íslenska

Já – já – já – jájájájájá – já er tilbúinn…

Eins og glöggir netverjar hafa ef til vill tekið eftir er kominn upp nýr og breyttur vefur hjá Símaskránni.

Við Spurl menn komum að þessu eins og flestum leitarverkefnum landsins þessa dagana – bráðum getiði ekki einu sinni leitað að bíllyklunum ykkar án þess að við komum þar við sögu.

Eins og á Emblu notum við beygingar leitarorða, þannig að ekki þarf lengur að slá inn heimilisföng í þágufalli (eða ákveðin föll annarra orða) eins og í gömlu símaskránni.

Eins lögðum við talsvert uppúr því að koma allri leitinni í einn einfaldan leitarreit þannig að hægt sé að slá inn hluti eins og [tölvur selfossi], [veitingahús 101] eða [hjálmar laugavegi] í stað þess að nota “ítarlega leit” með mörgum og illskiljanlegum leitarboxum.

Af öðrum nýjum möguleikum sem snerta leitina má nefna:

  • Leitarniðurstöður birtast í stafrófsröð (já, merkilegt nokk var það ekki þannig)
  • Fellivalblað (AutoComplete) stingur upp á leitarstrengjum þegar slegið er inn (byrjið að slá inn nafnið ykkar og tölvan les hug ykkar :))
  • Leitin á gulu síðunum hefur verið stórbætt. Fyrirtæki geta skráð ítarlegri upplýsingar um sig og keypt leitarorð sem gerir það að verkum að þau birtast þegar leitað er að þeim orðum. Prófið t.d. [adsl], [veislur], [fermingar]. Við birtum svo “tengd leitarorð” sem geta hjálpað til við að leiða fólk áfram í leit að þjónustu. Þessi hluti á eftir að verða gríðarlega skemmtilegur eftir því sem skráningunum fjölgar.
  • Við birtum stafsetningarleiðréttingar þegar ekkert finnst (ef þú slærð óvart inn [Sigurðurr] eða [fermyngar])

Einna stoltastur er ég samt að hraðanum. Leitin er yfirleitt að taka innan við 0,1 sekúndu og svörin virðast í raun birtast “samstundis” þrátt fyrir að verið sé að gera allt ofantalið. Sama gildir um fellivalblaðið, sem er “arfahratt”. Umferðin á þennan vef er gríðarlega mikil, en eftir smá hiksta fyrstu tvo dagana (á mánudag og þriðjudag í síðustu viku), hefur leitarvélin ekki einu sinni svitnað þrátt fyrir að þurfa stundum að afgreiða all-mörg hundruð fyrirspurnir á mínútu.

Af öðrum endurbótum á vefnum (sem ekki snúa að Spurl) ber hæst ný og stórbætt kort í boði Gagarín og Hnit – sem ég hef reyndar aðeins nefnt áður. Viðmótið er hannað af Reyni snilling hjá Hugsmiðjunni og svo öllu púslað saman af Origo sem forrituðu vefinn utan kortanna og leitarinnar.

Skemmtilegt verkefni sem tók á, á köflum – en útkoman stórfín. Við erum að safna saman athugasemdum (merkilegt nokk er þetta þrátt fyrir allt ekki gallalaust), þannig að það er vel þegið að fá ábendingar um betrumbætur eða galla annað hvort í comment hér eða beint í tölvupósti.

Kíkiði allavegana á gripinn.

Efni Þriðjudagstækninnar í dag eru auglýsingar og annað efni sem “pöpullinn” býr til og er í auknum mæli að ryðja sér til rúms sem áhrifavaldur í ýmiskonar efnisframleiðslu.

Pæliði til dæmis í því að þessi auglýsing frá Sony var búin til af 18 ára gömlum “amatör”, en er núna í sýningum í Bandaríksu sjónvarpi. Hún er upprunnin á síðunni Current.tv, en V-CAM (Viewer-Created Ad Message), prógrammið þeirra er eins konar miðstöð svona innsendra aulgýsinga og vinnur auk Sony, m.a. fyrir L’Oreal og Toyota.

Meira um þetta í þessari grein frá C-Net.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall um tölvur og tækni á NFS á þriðjudögum kl 11:10

Ruslakall í Skerjafirði?

