Ég skil ekki atvinnuleysi

Ég ætla að hætta mér út í ansi eldfimt umræðuefni. Eftirfarandi verður að lesast með þeim fyrirvara að ég hef aldrei misst vinnuna og þekki því ekki atvinnuleysi á eigin skinni (ég hef reyndar unnið hjá sjálfum mér næstum allan starfsferilinn). Þess vegna vil ég gjarnan fá viðbrögð á neðangreint sem hjálpa mér að skilja hvar ég fer útaf brautinni, ef svo er.

Ég skil ekki hvernig stendur á því að meðan einhversstaðar er verk að vinna, þá sé einhver á atvinnuleysisbótum.

Af hverju borgar samfélagið einhverjum fyrir að gera ekki neitt, þegar sá hinn sami gæti verið einhvers staðar annars staðar að vinna samfélaginu gagn? Af hverju bjóðum við ekki upp á öryggisnet í formi þess að fólkið í landinu geti á hverjum tíma gengið í örugg íhlaupaverk og fengið greitt fyrir þau, í stað þess að greiða þeim atvinnuleysisbætur?

Þetta hefur ótal kosti:

  • Þessir peningar samfélagsins fara í að skapa verðmæti og efla samfélagið í stað þess að fara í hreint ekki neitt.
  • Fólk sem missir starfið sitt helst í rútínu, hefur hlutverk og þannig minnkar hættan á margvíslegum fylgikvillum atvinnuleysis, s.s. depurð og þunglyndi.
  • Ýmis verk verða unnin sem aldrei hefðu verið unnin annars.

Það er auðvitað að mörgu að huga og ekki sama hvernig þetta er gert. Í fyrsta lagi, þá er ég ekki að tala um atvinnubótavinnu, því í mínum huga felst atvinnubótavinna í að vinna þarflaus verk eins og að eitt teymi verkamanna moki skurð og annað teymi komi svo og moki ofan í hann. Verkefnin sem verða fyrir valinu þurfa að uppfylla allmörg skilyrði, þ.á.m.:

  • Þau þurfa að fela í sér “samfélagsleg verðmæti” af einhverju tagi.
  • Margvísleg verkefni þurfa að vera í boði til að sem flestir geti fundið verkefni við sitt hæfi.
  • Þau mega ekki vera í samkeppni við einkafyrirtæki.
  • Þetta þarf að vera ígripavinna sem fólk er fljótt að komast inn í og getur hætt í án fyrirvara.

Verkefni af þessu tagi eru fjölmörg. Mannfrek verkefni sem ýmsar stofnanir hefur langað til að framkvæma, en ekki fengið fjárveitingu í; verkefni sem myndu gera samfélagið betra, en erfitt er að reikna fjárhagslega réttlætingu fyrir að leggja í, a.m.k. í upphafi. Og þessi verkefni eru af margvíslegu tagi, og gætu því nýtt margvíslega sérfræðiþekkingu sem nú er ónýtt á atvinnuleysisbótum.

Þessi vinna væri líka að mörgu leyti óhefðbundin (rétt eins og atvinnuleysisbætur eru ekki hefðbundin vinna), t.d.:

  • Starfsmaður er enn hvattur til að leita sér að annarri vinnu með sama hætti og gert er í tilfelli atvinnulausra.
  • Uppsagnarfrestur af hálfu starfsmanns er enginn, hann getur hætt án fyrirvara.

Meðan enn er til íslensk bók á Landsbókasafninu sem ekki hefur verið komið á tölvutækt form, meðan enn liggur rusl á götum og ströndum landsins, meðan enn er ógróðursett tré eða óupptekin lúpína, meðan enn á eftir að mála yfir veggjakrot einhvers staðar, meðan enn á eftir að skrá myndir í Ljósmyndasafninu og efni í eigu Ríkisútvarpsins, meðan enn á eftir að fara yfir málskjal í tengslum við hrun bankanna og meðan enn þarf að bægja illa búnum túristum frá eldgosum og sjóðandi hverum, er hægt að fækka fólki á atvinnuleysisbótum.

Þessi verkefni liggja út um allt og fólkið er á lausu. Leiðum þau saman.

Það er nefnilega ekkert til sem heitir atvinnuleysi – bara ónýtt vinnuafl sem bíður þess að komast til starfa við eitthvað uppbyggilegt.

