Author: Hjalmar Gislason

About Hjalmar Gislason

Founder and CEO of GRID (https://grid.is/). Curious about data, technology, media, the universe and everything. Founder of 5 software companies.

Reynslan af Prius

Nú erum við búin að eiga Priusinn í bráðum fimm mánuði.

Þó að þetta séu orðnir furðu algengir bílar, er fólk oft að spyrja okkur út í reynsluna af honum. Hér kemur hún í hnotskurn.

Stutta útgáfan er að reynslan er mjög góð. Þetta er bíll og hagar sér að öllu leyti sem slíkur. Krafturinn er sambærilegur við aðra meðal-fólksbíla sem við höfum átt, jafnvel ívíð meiri. Plássið í honum er fínt og hann kemur manni á milli staða. Til þess eru jú bílar.

Nú er líka komin reynsla á þetta með eyðsluna. Fyrsta athugasemdin þar er að við erum á margan hátt óheppilegir Prius eigendur. Við keyrum 6-7 mínútur í og úr vinnu og á þeim tíma er bíllinn ennþá að hitna – rafmagnsvélin fer aldrei almennilega að taka við þar sem miðstöðin er enn að hitna og líklega einhverjar olíur og svona líka. Þetta er sérstaklega áberandi þegar kalt er í veðri og hitastigið hefur greinileg, bein áhrif á eyðsluna.

Meðaleyðslan okkar er þessvegna í kringum 8,5 lítrar á hundraðið – samanborið við 11,0-11,5 á Corollunni í svipuðum akstri. Þegar maður ekur hins vegar í lengri tíma eða er kominn út á þjóðvegina er sagan allt önnur. Meðaleyðslan þegar Priusinn er búinn að vera í gangi í 10 mínútur eða meira er 5,0-5,5 lítrar á hundraðið nokkurnveginn sama hvar er. Það koma alveg kaflar þar sem maður ekur vel undir 5 lítrum á hundraðið í venjulegum þjóðvegaakstri. Þetta er sambærilegt við það sem gefið er upp fyrir allra sparneytnustu díselbílana, en þeir eru yfirleitt mun minni, auk þess sem uppgefin eyðsla fyrir bíla er oftast í lægri kantinum.

Annað er bara eins og það á að vera. Það hefur ekkert bilað og yfirhöfuð ekkert vesen. Það eina sem er er að fólk hefur einhverra hluta vegna verið iðnara við að keyra á okkur en áður – þannig að hann er núna á réttingaverkstæði. Ég held að maður geti ekki kennt tvinn-vélinni um það 🙂

Koltvísýringsverksmiðjan í Reyðarfirði

Hugleiðing:

  • Kexverksmiðjur framleiða mest af kexi
  • Bílaverksmiðjur framleiða mest af bílum
  • Álverksmiðjur framleiða mest af … koltvísýringi

Ættu þær þá ekki að heita koltvísýringsverksmiðjur? 😉

– – –

Lægsta talan sem ég fann var 1,2 tonn af CO2 per tonn af áli (síða 5).

Alcoa sagði við Herald Tribune að ál… – eh – koltvísýringsverksmiðjan á Reyðarfirði framleidi 1,8 tonn af CO2 per tonn af áli.

Því skal hins vegar haldið til haga að álverksmiðja sem knúin er kolaorku framleiðir hvorki meira né minna en 18-20 tonn af CO2 per tonn af áli!

Nú verður þetta allt til á einum pínulitlum punkti í kringum rafskautin í kerjunum – er ekki hægt að safna koltvísýringnum saman og binda hann í nýtanlegt form, t.d. svipað og gervidísel?

Makki og ég

Ég er opinberlega orðinn Makka-maður. Búinn að vera að dandalast með MacBook Pro í nokkra mánuði og kunnað því vel, en skipti endanlega í gær. Makkinn er núna mín aðaltölva. Það verður líklega kveikt á Pésa í nokkra daga til viðbótar meðan ég er að sækja það sem ég er smám saman að átta mig á að ég hef gleymt þeim megin, en svo er það bara bless.

Það eru nokkrar ástæður fyrir skiptunum:

