Samþjöppun eigna og galin útlán – það var vandinn

Vanda íslensks efnahagslífs má rekja til tveggja þátta:

  • samþjöppun eignarhalds; og
  • galinnar útlánastefnu bankanna

Hin margvíslegu efnahagslegu vandamál sem við glímum við eru öll afleiðing af eða tilbrigði við þessi tvö stef.

Vandann er sem sagt ekki að rekja til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans eða Ríkisstjórnarinnar þó alla þessa aðila megi gagnrýna og sumir þeirra hafi óumdeilanlega brugðist hlutverki sínu í aðdraganda, hruni og eftirmálum þess.

Vandann er ekki einu sinni hægt að rekja til Icesave, þrátt fyrir það sem ætla mætti á umræðunni. Þvert á móti reyndar. Það liggur við að það sé bannað að hafa orð á því, en Icesave var styrkleiki í íslenska bankakerfinu fyrir hrun, ekki veikleiki og vandinn sem nú er vegna Icesave-skuldbindinganna er afleiðing hrunsins, ekki orsök þess. Innlán styrkja bankakerfi og Icesave var virkilega vel heppnuð innlánastarfsemi.

Það er hins vegar ekki gott að reka banka sem týna 2-3 af hverjum 4 krónum sem þeim er treyst fyrir. Síst af öllu þegar það er sparifé fólks!

Vandinn var með öðrum orðum ekki peningarnir sem komu inn, heldur peningarnir sem fóru út – og komu aldrei til baka.

Í hnotskurn

Aðdraganda hrunsins má í stuttu máli lýsa svona: Þrjár viðskiptablokkir kepptust við og keyptu upp því sem næst allt atvinnulíf á landinu (og margt utan landsteinanna) á uppsprengdu verði fyrir lán frá sjálfum sér og hvorri annarri. Þegar upp var staðið skulduðu þær “sér” líklega í kringum 1500 milljarða króna, en raunverulegt virði eignanna var margfalt minna og því engin leið að þessi lán yrðu borguð til baka. Þegar ljóst var að mörg þessara lána myndu falla í vanskil og ekki var lengur hægt að velta vandanum með endurfjármögnun féllu dómínókubbarnir hratt.

Útlánin voru – eins og dæmin sanna – oft á tíðum hreinlega galin og má fullyrða að aðeins brot af þeim hefðu verið veitt, hefðu bankarnir ekki verið í eigu viðskiptablokkanna sem tóku þau.

Afleiðingar, ekki orsök

Hrunið hafði vissulega margar alvarlegar afleiðingar sem við þurfum að standa straum af. “Smotterí” eins og endurfjármögnun Seðlabankans, fjármögnun nýju bankanna, halli á rekstri ríkisins næstu árin, Icesave-skuldbindingin (hver sem hún verður) og svo fall krónunnar með tilheyrandi verðbólgu, lækkað lánshæfismat ríkis og fyrirtækja, atvinnuleysi og gjaldeyrishöft.

En munum að þetta eru allt afleiðingar vandans, ekki rót hans. Vandinn sjálfur var samþjöppun eignarhalds og galin útlán.

Þetta grunar mig að verði megin niðurstaða skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

8 comments

  1. Góð pæling, en ég er ekki alveg tilbúinn að skrifa upp á að “Vandann er sem sagt ekki að rekja til … Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans eða Ríkisstjórnarinnar” – því mér finnst mikið við þessa aðila að sakast.

    Þessar tvær stofnanir: FME sem á að sjá til þess að einstaka bankar séu í lagi og svo Seðlabankinn sem á að sjá til að kerfið sé í lagi – þær brugðust okkur algjörlega. Hér varð raunin eins nálægt kerfishruni og mögulegt er án þess að all fari í þrot. Kerfið var augljóslega ekki í lagi fyrst þetta varð raunin, en tengslin milli hæstráðenda FME, stjóra og stjórnarformanna bankana, aðila innan seðlabankans og ráðamanna þjóðarinnar hafa örugglega orðið til þess að gagnrýni og aðgerðaleysið var algjört, til þess að skemma ekki veisluna.

