íslenska

Ný vinna – en samt ekki

Ég er kominn í nýtt djobb, svona að hluta til.

Ég ber nú þann fróma titil “Tæknistjóri” hjá og ber sem slíkur ábyrgð á þróun og stefnu vefmála hjá fyrirtækinu, auk tækniumhverfis fyrirtækisins í stærra samhengi hlutanna.

Ég hef auðvitað verið viðloðandi fyrirtækið allt frá því að það keypti Spurl á sínum tíma, en ekki haft þar skilgreint hlutverk eða ábyrgðir þar sem ég fluttist beint inn til Símans við kaupin. Núna hefur þetta verið skilgreint og er formlega 30% staða á móti 70% áfram í viðskiptaþróun hjá Símanum.

Það verður gaman að láta verkin tala þarna, enda eru tækifærin óþrjótandi ekki síst með Já.is. Þar erum við að afgreiða næstum milljón leitarfyrirspurnir á viku og varla til sá Íslendingur sem ekki notar þjónustuna vikulega – og flestir hafa skoðun á honum. Það er hægt að bæta þjónustuna þarna enn frekar og margir hlutir, stórir og smáir sem hægt er að bæta við og laga. Þar að auki er fyrirtækið virkilega vel rekið og skemmtilegt, þannig að þetta verður “bara gaman”.

Ég er svona þessa dagana að ná utan um helstu spottana og svo fer maður að toga í þá þegar maður er búinn að átta sig á því í hvað þeir eru festir 🙂

Snúið mál – íslenska

Á degi íslenskrar tungu sem haldinn var þann 16. nóvember síðastliðinn var m.a. opnaður aðgangur að nýrri útgáfu gagnagrunns sem nefnist “Beygingarlýsing íslensks nútímamáls“. Í Beygingarlýsingunni er í dag að finna fullkomin beygingardæmi yfir 250 þúsund íslenskra orða!

Gögnin í þessum grunni eru unnin af Kristínu Bjarnadóttur málfræðisnillingi á Orðabók Háskólans í samvinnu við fleira gott fólk þar, en sjálfur forritaði ég kerfið sem heldur utan um beygingarnar, nýskráningar orða o.s.frv.

Þetta hefur verið í rólegri vinnslu hjá okkur í næstum 2 ár. Afar fróðlegt ferli og ég hef m.a. lært ótrúlegustu hluti um uppbyggingu og flækjustig íslenskunnar.

Nokkrir áhugaverðir punktar varðandi þetta allt saman:

  • Fræðilega eru til allt að 272 beygingarmyndir af sagnorðum! Að vísu er engin sögn sem hefur allar þessar myndir, en það eru allnokkur orð sem hafa meira en 200 myndir. Þetta vex svo enn ef til eru afbrigði af beygingunni, þ.e. ef sögnin beygist á fleiri en einn veg.
  • Nafnorð geta ekki haft fleiri en 16 beygingarmyndir, en lýsingarorð hafa allt að 120.
  • Nokkur orð deila toppsætinu sem “flóknustu” orð íslenskrar tungu, þ.e. hafa flestar beygingarmyndir eða 227. Þetta eru allt lýsingarorð sem enda á “-ull” eins og “sannsögull” og “seinförull“, en óvenjumargar beygingarmyndir þessara hafa afbrigði.
  • Þau 256.618 orð sem eru í safninu hafa samtals 5.727.946 beygingarmyndir. Það gerir að meðaltali 22,32 beygingarmyndir af hverju orði. Oft hafa orð þó margar beygingarmyndir sem ritaðar eru á sama hátt (“Hjalli um Hjalla frá Hjalla til Hjalla”). Séu þær taldar frá stendur eftir að orðin í Beygingarlýsingunni hafa ekki NEMA 2.699.158 beygingarmyndir!

Magnað.

Það má nálgast ýmsa tölfræði og frekari upplýsingar um safnið á vef beygingarlýsingarinnar.

Bensínverð

Uppfært 7. ágúst 2008 með nýjustu gögnum

Skemmtilegt hvað hægt er að gera á internetinu nú til dags með lítilli fyrirhöfn.

Með því að bræða saman þrjár einfaldar gagnauppsprettur

…gat ég útbúið þetta graf:


(Smellið til að sjá gagnvirka útgáfu af grafinu á Google Docs)

Hráolíuverðið er s.s. í dollurum, gengi dollars augljóslega í krónum, en vísitölurnar tvær eru settar í 100 stig í byrjun árs 1997. Önnur er hin eiginlega mæling Hagstofunnar, hin – þessi gula “vísitala bensínverðs” sem ætlar alveg útúr korti í lokin – er búin til af mér. Hún er einfalt margfeldi af verði hráolíutunnunnar og gengi dollars, en þetta eru þeir tveir þættir sem alltaf er vísað í þegar leitað er útskýringa á breytingum (yfirleitt hækkun) á bensínverði hér á landi.

Niðurstaðan er í stuttu máli sú að ef þetta væri það eina sem réði bensínverði, ætti bensínlítrinn nú að kosta 6 sinnum meira en hann gerði í upphafi árs 1997!