  • Apple er á mikilli siglingu og ég hef svo sem ekkert verið feiminn við að lýsa aðdáun minni á þeim sem fyrirtæki. Þeir fóru frá því að vera nærri gjaldþrota ’99 og yfir í það að vera stórgróðafyrirtæki síðustu ár – og breyttu tónlistariðnaðnum í leiðinni með iPod og iTunes.
  • Tölvurnar þeirra hafa oftast verið “solid”, en þessi mögru ár fældu marga frá því að kaupa vélarnar þeirra. Hver vildi sitja uppi með svona fjárfestingu ef fyrirtækið rúllar svo? Þetta olli því svo að fáir skrifuðu hugbúnað fyrir Makkann og það varð svo aftur til þess að færri höfðu áhuga. Nú er öldin önnur. Ekki nóg með það að hægt sé að fá nánast allan hugbúnað sem hugurinn girnist fyrir Makkann (og meira til) heldur getur maður á einfaldan hátt keyrt Windows samhliða Mac OS X og þannig öll forrit sem bara eru til fyrir Windows.
  • Verðið á Makkanum er nú orðið svipað og fyrir sambærilegar vélar frá helstu PC framleiðendunum. Líka hérna heima. Ef þið trúið því ekki – beriði saman t.d. verðskrána fyrir MacBook fartölvurnar (síðu 3 og 4) hjá Apple á Íslandi við ThinkPad vélarnar hjá Nýherja. Að vissu leiti er verið að bera saman epli (pun intended) og appelsínur, en IBM hefur síður en svo vinninginn.
  • Svo er náttúrulega allt Apple dótið svo fallegt og talar svo skemmtilega saman. iPoddinn er besti vinur MacBook og svo kemur AppleTV í þessum mánuði og iPhone þegar líður á árið…

Ég skal samt segja ykkur hver stærsti sölupunkturinn var. Það þarf oft ekki meira til. Makkinn er alltaf og undantekningarlaust tilbúinn til vinnslu um leið og ég opna vélina. Bara opna og – BÚMM – byrja að skrifa. Bæði Dell og HP vélarnar sem ég hef verið að nota síðustu 2 ár áttu það til að taka óratíma í “Resuming Windows” – sem síðan verður til þess að maður tekur þær síður með á fundi til að taka niður punkta og svona.

Ég er allavegana hæstánægður með gripinn enn sem komið er. Svo er bara að sjá hvaða veggi maður hleypur á núna þegar maður fer að nota þetta fyrir alvöru.

P.S. Þetta er ekki tómur dans á rósum: Stóra vandamálið framan af er að styðja ekki á epli-Q lyklasamsetninguna þegar maður vill skrifa @-merkið. Epli-Q lokar nefnilega umsvifalaust því forriti sem verið er að vinna í en það vill svo óskemmtilega til að eplis-takkinn er á sama stað og AltGr á makkanum (AltGr-Q er @ á Windows eins og menn vita). Tvö grá hár þar…

Af bjálkum og flísum

Menn hafa verið að hneykslast á Ólafi Ólafssyni fyrir að eyða tugum milljóna í afmælisveislu sem hann hélt í gærkvöldi. Hneykslunin á því hefur jafnvel skyggt á gjöf hans og konu hans, Ingibjörgu Kristjánsdóttur, upp á milljarð til styrktar menningarmálum og uppbyggingu í þróunarlöndum í tilefni af sama afmæli.

Lítið ykkur nær. Ef þið, næst þegar þið haldið upp á afmælið ykkar, látið 15-faldan veislukostnaðinn renna til góðgerðarmála, þá leyfist ykkur að hneykslast. Ætli margir geti státað sig af því?

iPhone therefore iAm

Ég skrifaði í haust um orðróminn sem hefur gengið undanfarið hálft ár eða svo um nýja símann og sjónvarpsgræjuna frá Apple.

Á þriðjudaginn gerðist það svo. Steve Jobs steig fram á sviðið af sinni alkunnu snilld og heillaði tækniheiminn upp úr skónum. Hamagangurinn í kjölfarið er svo mikill að AppleTV (sem gekk undir vinnuheitinu iTV) hefur nánast týnst í umræðunni. Sjálfur held ég að það sú græja sé næstum jafn kollvarpandi og iPhone.

En samt, bara næstum…

iPhone er græjan sem ég held að við tölvunördarnir höfum flestir látið okkur dreyma um í nokkur ár. Hún sameinar iPod, síma og nettengda lófatölvu í lítið, nett og ótrúlega fallegt tæki. Tengist bæði þráðlausum staðarnetum og gegnum GPRS (3G útgáfan kemur síðar). Keyrir MacOS X. Öllu stjórnað með næmum snertiskjá með hærri upplausn en áður hefur þekkst – og þeir lofa m.a.s. mjög góðum batterí tíma (5 tímar í tali, 16 tímar í tónlistarspilun)! Ég get varla beðið. Í júní verður hægt að fá þessa græju í Bandaríkjunum og í haust í Evrópu.

AppleTV verður hægt að fá strax í febrúar – þannig að það verður að duga í bili að fikta bara í henni 😉

Ég mæli með að fólk kíki á keynote-ið hans Jobs þar sem þetta er allt kynnt til sögunnar. Maðurinn er frábær show-maður og vídeóið er þess virði fyrir það eitt. Ég ætlaði niðrúr sófanum þegar hann sýndi “Merge calls” – fídusinn (teaser).

