tölvur & tækni

Fjöllin og fræga fólkið á Emblu

Fyrir stuttu skrifaði ég um nokkur sæt Emblu trikk sem við erum búnir að vera að kóða inn í Embluna. Ég sagði að það væri meira á leiðinni og nú eru dottin inn tvö ný trikk.

  • Nöfn þekktra einstaklinga: t.d. Jón Arnar Magnússon. Birtir stuttan texta um viðkomandi og tengil á færslu um hann eða hana í bókinni Samtíðarmenn, frá Eddu. Alls eru þetta um 1700 einstaklingar.
  • Örnefni og staðir: t.d. Hólmavík. Þarna eru inni um það bil 9000 örnefni og með því að smella á tengilinn fæst kort af svæðinu úr Kortabók Íslands þar sem staðurinn er. Viðmótið á kortunum mætti vera betra (það þarf að skima kortið í leit að nafninu), en engu að síður er þetta mjög hjálplegt. Vonandi tökum við þetta lengra fljótlega.

Svo er von á fleiru svipuðu. Þið bíðið bara spennt á meðan 🙂

Þriðjudagstæknin: Svæðaskipt internet

Efni Þriðjudagstækninnar í dag eru tilraunir manna til að binda þjónustuþætti og dreifingu á efni á netinu við svæði og landamæri með misjöfnum árangri.

Vissir þú að Internetið er ekki alls staðar eins?

Ýmsar efnisveitur, þjónustur og vefir laga sig að því hvar notandinn er staddur í heiminum, ýmist til hins betra eða hins verra.

Ástæður þessa geta verið hinar og þessar. Í sumum tilfellum er um að ræða tilraunir til einhverskonar ritskoðunar, annað hvort að hálfu stjórnvalda, eða þess sem rekur síðuna. Í öðrum tilfellum er um að ræða leyfismál sem hafa ekki enn lagað sig að breyttum aðstæðum og stundum er verið að reyna að aðlaga þjónustuna að notandanum, t.d. með því að velja sjálfkrafa rétt tungumál, birta staðbundnar auglýsingar eða fela þjónustuþætti sem ekki eiga við á viðkomandi svæði.

Þegar farið er inn á vefsvæði Google í fyrsta skipti frá tölvu á Íslandi, birtist viðmót síðunnar á íslensku. Þessi eiginleiki, eins og flestir slíkir eiginleikar byggja á því að IP tölu tölvunnar (IP talan er eins konar auðkenni eða heimilisfang tölvunnar á netinu) er flett upp í töflum sem tengja ákveðnar IP tölur, eða öllu heldur raðir af IP tölum, við ákveðinn stað í heiminum. Oft er þetta bara ákveðið land, en stundum er þetta jafnvel enn þrengra og hægt að segja til um það í hvaða borg eða jafnvel borgarhluta notandinn er, hafi maður til þess nægilega góðar upplýsingar.

Ef þú hefur áhuga, getur þú séð þína eigin IP-tölu hér. Á þessum lista, má sjá IP-talnaraðir allra íslenskra tölvuneta. Hvert tölvunet tilheyrir einu fyrirtæki eða rekstraraðila, yfirleitt fjarskiptafyrirtæki. Með því að þekkja dreifisvæði viðkomandi fyrirtækis má nokkuð örugglega segja til um staðsetningu notanda með IP-tölu í viðkomandi runu. Meira að segja á Íslandi má þrengja hringinn nokkuð útfrá IP-tölu notandans.

Það má sækja svona lista allvíða á Vefnum og með slíkan lista við höndina getur í raun hver sem er á frekar einfaldan hátt sett upp staðbundna þjónustu á netinu. Sem dæmi má benda á vefsíðu GeoIP frá MaxMind, en þar er líka hægt að prófa að fletta upp IP tölum og sjá hvar þær eru staðsetta, skv. gögnum MaxMind. Á vefsíðunni IP-to-country er líka hægt að sækja stóran lista af slíkum upplýsingum frítt.

En nóg um tæknina. Hvernig er fólk að nota þetta?

Vondu notin

Allþekkt dæmi eru tilraunir nokkurra þjóða, s.s. Kína og Singapore til að takmarka aðgang þegna sinna að efni á Vefnum sem er stjórnvöldum þar miður þóknanlegt. Í báðum löndum voru stjórnvöld með fólk í vinnu við að ritskoða vefsíður og samþykkja eða hafna aðgangi að þeim fyrir íbúana.