19 comments

  1. Áhugaverð hugmynd, en það er mikilvægt að fólki finnist þetta ekki vera “þarflaust verk” eins og þú segir. Ég vill koma með tillögu að framkvæmd:

    Stofna skipulagseiningu sem sér um að skipuleggja þarfaverk innan samfélagsins. Þessi eining þarf að hafa skýr markmið og vita hvaða verkum á að taka að sér og hvaða verkum á að hafna.

    Bjóða stofnunum, fyrirtækjum og öðrum einstaklingum að óska eftir aðstoð í verkefni sem annars ekki væri til fjármagn í.

    Bjóða einstaklingum, sem annars væru á atvinnuleysisbótum tækifæri til að taka þátt í slíkum verkefnum. Það þarf svo að vera hvetjandi umhverfi og eitthvað til þess að einstaklingar sjái hag sinn í að hjálpa.

    Slíkar hvatningar gætu verið í formi ódýrs eða ókeypis hádegismatar, ókeypis í strætó.

    Ég hef prófað atvinnuleysi og svo að taka mér starf á lágmarkslaunum, bara til að sitja ekki heima og bora í nefið. Það að koma mér til vinnu, borða hádegismat og koma mér til baka á lágmarkslaunum var dýrara á mánuði en að sitja heima á atvinnuleysisbótum.

    Ef það má koma á móts við fólk með þetta, held ég að þetta sé góð og vel framkvæmanleg hugmynd.

  2. Ég er algjörlega sammála þér, en ég vil þó benda þér á það að atvinnubótavinna merkir einfaldlega framkvæmdir á vegum hins opinbera til að bæta úr atvinnuleysi. Það felur engan veginn í sér að verkin séu þarflaus. Það sem þú ert að lýsa er einmitt atvinnubótavinna.

    1. Ég veit að þetta er skilgreinda merkingin, en “atvinnubótavinna” hefur getið sér slæmt orð og þýðir held ég í hugum flesta þarflaus verk. Það þarf því að nota önnur orð um þetta.

  3. Góðir punktar Andri. Einhvers konar “crowd sourcing” á því hvaða verkefni ættu rétt á sér og hver ekki eru mjög góð hugmynd.

    Hvað verkefni einkaaðila varðar, þá er í raun í gangi slíkt prógramm – Starfsorka – sem ég hef m.a. nýtt mér hjá DataMarket með mjög góðum árangri. Ég held að það prógramm hafi skilað yfir 200 störfum og þar er því komin góð fyrirmynd. Þetta er hins vegar miklu viðkvæmara og gengur bara í mjög afmörkuð verkefni. Í tilfelli Starfsorku er miðað við “nýsköpun sem er ekki í innlendri samkeppni”.

    Ég reikna nú með að það sé hægt að finna ýmsar leiðir til að koma í veg fyrir að það sé dýrara að hafa sig til vinnu en ekki. Það er mikilvægur punktur.

  4. Get vel tekið undir þetta og einmitt velt svipuðu fyrir mér, afhverju ekki er búið að búa til störf fyrir fólk á atvinnuleysisbótum, þó svo að ég sé ekki þeirra skoðunnar að það eigi að þvinga fólk á atvinnuleysisbótum í slíka vinnu.

    Fólk í flestum tilfellum staldrar yfirleitt ekki lengi við á atvinnuleysisbótum nema það kjósi þannig lifnað sem eru í flestum tilfellum lítil prósenta af þjóðfélaginu og enda yfirleitt á skrá hjá Féló eftir nokkura ára skeið.

    Flestu fólki þykja bætur vera fyrir “neðan sína sjálfsmynd” þær eru það lágar að þær eru ekki mjög hvetjandi fyrir sálartetrið og að vera í þessari stöðu dregur fólk gjarnan í þunglyndi sem skilar því að fólk hefur ekki mikinn vilja til þess að vinna. Leiðinlegur spírall sem fólk getur lent í. Hvað þá þegar fólk er að missa húsnæði og jaðrar við gjaldþrot o.s.frv.

    Það að ekki sé leyfilegt að vinna og afla sér tekna á meðan fólk er á bótum held ég að sé það versta sem ríkið geri. Það ýtir undir svarta vinnu og að fólk sjái ekki endilega ástæðu til að búa sér til ný störf með því t.d. að stofna eigin fyrirtæki. Ég þekki t.d. fólk sem er á bótum og vinnur svarta vinnu um helgar og hefur hærri tekjur en ég á mánuði eftir skatt. Flestir eru nú til í að vinna 40 stundir á mánuði í stað 160 og fá sama borgað ekki satt?

