tölvur & tækni

Sala Spurl ehf.

Síðustu vikur hafa verið viðburðaríkar.

Í síðustu viku komum við Magga heim úr 17 daga reisu um Austur-Afríku, nánar tiltekið um Kenía og Tansaníu. Miklu meira um það síðar.

Rétt áður en við fórum út var líka gengið frá kaupum Já (sem gefur út Símaskrána, rekur 118 símaþjónustuna og vefsvæðið ja.is) á Spurl ehf. Fyrir þá sem hafa fylgst með Spurl síðustu misserin fannst mér rétt að skjóta hér inn smá klausu um þessi kaup.

Kaupverðið er vitanlega trúnaðarmál. Ég get þó sagt að fjárfestar fengu góða ávöxtun á þann pening sem þeir lögðu í fyrirtækið og ég sömuleiðis á minn tíma og pening. Fleira verður ekki sagt um það – útrætt mál.

Ástæður Já fyrir kaupunum liggja einkum í leitartækninni okkar, sem í dag knýr leitina á Já.is, leitarvélina Emblu á mbl.is og vefsvæðaleit á nokkrum stöðum, t.d. á Vísindavefnum. Já mun halda áfram þessum rekstri og leggja aukin kraft í söluna á leitarlausnunum okkar á önnur vefsvæði og ýmiskonar sérverkni, sem sum hver eru þegar í vinnslu. Kaupin opna líka ýmsa nýja möguleika fyrir Já, sem eru í skoðun.

Spurl er nú formlega tækni- og leitararmur Já, en öll tæknivinna hafði verið aðkeypt fram að þessu. Spurl-hópurinn, sem telur 4 (auk mín), mun halda þarna áfram þeirri þróun sem við höfum verið að vinna að, með lítillega breyttum áherslum eftir því sem hentar Já. Sjálfur dreg ég mig útúr daglegum tæknimálum og rekstri, en mun áfram koma að hönnun og vöruþróun. Fram á haustið mun ég einnig sinna sölumálum og samskiptum við samstarfsaðila okkar.

Samhliða þessu tek ég að mér nýtt starf hjá Símanum (Já er dótturfyrirtæki Símans) með þann fróma titil “Forstöðumaður vöruþróunar” á þróunarsviði. Spennandi og fjölbreytt starf og það litla sem ég er kominn inn í þetta lýst mér gríðarlega vel á. Með haustinu er miðað við að ég verði kominn að mestu leyti í þetta nýja starf, þó ég muni ekki sleppa hendinni af Spurl/Já alveg.

Spurl.net bókamerkjaþjónustan verður áfram rekin með sama sniði og þar erum við auk þess að vinna í ákveðnum málum sem gætu endurnýjað kraftinn í þróun hennar. Þið fáið að vita allt um það þegar þar að kemur.

Sem sagt, ekki alveg viðburðalaust sumar á mínum vígstöðvum – og það er bara rétt byrjað 🙂

P.S. Uppfæriði addressubækurnar ykkar:
S: 863-6456
Vinnupóstur: hjalmarg [hjá] siminn.is
Persónulegur póstur: hjalli [hjá] hjalli.com

Þriðjudagstæknin: Kaup og sala þekkingariðnaðarmanna

Efni Þriðjudagstækninnar í dag eru samningar þekkingarfyrirtækja við starfsmenn og af hverju þeir eru ekki meira eins og samningar íþróttamanna

“Það verðmætasta sem þekkingarfyrirtæki eiga eru starfsmennirnir.” Þessu heyrir maður oft fleygt og þetta er auðvitað í flestum tilfellum dagsatt. En hversu mikils virði eru þeir nákvæmlega? Hvers virði eru starfsmenn Decode? Eða CCP? Hvað kostar efnilegur forritari beint út úr háskóla? Eða verkefnastjóri með 10 ára reynslu af hugbúnaðargerð? Eða hugmyndamaður sem sér öll nýju tækifærin og hvernig er hægt að spila úr þeim?

