Vandi að spá, líka um fortíðina

Viðskiptaráð hélt Viðskiptaþing í gær. Eitt af því sem kynnt var samhliða þinginu voru fyrstu skref í átt að svokallaðri Efnahagsstofu atvinnulífsins. Starfsemi þessarar stofu er enn í mótun, en hugmyndin er að koma upp starfsemi sem muni fylgjast með og ef til vill taka þátt í spágerð og greiningarvinnu óháð hinu opinbera og stofnunum þess.

Við hjá DataMarket tókum þátt í smá “pilot”-verkefni í tengslum við þetta. Við tókum að okkur að safna og setja fram spár þriggja ólíkra aðila um hagvöxt og verðbólgu síðastliðinn áratug eða svo.

Þeir aðilar sem um ræðir eru Seðlabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Þjóðhagsspá sem gerð var af Fjármálaráðuneytinu þar til sú starfsemi var flutt til Hagstofunnar á síðasta ári.

Framsetningin á þessum gögnum er í formi nokkuð skemmtilegra, gagnvirkra mynda sem sýna rauntölur með rauðu og svo hinar ýmsu spár í daufgráum lit. Á myndinni hér að neðan má t.d. sjá verðbólguþróun born saman við verðbólguspár Seðlabanka Íslands. Mjög áhugavert að sjá hvernig verðbólguhorfurnar voru t.d. ofmetnar bæði í upphafi verðbólguskotsins í “litlu kreppunni” 2006 og svo aftur í kjölfar bankahrunsins 2008. Eins má sjá hvernig sumar spár gerðu ráð fyrir því að verðbólgan myndi minnka miklu hraðar en raun bar vitni eftir að hún náði hámarki sínu í janúar 2009.

Smellið á myndina til að skoða gagnvirka útgáfu á vef Viðskiptaráðs

Hagvaxtarspárnar eru ekki síður áhugaverðar. Ekki bara vegna þess að spárnar séu stundum aðeins úr takti við það sem síðar varð, heldur líka vegna þess að þegar spárnar eru birtar standast tölur um liðinn tíma líka mjög mis-vel. Í gamni mætti því segja að spáaðilum gangi jafnvel illa að spá um fortíðina!

Ástæðan fyrir þessu er sú að það tekur langan tíma að negla niður endanlegar tölur um landsframleiðslu (og þar með hagvöxt). Um þetta skapaðist til að mynda nokkur umræða í fyrra þegar tölur um hagvöxt tiltekinna ársfjórðunga ársins 2008 reyndust býsna fjarri því sem bráðabirgðatölur höfðu gefið til kynna. Hagstofan sendi í kjölfarið frá sér greinargóðar útskýringar á því hvernig þessar tölur eru unnar. Samkvæmt því sem þar kemur fram eru tölur um hagvöxt eru enn að breytast jafnvel 2-3 árum eftir að ári lýkur. Í millitíðinni þurfa spáaðilar að reiða sig á fyrirliggjandi bráðabirgðatölur, eða jafnvel draga eigin ályktanir um það hvernig þeim tölum sé ábótavant.

Á myndinni hér að neðan má til dæmis sjá hagvöxt (rauð lína) og hagvaxtarspár Seðlabankans. Ég dró fram hagvaxtarspá sem birt er í Peningamálum í júlí 2007. Eins og sjá má spáði bankinn því þá að hagvöxtur yfirstandandi árs yrði aðeins 0,2%. Rauntölurnar (rauða línan) sýna hins vegar að hagvöxturinn varð hvorki meira né minna en 6%, eða 5,8% prósentustigum hærri en bankinn gerir ráð fyrir. Það sem er þó enn merkilegara er að um mitt ár 2007 “spáir” bankinn því að hagvöxturinn á liðnu ári (2006) hafi verið 2,6%. Raunin var hins vegar 4,6%, sem er umtalsverður munur þegar um er að ræða tölur sem alla jafna sveiflast á milli 0% og 5-6% á vesturlöndum.

Smellið á myndina til að skoða gagnvirka útgáfu á vef Viðskiptaráðs

Fyrir þessu eru margar ástæður og hvorki við Seðlabankann né Hagstofuna að sakast, svona er bara heimur hagtalnanna. Það má hins vegar spyrja sig að því hversu áreiðanlega sé hægt að spá fyrir um framtíðina, ef ekki er meiri vissa um orðna hluti en dæmið hér að ofan sýnir.

Minn skilningur er sá að akkúrat þetta sé markmið Viðskiptaráðs með hugmyndum um Efnahagsstofuna. Ætlunin er ekki að útbúa fleiri spár eða greiningar, heldur að safna saman spám, mælingum og greiningum þeirra aðila sem fylgjast með íslensku efnahagslífi og hvetja til umræðu um þær, mismuninn á þeim og þær forsendur sem liggja að baki. Líklega er full þörf á því!

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s