framtíðin

Tæknispá 2025: Gervigreind, geimurinn og sannleikurinn sjálfur

Tækni er ekki bara hluti af lífi okkar – hún er samofin manninum sem tegund. Þessi einfalda staðreynd gleymist oft. Allt sem færir okkur mat, hlýju, skjól, ferðamáta, afþreyingu og hefur með öðrum hætti mótað daglegt líf okkar – frá einföldum steinverkfærum og ritmáli til snjallsíma og gervigreindar – var eitt sinn byltingarkennd tækninýjung.

Að fylgjast með tækninýjungum veitir þannig beinlínis innsýn í hvert við stefnum sem samfélag og sem tegund. Það er þess vegna ekki úr vegi að velta því aðeins fyrir sér svona um áramót, eins og ég hef reyndar gert núna í bráðum 20 ár!

Hér má finna allar tæknispár sjálfskipaða, sköllótta tæknisjáandans í einni beit.

Í þetta sinn eru það gervigreind, geimtækni og sannleikurinn sjálfur sem eru mér efst í huga.

Gervigreindin í almenna notkun

Á síðasta ári snerist Tæknispáin alfarið um gervigreind, enda setti hún sannarlega svip sinn á árið. Við erum óumdeilanlega að yfirstíga ótrúlegt skref í tæknisögu mannkynsins þessi misserin: Að geta átt í samskiptum við tækin á okkar eigin tungumáli.

Hingað til höfum við þurft að læra tungumál tölvunnar eða reiða okkur á hugbúnaðarsérfræðingana sem kunna að búa til hugbúnað sem gerir okkur kleift að nýta tölvurnar. Nú stefnum við hraðbyri inn í framtíð þar sem hver sem er getur beðið tölvur um að leysa flóknustu verkefni á sínu eigin tungumáli.

Allt sem mannlegur aðstoðarmaður getur leyst með aðgangi að tölvu og internetinu getur stafrænt “aðstoðarmenni” bráðlega leyst af hólmi – og við munum öll hafa aðgang að nánast ótakmörkuðu vinnuframlagi slíkra menna. Eins og vélarnar leystu vöðvaaflið af hólmi leysir gervigreindin nú smám saman af hólmi hluta hugaraflsins! Ógnvænleg og heillandi tilhugsun í senn.

Þetta gerist ekki í einni svipan, en á þessu ári mun notkun og innleiðing gervigreindar færast frá framsæknustu fyrirtækjum og einstaklingum inn í meginstraum fyrirtækjarekstrar og daglegs lífs.

Gögn frá Bandaríkjunum sýna að aðeins rúm 6% fyrirtækja þar í landi nota í árslok 2024 gervigreind í sinni grunnstarfsemi, en akademískar rannsóknir sýna fram á 23% framleiðniaukningu hjá slíkum fyrirtækjum, á meðan fyrirtækin sjálf tilkynna allt að 30% aukningu (sjá frétt).

Með öðrum orðum, jafnvel þó þróun gervigreindar myndi stöðvast og sú tækni sem nú þegar er til staðar kæmist í almenna notkun, erum við að tala um gríðarlegar breytingar. Og það er ekki eins og þróunin sé að stöðvast!

Íslenskur vinkill: Orkuþörf gervigreindar

Þjálfun gervigreindarlíkana þarfnast gríðarlega mikillar raforku. Til að setja raforkuþörfina í samhengi, nota gagnaver í heiminum um 2% af raforku heimsins samkvæmt nýjustu greiningu Alþjóða orkustofnunarinnar. Spáin er sú að þessi notkun gæti tvöfaldast á fjögurra ára tímabili, meðal annars vegna gervigreindar. Hún gæti í heild farið yfir 1000 teravattstundir árlega fyrir lok áratugarins, en heildarframleiðsla raforku á Íslandi er um 20 teravattsstundir á ári.

Þó að hlutfallið af heildarraforkuframleiðslu heimsins sé enn lágt, eru magntölurnar gríðarlega háar og vöxturinn margfaldur á við það sem gerist í öðrum geirum. Það er því gríðarleg eftirspurn eftir orku til reksturs gagnavera og orkunotkun gervigreindar er sérstök að því leyti að mesta orkunotkunin fer í áðurnefnda þjálfun, en slík verkefni þurfa ekki að vera staðsett nálægt endanotendum.

Endurnýjanlegir orkugjafar, kalda loftið og þetta óhæði staðsetningar hefur leitt til þess að alþjóðlegir tæknirisarnir munu nær allir vera að skoða umfangsmikil verkefni hér á landi. 

Íslensk heimili og fyrirtæki önnur en stóriðja nota aðeins um 20% af heildarraforkuframleiðslu hérlendis. Það þarf þess vegna að fara afar rúmt í skilgreiningar til að kalla ástandið “orkuskort”, en hins vegar er óumdeilanlega gríðarleg umframeftirspurn og hún fer vaxandi.

Ég gæti trúað því að eitt af verkefnum stjórnvalda – strax á þessu ári – verði að móta heildstæða stefnu í þessum málum sem eigendur stærstu raforkuframleiðendanna og ábyrgðaraðilar fyrir bæði náttúruvernd og atvinnustefnu.

Sigrar og töp

OpenAI hefur borið höfuð og herðar yfir aðra í gervigreindarþróun síðustu ára. Fyrirtækið hefur verið mest áberandi, ChatGPT er langmest notaða gervigreindarlausnin, tekjuvöxturinn er hraðari en nokkru sinni hefur sést og hreint ekki ólíklegt að OpenAI verði eitt af 5-10 stærstu fyrirtækjum heims innan fimm ára.

Að því sögðu eru tæknirisarnir að ná vopnum sínum hratt í þessari samkeppni og eftir margar misheppnaðar tilraunir síðustu tvö ár er Google á hvað mestri siglingu. Amazon mun líklega kaupa Anthropic (framleiðanda næstvinsælustu lausnarinnar – Claude) og samstarf Microsoft og OpenAI er mjög náið. Evrópska gervigreindarfyrirtækið Mistral mun nær örugglega líka verða keypt af einhverjum bandarísku tæknirisanna.

Auk tækifæranna eru áskoranirnar fjölmargar. Tækniframfarir síðustu áratuga hafa sannarlega nýst okkur öllum, en þær hafa líka gert það að verkum að gríðarlegur auður og völd hafa safnast saman og áhrif stakra fyrirtækja og jafnvel einstaklinga í tæknigeiranum jafnast nú á við sum af stærri ríkjum heims.

Réttlát skattheimta af þessari starfsemi á heimsvísu, dreifing ávinningsins til samfélagsins og hreinlega valdabarátta einkafyrirtækja og þjóðríkja eru raunveruleg viðfangsefni komandi ára.

Geimurinn: Fyrsta tunglferðin í 50 ár og gagnaver í geimnum

Geimferðir verða sífellt hagkvæmari og það er margt áhugavert að gerast í geimtækni. SpaceX heldur áfram að brjóta blöð í sögunni með ódýrari, stærri og örari geimskotum og það þarf ekki annað en að horfa upp í stjörnuhimininn á heiðskírri nóttu til að sjá hversu mjög gervitunglum hefur fjölgað. Stór hluti þessara sýnilegu gervitungla eru Starlink-gervihnettir SpaceX, en nærri 7000 þeirra eru nú á sporbaug í kringum jörðina og verða yfir 40 þúsund gangi áætlanir fyrirtækisins eftir. Til samanburðar er heildarfjöldi annarra gervihnatta sem skotið hefur verið á loft frá upphafi innan við 15 þúsund og aðeins um 7000 þeirra virkir í dag. Starlink ræður með öðrum orðum yfir helmingi þeirra gervihnatta sem eru á braut um jörðu. Þessir gervihnettir gera Starlink kleift að veita háhraðanetþjónustu á viðráðanlegu verði hvar sem er á hnettinum (enn sem komið er þó aðeins að litlu leyti í Afríku og Asíu) sem setur fyrirtækið í einstaka aðstöðu í öllu frá öryggis- og hernaðarmálum til sjóferða og nettenginga í dreifbýli.

Stærstu tíðindi ársins áttu svo að verða fyrsta mannaða tunglferðin í meira en 50 ár: Artemis II verkefni NASA. Áætlað var að það færi á loft undir árslok 2025, en nýverið frestaði NASA skotinu til apríl 2026. Þó að ferðin muni reyndar ekki lenda á tunglinu, mun áhöfnin ferðast lengra frá jörðu en áður hefur verið gert. Áhöfnin er jafnframt söguleg, með geimfarana Christinu Koch og Victor Glover sem fyrstu tunglferðalangana sem ekki eru karlmenn af evrópskum uppruna. 

Ódýr geimskot gefa líka færi á alls kyns nýsköpun og tilraunastarfsemi. Þarna koma til dæmis gervigreindartæknin og geimferðir saman þar sem undirbúningur er hafinn að fyrstu gagnaverununum í geimnum. Þar er óendanleg sólarorka fyrir hendi allan sólarhringinn og auðvelt að senda gögn fram og til baka. Verði slíkt að veruleika mun það augljóslega umturna gagnavera- og með tímanum jafnvel orkumarkaðnum. Í því samhengi er vert að minnast á samstarfsverkefni breska fyrirtæiksins Space Solar, íslenska loftslagsfyrirtækisins Transition Labs og Orkuveitunnar.

Endalok sannleikans?

Samfélagsmiðlalandslagið hefur gjörbreyst: Twitter, sem varð að X árið 2023, naut yfirburðastöðu í rúman áratug sem vettvangur opinberrar umræðu víða á Vesturlöndum. En kaup Elons Musk á fyrirtækinu 2022 sendu marga notendur í leit að nýjum vettvangi. Meta setti á markað Threads sem ekki hefur náð mikilli útbreiðslu, Trump er með sinn Truth Social, og dreifðar lausnir eins og Mastodon og sérstaklega Bluesky, sem hefur notið mikilla vinsælda að undanförnu, hafa komið fram á sjónarsviðið.

Hér á landi var Facebook mun meira áberandi í opinberri umræðu en það hefur greinilega dregið úr því vægi og eflaust margir sem gráta ekki endilega þann “missi”. Það hefur samt ekki dregið úr notkun samfélagsmiðla, heldur fer miklu stærri hluti notkunarinnar nú fram í minni hópum og lokaðri umræðu eins og komið var inn á í Tæknispánni 2023 um “persónulegari samfélagsmiðla”.

Þó margt megi gott segja um þessa þróun, þá hefur hún – samhliða minnkandi lestri og áhrifum hefðbundinna fjölmiðla – í för með sér að sameiginlegur reynsluheimur hvers samfélags og heimsins alls hefur riðlast. Algrímin – og við sjálf – veljum ofan í okkur upplýsingar sem okkur líður vel með og samræmast okkar sjálfs- og heimsmynd svo mjög að jafnvel umræða um blákaldar staðreyndir og náttúrulögmál finnur engan fastan flöt til að standa á.

Gervigreindin eykur svo enn á þessa óreiðu. Hún getur – auk þess að hafa stundum óafvitandi rangt fyrir sér við bestu aðstæður – í höndum rangra aðila spunnið upp afar sannfærandi ósannindi, búið til hágæða myndir og myndskeið af hlutum sem aldrei urðu og hermt eftir röddum hvers sem er. Af þeim 8 hlutum sem ég spáði að gervigreindin myndi gera á síðasta ári var þetta sú sem ég var mest hissa á að sjá ekki meira af – til dæmis í tengslum við forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.

Rekjanleiki og sannreynsla upplýsinga er því eitt af stóru viðfangsefnum komandi missera. Þarna ætla ég að spá því að gamall vinur Tæknispárinnar – blockchain-tæknin (sjá 2022 og 2018) – muni finna sinn farveg í almenna notkun, enda gefur hún kost á því að merkja stafrænar skrár með þeim hætti að unnt er að rekja uppruna, feril og breytingasögu þeirra allt aftur til þess einstaklings, staðar og tækis sem þær eiga uppruna sinn í. Þannig væri hægt að sannreyna að mynd hafi verið tekin með tilteknu tæki á tilteknum stað og tíma og að henni hafi ekki verið breytt síðan eða að tiltekinn texti hafi verið skrifaður af ákveðnum einstaklingi tiltekinn dag.

Niðurlag

Við göngum í gegnum tíma umbreytinga í tengslum við margvísilega tækniþróun. Gervigreindin endurskilgreinir vinnu og daglegt líf okkar. Geimtæknin færir okkur nær draumi vísindaskáldsögunnar um mannkynið í geimnum. Og við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum í því að hvorki meira né minna en varðveita sannleikann.

Eins og sagði í upphafi eru tæknisagan og mannkynssagan órjúfanlega samofin. Það eru engin dæmi um það í mannkynssögunni að þróun nýrrar tækni hafi verið algerlega stöðvuð, en við getum mótað hana, hvar við kjósum að láta áherslurnar liggja og hvernig við nýtum hana til góðs frekar en ills.

Þannig mun tæknin halda áfram að móta okkur, á sama tíma og við mótum hana.

Tæknispá 2024: Gervigreindin mun breyta heiminum jafnmikið og tilkoma snjallsímans

Síðan 2006 hef ég gert mér að leik um áramót að skoða strauma og stefnur í tækniheiminum og spá fyrir um það sem er líklegt til að standa upp úr á komandi ári. Árangurinn hefur oft verið ágætur, en líka stundum alveg úti á túni. Hér skrifar til dæmis maðurinn sem spáði því árið 2014 að öpp í síma og spjaldtölvum myndu senn heyra sögunni til og virkni þeirra færast í vafra!

Í fyrra taldi ég upp þrjá hluti sem ég taldi að myndu verða áberandi árið 2023:

  • Gervigreind
  • Sýndarveruleika
  • Persónulegri samfélagsmiðla

Allt eru þetta sannarlega hlutir sem vöktu athygli á árinu, Apple kynnti sýndarveruleikagræju sem mun hafa mikil áhrif þegar hún kemur á markað á næstu mánuðum. Notkun á samfélagsmiðlum heldur áfram að þróast í þá átt að fólk deili efni í smærri hópum frekar en að „allir tali við alla“, en gervigreindin var augljóslega sá punktur sem hitti rakleitt í mark. Reyndar svo mjög að það er ótrúlegt til þess að hugsa að þegar spáin var skrifuð í desember 2022 voru enn fjöldamargir sem höfðu aldrei heyrt um ChatGPT, OpenAI eða spunagreind (e. generative AI).

Ég held reyndar að gervigreindin sé upphafið að svo mikilli byltingu að ég ætla að tileinka tæknispá 2024 henni einni og velta frekar upp mismunandi hliðum hennar og spá í þá hluti sem við erum líkleg til að sjá á hennar sviði á árinu. En fyrst skulum við setja gervigreindina og umræðuna um hana í svolítið meira samhengi.

Vitlíkið rís

Ég rakst á það að frændur okkar Færeyingar hefðu valið „vitlíki“ orð ársins, en það er færeyskt nýyrði sem samsvarar okkar „gervigreind“. Þarna finnst mér frændum hafa tekist vel til og nota það hér eftir til jafns við gervigreind.

Þróun á sviði gervi- „greindar“ hefur alltaf kallað fram heimspekilegar umræður um hvað greind sé, hvort tölvur geti nokkurn tímann talist greindar, hvort þær muni tortíma okkur og ef ekki þá taka af okkur mennskuna, eða að minnsta kosti störfin. Þetta hefur átt við allt frá því tölvan kom fyrst fram, enda er Alan Turing – sem oftast er eignað að hafa smíðað fyrstu nútímatölvuna – einnig oft nefndur sem upphafsmaður gervigreindarinnar enda skrifaði hann heilmikið um það efni frá ýmsum sjónarhornum. Umræðan endurtók sig svo alloft á seinni hluta 20. aldar.

Þegar einkatölvan kom til sögunnar var talsvert talað um það hvernig fólk yrði óþarft á sífellt fleiri sviðum fyrir tilstilli hennar. Þessi umræða náði sannarlega til Íslands og í bókasafni mínu á ég meðal annars forláta bók sem gefin var út af Alþýðusambandi Íslands og heitir einfaldlega Tölva og vinna. Þar eru færð sannfærandi rök og myndrit sett fram sem sýna hvernig störfum muni fækka og fólk missa vinnuna í stórum stíl fyrir tilstilli einkatölvunnar. 

Það er ekki tilviljun að fyrsta Terminator-myndin (1984) kom út á svipuðum tíma. Nýjungar hræða, sérstaklega þær sem við skiljum illa.

Þegar Deep Blue lagði heimsmeistarann Kasparov í skák árið 1997 þóttu tölvurnar heldur betur hafa ruðst inn á svið sem sannarlega þarfnaðist greindar.

Síðan þá hefur hugtakið gervigreind verið notað yfir ótal hluti, ekki síst í markaðssetningarskyni, en lítið virst gerast í eiginlegri þróun við að koma viti fyrir tölvurnar. Flest framfaraskrefin voru einfaldlega meiri vinnsluhraði og ódýrari örgjörvar, minniskubbar og geymslurými og byltingarnar urðu miklu frekar á öðrum sviðum, svo sem uppgangi Internetsins og tilkomu snjallsímans.

Það er svo árið 2017 að hópur sem meðal annars hafði unnið að þróun þýðingarlausnarinnar Google Translate gefur út vísindagreinina „Attention is all you need“. Þar er lýst nýjum arkitektúr tauganeta, svokölluðum „umbreytum“ (e. transformers), en þeir gera þjálfun slíkra neta auðveldari og breyta því hvernig þau „halda athygli“ á því sem þegar hefur verið sagt. Á þessu byggja allar þær gervigreindarlausnir sem við höfum séð líta dagsins ljós síðustu misserin á sviði spunagreindar, hvort heldur er textaspuni, myndspuni, spuni tónlistar eða spuni á enn öðrum miðlum. Flest okkar urðu ekki vör við þessa nýjung fyrr en með tilkomu ChatGPT í lok árs 2022, en nú er varla til það mannsbarn sem ekki hefur heyrt af þessari lausn, prófað hana og jafnvel tekið hana í reglulega notkun, enda hefur engin hugbúnaðarlausn í sögunni náð til jafnmargra notenda á jafnskömmum tíma.

Ógninni flaggað: Á níunda áratugnum var því spáð, með sannfærandi hætti, að einkatölvan myndi hirða störf af fólki.