Ég er að vinna þessa dagana í verkefni þar sem kort koma býsna mikið við sögu. Meira um það síðar, en þegar ég var að skoða kortin, þá rakst ég á þessa stórfínu mynd af kalli að gramsa í ruslatunnu – sem er mynduð af götunum í Skerjafirðinum. Miðað við staðsetninguna er hann nú kannski frekar að taka út úr hraðbanka samt 😉

Ruslakall  Skerjafirði

Til að fólk átti sig á staðháttum, þá eru höfuðið og búkurinn mynduð af Skildinganesi og handarkrikinn er Baugatangi.

Þriðjudagstæknin: Hver á að borga hverjum hvað?

Efni þriðjudagstækninnar í dag er hver borgar hverjum hvað á Netinu og fyrir hvað. Uppbygging Internetsins kostar sitt, hverjum er réttlátt að senda reikninginn?

Lengri texti væntanlegur hér seinna, en grunnspurningin er þessi: Hvort eru það Google, BBC og aðrar efnisveitur sem gera þjónustu símafyrirtækjanna verðmæta, eða símafyrirtækin sem gera þjónustu Google og co. verðmætar?

Og þegar Google hættir að borga bandvíddargjöldin, hver á þá að taka reikninginn?

Sjá í bili hér: http://techdirt.com/articles/20060324/1829206.shtml



Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall um tölvur og tækni á NFS á þriðjudögum kl 11:10

Zniff leitar á Vísindavefnum

Gaman að segja frá því að leitartæknin okkar Spurl-manna – Zniff – er komin í gagnið á Vísindavefnum. Það munar umtalsverðu að geta leitað í þessu stórgóða efni með “orðmyndaleit”, en það er jú eitt af því sem leitin okkar er svo góð í.

Zniff knýr að sama skapi leitina á leitarvélinni Emblu og hjá VISA, auk þess sem einir tíu aðilar eru rétt að fara í loftið – bæði stórir aðilar hérna heima og slatti af erlendum vefjum.

Meira um það þegar þar að kemur.

Þriðjudagstæknin: Með marga bolta á lofti

Efni Þriðjudagstækninnar í dag er “multitasking”. Þ.e. hvernig við og ekki síst krakkarnir tökumst á við ótal hluti í einu – og hvort við ráðum í raun og veru við það.

Þegar ég var lítill heyrði ég um mann sem gat talað í símann, skrifað bréf og hlustað á útvarpsfréttirnar, allt í einu. Þetta þótti aðdáunarverður hæfileiki. Í dag er þetta fastur hluti af daglegu lífi okkar margra og unglingarnir spjalla á MSN, hlusta á tónlist og leita á Vefnum á meðan þau vinna heimavinnuna fyrir skólann – foreldrunum oft til mikils ama og reyndar vantrúuð á að það sé virkilega hægt að sinna svo mörgum hlutum í einu með einhverri athygli.

Um þetta fjallar stórfróðleg forsíðugrein Time þessa vikuna (þeir sem ekki eru áskrifendur geta komist í greinina með því að horfa fyrst á eina stutta auglýsingu).

Sjálfur er ég dálítill “multi-tasker”, en þó nógu einhverfur til að geta sökkt mér í hluti og útilokað allt annað tímunum saman þegar svo ber undir. Ég heyrði einhverntíman þá kenningu að sá eiginleiki að glíma við marga hluti samtímis sé sérstaklega ríkur í konum, sem í gegnum aldirnar hafi þurft að sinna börnum, annast matargerð og sauma föt, allt á sama tíma. Karlmenn hafi hins vegar frekar einbeitingargenið, enda hafi ekki veitt af þegar fylgja þurfti eftir bráð í marga daga, halda kyrru fyrir og gæta þess að gefa ekki í óvarkárni frá sér hljóð sem gæti fælt mammútinn 😉

Hvað sem því líður er gaman að “multi-taska” þegar vel gengur. Maður er kannski með marga bolta á lofti í vinnunni, fer úr einu máli í annað, kemur mörgum hlutum örlítið í átt að settu marki. Ég ímynda mér að þetta sé – bókstaflega – ekki ósvipað því að læra að “juggle”-a (sem ég get nota bene ekki) – að maður verði steinhissa þegar manni tekst að halda öllum boltunum á lofti í nokkur skipti. Rétt eins og í “juggle”-inu er síðan verulega pirrandi þegar verkefni, jafnvel fleiri en eitt, lenda í vandræðum á sama tíma og maður á fullt í fangi með það bara að sópa upp – brotnum vasa eða verkefni sem er komið fram yfir skiladag.

