data

Factfulness eftir Hans Rosling: Leiðarvísir að rökréttri hugsun um heiminn

Í flestri umræðu heyrast hæst þær raddir sem eru á sitthvorum öfgunum. Þar liggja oft ríkustu hagsmunirnir, heitasta sannfæringin og sterkustu tilfinningarnar. Þegar svo er gefst lítið rými fyrir yfirvegaða umræðu þar sem dregin eru fram þau gögn sem máli skipta, ólík sjónarhorn vegin og metin og niðurstaða eða málamiðlun byggð á bestu fyrirliggjandi þekkingu, vísindalegri nálgun og vandaðri rökleiðslu.

Þess vegna er bók læknisins og gagnatöframannsins heitins Hans Rosling – Factfulness – svo kærkomin. Með snörpum og skemmtilegum skrifum sýnir hann okkur lesendum annars vegar fram á það hversu skökk og úrelt heimsmynd okkar er að mörgu leyti og gefur hins vegar ráð um það hvernig best sé að nálgast flókin úrlausnarefni, hvernig hægt er að vara sig á rangfærslum og forðast rangar ályktanir þegar tilfinningarnar, áróðurinn eða vanþekkingin verða rökunum yfirsterkari.

Sérsvið Roslings var lýðheilsa og dæmin í bókinni eru flest á sviði heilbrigðis og lýðfræði, en hann kemur víða við: náttúruvernd, stjórnsýsla, stjórnkerfi, fjölmiðlun, fyrirtækjarekstur, fjármálakerfið og fleira. Umfram allt á aðferðafræðin sem Rosling kennir með þessum dæmum í bókinni við á nánast öllum sviðum.

Inn í þetta blandast svo sögur frá ævintýralegum starfsferli Roslings, fyrst sem ungur læknir á vettvangi í mörgum fátækari ríkjum heims, síðar sem kennari í Svíþjóð og loks sem hálfgerð “gagnastjarna” sem ferðaðist um heiminn, flutti erindi og umgekkst margt af áhrifamesta fólkinu í heiminum. Frásagnirnar eru auðmjúkar og afhjúpandi. Margar hverjar stórskemmtilegar, en aðrar grafalvarlegar. Ég viðurkenni að mér vöknaði um augun að minnsta kosti í tvígang við lestur bókarinnar – annars vegar af mjög sorglegum afleiðingum af ákvarðanatöku sem Rosling átti þátt í og í hitt skiptið af hetjulegri framgöngu í hættulegum kringumstæðum í smáþorpi í Lýðveldinu Kongó (þá Zaire). Vísbending: Hetjan þar var ekki okkar maður Hans.

Rosling verður seint kenndur við ákveðna pólitíska hugmyndafræði. Raunar eru ein sterkustu skilaboð bókarinnar þau að heimurinn er svo margslunginn að svarið felst aldrei í einni stefnu sem leysi allt: Hann dásamar frjálsan markað, en bendir á að hann þýði ekki að það þurfi ekki reglur og sterk stjórnvöld. Hann talar fyrir jöfnuði og jafnrétti á mörgum sviðum, en bendir líka á að það þýði ekki að lausnin sé að stjórnvöld taki og dreifi gæðunum jafnt á alla.

Ég held að enginn lesandi leggi þessa bók frá sér án þess að hugmyndum hans eða hennar um heiminn hafi verið storkað, jafnvel á svolítið óþægilegan hátt – og í því felst styrkur bókarinnar. Með manngæsku, raunsæi og rökhyggju í fyrirrúmi gefur Rosling lesendum ástæðu til að anda aðeins léttar yfir fréttum símiðlanna en brýnir þá á sama tíma til að hjálpa til við að takast á við þau vandamál sem raunverulega þarfnast lausnar til að framtíðin haldi áfram á þeirri braut sem síðastliðnar aldir hafa verið: Framfarir sem hafa heilt yfir bætt lífsgæði manna alls staðar í heiminum stórkostlega. Og hann gefur okkur fulla ástæðu til að trúa því að svo geti orðið, ef við höldum ekki af braut vísinda, raka og yfirvegunar.