Viðbrögðin hafa heldur aldrei verið jafn sterk. Sem fyrr vantar ekki hrakspárnar. Málsmetandi fólk hefur jafnvel kallað eftir því að frekari þróun þessara gervigreindarlausna verði stöðvuð meðan við áttum okkur betur á því hvað við erum með í höndunum. Það þarf enda ekki að eiga í samtali við ChatGPT nema skamma stund – jafnvel á íslensku – til að átta sig á að hér er eitthvað allt annað og meira á ferðinni en hugbúnaður sem getur skákað okkur á afmörkuðu sviði á borð við – jah – skák, greiningu röntgenmynda eða flokkun póstsendinga þar sem fyrri gervigreindarnálganir höfðu þegar tekið mannlegum sérfræðingum fram, heldur eitthvað sem líkist því miklu frekar að eiga í samskiptum við viti borna manneskju.

Endurtekur sagan sig, eða er þetta skiptið öðruvísi?

Eiga hrakspárnar þá rétt á sér í þetta skiptið? Já og nei. Fyrst skulum við leyfa fyrri hrakspám að njóta sannmælis. Þótt tölvurnar hafi ekki tekið af okkur öllum störfin, hafa auðvitað mörg störf, og jafnvel heilu starfsgreinarnar, breyst mikið, eða jafnvel horfið með öllu. Það vinna ekki margir við letursetningu í prentiðnaði í dag. Fjöldi starfsmanna í fiskvinnslu er um fimmtungur þess sem áður var og þau störf sem eftir eru aðeins að litlu leyti lík þeim sem áður voru mest áberandi. Þær leiðir sem tónlistarmenn, blaðamenn og margar aðrar skapandi stéttir nota til að afla sér tekna eru mjög breyttar og í sumum tilfellum stendur leitin að sjálfbærum tekjuleiðum enn yfir (allar þessar stéttir fara núna beint í annan hring í skilvindunni). Þegar grannt er skoðað er hlutfall þeirra starfa sem í dag eru unnin á svo að segja sama hátt og þau voru unnin fyrir 30–40 árum býsna lágt. Tölvurnar tóku störfin! Í sumum tilfellum var um sársaukafullar breytingar að ræða, en flestar þessar breytingar hafa orðið án þess að við höfum beinlínis tekið eftir þeim frá degi til dags, en gerbreyttu samt sem áður öllu.

Með tilkomu þróaðrar spunagreindar stöndum við núna frammi fyrir breytingum sem verða engu minni og líklega mun hraðari og það er auðvitað ástæðulaust að vaða út í þær án umhugsunar og undirbúnings. En meðan athyglin er ef til vill mest á stórkostlegum – og í flestum tilfellum allfjarstæðukenndum – hamfaraspám, er gervigreindin þegar farin að breyta heiminum. Og þær breytingar sem auðveldast er að spá fyrir um minna mjög á þær sem tilkoma einkatölvunnar hafði í för með sér: Meiri sjálfvirknivæðing sem sannarlega mun „taka“ og gerbreyta störfum okkar og lífi, en heilt yfir auka framleiðni og lífsgæði.

Meira, hraðar, ódýrara …

Í raun má draga öll þau margvíslegu áhrif sem spunagreindin mun hafa saman undir hatti stafrænnar framleiðniaukningu. Núna er einfaldlega hægt að framleiða allt efni sem hægt er að koma á stafrænt form hraðar og ódýrar en áður og án sömu sérhæfingar.

Hvert okkar hefur eignast stafræna og einstaklega fjölhæfa aðstoðar-„manneskju“. Eins konar „hugstoð“ sem er alltaf til staðar og við komum nær aldrei að tómum kofunum hjá. Þessi stoð getur skrifað samfelldan texta út frá stuttri lýsingu, teiknað frambærilegar myndir eftir okkar hugarflugi, sett saman forritskóða út frá forskrift, lýst því sem fyrir augu ber á myndum, dregið saman efni úr heilu skjalabunkunum á örskömmum tíma og unnið með okkur hugmyndavinnu á nánast öllum sviðum mannlegrar tilveru.

Þróunin er mjög hröð og mögulegum starfssviðum þessarar stoðtækni fer hratt fjölgandi. Nú þegar eru til sérhæfðar spunalausnir sem geta útbúið vídeómyndirtónlist og þrívíddarlíkön. Þessir eiginleikar verða án efa byggðir inn í útbreiddustu lausnirnar á borð við ChatGPT og Bard frá Google á næstunni.

Þetta opnar ótrúlega möguleika, en rétt eins og í tilfelli raunverulegs aðstoðarfólks mun sá sem biður um vinnuna bera ábyrgð á henni. Notandinn er sérfræðingurinn, stoðin er „ódýra vinnuaflið“, enda er einn stærsti veikleiki spunagreindarinnar að hafa enga „tilfinningu“ fyrir því hvenær hún hefur rétt fyrir sér og hvenær hún er að bulla.

Fyrrgreind framleiðniaukning er það sem mun hafa stærstu breytingarnar í för með sér og þau sem munu tileinka sér þessa tækni munu verða margfalt afkastameiri og betri í sínum störfum.

En þrátt fyrir hraðann munu þessar breytingar taka mörg ár að ganga yfir og þróun tækninnar stendur auðvitað enn yfir. Við skulum takmarka sjóndeildarhringinn við árið sem nú er nýhafið og hvað það er líklegt að bera í skauti sér á sviði gervigreindarinnar.

Átta hlutir sem gervigreind mun gera árið 2024

  1. Framleiða (of) sannfærandi „ljósmyndir“: Við munum sjá spunnar myndir í glanstímaritum og öðru auglýsingaefni þar sem fyrirsæturnar eru ekki raunverulegt fólk, sviðsmyndin var aldrei sett upp og enginn ljósmyndari kom að verkinu. Það eru þegar heilu „áhrifavaldarnir“ á samfélagsmiðlum sem eru ekki til, heldur eru bæði myndirnar af þeim og textinn sem settur er fram með þeim spunninn af gervigreind. Þeim mun fjölga. Jafnvel myndir frá fólki sem sannarlega er til verður erfitt að meta hvort séu breyttar eða jafnvel spunnar frá grunni. Slíkar myndir munu rata í fréttamiðla og hneykslismál munu koma upp þar sem myndir sem „sýna“ hvað gerðist verða spunnar frá rótum. Sömuleiðis mun fólk sem verður uppvíst að einhverju misjöfnu halda því fram að myndirnar séu uppspunnar þegar svo er ekki. Jafnvel stutt myndskeið verða spunnin frá grunni. Í stuttu máli verður erfiðara en nokkru sinni að trúa neinu nema því sem maður sér með eigin augum.
  2. Skrifa tölvupósta: Næst þegar þú færð tölvupóst með alllöngu samfelldu máli skaltu velta fyrir þér hvort sendandinn hafi skrifað hann sjálfur eða hvaða kvaðning (e. prompt) hefði hugsanlega nægt til að fylla í eyðurnar: „Afþakkaðu afmælisboð Önnu kurteislega en semdu vísu til heiðurs henni sextugri“, „Skrifaðu starfsumsókn sem uppfyllir öll skilyrði þessarar atvinnuauglýsingar fullkomlega“, „Skrifaðu rökstuðning með lagafrumvarpi um áframhaldandi hvalveiðar við Ísland“, …
  3. Verða ávanabindandi: Ef þið hélduð að TikTok, Instagram og YouTube Shorts væru ávanabindandi, þá mun spunagreindin verða notuð til að spila á dópamínstöðvar heilans á alveg nýjum hæðum. Spjallbotta-„elskhugar“ eru þegar orðinn allstór iðnaður, enda alltaf til staðar, segja það sem viðmælandinn vill heyra og eru alltaf til í allt. Það þarf varla að taka fram að margar þessara „lausna“ spila röngum megin laganna og eru notaðar í fjár- og annarri svikastarfsemi. Sambærilegir „stafrænir félagar“ munu spretta upp á ótal fleiri sviðum og í auknum mæli verður ómögulegt að vita hvort „þau“ sem við eigum í samskiptum við með stafrænum hætti séu viti bornar manneskjur eða vitlíki.
  4. Fokka í lýðræðinu: Ofangreindar lausnir verða notaðar til að hafa áhrif á almenningsálit, afla fylgis við frambjóðendur og flokka, sérsníða skilaboð að viðkvæmum hópum og valda almennri upplýsingaóreiðu. Þetta er í raun alvarlegasta skammtímaógnin sem hin nýja gervigreindartækni ber með sér. Síðastliðin 15 ár hafa samfélagsmiðlar, netauglýsingar og margvíslegar stafrænar herferðir spilað sífellt stærri rullu í aðdraganda kosninga. Mikið hefur verið rætt um aðkomu rússneskra hakkara og óvandaðra stafrænna lukkuriddara á borð við Cambridge Analytica að forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016 og 2020 sem og öðrum kosningum, óeirðum og dreifingu samsæriskenninga um heim allan. Heimspekingurinn Yuval Noah Harari heldur því fram að þegar við vitum ekki lengur hvort við eigum í samskiptum við mann eða vél og vélar geta spunnið sögur og myndir sem séu óaðgreinanlegar frá raunveruleikanum falli lýðræðið með látum. Fram undan er bæði forval og kosningar til forseta í Bandaríkjunum á árinu í fyrsta sinn síðan þessi nýja tækni kom fram og hún verður notuð óspart. Ég spái því að aðkoma spunagreindar að þeim verði eitt stærsta fréttamál ársins.
  5. Semja tónlist í kvikmyndir: Ódýrari framleiðsla, svo sem framleiðsla á barnaefni, heimildamyndum og YouTube-efni mun taka því fegins hendi að geta gætt efnið sitt tónheimi án þess að hafa áhyggjur af stefgjöldum eða höfundarrétti. Sem fyrr er spunagreindin engin sérfræðingur – enginn Danny Elfman eða John Williams – en ástríðufullur kvikmyndagerðarmaður sem vinnur heimildamynd sína af litlum efnum getur engu að síður gætt lokasenu af bráðnandi jökulsporði tilfinningaþrunginni tónlist að sínum smekk.
  6. Myndskreyta glærur: Meirihluti glærukynninga sem þið sjáið á árinu verði með eina eða fleiri spunamynd.
  7. Þýða bækur og texta sjónvarpsefni: Storytel hefur tilkynnt að fyrirtækið stefni á stórfellda útgáfu vélþýddra bóka. Þau verða ekki ein um það. Og jafnvel þó hrein vélþýðing standi góðum mennskum þýðanda langt að baki, flýtir vélþýðingin engu að síður fyrir sérfræðingum hér sem annars staðar. Þýðingar á hvers kyns efni munu margfaldast, líka gæðaþýðingar. Þetta þýðir líka að sjónvarpsefni sem hingað til hefur ekki svarað kostnaði að texta getur nú farið að birtast á efnisveitum með íslenskum texta eins og lög gera ráð fyrir.
  8. Vara þig við vitleysu: Það er ef til vill kaldhæðnislegt en gervigreindarmódel eru líklega eina raunhæfa lausnin til að vara við vitleysunni, fölsununum, svindlinu og upplýsingaóreiðunni sem verður framleidd með gervigreind. Þar er þó rétt að muna að vitleysa, svindl og upplýsingaóreiða er ekki ný af nálinni þannig að ef vel tekst til mun slík tækni draga úr óreiðunni frekar en hitt. Þetta, auk annarra lagalegra, siðferðilegra og heimspekilegra úrlausnarefna verður mjög stórt viðfangsefni á árinu.

Gervigreindin mun ekki drepa okkur … hjálparlaust

Þrátt fyrir það hversu mögnuð hin nýja spunagreindartækni er, þá eignum við henni líklega meiri mannlega eiginleika en tilefni er til. Í grunninn eru þetta tölfræðilíkön sem eru ofsalega fær í að stinga upp á næsta orði í samhangandi texta eða gera mynd, hljóð eða annað efni smám saman aðeins líkara einhverju sem fyrir hana var lagt. Spunagreindin getur ekki gert áætlanir, getur ekki hugsað „fram í tímann“ og ekki tileinkað sér nýja færni með takmörkuðum fyrirmælum. Það sem meira er, gervigreindin hefur enga reynslu af heiminum. Hún er lokuð í „kassa“ sem einangrast við það stafræna efni sem hún hefur verið mötuð á.

Það sem blekkir okkur er viðmótið. Við getum í fyrsta sinn átt í samskiptum við tölvur á sama hátt og við annað fólk og viðbrögðin virka mannleg. Oft og tíðum raunar ofurmannleg. En meðan unglingur getur lært að aka bíl með 20 klukkustunda þjálfun og sett í uppþvottavél eftir að hafa séð það gert einu sinni (viljinn er annað mál), erum við langt frá því að þróa almennt vitlíki sem kemst nokkurs staðar nálægt sambærilegri hæfni í að umgangast heiminn.

Það er sennilega fyrirséð að á endanum verða tölvur greindari en við – jafnvel með ströngustu skilgreiningum á „greind“ – en flestir fræðimenn á sviðinu telja að tauganet með umbreytum eins og þau sem voru lykillinn að yfirstandandi byltingu séu í mesta lagi skref í þá átt og margir hallast raunar að því að almenn gervigreind (e. Artificial General Intelligence) verði byggð á allt öðrum forsendum þegar þar að kemur.

En jafnvel þegar sá dagur kemur að tölvurnar verða greindari en við er ekki ástæða til að ætla að greindin ein verði til þess að tölvurnar vilji tortíma mannkyninu. Í veraldarsögunni hefur það ekki verið greindasta fólkið sem hefur farið með heiminn næst hengifluginu. Oft þvert á móti. Það er frekar að óttast að illgjarnt og ef til vill miður greint fólk geti fengið meiru „áorkað“ þegar það hefur aðgang að vitlíki sem tekur þeirra eigin viti fram.

Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri

Ég hef haft það fyrir sið um ára­mót að velta fyrir mér hvað kom­andi ár gæti haft í för með sér í heimi tækn­inn­ar. Ég hef reyndar minna gert af því að skoða árang­ur­inn, önnur geta dundað sér við það með því að fletta upp fyrri spám. Hér koma hins vegar vanga­veltur þessa árs, en þar eru það gervi­greind, sam­fé­lags­miðlar og sýnd­ar­veru­leiki sem föng­uðu athygli mína.

Gervi­greindin breytir heim­inum – loks­ins

Það merki­leg­asta sem er að ger­ast í tækni­heim­inum er án nokk­urs vafa á sviði gervi­greind­ar. Ég við­ur­kenni fús­lega að ég hef verið efa­semda­maður um þetta svið lengi, en á síð­asta ári fóru að birt­ast lausnir sem eru alger­lega töfrum líkar og sann­færðu mig loks um það að gervi­greindin muni storka mann­legri greind á ótal sviðum á allra næstu árum.

Það ber reyndar að fara var­lega í líkja gervi­greind­inni um of við þá mann­legu. Hún er enn sem komið er allt ann­ars eðl­is, en á sífellt fleiri sviðum lík­ist það sem hún getur gert æ meira því sem við höfum hingað til talið að þurfi greind til að fram­kvæma: Að skrifa vand­aðar sam­an­tektir á texta, svara flóknum spurn­ing­um, semja (mis­góð) ljóð og teikna frum­legar myndir eftir for­skrift.

Mörg okkar létu appið Lensa gera af okkur ofur­hetju­myndir undir lok síð­asta árs og hér er mynd sem DALL-E 2 módel fyr­ir­tæk­is­ins Open AI skil­aði þegar ég bað það um að sýna mér mið­alda­mál­verk af sköll­óttum íslenskum manni að spá fyrir um fram­tíð­ina:

Miðaldamálverk af sköllóttum íslenskum manni að spá fyrir um framtíðina.

En svona myndir munu varla breyta heim­in­um? Kannski ekki, en fólk er þegar farið að mynd­skreyta vef­síð­ur, fyr­ir­lestra og jafn­vel bækur með svona tölvu­gerðri grafík – í ein­hverjum til­fellum í verk­efnum þar sem ann­ars hefðu verið ráðnir graf­ískir hönn­uðir til verks­ins. Verk­efni við ódýra graf­íkvinnu kann að heyra sög­unni til, en umfram allt verður ein­fald­lega til meira af graf­ík.

Texta­gerðin á þó eftir að taka fleiri verk­efni af okkur mann­fólk­inu – og hrað­ar. Ekki það að við eigum að búast við vönd­uðum fag­ur­bók­menntum úr ranni gervi­greindar á næst­unni, en end­ur­tek­inn og form­fastur texti, svo sem samn­ing­ar, frétta­til­kynn­ing­ar, mark­aðs­efni, sumar gerðir frétta, sam­an­tektir á lengra efni og fleira í þeim dúr mun ekki þurfa mikið annað en yfir­lestur og lag­fær­ingar frá fólki með við­eig­andi sér­þekk­ingu – ekki ósvipað og sam­band lær­linga og læri­meist­ara þeirra í dag. Nema hvað það þarf ekki lær­ling­ana. Hvar munu þau þá læra?

Leit­ar­vélar á borð við Google munu lík­lega strax á þessu ári í mörgum til­fellum fara að gefa okkur hnit­miðað svar við spurn­ingum okkar í stað þess að birta okkur lista af ótal tenglum og eft­ir­láta okkur að moða úr þeim. Margir kynnu að halda að þetta væri ógn við Goog­le, en þá ber að hafa í huga að Google er aug­lýs­inga­miðlun með góða leit­ar­vél sem afsökun – og það hentar þeim í raun stór­vel að birta slíkar sam­an­tektir og aug­lýs­ingar sam­hliða þeim frekar en að „missa” not­end­urna yfir á aðrar vef­síð­ur.

Radd­stýrð við­mót á borð við Siri og Amazon Echo munu líka loks­ins verða brúk­leg til ann­ars og meira en að setja á tón­list eða stilla „ti­mer”.

Ég skal líka lofa ykkur því að á þessu ári munuð þið fá tölvu­póst frá fyr­ir­tæki (eða svika­hrapp, eða hvort tveggja) sem sam­inn verður og sendur af tölvu án nokkrar mann­legrar aðkomu sem þið gætuð svarið fyrir að væri skrif­aður af mann­eskju per­sónu­lega til ykk­ar. Það sem meira er, þegar þið svarið munuð þið fá svar um hæl sem er engu síður vand­að, svarar spurn­ingum ykkar full­kom­lega í óað­finn­an­legum texta og tekur til­lit til þess sem sagt hefur verið í fyrri póst­um. Það sem meira er – þið eigið lík­lega eftir að kunna að meta þetta stór­bætta þjón­ustu­stig. Sama gildir um net­spjall.