Í áðurnefndri grein, kemur fram að samkvæmt bestu vitund vísindamanna er í raun ekki rétt að segja að heilinn fáist við mörg verkefni samtímis. Tímanum er frekar eins og skipt upp í sneiðar og þegar við eigum við margt í einu færist áherslan einfaldlega frá einu verkefni á annað, í sumum tilfellum með einhverra mínútna millibili, en allt niður í nokkrum sinnum á sekúntu ef t.d. um rauntímasamskipti er að ræða við marga í einu. Við höfum sem sagt ekki “meiri” athygli, heldur deilum við henni niður á fleiri hluti.

Vitnað er í könnun þar sem fram kemur að þrátt fyrir að bandarískir krakkar hafi ekki meiri tíma í “neyslu” á rafrænum miðlum (sjónvarpi, vef, MSN-samskiptum, DVD, tölvuleikjum, o.s.frv.), en neyti aftur á móti meira efnis en rauntíminn segir til um, eða 8,5 klukkustunda af efni á sólahring á 6,5 tímum. Með öðrum orðum er nærri þriðjungi tímans sem fer í þessa neyslu eytt í að neyta tveggja miðla samtímis (lesa vefsíðu og horfa á sjónvarpsþátt t.d.).

Það er auðvitað ekkert nýtt að eldra fólkið hafi áhyggjur af því hvernig yngra fólkið beitir nýrri tækni. Plató gamli hafði áhyggjur af því að ritmálið myndi eyðileggja sagnahefðina og hæfileika okkar til að muna. Það er reyndar rétt, en við erum samt betur stödd eftir en áður. Sömu sögu er að segja af rokktónlistinni, tölvuleikjunum og núna Netinu. Það er ekki nokkur vafi að hæfileikinn til að “multitaska” mun nýtast þeirri kynslóð sem nú vex úr grasi á vinnustöðum framtíðarinnar.

Vandinn er bara sá að þetta stöðuga áreiti veldur álagi á hugann (m.ö.o. stressi) sem getur ágerst og verður þess valdandi að sumir geta ekki eytt einum frímínútum án þess að senda SMS eða vakna jafnvel á nóttinni til að gá að tölvupósti eða SMS skilaboðum. Ekki ósvipað og spilafíkn. Ef einn leikur í kassanum stendur ekki undir væntingum setjum við annan pening í og svo koll af kolli.

Það er óumdeilt að heilinn þarf hvíld til að vinna úr þeim upplýsingum sem hann hefur meðtekið. Það er líklega þessvegna sem það er óbrigðult að í bókum þar sem menn lýsa velgengni sinni í viðskiptalífi, íþróttum eða nánast hverju sem er, að þar er heilræði um að taka sér tíma á hverjum degi í það bara að hugsa málin. Tæma hugann, t.d. í líkamsrækt, eða einrúmi einhversstaðar að minnsta kosti einu sinni á dag og leggja stöðuna fyrir sig. “Defragga” harða diskinn svo maður noti líkingamál sem þið nördarnir skiljið 🙂

Þannig að heilræði dagsins er: Multi-tasking er gott – næstum nauðsynlegt í nútíma skrifstofuumhverfi, en það þarf líka að gefa sér tíma í að einbeita sér að erfiðu hlutunum.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á NFS á þriðjudögum kl 11:10.

Þriðjudagstæknin: Rafhlöður, rafmagnsnotkun og þráðlaust rafmagn

Efni Þriðjudagstækninnar í dag er rafmagnsnotkun og rafhlöður í tölvur og önnur raftæki og draumurinn um þráðlaust rafmagn.

Eitt helsta vandamál stórra vélabúa* nú orðið er rafmagnsnotkun – og ef til vill ekki að undra. Að sögn eru t.d. um 200.000 tölvur í vélabúum Google í Kaliforníu. Hver um sig notar svipaða raforku og venjuleg heimilistölva, líklega um 120W. Allar þessar vélar eru svo saman komnar í þéttum lokuðum rýmum, sem veldur því að þau hitna verulega og þurfa öflug kælikerfi.

Samkvæmt heimildum frá HP fer álíka mikil orka í að kæla niður vélasal og fer í að knýja tölvurnar í honum. Sem sagt: kælingin tvöfaldar orkunotkunina. Gróflega má því áætla að vélasalir Google einir og sér noti stöðugt um 50MW af raforku, eða rúmlega 400 gígawattsstundir á ári. Heildar raforkunotkun heimila á Íslandi á síðasta ári var rétt rúmlega 2.000 gígawattsstundir. Þannig að vélasalir Google einir og sér nota álíka mikið rafmagn og 60.000 Íslendingar.