Við skulum sleppa allri umræðu um réttmæti eða skynsemi þessarra aðgerða í bili, en þetta þýðir að venjulegun kínverskur netnotandi er mjög erfitt að komast í óritskoðaðar upplýsingar um það sem er að gerast í heiminum – enn erfiðara en okkur hinum, þ.e.a.s. 😉 Tæknilega er hins vegar mjög erfitt að koma fullkomlega í veg fyrir þennan aðgang. Nördarnir hafa svo sem fundið leiðir fram hjá þessu (með notkun proxy þjóna utan Kína), en slíkt er ólöglegt og aðstandendur slíkra tilrauna hafa verið fangelsaðir fyrir.

Nokkuð frægt er að vefsíða George Bush (ekki lengur til sem slík) var ósýnileg notendum utan Bandaríkjanna í aðdraganda kosninganna 2004. Þrátt fyrir allar samsæriskenningar var ástæða þess sú að óprúttnir aðilar einhvers staðar í heiminum stóðu fyrir árásum á vefsvæðið og tæknimenn Bush og félaga sáu þann möguleika einan í stöðunni að loka bara á allt utan US of A. Það er ekki svo margt þar fyrir utan hvort eð er, er það nokkuð?

Svo eru það blessuð leyfismálin. Það mun taka þau allnokkur ár til viðbótar að aðlaga sig að “heimsþorpinu” á Vefnum. Gott dæmi er iTunes verslunin sem er algerlega bundin við þau lönd þar sem Apple hefur náð samningum við eigendur flutningsréttar. Ísland er að sjálfsögðu ekki þar á meðal, enda áreiðanlega ekki ofarlega á lista Apple og STEF alveg áreiðanlega guðs lifandi fegnir. Og ekkert vera að reyna að svindla á þessu – jafnvel þó þú verðir þér úti um Bandarískt greiðslukort og borgir fyrir tónlistina sem þú halar niður af iTunes er hún alveg jafn stolin – þú ert ekki að greiða fyrir flutningsrétt á Íslandi. En sú hringavitleisa.

Nýja Google Video verslunin er enn eitt dæmið. Þar gefst Bandaríkjamönnum kostur á að horfa t.d. á NBA leiki fyrir 2$ stykkið, en ekki okkur hérna. 365 á nefnilega íslenska flutningsréttin og Google samdi bara um Ameríkumarkað.

Þetta er þó a.m.k. að einhverju leiti skiljanlegt. Lög eru jú lög og það tekur tíma að breyta þeim, ekki síst þegar hagsmunaaðilar telja það sér til góða að ekkert breytist. Prófið hins vegar að fara á vefsíðu SHO kvikmyndafyrirtækisins. Þetta er fyrirtækið sem framleiðir m.a. sjónvarpsþættina “The L Word” og “Dead like me” og kvikmyndir á borð við A Few Good Men, Farenheit 9/11 og Tombstone.

“We at Showtime Online express our apologies; however, these pages are intended for access only from within the United States.” – hvað meiniði eiginlega? Hver gæti mögulega verið ástæðan til að leyfa manni ekki að lesa um þætti sem maður sér í sjónvarpinu upp á hvern dag?

Ef þið viljið sjá hvað er á þessari stórhættulegu síðu (eða öðrum lokuðum síðum), þá getið þið notað síður á borð við SpySurfing og slegið þar inn veffang viðkomandi síðu.

Góðu notin

Á hinn bóginn er þessi sama tækni líka notuð í góðum tilgangi. Áður hefur verið nefnt dæmið um að velja tungumál eftir því hvaðan notandinn kemur. En það er bara lítið dæmi. MSN spjallforritið sem flestir tölvuvæddir Íslendingar kannast við lítur talsvert öðruvísi út fyrir notanda í Bandaríkjunum en hjá okkur hérna. Það eru þá aðallega allskyns viðbótarmöguleikar sem við missum af – tengingar MSN spjallforritsins við aðra hluta MSN þjónustunnar, s.s. fjármálaupplýsingar, sölu á hótelgistingu og ferðum og einkamálaþjónusta svo dæmi séu tekin. Þetta birtist sjálfgefið sem aukaflipar í MSN spjallforritum þar en er ekki aðgengilegt héðan – enda ágætt því að þjónustan á ekki við fyrir okkur. Lítið fútt í að finna deit, ef það er statt á Nýja-Sjálandi 🙂

Staðsetningin okkar er líka stundum notuð, án þess að við vitum, til að velja hvaðan í heiminum gögn eru send til okkar til að hraða gagnasamskiptum. Þar fer fyrirtækið Akamai einna fremst í flokki, en þjónustu þess fyrirtækis notum við sennilega mörg oft á dag án þess að hafa hugmynd um það. Gott dæmi er t.d. þegar við heimsækjum vefsvæði CNN eða Yahoo!