Akkúrat. Þið hafið ekki hugmynd. Enda ganga slíkir menn ekki kaupum og sölum – það væri fáránlegt – ekki satt? En af hverju?

Það verðmætasta sem knattspyrnulið á eru án efa starfsmennirnir – að vísu er hetjulegra að vera “leikmaður”, en það er bara annað nafn á sama hlut. Í knattspyrnunni og reyndar íþróttaheiminum öllum ganga leikmenn kaupum og sölum og ekkert þykir sjálfsagðara.

Skoðum aðeins nánar hvernig þetta gengur fyrir sig, t.d. í knattspyrnuheiminum. Efnilegir leikmenn eru uppgötvaðir af “scout”-um frá öðrum liðum. Þeir fá sér umboðsmann sem semur um kaup og kjör fyrir þeirra hönd, enda eru þetta oft ungir menn (og reyndar líka konur) og þeirra sterka hlið er að leika knattspyrnu, ekki að semja við harðsvíraða bisness-menn um kaup og kjör.

Strangar reglur gilda um slíka samninga. Samning skal gera að minnsta kosti út yfirstandandi keppnistímabil og ekki lengur en til fimm ára. Styttra ef um ungan leikmann er að ræða. Þegar samningar eru lausir er leikmanni frjálst að semja við annað lið, nú eða semja aftur við sama félag. Vilji hann skipta um lið fyrr, þarf nýja liðið að komast að samkomulagi við það gamla um greiðslu fyrir hann. Slíkar viðræður skulu fara fram að öllum málsaðilum vitandi.

Það er meira að segja þannig að þegar lið skráir leikmann sem atvinnumann í fyrsta skipti, ber því að borga því liði (eða þeim liðum) sem leikmaðurinn æfði með í yngri flokkum (frá 12-23 ára) fyrir þjálfun leikmannsins. Og reyndar ekki bara hans eins heldur einnig þess fjölda leikmanna sem þarf að þjálfa til að úr verði einn atvinnumaður. Sá fjöldi hlýtur að hlaupa á tugum, enda geta þessar greiðslur auðveldlega hlaupið á allnokkrum milljónum króna.

Kostirnir við þetta fyrirkomulag eru margir, t.d.:

  • Heiðarleiki: Kerfið hvetur alla til að starfa að heilindum, stunda ekki baktjaldamakk og láta t.d. í ljósi óánægju sé hún til staðar.
  • Umboðsmaður: Leikmaðurinn fær atvinnusamningamann til að semja um sín kaup og kjör, sjá til þess að í smáa letrinu reynist sál leikmannsins ekki með í kaupunum og veita hinum unga starfsmanni önnur ráð varðandi samningagerðina. Sá hefur svo hvata af því að gera vel, þar sem hann fær hlutfall af samningsupphæðinni.
  • Þjálfunargreiðsla: Lið sem hafa öflugt yngriflokkastarf fá greiðslu þegar vel tekst til og geta notað hana til að efla starfið enn frekar.
  • Kaup og sala: Leikmaðurinn hefur verðmat. Auðvitað geta orðið mistök. Leikmaðurinn stendur ef til vill ekki undir væntingum, en það getur líka verið stórgróðabisness að kaupa ungan og efnilegan leikmann, þjálfa hann frekar, gefa honum tækifæri með liðinu og selja hann svo aftur síðar. Tryggingar dekka meiðsli og önnur slík tilvik.

Af hverju ætti þetta ekki að vera eins í hugbúnaðarbransanum eða þekkingariðnaðnum í heild sinni? “Scout”-ar eða tilvonandi umboðsmenn fylgjast með efnilegu fólki útúr háskólunum, koma þeim að hjá góðum fyrirtækjum, hafa milliöngu um samninga og fá umbun fyrir. Háskólarnir fengju greiddar “þjálfunargreiðslur” og þannig væri hægt að halda niðri (eða líklega afnema) skólagjöld eða ríkisstyrki. Að sama skapi þyrftu þeir þá að velja nemendur af kostgæfni og nemendur að leggja sig fram til að sanna getu sína og geta búist við góðum samningum þegar þeir koma út á markaðinn.