Augljóslega hefur þetta umtalsverðan kostnað í för með sér í raforkukaupum, en skapar líka önnur vandamál. Raforka í Kalíforníu er ekki ódýr og ekki mjög örugg. Kælivandamálið veldur því líka að húsnæði nýtist ekki eins vel og ella (það þarf að lofta um græjurnar) sem aftur eykur húsnæðiskostnað.

Það er því ekki að ástæðulausu sem Google sér þetta sem stórt vandamál hefur eytt umtalsverðu púðri í verkefni sem snúa að sparneytnari tölvubúnaði og hentugri tölvutækni.

Hmmm – á Íslandi er nóg af orku, nóg af plássi og meira að segja nóg af kulda. Ef snúrurnar okkar væru ekki alltaf að detta í sundur þá væru kannski einhver tækifæri þarna?

– – –

Rafmagnsnotkun tölva og annarra raftækja er líka vandamál á minni skala. Eitt stærsta vandamálið við framleiðslu fartölva og farsíma eru einmitt rafhlöðurnar. Endingargóðar, litlar og léttar rafhlöður eru dýrar og reyndar er þetta hreinlega vandamál sem enn hefur ekki verið leyst að fullu.

Tækjasýningin Cebit stendur nú yfir í Hannover í Þýskalandi og meðal þess sem hefur verið að vekja mesta athygli þar eru rafhlöður sem byggja á “fuel cell” tækni (hafa slíkar sellur ekki verið kallaðar “efnarafalar” á íslensku?). Satt best að segja er þetta tækni sem er skyldust því sem vetnisstrætóarnir okkar keyra á – þó að í tilfelli fartölvu og farsímarafhlaðnanna sé orkugjafinn metan í stað vetnis.

Efnarafalsframleiðandinn Antig, hefur verið að sýna slíkar rafhlöður á Cebit og segir að þær verði komnar á almennan markað þegar á næsta ári. Í sellunum verður til rafmagn við efnahvörf sem ég kann svo sem ekki almennilega skil á, en hægt er að fræðast nánar um hér. Miðað við þá orkunýtingu sem framleiðendur á borð við Antig eru að ná úr sellunum sínum í dag er líftími þeirra tíu sinnum lengri miðað við sömu stærð af rafhlöðum heldur en í hefðbundnum rafhlöðum í dag.

Í stað þess að hlaða rafhlöðuna með því að stinga henni í samband er fyllt á sellurnar með því að bæta á þær metani. Þannig að hægt er að hafa með sér “viðbótarorku” í þrýstibrúsa og fylla á eftir því sem þarf. Vissulega talsvert frábrugðið því sem við þekkjum í dag, en endingartíminn virkilega eftirsóknarverður. Við þyrftum t.d. ekki að hlaða símana okkar nema etv. einu sinni til tvisvar í mánuði og fartölvur án nokkurra rafmagnskapla fara að verða raunhæfur kostur (þarf að fylla kannski tvisvar í viku).

Kannski kemur þetta að stóru leiti í stað draumatækninnar sem ég ætlaði mér alltaf að finna upp (án þess að hafa nokkrar forsendur til) – þráðlausa rafmagnið. Staðreyndin er sú að þessar snúrur fara óskaplega í taugarnar á mér – og ég er engan veginn einn um það. Mig hefur alltaf dreymt um að rafmagnstæki, ekki bara tölvur og símar, heldur líka sjónvörp, hljómflutningstæki og ryksugur (ekki síst ryksugur) yrðu þráðlaus. Vandinn er bara sá að vandamálið er býsna flókið. Jú það er hægt að flytja raforku þráðlaust á milli staða í beina loftlínu með litlu orkutapi (t.d. með leysigeisla) en þá steikir það hvað (eða hvern) sem lendir fyrir geislanum ef um einhverja orku að ráði er að ræða.

Sá sem finnur lausn á þessu verður í öllu falli forríkur. Mér skilst að viðtekinn sannleikur í vísindaheiminum sé að þetta sé óframkvæmanlegt, en það er svo sem ekki í fyrsta skipti 😉

Hvað sem því líður þá er fullt af tækifærum í orkuframleiðslu, -miðlun og dreifingu til upplýsingatæknigeirans bæði í stórum og smáum skömmtum.

– – –

* uppruna orðsins “vélabú” má rekja til samræðna minna og konunnar um helgina – þetta er að sjálfsögðu íslenskum hugtaksins “server farm”. Gegnsætt og fínt.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.