Efni Þriðjudagstækninnar í dag verður í anda jólanna. Ekki að við ætlum að gefa neitt, heldur ætlum við að kíkja á heitustu græjurnar sem komu upp úr jólapökkunum þetta árið.
Jólin í ár voru mikil græjujól. Það sem hefur líklega staðið uppúr voru flatskjáirnir sem margir versluðu sér fyrir jólin, ýmist fyrir tölvuna, sem sjónvarp inn í stofu eða bæði.
Við ætlum hins vegar að kíkja á þrjá heitustu smápakkana: iPod Video myndspilarann, Playstation Portable leikjatölvuna og Vodafone Simply símann.
iPod Video
Það er erfitt að setja saman pakka af flottustu græjunum öðru vísi en Apple komi þar einhvers staðar við sögu. iPod Video er ein fjölmargra ólíkra útgáfa iPos spilarans sem notið hafa ómældra vinsælda síðan fyrsti iPod MP3 spilarinn kom út 2001. Tæknilega séð er “iPod Video” bara nýjasta útgáfan af “stóra” iPoddinum – afkomandi upphaflegu græjunnar í beinan karllegg. Önnur útgáfa af iPod-inum, iPod nano – MP3 spilari sem er lítið stærri en kreditkort var líka meðal flottustu jólagjafanna í ár.
iPod Video er semsagt MP3 spilari með býsna flottu “twist”-i – hann er með hágæða litaskjá og getur geymt og spilað vídeómyndir, auk tónlistar. Sjálft tækið er reyndar meira að segja örlítið minna en upphaflegi iPodinn, en skjárinn er 320×240 depla háskerpu litaskjár. Þetta er á allan hátt aðdáunarverð græja, en á kannski sínu betur við erlendis þar sem fólk þarf að eyða góðum tíma á leið í vinnu eða skóla með neðanjarðarlestum eða öðrum almenningssamgöngum, þar sem ég sé vel fyrir mér að maður gæti allt eins horft á eina góða bíómynd, og að lesa blöðin á leiðinni í vinnuna – nú eða sækja sér safn af drepfyndnum myndböndum á netið og hlaða inn á iPoddinn.
Helst ókosturinn er kannski að það er ekki mjög auðvelt að verða sér úti um myndefni í græjuna. Minnið nægir fyrir 1-2 bíómyndir í fullum gæðum, en til þess þarf að “rippa” myndina af DVD, minnka hana og þjappa henni svo upp á nýtt fyrir iPoddinn – allflókið, tímafrekt og alls ekki “mömmuhelt” ferli. Eins er iTunes verslunin ekki enn farin að selja myndefni, en það skiptir kannski ekki máli fyrir okkur uppi á Íslandi þar sem við fáum ekki að kaupa neitt efni á iTunes hvort eð er.
Sem sagt – dúndurflott græja, en sennilega aðeins á undan sinni samtíð og ekki endilega fyrir íslenskar aðstæður. Ég hef Steve Jobs satt að segja grunaðan um að hafa komið með þessa útgáfu til að geta sannað mátt sinn og megin og vera fyrstur með flottan lófamyndspilara. Nano-græjan er meira eitthvað fyrir praktíska notendur.
…og svo er Apple að koma út með nýja Mac Mini um miðjan janúar – þetta verður gott ár hjá Apple!
PSP (Playstation Portable)
Fyrr á árinu gaf Sony út Playstation Portable leikjatölvuna. Þarna er meira og minna búið að taka kubbasettið úr gömlu Playstation2 vélinni og þjappa saman í litla og netta 280 gramma vél.
Auk kraftsins sem flestir kannast orðið við úr vinsælustu leikjatölvu allra tíma, var bætt við nokkrum viðbótarmöguleikum, s.s.:
- Þráðlausu netkorti
- Vafra
- Fjölspilunarmöguleikum
Þar fyrir utan er auðvitað búið að breyta stjórntækjunum og koma þeim fyrir á vélinni, auk þess sem sambyggður 480×272 depla “breiðskjár” prýðir vélina. Rétt eins og forverinn getur PSP spilað mynddiska, en sökum stærðar þarf sérstaka diska, svokallaða UMD diska – í hana. Þetta eru litlir mynddiskar í innbyggðu hulstri – ekki ósvipaðir hörðum diskettum sem notðar voru í Amstrad vélarnar fyrir svona 15 árum síðan – sem geta geymt lítil 1.8 GB (feykinóg fyrir mynd í miklu meiri gæðum en vélin ræður við að spila).
Það er orðið magnað hvað er hægt að koma miklu afli í svona litlar – og ódýrar – græjur.