    Ef að ríkið mundi breyta snúa málum þannig að fólk gæti unnið á meðan það er á bótum þá gæti það virkað sem hvatning fyrir fólk að koma sínum eigin rekstri í gang án þess að taka of mikla áhættu (það ætti amk fyrir mat og einhverju húsaskjóli).

    Þetta væri hægt að útfæra þetta þannig að aðili á bótum fengi 2-3 ár til að byggja upp eigin rekstur og einhver viðmið sett fyrir “eðlilegum launum”. Þegar viðkomandi er farinn að skila reglubundum tekjum í rekstrinum sínum að þá væri hægt að lækka bætur til móts við það sem tekjur hækka og fasa þannig út bótunum eftir því sem reksturinn eykst.

    Þó svo að það séu ekki allir sem vilja sinn eigin rekstur að þá hugsa ég að þetta væri á endanum atvinnuskapandi.

    Kerfið þarf að vera hvetjandi, ekki letjandi.

  5. Það er þetta með að mörgum finnst betra að dunda sér heima og vera með 30-40 þúsund minna í ráðstöfunartekjur, heldur en að mæta í vinnu.

  6. Ég er búin að vera á atvinnuleysisbótum síðan mitt starf var lagt niður í fallinu stóra. Síðan þá hef ég farið á námskeið um stofnun og rekstur smáfyrirtækja, mér að kostnaðarlausu auk fjölda annarra námskeiða sem gera mig að betri mér.

    Það var mjög vel haldið utan um úrræði fyrir fólk sem vildi nýta atvinnuleysið í að byggja sjálfa sig upp og einmitt, ganga á eftir draumunum sem það gekk ekki á eftir í góðærinu vegna þess að það þorði ekki að segja upp vinnunni.

    Einnig er hægt að sækja um styrk til eigin atvinnusköpunar og verið á bættum bótum meðan unnið er að þróun eigin viðskiptahugmyndar.

    Það er boðið upp á að vinna sér inn 60 þúsund krónur á mánuði áður en bætur eru skertar. Eftir það eru bæturnar skertar um eina krónu fyrir hverjar tvær krónur sem maður vinnur sér inn. Þetta finnst mér mjög atvinnuhvetjandi og æðislegt. Ég hef getað tekið að mér smáverkefni og dettur ekki í hug að vinna svart því það er náttúrlega pakklegt.

    Minni á að það hér er hægt að fylla inn upplýsingar um þá sem þú veist að eru að vinna svart án þess að hægt sé að rekja það til þín. http://vinnumalastofnun.is/abending/

    Ég er núna í mínu öðru átaksverkefni þar sem ég fæ að nýta hæfileika sem ég hefði ekki þorað í fyrir fall. Átaksverkefnin eru einmitt það sem þið eruð að tala um og mér sýnist starfsmenn vinnumálastofnunar vera að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma fólki sem vill vinna í vinnu.

    Kannski þyrfti bara að brýna fyrir fyrirtækjum að nýta sér þessi átaksverkefni. Verkefnin mín hafa verið hjá Kópavogsbæ og Reykjavíkurborg, ekki hjá einkafyrirtækjum. Og einmitt er ég að sinna starfi sem aldrei hafa verið peningar til að gera. Ég gerði vefi fyrir leikskóla og vinn núna hjá Borgarskjalasafni við að setja inn efni á vefi þeirra.

    Fyrirgefiði langlokuna en mér fannst bara flestar hugmyndirnar sem þið komuð með vera nú þegar í gangi.

    Mússídúll
    Beta

    1. Takk fyrir þetta Beta,

      Það voru að hluta til svona upplýsingar sem ég var að leita að með því að skrifa pistilinn.

      Það eru augljóslega í gangi miklu sterkari prógrömm en ég átti von á. Hins vegar vantar enn eitthvað til að brúa þetta yfir í það fyrirkomulag sem ég lagði til í pistlinum, þar sem enn er ekki búið að tagga allar myndir á ljósmyndasafninu og enn er rusl á götum borgarinnar – og samt eru 17.000 manns á atvinnuleysisskrá.

