nýsköpun

CCP og loðnan

Ég rakst á það á vef Egils Helgasonar að nokkrir bloggarar eru að bera til baka þá fullyrðingu Kjartans Pierre, sem ég hafði óbeint eftir í Silfri Egils um daginn að hlutfall CCP í útflutningi sé svipað og loðnu.

Fyrst af öllu vil ég taka fram að fátt er mér fjær en að gera lítið úr sjávarútveginum og samanburðurinn einmitt gerður til að gera mikið úr CCP frekar en lítið úr loðnuveiðunum. Samanburðurinn er gerður vegna þess að allir vita að loðnuveiðar eru okkur miklvægar, en fólk á erfiðara með að skynja verðmæti á borð við þau sem CCP skapar. Sú staðreynd að þessar tölur séu af sömu stærðargráðu er því merkileg.

Kári Sölmundarson er einn þeirra sem dregur þetta í efa og birtir tölur sem sýna þetta svona:

  • Loðna: 9,9 milljarðar
  • CCP: 2,4 milljarðar

Ég finn reyndar ekki alveg sömu tölur og Kári. Þegar ég legg saman loðnuflokkana í tölum Hagstofunnar um Afla og verðmæti eftir tegundum og veiðisvæðum 2003-2007, fæ ég töluna 5,3 milljarða fyrir árið 2007.

lodnuveidar-2007

Mér sýnist á öðrum tölum á vef Hagstofunnar að árið í ár líti alls ekki eins vel út hvað loðnuna varðar. Skv. þessu er aflaverðmæti loðnu janúar-ágúst á þessu ári 2,9 milljarðar samanborið við 5,3 fyrir sama tímabil í fyrra. Veiðitímabilið er frá janúar til mars, þannig að ólíklegt er að þessi tala eigi eftir að hækka.

Ég veit líka að tekjur CCP á árinu 2008 stefna í að verða um $50 milljónir. Meðalgengi dollarans það sem af er ári er 84 krónur og verður líklega nálægt 90 krónum yfir árið í heild. Samkvæmt þessum tölum lítur dæmið því svona út fyrir árið í ár:

  • Loðna: 2,9 milljarðar
  • CCP: 4,5 milljarðar

Þetta er auðvitað með fyrirvara um það að við Kári erum ekki að horfa á sömu tölurnar og virðist sem ekki sé allt aflaverðmæti loðnunnar inni í þeim tölum Hagstofu sem ég er að horfa á.

Ef horft er til virðisauka, þá er erlend fjárfesting á móti tekjum CCP svo að segja engin, meðan útgerðin þarf eðli málsins samkvæmt að kaupa ýmis aðföng, s.s. olíu og ýmsan vélabúnað erlendis frá fyrir hluta af þessum gjaldeyri.

Einnig væri áhugavert að skoða muninn á þeim virðisauka sem þessar greinar skapa m.t.t. fjárfestinga og gjaldeyristekna.

Þegar öllu er á botninn hvolft, þá skiptir auðvitað minnstu hvort loðna eða CCP skili meiru í þjóðarbúið. Á tölunum má vel sjá að hvort tveggja skiptir umtalsverðu máli. Við eigum að stuðla að því að hvort tveggja þrífist sem allra best, að hér verði til sem fjölbreyttast efnahagslíf og hljótum að geta unað hvert öðru því að vel gangi í hverju sem fólk kýs að taka sér fyrir hendur.

P.S. Ég sé að Kjartan hefur sett inn sambærilega bloggfærslu seinnipartinn í gær.

Uppfært 25. nóv, kl 13:37 m.t.t. til athugasemdar Magnúsar hér að neðan.

Nýsköpun í Silfri Egils

Ég fékk tækifæri til að koma að nokkrum orðum um nýsköpun og uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs í Silfri Egils í dag.

Hér að neðan er upptaka af spjallinu.

P.S. Ég vona að RÚV sjái í gegnum fingur sér með að það er klárlega brot á höfundarrétti að setja efni frá þeim á YouTube. Það er bara ekki alveg nógu aðgengilegt að vísa á efni á þeirra eigin vef: Upptökur af Silfri dagsins á vef RÚV.