– – –

Hans Rosling lést úr krabbameini snemma árs 2017. Hann hafði þá tileinkað síðasta ár ævi sinnar því að rita þessa bók. Sonur hans Ola og tengdadóttir Anna sem höfðu unnið með honum lengi undir hatti Gapminder samtakanna sem Rosling stofnaði luku við verkið og halda vinnu Rosling áfram. Það er mikill missir af Rosling: Vísindi, ákvarðanataka byggð á þekkingu og gögnum og rökhyggja þurfa að eiga sinn “Attenborough” og Rosling er sennilega sá sem hefur komist næst því.

Tekjuskattur meðal-Jóns: Sundurliðaður reikningur

Nú er að hefjast árleg umræða um fjárlög næsta árs. Þá koma fram ýmsar mis-gáfulegar hugmyndir um tekjuöflun og niðurskurð, en flest eigum við svolítið erfitt með að átta okkur á öllum þessum tölum. 600 milljarðar króna eru ekki upphæð sem við tengjum auðveldlega við.

Í morgunútvarpinu á Rás2 í morgun gerði ég tilraun til að koma fjármálum ríkisins í persónulegara samhengi og stærðir sem fólk á auðveldara með að skilja og ræða þar með á skynsamlegum nótum.

Hugmyndin er einföld. Að setja tekjuskattinn okkar og sundurliðun hans fram eins og reikning fyrir hverri annari þjónustu sem við erum vön að kaupa:

Smellið á myndina til að sjá allan reikninginn

Viðtakandi þessa reiknings er “meðal”-Jón. Hann hefur 438 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði (þetta er skv. skýrslu Hagstofunnar um laun á almennum vinnumarkaði 2010). Jón býr í Reykjavík og borgaði því 13,03% í útsvar. Alls greiðir Jón þá rétt rúmlega 1.500 þúsund í tekjuskatt (að útsvari meðtöldu).

Þessu deilum við svo hlutfallslega niður í sömu hlutföllum og ríkisútgjöldin deilast niður skv. nýútkomnum Ríkisreikningi 2010 og þannig fáum við upphæðina á einstökum liðum á reikningnum hans Jóns.

Það er rétt að taka fram að (skv. upplýsingum í sama Ríkisreikningi, sjá bls. 10) telur tekjuskattur einstaklinga aðeins tæp 20% af heildartekjum ríkisins og við borgum því meira fyrir þessa þjónustu í gegnum aðra skatta og gjöld s.s. virðisaukaskatt, fjármagnstekjuskatt, tekjuskatt fyrirtækja, tryggingagjald o.s.frv. Allt fer þetta þó í sömu hítina (og úr henni) og því ekki ósanngjarnt að segja að svona skiptist sú upphæð sem við vorum rukkuð um á álagningarseðlinum fyrir nokkrum dögum síðan.

Það er rétt að taka fram að þetta er auðvitað mest til gamans gert og ber því ekki að taka of alvarlega. Öll gagnrýni og pælingar eru þó auðvitað velkomin.

Vandi að spá, líka um fortíðina

Viðskiptaráð hélt Viðskiptaþing í gær. Eitt af því sem kynnt var samhliða þinginu voru fyrstu skref í átt að svokallaðri Efnahagsstofu atvinnulífsins. Starfsemi þessarar stofu er enn í mótun, en hugmyndin er að koma upp starfsemi sem muni fylgjast með og ef til vill taka þátt í spágerð og greiningarvinnu óháð hinu opinbera og stofnunum þess.

Við hjá DataMarket tókum þátt í smá “pilot”-verkefni í tengslum við þetta. Við tókum að okkur að safna og setja fram spár þriggja ólíkra aðila um hagvöxt og verðbólgu síðastliðinn áratug eða svo.

Þeir aðilar sem um ræðir eru Seðlabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Þjóðhagsspá sem gerð var af Fjármálaráðuneytinu þar til sú starfsemi var flutt til Hagstofunnar á síðasta ári.

