Prius og gróðurhúsalofttegundir

Prius Það er kominn nýr bíll á heimilið. Og hvað er meira viðeigandi fyrir nörda eins og okkur en Prius?

Fyrir þá sem ekki vita er Prius svokallaður tvinn-bíll. Það þýðir að hann er með tvær vélar: bensínvél og rafmótor. Í hvert sinn sem maður bremsar eða fer niður brekku, hleður bíllinn rafgeyminn fyrir rafmótorinn. Tölvan í bílnum sér svo um að nýta báða mótorana sem best. Niðurstaðan er sú að bíllinn eyðir um eða innan við 6 lítrum á hundrað kílómetrum í innanbæjarakstri og við erum samt að tala um alvöru bíl – sama stærðarflokk og Avensis eða Nissan Primera, sem eyða um það bil tvöfalt meira.

Bensínvélin er bara 1,5 rúmlítrar, en ekki láta það plata ykkur. Þegar gefið er í taka báðar vélarnar á saman og niðurstaðan er sú að upptakið er miklu meira en t.d. í Corollunni sem við áttum áður, sem var þó 1,6 og mun léttari bíll.

Þetta er vissulega nýleg tækni. Til að mæta efasemdum fólks um endingu hennar hafa Toyota menn brugðið á það ráð að setja 8 ára ábyrgð á allt sem viðkemur tvinn-tækninni í bílnum. Reynslan hingað til hefur reyndar sýnt að þetta er mjög áreiðanleg tækni, en fyrstu svona bílarnir fóru að koma á almennan markað erlendis fyrir einum 6 árum.

Nördafaktorinn spilar auðvitað stóra rullu í þessum kaupum, en málið er að þetta er að auki hagkvæmt og umhverfisvænt.

Nýr Prius kostar nákvæmlega jafnmikið og ódýrasta gerðin af sjálfskiptum Avensis, eða 2.770.000 kr. hjá umboðinu (okkar er reyndar keyptur notaður). Mér reiknast til að við munum lækka bensínkostnaðinn okkar um sirka 8.000 krónur á mánuði með þessum kaupum og erum þó núna á stærri bíl en áður. Ekki flókið reikningsdæmi það.

Sömuleiðis reiknast mér til að við munum minnka koltvísýringsútblásturinn á heimilinu um 1,5 tonn á ári: m.v. 15.000 km á ári lætur sjálfskiptur Toyota Corolla 2000 frá sér um 3,25 tonn, meðan Prius 2004 lætur aðeins frá sér um 1,75 tonn á sömu vegalengd.

…og ef þið haldið að það skipti ekki máli að hugsa um losun gróðurhúsalofttegunda þá mæli ég með að þið kíkið á mynd Al Gore: An Inconvenient Truth.

Reyndar þarf ekki annað en þetta graf sem birtist í Technology Review í sumar til að sannfæra mig. Skoðiði myndina vandlega. Endinn á svarta strikinu, þar sem stendur “377” er ekki prentvilla – strikið endar raunverulega þarna! Er tilviljun að þetta gerist samhliða iðnbyltingunni? Kannski, ef þið hlustið of mikið á áróðursmaskínu repúblikananna, en kommon…

Ég er ekki í nokkrum vafa um að hybrid-tækni verður komin í nær alla nýja bíla innan 8 ára og á bara eftir að verða betri.

P.S. Nei, ég er ekki á prósentum hjá Toyota – ennþá…

Uppfært í júlí 2007

One comment

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s