Skv. upplýsingunum frá Hagstofunni mun hann þá hafa kostað u.þ.b. 84 krónur. Hann er þó – þrátt fyrir allt – aðeins u.þ.b. tvöfalt dýrari nú en hann var þá eða í kringum 170 krónur í stað 510 króna. Guði sé lof!

Eru þá olíufélögin ekki að okra á okkur eftir allt saman? Ekki samkvæmt þessu. Hin raunverulega niðurstaða er samt sú að þeir þættir sem ráða bensinverði á Íslandi eru miklu fleiri og flóknari en þessir tveir.

Meðal þeirra má nefna:

  • I október 1999 var gerð skattalagabreyting þar sem vörugjaldi á bensíni var breytt úr prósentu í fasta krónutölu
  • Þó hráolíuverð sveiflist til, þá hefur það ekki sömu áhrif á seinni stig vinnslunnar, s.s. hreinsun olíunnar og fullvinnslu í söluhæft eldsneyti á bíla.
  • Flutningskostnaður á eldsneytinu hingað til lands helst ekki að fullu í hendur við eldsneytisverð.
  • Innlendi þátturinn í verðinu er óháður ofangreindum sveiflum.

Ég viðurkenni fúslega að ég átti von á annarri niðurstöðu þegar ég lagði af stað í þessa útreikninga, en svona er þetta. Gaman væri að heyra hvað öðrum finnst 🙂

P.S. Töfluna sem grafið byggir á má nálgast hér á Google Docs

Snilldar vídeó um Vefinn 2.0

Michael Wesch er aðstoðarprófessor í mannfræði við Kansas State Háskólann.

Vídeóið hér að neðan er eftir hann og var sýnt á opnun Web 2.0 Expo sem ég fór á í San Francisco í vor. Þetta er listræn en um leið mjög flott leið til að sýna hvernig allir hlutir hanga saman á Vefnum, ekki síst í hinum nýju “Web 2.0” þjónustum.

Web 2.0 Summit hófst svo í fyrradag (ég er ekki þar) og var opnað á öðru álíka flottu myndbandi eftir Wesch. Flott og hugmyndarík vídeó bæði tvö.

Ókeypis hagfræði

Þessar hugleiðingar mínar birtust í Viðskiptablaðinu fyrir skemmstu. Ákvað að smella þeim hér inn líka.


Skortur er lykilhugtak í hagfræðinni. Skortur er þegar eftirspurn eftir vöru er meiri en framboðið. Áhrifin eru yfirleitt þau að verð vörunnar hækkar. Þar með minnkar eftirspurnin og jafnvægi kemst á milli framboðs og eftirspurnar. Verði breytingar á öðru hvoru leiðir það af sér verðbreytingar og þannig leitast markaðurinn leitast við halda jafnvæginu.

En hvað gerist þegar framboð á vöru er ótakmarkað? Þegar kostnaðurinn við að framleiða viðbótareintak af vörunni er enginn, eða því sem næst?

Þetta er raunin með nær allar vörur sem hægt er að afhenda á stafrænu formi: hugbúnað, bíómyndir, tónlist, bókatexta og dagblöð svo dæmi séu tekin. Þegar frumeintakið er einu sinni orðið til kostar svo til ekkert að afrita það.

Þetta þekkir afþreyingariðnaðurinn vel. Ólögleg afrit af tónlist og bíómyndum fljóta um Netið og dreifast manna á milli með ýmsum hætti. Kostnaðurinn fyrir þann sem hefur eitt afrit undir höndum við að búa til nýtt eintak og afhenda öðrum er enginn.

Til að mæta þessu hefur verið reynt að búa til allskyns hindranir – draga úr framboðinu með einhverjum hætti og búa þannig til skort til að halda uppi verðinu. Fyrirtæki hafa gengið langt í því að búa til afritunarvarnir sem fæstar hafa haldið lengi og sennilega frekar orðið til að skapa gremju meðal þeirra sem keyptu eintök löglega, en að hindra dreifingu ólöglegra eintaka. Í öllu falli er enginn skortur á framboði á slíku efni á Netinu og útgefendur og dreifingaraðilar kvarta sáran.

Það er hins vegar athyglisvert að sjá hvernig ungar og upprennandi hljómsveitir eru að fóta sig í þessum heimi. Um daginn heyrði ég sögu af tónleikum sem ein slík sveit hélt. Hljómsveitin hafði bannað sölu á geisladiskum sinum á tónleikunum, en seldi aftur á móti boli í anddyrinu. Ástæðan var einföld: Ef aðdáandi var tilbúinn að draga fram veskið og greiða 2.000 krónur, er miklu hagstæðara fyrir hljómsveitina að hann kaupi 2.000 króna bol, sem hljómsveitin fær 1.500 krónur af, en 2.000 króna geisladisk sem þeir fá 200-300 krónur af. Hann má svo sækja tónlistina frítt á vefsíðunni þeirra!