    Ég tel því að galin útlánastefna bankanna ásamt þeirri samþjöppun eignarhalds sé afleiðing ákveðinnar stefnu stjórnvalda síðastliðna ára, stefnunni að auðvelda ákveðnum klíkum að eignast Ísland, en torvelda öðrum óvinveittum klíkum með því að vinna gegn þeim beint. Stefnunni að vera með frjálsan markað, sem á samt að vera handstýrt af klíku í hendurnar á þeim sem þóknast klíkunni.

    Betra hefði verið að vera hér með frjálsan markað, með skýrari almennum leikreglum fyrir markaðinn – í stað þess að afhenda banka þeim sem er stjórnvöldum þóknanlegir – eða treystandi til að afhenda þá ekki þeim sem eru stjórnvöldum ekki þóknanlegir.

    Það er því mikið við valdhafa í þessum stofnunum og ríkistjórnum íslands að sakast og vona því að skýrslan eigi eftir að grafa undan klíkusamfélaginu, og leiða af sér heilbrigðara efnahagslíf.

    1. Ég er sammála þér að það sé um margt við þessa aðila að sakast, og segi það reyndar í færslunni. FME og Seðlabankinn eru hins vegar ekki rót vandans, heldur klikkuðu þau á að afstýra honum.

      Hvað varðar handstýringu Ríkisins á því hverjir fengu að eignast bankana er það hins vegar rétt hjá þér að það ýtti undir blokkamyndunina. Það er þó rétt að halda því til haga að a.m.k. einni blokkinni tókst að safna eignum sínum, þrátt fyrir að vera í ónáð hjá ríkisstjórninni.

  2. Jónas, rök þín eru gölluð.

    FME og Seðlabankinn eru eftirlitsstofnanir sem báðar verða að vinna innan ramma laganna.

    Án undantekninga.

    Það er eytt miklum fjármunum í að tryggja að svo sé.

    Þar af leiðir kemur upp sú staða að:
    * FME/SB grunar að eitthvað sé að fara úrskeiðis, en…
    – hafa engar haldbærar sannanir
    – hafa engan rökstuddan grun
    ergó:
    : hafa engar heimildir til framkvæmda.

    FME og SB eru ekki lögregla (öll mál sem varða við hegningarlög verða að fara í gegnum fjársvikadeild RL og/eða ríkissaksóknara) né heldur eru þeir löggjafarvald (það er Alþingi, þótt þeir vilji stundum halda að þeir séu framkvæmdavald, sbr. sjóðheit lög á verkföll).

    FME og SB unnu hvað þessar stofnanir gátu, innan þess ramma sem þeim var skapaður. Báðar stofnanir vöruðu við því ástandi sem var að skapast, og báðar stofnanir vildu breytingu á því sem var að gerast. En til þess að slíkt gæti gerst yrði löggjafarvaldið að standa sig í því að skrifa lög sem ekki væru tvíræð og ekki væru gloppur í sem hægt væri að misnota. Það, minn kæri, hefur ekki enn átt sér stað á íslandi, og mun sennilega ekki gerast á meðan vatn rennur til sjávar.

    Það þarf ekki að hafa verið stefna stjórnvalda að svona færi, það var nóg að hafa nokkra bitra einstaklinga (Hafskipsmálið, einhver? Jón Ásgeir v.s. Davíð ?) sem höfðu þann hæfileka að tala til sín auð, því þegar upp er staðið, þá snúast öxlar svikamyllunnar aðins um örfáa menn. Peðin eru fjölmörg og til þess fallin að fela stærri mál (peð eins og FL-Group, eignarhaldsfélög sem kaupa bankahluti út á lánað fé ofl).