Framsetningin á þessum gögnum er í formi nokkuð skemmtilegra, gagnvirkra mynda sem sýna rauntölur með rauðu og svo hinar ýmsu spár í daufgráum lit. Á myndinni hér að neðan má t.d. sjá verðbólguþróun born saman við verðbólguspár Seðlabanka Íslands. Mjög áhugavert að sjá hvernig verðbólguhorfurnar voru t.d. ofmetnar bæði í upphafi verðbólguskotsins í “litlu kreppunni” 2006 og svo aftur í kjölfar bankahrunsins 2008. Eins má sjá hvernig sumar spár gerðu ráð fyrir því að verðbólgan myndi minnka miklu hraðar en raun bar vitni eftir að hún náði hámarki sínu í janúar 2009.

Smellið á myndina til að skoða gagnvirka útgáfu á vef Viðskiptaráðs

Hagvaxtarspárnar eru ekki síður áhugaverðar. Ekki bara vegna þess að spárnar séu stundum aðeins úr takti við það sem síðar varð, heldur líka vegna þess að þegar spárnar eru birtar standast tölur um liðinn tíma líka mjög mis-vel. Í gamni mætti því segja að spáaðilum gangi jafnvel illa að spá um fortíðina!

Ástæðan fyrir þessu er sú að það tekur langan tíma að negla niður endanlegar tölur um landsframleiðslu (og þar með hagvöxt). Um þetta skapaðist til að mynda nokkur umræða í fyrra þegar tölur um hagvöxt tiltekinna ársfjórðunga ársins 2008 reyndust býsna fjarri því sem bráðabirgðatölur höfðu gefið til kynna. Hagstofan sendi í kjölfarið frá sér greinargóðar útskýringar á því hvernig þessar tölur eru unnar. Samkvæmt því sem þar kemur fram eru tölur um hagvöxt eru enn að breytast jafnvel 2-3 árum eftir að ári lýkur. Í millitíðinni þurfa spáaðilar að reiða sig á fyrirliggjandi bráðabirgðatölur, eða jafnvel draga eigin ályktanir um það hvernig þeim tölum sé ábótavant.

Á myndinni hér að neðan má til dæmis sjá hagvöxt (rauð lína) og hagvaxtarspár Seðlabankans. Ég dró fram hagvaxtarspá sem birt er í Peningamálum í júlí 2007. Eins og sjá má spáði bankinn því þá að hagvöxtur yfirstandandi árs yrði aðeins 0,2%. Rauntölurnar (rauða línan) sýna hins vegar að hagvöxturinn varð hvorki meira né minna en 6%, eða 5,8% prósentustigum hærri en bankinn gerir ráð fyrir. Það sem er þó enn merkilegara er að um mitt ár 2007 “spáir” bankinn því að hagvöxturinn á liðnu ári (2006) hafi verið 2,6%. Raunin var hins vegar 4,6%, sem er umtalsverður munur þegar um er að ræða tölur sem alla jafna sveiflast á milli 0% og 5-6% á vesturlöndum.

Smellið á myndina til að skoða gagnvirka útgáfu á vef Viðskiptaráðs

Fyrir þessu eru margar ástæður og hvorki við Seðlabankann né Hagstofuna að sakast, svona er bara heimur hagtalnanna. Það má hins vegar spyrja sig að því hversu áreiðanlega sé hægt að spá fyrir um framtíðina, ef ekki er meiri vissa um orðna hluti en dæmið hér að ofan sýnir.

Minn skilningur er sá að akkúrat þetta sé markmið Viðskiptaráðs með hugmyndum um Efnahagsstofuna. Ætlunin er ekki að útbúa fleiri spár eða greiningar, heldur að safna saman spám, mælingum og greiningum þeirra aðila sem fylgjast með íslensku efnahagslífi og hvetja til umræðu um þær, mismuninn á þeim og þær forsendur sem liggja að baki. Líklega er full þörf á því!

Gagnatorg DataMarket komið í loftið!

Í vikunni opnuðum við hjá DataMarket almennan aðgang að gagnatorginu okkar.