Stærstu möguleikarnir eru samt sennilega fólgnir í auglýsingamarkaðnum. Þeir sem lesa bloggsíður á erlendum vefjum, t.d. á Blogspot hafa sjálfsagt tekið eftir að þar birtast stundum íslenskar auglýsingar. Þetta gerist á sama hátt og annað sem hér hefur verið lýst. Bandarískar vefsíður birta sumar hverjar auglýsingar frá fyrirtækjum í heimaborg notandans og í MSN spjallforritinu mínu hefur verið auglýsing frá BT-tölvum, í fjórar vikur eins og ég vakti athygli á þegar hún dúkkaði upp.

Nærþjónusta af þessu tagi er af mörgum talinn einn af áhugaverðustu vaxtarmöguleikum í Netauglýsingum í dag, enda skiptir staðsetningin eðlilega miklu þegar fyrirtæki velja sér markhópa fyrir auglýsingaherferðir og slíkt. Og ekkert nema gott um það að segja – ef ég þarf að borga fyrir efnið sem ég les á Vefnum með því að horfa (framhj)á auglýsingar, þá er auðvitað bara betra að þær hafi sem mest notagildi fyrir mig sem notanda.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

4 milljónir bókamerkja á Spurl.net

Í gær dúkkaði 4 milljónasta “spurlið” upp á bókamerkjaþjónustunni okkar, Spurl.net. Það er innan við ár síðan þau voru bara milljón og ekki einu sinni 3 mánuðir síðan þau voru 3 milljónir.

Núna er okkar helsta vandamál að höndla öll þessi gögn þannig að allir séu samt ánægðir með hraðann og gæðin. Það eru uppfærslur á leiðinni, en þetta er forgangatriði – að bæta hraða og nytsemi, áður en við förum að bæta við mjög miklu af viðbótarmöguleikum.

Hvað um það – gaman að sjá svona ört vaxandi kúrvu – vaxtarverkir eru góðir verkir 😉

Þriðjdagstæknin: CES sýningin

Efni Þriðjudagstækninnar í dag er CES raftækjasýningin í Las Vegas

Á hverju ári flykkjast tækjanördar í stórum hópum til Las Vegas í byrjun janúar til að vera viðstaddir CES (Consumer Electronics Show) raftækjasýninguna. Þarna keppast framleiðendur við að sýna það nýjasta í raftækjum fyrir neytendamarkað, allt frá risastórum flatskjám og vélmennum niður í sólgleraugu með innbyggðum skjám, tölvupenna og minniskort.

Það setur að vísu smá svip á samkomuna á hverju ári að Apple tekur ekki þátt í sýningunni, enda halda þeir sýna eigin pílagrímasamkomu – Macworld – í vikunni á eftir (þ.e. í þessari viku), en nóg er nú samt af flottum græjum á svæðinu:

Sony Reader
Rafbókum var ætlað stórt hlutverk í kringum aldamótin, en þær sem komu á markaðinn þá voru stórar og þungar, höfðu lélega skjái, rafhleðslan entist stutt og það sem verst var, það var ósköp lítið efni að fá í þær.

Sony kynnti á CES nýja rafbók, sem nefnist Sony Reader. Tæknilega felst helsta snilldin í Sony Reader-num í skjánum, sem er alveg nýrrar gerðar. Þetta er ekki kristals eða plasmaskjár eins og við þekkjum úr lófatölvum og flatskjám, heldur svokallað eInk, eða rafBlek – tækni sem hefur verið í þróun hjá samnefndu fyrirtæki síðan 1997 og kom upphaflega úr rannsóknaverkefni við MIT tækniháskólann í Boston.