Endur- og símenntun starfsmanna verður sjálfsagður hlutur, enda eykur það sannanlega verðmæti starfsmannsins og það verður fyrirtækinu alveg jafn mikill akkur eins og starfsmanninum sjálfum að ferilsskrá starfsmannsins sé sem best.

“Head-hunting” yrði ekki lengur óheiðarlegt baktjaldamakk, eins og oft vill verða, heldur samningur á milli þriggja aðila: nýja fyrirtækisins og starfsmannsins um kaup og kjör og gamla fyrirtækisins og þess nýja um kaupverð, þ.e. svo fremi sem starfsmaðurinn sé ekki með lausa samninga. Þá er líka eins gott fyrir gamla fyrirtækið að gera vel til að missa ekki sérþekkingu úr húsi.

Það athyglisverðasta af þessu öllu er að þarna er loksins komið verðmat á það verðmætasta sem þekkingariðnfyrirtækin eiga. Meðalstarfsmaður með fárra ára reynslu eftir skóla væri hæglega 10 milljón króna virði. “Stórstjörnurnar” gætu farið á tugi, jafnvel hudruð milljóna. Með eitthvað slíkt verðmat og hefð fyrir slíkum samningum gæti þekkingarfyrirtækjum jafnvel staðið til boða að fjármagna sig – a.m.k. að einhverju leiti – með lánum í stað áhættufjármagns. Þar með myndi losna um verðmæti sem vissulega eru til, en engum hefur tekist að meta fram til þessa.

Hver veit, kannski eiga fyrirsagnir á borð við þessar eftir að vera daglegt brauð í fréttum morgundagsins “CCP hafnar 400 milljón króna tilboði í Kjartan Pierre”, “Háskólinn í Reykjavík fær 50 milljónir fyrir lokaverkefnishóp” eða “Microsoft lánar Gísla til Tékklands í 4 mánuði” 😉

Ég held meira að segja að það sé alveg hægt að koma svona kerfi á, en við verðum að ræða það í næsta þætti.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall um tölvur og tækni á NFS á þriðjudögum kl 11:10

Þriðjudagstæknin: Kína

Efni þriðjudagstækninnar í dag (já, á fimmtudegi) er innkoma netrisanna Google, Yahoo! og Microsoft á Kínverska netmarkaðinn.

Í Kína búa nærri 400 milljónir manna sem búa við svipuð kjör (efnahagslega) og Evrópubúar. Meðaltölur eru ósköp villandi því svo er heill milljarður kínverja í viðbót sem eiga ekkert.

400 milljónir viðskiptavina er ekki lítið og undanfarin ár hefur peningalyktin laðað að fjárfesta og fyrirtæki í öllum geirum.

Í Kína er sem sagt komið á viðskiptafrelsi, en ekki málfrelsi og þetta tvennt stangast hressilega á þegar netrisarnir koma inn á markaðinn. Leitarvélarnar fá ekki að starfa í Kína nema þær ritskoði niðurstöðurnar sínar. Upplýsingar um Falun Gong, sjálfstæði Tíbet eða atburðina á Torgi Hins Himneska Friðar eru óhollar fyrir Kínversku þjóðina – og þessvegna ófinnanlegar á leitarvélum í landinu. Rafræni Kínamúrinn – “The Great Firewall of China” – kemur svo í veg fyrir að hægt sé að nálgast þetta efni eftir öðrum leiðum.

Á þessari síðu má bera saman helstu frasa sem fram koma í leitarniðurstöðum í Bandaríkjunum annarsvegar og Kína hins vegar. Prófið t.d. að leita að Tibet þarna.

Enn alvarlegri er svo sú staðreynd að Yahoo! hefur ítrekað verið staðið að því að afhenda tölvupósta. Maður einn var dæmdur í 4 ára fangelsi fyrir að tala fyrir “lýðræði að vestrænni fyrirmynd” og meðal sönnanargagna voru tölvupóstar, sem sumir hverjir höfðu ekki sannanlega verið sendir – heldur lágu í “drafts”-möppunni á Yahoo! póstreikningnum hans!