  7. Já, mér heyrist þetta vera talsvert betur statt en maður gerði ráð fyrir.

    Ég spurði nokkra sem ég þekki (4) sem eru á atvinnuleysisskrá hvort þeir könnuðust við eitthvað af þessu og enginn þeirra kannaðist við þetta með styrki til atvinnusköpunar og verkefni á vegum vinnumálastofnunar.

    Þekki ekki hvernig kynningar á þessi eru hjá Vinnumálastofnun en m.v. þetta dræma úrtak hjá mér þá mætti kannski kynna þetta betur.

  8. Vandinn er að hluta til skortur á kynningu, en sú kynning ætti einmitt að vera skuldbundinn. Þ.e.a.s. að til þess að þiggja bætur þurfi aðili að sitja ítarlega kynningu á því hvaa úrræði eru í boði og í framhaldinu að vera skuldbundinn til þess að velja sér eitthvert þeirra úrræða.
    Reynslan sýnir að þeir sem eru atvinnulausir í 6 mánuði eða lengur samfleytt eru afar ólíklegir til þess að verða nokkurn tímann aftur góður starfskraftur. Þetta byggir ekki á fordómum heldur stúdíu frá Svíþóð, Danmörku og Finnlandi.

    Það er því samfélaginu öllu sem og að sjálfsögðu þeim atvinnulausu, mikið kappsmál að halda fólki aktívu.

    Tek heilshugar undir þessar hugleiðingar, hef gjarnan velt því fyrir mér af hverju kerfið sé þess eðlis að það hreinlega hvetji til áframhaldandi iðjuleysis.

  9. Getur verið að hagkerfið geri ráð fyrir ákveðnu atvinnuleysi, sem ekki má vera starf? Ég held að kapítalisminn vilji ekki störf nema raunveruleg framleiðni-störf. Þ.e. störf sem eru raunveruleg verðmætasköpun. Allt sem er til reddingar gæti minnt á miðstýrða ráðstjórn, og ekki viljum við það eða hvað?

  10. Er þetta ekki bara eins og á skrifstofunni. Ef það er stund milli stríða þá hugar maður að gæðamálum og rótunum.

    Ákveðin þegnskylduvinna í stað aðgerðarleysis hlýtur að vera af hinu góða, svo framarlega sem að það komi ekki niður á núverandi störfum og atvinnutækifærum.

  11. Algerlega sammála Adda. Ég óttast ekki að þetta líti út eins og miðstýring ef þetta er skýrt skilgreint sem öryggisnet sem allir geta “dottið í”, frekar en að ríkið líti á þetta sem mannafl sem þau geti alltaf gengið í.

    Þetta er bara betri notkun á fjármunum, þ.e. að fá betra samfélag fyrir peninginn frekar en ekki neitt.

    Eftir upplýsingarnar frá Betu sýnist mér reyndar að það sem helst vanti upp á í núverandi kerfi sé að gera stórátak í að finna og skilgreina átaksverkefni sem hægt væri að koma á legg.

    Það ætti kannski að gera það að átaksverkefni.

  12. Félagsmálaráðuneytið og Vinnumálastofnun eru með svona átak í sumar, þar sem nemum og atvinnuleitendum gafst kostur á að sækja um yfir 800 sumarstörf.

    Í þessu átaki voru einmitt svona verkefni sem oft lenda á hakanum hjá stofnunum, eins og að ganga frá gömlum skjölum, bæta eða þýða vefsíður og svo framvegis, en einnig verkefni við skógrækt og margt fleira.

    Mér finnst þetta frábært framtak, kannski vegna þess að ég var ein af þeim sem var svo heppin að fá eitt af þessum störfum. Ég held að það væri sniðugt að halda þessu áfram, þannig að það yrðu líka einhver svona störf fyrir fólk til að sækja um í haust, en ekki bara sumarstörf.

    1. Sæl Svala,

      Þetta átak var einmitt kynnt stuttu eftir að ég skrifaði þennan pistil (og hefur áreiðanlega verið í undibúniningi mun lengur). Að mér sýndist mjög vandað og gott átak.

      Það eina sem upp á vantar er að gera þetta að varanlegum hluta af velferðarkerfinu frekar en átaki sem gripið er til þegar svo ber undir.

Leave a Reply to beta Cancel reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s