Í stuttu máli samanstendur “skjárinn” af ótalmörgum litlum kúlum, sem hver um sig er á stærð við breidd mannshárs. Með því að hleypa rafstaumi á kúlurnar færast til örsmáar svartar og hvítar agnir inni í þessum kúlum – þær hvítu eru jákvætt hlaðnar og þær svörtu neikvætt með réttri spennu má þannig fá yfirborðið sem snýr að lesandanum til að sýna grátóna allt frá svörtum niður í hvítt (nánar hér).

Með þessu móti fæst háupplausnarskjár sem notar ákaflega lítið rafmagn (ekkert þegar ekki er verið að fletta). Það er ekkert innbyggt ljós og því þarf skjárinn utanaðkomandi birtu og þolir jafnvel vel sólarljós – rétt eins og venjuleg bók, en öfugt við alla skjái hingað til. Og rafhlaðan endist fyrir vikið í 7.500 flettingar.

Með öðrum orðum, þú gætir rennt í gegnum allar Harry Potter bækurnar, biblíuna, Íslendingasögurnar og Þúsund og eina nótt og átt samt eftir nóg eftir af batteríinu til að lesa Símaskrána í ár og í fyrra 🙂

Sony hefur líka komið sér í mjúkinn hjá allmörgum stórum bókaútgefendum sem munu selja bækur sínar í gegnum Sony Connect – vefverslun Sony – í þeirri von að rafbækur verði jafnvinsælar og rafræn tónlist og myndbönd – en það sem hefur helst staðið í vegi fyrir því eru yfirburðir bókaformsins.

Google selur myndefni
Google er strax farið að fylla upp eitthvað af spádómum mínum frá síðustu viku og kynnti til leiks endurbætta myndefnisveitu með því að útvíkka Google Video í Google VideoStore (sjá fréttatilkynningu hér).

Google menn virðast veðja á tvo megin efnisstrauma til að byrja með, efni frá CBS sjónvarpsstöðinni (svo sem Star Trek, CSI, Survivor og I love Lucy) og efni úr bandaríska NBA körfuboltanum.

Mér þykja Google menn fara full hratt yfir sviðið og gamla mottóið þeirra að “gera einn hlut og gera hann vel” er löngu farið fyrir bí. Google Video gæti alveg orðið “player” í þessum leik, en þeir munu seint ná samstarfi við nógu stóran hluta markaðarins til að verða eitthvað á borð við það sem t.d. iTunes er fyrir tónlist. Til þess eru þeir búnir að höggva of nærri aðilum eins og Sony, Microsoft og News Corp á öðrum vígstöðvum – sem síðan eiga ítök í stórum efnisframleiðendum sem munu seint veita sínu efni í gegnum Google.

Gáfaðir pennar
Ég hef í nokkur ár fylgst með og dáðst að sænsk-ættaða fyrirtækinu Anoto. Fyrirtækið framleiðir penna sem auk þess að skrifa – rétt eins og ætlast er til af slíkum gripum – taka líka upp það sem skrifað er og færa á stafrænt form, annað hvort sem teikningar eða texta.

Dæmi: Þú krotar hjá þér glósur á fundi eða í tíma í skólanum og í staðinn fyrir að þurfa að vélrita fundargerðina eða glósurnar inn í tölvu, hleðurðu textanum bara inn í tölvuna yfir þráðlausa tengingu (Bluetooth). Tóm snilld.

Á CES var annað fyrirtæki á ferðinni með sams konar hugmyndir og komst talsvert í pressuna fyrir vikið, en það var EPOS með sinn Digital Pen. EPOS pennarnir eiga að koma á markað seinna á árinu og kosta allt niður í 50$ eða um 3.000 krónur – spurning hvort BIC eigi svar við þessu? 😉

Með skjánn á nefinu
Að minnsta kosti tvö fyrirtæki kynntu sólgleraugu með aukabúnaði. Annars vegar EMagin með Eyebud-línuna sína, þar á meðal Eyebud 800, sem er með pínulítinn skjá innbyggðan í gleraugun þannig að hægt er að horfa á video, t.d. úr iPod video græjunni sem við skoðuðum í Þriðjudagstækninni um jólin. X800 módelið er hægt að tengja við fartölvuna í staðinn. Skyldi mega keyra með þennan “handfrjálsa” búnað? Z800 er svo stóri bróðirinn, en sú útfærsla er einkum hugsuð fyrir leikjafrík og getur skynjað hreyfingar höfuðsins og stýrt með því t.d. leikmanni í þrívíðum skotleikjum.