Þessu öllu saman fylgja samt auð­vitað vanda­mál og áskor­an­ir. Í fyrsta lagi verður svo ódýrt að fram­leiða texta­efni að það verður alger spreng­ing í magni þess. Vélar verða látnar fram­leiða ógrynni af „froðu­texta”, ekki síst í mark­aðs­skyni og – eins fyndið og það hljómar – til leit­ar­véla­best­unar – texta sem skrif­aður er sér­stak­lega til að hann finn­ist í leit­ar­vél­um. Tölvur að skrifa texta fyrir tölvur í örvænt­ing­ar­fullri til­raun til að ná athygli mann­eskju til að selja henni eitt­hvað. Þetta hljómar reyndar eins og sögu­þráður í bók sem gæti komið út fyrir næstu jól.

Stærra vanda­mál er að gervi­greind af þessu tagi skrifar texta af mik­illi sann­fær­ingu og öryggi – án þess að hafa nokkra hug­mynd eða raun­veru­lega þekk­ingu til að vita hvort hún hafi rétt fyrir sér. Og þó við eigum öll frænda sem það sama mætti segja um, þá höfum við lært að nálg­ast það sem frænd­inn segir með ákveðnum fyr­ir­vara meðan gervi­greindin mun svara okkur rétt og rangt, sið­lega og sið­laust sitt á hvað án þess að við höfum nokkur mann­leg sam­skipta­merki til að gera grein­ar­mun þar á.

En tæki­færin eru líka óþrjót­andi og eins og með svo margt annað sem tæknin færir okkur verður þessi þróun ekki stöðv­uð, heldur þurfum við að vera með­vituð um hana til að skilja áskor­an­irnar og nýta tæki­fær­in.

Eitt af því sem þar vantar upp á fyrir okkur sem þetta lesum er betri mál­tækni fyrir íslensku. Margt hefur verið gert í nýlegri fimm ára mál­tækni­á­ætlun sem lauk á nýliðnu ári. Áætl­unin var ekki fram­lengd og því útlit fyrir að vinna við íslenska mál­tækni muni snar­minn­ka, en þó marg­vís­leg grunn­vinna enn óunnin og því raun­veru­leg hætta á að íslenskan og við íslensku­mæl­andi munum missa af mörgum þess­ara tæki­færa.

Per­sónu­legri sam­fé­lags­miðlar

Þó marg­vís­legar til­raunir hafi verið gerðar fyrir þann tíma, má með nokkru sanni segja að saga sam­fé­lags­miðl­anna fylli 20 ár á þessu ári, en í haust verða liðin 20 ár frá því að fyrsti sam­fé­lags­mið­ill­inn sem náði umtals­verðri útbreiðslu – MySpace – var settur á lagg­irn­ar.

Það er fróð­legt að skoða þessa sögu og velta fyrir sér hvert hún stefn­ir. Í upp­hafi var það ungt fólk (sem nú er mið­aldra) sem sótti í þessa miðla. Það fylgd­ist með vinum sínum og fólki sem það þekkti í raun­heim­um. Hóp­ur­inn sem fólk fylgd­ist með taldi í tugum eða kannski fáum hund­ruð­um.

Face­book kemur inn í þessa bylgju og fylgir framan af sama mynstri, en smám saman breikkar ald­urs­bil not­end­anna og netið víkkar út í kunn­ingja og fjar­skylda og sam­fé­lög fóru að mynd­ast utan um ákveðin áhuga­mál þar sem fólk mynd­aði ný kynni. Hóp­ur­inn telur nú í hund­ruðum og hjá mörgum yfir þús­und, jafn­vel nokkur þús­und. Við förum að gera grein­ar­mun á vinum og „Face­book-vin­um”. Straum­ur­inn eða „feed”-ið fer líka að velja ofan í okkur það sem það telur að við höfum mestan áhuga á, enda allt of mikið efni í boði og leiðin til að halda okkur við efnið er að passa að við sjáum helst það sem kallar fram við­brögð. Ein leið til þess er að hvetja til sam­skipta og fátt betri olía á þann eld en svo­lítil átök, helst um póli­tík eða sam­fé­lags­mál. Efnið er ekki lengur jafn per­sónu­legt og ein­hvern veg­inn ekki eins gaman að þessu, en fólk ver samt meiri tíma á þessum miðlum en nokkru sinni fyrr. Það er kannski ekki til­viljun að um svipað leyti finna fjöl­miðlar sér far­veg á sam­fé­lags­miðlum og smelli­beitu­blaða­mennska verður að list­grein.

Instagram er síðan besta birt­ing­ar­mynd næstu bylgju. Unga fólkið fer þangað og efnið hverf­ist um mynd­ir, enda öll eru komin með öfl­uga mynda­vél í vas­ann. Not­endur fylgj­ast með fólki sem þau þekkja, en meira og meira af „neysl­unni” fer að snú­ast um að fylgj­ast með fræga fólk­inu og sum verða meira að segja fræg fyrir það eitt að vera fræg á Instagram. Áhrifa­vald­ur­inn er kom­inn til sög­unnar og stór hluti efn­is­ins sem birt­ist á miðl­unum er ekki frá fólki sem við þekkj­um, heldur frá fólki sem við vitum hver eru, annað hvort á lands- eða heims­vísu. Árin líða og sífellt stærri hluti myndefn­is­ins verða mynd­bönd, ekki síst með til­komu Snapchat.

TikTok fer svo með þetta á ákveðna enda­stöð þar sem efnið er allt mynd­bandsefni og þó hægt sé að fylgj­ast með vinum eða til­teknu fólki er straum­ur­inn sér­valið efni úr efn­is­fram­boði tug­millj­óna manna sem algórið­minn veit að mun halda neyt­and­anum við sím­ann sem lengst. Áhrifa­vald­arnir missa stóran spón úr aski sín­um, enda erfitt að keppa um athygl­ina við það fyndnasta, sniðug­asta og yfir­gengi­leg­asta frá öllum þessum stóra hópi þar sem stærsti hluti efn­is­ins er frá fólki sem fær þar sínar „15 mín­útur af frægð” með millj­ónum áhorfa og skilur svo ekk­ert í því af hverju það getur ekki end­ur­tekið leik­inn.

Sam­fé­lags­mið­ill­inn er hættur að snú­ast um sam­fé­lagið og orð­inn að efn­isveitu þar sem allir eru fram­leið­endur og mið­ill­inn velur ofan í okkur efni sem kallar fram hjá okkur við­brögð frá fólki sem við höfum aldrei heyrt á minnst og munum að lík­indum aldrei rekast á aft­ur.

En sam­hliða þessu hefur önnur þróun verið í gangi. Sífellt stærri hluti sam­fé­lags­miðla­notk­unar fer fram í lok­uðum hópum og rým­um. Snapchat var með þeim fyrstu til að átta sig á þessu og lok­aðir hópar og tíma­bundið efni dró til sín not­end­ur. Skila­boða­öpp á borð við WhatsApp og Tel­egram snú­ast öll um hópsam­skipti og meira að segja á miðlum sem áður voru mikið til með opinn aðgang eins og Instagram og Face­book leitar efnið mikið meira í lok­aða prófíla og lok­aða hópa.

Við erum enn að læra að lifa með því frelsi og axla þá ábyrgð sem fylgja því að allir geti verið sinn eigin fjöl­mið­ill. Kannski var það ofmetin hug­mynd til að byrja með? Hún hefur að minnsta kosti ekki bara alið á sam­stöðu, kær­leika og sam­vinnu – þó hún hafi auð­vitað gert það líka.

Það er erfitt að segja til um hvernig þetta lendir nákvæm­lega og lík­lega er ekk­ert eitt svar við því, en það er greini­legt að sam­fé­lags­miðl­arnir stefna í þá átt að verða aftur per­sónu­legri það er að segja stærri hluti efn­is­ins verður aftur frá fólki sem við höfum ein­hver raun­veru­leg tengsl við. Það er ekki ólík­legt að það muni ger­ast að ein­hverju leiti í gegnum nýjar lausn­ir. Twitter stað­geng­ill­inn Mastodon er áhuga­verð til­raun þar, en alltof nör­da­legur til að ná veru­legri útbreiðslu. Kannski ryður hann samt braut­ina fyrir eitt­hvað nýtt og spenn­andi, en við munum líka sjá fyr­ir­liggj­andi miðla sinna þess­ari per­sónu­legu bylgju í meira mæli.

Meta veðjar á sýnd­ar­veru­leik­ann – rétti­lega

Sýnd­ar­veru­leiki er ein þess­ara tækninýj­unga sem er búin að vera rétt handan við hornið mjög lengi. Þó ekki alveg jafn lengi og flug­bíll­inn!

Síðan Oculus Rift kom fram á sjón­ar­sviðið fyrir 10 árum síðan sem fyrsta fram­bæri­lega almenn­ings­græjan á þessum mark­aði, hefur blasað við að einn dag­inn muni útbreiðsla þess­arra tækja verða nokkuð almenn. Spreng­ingin í útbreiðslu þeirra hefur þó látið á sér standa. Þyngsta þrautin hefur reynst að koma nægi­lega miklu reikni­afli til að skapa upp­lifun sem platar skyn­færin fyrir í nógu litlu og léttu tæki til að leyfa fólki að hreyfa sig hindr­un­ar­lít­ið.

Þegar á það skortir verður upp­lifunin ýmist ekki nógu trú­verð­ug, of hamlandi eða – eins og all­margir hafa fengið að reyna – veldur flök­ur­leika og höf­uð­verk. Það er ekki endi­lega eitt­hvað sem fólk sæk­ist eft­ir.

Face­book veðj­aði strax á að þessi tækni ætti eftir að leika stórt hlut­verk og keypti meðal ann­ars fyr­ir­tækið Oculus (fram­leið­anda Oculus Rift) árið 2014 fyrir tvo millj­arða Banda­ríkja­dala. Bestu almennu sýnd­ar­veru­leika­tækin koma enn frá þeim fram­leið­enda, en nokkrir aðrir hafa líka markað spor á mark­aðn­um.

Móð­ur­fyr­ir­tæki Face­book – Meta –vakti á árinu 2022 tals­verða reiði meðal hóps hlut­hafa í tengslum við stefnu sína í sýnd­ar­veru­leika­mál­um. Fyr­ir­tækið hefur barist við nokkurn sam­drátt í fjölda og virkni not­enda á Face­book um hríð og hlut­hafar vildu sjá við­brögð við því. Áætl­unin sem for­stjór­inn, Mark Zucker­berg, kynnti féll samt í nokkuð grýttan jarð­veg, en hann ákvað að marg­falda fjár­fest­ingu Meta í sýnd­ar­veru­leika­tækni og veðja enn sterkar á að fram­tíð fyr­ir­tæk­is­ins lægi þar.

Þetta er ansi djarf­lega spilað og ljóst að þetta mun ekki snúa gæfu Face­book við á skömmum tíma, en til lengri tíma spái ég því að þetta sé heilla­spor fyrir fyr­ir­tæk­ið. Höfum í huga að útbreiðsla sýnd­ar­veru­leika­tækja er nú svipuð og far­síma í kringum árið 1995 og þró­ast með mjög svip­uðum hætti frá ári til árs og sala þeirra tækja gerði þá. Þessi árin hlóum við að fólk­inu sem fannst það þurfa á þessum fárán­legu tækjum að halda en 5 árum seinna voru þau komin í hendur stórs hluta full­orð­inna á vest­ur­löndum og nú í hendur nær hvers ein­asta manns­barns í öllum heim­in­um.

Ég spái því að sýnd­ar­veru­leika­tæki og veru­leika­við­bætur (e. aug­mented rea­lity) munu fara svip­aða leið og stór hluti fólks­ins í kringum okkur muni nota slík tæki dag­lega innan ára­tug­ar.

Alicia Sliverstone í hlutverki sínu sem Cher i myndinni Clueless frá árinu 1995.

Höfum líka í huga að full­komn­ustu sýnd­ar­veru­leika­tæki dags­ins í dag eru þar með sam­bæri­leg að full­komnun á sínu sviði og Nokia 232 far­sím­inn (þessi sem Alicia Sil­ver­stone var með í Clu­el­ess) var 1995. Rúmum ára­tug síðar var iPhone kom­inn á mark­að. Ímyndið ykkur bara hvernig iPhone útgáfan af sýnd­ar­veru­leika­tækjum mun líta út þegar fjórði ára­tugur ald­ar­innar hefst!

Hlut­hafar Meta gætu því orðið him­in­lif­andi með þessa stefnu ef þeir hafa þol­in­mæði til að halda í hlut­ina sína. Það er samt spurn­ing hvort Meta nái að halda for­skoti sínu, eða hvort það eigi eftir að mæta ofjarli sínum líkt og Nokia gerði í Apple. Það er meira að segja spurn­ing hvort ofjarl­inn sá verði einmitt sá sami, enda ganga sögur nú hátt um að Apple ætli sér stóra hluti á sýnd­ar­veru­leika­svið­inu á næst­unni. Við gætum jafn­vel séð hvernig það lítur út þegar á þessu ári.

Tæknispá 2022: Breyttir vinnustaðir, bálkakeðjuæðið og hlutverk Íslands í orkuskiptum

Sem óseðj­andi áhuga­maður um tölvur og tækni hef ég gaman af að reyna að átta mig á mót­andi straumum í tækni­heim­inum á hverjum tíma og ímynda mér svo hvert þeir straumar eru lík­legir til að leiða heim­inn í fram­hald­inu.

Í íslensku sam­hengi eru þrír slíkir straumar mér efst í huga í ár:

  1. Vinnu­staðir eru að breyt­ast og það mun móta borgir og bæi
  2. Bálka­keðju­æðið er að ná hámarki og er mest­megnis bóla
  3. Hugs­an­legt hlut­verk Íslands í grænni tækni og orku­skiptum

1. Vinnu­staðir

Eftir að Covid kenndi heims­byggð­inni allri fjar­vinnu hefur mikið verið rætt um fram­tíð vinnu­staða, það er „skrif­stof­unn­ar” svoköll­uðu, orð sem aðgreinir vinnu­stað þar sem að mestu fer fram í huga, ræðu og riti frá vinnu­stöðum þar sem unnið er með áþreif­an­lega hluti.

Sumir hafa gengið svo langt að spá því að öll skrif­stofu­vinna muni fara fram í fjar­vinnu héðan í frá og þörfin fyrir skrif­stofu­hús­næði muni því sem næst hverfa. Fyr­ir­tæki muni ekki einu sinni hafa höf­uð­stöðv­ar. Aðrir vilja meina að skrif­stofu­lífið muni falla aftur í nákvæm­lega sama farið um leið og aðstæður leyfa.

Ég er ann­ars vegar á því að raun­veru­leik­inn verði – eins og oft­ast – ein­hvers staðar þarna öfganna á milli, en hins vegar á því að stærstu breyt­ing­arnar séu allt aðrar og meiri en þær sem mest er um rætt.

Hvað jafn­vægið milli vinnu á föstum vinnu­stað og í fjar­vinnu varðar er svarið nær örugg­lega meiri fjöl­breytni og meiri sveigj­an­leiki. Í all­mörg ár hafa verið til fyr­ir­tæki sem hafa verið stofn­uð, byggð upp og rekin alger­lega í fjar­vinnu. Sum jafn­vel þannig að sam­starfs­fólk hefur aldrei hist í eigin per­sónu. Manni skilst að það hafi gengið á ýmsu við að finna rétta vinnu­lagið hjá sumum þess­ara fyr­ir­tækja, enda fyr­ir­komu­lagið alveg nýtt af nál­inni og eng­inn reynslu­brunnur sem hægt er að leita í. Önnur fyr­ir­tæki eru byggð upp dreifð en reyna reglu­lega að ná teymum eða starfs­mönnum öllum saman á einn stað. Þetta eru ennþá und­an­tekn­ing­ar, en þessum fyr­ir­tækjum mun fjölga. Svo rað­ast þau fyr­ir­tæki sem halda úti starfs­stöðvum á skal­ann ein­hvers staðar frá því að fjar­vinna sé ráð­andi en fólk komi á skrif­stof­una fáeina daga í viku eða mán­uði, yfir í að vinna á skrif­stof­unni sé venjan en sveigj­an­leiki til að vinna að heiman eftir því sem hent­ar, yfir í hefð­bundna átta-­tíma-á-dag-á-­skrif­stof­unni mód­elið sem margir munu halda sig við.

Til að skilja hvert þetta sé lík­leg­ast að leiða þarf að skoða kost­ina sem fel­ast í hvoru fyr­ir­komu­lag­inu fyrir sig.

Í skap­andi vinnu, eða þéttu teym­is­sam­starfi er þörf á miklum og skil­virkum sam­skipt­um. Standi valið á milli þess ann­ars vegar að slíkt teymi vinni sína vinnu saman í rými þar sem hægt er að horfast í augu, teikna á töflu, horfa á sömu hlut­ina, benda og blaðra og hins vegar að eiga í slíkum sam­skiptum yfir netið mun sam­vinna með sam­veru alltaf hafa yfir­hönd­ina. Boð­leiðir eru stutt­ar, sam­skipti skil­virk og hættan á mis­skiln­ingi minni. Hins vegar er ekki nærri því öll vinna – jafn­vel ekki þó fólk sé hluti af skap­andi teymum – af þessum toga. Stór hluti slíkrar vinnu fer fram með ein­beit­ingu hvers og eins fyrir framan sína vinnu­stöð og slíkri ein­beit­ingu getur verið jafn­gott eða jafn­vel betra að ná heima fyr­ir.

Aðrir kostir fjar­vinnu eru skýr­ir. Þau sem þurfa að ferð­ast lengi til og frá vinnu greiða all­hátt gjald í formi tíma og pen­inga til að kom­ast á vinnu­stað­inn. Eftir því sem minni við­veru er kraf­ist er hægt að leita lengra eftir hæfi­leik­a­ríku starfs­fólki og það er langstærsti kost­ur­inn sem dreifð fyr­ir­tæki búa við. Þau geta ráðið til sín starfs­fólk hvaðan sem er úr heim­in­um, frekar en að ein­skorða sig við sína heima­byggð. Þau fyr­ir­tæki sem þurfa á sér­hæfðu og oft eft­ir­sóttu starfs­fólki að halda geta þannig marg­faldað mögu­leika sína á því að ná til sín hæfu fólki – jafn­vel fram­úr­skar­andi fólki sem býr ekki við mikil tæki­færi í sinni heima­byggð.