    Þú segir að betra hefði verið að vera hér með frjálsan markað – þetta var akkúrat frjáls markaður. Það er nákvæmlega þetta sem gerist þegar frelsið er nánast óheft. Obbinn nýtur frelsisins í formi ódýrs lánsfés sem notað er til utanlandsferða, jeppakaupa og annars íburðar. Nokkrir fá að „spila með“ og leika stórkalla á einkaþotum á meðan örfáir dugmiklir en full þröngsýnir „snillingar“ ræna þjóðina – á fullkomlega löglegan hátt.

    Svona í lokin langar mig að spyrja þig hvar þú ætlar að finna „klíkulaust“ stjórnvald. Varla hjá VG, því þeir eru að framkvæma allt það sem Sjálfstæðisflokkinn dreymdi um en þorðu ekki að gera. Varla hjá Sf, því þeir eru falir hæstbjóðandi – líkt og ónefnd atvinnustétt kvenna í Hamborg. Varla Frjálslyndi flokkurinn, því hann fuðraði upp, og tæplega held ég að þú finnir það í röðum Sjálfstæðisflokks. Og verði stofnaður nýr flokkur (já, eins og „Flokkurinn“) þá geturðu verið viss um að þótt meðlimir tilheyri ekki einhverri bakherbergjaklíku, þá eigi þeir örugglega frænda í héraði sem þarf meiri mjólkurkvóta, nú eða frænku í afskekktu sjávarplássi sem þarf að hlaupa undir bagga með svo hún tapi nú ekki familíukvótanum.

    So…

    Dream on.

    1. Sæll Þór,

      ekki misskilja mig þannig að ég sé að gera lítið úr ábyrgð þeirra einstaklinga sem ollu hruninu – þeir bera mikla ábyrgð. Það sem ég er að benda á er að þetta voru samt einstaklingar á markaði sem spiluðu innan þess ramma sem þeim var gefinn. Gerendur á markaði bera enga ábyrgð gagnvart mér: ég kaus þá ekki og þeir þurfa ekki að svara fyrir gjörðir sínar gagnvart mér eða öðrum á meðan þeir halda sig innan ramma lagana. Það eina sem ég get gert er að hætta að versla við fyrirtæki tengd Baugi, Björgólfi eða öðrum .. verst hvað það eru fá fyrirtæki eftir.

      Ég kaus hinsvegar stjórnmálamenn, sem kusu sér embættismenn – og margir þessara manna standa þétt við hlið viðskiptablokka. Þessir stjórnmálamenn bera ábyrgð á því að verja okkur í þessu landi fyrir vondum öflum markaðarins – ekki bara sumum þeirra heldur öllum með almennum leikreglum og með því að efla eftirlitsstofnanir. Þeir brugðust sínu hlutverki, ekkert endilega með einbeittum brotavilja, heldur frekar með algjöru kæruleysi og fullkomnu trausti gagnvart vinum sínum í viðskiptalífinu.

      Ég tel t.d. að Icesave væri ekki það mál sem það er í dag hefði yfirmaður FME ekki verið jafn góður félagi bankastjóra Landsbankans gamla. Ákvörðun eins og sú að velja að vera með útibúin á Íslandi vegna traust um eftirlitsleysi er bara ein af þeim sem hefðu verið öðruvísi ef klíkusamfélagið hefði ekki verið jafn ráðandi og það var. Einnig hefði verið líklegt að erlendir aðilar hefðu eignast Landsbankann – en ekki einhverjir hliðhollir stjórnvöldum (eða amk ekki óvinveittir eins og manni sýnist rökin hafa verið).