Hins vegar hefur hinn ofursvali sólgleraugnaframleiðandi Oakley tekið höndum saman með Motorola og framleitt ný sólgleraugu með þráðlausum (Bluetooth aftur) heyrnatólum sem tengjast ROKR símanum (þessum með iTunes í). Gripurinn heitir OROKR og spurning hvort að Ray-Ban fari ekki að verða svoldið gamaldags í kjölfarið.

– – –

Til að sjá meira af öllum þeim aragrúa af dóti sem kynntur var á CES, má t.d. kíkja á eftirfarandi greinar:


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Nýjasta Windows öryggisholan

Nýjasta Windows öryggisholan er býsna alvarleg (sjá frétt mbl.is hér).

Fólk hefur verið að spyrja mig hvort ástæða sé til að gera eitthvað í málinu.

Ég er ekki öryggissérfræðingur, en eftir því sem mér sýnist best, þá er ágætt að gera eftirfarandi – ekki síst ef þið eruð ekki með veiruvarnir og eldveggi alveg á hreinu:

  1. Smella á Start > Run og slá inn:
    regsvr32 -u %windir%\system32\shimgvw.dll
    Smella svo á OK.
  2. Smella á OK í litla glugganum sem sprettur upp.

Þá eruði nánast örugg fyrir þessari holu.

Nánari upplýsingar:

Þriðjudagstæknin: Tæknispá – átta hlutir sem gerast árið 2006

Í Þriðjudagstækninni í dag ætlum við að kíkja í kristalskúluna og velta fyrir okkur hvað árið 2006 muni hafa í för með sér í tölvu- og tæknigeiranum.

“Það er erfitt að spá, einkum um framtíðina” er haft eftir danska eðlisfræðingnum Niels Bohr. Engu að síður keppast menn um hver áramót við að reyna að spá fyrir um það hvað komandi ár muni hafa í för með sér og ég get auðvitað ekki verið minni maður.

Hér eru átta hlutir sem ég spái að muni gerast á árinu 2006 í heimi tækni, tölva og internetsins:

  • Íslenskt sprotafyrirtæki verður keypt af erlendu stórfyrirtæki. Það eru nokkur lítil fyrirtæki að gera virkilega flotta hluti þessa dagana. Félagar mínir í Hex og dohop, eru þar á meðal. 3-plus (sem framleiðir DVD-kids) kemur vel til greina líka. CCP, Industria og Friðrik Skúlason geta nú líklega ekki talist sprotafyrirtæki lengur en eru öll að gera hluti sem gætu hæglega lent þeim á innkaupalista einhvers risanna sem eru margir í innkaupaleiðöngrum þessa dagana, eiga gríðarlega fjármuni og standa frammi fyrir aukinni samkeppni.

  • Tölvudeild a.m.k. eins af bönkunum verður spunnið frá og gert að sér fyrirtæki sem mun herja á alþjóðamarkað. Það sem bankarnir eru að bjóða upp á hér á landi, t.d. heimabankarnir okkar eru líklega þeir bestu í heiminum. Eins gæti vel verið að einhver finni áhugaverðan flöt á að nýta einstaka möguleika Reiknistofu Bankanna í stærra samhengi, en það er staðreynd að víðast hvar í heiminum tekur 2-3 daga að millifæra peninga á milli bankastofnanna og jafnvel á milli reikninga hjá sama banka, sem hlýtur að þýða að það séu tækifæri í bættri þjónustu.

    …og ekki spillir fyrir að slíkt “spin-of” ætti að hafa tiltölulega góðan aðgang að fjármagni.

  • Leitarvélar halda áfram að breyta heiminum. Vefsíður fyrirtækja munu í auknum mæli leggja áherslu á leit, frekar en flokkuð veftré og leitarboxin fá aukið vægi á síðunum (hér ætti ég náttúrulega skammlaust að vera með auglýsingu enda er Spurl ehf. mér vitanlega eina fyrirtækið á landinu sem sérhæfir sig í hverskonar leit).

    Leit á hörðum diskum og í tölvupósti verður líka gerð öflugari og einfaldari, en innbyggða leitarvélin í Windows Vista sem kemur út í haust mun valda vonbrigðum – ekki síst vegna þess að Microsoft þarf að passa sig á samkeppnisyfirvöldum eftir rimmur síðustu ára.