Já, það er erfitt að vera “ekki vondur” (mottó Google) þegar 400 milljón viðskiptavinir bíða öðrum megin og yfirspenntir fjárfestar með miklar væntingar hinum megin.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall um tölvur og tækni á NFS á þriðjudögum kl 11:10

Já – já – já – jájájájájá – já er tilbúinn…

Eins og glöggir netverjar hafa ef til vill tekið eftir er kominn upp nýr og breyttur vefur hjá Símaskránni.

Við Spurl menn komum að þessu eins og flestum leitarverkefnum landsins þessa dagana – bráðum getiði ekki einu sinni leitað að bíllyklunum ykkar án þess að við komum þar við sögu.

Eins og á Emblu notum við beygingar leitarorða, þannig að ekki þarf lengur að slá inn heimilisföng í þágufalli (eða ákveðin föll annarra orða) eins og í gömlu símaskránni.

Eins lögðum við talsvert uppúr því að koma allri leitinni í einn einfaldan leitarreit þannig að hægt sé að slá inn hluti eins og [tölvur selfossi], [veitingahús 101] eða [hjálmar laugavegi] í stað þess að nota “ítarlega leit” með mörgum og illskiljanlegum leitarboxum.

Af öðrum nýjum möguleikum sem snerta leitina má nefna:

  • Leitarniðurstöður birtast í stafrófsröð (já, merkilegt nokk var það ekki þannig)
  • Fellivalblað (AutoComplete) stingur upp á leitarstrengjum þegar slegið er inn (byrjið að slá inn nafnið ykkar og tölvan les hug ykkar :))
  • Leitin á gulu síðunum hefur verið stórbætt. Fyrirtæki geta skráð ítarlegri upplýsingar um sig og keypt leitarorð sem gerir það að verkum að þau birtast þegar leitað er að þeim orðum. Prófið t.d. [adsl], [veislur], [fermingar]. Við birtum svo “tengd leitarorð” sem geta hjálpað til við að leiða fólk áfram í leit að þjónustu. Þessi hluti á eftir að verða gríðarlega skemmtilegur eftir því sem skráningunum fjölgar.
  • Við birtum stafsetningarleiðréttingar þegar ekkert finnst (ef þú slærð óvart inn [Sigurðurr] eða [fermyngar])

Einna stoltastur er ég samt að hraðanum. Leitin er yfirleitt að taka innan við 0,1 sekúndu og svörin virðast í raun birtast “samstundis” þrátt fyrir að verið sé að gera allt ofantalið. Sama gildir um fellivalblaðið, sem er “arfahratt”. Umferðin á þennan vef er gríðarlega mikil, en eftir smá hiksta fyrstu tvo dagana (á mánudag og þriðjudag í síðustu viku), hefur leitarvélin ekki einu sinni svitnað þrátt fyrir að þurfa stundum að afgreiða all-mörg hundruð fyrirspurnir á mínútu.

Af öðrum endurbótum á vefnum (sem ekki snúa að Spurl) ber hæst ný og stórbætt kort í boði Gagarín og Hnit – sem ég hef reyndar aðeins nefnt áður. Viðmótið er hannað af Reyni snilling hjá Hugsmiðjunni og svo öllu púslað saman af Origo sem forrituðu vefinn utan kortanna og leitarinnar.

Skemmtilegt verkefni sem tók á, á köflum – en útkoman stórfín. Við erum að safna saman athugasemdum (merkilegt nokk er þetta þrátt fyrir allt ekki gallalaust), þannig að það er vel þegið að fá ábendingar um betrumbætur eða galla annað hvort í comment hér eða beint í tölvupósti.

Kíkiði allavegana á gripinn.