      Að lokum; ég reyni að hafa þetta ekki of mikið um pólitík – það þarf að hreinsa fólk úr öllum flokkum til að það sé hægt að hreinsa kerfið. Flokkarnir eru hinsvegar mis gegnsýrðir af klíkuskap, og ég tel þá tvo verstu hafa verið allt of lengi í stjórn. Bara það að koma þeim frá stjórn í smá tíma getur lagað það, og vonandi mun rannsóknarskýrslan líka hreinsa klíkuskapinn úr flokkunum.. en að stofna nýja óspillta flokkar er ómögulegt, og mun betra að reyna bara beita sér innan þeirra flokka sem til eru og bæta þá.

  3. Það má vel vera að samþjöppunin hafi verið slæm en ég segi að orsökin liggi aftar, þ.e. í valdinu að geta prentað peninga.

    Þessar þrjár blokkir eignuðust bankana, með banka á bakvið sig þá færðu löglega að búa til pening úr engu. Það er því ekki að ástæðulausu að það var barist hart um bankana, sérstaklega Íslandsbanka og KB.

    Ég held því að við ættum að leita að rót vandans, ef þessi valmöguleiki væri ekki til staðar, þ.e. að búa til pening úr engu, þá hefðu þessar blokkir haft mun minni völd

    Það að setja endalausar reglur og lög um banka held ég að skaði meira almenning og styrki aðeins einokun, litlir aðilar geta ekki stofnað nýja banka vegna flækju og aðeins stórir aðilar hafa efni á endalausu eftirliti og skriffinsku vegna laga.

    Ef lögleiðing peningarprentunar væri afnumin þá væru vandamálin mun minni, því hvaða aðili mundi ekki finna allar mögulegar leiðir framhjá lögum og hirða allan þann pening sem hann gæti ef hann væri með peningaprentvél hjá sér.

    1. Mjög áhugavert Ingi Gauti, sérstaklega vegna þess að upphaflega var bloggfærslan hér að ofan miklu lengri og fór þá einmitt út á þessar brautir. Ég er þó ekki alveg eins harður og þú í því hvenær megi gefa út peninga og hvenær ekki. Hér er brot af textanum sem ég klippti í burtu:

      Í svokölluðu FIAT-myntkerfi, eins og því sem notast er við víðast hvar í heiminum í dag hafa bankar í raun leyfi til að “prenta peninga” eftir ákveðnum reglum. Í hvert sinn sem nýtt lán er veitt, eru það að mestu leiti nýir peningar (þetta rakti ég áður í langri bloggfærslu sem finna má hér). Bankanum er treyst fyrir því að veita lánin með skynsömum hætti og gefa þannig bara út nýja peninga ef raunveruleg verðmæti liggja þar að baki.

      Í raun má segja að í stað þess að myntin sé á gullfæti (þ.e. að hver króna vísi á ákveðið magn af gulli í öryggisgeymslu), fái hver króna fót í einhverju sem bankinn telur verðmætt. Þetta gerist með veðum. Þegar ég fæ lán til að kaupa íbúð, tekur bankinn veð í íbúðinni. Bankinn býr (að mestu) til peningana sem hann lánar mér til að borga fyrri eiganda og þær krónur fá í raun “fót” í íbúðinni. Lán út á steinsteypu. Með þessum hætti á að vera tryggt að alltaf séu til meiri verðmæti en peningar í kerfinu – miklu meiri reyndar þar sem langstærsti hluti allra verðmæta er skuldlaus og óveðsettur.

      En það er flókið að meta það hvað eru verðmæti og hvað ekki. Þannig er t.d. fyrirtæki í góðum rekstri klárlega verðmætt. Verðmætin felast í þeim föstu tekjum og hagnaði sem fyrirtækið hefur og hverju því sem þarf til að halda starfseminni gangandi, s.s. tækjakosti, mannauði, aðstöðu, vörumerki, ímynd og tryggum viðskiptavinum. Ef ég ætlaði að kaupa slíkt fyrirtæki gæti ég undir venjulegum kringumstæðum líklega fengið lán til þess að einhverjum hluta. Nú er búið að búa til nýjar krónur sem eiga sér ekki fót í steinsteypu heldur í einhverju óáþreifanlegu eins og ímynd fyrirtækis. Hljómar ekki eins traustvekjandi og steinsteypa, en í kerfinu okkar treystum við bönkum til að meta það hvort slík eign sé nógu áreiðanleg til að standa undir láninu. Arður sem greiddur er nýja eigandanum, eða verðmætaaukning sem verður á fyrirtækinu þarf að standa undir því að greiða lánið til baka. Svo lengi sem bönkunum fatast ekki oft flugið í þessu mati og lánin eru greidd til baka með vöxtum eða veðin nógu verðmæt til að taka upp í skuldina að öðrum kosti, þá gengur kerfið upp.