Fyrir þessum hljómsveitum er dreifing á Netinu staðreynd og í staðinn fyrir að reyna að hindra hana, sjá þær hana sem það sem hún er: ókeypis dreifileið og kynningu. Margar efnilegar hljómsveitir gefa nú orðið aðdáendum tónlistina sína á Vefnum, hvetja þá til að sækja lögin og dreifa þeim sem víðast. Orðsporið berst hraðar en nokkru sinni fyrr og lítil hljómsveit á Íslandi getur orðið heimsfræg á einni nóttu fyrir lag sem hún gefur ókeypis á MySpace síðunni sinni.

Í staðinn selur hún allt mögulegt annað: Miða á tónleika, boli, myndir og árituð plaköt, fá styrktaraðila sem nýtur þess í auglýsingum á síðunni þeirra og á tónleikum og fá borgað fyrir að semja stef í auglýsingar, sjónvarpsþáttaraðir eða kvikmyndir.

Mike nokkur Masnik skrifaði mjög áhugaverða grein um þetta fyrirbæri á vefnum TechDirt nú í vor. Þar heldur hann því fram að nær allir geirar atvinnulífsins geti lært af þessum breytta hugsanahætti sem er að ryðja sér til rúms í tónlistargeiranum.

Hann leggur til að hvert og eitt fyrirtæki setjist yfir sitt viðskiptamódel og greini takmarkaðar og ótakmarkaðar auðlindir sem fyrirtækið hefur yfir að ráða. Að því loknu setji það saman áætlun um það hvernig hægt sé að nota ótakmörkuðu auðlindirnar til að hvetja sölu á þeim takmörkuðu.

Í tilfelli tónlistargeirans eru það afrit af lögum sem eru ótakmörkuð auðlind, en takmörkuðu auðlindirnar eru fjöldamargar: Aðgangur að tónlistarmönnunum sjálfum, tónleikamiðar, ný lög, athygli aðdáenda, einkatónleikar, baksviðspassar, varningur tengdur hljómsveitinni og svo framvegis. Með því að gefa lögin er hægt að hvetja sölu á öllu hinu.

Með öðrum orðum: Ekki gefa hluti bara til að gefa þá, gefðu þá til að græða á því! Velkomin í heim ókeypis hagfræðinnar.

Listin að þekkja Íslendinga

Ég vil endilega leysa ráðgátuna um það hvernig í ósköpunum maður fer að því að þekkja Íslendinga erlendis.

Þetta er skemmtilegur samkvæmisleikur sem ég veit að margir stunda, t.d. á flugvöllum og við erum flest alveg ótrúlega góð í þessu. Ég er sem sagt að tala um þessa vissu sem stingur sér í kollinn á manni þegar augað dregst að einstaklingi eða hópi í mannhafi og hugsar með sér: “ÞETTA eru Íslendingar”. Hvernig fer maður að því að þekkja landa sína frá t.d. Dönum og Svíum í Kaupmannahöfn? Eða Bretum í London? Ég er ekki að segja að það fari ekki einhverjir Íslendingar framhjá manni, en þegar þessi sterka tilfinning kviknar þá hefur maður nær undantekningarlaust rétt fyrir sér.

Ég hef heyrt margar kenningar um það hver ástæðan sé: undanrennugrái hörundsliturinn, háleitni sveitamannsins sem horfir yfir mannhafið í staðinn fyrir að horfa á tærnar á sér eins og þeir gera sem aldir eru upp í meira þéttbýli, magn innkaupapoka, að við séum öll svo lík af því að við séum jú öll tiltölulega skyld – nú eða einhverskonar sambland af öllu þessu.

Ég er samt með eina kenningu í viðbót. Við búum jú í ótrúlega litlu samfélagi – 312.000 eða þar um bil. Miðað við það hvað maður umgengst, hittir og sér marga dags daglega í vinnunni, þegar maður verslar í matinn, tekur strætó, horfir á fréttirnar, fer á kaffihús eða hvað annað sem maður tekur sér fyrir hendur yfir daginn – þá er ekki ólíklegt að maður hafi einhverntímann hitt eða séð stóran hluta Íslendinga – flesta satt að segja oft.

Ég vil meina að það sem sé aðallega að gerast þegar “Íslendingaheilkennið” gerir vart við sig sé að litla einingin í heilanum sem vinnur við það að þekkja fólk og andlit (sjá fyrri umræðu hér) sé að senda frá sér veik boð – veikari en “ég þekki þennan”, jafnvel veikari en “þetta er einhver sem ég hef séð” – meira svona lágt suð, sem við þekkjum í útlöndum sem tilfinninguna “ÞETTA er Íslendingur”. Öll hin atriðin hjálpa auðvitað til, en þau eru – rétt eins og allt annað í útliti og fari fólks í kringum okkur – túlkuð af þessari forvitnilegu einingu.

Einhver þarna úti með aðrar kenningar? Er mögulega einhver sem kannast ekki við að leika þennan samkvæmisleik á ferðalögum erlendis?