  • Vöxtur í tölvugeiranum heldur áfram, en þó hægar og með meira á bakvið sig en fyrir 5-6 árum síðan. Þetta mun valda tilfinnanlegum skorti á góðu fólki í tölvugeiranum hér heima. Fyrirtæki munu mæta þessu með úthýsingu að einhverju leiti, en einnig verður ýtt á að boðið verði upp á stuttar, praktískar námsbrautir þar sem efnilegum tölvunörðum og fikturum er breytt í hæft starfsfólk á skemmri tíma en hefðbundið háskólanám, t.d. 12 mánaða nám án sumarfrís.

  • Græjur verða í auknum mæli nettengdar. Uppfærslur á PlaystationPortable (sjá pistil síðustu viku) munu gera mun meira úr nettengunum, notkun á neti í gegnum síma mun byrja að ná sér á flug samhliða auknu framboði á slíkum þjónustum. Mac Mini frá Apple og Playstation 3 munu keppa um að vera “stofutölvan”, þ.e. nettengda boxið sem við notum til að stýra tónlist, sjónvarpsefni og annarri afþreyingu inni í stofu.

  • Google, Yahoo!, TiVo, Netflix, MSN og Apple munu öll stórbæta eða koma fram með nýjar myndveitur og “sjónvarps”-þjónustur. Jafnframt munu koma fram nýjar og áhugaverðar myndveitur sem byggja á peer-to-peer lausnum – löglega.

  • “End-user generated content”, sem e.t.v. má kalla “Efni frá alþýðunni” 🙂 upp á íslensku, þ.e. blogg, tónlist án hefðbundinna útgáfenda, heimagerð myndbönd og slíkt mun skipa sífellt stærri sess og fram koma módel sem gera þessu skapandi fólki færi á að hafa einhverjar tekjur af því sem það er að gera.

  • Síminn mun fara í útrás, enda erfitt að sjá hvernig Íslandsmarkaður einn getur staðið undir verðmati fyrirtækisins og þeim skuldbindingum sem fjárfestarnir hafa gert til að kaupa það. Fyrirtækið er tæknilega fullkomið fjarskiptafyrirtæki og hefur á að skipa þekkingu sem getur hæglega nýst annarsstaðar, ekki síst á ört vaxandi mörkuðum t.d. í Austur-Evrópu og í Bandaríkjunum (já þetta er ekki ásláttarvilla, það eru ýmis sóknarfæri í Bandaríkjunum), en það eru vissulega fleiri um hituna.

Spennandi ár framundan. Kannski verð ég fenginn til að skrifa Tölvuspá Vikunnar fyrir 2007 😉


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Nokkur sæt Emblu trikk

Við Spurl-menn erum búnir að vera að kenna leitarvélinni okkar, sem meðal annars knýr Emblu hjá mbl.is, nokkur ný og sniðug trikk síðustu vikurnar og kannski ekki vitlaust að vekja smá athygli á þeim.

Hugmyndin er sem sagt sú að reyna að veita notendum meiri þjónustu en bara hráa textaleit í þeim tilfellum þegar hægt er að þekkja leitarstrenginn sem eitthvað ákveðið eins og nöfn á fólki, símanúmer eða bókaheiti, svo dæmi séu tekin.

Meðal þess sem er komið inn er eftirfarandi. Endilega smellið á tenglana með hverju dæmi til að sjá hvernig hvert dæmi fyrir sif er afgreitt:

  • Mannanöfn: t.d. Jón Jónsson. Ef leitarstrengurinn þekkist sem nafn, birtum við tengla á uppflettingu í símaskrám Já.is og Og Vodafone eftir sama nafni. Nú þarf bara að slá nafnið á nýjasta skotinu inn á einum stað þegar verið er að leita að upplýsingum um viðkomandi 🙂
  • Símanúmer: t.d. 4404000. Hver var að hringja? Embla birtir tengla á símaskráruppflettingu.
  • Heimilisföng: t.d. Efstaleiti 1. Enn og aftur símaskrár-uppfletting, en líka tengill í uppflettingu á bestu leið þangað með strætó.
  • Nöfn rithöfunda: t.d. Arnaldur Indriðason. Smá upplýsingar um höfundinn og tengill yfir á nánari upplýsingar hjá útgefanda (enn sem komið er bara fyrir Eddu-útgáfu – u.þ.b. 200 höfundar)
  • Bókartitlar: t.d. Íslandsatlas. Smá upplýsingar um bókina og tengill á nánari upplýsingar hjá bóksöluvefjum (enn sem komið er Edda og Bækur.is – u.þ.b. 1800 bókatitlar)
  • Netföng: t.d. hjalli@hjalli.com. Uppfletting í símaskrá og tengill til að senda póst á viðkomandi addressu.