Það er í rauninni ýmislegt að segja í stóru samhengi hlutanna um þessa innkomu Apple á fjarskipta- og lófatölvumarkaðinn, en ég ætla að geyma það – ég er aðeins að melta þetta allt. Tek það kannski í tæknispánni fyrir 2007 sem ég er að setja saman. Sú fyrir 2006 er hér – ég reyndist nú bara nokkuð sannspár…

Pæling um evruna


Í tilefni af aukinni umræðu um evruna upp á síðkastið, þá gróf ég upp þennan póst sem ég sendi kunningja mínum síðasta vor:

Ein pæling varðandi krónuna / evruna: Þó þjóðin taki upp ekki upp Evruna, get ég þá gert það – einhliða?

Ég rek lítið fyrirtæki og stefni að því að hafa bróðurpartinn af tekjunum í erlendri mynt. Ég gæti samið við mína starfsmenn um að þeir fengju greitt í evrum, ég get átt bankareikning í evrum og ég get meira að segja borgað (a.m.k. í mörgum búðum hér í miðbænum) matvöruinnkaupin mín, kaffihúsaheimsóknir og önnur helstu útgjöld í evrum. Ég gæti í sjálfu sér meira að segja samið við mína íslensku viðskiptavini í evrum og sent þeim reikninga í evrum.

Ef nógu margir gerðu þetta, þá myndi það líklega minnka sveiflurnar á krónunni, eða a.m.k. áhrif gengissveifla á matvöruverð og neysluvöru – það gæti meira að segja verið business í því að stofna verslun sem tekur bara við greiðslum í evrum: “Evru-prís – verslun með stöðugt vöruverð”?

Sjálfsagt veit ég of lítið um hagfræði til að skilja af hverju þetta er ekki hægt og auðvitað hefur þetta ókosti líka, en aðalpunkturinn er þessi: Þarf ríkið endilega að taka upp evruna – getur fólkið ekki bara gert það?

Þó mín persónulega aðstaða hafi breyst töluvert í millitíðinni, stendur punkturinn eftir: Mun almenningur ekki bara smám saman taka upp evruna og þarf nokkuð stjórnvöld til að ákveða það?

Visited Countries – Revisited

When I read Bill Bryson’s fantastic book “A Short History of Nearly Everything“, one of the things that stood out, was a reminder that the world is still a really big place.

Even though we feel that we can – with a credit card, and a solid visa – get pretty much anywhere in the world within 72 hours, the world is still HUGE on the ground level. There are large areas where – to our best knowledge – no man has ever set foot; it still takes days or even weeks of trekking to get to much of Earth’s surface; and humans are still to explore even 1% of world’s oceans.

This made me think of Douwe‘s Visited Countries project. You surely know this one – everybody and their grandma’s have been posting these maps on their blogs in the last 3 years, coloring the countries they’ve been to. But that’s not really fair – is it? I’ve been to Hong Kong, so I color China. I’ve been to a dozen cities or so in the US, that gives me half a continent. Looking at the colored map, it really feels like I’ve pretty much covered it – only some minor continents to go :).

Well, think again!

Above is a typical Visited Countries map of the countries I’ve visited. But look closer to see where I’ve REALLY been. The yellow dots are (roughly) the dots I’ve set foot in. I’m even pretty generous, I colored dots that I’ve only zoomed through in a train or on the motorway, (but skipped those I’ve seen out the plane window). And each dot is actually huge. Roughly estimated, a single dot on this map is about 3,000 square kilometers on average!

It now looks like I’ve still got some planes to catch!

P.S. I wonder if anyone will come up with a tool to make this type of map, as easily as Douwe’s original?

Jólaglögg og jólakveðjur / Merry Christmas and an invitation

Jólin 2006

Sælt veri fólkið,

Að venju er blásið til jólaglaggar (“glögg” um “glögg” frá “glögg” til “glaggar” eða var það “glöggvunar”). Flest kannist þið við prógrammið, en fyrir nýliðana í hópnum eru reglurnar eftirfarandi:

  1. Það verður opið hús hjá okkur frá því seinnipartinn á Þorláksmessu (les 16:00 GMT) og þangað til síðasta gesti dettur í hug að fara.
  2. Það má koma snemma, fara snemma, fara seint, koma tvisvar, koma þrisvar, eða jafnvel koma ekki – allt eftir því sem vill og verður.
  3. Á boðstólnum er eitthvað fyrir alla: Gos, kaffi, kakó, smákökur, ávextir, öl (jóla- og hinsegin), o.s.frv., o.s.frv., og svo auðvitað jólaglögg.
  4. Ungmenni, gamalmenni, makar, börn og ofurmenni velkomin.

