Global Warming og öfgar

Sýning RÚV á “The Great Global Warming Swindle” í vikunni hefur hrist duglega upp í umræðunni um hnattræna hlýnun. Sem er gott.

Ég horfði á umrædda mynd á Google Video stuttu eftir að hún var upphaflega sýnd á Channel 4 í Bretlandi, en skilst að útgáfan sem var sýnd hér hafi verið lítillega breytt frá því sem þá var.

Eins og flestir nördar skora ég nokkuð hátt á einhverfu-skalanum. Ég kunni því vel við myndina að því leiti að hún spilar inn á rök, en ekki tilfinningar eins og svo margt annað sem fram hefur komið í þessari umræðu – á báðum pólum hennar.

Þessi rök hafa hins vegar verið hrakin rækilega, enda stenst myndin á köflum ekki einu sinni einfalt “common sense”. Það bendir okkur hins vegar á þá staðreynd að það eru ákaflega litlar líkur á því að við fáum nokkrar hlutlausar upplýsingar um þessi mál. Vísindagreinar sem eru á gráa svæðinu milli öfganna eru vissulega til – og eru satt að segja líklegastar til að vera réttar, en þær fá enga athygli. Fjölmiðlar hafa nefnilega sterka innri og ytri hvata til þess að birta bara öfgana.

  • Innri hvatinn felst í fréttamati: Heimsendir eða stórkostleg röskun á lífi milljóna eða milljarða manna t.d. vegna hækkunar sjávarborðs í fyrirsjáanlegri framtíð eru fréttir. Sömuleiðis eru það fréttir ef viðtekin skoðun (s.s. að hnattræn hlýnun sé af mannavöldum) er hrakin – eða einhver heldur því fram að verið sé að ljúga að heimsbyggðinni. Þannig sér maður oft slegið upp fyrirsögnum um þessa einu rannsókn á einhverju efni sem stangast á við samdóma álit þúsunda rannsókna fram að því.
  • Ytri hvatinn er öllu ógeðfelldari: Á bak við sitt hvora öfgana liggja nefnilega miklir hagsmunir. Á öðrum endanum eru umhverfissamtök og rannsóknastofnanir sem hafa lífsviðurværi sitt af styrkjum. Heimsendir í nánd er alltaf góður sölupunktur til að fá peninga úr rannsóknasjóðum eða frjáls framlög frá almenningi. Fram að þessu hefur þó enginn heimsendaspámaður haft rétt fyrir sér og hafa þó margir reynt fyrir sér á þeim vettvangi. Hagsmunir umhverfissinnanna blikna þó við hliðina á þeim sem standa á bak við hinn pólinn: meginþorra olíu- og verksmiðjuiðnaðs heimsins. Þetta veldur því að báðir aðilar stunda öfluga PR-starfsemi við að koma sínu að, en enginn stendur á bakvið slíkt fyrir hógværu skoðanirnar.

Eins og alltaf skal heimurinn vera annað hvort svartur eða hvítur.

Það sem fæstir virðast þó draga í efa lengur er að hnattræn hlýnun er staðreynd. Deilurnar snúast um hvort hún stafi að einhverju leiti af framkvæmdum mannsins.

Bölsýnismenn beggja fylkinga þurfa því – trúi þeir raunverulega því sem þeir segja – að fara að búa sig undir afleiðingarnar. Ef þetta er ekki “okkur að kenna” getum við hvort sem er ekkert gert í því. Ef verstu spár hinna ganga eftir er algerlega óraunhæft að halda að samstaða heimsbyggðarinnar um minnkun koltvísýringslosunar muni nást í tæka tíð til að það hafi þau áhrif sem til þarf.

Verstu spár nefna hækkun sjávarborðs um etv. 1 metra á næstu 100 árum. Hin fræga skýrsla IPCC segir 18-59 cm.

Hagfræðin segir okkur að núvirði eigna eftir 100 ár sé mjög nærri núlli, þannig að ef tekið er tillit til þessarra breytinga við þróun byggðar og skipulag er þetta vel viðráðanlegt. Kallar vissulega á breytingar, en ekkert sem ríkari þjóðir heims ráða ekki við. Sjáið bara breytingarnar sem hafa orðið á síðustu 100 árum – stór hluti borga Evrópu hefur sem dæmi verið reistur úr rústum a.m.k. einu sinni á þessum tíma. Vandinn liggur hjá fátæku löndunum, sem til allrar óhamingju eru sum hver þau sömu og yrðu hvað verst úti við hækkun sjávar. Það er því meira aðkallandi en nokkru sinni fyrr að þessar þjóðir brjótist út úr fátæktinni.

Til þess eru þrjú atriði mikilvægust: auknar samgöngur, ódýrari og einfaldari fjarskipti og niðurfelling (verndar)tolla og innflutningsgjalda. Í einu orði: Hnattvæðing.

Hér gæti samt farið svo að fylkingarnar í hlýnunarumræðunni yrðu sammála. Þær falla nefnilega að verulegu leiti saman við þá hópa sem helst eru á móti hnattvæðingu. Umhverfissinnar á þeim forsendum að hnattvæðingin auki útblástur og aðra mengun (sem var vandinn til að byrja með) og stangist á við “local” hugsanaháttinn sem þar er svo vinsæll (fólk annarsstaðar má þá bara halda áfram að vera fátækt). “Big business” er hins vegar á móti niðurfellingu gjalda þar sem það raskar virðiskeðjunum sem þau hafa lært (og að einhverju leyti mótað til) að gera sér að féþúfu.

Á síðustu mánuðum hef ég smám saman farið að hallast að því að hnattræna hlýnunin muni enda eins og 2000-vandinn. Öfgarnir í þeirri umræðu voru svipaðir. Öðru megin var heimsendir – hinum megin blásið á áhyggjurnar. Í dag hlæjum við að hysteríunni, en munum hins vegar aldrei vita hversu illa hefði farið ef ekkert hefði verið gert.

Á sama hátt er líklegast að það rétta í “global warming” umræðunni sé einhversstaðar á gráa svæðinu. Togstreita öfganna mun verða til þess að haldið verður áfram að leitast við að draga úr CO2 losun, en mun á mun hófsamari hátt en tillögur þeirra sem lengst vilja ganga.

Í framtíðinni mun svo verða hlegið að öfgamönnunum enda munu annars vegar aðgerðirnar draga úr áhrifunum og hins vegar lífríkið og mannkynið aðlaga sig að þessum breytingum rétt eins og öðrum og meiri breytingum í gegnum tíðina.

Niðurstaðan sem þetta allt leiðir mig til er að við Vesturlandabúar – sem höfum aldeilis efni á því – eigum vissulega að leitast við að draga úr útblæstri og jafna okkar koltvísýringslosun, en við megum ekki láta það hafa áhrif á ferðalög og alþjóðleg viðskipti. Þeir sem hafa mestar áhyggjur ættu ekki bara að reyna að vera kolefnisjafnir – heldur hreinlega kolefnisjákvæðir.

Þannig búum við til svigrúm fyrir nauðsynlega framþróun þróunarríkjanna. Fátækt þeirra er nefnilega vandi sem er ekki yfirvofandi, heldur yfirstandandi og snertir þegar meira en milljarð manna a.m.k. jafn sárt nú þegar eins og afleiðingar hnattrænnar hlýnunar geta gert eftir áratugi.

Ergo: Meiri hnattvæðingu OG minni koltvísýring.

2 comments

Leave a comment