Ég ætla að skrifa meira um það á persónulegu nótunum fljótlega, en læt nægja í bili afrit af tilkynningunni sem við sendum áskrifendum að fréttabréfinu okkar í gær (þið getið gerst áskrifendur hér).

Kæri áhugamaður um DataMarket,

Miðvikudagurinn 12. maí var stór dagur fyrir okkur, en þá opnuðum við fyrir almennan aðgang að lausninni sem við erum búin að vera að þróa í rúmlega eitt og hálft ár.

Það er okkur sönn ánægja að kynna til sögunnar gagnatorgið: DataMarket.com

DataMarket tekur saman töluleg gögn frá ýmsum opinberum aðilum og gerir þau aðgengileg á einum stað með samræmdum eiginleikum, s.s. leitarmöguleikum, samanburði, tengingum við fréttaefni og aðra viðburði, og niðurhali gagna til dæmis til notkunar í Excel.

Það sem komið er inn eru meira og minna öll gögn sem birt eru opinberlega frá:

  • Hagstofu Íslands, þar með talin gögn úr ritinu Hagskinnu sem er yfirlit yfir sögulegar hagtölur.
  • Seðlabanka Íslands
  • Vinnumálastofnun
  • Fasteignaskrá
  • Orkustofnun; og
  • Ferðamálaráði

Að auki eru þar gögn frá Ríkislögreglustjóra og öll töluleg gögn úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Öll þessi gögn eru frá og með deginum í dag aðgengileg öllum netnotendum án endurgjalds á DataMarket

Þarna er að finna meira en 2.500 gagnasett frá framangreindum aðilum og samanlagt meira en sjö milljón tímaraðir um allt á milli himins og jarðar, þar á meðal: hitastig á Stykkishólmi, barnsfæðingar á mánuði frá 1853, atvinnuleysi iðnaðarmanna, raforkuframleiðslu með jarðvarma, útbreiðslu DVD spilara og kílóverð á súpukjöti svo fátt eitt sé nefnt.

Hvernig nýtist DataMarket mér?

Það fer algerlega eftir því við hvað þú starfar, á hverju þú hefur áhuga og hvaða ákvörðunum þú stendur frammi fyrir, en við erum handviss um að flestir geta notað DataMarket sér til gagns eða fróðleiks þegar þeir hafa tileinkað sér grunneiginleika þess.

Hér eru nokkur dæmi sem ef til vill kveikja einhverjar hugmyndir:

Einhverjir gætu líka haft áhuga á að bera saman mánaðarlaun bankastjóra þriggja stóru bankanna á árunum 2004-2008.

Ágæt leið til að kynnast eiginleikum DataMarket er að skoða þessi sýnidæmi og jafnvel fylgja þeim skref fyrir skref.

Innskot HG: Hér er myndband sem sýnir eitt þessarra sýnidæma:

Hafðu samband!

Þar sem DataMarket er spánný lausn, vitum við að þið eigið eftir að rekast á lausa enda sem við höfum gleymt að hnýta, hluti sem betur mega fara og fá hugmyndir sem gætu nýst okkur við áframhaldandi þróun. Þess vegna hvetjum við ykkur til að taka þátt í umræðum á spjallborðinu okkar eða senda okkur línu á hjalp@datamarket.com

Ef þið hafið áhuga á að vita meira um starfsemina, skoða samstarfsfleti eða forvitnast um hvaðeina sem snýr að lausninni eða fyrirtækinu, þá er netfangið datamarket@datamarket.com.

Takk fyrir að taka þátt í þessu með okkur. Njóttu DataMarket!

Kveðjur,

DataMarket-hópurinn

Orðið.is: Lóð á vogarskálar Opinna Gagna

Í hádeginu í dag voru úrslitin í verðlaunasamkeppninni “Þú átt orðið” kynnt. Það voru fyrirtækið og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem stóðu fyrir þessari keppni.