Marga aðra kosti og galla hvorrar leiðar fyrir sig mætti nefna, en sá þáttur sem oft­ast verður útundan í þess­ari umræðu er félags­legi þáttur vinn­unn­ar. Þó fólk sé mis­jafn­lega félags­lynt, er stað­reynd að félags­leg sam­skipti eru mann­inum nauð­syn­leg og öll þörfn­umst við þess að eiga í inni­halds­ríkum sam­skiptum við annað fólk, þó í mis­miklum mæli sé. Í fullu starfi ver fólk um þriðj­ungi vöku­stunda sinna við vinnu. Það er veru­legur hluti lífs­ins og sam­skipti við sam­starfs­fólk getur verið stór hluti félags­legra sam­skipta – í raun oft ómissandi hluti vinn­unn­ar. Og þó hægt sé að eiga ágæta fundi og sinna flestum „hörð­um” þáttum vinn­unnar yfir inter­netið er mun erf­ið­ara að mæta mjúku þátt­unum þannig. Fyr­ir­tæki ættu alls ekki að leiða þennan þátt hjá sér. Rann­sóknir sýna (sjá m.a. bók Marissu King – Social Chem­istry) að fólk sem á í góðum per­sónu­legum sam­skiptum við sam­starfs­fólk sitt er ánægð­ara og ólík­legra til að skipta um starf en fólk sem á það ekki. Gott per­sónu­legt sam­band milli starfs­manna eykur skil­virkni sam­skipta og minnkar hætt­una á mis­skiln­ingi, oftúlk­unum og ósætti.

Nú þegar fyr­ir­tæki víða um heim nálg­ast nærri 2 ár af algerri eða nær algerri fjar­vinnu birt­ast afleið­ingar þessa með ýmsum hætti. Starfs­menn hverfa frá störfum sem þeir hefðu síður gert hefðu þeir per­sónu­legar teng­ingar við sam­starfs­fólk sitt og yfir­menn, margir glíma við hug­ræn vanda­mál sem greind eru sem kulnun eða jafn­vel klínískt þung­lyndi og sumum fyr­ir­tækjum hefur reynst erfitt að fá fólk til að mæta aftur á skrif­stofur sínar sem getur svo orðið að víta­hring sem ekki næst að rjúfa og fólkið ein­angrar sig enn meira.

Af þessu dreg ég tvær álykt­an­ir:

  1. Fjöl­breytni í bæði land­fræði­legri upp­setn­ingu fyr­ir­tækja og fjar­vinnu mun halda áfram að aukast
  2. Vinna þarf – meðal ann­ars að upp­fylla þörf­ina fyrir félags­leg sam­skipti

Þörf­inni fyrir félags­leg sam­skipti má auð­vitað að ein­hverju leyti mæta með sam­skiptum við starfs­fólk ann­arra fyr­ir­tækja, til dæmis í sam­vinnu­rýmum (e. Co-work­ing spaces), en vegna áður­nefnds styrks sem felst í traustum sam­skiptum sam­starfs­fólks græða bæði fyr­ir­tæki og starfs­fólk á því að slík sam­skipti eigi sér sem mest stað milli sam­starfs­fólks.

Þannig held ég að hefð­bundnum skrif­stofu­rýmum muni sann­ar­lega fækka. Kost­irnir við það að hafa stórar höf­uð­stöðvar sem rúma hund­ruð, ef ekki þús­undir starfs­manna fara hverf­andi miðað við kost­ina sem fel­ast í því að dreifa þeirri starf­semi og geta sótt starfs­kraft víðs­vegar um heim­inn. En þörfin fyrir vinnu­rými sem nýt­ast allt frá ein­stak­lingum og litlum teymum upp í nokkra tugi starfs­manna mun aukast. Það er reyndar ekki ólík­legt að efri mörk þess­arar stærðar sé ein­hvers staðar í námunda við hina frægu tölu Dun­bars eða í kringum 150.

Af þessum sökum held ég að það sé lík­legt – og raunar má sjá þess merki nú þegar – að í stað þess að ráða staka starfs­menn á víð og dreif um heim­inn reyni fyr­ir­tæki að ráða eitt eða fleiri teymi á hverjum stað. Þetta held ég að muni leiða af sér stórar breyt­ing­ar, ekki bara á fyr­ir­tækjum og fyr­ir­tækja­rekstri heldur á borg­um, bæjum og mann­legu umhverfi hví­vetna. Að því marki sem borgir og bæir hafa keppst við að laða til sín fólk, hefur sú keppni mest snú­ist um hags­muni fyr­ir­tækja – einkum stærri fyr­ir­tækja. Hvar þau borgi sem lægsta skatta, hvar koma megi þeim sem best fyrir í skipu­lag­inu með þeirra hags­muni að leið­ar­ljósi og hvernig tryggja megi þeim nauð­syn­leg aðföng og mann­afla.

Með þann sveigj­an­leika sem að ofan er nefndur mun þetta snú­ast á haus. Valið um búsetu verður æ minna háð því hvar störf eru í boði og mun snú­ast meira um þau lífs­gæði sem eru í boði á svæð­inu – þar á meðal aðgengi að vinnu­að­stöðu fyrir ein­stak­linga og lítil teymi. Til að blómstra þurfa borgir og bæir því að leggja áherslu á mann­vænt umhverfi frekar en fyr­ir­tækja­vænt. Þannig mun fólki sem elst upp í Reykja­vík og lærir og þjálfar sig upp til að stunda þekk­ing­ar­störf standa til boða að búa nán­ast hvar sem er í heim­inum en líka fjöl­breytt störf óháð því hvar það kýs að búa. Þekk­ing­ar­starfs­menn munu smám saman get unnið fyrir hvern sem er en líka hvaðan sem er.

Það verður mjög áhuga­vert að sjá hvernig bæir, borgir og lönd munu mæta þessu nýja umhverfi – og þá í okkar íslenska sam­hengi hvernig Reykja­vík, eða Íslandi í heild mun ganga að halda í, eða jafn­vel draga til sín slíkt fólk.

2. Bálka­keðjur og Bitcoin

Ég hef fjallað um Bitcoin og bálka­keðju­tækni í tækni­spánni áður. Þar á meðal í spánni fyrir árið 2018 sem birt­ist fyrir fjórum árum. Á þessum tíma var Bitcoin nán­ast eini hluti bálka­keðju­heims­ins sem var í umræð­unni og verðið hafði hækkað hratt, sér­stak­lega á síð­ari hluta 2017. Ég tók nokkuð harða afstöðu í spánni og spáði beint út „miklu verð­­falli Bitcoin á árinu 2018.”

Það stóð heima. Á árinu 2018 féll verð Bitcoin úr meira en 15 þús­und doll­urum í byrjun árs­ins í minna en 4 þús­und doll­ara í lok þess. Fall sem nam um 75% og verðið náði í raun ekki aftur sömu hæðum fyrr en í lok árs 2020.

Á árinu 2021 hefur verð á Bitcoin rokkað í kringum 50 þús­und doll­ara. Sveifl­ast allt upp undir 65 þús­und doll­ara niður undir 30 þús­und. Þessi end­ur­koma kemur ekki alveg á óvart, enda fylgdi ég spánni fyrir fjórum árum eftir með þeim orðum að rétt væri að taka fram að „þrátt fyrir spá mína um yfir­­vof­andi hrun á verði Bitcoin á árinu, þá tel ég samt tals­verðar líkur á að myntin muni sanna sig til langs tíma sem nokk­­ur­s­­konar raf­­gull. Það er, sem verð­­mæti (ekki hlæja, málm­­gull er einskis virði heldur í sjálfu sér) sem sjaldan skipta um hendur og litið verður á sem lang­­tíma­fjár­­­fest­ing­u.”

Ég stend við þetta og er reyndar mun viss­ari í minni sök nú en þá um að Bitcoin muni ná og halda þessum sessi sem „raf­gull” og muni til langs tíma hækka í verði. Ekki hlaupa samt upp til handa og fóta og kaupa Bitcoin byggt á þessum spá­dómi því ég þyk­ist líka sjá mjög svipuð bólu­ein­kenni núna og ég sá fyrir fjórum árum og ætla því aftur að spá Bitcoin veru­legu falli á kom­andi ári þó ég trúi því að lang­tímatrendið – sér­stak­lega af þeim botni – verði upp á við.

Fyrst ég er kom­inn í end­ur­vinnslu­ham er rétt að halda bara áfram að vinna með spána frá 2018. En þar sagði: „Hin und­ir­liggj­andi og stór­­merki­­lega „blockchain” tækni er nefn­i­­lega komin til að vera – og ekki bara sem hryggjar­­stykkið í raf­­­mynt­um, heldur alls kyns færslum öðrum, frá lista­verka­við­­skiptum til gagna­mið­l­un­­ar.”

Ég spái því að „web3”-­bólan stefna í harða leið­rétt­ingu á árinu 2022 og að fjár­fest­ing í slíkum fyr­ir­tækjum og verk­efnum muni drag­ast skarpt sam­an. Það verði þannig ekki lengur nóg að veifa „crypto” orð­inu til að sprota­fyr­ir­tæki sé talið álit­legur fjár­fest­inga­kostur og á næstu 2-3 árum muni 95% crypto-­fyr­ir­tækja fara veg for­vera sinna: túlíp­ana, gul­leitar í Vatns­mýri og und­ir­máls­skulda­bréfa.

Það skal tekið fram að þetta er full­kom­lega eðli­leg fram­vinda þegar ný og bylt­ing­ar­kennd tækni kemur fram og á sér hlið­stæðu helst í „dotcom”-­bólunni í kringum síð­ast­liðin alda­mót sem þrátt fyrir allt skap­aði grunn­inn að flestu því sem okkur þykir hvers­dags­legt nú við inter­netið og snjall­síma.

Fjár­fest­ingar í geir­anum munu nú þétt­ast í kringum þær hug­myndir þar sem bálka­keðju­tæknin hefur skýra kosti umfram hefð­bundn­ari lausn­ir. Við­skipta­módel sem byggj­ast á því að vera milli­liður í við­skiptum ein­stak­linga og taka gjald fyrir munu eiga mjög undir högg að sækja eftir því sem greiðslu­miðlun byggð á blockchain ryður sér til rúms þannig að fólk geti með öruggum hætti átt í við­skiptum milli­liða­laust. Þannig held ég að greiðslu­lausnir sem byggja á blockchain muni með tím­anum ógna engu minni aðilum en greiðslu­korta­fyr­ir­tækjum og greiðslu­miðl­un­ar­starf­semi banka og spari­sjóða. 

Mark­aðs­torg munu enn hafa hlut­verki að gegna til að koma á sam­skipt­um, en síður sem milli­liður í við­skipt­unum sjálf­um. Það er því lík­legt að Ebay, Etsy og jafn­vel Amazon muni þurfa að end­ur­skoða starf­semi sína að ein­hverju leyti vegna þessa.

Að síð­ustu held ég að web3 muni gera það auð­veld­ara en nokkru sinni fyrir skap­andi fólk að koma list sinni í verð – allt frá tón­list og mynd­list til alger­lega staf­rænna list­forma svo sem auka­hluta í sýnd­ar­veru­leika­leikjum og „meta­ver­se”-heim­um. Þarna verður kannski mesta nýsköp­unin í þessu öllu sam­an.

En þetta mun nú ekki allt eiga sér stað á einu stuttu ári.

3. Ísland og græna tæknin

Þessi árin herð­ist greini­lega upp­takt­ur­inn í orku­skiptum og grænni tækni. Sumar þjóðir hafa náð mögn­uðum árangri síð­ast­lið­inn ára­tug eða svo og það er farið að hægja veru­lega á vexti í losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda á heims­vísu, en betur má ef duga skal og von­andi sjáum við innan fárra ára að vöxt­ur­inn breyt­ist í sam­drátt og los­unin fari minnk­andi ár frá ári.

Ísland getur spilað hlut­verk þarna, en þó ekki endi­lega það sem póli­tíkusar hafa talað hæst um síð­ustu mán­uði.

Það hefur verið áhuga­vert að sjá hvernig fólk sem jafn­vel opin­ber­lega efað­ist um lofts­lags­breyt­ingar af manna­völdum virð­ist nú séð ljósið í þeim efn­um, en túlkar það þá sem svo að fram­lag okkar Íslend­inga eigi að vera að auka orku­fram­leiðslu til stór­iðju og koma þannig í veg fyrir sam­bæri­lega fram­leiðslu með óend­ur­nýt­an­legri orku erlend­is.

Vand­inn liggur bara ekki að það sé skortur á grænni orku í heim­in­um, heldur í því hversu mis­dreifð hún er um heim­inn og hversu erfitt er að flytja hana. Sem dæmi um það hversu gnótt er af henni gæti 150×150 km sól­ar­sellu­reitur í Sahara upp­fyllt alla orku­þörf heims­ins.

Ástæður þess að stór­iðja (þar sem álvinnsla er langorku­frekasta vinnslan sem fram fer í miklu magni) er enn að keyra á kolum og jarð­gasi eru að miklu leyti geopóli­tísk­ar. Kín­verjar eiga ekki nógar grænar orku­lindir og jarð­gas fellur „ókeypis” til við olíu­vinnslu og nýt­ist ekki í ann­að. Þann vanda leysa Íslend­ingar ekki.

Þess í stað á Ísland stórt tæki­færi í því að verða fyr­ir­mynd og til­rauna­stofa í orku­skiptum og grænni tækni­þró­un. Hátt hlut­fall end­ur­nýj­an­legrar orku hér á landi er þegar eitt­hvað sem vekur verð­skuld­aða athygli. Verk­efni á borð við Car­bfix og Orca hafa sett Ísland hvað efst á list­ann þegar kemur að til­raunum til þess að bein­línis fjar­lægja koltví­sýr­ing úr and­rúms­loft­in­u. 

Fyrst og fremst fel­ast verð­mætin samt í því að setja metn­að­ar­full mark­mið um orku­skipti og að verða sann­ar­lega fyrsta sam­fé­lagið sem er óháð jarð­efna­elds­neyti. Þannig verða til marg­falt meiri verð­mæti í formi þekk­ing­ar, nýsköp­unar og sam­starfs við leið­andi fyr­ir­tæki á sviði grænna orku­gjafa. Sú þekk­ing getur síðan nýst um allan heim og skapað stór og merki­leg tækni- og þekk­ing­ar­fyr­ir­tæki sem eiga sér nátt­úru­legt heim­ili á Íslandi.

Frum­kvöð­ull­inn Davíð Helga­son er einn þeirra sem hefur bent hefur á þessi tæki­færi og er að fylgja þeim eftir með metn­að­ar­fullum hætti. Við munum án efa heyra meira af því á árinu.

Af mörgu öðru að taka

Það væri hægt að taka margt annað fyr­ir. Ég minnt­ist í fram­hjá­hlaupi á „meta­ver­se”-ið hér að ofan. Þetta er í sjálfu sér bara fram­hald af þeirri þróun sem verið hefur í gangi í kringum sýnd­ar­veru­leika (VR) og við­bættan veru­leika (AR) und­an­far­inn ára­tug, en þarna munu hlutir halda áfram að ger­ast – hægt og rólega.

Vís­inda­miðlun er mér líka ofar­lega í huga, enda hefur Covid verið enn ein áminn­ing þess hve ein­föld en mis­vísandi skila­boð eiga mikið auð­veld­ara með að kom­ast í dreif­ingu en besta vís­inda­lega þekk­ing á hverjum tíma með öllum sínum núöns­um, fyr­ir­vörum og breyti­leika. Þarna er ótrú­lega spenn­andi svið á mörkum sál­fræði og upp­lýs­inga­tækni sem ég væri spenntur að sjá meiri þróun í.

Sjáum hvert þetta fer allt sam­an. Gleði­legt tækniár 2022!

Tæknispá 2021: Þrír sterkir straumar

Um ára­mót hef ég oft gert mér að leik að horfa til kom­andi árs og reynt að spá í hvað það kunni að bera með sér á vett­vangi tækn­inn­ar. Í fyrra horfði ég reyndar lengra og velti fyrir mér hvað kom­andi ára­tugur kynni að bera með sér. Sjáum hvernig það fer.

Í þetta sinn ætla ég hins vegar að horfa á yfir­stand­andi þróun í fáeinum mála­flokkum og hvert þeir straumar gætu leitt okk­ur.

Mynda­vélin er sterk­ari en sverðið

Sú yfir­burða­staða sem ritað mál hefur haft í sam­skiptum og þekk­ing­ar­miðlun síð­ustu ald­irnar er á und­an­haldi og mynd­málið er hratt að taka við sem mik­il­virkasta miðl­un­ar­leið­in.

Vin­sældir fyrst YouTu­be, en svo Instagram, Snapchat, TikTok og svo nú síð­ast „sagna“ (stor­ies) í nán­ast hverju ein­asta sam­skipta­for­riti bera þessu vott. Umbreyt­ingin verður enn skýr­ari þegar horft er til þess hvernig notkun þess­arra miðla er eftir aldri. Ungt fólk not­ast nær ein­göngu við mynd­mál­ið, meðan eldra fólkið er það sem enn heldur sig að miklu leyti við text­ann.

Lynd­is­tákn (e. emot­icon) og GIF-­myndir í sam­skiptum eru annað merki um þessa þró­un. Og þó þeim sé oft beitt í bland við texta segir tákn með apa sem heldur fyrir augun eða þekkt mynd­brot úr bíó­mynd oft meira en mörg orð.

Með þessu er ég ekki að segja að tími text­ans sé lið­inn. En með til­komu öfl­ugrar mynda­vélar í vasa hvers manns og hindr­un­ar­lausa mögu­leika til dreif­ingar á hverskyns efni er mann­kynið hratt að til­einka sér fjöl­breytt­ari tján­ing­ar- og sam­skipta­máta.

Í sann­leika sagt er það fólki mun eðl­is­læg­ara að sýna, segja frá og sjá, en að færa hugs­anir sínar í rituð orð og lesa. Fyrir tíma prents­ins og raunar löngu eftir að það var komið fram voru frá­sagnir augliti til auglitis meg­in­að­ferðin til upp­lýs­inga­miðl­un­ar. Aðgangur að prent­uðum upp­lýs­ingum – og lestr­ar­kunn­átta – hefur ekki verið almenn nema rétt síð­ustu 50-200 árin (eftir því hvar í heim­inum er) og það eru innan við 20 ár síðan inter­netið færði hverjum manni mögu­leika á því að setja fram og miðla rit­uðum skoð­unum sínum hindr­un­ar­laust um stóran hluta heims­ins.

Nú þarf ekki annað en bregða upp sím­anum til að sýna heim­inum og segja frá því sem fyrir augu ber. Text­inn er í mörgum til­fellum orð­inn óþarft – og jafn­vel hamlandi – milli­skref.

Það er erfitt að átta sig á því hvert þessi þróun mun leiða, en rétt eins og með aðra þunga strauma tím­ans þurfum við að átta okkur á þeim og aðlag­ast. Við eigum senni­lega ekki að slaka á í lestr­ar­kennslu, en kannski ætti ekki síður að auka áherslu á aðra miðl­un? Kannski ættum við sem eldri erum að til­einka okkur mynd­málið meira og hrað­ar?