Efni Þriðjudagstækninnar í dag eru auglýsingar og annað efni sem “pöpullinn” býr til og er í auknum mæli að ryðja sér til rúms sem áhrifavaldur í ýmiskonar efnisframleiðslu.

Pæliði til dæmis í því að þessi auglýsing frá Sony var búin til af 18 ára gömlum “amatör”, en er núna í sýningum í Bandaríksu sjónvarpi. Hún er upprunnin á síðunni Current.tv, en V-CAM (Viewer-Created Ad Message), prógrammið þeirra er eins konar miðstöð svona innsendra aulgýsinga og vinnur auk Sony, m.a. fyrir L’Oreal og Toyota.

Meira um þetta í þessari grein frá C-Net.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall um tölvur og tækni á NFS á þriðjudögum kl 11:10

Þriðjudagstæknin: Hver á að borga hverjum hvað?

Efni þriðjudagstækninnar í dag er hver borgar hverjum hvað á Netinu og fyrir hvað. Uppbygging Internetsins kostar sitt, hverjum er réttlátt að senda reikninginn?

Lengri texti væntanlegur hér seinna, en grunnspurningin er þessi: Hvort eru það Google, BBC og aðrar efnisveitur sem gera þjónustu símafyrirtækjanna verðmæta, eða símafyrirtækin sem gera þjónustu Google og co. verðmætar?

Og þegar Google hættir að borga bandvíddargjöldin, hver á þá að taka reikninginn?

Sjá í bili hér: http://techdirt.com/articles/20060324/1829206.shtml



Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall um tölvur og tækni á NFS á þriðjudögum kl 11:10

Zniff leitar á Vísindavefnum

Gaman að segja frá því að leitartæknin okkar Spurl-manna – Zniff – er komin í gagnið á Vísindavefnum. Það munar umtalsverðu að geta leitað í þessu stórgóða efni með “orðmyndaleit”, en það er jú eitt af því sem leitin okkar er svo góð í.

Zniff knýr að sama skapi leitina á leitarvélinni Emblu og hjá VISA, auk þess sem einir tíu aðilar eru rétt að fara í loftið – bæði stórir aðilar hérna heima og slatti af erlendum vefjum.

Meira um það þegar þar að kemur.

Þriðjudagstæknin: Með marga bolta á lofti

Efni Þriðjudagstækninnar í dag er “multitasking”. Þ.e. hvernig við og ekki síst krakkarnir tökumst á við ótal hluti í einu – og hvort við ráðum í raun og veru við það.

Þegar ég var lítill heyrði ég um mann sem gat talað í símann, skrifað bréf og hlustað á útvarpsfréttirnar, allt í einu. Þetta þótti aðdáunarverður hæfileiki. Í dag er þetta fastur hluti af daglegu lífi okkar margra og unglingarnir spjalla á MSN, hlusta á tónlist og leita á Vefnum á meðan þau vinna heimavinnuna fyrir skólann – foreldrunum oft til mikils ama og reyndar vantrúuð á að það sé virkilega hægt að sinna svo mörgum hlutum í einu með einhverri athygli.

Um þetta fjallar stórfróðleg forsíðugrein Time þessa vikuna (þeir sem ekki eru áskrifendur geta komist í greinina með því að horfa fyrst á eina stutta auglýsingu).

Sjálfur er ég dálítill “multi-tasker”, en þó nógu einhverfur til að geta sökkt mér í hluti og útilokað allt annað tímunum saman þegar svo ber undir. Ég heyrði einhverntíman þá kenningu að sá eiginleiki að glíma við marga hluti samtímis sé sérstaklega ríkur í konum, sem í gegnum aldirnar hafi þurft að sinna börnum, annast matargerð og sauma föt, allt á sama tíma. Karlmenn hafi hins vegar frekar einbeitingargenið, enda hafi ekki veitt af þegar fylgja þurfti eftir bráð í marga daga, halda kyrru fyrir og gæta þess að gefa ekki í óvarkárni frá sér hljóð sem gæti fælt mammútinn 😉