      Örugg og góð veð eru því lykilatriði. Ef lána á til kaupa á hlutabréfum eða fyrirtæki í heild, þarf því heldur betur að hafa borð fyrir báru. Hlutabréf eru nefnilega ekki raunveruleg verðmæti – þau eru einfaldlega þess virði sem einhver annar er tilbúinn að borga fyrir þau á hverjum tíma. Það er því eins gott að kaupandinn leggi fram nógu mikið eigið fé við kaupin, nú eða leggi fram einhver önnur – örugg – veð fyrir lánsfjárhæðinni. Svo var því miður ekki með stóran hluta af útlánum íslensku bankanna. Mýmörg dæmi eru um hlutabréfakaup þar sem veð í bréfunum sjálfum voru EINU veðin fyrir lánunum. Þetta átti jafnvel við um kaup á hlutabréfum í bankanum sjálfum.

      Þetta er eiginlega svo bilað að maður verður að segja það tvisvar: Banki býr til peninga úr loftinu einu saman til að lána manni fyrir kaupum á hlutum í bankanum sjálfum. Ja, það er þá eins gott að reskstur bankans – til að mynda útlán hans – séu góð til að standa undir verðmætaaukningunni á bréfunum! Ha? Já, það er eins gott að það eru skjaldbökur alla leið niður!

      Sagan segir að í tilfelli Kaupþings hafi allt að 49% af hlutum í bankanum verið keyptur með, eða veðsettur fyrir lánum frá bankanum sjálfum!

      Það var því búið að “prenta” gríðarlegt magn af peningum sem reyndust síðan ekki ávísun á nein verðmæti – og þá er voðinn vís, enda fór svo að mikið af þessum peningum fór til “money heaven” og verða ekki vaktir aftur til lífsins.

      Af lofti ertu kominn – og að lofti skaltu aftur verða…

  4. Fínn pistill, Hjalli. Það sem þú styttir út, varðandi “FIAT” og fleira í þeim dúr sem Ingi Gauti nefnir í ágætri athugasemd þykir mér vera nærri rót vandans. Það er vissulega rétt að útlán til óreiðumanna heimtast illa og að lánastarfsemi sem byggir á slíku framferði getur bara endað illa. En sú útlánastefna væri ekki möguleg (til lengdar) nema fyrir þrautavaralán seðlabanka, innistæðutryggingar og fleiri einkenni nútíma bankastarfsemi sem gera það að verkum að markaðurinn (viðskiptavinir banka) veita bönkum ekki það aðhald sem til þarf – sjá t.d. http://bit.ly/cfJ8Ab.

    Skilvirk og gagnsæ upplýsingagjöf (sem þú, Hjálmar, svo ágætlega hefur barist fyrir) er mun líklegri til að færa bankastarfsemi nær eðlilegum og «sjálfbærum» viðskiptaháttum í gegnum aðhald markaðarins. Þeir bankar sem gæta peninga viðskiptavina sinna vel öðlast traust. Þeir bankar sem lána eigendum eða “vinum” sínum risalán í skuldsettar yfirtökur (LBO-hringrás a´la Sterling eða aðrar bólur) öðlast ekki traust.

Leave a Reply to Þór Sigurðsson Cancel reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s