona 16-17.
  • Það má stoppa stutt.
  • Það má stoppa lengi.
  • Það má koma tvisvar.
  • Það má koma með börn, vini, fjarskylda ættingja og nýfundna kunningja, hunda, hesta og kanínur, en helst ekki mjög rauðhærða.
  • Það má sleppa því að koma – en það er litið hornauga.
  • Gleðinni lýkur þegar síðasti gesturinn rúllar niður stigann.

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest, við ykkur hin segjum við:

Gleðileg jól
og
farsælt komandi ár