Eitt hefur þó breyst – við erum flutt! Nú verða herlegheitin að Skipholti 15, þetta er í raun örstutt frá gamla staðnum – ca. 500 m í austur. Það verður hvort eð er takmörkuð stemming á Laugaveginum í roki og rigningu 🙂

Og ef þið eruð hrædd um að villast þá er þetta húsið með gulu svölunum – þið þekkið það þegar þið sjáið það.

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest – sakar ekki að þið sendið línu um líkur á mætingu til að við höfum smá hint um fjöldann.

Við ykkur hin segjum við “Jólskí Karamba” (sjá viðhengi). Við meinum samt:

Gleðileg jól og farsælt komandi ár

Ykkar vinir,
Hjalli og Magga Dóra

– – –

Aloha,

Merry Christmas, and Happy New Year from Hjalli and Magga Dora.

As stated above in Icelandic, you are all invited to pre-Christmas party on December 23rd. It’s casual – you can come and go as you like after 1600 GMT. Feel free to bring friends, spouses, kids and other attachments.

Those of you that will make it will be able to enjoy traditional Icelandic Christmas delicatessen, including Magga’s famous “Jólaglögg”.

We’ve just moved, the new home is in Skipholt 15 – 5 minutes walk from the old place.

Hope that at least some of you will make it – certified copy of last minute plane tickets will grant a free extra portion of “glögg” 🙂

Your friends,
Hjalli & Magga Dora

Opera Mini 3 – tóm snilld

Frændur okkar í Noregi settu nýjustu útgáfuna af Opera Mini farsímavafranum á markað í vikunni. Ég prófaði gripinn og verð að segja að ég er mjög hrifinn.

Meira að segja “jólatréssíður” eins og forsíða mbl.is koma bara mjög vel út á litla skjánum á Walkman símanum mínum. Það er líka mjög góður RSS lesari í Opera Mini, þannig að nú kemur maður til með að tékka á helstu bloggurunum í þessum dauðu 5 mínútum sem gefast hér og þar.

Vafrinn er hraður og snjall í því hvernig hann brýtur niður síður sem venjulega eru hannaðar fyrir miklu stærri skjái en farsímaskjáina. Einfaldleikinn er í fyrirrúmi og meira að segja uppsetningarferlið var einfalt og skiljanlegt, sem er í fyrsta sinn sem ég treysti mér til að segja það um nokkurt farsímaforrit 🙂

Maður á sjálfsagt eftir að reka sig á einhverja galla á næstu dögum, en fyrstu kynni eru ákaflega jákvæð.

Ef þið viljið prófa, þá smellið þið ykkur bara á operamini.com, sláið inn símanúmerið ykkar og fylgið leiðbeiningunum. Þetta ætti að virka á nær öllum nýrri símum (keyptum á síðustu 18-24 mánuðum).

Stærsta vandamálið í þessu er að verðskrárnar fyrir GPRS notkun bjóða ekki beinlínis upp á “casual” notkun á vefnum í farsíma.

Vetni og aðrir orkugjafar

Í Mogganum um helgina var merkilegt viðtal við Baldur nokkurn Elíasson sem vann hjá sænska stórfyrirtækinu ABB um árabil. Stuttur inngangur að viðtalinu er hér á fréttavef mbl.is, en mun meira í blaðinu sjálfu.

Ég held reyndar að það sé alvarlegur misskilningur í málflutningi Baldurs í þessari grein. Hann talar um að “vegirnir myndu fyllast af flutningabílum” sem væru að flytja vetni á kútum á vetnisáfyllistöðvar. Nú er það svo að á vetnisstöðinni uppi á Höfða t.d. þá er vetnið einmitt framleitt á staðnum. Það sem þarf er sem sagt bara vatns- og rafmagnsinntak, og – voila – þú ert kominn með áfyllingarstöð.

Sem þýðir að það eru alls engir flutningar á vetni á vegunum.

Þetta breytir hins vegar auðvitað engu um það að orkubinding í rúmmálseiningu af vetni, gerir það að ófýsilegum orkugjafa*. Metanblandan er skemmtileg nálgun.

– – –

* Vetni í þessu samhengi er reyndar alls ekki orkugjafi heldur ákveðið form orkugeymslu, þar sem vetnið er framleitt með rafmagni. Það þarf því að virkja meiri raforku ef við ætlum að fara að keyra á vetnisbílum og ekki víst að allir tækju vel í það. Hins vegar opnar þetta á marga nýja virkjunarkosti þar sem hægt er að nota óstöðuga orkugjafa (s.s. sjávarföll og vindorku) til að framleiða vetni og safna þannig orkunni upp, meðan jöfn orkuframleiðsla er forsenda hefbundinnar raforkunotkunar (sem er síðan aftur ástæðan fyrir nauðsyn stórra miðlunarlóna í vatnsfallsvirkjunum).