Forsaga keppninnar

Forsagan er í stuttu máli sú að forritunarteymi Já og forveri þess – fyrirtækið Spurl – sem Já keypti fyrir nokkrum árum* hafa um árabil átt í samstarfi við Orðabók Háskólans (sem nú er hluti Árnastofnunar) á sviði tungutækni. Það samstarf hefur sérstaklega snúist um Beygingalýsingu íslensks nútímamáls, en það er gagnasafn sem inniheldur beygingarmyndir meira en 270 þúsund íslenskra orða.

Já hefur nýtt sér þetta safn með ýmsum hætti, t.d. til að tryggja að leit á vefnum Já.is finni íslensk nöfn, götuheiti, staði og fyrirtæki óháð því í hvaða beygingarmynd fyrirspurnir eru skrifaðar (ertu að leita að “Laugavegi” eða “Laugavegur“, “sýslumaður” eða “sýslumanninum”, o.s.frv.), við gerð tillagna þegar leitarorð eru rangt slegin inn “Leit að ‘laugvegur‘ skilaði engum niðurstöðum. Áttirðu við ‘Laugavegur’?” o.s.frv.

Já-fólk hefur því lengi vitað hvers konar verðmæti felast í þessum gögnum og við vorum nokkuð viss um að þau verðmæti kæmu fyrst almennilega í ljós þegar aðgangur að þessum gögnum væri opnaður frekar. Þannig kviknaði hugmyndin að því að Já myndi styrkja Árnastofnun og gera stofnuninni þannig kleift að aflétta þeirri gjaldtöku sem hingað til hefur verið á notkun þessarra gagna. Það varð úr, og til að hvetja hugmyndaríka einstaklinga til dáða var auk þess ákveðið að blása til þessarar verðlaunasamkeppni.

Opið aðgengi leiðir til nýsköpunar

Orðavindan

1. verðlaun í keppninni hlaut orðaleikurinn Orðavinda

Í stuttu máli tókst þessi tilraun vonum framar. 20 álitlegum verkefnum var skilað inn á tilsettum tíma. Það skemmtilegasta við þau var hversu fjölbreytt þau voru. Þannig náðu t.d. verðlaunaverkefnin fjögur allt frá nýrri málfræðilega áhugaverðri nálgun við orðflokkun, til tölvuleikja og allt frá gagnlegu tóli fyrir vefnotendur, til “startpakka” fyrir forritara sem vilja nýta sér þessi gögn til annarra góðra verka.

Og þetta var vonandi bara byrjunin. Ég er sannfærður um að miklu fleiri en þeir sem tóku þátt í samkeppninni munu nýta sér þessi gögn hér eftir með margvíslegum hætti og veit reyndar af nokkrum slíkum verkefnum sem eru í gangi.

Þessi afrakstur styrkti mig enn frekar í trúnni um það hversu mikil verðmæti er hægt að leysa úr læðingi með því að opna aðgengi að gagnasöfnum á vegum opinberra aðila. Fjársjóðir á borð við þennan liggja vannýttir og jafnvel ónotaðir hjá stofnunum og fyrirtækjum úti um allt land, en gætu orðið að nýjum vörum, nýjum tækifærum og jafnvel nýrri þekkingu ef aðferðafræði Opinna Gagna fengi að ráða.**

Vonandi verður þingsályktunartillagan góða sem samþykkt var í þá veru fyrir áramótin sem fyrst til þess að þessi mál komist á skrið hér á landi.

– – –

* Ég var stofnandi og einn af aðaleigendum Spurl á sínum tíma
** Gögnin í Beygingarlýsingunni eru reyndar strangt til tekið ekki að öllu leyti “opin” skv. skilgreiningu opinna gagna, en sannarlega opnari en þau voru.

Opin gögn á Alþingi

detectiveStundum verður manni að ósk sinni hraðar en við mætti búast.

Fyrir sjö vikum síðan birti ég bloggfærslu undir titlinum “Opin gögn og gagnsæi – yfirlýsing stjórnvalda“. Þar fór ég yfir þá vitundarvakningu sem er að verða varðandi aðgengi að opinberum gögnum og gagnasöfnum, hvernig þetta spilar inn í þá gagnsæisumræðu sem nú er í gangi og gerði mér að leik að skrifa drög að stuttri yfirlýsingu sem ég lagði til að hið opinbera gerði að sinni.