Við erum með langan lista af svipuðum tilfellum sem við ætlum að þekkja og veita viðbótarupplýsingar um. Eins og sjá má af sumum dæmanna að ofan, þá eru þau gerð í samvinnu við fyrirtæki, þ.e. eins konar auglýsingar. Hugmyndafræðin á bak við þetta er engu að síður sú að gagnsemin fyrir notandann sé alltaf í fyrsta sæti. Þessar “sérstöku leitarniðurstöður” eiga alltaf að vera upplýsingar og tenglar sem eru líklegar til að koma notandanum til góða miðað við þau leitarorð sem hann eða hún sló inn. Ef hægt er að samtvinna það við einhverjar tekjuleiðir fyrir okkur eða samstarfsaðila okkar, þá er það svo bara kostur.

Notandinn fær gagnlegar upplýsingar, samstarfsaðilinn góða augýsingu og við nýja tekjustrauma. Allir vinna 🙂

Ég verð að monta mig pínulítið af beygingartækninni okkar sem nýtur sín vel þegar leitað er að nöfnum (t.d. leit að Hjálmar Gíslason) og sýnir nöfnin í réttri beygingu. Þetta er þjónusta frá okkur, byggð á gögnum frá Orðabók Háskólans. Ef einhver hefur áhuga þá er hægt að fá aðgang að þessum möguleikum sem einfaldri vefþjónustu gegn vægu gjaldi.

Ef þið eruð með hugmyndir að fleiri tegundum “sérstakra leitarniðurstaðna” hvort sem er frá sjónarhóli notanda eða samstarfsaðila, þá endilega setjiði ykkur í samband við mig (hjalli@spurl.net) eða skiljið eftir komment hér að neðan.

P.S. Hér er nýrri færsla um fleiri Emblu-trikk

dohop.com – íslenskt hugvit kemur þér milli heimshorna


Sennilega hafa nú flestir sem fylgjast með íslenska upplýsingatækniheiminum heyrt af dohop.com nú þegar og jafnvel prófað ferðaleitarvélina þeirra.

Fyrir ykkur hin, þá er þetta sem sagt leitarvél sem leitar að flugi á milli hvaða tveggja staða sem vera skal með hvaða flugfélagi sem er. Takmarkið er að ná inn öllum flugfélögum heimsins og nú þegar eru 650 flugfélög á skrá – þar af nær öll flugfélög í Evrópu, bæði lággjaldafélögin og þessi gömlu góðu. Leitarvélin er einstök í sinni röð og hefur vakið athygli nokkuð víða, m.a. var grein um þá á CNN.com fyrir 3 vikum síðan.

Dohop fór sem sagt úr Beta-prófunum og í loftið “fyrir alvöru” í síðustu viku og það er skemmst frá því að segja að nýja leitarvélin og viðmótið er hrein snilld. Endilega prófiði græjuna. Ég veit að þeim dauðlangar í viðbrögð frá fólki sem prófar og notar þjónustuna til að vita hvað má betur fara og svo framvegis.

Það er félagi minn í Spurl, Frosti Sigurjónsson, sem er upphafsmaður dohop, og hann er búinn að safna saman hóp af snillingum sem sjá um tæknihliðina. Við vorum einmitt að flytja í sameiginlegar skrifstofur á Klapparstígnum ásamt farsímaþjónustufyrirtækinu Hex.

Spennandi tímar framundan!

Íslenskar auglýsingar í MSN Messenger


Tók eftir þessari íslensku auglýsingu á MSN Messenger í morgun.

Hún bendir einfaldlega á forsíðuna á vefnum hjá BT.

Það er gott að íslensk fyrirtæki eru að átta sig á því hvað er hægt að gera í gegnum þessi auglýsinganet eins og t.d. hjá MSN (þeir eru líklega með eitt allra sveigjanlegasta kerfið), og þar sem MSN Messenger er nær einráður á skyndiskilaboða (IM) markaðnum hérna heima, er þetta alveg príma pláss.

Hérna er hægt að sjá alla auglýsingamöguleikana í MSN Messenger og þar má sjá að þessar banner auglýsingar er t.d. hægt að miða eftir landsvæði, aldri, kyni og tungumáli.