Ég er ekki til­bú­inn að slá föstu að svo sé, en er raun­veru­legur mögu­leiki að sagan leiði í ljós að almenn þekk­ing á lestri og ritun verði bara 100-200 ára and­ar­tak í sög­unn­i?! 🤷

Fram­tíð skrif­stof­unnar

2020 leiddi okkur í sann­inn um að margt er hægt að gera öðru­vísi en áður. Eitt af því er að með aðstoð tækn­innar má vinna mörg þau verk­efni að heiman (eða hvaðan sem er) sem áður voru unnin á vinnu­stöð­um. Þetta var holl lexía og margir sem þurftu að læra mikið og hratt.

Ég hef hins vegar enga trú á því að skrif­stofan sé dauð (með til­liti til fyrsta spá­dóms­ins er orðið „skrif­stofa“ þá kannski ekki rétt­nefni lengur – við komum ekki þangað til að skrifa – heldur til að eiga í sam­skipt­u­m). Hópa­starf og þá sér­stak­lega skap­andi vinna er þess eðlis að við þurfum á öllum til­tækum með­ulum að halda til að sam­skiptin verði sem best og lipr­ust. Við slíka vinnu er ekk­ert sem kemur í stað beinna sam­skipta með aðgangi að teiknitöflu, sam­eig­in­legum skjá, skrif­færum og sam­veru.

Sömu­leiðis eru þau sam­skipti sem verða á milli sam­starfs­fólks þegar það hitt­ist fyrir til­viljun á göng­un­um, sér yfir öxl­ina á hvert öðru í hverju er verið að vinna, eða heyrir á spjall ann­arra við úrlausn verk­efna sinna ómet­an­leg – og eitt­hvað sem ekki verður end­ur­skapað þegar hver vinnur á sínum stað í sínu horni.

Mik­il­væg­asti þátt­ur­inn er síðan sá að til að sam­vinna skili árangri þarf sam­starfs­fólkið að þekkj­ast og treysta hvert öðru. Kunn­ings­skap­ur, traust og skiln­ingur skap­ast við bein sam­skipti og ekk­ert sem kemur í stað þeirra.

Það er hægt að búa til frá­bær fyr­ir­tæki þar sem allir vinna fjar­vinnu – og það hefur verið gert. Í hug­bún­að­ar­geir­anum hafa fyr­ir­tæki eins og Autom­attic (fram­leið­endur WordPress), InVision og Zapier byggt upp alger­lega dreifða vinnu­staði. En vegna alls þess sem sagt hefur verið hér að ofan mun fyr­ir­tæki sem á auð­velt með að koma starfs­fólki saman í eigin per­sónu að öðru jöfnu ganga betur en fyr­ir­tæki sem vinnur dreift.

En við höfum líka séð að við rétt skil­yrði er margt sem gengur vel – og sumt jafn­vel betur – þegar hver og einn starfs­maður getur ein­beitt sér að sínu, vinn­andi að heim­an.

Saman held ég að þessar lex­íur eigi eftir að breyta vinnu­stöðum og vinnu­menn­ingu. Skrif­stofan er ekki dauð, heldur mun hún breyt­ast. Fyr­ir­tæki munu finna leiðir til besta þessa blöndu. Meira frelsi til að vinna heima þegar við á, jafn­vel heilir dagar þar sem allir vinna að heiman – en skrif­stofan að sama skapi útbúin til að ýta undir skap­andi vinnu og hópa­starf. Rými fyrir mis­stóra hópa til að vinna saman í lengri eða skemmri tíma. Rými til ein­beit­ingar þegar við á. Vinnu­rými í almenn­ingi nálægt kaffi­vél­inni og kæl­inum þegar unnið er í verk­efnum sem ekki krefj­ast ein­beit­ing­ar. Áhersla á fram­úr­skar­andi netteng­ingar og mynda­vélar til að liðka fyrir fjar­fund­um. Og meiri áhersla á sam­still­ingu og kunn­ings­kap innan hóps­ins með við­eig­andi vinnu­stofum og slíku.

Fyr­ir­tæki munu líka – og ættu – í auknum mæli taka þátt í að útbúa starfs­fólki sínu fram­úr­skar­andi vinnu­að­stöðu heima fyr­ir.

2020 mun ekki leiða til þess að við munum öll fara að vinna að heim­an. Raunar munum við þurfa að hafa fyrir því að halda í þær breyt­ingar sem voru af hinu góða, en hjá þeim sem gera það mun það sem við lærðum árið 2020 leiða til þess að við munum vinna öðru­vísi – og bet­ur.

Íslenska sprota­vorið

Það er ekki hægt að skilja við tækni­spá þessa árs án þess að minn­ast á íslenska sprota­vor­ið. Það er nefni­lega eitt­hvað magnað að ger­ast í íslenskri nýsköp­un.

Árið 2020 var þrátt fyrir allar Covid-hindr­anir – og kannski að ein­hverju leiti vegna þeirra – ein­stakt þegar kom að fjár­fest­ingu og vexti íslenskra sprota­fyr­ir­tækja. Fjöl­mörg fyr­ir­tæki sóttu sér mikið fjár­magn til upp­bygg­ingar og vaxt­ar. Má þar nefna ControlantSidekick HealthKer­ecisLucinityMain­frame og það fyr­ir­tæki sem ég stend að ásamt fleirum – GRID. Þar að auki var fyr­ir­tækið Unity, sem hefur sterkar teng­ingar við Ísland í gegnum stofn­and­ann Davíð Helga­son, skráð á Nas­daq-­mark­að­inn með látum og er, ásamt Spoti­fy, lík­lega verð­mætasta tækni­fyr­ir­tæki sem stofnað hefur verið á Norð­ur­löndum síð­ustu ára­tug­ina.

Þrátt fyrir að óvíst sé að öll þessi fyr­ir­tæki gangi upp, þá er þessi þróun ómet­an­leg. Hingað er að koma umtals­vert fjár­magn og mikil þekk­ing erlendis frá í gegnum fjár­festa og aðstand­endur þess­arra fyr­ir­tækja. Íslenskir fjár­fest­ar, sjóðir og stofn­endur eru að fær­ast nær mark­miðum sínum og sumir hafa þegar inn­leyst veru­legan hagnað af sínum fjár­fest­ingum og þátt­töku. Hér er að verða til virki­lega öflug nýsköp­un­ar-„­sena” og óháð gegni ein­stakra fyr­ir­tækja munu þessi verð­mæti sitja eft­ir.

Það verður fljót­lega hægt að telja upp fleira en Öss­ur, Marel og CCP þegar tínd eru til þau fyr­ir­tæki sem hafa gengið upp og hátækni­geir­inn mun með tíð og tíma mynda lang­þráðar nýjar stoðir undir íslenskt efna­hags­líf. Það verður mik­ill og merki­legur áfangi.

Gleði­legt nýtt tækni­ár!

Tæknispá 2020: Komandi áratugur

Um ára­bil hef ég gert mér það að leik um ára­mót að spá fyrir um það sem væri lík­legt til að vera efst á baugi í tækni­málum á kom­andi ári. Það hefur gengið mis­jafn­lega. Ég spáði því til dæmis að árið 2008 myndi Nova leggja af slag­orðið „Stærsti skemmti­staður í heimi”. 12 árum seinna er þetta enn slag­orð fyr­ir­tæk­is­ins – og virð­ist síst á förum! Sama ár vakti ég athygli á „til­tölu­lega óþekktum armi íslensku banka­út­rás­ar­inn­ar” undir vöru­merkj­unum Kaupt­hing Edge og Ices­ave og að bank­arnir myndu leggja aukna áherslu á þá. Stundum á maður kannski bara að hafa sig hægan!

Ég spáði því líka 2009 að netið og þá sér­stak­lega sam­fé­lags­miðlar myndu leika stórt hlut­verk í kom­andi kosn­inga­her­ferð­um, 2010 að vélabú (sem mér finnst enn betra orð en gagna­ver) ættu eftir að verða umtals­verður iðn­aður á Íslandi og 2014 að Face­book ætti eftir að teygja sig inn á sífellt fleiri svið mann­legrar til­veru. Allt spár sem eru svo aug­ljós­lega réttar núna að það er furðu­legt að hugsa til þess að þeir hafi á því hafi ein­hvern tím­ann verið vafi.

Reyndar eiga margir spá­dómanna það sam­eig­in­legt að hafa komið fram, en þó kannski ekki endi­lega á því ári sem þeir voru settir fram. Það rímar ágæt­lega við það sem sagt er að þegar kemur að tækni­breyt­ingum ofmetum við tækni­fólkið það sem ger­ist á 2 árum en van­metum það sem getur gerst á 10.

Mér datt því í hug í þetta sinn að horfa lengra og víðar og velta fyrir mér hvaða breyt­ingar sé lík­legt að við sjáum á næsta ára­tug, frekar en að ein­blína bara á kom­andi ár. Ég reyni líka frekar að horfa til stórra breyt­inga sem lík­legar eru til að móta líf okkar og sam­fé­lag í heild frekar en ein­stakar tækni­breyt­ing­ar. Dembum okkur í þetta.

Umhverf­is­mál

Stóru áskor­anir kom­andi ára­tugs snúa að umhverf­is­mál­um, og þá sér­stak­lega því að draga úr losun koltví­sýr­ings. Tæknin mun þar leika stórt hlut­verk. Einn af lyklunum í þeirri bar­áttu er betri raf­hlöðu­tækni: Létt­ari raf­hlöður sem end­ast lengur og geyma meiri orku. Þarna eru að verða stór­stígar fram­far­ir. Það þarf ekki að líta lengra en á götur mið­borg­ar­innar í Reykja­vík síð­ustu 1-2 árin til að sjá hvaða áhrif slíkt getur haft á sam­göngu­mál. Raf­hjól, raf­skutl­ur, raf­skútur og allskyns „örflæði” sem auð­veldar fólki að kom­ast á milli staða. Slíkum kostum á bara eftir að fjölga og munu á kom­andi ára­tug hafa áhrif ekki bara á ásýnd, heldur bein­línis hönnun og upp­bygg­ingu mið­borg­ar­svæða og nær­liggj­andi hverfa.

En það eru ekki bara litlu tækin sem bætt raf­hlöðu­tækni er að snar­breyta. Raf­magns­bílum fer ört fjölg­andi og eru orðnir raun­veru­legur val­kostur við þá sem not­ast við sprengi­hreyfla. Jafn­vel án sér­stakra hvata verða raf­magns­bílar orðnir í meiri­hluta seldra bíla undir lok ára­tug­ar­ins, enda þá bæði ódýr­ari í fram­leiðslu og marg­falt ein­fald­ari í við­haldi og „upp­færslu” en bílar sem ganga fyrir jarð­efna­elds­neyti. Þarna er Ísland raunar í dauða­færi og það má alveg sjá fyrir sér að fram­sýn stjórn­völd muni beita sér – hvort heldur með gul­rót eða priki – fyrir því að auka hlut­deild raf­magns­bíla miklu hrað­ar. Í raun felst eina raun­veru­lega tæki­færi Íslands til að ná skuld­bundnum mark­miðum Par­ís­ar­sam­komu­lags­ins í því að tryggja að bíla­flot­inn verði orð­inn raf­væddur að nær öllu leyti fyrir 2030.

Og bætt raf­hlöðu­tækni skiptir máli í enn stærra sam­hengi. Það er nefni­lega eng­inn skortur á umhverf­is­vænum leiðum til að fram­leiða ódýra orku, einkum með sól­ar- og vind­orku. Vand­inn felst í því að geyma og flytja þessa orku. Hér á landi er þetta reyndar ekki vanda­mál þar sem slíka orku má „geyma” í stórum uppi­stöðu­lónum (vind­orku þá, ekki förum við í sól­ar­orku­fram­leiðslu næsta ára­tug­inn :). Ann­ars staðar er þetta gríð­ar­legt vanda­mál. Ástr­ali skortir til að mynda ekki sól­ar­orku, en til að geta nýtt hana til almennra nota allan sól­ar­hring­inn þarf að geyma ork­una sem fram­leidd er á dag­inn til að geta miðlað þegar sól­ar­innar nýtur ekki við. Stórar raf­hlöður munu svara þess­ari þörf að ein­hverju leyti, en eins gætu komið fram aðrar nýstár­legar leiðir til orku­varð­veislu og þar með ger­bylta sam­keppn­is­hæfni sól­ar- og vind­orku­vera við þau sem knúin eru jarð­efna­elds­neyti.

Að lokum er svo rétt að nefna kjarn­ork­una sem mun koma til baka með ein­hverjum hætti á kom­andi ára­tug og menn hefja bygg­ingu á nýstár­legum kjarn­orku­ver­um. Reyndar er tals­verð upp­bygg­ing á slíkum nú þeg­ar, en nær ein­göngu utan Vest­ur­landa.

Ég hall­ast mjög að kenn­ingum um það að brennsla á jarð­efna­elds­neyti geti fallið mjög skyndi­lega þegar réttar aðstæður mynd­ast. Um leið og fram­leiðsla og dreif­ing á orku sem fram­leidd er með öðrum hætti verður sam­keppn­is­hæf í verði, hverfur hvat­inn til áfram­hald­andi vinnslu. Í raun er það svo að um leið og sú fram­tíð er fyr­ir­sjá­an­leg mun fjár­streymi flytj­ast úr jarð­efna­elds­neyt­is­geir­anum í nýja orku­tækni. Til eru grein­ing­ar­að­ilar sem telja jafn­vel að þetta hafi þegar gerst árið 2019. Í öllu falli verður þessi tækni og inn­viðir þróuð á næstu 10 árum og mér finnst lík­legt að við verðum nálægt þessum vendi­punkti (e. „tipp­ing poin­t”) í raf­orku­fram­leiðslu eftir um það bil 10 ár.

Það ógn­væn­lega við þessa – ann­ars afar jákvæðu – þróun er að þetta mun stór­lega riðla valda­jafn­væg­inu í heim­inum og hætt við að það geti haft alvar­lega afleið­ingar í alþjóða­póli­tík. Í öllu falli verða svona breyt­ingar ekki hljóð­lega!

Mat­væli

Það hefur lík­lega ekki farið fram hjá neinum að matar­æði er að breyt­ast hratt. Í stuttu máli má draga þá sam­fé­lags­legu breyt­ingu saman með setn­ingu sem sett var fram í frægri heilsu­bók fyrir all­nokkrum árum: „Borðið (al­vöru) mat, ekki of mik­ið, mest græn­met­i.” Bæði er þarna um að ræða kyn­slóða­mun, þar sem yngstu kyn­slóð­irnar hall­ast mjög í þessa átt, en sömu­leiðis er ein­hver breyt­ing meðal þeirra sem eldri eru. Það fyrr­nefnda hefur samt miklu meiri áhrif hér. Á næsta ára­tug munu – eðli máls­ins sam­kvæmt – vaxa úr grasi 10 árgangar af fólki sem full ástæða er til að ætla að muni halda áfram á þess­ari braut, og árgangar sem fylgja eldri neyslu­mynstrum minnka og hverfa.

Mat­væla­fram­leiðsla mun líka breyt­ast. Aukin eft­ir­spurn eftir mat­vælum sem ljóstil­lífa og minni eftir kjöti (sem er alið á mat sem ljóstil­líf­ar) snar­breytir og minnkar land­notkun til mat­væla­fram­leiðslu. Á sama tíma er að koma fram tækni og aðferðir sem gerir það að verkum að hægt er að fram­leiða græn­meti á miklu færri fer­metrum og miklu nær neyt­end­unum en áður hefur ver­ið, jafn­vel inni í og inn á milli borg­ar­byggð­ar. Hvort tveggja dregur auð­vitað enn frekar úr umhverf­is­fótspor­inu.

Fyrir þau okkar sem sjá svo kannski ekki fyrir okkur að hætta alveg í kjöt­inu – og þeim sem leiða ekki einu sinni hug­ann að þessum málum er sömu­leiðis að koma fram tækni til að rækta kjöt og annan mat sem lík­ist því sem kyn­slóð­irnar á undan okkur ólust upp við, með allt öðrum hætti en hingað til hefur ver­ið. Hér er bein­línis átt við ræktun á kjöti án þess að lif­andi dýr – í nokkrum hefð­bundnum skiln­ingi – komi þar við sögu. Þessi tækni þró­ast hratt þessi miss­erin og slíkt kjöt verður komið í almenna dreif­ingu innan 10 ára, þó það muni sjálf­sagt á þeim tíma frekar keppa við ham­borg­ara og kjúklinga­bringur en safa­ríkar hátíð­ar­steik­ur. En þar liggur jú „massinn”. Þetta mun hafa gríð­ar­leg áhrif.

Námu­vinnsla

Loks er ljóst að á næsta ára­tugnum mun hefj­ast námu­vinnsla á tveimur svæðum sem hingað til hafa verið lítt könn­uð: Í geimnum og á hafs­botni.

Námu­vinnsla í geimnum er gríð­ar­lega spenn­andi, og þar gæti lausnin legið við marg­vís­legum umhverf­is­vanda sem fylgir námu­vinnslu á jörðu niðri. Til­kostn­að­ur­inn er auð­vitað ærinn og það kostar sitt að koma nauð­syn­legum bún­aði „upp”, en eftir það er sjálf náma­vinnslan til­tölu­lega sjálf­bær um orku og önnur aðföng, sér­stak­lega eftir að ljóst er að vatn finnst mun víðar í geimnum en talið hafði ver­ið. Það er svo miklu ódýr­ara að koma afurð­unum – einkum sjald­gæfari málmum og jarð­efnum – aftur „nið­ur”. Hér er þó rétt að taka fram að þróun á þessu sviði tekur gríð­ar­lega langan tíma og því ekki að búast við öðru en und­ir­bún­ingi og ein­hverri til­rauna­starf­semi á litlum skala næstu 10 árin.

Mun nær­tæk­ari – og mögu­lega ógn­væn­legri – er sú þróun að á næstu árum mun stór­felld náma­vinnsla á hafs­botni hefj­ast. Alþjóða­lög­gjöf um slíka starf­semi er í mótun og því miður er allt útlit fyrir að hér verði farið af stað af miklu kappi og marg­falt minni for­sjá. Enda eftir miklu að slægj­ast. Heilt yfir má búast við að jafn mikið – ef ekki meira – af nem­an­legum efnum megi finna undir yfir­borði sjávar og ofan þess. Úrgangur og afgangs­efni geta hins vegar borist miklu lengra og víðar og haft áhrif á hluta líf­rík­is­ins sem hingað til hafa verið svo gott sem ósnortnir af til­veru manns­ins. Hlutum þess sem við þekkjum raunar og skiljum aðeins að mjög litlu leyti. Ætla má að þetta sé svið þar sem hags­munir Íslands eru miklir og rétt að fylgj­ast með af athygli.

