(Fá)brotið þjóðfélag

Við þekkjum öll söguna um uppgang Íslands á 20. öldinni. Fátækasta ríki Evrópu varð eitt þeirra allra ríkustu.

Það má örugglega rekja þennan uppgang til margvíslegra þátta, jafnt innri sem ytri, jafnt ráðgerðum sem tilviljanakenndum. En það sem einkennir þennan tíma öðru fremur er samt aukin fjölbreytni í efnahagslífinu. Árið 1870 störfuðu meira en 80% þjóðarinnar við landbúnað. Aðrar greinar voru eðli málsins samkvæmt ekki mjög áberandi. Árið 1990 störfuðu innan við 5% í landbúnaði og er nú innan við 3%. Engin ein grein atvinnulífsins er lengur áberandi stærst þegar kemur að mannafla.

Atvinnuskipting_1801-1990

Þetta gerðist samt ekki átakalaust. Ég er ekkert óskaplega gamall, en ég man þó samt vel að þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda þurfti pabbi að mæta með farseðlana í Sparisjóðinn til að fá þann gjaldeyrisskammt sem ríkinu þótti hæfilegur fyrir fólk sem var að ana til útlanda að gamni sínu. Ég er líka alinn upp í dreifbýlinu og í sveitinni hjá öfum mínum og ömmum leyndi sér ekkert hvernig stuðningur við réttan stjórnmálaflokk hafði í gegnum tíðina verið nauðsynlegur fyrir framgang í þeirri stétt. Það hefði líklega á stórum hlutum 20. aldarinnar verið “pólitískur ómöguleiki” að vera bóndi og kjósa ekki Framsóknarflokkinn, eða a.m.k. segjast gera það. Þó það hafi augljóslega verið fyrir mína tíð, hafa þeir greinilega verið ansi öflug tæki, skömmtunarmiðarnir!

Tíundi áratugurinn var þess vegna glæsilegur lokahnykkur á þessu framfaraskeiði Íslands. Við tók stjórn sem tók til við að opna landið, koma á meira frelsi í viðskiptum, draga úr ríkisafskiptum á fjölmörgum sviðum og draga ríkið út úr ýmiskonar rekstri sem er miklu betur kominn í samkeppni á einkamarkaði. EES samningurinn varð að veruleika, gjaldeyrishöft hurfu, snefill af samkeppni myndaðist á fáeinum sviðum, alþjóðleg fyrirtæki urðu til og uxu og ríkisfyrirtæki voru mörg hver einkavædd. Viðskiptablokkir stjórnmálaflokkanna leystust að miklu leyti upp. Fjölbreytnin jókst enn meira og þó ástandið hafi ekki verið fullkomið má alveg halda því fram að í upphafi 21. aldarinnar hafi Ísland verið í býsna góðum málum.

Það er nefnilega erfitt að halda öðru fram en að fyrri hluti valdaskeiðs Davíðs Oddssonar hafi verið afar farsæll. Hefði Davíð hætt í stjórnmálum árið 2001 hefði krafan á Austurvelli 2008 og 2009 verið að fá Davíð aftur í stól forsætisráðherra.

En hefði þá verið einhver atburðarás sem leiddi til uppákoma á Austurvelli? Vandinn er nefnilega sá að Davíð, Sjálfstæðisflokkurinn – og auðvitað Framsókn – höfðu þrátt fyrir allt lært of mikið af forverum sínum í íslenskri pólitík. Þeir gátu ekki sleppt hendinni af fyrirgreiðslupólitíkinni og miðstýringunni: Ofvaxnar miðstýrðar framkvæmdir á Austurlandi, skelfileg handstýrð einkavæðing bankanna í hendur “hinna þóknanlegu” samkvæmt helmingaskiptareglunni og ótrúleg útþensla ríkisins. Útgjöld ríkisins jukust á árunum 1998-2007 um nærri 50% að raunvirði – og það undir stjórn fólksins sem kynnti á sínum yngri árum hugtakið “báknið burt”! Allt þetta myndaði eitraðan kokteil með þeirri furðuhugmynd Seðlabankans að hægt væri að stýra minnstu mynt í heimi – þar sem minniháttar ásláttarvilla hjá stórbanka jafnast á við stærð efnahagskerfisins – með sömu peningastefnunni og notuð er til að stýra stærstu myntkerfum heimsins þar sem utanaðkomandi áhrif eru hverfandi. Þess má geta í framhjáhlaupi að að frátöldum gjaldeyrishöftunum er þetta sú peningastefna sem Seðlabankinn virðist enn halda að sé best til fallin til að stýra smámyntinni okkar, etv. með aðeins meiri kork og kút.