Gallarnir eru einkum tveir. Annars vegar er Sony að reyna að pranga sömu bíómyndunum inn á mann eina ferðina enn á enn einu forminu með UMD útgáfunum. Sko – ég er búinn að sjá I, Robot í bíó, leigja hana á myndbandaleigunni, kaupa DVD-inn og svo Special Edition – svo er hún sýnd á Stöð2 í desember og nú á ég að fara að kaupa hana eina ferðina enn á UMD. Vissulega æðislegt viðskiptaplan, en þeim verður ekki stætt á þessu mikið lengur. Fólk vill kaupa myndefni, ekki plastefni og stafræna tónlistarsalan er reyndar að ryðja brautina í þá átt.
Hinn gallinn er sá að flottasti möguleikinn við PSP – fjölspilunarmöguleikinn – nýtur sín aðeins takmarkað. Tiltölulega fáir leikir styðja hann, og jafnvel þó að hægt sé að lána þessa leiki í eina tölvu (og spila þannig þó aðeins annar leikandinn eigi leikinn), hefði ég viljað sjá Sony innbyggja í stýrikerfið nokkra einfalda fjölspilunarleiki. Bara einhverja einfalda borðleiki og spil. Annars vegar til að kynna möguleikana (og selja þar með meira af alvöru leikjunum) og hins vegar til að þú getir boðið hverjum sem er á kaffihúsinu, í flugvélinni, eða – erhemm – í skólastofunni í leik, jafnvel þó þið þekkist ekki neitt (og þorið ekki að tala saman).
Á næsta ári kemur Sony svo með Playstation3! Jólin 2006 – einhver?
Vodafone Simply
Ég dáist að þessu skrefi hjá Vodafone. Afar og ömmur þessa heims hafa tautað í fimm ár að sími sé tæki til að tala í, ekkert annað – ekkert MMS, GPS eða BSRB eins og Darri segir (nokkurnveginn) í Simply-auglýsingunum.
Konan mín þreytist ekki á að minna okkur tölvunerðina á að fæstir skilja tæknina eða kæra sig um að setja sig inn í hana. Notkunin þarf að vera einföld og augljós og það er þetta sem Simply síminn (hlekkurinn virkar bara í Internet Explorer) gerir. Einfaldur sími, með einföldu viðmóti. Það er hægt að hringja úr honum og í hann og senda SMS – “that’s it”, ekkert meir. Punktur, búið, basta. Og það sem meira er – þeim hefur tekist mjög vel til. Síminn er einfaldur í notkun og skýrir sig nokkurnveginn sjálfur – meira að segja leiðbeiningarnar eru einfaldar og hnitmiðaðar – hver les doðrant á 17 tungumálum þar sem leitun er að upplýsingum um sjálfsögðustu eiginleikana?
Hugsunin á bakvið Simply símann minnir mig á frábæra tilvitnun sem höfð er eftir stærðfræðingnum Blaise Pascal, en hann endaði bréf til vinar síns á orðunum: “Afsakaðu hvað þetta bréf er langt, ég hafði engan tíma til að gera það styttra” – það er nefnilega flókið að gera hlutina einfalda.
Simply síminn er ekki fyrir mig, og ekki fyrir marga af tæknitröllunum sem ég umgengst dags daglega, en ég myndi mæla með honum fyrir svona helming farsímanotenda. Þeir þurfa ekkert meira og vilja ekkert meira.
Það er kannski helst að manni finnist uppgjöf hjá Vodafone að sleppa nettengingunni (vafranum) alveg – en líklega sjá þeir það sem seinni tíma mál. Stríðið við að gera símaupplifunina einfalda vinnst með einum sigri í einu. Vitiði til, innan skamms munum við sjá svipaðan, einfaldan síma, með einföldum vafra, og auglýsingar þar sem Darri er að lesa nýjustu fréttirnar í símanum, gerandi grín að því að Nonni á næsta borði kunni ekki á þetta í sínum síma 🙂
Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.
Sæll Hjalli,
Vil sjá þig fjalla um tækniundrið Pandora.com – prófaðu það endilega.
Þetta er nokkuð töff dæmi nefnilega.
Heyrumst,
Stígur
Mér finnst geymslan í PSP vera galli. Væri allt í lagi ef það væri hægt að kaupa 20 gb kort í tölvuna (í stað 1-2 gb) en það myndi líklega kosta um 2 milljónir að gera slíkt (ef við gefum okkur að slíkt kort væri til).
Væri kúl ef PSP myndi fá geymsluna úr iPod Video, þá værum við að tala saman.
Sigurjón: Alveg sammála, ég skil ekki alveg af hverju Sony leggur svona lítið uppúr geymslurýminu í vélinni sjálfri (eða stærri minniskortum).
Stígur: Já, Pandóran er sniðug – ég hef reynt að forðast að tala um ákveðnar þjónustur, nema sem dæmi um einhver fyrirbæri. Kannski maður taki recommendation þjónustur almennt (með Amazon, NetFlix og Findory sem dæmi), eða einskorði sig við tónlistina og þá eru auk Pandora, Last.fm (sem hét Audioscrobbler) og UpTo11 líka góð dæmi.