Núna á föstudaginn var lögð fram þingsályktunartillaga, sem er efnislega í stórum dráttum samhljóma þessum drögum mínum.

Tillagan er lögð fram af breiðum hópi þingmanna, en það er þó að öðrum ólöstuðum varaþingmaður VG – Davíð Stefánsson – sem hefur átt frumkvæðið af því að keyra þetta áfram. Davíð hefur verið mjög áhugasamur um þessi málefni a.m.k. frá því að hann sat fyrirlestur í Hugmyndaráðuneytinu í byrjun árs þar sem ég flutti erindi um opin gögn og gagnaframsetningu. Reyndar hafa pólitíkusar úr – ég held ég megi segja – öllum flokkum sýnt málinu mikinn skilning og áhuga, enda er þetta mál sem í raun ætti ekki að höfða betur til einnar stefnu í pólitík en annarar.

Nú verður gaman að fylgjast með þessu máli í meðförum þingsins og sjá hvort þetta leiði til lagabreytinga og breytts hugsanaháttar varðandi aðgengi að opinberum gögnum.

Ég mæli með að fólk lesi tillöguna. Þetta er heilt yfir aðgengilegur, góður og umfram allt gáfulegur texti.

Opin veðurgögn – skref í rétta átt

Á þriðjudaginn var stigið lítið en mikilvægt skref í átt að opnum gögnum á Íslandi.

Þá var nefnilega opnaður aðgangur almennings að Gagnatorgi veðurupplýsinga. Á þessu gagnatorgi má með einföldum hætti nálgast allar veðurathuganir Veðurstofu Íslands sem skráðar eru í gagnagrunna hennar. Þessar athuganir taka til u.þ.b. 200 veðurstöðva víðsvegar um landið og ná í sumum tilvikum allt aftur til ársins 1931.

Mörgum þeim sem e.t.v. eru ekki heitir áhugamenn um veðurfar og veðurupplýsingar kann að finnast lítið til koma, enda er virkni lausnarinnar tiltölulega afmörkuð og augljósar viðbætur sem hægt er að gera t.d. til að bæta myndræna framsetningu þessara veðurgagna og almennt upplýsingagildi. Lausninni var þó ekki ætlað að gera annað eða meira á þessu stigi málsins en að gera gögnin auðveldlega aðgengileg skólafólki, áhugamönnum um veðurfar og öðrum sem kunna að hafa gagn af þeim.

Mig langar samt að benda á að þetta er að mörgu leiti mjög merkilegt skref, því það setur það tóninn fyrir það sem koma skal í opnu gagnaaðgengi hér á landi.

Veðurgögnin sem þarna er opnað aðgengi að eru afurð áratuga starfs óeigingjarnra athugunarmanna, veðurfræðinga, tæknimanna og annara sem komið hafa að því að byggja upp öflugt kerfi veðurathugana hér á landi. Og frá og með þriðjudeginum skila þessi gögn sér jafnóðum inn í Gagnatorg veðurupplýsinga og eru samstundis aðgengileg landsmönnum öllum.

Þetta eru þau gögn sem liggja að baki þeim veðurspám, spálíkönum og veðurrannsóknum sem stundaðar hafa verið hér á landi; ómetanlegur grunnur að þekkingu, öryggi landsmanna og nýtingu okkar á gæðum lands og sjávar.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að opið aðgengi almennings, skólafólks, fræðasamfélags og einkafyrirtækja að þessum gögnum mun leiða af sér enn meiri þekkingu, fróðleik og verðmæti. Menntaskólanemendur munu nota Gagnatorgið til heimildaöflunar, grunnskólanemendur munu þar kynnast samhengi vindstyrks og vindáttar í sinni heimabyggð og af hverju afi segir að það komi alltaf þoka þegar hann er “að austan”. Flugáhugamenn munu finna flugvöllum sínum stað og ef til vill mun einhver áhugamaður um veðurfar gera merkilega uppgötvun um veðrið á Akureyri. Hver veit?