Mann­legu hliðar tækn­innar

Tækni­fram­farir síð­ustu ára­tuga hafa heilt yfir fært okkur gríð­ar­leg lífs­gæði, en henni hafa líka fylgt skugga­hlið­ar. Þar á meðal eru fals­frétt­ir, marg­vís­leg ógn við frið­helgi einka­lífs­ins, berg­máls­hell­ar, örygg­is­vanda­mál, staf­ræn mis­munun og van­líðan vegna óraun­hæfs sam­an­burðar við glans­mynda­líf ann­arra.

Flest stafa þessi vanda­mál af því að við – bæði sem ein­stak­lingar og sam­fé­lag – erum enn að læra að höndla og skilja þessar nýj­ustu tækni­breyt­ingar til fulls. Ég er full­viss um að marg­vís­legum árangri verður náð á þessu sviði á kom­andi ára­tug.

Vanda­málið við fals­fréttir leyfi ég mér að segja að verði úr sög­unni innan 10 ára. Lausnin felst lík­lega í „sí­un” svip­aðri þeirri sem svo gott sem útrýmdi rusl­pósti úr lífi okkar fyrr á þess­ari öld. Í boði verður bún­aður – sem lík­lega mun fyrr en síðar verða stað­al­bún­aður í vöfrum – sem merkir tengla á fals­fréttir með skýrum hætti og forðar fólki þannig frá því að smella á þá óaf­vit­andi. Seinna mun þykja sjálf­sagt að fela slíkt efni alger­lega, rétt eins og rusl­póstur fær ekki að birt­ast í póst­hólfum flestra okk­ar. Djúp­fölsuð (e. „deepfa­ke”) vídeó munu fara sömu leið, enda hug­bún­aður sem þekkir slíkt efni í örri þróun og raunar þegar til.

Svip­aðar lausnir má sjá fyrir sér að verði not­aðar til að fjar­lægja og þannig draga úr áhrifum eitr­aðra athuga­semda og umræðu á helstu sam­fé­lags­miðlum og í athuga­semda­kerf­um. Tröllin á inter­net­inu munu þannig eiga undir högg að sækja á hinu almenna inter­neti á kom­andi ára­tug.

Þegar kemur að per­sónu­vernd og örygg­is­málum spái ég því að eitt­hvert stór­fyr­ir­tækið muni reyna að marka sér sér­stöðu með því að taka þessi mál alvar­lega. Þarna eru úti­lokuð fyr­ir­tæki sem eru þegar með of laskað orð­spor á þessu sviði. Það á sann­ar­lega við um Face­book, en lík­lega bæði Google og Microsoft líka. Apple er í raun lík­leg­ast til að láta til skarar skríða hér, og ég spái því að næsta stóra fram­rás Apple verði á sviði per­sónu­verndar og örygg­is­mála frekar en á formi nýrrar vöru­línu af tækni­bún­aði. Orð­spor fyr­ir­tæk­is­ins er þegar ágætt á þessu sviði, eitt allra stór­fyr­ir­tækj­anna í tækni­geir­anum hafa þau ekki lagst í nýt­ingu per­sónu­upp­lýs­inga til tekju­öfl­unar og raunar tekið ágæt skref í þá átt að vera í „liði með neyt­and­an­um” þegar kemur að stjórnun á skjá­tíma og aðgangi að upp­lýs­ing­um.

Skiln­ingur almenn­ings á þessum málum mun líka aukast og reglu­verk opin­berra aðila halda áfram að styrkj­ast. Það má ímynda sér að horft verði til baka á þennan tíma óheftrar söfn­unar per­sónu­upp­lýs­inga með svip­uðum hætti og þess tíma þegar það þótti í góðu lagi í byrjun síð­ustu aldar að fyr­ir­tæki næðu og verðu ein­ok­un­ar­stöðu á mark­aði. Og kannski verða lausn­irnar ekki ósvip­að­ar: Upp­skipt­ing fyr­ir­tækja, strang­ara reglu­verk og meira eft­ir­lit.

Stærsta við­fangs­efni „mann­legu hlið­ar­inn­ar” er þó án efa sú röskun á vinnu og eft­ir­spurnar á vinnu­afli og hæfi­leikum sem er að verða sam­hliða fjórðu iðn­bylt­ing­unni. Hug­takið sjálft er reyndar orðið útjaskað, en í mínum huga þýðir það einkum þetta: verk­efni sem áður voru í mann­legum höndum en verða ýmist óþörf eða leyst með sjálf­virkum bún­aði vegna tækni­breyt­inga.

Heilt yfir er þetta auð­vitað stór­kost­legt tæki­færi. Eftir því sem vélar og hug­bún­aður leysa meira af því sem leysa þarf losnar tími fyrir okkur til að sinna verk­efnum sem ekki hafa fengið næga athygli hingað til: Umönn­un, félags­störf­um, kennslu, menn­ingu, fræði­störf­um, vís­ind­um, nýsköpun og svo fram­veg­is. Vand­inn felst í því að tryggja sam­fé­lags­gerð þar sem ann­ars vegar fólk í störfum og með kunn­áttu sem verður „óþörf” hefur tæki­færi til að þjálfa sig og finna á nýjum svið­um; og hins vegar í því að verð­mætin sem skap­ast við þessar breyt­ingar lendi ekki bara í höndum fárra, heldur nái sam­fé­lagið allt að njóta góðs af. Rétt eins og fyrri iðn­bylt­ingar leiddu af sér marg­vís­leg vel­ferð­ar- og sam­fé­lags­kerfi mun þessi kalla á breyt­ingar á núver­andi kerfum og inn­leið­ingu nýrra.

Fjár­tækni

Við hlið umhverf­is­mál­anna og mann­legu þátt­anna er ef til vill svo­lítið skrítið að gera fjár­tækni nán­ast jafn hátt undir höfði í svona pistli. Og svo það sé skýrt, þá legg ég þessa hluti alls ekki að jöfnu.

Það er hins vegar svo að fjár­mála­geir­inn, geiri sem er bráð­nauð­syn­legur sem stoð- og þjón­ustu­geiri við allt annað sem gert er, hefur á und­an­förnum ára­tugum vaxið sam­fé­lag­inu yfir höf­uð. Þannig tekur þessi þjón­ustu­geiri nú til dags til sín allt að þriðj­ungi alls sam­an­lagðs hagn­aðar fyr­ir­tækja! Það þarf ansi kok­hraustan fjár­mála­mann (eins og þeir séu til 🙂 til að halda því fram að slíkt sé rétt­læt­an­legt. Og núna eru að verða gríð­ar­lega miklar svipt­ingar í þessum geira í sam­spili breyt­inga á tækni og reglu­verki. Það mun ekki ger­ast hljóða­laust.

Í fyrsta lagi hafa verið gerðar breyt­ingar á reglu­verki sem eru lík­legar til að leiða af sér mikið upp­brot á almennum banka­mark­aði. Fjöldi nýrra aðila, ekki síst tækni­fyr­ir­tækja fær þar með tæki­færi til nýsköp­unar og breyt­inga. Þarna skap­ast mikil tæki­færi fyrir nýja aðila, en það er ekki bara her lít­illa Dav­íða sem mun herja á Gol­í­ata bransans, heldur ætla stóru tækni­fyr­ir­tækin sér líka sneið af þess­ari köku. Eins og á svo mörgum öðrum sviðum verður þessi geiri lík­lega að tals­verðu leyti mót­aður af því hvaða nálgun Amazon, Goog­le, Face­book, Microsoft og Apple taka. Margar þess­ara lausna eru líka lík­legar til að verða í boði þvert á landa­mæri og jafn­vel ein­hverjar yfir heims­byggð­ina alla, meðan hingað til hefur fjár­mála­starf­semi – einkum hefð­bundin banka­starf­semi – verið til­tölu­lega bundin við hvert þjóð­ríki fyrir sig. Það er alls ekki frá­leitt að eftir 10 ár verði jafn­margir hér á landi í bankavið­skiptum við Amazon og taki við greiðslum með Face­book eins og í dag eru í banka­við­skiptum hjá Íslands­banka og fá milli­færslur með Aur.

Bálka­keðju­tæknin (e. block chain) mun líka hafa áhrif hér. Ég er reyndar tals­vert meiri efa­semda­maður um erindi þess­arar tækni á öll svið mann­legrar til­veru en margir í tækni­geir­anum virð­ast vera, og tel að flestar „X á bálka­keðj­um” hug­myndir – þar sem „X” er nær hvaða app, hug­bún­aður eða þjón­usta sem vera skal – séu slæmar hug­myndir og í raun verið að boða lausnir sem séu verri, dýr­ari og flókn­ari í smíðum en hefð­bundn­ari nálg­un. Það eru hins vegar svið þar sem þessi tækni á sann­ar­lega erindi og mun breyta miklu. Fjár­tæknin er þar efst á blaði.

Ann­ars vegar er ég sann­færður um að Bitcoin og ef til vill 1-3 aðrar bálka­keðju­myntir séu komnar til að vera og muni leika stór­aukið hlut­verk í við­skiptum í fram­tíð­inni. Ástæðan er furðu­leg, en sú sama og veldur því að gull er verð­mætt: Gull er verð­mætt af því að það er fágætt og nán­ast tryggt að það muni ekki finn­ast í stór­auknu magni mjög skyndi­lega. Bitcoin hefur sömu eig­in­leika. Til­koma Bitcoin er því svo­lítið eins og ef mann­kynið hefði upp­götvað nýjan góð­málm. Mun­ur­inn er samt sá að í stað þess að vera eitt þyngsta frum­efnið sem aðeins er hægt að flytja með ærnum til­kostn­aði og örygg­is­ráð­stöf­unum má færa þennan staf­rænt yfir inter­net­ið. Og þar sem engin mið­læg skrá er hald­in, getur fólk þannig skipst á verð­mætum heims­horna á milli án þess að nokkur geti rakið við­skipt­in.

Þannig grefur þessi tækni ann­ars vegar undan skatt­heimtu og eft­ir­liti og gerir alls kyns miður eft­ir­sókn­ar­verða starf­semi auð­veld­ari, en opnar líka marg­vís­lega mögu­leika til nýsköp­unar og til að brjóta niður múra og aðstöðu ann­arra stofn­ana sem hafa haft tang­ar­hald á til­flutn­ingi fjár­muna und­an­farnar ald­ir.

Eins og sumt annað af því sem áður hefur verið nefnt í þessum pist­li, er spáin ekki sett fram af því að ég sé endi­lega hrif­inn af þess­ari þróun á allan hátt, heldur vegna þess að ég hef trú á að hún sé að og muni eiga sér stað og sé af því tagi sem ekki verði þegj­andi og hljóða­laust.

Öll er þessi þróun svo þannig að með auk­inni alþjóða­væð­ingu finnst manni lík­legt að gjald­miðlum sem not­aðir eru í við­skiptum muni fækka. Að minnsta kosti þjóð­ar­gjald­miðl­um. Þessi þróun tekur auð­vitað tíma, en við gætum séð umtals­verðar breyt­ingar þar á næstu 10 árum. Þarna er enn eitt svið þar sem Ísland þarf að fylgj­ast vel með, því það er sann­ar­lega betra að fara inn í slíkar breyt­ingar með opin augu og ráða ein­hverju um sinn næt­ur­stað en að átta sig ekki fyrr en of seint og fljóta ófyr­ir­séð með straumn­um. Já, ég er að tala um að tæknin muni knýja okkur til að taka – eða í það minnsta að und­ir­búa – stórar ákvarð­anir í gjald­miðla­málum á kom­andi ára­tug!

Sam­an­tekt

Á kom­andi ára­tug er marg­vís­leg tækni­þróun lík­leg til að hrista all­margar rót­grónar stoðir í núver­andi sam­fé­lagi og heims­mynd, jafn­vel þannig að hrikti í.

Hér hafa verið raktir þrír straumar sem mér finnst lík­legt að verði meðal meg­in­straumanna í þessa veru á næstu 10 árum: Umhverf­is­tækni, mann­legum þáttum tækn­innar og fjár­tækni.

Auð­vitað er svo margt annað í far­vatn­inu sem er smærra í snið­um, og að sama skapi ekki ólík­legt að mér hafi yfir­sést ein­hverjar enn stærri bylgjur en þær sem hér voru rakt­ar. Það verður í öllu falli fróð­legt að líta til baka árið 2030 og sjá hversu nærri tækni­spá­mað­ur­inn fór um þessa þró­un.

Tæknispá 2019

Mér telst til að þetta sé í 10. skipti (á 14 árum) sem ég skrifa tækni­spá og reyni að rýna í hluti sem munu vera ofar­lega á baugi í tækni­heim­inum á kom­andi ári.

Í spánni í fyrra tók ég meðal ann­ars sterkar til orða en flestir og spáði miklu verð­falli á Bitcoin. Annað var kannski ekki alveg eins nákvæmt, eða hefur að minnsta kosti ekki gengið eftir eins hratt. Elon Musk fór til dæmis ekki í kringum tunglið. Það er þó lík­lega bara tíma­spurs­mál. End­ur­tek þá spá núna með aðeins víð­ari tíma­mörk­um.

Mann­legu hliðar tækn­innar

Á árinu sem nú er nýhafið held ég að áherslan verði mikil á mann­legu hliðar tækn­inn­ar. Þannig held ég að við munum sjá meira rætt en áður um félags­leg­ar, laga­legar og sál­rænar hliðar þeirrar tækni­þró­unar sem nú stendur yfir og hvort og hvernig skuli bregð­ast við henni.

Per­sónu­vernd verður áfram í brennid­epli og lík­legt að fleiri en Evr­ópu­sam­bandið muni setja skorður og skýrar reglur um með­ferð þeirra.

Einnig grunar mig að reglu­verk í kringum gervi­greind og þjálfun gervi­greind­ar­kerfa verði á dag­skránni, enda sýnir sig sífellt betur að slík kerfi læra og festa í sessi mis­munun og vit­leysur sem fyrir eru í gögn­unum sem þau eru þjálfuð með. Þau eiga til dæmis erf­ið­ara með að þekkja hör­unds­dökk and­lit en bleikhafna frekar starfs­um­sóknum frá konum en körlum; og eru fljót að læra ra­is­ma á Twitter.

Þau eru þannig alveg jafn­-skeikul og við mann­fólk­ið! Vand­inn er sá að það er ólík­leg­ara að við gerum ráð fyrir því: Hvernig gæti tölva verið for­dóma­full? Hún er jú bara reikni­vél? Vand­inn er sá að ef við kennum reikni­vél að reikna rangt, þá mun hún gera það – af meiri full­komnun en jafn­vel skeik­ul­ustu menn!

Hæpið er hæpið

Þekkt kenn­ing segir að álitið á tækninýj­ungum rísi og falli eftir svo­kall­aðri „hæp­kúrfu“. Ráð­gjafa­fyr­ir­tæk­ið G­ar­tner hef­ur ­form­fest og gert sér mat úr þess­ari kenn­ingu, en í stuttu máli segir hún að heim­ur­inn hafi miklar vænt­ingar til tækninýj­unga þegar þær eru nýjar, svo falli vænt­ing­arnar þegar þær ganga ekki eftir eins hratt og vonir stóðu til, en rísi síðan aftur og nái jafn­vægi þegar tæknin hefur tekið út nægi­legan þroska.

Mynd: Wikipedia

Ég held að tvær mest hæp­uð­u ­tækninýj­ungar síð­ustu ára, sýnd­ar­veru­leik­inn og nýjasta bylgja gervi­greind­ar­tæki séu komnar yfir­ hæp­heið­ina og falli nú í dal von­brigð­anna næstu 2-3 ár. Að venju munu margir þeir sem vinna að þess­ari tækni helt­ast úr lest­inni þegar ferða­lagið lítur út eins og eyði­merk­ur­ganga bæði hvað varðar fjár­mögnun og við­skipta­vini. Þessi tækni mun hins vegar snúa aftur af krafti innan 5 ára og þá með raun­veru­leg og sönnuð við­skipta­tæki­færi og nota­gildi. Á Íslandi skiptir þetta mestu máli hvað sýnd­ar­veru­leik­ann varð­ar, enda tals­verð reynsla, þekk­ing og þróun í gangi varð­andi hann hér síð­ustu ár. CCP dró þegar í land í lok þar síð­asta árs og sprota­fyr­ir­tæki sem hafa verið að vinna á þessu sviði hafa mörg hver verið tví­stíg­andi um fram­hald­ið. Von­andi verður samt eitt­hvað eftir af þess­ari þekk­ingu og þróun þegar tæki­færin koma fyrir alvöru.

Þroskað sprotaum­hverfi

Íslenska sprotaum­hverfið hefur þroskast mjög mikið á síð­ustu árum. Fram­boð á fjár­magni hefur verið betra og jafn­ara en lík­lega nokkru sinni fyrr, erlendir fjár­festar eru farnir að láta til sín taka á Íslandi í meira mæli en áður og inn­lendir að taka sín fyrstu skref í að fjár­festa í erlendum tækni­fyr­ir­tækj­um.

Ég held að þessi þróun eigi eftir að halda áfram og held að það væri mikið heilla­spor að tengj­ast evr­ópska – og þá kannski ekki síst nor­ræna – sprotaum­hverf­inu enn sterk­ari bönd­um. Það er margt áhuga­vert að ger­ast í nor­rænu sen­unni. Augu fjár­festa og tækni­heims­ins bein­ast í auknum mæli þangað og ímynd frum­kvöðla og fyr­ir­tækja sem þaðan koma er með miklum ágæt­um.

Meniga er komið hvað lengst fyr­ir­tækja í „nýju sprota­bylgj­unni” sem fór af stað eftir hrun og að ná býsna góðum „sta­tus” á sínu svið­i. Teatime, sem stofnað var af fyrrum stjórn­end­um Pla­in Vanilla, mun afhjúpa nýj­ung­arnar sem þau hafa verið að vinna að síð­ustu miss­eri, og óhætt að spá því að það muni vekja mikla alþjóð­lega athygli þegar þar að kem­ur.

Fleiri spenn­andi sprota­fyr­ir­tæki eru á áhuga­verðum stigum fjár­mögn­un­ar, vöru- og við­skipta­þró­unar sem frétta er að vænta af á árinu, og von­andi verða slíkar fréttir reglan frekar en und­an­tekn­ingin innan fárra ára.