Útkomuna úr þessu þarf varla að rifja upp fyrir nokkrum manni.

Vandinn sem við stöndum frammi fyrir núna er að við höfum færst ár – eða jafnvel áratugi – aftur á bak á sumum þeim sviðum þar sem framfarir höfðu orðið svo miklar. Það virðist vera verulegur vilji meðal áhrifamikilla afla í samfélaginu að halda því þannig, eða hverfa jafnvel enn lengra til fortíðar: Lokun, handstýring, miðstýring og útdeiling gæða til vildarvina. Mér finnst það ansi hart ef sonur minn þarf að alast upp við umhverfi sem – hvað höft og fyrirgreiðslur varðar – minnir meira á ástandið sem ríkti þegar afar mínar og ömmur voru upp á sitt besta, heldur en það sem gerist í dag í löndunum í kringum okkur.

En allt þetta á sér skýringar.

Þó fjölbreytileikinn hafi aukist, er hann samt ekki meiri en svo þegar kemur að útflutningi en að þrjár greinar draga í búið 75% af gjaldeyristekjunum: Fiskveiðar, stóriðja og ferðaþjónusta, því sem næst fjórðung hver. Fjórðungurinn sem eftir er kemur svo frá “einhverju öðru”. Sumir virðast túlka þetta sem augljóst merki um það að okkur beri að einbeita okkur að því að hlúa að þessum þremur greinum og allt annað sé augljóslega fánýtt. Þeim yfirsést að allar þessar þrjár greinar eru háðar takmörkuðum auðlindum: Útgerðin fisknum í sjónum, stóriðjan orkunni í fallvötnum og háhita, og ferðamannaþjónustan einstakri og víða ósnortinni náttúru sem verður fljótt minna virði við meiri átroðning og fleiri virkjanir. Vaxtarbroddurinn liggur því í “einhverju öðru”, í greinunum sem geta skapað verðmæti úr “engu”; breytt góðri hugmynd í ábatasaman rekstur með hugvitinu einu saman: Hönnun, hugbúnaðargerð, líftækni, listsköpun og svo auðvitað hugviti sem eykur verðmæti náttúruauðlindanna. Og athugið, þetta á ekki að koma í stað hinna greinanna, heldur þarf einfaldlega að geta þrifist og dafnað samhliða þeim.

Hagsmunir útgerðarinnar

Þessi mynd sýnir vel hvar hagsmunir útgerðinnar liggja:

BreytingarVNV-og-aflaverðmæta

Frá 1990-2007 hélst vísitala neysluverðs og útflutningsverðmæti sjávarafurða nokkurnveginn í hendur, þ.e. útflutningsverðmætið var svo að segja það sama að raunvirði. En með gengisfallinu 2008 dregur sundur og á hverju ári síðan hefur útflutningsverðmæti sjávarútvegsins aukist meira en sem nemur verðbólgu, m.ö.o. útgerðin fær raunverulega meira og meira greitt fyrir afurðirnar sínar að raunvirði á hverju ári frá og með 2008. Það er ekki furða að þeir vilji verja þetta ástand með kjafti og klóm.