Hvað sem því líður er gaman að “multi-taska” þegar vel gengur. Maður er kannski með marga bolta á lofti í vinnunni, fer úr einu máli í annað, kemur mörgum hlutum örlítið í átt að settu marki. Ég ímynda mér að þetta sé – bókstaflega – ekki ósvipað því að læra að “juggle”-a (sem ég get nota bene ekki) – að maður verði steinhissa þegar manni tekst að halda öllum boltunum á lofti í nokkur skipti. Rétt eins og í “juggle”-inu er síðan verulega pirrandi þegar verkefni, jafnvel fleiri en eitt, lenda í vandræðum á sama tíma og maður á fullt í fangi með það bara að sópa upp – brotnum vasa eða verkefni sem er komið fram yfir skiladag.

Í áðurnefndri grein, kemur fram að samkvæmt bestu vitund vísindamanna er í raun ekki rétt að segja að heilinn fáist við mörg verkefni samtímis. Tímanum er frekar eins og skipt upp í sneiðar og þegar við eigum við margt í einu færist áherslan einfaldlega frá einu verkefni á annað, í sumum tilfellum með einhverra mínútna millibili, en allt niður í nokkrum sinnum á sekúntu ef t.d. um rauntímasamskipti er að ræða við marga í einu. Við höfum sem sagt ekki “meiri” athygli, heldur deilum við henni niður á fleiri hluti.

Vitnað er í könnun þar sem fram kemur að þrátt fyrir að bandarískir krakkar hafi ekki meiri tíma í “neyslu” á rafrænum miðlum (sjónvarpi, vef, MSN-samskiptum, DVD, tölvuleikjum, o.s.frv.), en neyti aftur á móti meira efnis en rauntíminn segir til um, eða 8,5 klukkustunda af efni á sólahring á 6,5 tímum. Með öðrum orðum er nærri þriðjungi tímans sem fer í þessa neyslu eytt í að neyta tveggja miðla samtímis (lesa vefsíðu og horfa á sjónvarpsþátt t.d.).

Það er auðvitað ekkert nýtt að eldra fólkið hafi áhyggjur af því hvernig yngra fólkið beitir nýrri tækni. Plató gamli hafði áhyggjur af því að ritmálið myndi eyðileggja sagnahefðina og hæfileika okkar til að muna. Það er reyndar rétt, en við erum samt betur stödd eftir en áður. Sömu sögu er að segja af rokktónlistinni, tölvuleikjunum og núna Netinu. Það er ekki nokkur vafi að hæfileikinn til að “multitaska” mun nýtast þeirri kynslóð sem nú vex úr grasi á vinnustöðum framtíðarinnar.

Vandinn er bara sá að þetta stöðuga áreiti veldur álagi á hugann (m.ö.o. stressi) sem getur ágerst og verður þess valdandi að sumir geta ekki eytt einum frímínútum án þess að senda SMS eða vakna jafnvel á nóttinni til að gá að tölvupósti eða SMS skilaboðum. Ekki ósvipað og spilafíkn. Ef einn leikur í kassanum stendur ekki undir væntingum setjum við annan pening í og svo koll af kolli.

Það er óumdeilt að heilinn þarf hvíld til að vinna úr þeim upplýsingum sem hann hefur meðtekið. Það er líklega þessvegna sem það er óbrigðult að í bókum þar sem menn lýsa velgengni sinni í viðskiptalífi, íþróttum eða nánast hverju sem er, að þar er heilræði um að taka sér tíma á hverjum degi í það bara að hugsa málin. Tæma hugann, t.d. í líkamsrækt, eða einrúmi einhversstaðar að minnsta kosti einu sinni á dag og leggja stöðuna fyrir sig. “Defragga” harða diskinn svo maður noti líkingamál sem þið nördarnir skiljið 🙂

Þannig að heilræði dagsins er: Multi-tasking er gott – næstum nauðsynlegt í nútíma skrifstofuumhverfi, en það þarf líka að gefa sér tíma í að einbeita sér að erfiðu hlutunum.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á NFS á þriðjudögum kl 11:10.