Allt í skýj­unum

Ég held að 2019 sé ákveð­ið á­fanga­ár í þeirri þróun sem orðið hefur síð­asta ára­tug­inn: Fyr­ir­tæki munu svo gott sem end­an­lega hætta að setja upp sína eigin net- og vef­þjóna og allur vöxtur á því sviði fara fram í stórum gagna­verum ann­arra – einkum og sér í lagi stóru skýja­lausn­a­fyr­ir­tækj­anna: AWS, Microsoft og ­Google. Tími tölvurekka í milli­stórum fyr­ir­tækjum er að líða undir lok (hann er lið­inn í litlum fyr­ir­tækj­u­m), en ég held líka að minni, „local” þjón­ustu­að­ilar muni eiga undir högg að sækja frá þessum stóru, aðgengi­legu og alltum­lykj­andi alþjóð­legu þjón­ustu­veit­end­um.

Talið þér íslensku frú Sirrý?

Íslensk mál­tækni hefur loks­ins fengið þá athygli sem hún á skilið og nú bæði úr nokk­urri fjár­mögn­un og hratt vax­andi þekk­ingu og gögnum að moða á því sviði. Þetta er nauð­syn­legt ef íslenskan á að eiga mögu­leika á að lifa af 21. öld­ina. Ég hef þó reyndar ekki síður – og jafn­vel frekar – áhyggjur af skorti á fram­boði af íslensku og íslensk­uðu efni á helstu miðlum og efn­isveitum ef svo á að vera. Það er reyndar ekki bein­línis tækni­legt mál, en eitt­hvað sem stjórn­völd, fram­leið­endur efnis og þeir sem koma að milli­vinnslu þess (svo sem þýð­ingum og tal­setn­ingu) ættu að leggja ofurá­herslu á að koma í fast­ari far­veg með aðilum á borð við ­Net­fl­ix, YouTu­be, ­Spoti­fy og Amazon.

Á gam­an­sömum nótum má reyndar færa rök fyrir því að við ættum alls ekki að leggja kraft í að kenna tækn­inni íslensku. Um dag­inn var ég í góðum hópi að ræða þá stað­reynd að nú eru rúm 21 ár liðin frá deg­inum sem ­Sky­net tók yfir heim­inn í Term­inator-ser­í­unni með væg­ast sagt afdrifa­ríkum afleið­ing­um. Ástæðan fyrir því að við höfum ekki orðið þess vör á Íslandi hlýtur að vera sú að tölv­urnar skildu aldrei íslensku. Þarf ekki ein­hver að stöðva Eirík Rögn­valds­son?! 😉

Tæknispá ársins 2018

Það eru núna 12 ár síðan ég gerði það fyrst að gamni mínu að setja í upp­hafi árs fram spá yfir hluti sem ættu eftir að verða ofar­lega á baugi á kom­andi ári. Þó þetta sé sam­kvæm­is­leikur öðru frem­ur, er engu að síður áhuga­vert að skoða eldri spár (20062008200920102014201520162017) og sjá hvað hefur gengið eftir – og ekki síður hvað ekki!

Í fyrra voru það sjálf­keyr­andi bílar, fals­frétt­ir, samdauna tæknirisar, sýnd­ar­veru­leiki og fjár­mögn­un­ar- og þekk­ing­ar­um­hverfi íslenskra sprota­fyr­ir­tækja sem fengu sess í spánni. Hér á eftir fer það sem ég tel að verði ofar­lega á baugi á árinu sem nú er að hefj­ast.

Gervi­greind

Gervi­greind hefur verið mikið í frétt­unum und­an­farið ár, og ekki að ástæðu­lausu. Á þessu sviði hafa orðið stór­kost­legar fram­farir á und­an­förnum 2-3 árum og kemur þar einkum þrennt til: Síaukin og ódýr­ari vinnslu­geta, ný aðferða­fræði við útfærslu tauga­neta (svokölluð „deep learn­ing”) og síð­ast en ekki síst óvenju­lega almennur aðgangur að bestu tólum á þessu sviði þar sem leið­andi hug­bún­aður hefur verið gerður aðgengi­legur undir opnum leyfum og jafn­framt upp­settur og til­bú­inn til notk­unar fyrir hvern sem er gegnt vægu (eða jafn­vel engu) gjaldi hjá aðilum eins og Google, Amazon og Microsoft.

Frétt­irnar fara alltaf hæst þegar gervi­greindin lætur til sín taka á sviðum sem okkur þykja „mann­leg”, svo sem því að lesa í röntgen­mynd­ir, keyra bíla eða þýða tungu­mál. Jafn­vel enn meiri athygli fær svo fram­ganga þeirra í borð­spilum á borð við skák og Go, en þau tíð­indi urðu í báðum þessum leikjum á árinu að for­rit sem ekki fékk neina for­skrift aðra en regl­urnar gat „æft sig sjálft” þangað til það varð betra en bestu mennsku leik­menn heims!

Það sem færri átta sig á er að tækni á borð við þessa er að baki allskyns hlutum sem fólk er beint og óbeint farið að nota dags dag­lega allt frá Snapchat-filt­erum til raun­tíma­eft­ir­lits með kredit­korta­færsl­um. Með öðrum orðum í hlutum sem eru fjarri því að vera „mennskir” eða yfir­höfuð innan mann­legrar getu.

Hins vegar eru þetta allt ansi sér­hæfð verk og gervi­greind­ar­for­rit eiga það sam­eig­in­legt að vera ekki sér­lega skap­andi. Okkur hættir til að ofmeta hversu nærri mann­legri greind og hugsun þessi tækni sé og sjá í því annað hvort meiri ógn eða tæki­færi en raun­veru­lega eru til staðar – að minnsta kosti til skamms tíma. Hins vegar er umræðan um það hvort setja skuli reglu­verk og þá hvernig um notkun slíkrar tækni tíma­bær og ég spái því að hún verði áber­andi á árinu. Ég segi samt eins og einn vinur minn og fyrrum sam­starfs­fé­lagi: „Ég hef engar áhyggjur af gervi­greind fyrr en hún finnur hjá sér löngun til að gera eitt­hvað merki­legra en að keyra bíl eða tefla skák.”

Þangað til eru mörg ár. Raunar er það svo að fremstu vís­inda­menn á þessu sviði telja sig flestir enn langt frá því að skilja hvers konar stökk þyrfti til að það gæti ger­st, eða hvort tæknin og aðferða­fræðin sem nú er notuð sé yfir­höfuð á þeirri leið.

Raf­myntir

Bitcoin komst heldur betur í frétt­irnar á liðnu ári, og verður enn um sinn ekki síst vegna ótrú­legra verð­hækk­ana og -sveiflna. Enda voru frétt­irnar í lok árs margar á þann veg að hér hlyti að vera um bólu að ræða. Sagan segir að Jos­eph Kenn­edy hafi ákveðið að selja öll hluta­bréfin sín rétt fyrir krepp­una miklu þegar lyftu­vörður gaf honum ráð­legg­ingar um fjár­fest­ingar í hluta­bréf­um. Á Íslandi heyrði ég nýlega sögu af pípara sem var að velta fyrir sér spá­kaup­mennsku með Bitcoin. Kannski er það okkar merki?

Ég ætla raunar að ganga lengra hér en flestir og spá miklu verð­falli Bitcoin á árinu 2018. Þar koma nokkrir hlutir til aðrir en bólu­merk­in, meðal ann­ars þau að með auk­inni athygli og veltu aukast lík­urnar á því að ein­hvers konar reglu­verki verði komið á þessi við­skipti, enda er einn af eft­ir­sóttum eig­in­leikum raf­mynta á borð við Bitcoin að við­skiptin eru nafn­laus, erfitt að rekja þau og ágóði af hvers kyns við­skiptum með þær ósýni­legur skatt­yf­ir­völd­um. Hin meg­in­á­stæðan fyrir spá minni er að orku­notkun í Bitcoin heim­inum er komin langt út fyrir skyn­sem­is­mörk (hvar sem þau svo sem voru) og undir lok árs bár­ust fréttir af því a meiri raf­orka færi í Bitcoin en sem svar­aði allri raf­orku­notkun Dan­merk­ur. Þetta sýnir ekki bara að það stytt­ist í ein­hvers­konar þol­mörk, heldur er þetta líka lík­legt til að kalla á bakslag meðal nör­da­sam­fé­lags­ins sem hefur drifið vöxt­inn að miklu leyti hingað til og lík­legt að leiði af sér aðr­ar, skyldar en skyn­sam­legri lausnir hvað þetta varð­ar. Hin und­ir­liggj­andi og stór­merki­lega „blockchain” tækni er nefni­lega komin til að vera – og ekki bara sem hryggjar­stykkið í raf­mynt­um, heldur alls kyns færslum öðrum, frá lista­verka­við­skiptum til gagna­miðl­un­ar.

Rétt að taka fram að þrátt fyrir spá mína um yfir­vof­andi hrun á verði Bitcoin á árinu, þá tel ég samt tals­verðar líkur á að myntin muni sanna sig til langs tíma sem nokk­urs­konar raf­gull. Það er, sem verð­mæti (ekki hlæja, málm­gull er einskis virði heldur í sjálfu sér) sem sjaldan skipta um hendur og litið verður á sem lang­tíma­fjár­fest­ingu.

(Gert grein fyrir hags­mun­um: Höf­undur er eig­andi fáeinna Bitcoin-a og tekur ekki að sér fjár­fest­inga­ráð­gjöf)

Per­sónu­vernd, eign­ar­hald á gögnum og fall­valtir bankar

Umræðan um per­sónu­vernd og notk­un, eign­ar­hald og miðlun á per­sónu­upp­lýs­ingum á eftir að verða mjög hávær á árinu. Margir hafa orðið til að benda á vanda­málin sem fylgja því að tækni­fyr­ir­tæki á borð við Google, Apple, Microsoft og þó sér­stak­lega Face­book hafi yfir að ráða jafn miklum upp­lýs­ingum og raun ber vitni um ekki bara staf­rænar athafnir okk­ar, heldur per­sónu­leika, drauma, þrár, kosti og lesti. Ekki bara það, heldur er afar fátt sem tak­markar það hvernig þessi fyr­ir­tæki – og önnur – mega nota þessar upp­lýs­ing­ar.

Nýjar reglur Evr­ópu­sam­bands­ins sem taka munu gildi á árinu – GDPR (General Data Prot­ect­ion Reg­ul­ation) – er fyrsta umtals­verða til­raun yfir­valda til að koma böndum á þessa gagna­söfn­un, og þá auð­vitað ekki bara þess­ara fyr­ir­tækja, heldur allra sem safna og vinna með per­sónu­grein­an­leg gögn. Þó að þessar reglur gildi „að­eins” um gögn um Evr­ópu­búa, þá er það óháð heim­il­is­festi þjón­ustu­veit­and­ans og ljóst að öllum alþjóða­fyr­ir­tækjum verður mikið í mun að mæta þessum kröf­um, enda geta við­ur­lögin numið allt að fjögur pró­sent af heild­ar­veltu fyr­ir­tækja sem reyn­ast brot­leg. Þessar reglur kveða svo ekki aðeins á um hvað gera má við gögn­in, heldur taka þau líka af öll tví­mæli um það að ein­stak­lingar hafa rétt á aðgengi að öllum gögnum sem þjón­ustu­veit­andi hefur um þá, rétt til að fá afrit af þeim – og rétt til að láta eyða þeim.

Margir hafa orðið til að benda á vandamálin sem fylgja því að tæknifyrirtæki á borð við Google, Apple, Microsoft og þó sérstaklega Facebook hafi yfir að ráða jafn miklum upplýsingum og raun ber vitni um ekki bara stafrænar athafnir okkar, heldur persónuleika, drauma, þrár, kosti og lesti.

Í svip­uðum anda eru reglu­gerðir sem inn­leiddar verða á árinu um fjár­mála­fyr­ir­tæki. Þær breyt­ingar snú­ast reyndar ekki bara um gögn­in, heldur munu þær líka auð­velda sam­keppni við rót­gróna banka og fjár­mála­stofn­an­ir. Þetta opnar fjöl­mörg tæki­færi fyrir nýsköpun og sprota­fyr­ir­tæki, en ég spái því að risa­fyr­ir­tækin sem að ofan eru nefnd verði þau sem munu hafa mest áhrif á þennan geira – og það hratt. Þannig má segja að lög­gjöfin sem á annan bóg­inn tak­markar það sem stóru tæknirisarnir geta gert muni gefa þeim ný tæki­færi á öðrum svið­um.

Ég held að fjár­mála­geir­inn í heild sinni standi á barmi gríð­ar­legra breyt­inga og við­skipta­bankar eigi eftir að eiga mjög í vök að verj­ast þegar þess­ara breyt­inga fer að verða vart. Það er þróun sem mun taka nokkur ár, en mun rýra áhrifa­vald þeirra – og verð­mæti – mjög mik­ið.

Ég er að minnsta kosti ekki sér­lega bjart­sýnn á lang­tíma­verð­mæti eign­ar­hlutar míns í bönk­unum sem „hlut­hafi” í gegnum rík­is­sjóð.

Geim­ferðir

Það eru geggj­aðir hlutir að ger­ast í geim­ferð­um. Senni­lega hefur ekki verið jafn spenn­andi að fylgj­ast með þeim síðan á tímum tungl­ferð­anna. Einka­fyr­ir­tækið SpaceX skaut hvorki meira né minna en 17 förmum á braut um jörðu á liðnu ári. Ef þið hafið ekki fylgst með svona geimskoti, þá mæli ég sterk­lega með því. Næsta geim­skot er fyr­ir­hugað föstu­dag­inn 5. eða laug­ar­dag­inn 6. jan­úar – og reyndar 12 önnur á þeirra vegum og ann­arra víðs vegar um heim í jan­ú­ar­mán­uði ein­um. Geim­skota­dag­skrána má finna hér.

Öll geim­skot SpaceX fara fram í beinni útsend­ingu á net­inu með ítar­legum upp­lýs­ingum um það hvað er að ger­ast og hver fram­vindan er. Að málm­rör á hæð við Hall­gríms­kirkju geti tek­ist á loft, skilað af sér far­ang­urs­flaug út í geimjað­ar­inn og lent svo aftur af gríð­ar­legri nákvæmni upp­rétt, stundum á sama stað og tekið var á loft um það bil 10 mín­útum síðar er ótrú­legt. Pláss í ómönn­uðum geim­förum er orðið það ódýrt að alls kyns sprota­fyr­ir­tæki spretta nú upp sem eru að ger­bylta því sem fólk taldi mögu­legt í geim­tækni fyrir innan við 10 árum. Það er til að mynda hægt að ger­ast áskrif­andi að býsna nákvæm­um, innan við 24 tíma gömlum loft­myndum af ALLRI jörð­inni hjá fyr­ir­tæki sem nefn­ist Planet. Aðeins hug­mynda­flugið setur skorður á hvað hægt er að gera með slíku – raunar bæði til góðs og ills.

Talandi um tungl­ferð­ir, þá eru hafa tvær merki­legar geim­fréttir kom­andi árs ekki farið hátt:

  • Ann­ars vegar eru nú innan við þrír mán­uðir þar til keppn­isliðin í Lunar X Prize keppn­inni munu reyna lend­ingu á tungl­inu. Í úrslitum eru 5 lið, mis­stór og mis­vel fjár­mögnuð sem keppa um verð­laun upp á 20 milljón Banda­ríkja­dali frá Google. Ef þetta tekst, er það í fyrsta sinn sem geim­far á vegum einka­að­ila mun kom­ast til tungls­ins.
  • Hins vegar hefur Elon Musk, stofn­andi Space X (með meiru) heitið því að senda mannað geim­far í flug í kringum tunglið fyrir lok árs­ins. Dag­setn­ingin hefur ekki verið gefin upp, en hann hefur greint frá því að geim­far­arnir tveir sem fara muni í ferð­ina hafi verið vald­ir, þó ekki hafi verið sagt frá því hverjir það séu.

Ég held þó reyndar að auð­veld­asti spá­dómur árs­ins sé að Musk verði sjálfur annar þeirra!

Tæknispá 2017

Rithöfundurinn William Gibson sagði eitt sinn að framtíðin væri komin, henni væri bara ekki jafnt dreift. Við fyrstu sýn virðist þetta auðvitað fáránlegt, en hvað tækniþróun varðar er þetta dagsatt: Það sem er þegar orðið hversdagslegt sums staðar í heiminum er enn ár eða áratugi frá því að raungerast annars staðar, og það sem hægt er að sjá á tilraunastofum leiðandi rannsóknastofnana, í rannsóknarsetrum stórfyrirtækja og bílskúrum sprotafyrirtækja eru stundum hlutir sem eiga eftir að hafa mikil áhrif á líf okkar allra. Framtíðin er komin þar, hún á bara eftir að komast til okkar hinna.

Hér eru fimm angar framtíðarinnar sem ég held að eigi eftir að verða áberandi árið 2017:

  • Sjálfkeyrandi bílar: Það eru enn 5 ár í að alsjálfvirkir bílar verði í umtalsverðri og almennri notkun á tilteknum svæðum í heiminum og 10 ár þangað til sá veruleiki nær hingað til lands. En það þýðir ekki að tæknin sem þeir byggja á skili sér ekki til okkar hraðar. Hún er raunar þegar farin að gera það. Bílar koma með sífellt fleiri skynjurum og myndavélum sem aðstoða ökumanninn með hljóðmerkjum og betri yfirsýn. Næsta skref eru bein inngrip í aksturinn: „Cruise control” sem tekur mið af hraða umferðarinnar í kringum sig, leiðrétting akstursstefnu ef bíllinn rásar ómarkvisst yfir á næstu akgrein og bein inngrip ef bíll lenti í blinda blettinum, eða það stefnir í árekstur. Þetta magnaða myndband hér að neðan sýnir t.d. hvernig Tesla-bíll á sjálfstýringu sér fyrir hættu og grípur til öryggisráðstafana áður en ökumaðurinn hafði nokkra möguleika á að átta sig á því að einhver hætta væri á ferðum. Tækni af þessu tagi eigum við eftir að sjá í jafnvel ódýrari bílum frá og með komandi ári.

    Fyrsta verulega útbreiðsla bíla án ökumanna verður líklega í vöruflutningabílum. Vöruflutningar eru að mörgu leyti auðveldara úrlausnarefni en hin fjölbreyttu not einkabílsins. Annað sem gæti flýtt fyrir þessari þróun eru öryggismál. Í kjölfar hryðjuverkanna í Nice og Berlín er vel hugsanlegt að þess verði krafist fyrr en síðar að hægt sé miðlægt að grípa inn í akstur – eða að minnsta kosti drepa á – flutningabílum við tilteknar kringumstæður, s.s. þjófnað eða hreinlega ef bílinn reynir að aka nálægt skilgreindum öryggissvæðum.