Til þess að “eitthvað annað” gangi upp þarf umhverfið að vera hagfellt. Efnahags- og lagaumhverfið stöðugt, menntunin góð, flutningar fólks, fjármagns og þjónustu á milli landa hindrunarlitlir og frelsi til athafna sem mest. Það þarf líka að bjóða upp á lífsskilyrði sem eru eftirsóknarverð fyrir fólk með menntun, reynslu og hæfileika til að vinna slík störf. Sú þekking er nefnilega mjög alþjóðleg og fólkið sem starfar í þeim á auðvelt með að finna störf hvar sem er í heiminum – og er oft mjög opið fyrir því. Ég þekki marga Íslendinga sem falla í þennan hóp og ég heyri sífellt fleiri tala eins og Björgvin Ingi Ólafsson gerir í frábærri grein í Viðskiptablaðinu nýverið. Taugin er römm, en það er ekki hægt að láta hvað sem er yfir sig ganga.

Og þarna fara skammtímahagsmunir gömlu greinanna og þeirra nýju svo sannarlega ekki saman. Auðlindagreinarnar þrífast vel í lokuðu, handstýrðu og miðstýrðu umhverfi – þar sem stjórnmálin geta útdeilt gæðunum til vildarvina og njóta til baka stuðnings þegar kemur að kosningum; þar sem helst er hægt að fella gengið þegar afurðaverðið er ekki nógu hátt eða laun starfsfólksins ekki nógu lág; þar sem búið er að koma því þannig fyrir að orkufyrirtæki í almenningseigu niðurgreiða orku til stóriðjunnar þegar verðlag er óheppilegt á álmörkuðum – í skiptum fyrir nokkur störf í heimahéraði þess stjórnmálamanns sem réði málaflokknum fyrir áratugum, þegar viðkomandi verksmiðja var sett upp.

Að þessu leyti er Ísland skólabókardæmi um auðlindabölvunina: Það er of mikið af verðmætum náttúrugæðum á framfæri stjórnmálamanna. Úthlutunarvald þessarra gæða færir stjórnmálamönnunum gríðarleg völd en heldur á sama tíma lífskjörum viðunandi án stórkostlegrar fyrirhafnar. Á meðan svo er hafa hagsmunir og þarfir þessarrra greina forgang á allt annað í umhverfinu. En þetta er viðkvæmt jafnvægi eins og dæmin sanna og það er erfiðara að stunda þessa starfsemi jafn grímulaust og gert var í gamla daga.

Og Newton sjálfur forði okkur frá því að finna að auki olíu á meðan svona er komið fyrir okkur. Ísland sem olíuríki yrði að óbreyttu líkara Sameinuðu arabísku furstadæmunum en Noregi.

Það er auðvitað margt sem þarf að laga hérna, og það er ekki bara bankið í ofninum á langa ganginum. Þeir hlutir sem standa upp úr eru samt:

  • Nothæfur, alþjóðlegur og haftalaus gjaldmiðill
  • Almennt og stöðugt lagaumhverfi
  • Agað stjórnmálakerfi þar sem hagsmunir heildarinnar eru settir framar sérhagsmunum

En meira um hvern þessarra punkta í næsta pistli.

6 comments

  1. Fín grein, sérstaklega þetta sem þú bendir á um auðlindabölvunina. Því miður atriði sem menn hafa afneitað of lengi á Íslandi.

    Ertu til í að gera eitt fyrir mig. Kallaðu “ferðamannaiðnaðinn” frekar “ferðaþjónustu”. Iðnaður felur í sér framleiðslu úr hráefni sem gefur af sér afurð sem hægt er að selja. Ekkert slíkt á sér stað varðandi þjónustu við ferðamenn.

    Þetta er kannski algjör tittlingaskítur, en við sem vinnum við ferðaþjónustu (þó aðeins sé í hjáverkum) höfum reynt í mörg ár að gera hugtakið “ferðamannaiðnað” útlægt.

Leave a Reply to Hjalmar Gislason Cancel reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s