  • Tekist á við falsaðar fréttir: Dreifing á villandi og hreinlega fölsuðum fréttum og upplýsingum komst í hámæli á árinu 2016, sérstaklega í tenglsum við forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og Brexit kosninguna í Bretlandi. Við Íslendingar eigum okkar fulltrúa á þessu sviði eins og öðrum, en það er önnur saga.

    Það eru margvíslegar áhugaverðar siðferðisspurningar í þessum efnum sem ekki verða leystar með tækninni, en flestum ber þó saman um að það sé eðlilegt að vekja athygli á því ef efni sem sett er fram í fréttaformi er beinlínis uppskáldað eða rangt farið með mál í grundvallaratriðum. Að mörgu leyti minnir þetta vandamál á ruslpóst sem fór langleiðina með að eyðileggja tölvupóst sem samskiptaleið í lok síðustu aldar (meira en 90% allra póstsendinga voru ruslpóstur) og „falskar“ leitarniðurstöður sem gerðu bestu leitarvélar vefsins, s.s. AltaVista, Hotbot og Yahoo ónothæfar um svipað leyti. Í báðum tilfellum var lausnin svipuð: Samtvinnun „mannlegra“ upplýsinga og sjálfvirkra algríma. Google á tilvist sýna hreinlega að þakka yfirburðum í að takast á við síðarnefnda vandamálið.

    Lausnin á dreifingu villandi upplýsinga verður líklega með svipuðum hætti. Efni sem er augljóslega bull verður síað í burtu alfarið (nema etv. fyrir þá sem kjósa að sjá það sérstaklega) og grunsamlegt efni merkt sérstaklega eða sett í sérstakt „hólf“, ekki ólíkt því sem við þekkjum flest með ruslpóst úr tölvupóstinum okkar. Facebook er þegar farið að gera tilraunir með þetta sem lofa góðu.

  • Tæknirisarnir sífellt líkari: Munurinn á stærstu tæknirisum samtímans fer sífellt minnkandi. Þó Amazon, Google, Microsoft og Apple eigi uppruna sinn í afar ólíkum geirum og meginstarfsemi þeirra sé enn nokkuð ólík er sífellt meiri skörun á milli þeirra. Amazon var upphaflega bókabúð, en er nú heimsins stærsti sölu- og rekstraraðili gagnavera. Apple byrjaði sem tölvuframleiðandi, en leggur nú ekki síst áherslu á endursölu hugbúnaðar í gegnum App store. Google var leitarvél (og auglýsingasali), en hefur hellt sér á fullt í símaframleiðslu. Og staðnaði hugbúnaðarrisinn Microsoft er að verða „kúl“ aftur með verkefnum eins og HoloLens, kaupum á LinkedIn og ótrúlega vel heppnaðri yfirfærslu á mjólkurkúnni Office yfir í skýjaþjónustuna Office 365. (a.m.k. viðskiptalega).

    Allir þessir aðilar framleiða nú farsíma, allir bjóða upp á „cloud computing“ þjónustu, a.m.k. 3 þeirra eru að gera tilraunir með sjálfkeyrandi bíla og allir bjóðast til að geyma myndir og önnur persónuleg gögn í misgóðum vefþjónustum. Facebook nálgast svo þennan hóp úr enn einni áttinni.

    Þessi þróun mun halda áfram og pressan er að mörgu leyti á Apple, sem er nú stærsta fyrirtæki heims, en svolítið að „missa kúlið“. Undir stjórn Steve Jobs gerði Apple ekki bara kúl hluti, Apple gerði hluti kúl. Tim Cook hefur ekki – frekar en aðrir – sömu hæfileika og Jobs í því og nýlegar vörur á borð við úrið Apple Watch og nýjustu útgáfur af iPhone hafa ekki staðið almennilega undir væntingum. Apple mun líklega leggja mikið upp úr 10 ára afmælisútgáfu iPhone sem væntanleg er á árinu. Ef þeir finna ekki kanínu í þeim hatti spái ég því að Google sigli hægt og rólega fram úr þeim á næstu 1-2 árum í bæði markaðsvirði og áhrifum.

  • Viðbættur veruleiki og sýndar-: Í tæknispánni í fyrra talaði ég um sýndarveruleikann og ekki síst hlut íslenskra fyrirtækja í framvarðarsveit þar. Útbreiðsla sýndarveruleikatækja hefur ekki verið jafn hröð og bjartsýnustu spár sögðu til um, en allir helstu framleiðendur á þessum markaði stigu stór skref á árinu og hvert skref sýnir betur möguleika tækninnar. Allir framleiðendurnir eiga þó eftir 2-3 ítranir í viðbót þangað til þessi tæki eiga möguleika á almennum markaði. Gefum þessu 3-4 ár.

    Microsoft kom líka nokkuð á óvart með HoloLens-tækninni sinni sem er á sviði „viðbætts veruleika“ (e. augmented reality) sem blandar saman þrívíðum hlutum og stafrænum heimi tölvunnar við raunveruleikann og þannig „birtast“ hlutir í umhverfinu sem eru alls ekki þar. HoloLens er ekki enn komið á almennan markað og Microsoft hefur ekki gefið út hvenær svo verður, en tæknin er lygilega góð. Sýndarveruleikatæknin er umfram allt leiktæki, en viðbættur veruleiki á talsvert fleiri og augljósari praktísk not, allt frá heilbrigðisgeiranum til hermennsku (sem er auðvitað ekki praktík, en þið skiljið hvað ég á við) og skrifstofuvinnu til iðnaðarsmíða. Það er ekki ólíklegt að það eigi eftir að flýta þessari þróun eitthvað.

    Í þessum geira er líka sprotafyrirtækið Magic Leap sem mikið „hæp“ hefur verið í kringum. Fyrirtækið hefur fengið stjarnfræðilegar upphæðir í fjármögnun og lofsamlegar umsagnir frá sumum af virtustu tæknifrömuðum heimsins, en einhvernveginn finnst mér fyrirtækið líklegt til að verða fórnarlamb ofurvæntinga sem ekki verður vinnandi vegur að standa undir. Eða ég hef rangt fyrir mér og það er alger bylting í afþreyingu og samskiptum á næsta leyti. Umfjöllun Wired um fyrirtækið er í öllu falli þess virði að lesa og láta sig dreyma.

  • Á Íslandi – Quiz-up áhrifin og fleira: Á Íslandi ætti að verða bæði uppskera og sáning í sprotageiranum. Við ættum að fara að sjá talsvert meira til þeirra fyrirtækja sem stóru sjóðirnir þrír: Frumtak II, SA Framtak og Eyrir Sprotar hafa verið að fjárfesta í, og einhver fyrirtæki úr fyrri sjóði Frumtaks eru líkleg til að fá einhvers konar „exit“ fljótlega. Það er að sumu leyti óheppilegt að þessir sjóðir hafi allir farið af stað á nákvæmlega sama tíma. Hefðu mátt vera 1-2 ár á milli þeirra til að sjá betri dreifingu í svona fjárfestingum. En sannarlega betra að hafa þá en ekki! Svo er að fara af stað nýr sjóður – Crowberry Capital – með örlítið aðrar áherslur sem mun hjálpa til við frumfjármögnun fyrirtækja. Það sama gildir um hinn nýja styrkjaflokk Tækniþróunarsjóðs – Vöxt – en hvort tveggja mun hjálpa til við að brúa gat sem hefur verið í íslenska fjármögnunarumhverfinu. Aflétting hafta á líka að hjálpa, þannig að heilt yfir hefur fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja aldrei verið betra hér á landi.

    Það gætir þó svolítilla „ruðningsáhrifa“ frá ferðageiranum um þessar mundir, bæði í því að hann dregur til sín fólk úr tæknigeiranum eins og öðrum, en ekki síður í gengi krónunnar sem hefur fært Ísland í mjög dýran flokk þegar kemur að hugbúnaðarstörfum. Þetta hefur allt áhrif, og ekki síst eru þessar sífelldu hag- og gengissveiflur til trafala við uppbyggingu í geiranum. Mikill kostnaður, sem útleggst í raun sem há laun á alþjóðlegan mælikvarða, er ekki endilega vandamál. Að mörgu leyti ættum við að líta á það sem kost – en sveiflur endanna á milli á kostnaðarskalanum á örfáum árum gerir alla áætlanagerð erfiða og uppbygginguna ómarkvissa.

    Við eigum við eftir að sjá nokkur ný sprotafyrirtæki spretta úr þeim jarðvegi sem endalok starfsemi Plain Vanilla á Íslandi skilur eftir sig. Þar er fólk sem hefur öðlast mikilvæga reynslu af alþjóðlegri sprotastarfsemi, myndað tengsl og skilning á því hvað þarf til að byggja upp og reka lausnir af skala sem fá ef nokkur íslensk fyrirtæki hafa áður gert. Þrátt fyrir endalokin, þá mun QuizUp áhrifanna gæta lengir, rétt eins og OZ-áhrifanna gætir enn frá því 15 árum fyrr.

Það stefnir með öðrum orðum í spennandi tækniár að venju og með vísun í orð Gibsons hér í upphafi get ég ekki beðið eftir að framtíðin dreifi betur úr sér.

Gleðilegt tækniár.

— — —

Fyrst birt á Kjarnanum.

Tæknispá 2016

Ég hef stundum (2006, 2008, 2009, 2010, 2014, 2015) gert það að gamni mínu í upphafi árs að spá fyrir um hluti sem muni einkenna komandi ár í tæknigeiranum, þá sérstaklega frá íslensku sjónarhorni.

Þetta hefur gengið upp og ofan og dæmi hver fyrir sig, en ég er að minnsta kosti ekki enn af baki dottinn. Hér koma nokkur atriði sem ég tel að muni einkenna komandi ár:

  • Gervigreind: Það eru vægast sagt ótrúlegir hlutir að gerast í heimi gervigreindar þessi misserin. Þetta á eftir að vera stóra sagan í tækniheiminum öllum á komandi árum og á eftir að hafa áhrif á allt! Ég ætla bara að nota stóru orðin: Þetta mun hafa að minnsta kosti jafn mikil – ef ekki meiri – áhrif á heiminn en tilkoma internetsins.

    Í stuttu máli er það sem hefur gerst að menn eru að ná svo góðum tökum á djúpum tauganetum (e. deep neural networks) að það jafnast á við getu mannsheilans þegar kemur að tilteknum, afmörkuðum verkefnum. Auðveldast er að hugsa þetta þannig að allt sem menn geta þjálfað sig til að gera “án umhugsunar” (hugsun sem á sér stað í “System 1” fyrir þá sem hafa lesið Thinking Fast and Slow eftir Kahneman) verður hægt að þjálfa tölvur til að gera – og í mörgum tilfellum betur en menn. Allt frá því að keyra bíla (sem raunar er svo gott sem leyst vandamál nú þegar), til þess að þekkja fólk á myndum, til þess að “diktera” talað mál jafn vel og mennskur ritari, til þess að greina sjúkdómseinkenni útfrá röntgenmynd. Allt!


    Þetta mun hafa gríðarleg áhrif og gerbreyta mörgu í okkar nánasta umhverfi á næstu 10 árum. Heilt yfir er þetta þróun sem er til hins góða, en það munu verða heilmikil samfélagsleg áhrif af því líka þegar fjöldinn allur af ósérhæfðum störfum verður betur leystur með tölvu en með fólki.


    Ég ætla ekki að halda því fram að áhrifin á nýhöfnu ári verði mjög áberandi. Þó munum við mörg hafa rekið okkur á eitthvað sem nýtir þessa tækni áður en árið er úti. Hins vegar verður þetta allra heitasta sviðið í nýsköpunarheiminum, og við munum sjá fjöldan allan af fyrirtækjum spretta upp sem nýta þessa nýju tækni, sem öfugt við margar fyrri tæknibylgjur byggir nær algerlega á opnum hugbúnaði. Kapphlaupið núna snýst að mörgu leyti ekki um tæknina sjálfa, heldur um bestu gögnin til að þjálfa þessa tækni til margvíslegra verka og þar er enn og verður talsvert um gögn í einkaeigu sem munu gera þeim fyrstu og bestu kleift að eigna sér tiltekin svið í þessum geira.


    Mér vitanlega eru mjög fáir að veita þessu sviði athygli á Íslandi enn sem komið er, og er það mjög miður.


  • Sjónvarp framtíðarinnar – loksins: Fyrir bráðum 10 árum skrifaði ég pistil sem nefndist “Afþreying framtíðarinnar“. Þar lagði ég útfrá þáttunum Rockstar Supernova þar sem “Magni okkar” dró þjóðina með sér í eitt af sínum alræmdu æðum. Undirliggjandi var þetta: Í framtíðinni mun línuleg dagskrá leggjast af og fólk horfa á það efni sem það vill, þegar það vill, með þeirri undantekningu að beinar útsendingar, hvort heldur frá íþróttaviðburðum, skemmtidagskrá eða fréttaviðburðum, sem og frumsýningar á vinsælu efni munu enn sameina áhorfendur og þá jafnvel í auknum mæli á heimsvísu en ekki bara innan landa. Þetta er auðvitað orðið að veruleika að allnokkru leyti, en stækkað útbreiðslusvæði Netflix er stórt skref í þessa átt. Bandaríski efnisrisinn HBO (sem framleiðir margar af vinsælustu þáttaröðum veraldar, allt frá Game of Thrones til Simpsons) steig líka skref í þessa átt á liðnu ári hér í Bandaríkjunum og fór að selja áskriftir yfir netið kapal- og útsendingarmiðlum. Ef þeir feta í fótspor Netflix og hefja dreifingu á heimsvísu, þá fyrst má Jón Gnarr fara að hafa áhyggjur af því að áskrifendur leiti til alþjóðlegra veitna, frekar en íslenskra dreifingaraðila.
  • Íslenska VR-ið: Einn af spádómum síðasta árs var að við myndum heyra mikið frá íslenskum fyrirtækjum sem væru að fást við sýndarveruleika, og nefndi þar meðal annars Valkyrie leikinn frá CCP, Sólfar, Aldin og Mure. Það má segja að þetta hafi gengið eftir. CCP tók nokkuð afgerandi kúrs í þessa átt og fékk samhliða stærstu fjárfestingu sem íslenskt sprotafyrirtæki í tölvugeiranum hefur fengið, eða um 30 milljónir dollara frá hinum virta sjóði NEA. Skömmu síðar sást til Mark Suckerberg prófa og mæra Gunjack leikinn þeirra og hafa margir haft stór orð um þá upplifun sem hann er. Sólfar fékk jafnframt góða fjármögnun og hefur vakið athygli, einkum fyrir sýndarveruleikaupplifun af Everest*. Aldin og Mure hafa jafnframt verið að gera góða hluti og við munum heyra meira frá þeim báðum á árinu.

    Hér er því að verða vísir að þekkingarklasa á nýju og allspennandi sviði og vonandi að háskólarnir sem og stærri fyrirtæki innlend – og jafnvel erlend – sjái sér hag í að tengja sig þeirri þróun og efla hana þar með. Samspil sprotafyrirtækja, stærri fyrirtækja, háskóla og fjárfestingasjóða er akkúrat það sem þarf til að upphaf af þessu tagi festi rætur og beri ávöxt.


  • Íslenska umhverfið: Heilt yfir er íslenska tækniumhverfið í ágætri stöðu og 2016 mun að líkindum bæta þar enn úr.
    • Létting gjaldeyrishafta mun hafa mikið að segja með möguleika íslenskra félaga til að sækja sér erlent fjármagn – og þá þekkingu sem því getur fylgt. Ég óttast þó að enn muni líða allmörg ár þar til hefðbundnir alþjóðlegir áhættufjárfestingasjóðir verði tilbúnir að fjárfesta í íslenskum félögum – og kemur þar reyndar fleira til. Þangað til svo er mun sá tími koma fyrr eða síðar í lífi flestra okkar nýsköpunarfyrirtækja að þau þurfa að koma móðurfélögum sínum, hugverkum og þar með stærstum hluta hagnaðar fyrir erlendis.
    • Mannekla er viðloðandi í hugbúnaðargeiranum og verður ekkert lát á miðað við allt það sem er í gangi. Þetta á ekki bara við um forritara, heldur nánast öll þau störf sem að hugbúnaðargerð, rekstri tæknifyrirtækja og svo auðvitað sölu og markaðssetningu tæknilausna. Enn eru of fáir að útskrifast úr þessum fögum þrátt fyrir mikla aukningu á undanförnum árum og eins eru þeir sem útskrifast ef til vill með helst til einsleita þekkingu. Eins er alveg stórundarlegt að enn sé mjög flókið og tímafrekt mál fyrir sérfræðinga á þessum sviðum að fá hér atvinnu- og dvalarleyfi komi þeir frá löndum utan EES.
    • Starfsemi alþjóðlegra fyrirtækja í þessum geira á Íslandi er nánast engin. Það er mikilvægt í bland við það sem hér sprettur upp að fólk hafi tækifæri að vinna hjá stórum, öflugum, alþjóðlegum fyrirtækjum. Bæði eykur það úrval starfa og möguleika fyrir fólk í geiranum, en ekki síður eykur það reynslu fólksins í tæknigeiranum af slíku umhverfi – með öllum sínum kostum og göllum – öllum til hagsbóta. Ég er stoltur af þeirri uppbyggingu sem Qlik hefur staðið fyrir hér eftir kaupin á DataMarket í fyrra, en við þurfum fleiri, stærri og fjölbreyttari fyrirtæki hingað til að skapa meiri breidd og “dínamík” í íslenska tækniumhverfið. Ég spái því að hafin verði vinna við að laða slík fyrirtæki hingað á árinu.
    • Stóru vaxtarfjárfestingasjóðirnir þrír Frumtak II, Eyrir Sprotar og Brunnur fjárfestu talsvert á nýliðnu ári, en eiga enn umtalsverða fjármuni sem þeir þurfa að koma í vinnu fyrr en síðar. Nú eru sjóðirnir komnir vel af stað og 2016 verður því líklega stærsta ár Íslandssögunnar þegar kemur að framtaksfjármögnun íslenskra tæknifyrirtækja. Húrra fyrir því!

* Tek fram að ég er hluthafi í Sólfari í gegnum fjárfestingasjóðinn Investa.

– – –

Upphaflega birt á Kjarnanum