Líklega eiga merkilegustu áhrif þess að opna aðgengi að þessum gögnum eftir að vera eitthvað sem við höfum ekki hugmyndaflug til að ímynda okkur núna.

Ég tek heilshugar undir það sem Menntamálaráðherra sagði við opnun gagnatorgsins:

Opinber gögn sem safnað hefur verið fyrir opinbert fé eru fjársjóður sem enn er að stóru leiti óuppgötvaður. Veðurgögn eru aðeins eitt af ótal dæmum.

Opið gagnaaðgengi tilheyrir alls ekki einhverri ákveðinni stefnu í pólitík – þetta er eitt af þeim málum sem allir ættu að geta verið sammála um hvort sem þeir aðhyllast svokallaða hægri- eða vinstri-stefnu í pólitík. Óheft og jafnt aðgengi að upplýsingum er t.d. grundvallaratriði í frjálsum markaðsbúskap og þó ólíkar stefnur greini á um hve mikil umsvif ríkisins eigi að vera, held ég að fólk sé almennt sammála um að okkur beri að hámarka verðmæti þess sem unnið er fyrir opinbert fé.

Í opnara aðgengi að gögnum hins opinbera bíða fjölmörg tækifæri vísindamanna, skólafólks, nýsköpunar og atvinnulífs framtíðarinnar. Opnun Gagnatorgs veðurupplýsinga er bara lítið skref á þeirri braut, en ég er viss um að við munum á næstu mánuðum og árum sjá aðgengi opnað að fjölmörgum öðrum gagnasöfnum sem munu knýja nýsköpun og þekkingu og auka aðhald almennings og fjölmiðla að starfsemi jafnt hins opinbera sem einkaaðila.

Nú er undir áhugamönnum um veður, vísindi og opið gagnaaðgengi að sýna hvað í þeim – og veðurgögnunum – býr og sanna þar með hverju opið gagnaaðgengi getur áorkað.

– – –

Það eru fyrirtækin Reiknistofa í veðurfræði og DataMarket (sem undirritaður rekur ásamt öðrum) sem standa að þróun og rekstri Gagnatorgsins.

Opin gögn og gagnsæi – yfirlýsing stjórnvalda

transparencyFyrir nokkrum vikum skrifaði ég færslu á bloggsíðu DataMarket um það sem kalla mætti “vægðarlaust gagnsæi“. Færslan gengur í stuttu máli út á það að leiðin til að endurreisa traust á Íslandi – jafnt inn á við sem út á við – felist í gagnsæi og heiðarleika á áður óþekktu stigi – að sýna svo ekki verður um villst að það sé ekkert að fela.

Færslan er skrifuð á ensku og hefur vakið dálitla athygli. Hún leiddi m.a. af sér viðtal í veftímaritinu Frontier Economy þar sem farið er dýpra í saumana á sumum þeim hugmyndum sem þar voru settar fram.

Ég hef líka skrifað og beitt mér fyrir opnum gögnum í töluverðan tíma. Opin gögn snúast í stuttu máli um það að öll gögn sem safnað er eða útbúin hjá opinberum aðilum eigi að vera opin og aðgengileg öllum, án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars, t.d. af persónuverndar- eða öryggissjónarmiðum. Á vefnum opingogn.net má nálgast drög að íslenskri þýðingu skilgreiningar á opnum gögnum.

Í raun má segja að opin gögn og vægðarlaust gagnsæi séu tvær hliðar á sama málinu:

  • Opin gögn snúast um meðferð gagna í umsjá hins opinbera.
  • Vægðarlaust gagnsæi snýst hins um það hvort e.t.v. sé ástæða til að safna eða framreiða einhver gögn til viðbótar við það sem þegar er í þeim tilgangi sérstaklega að upplýsa um framvindu eða stöðu mála.

obama-kundraUm þessar mundir gengur yfir heiminn vitundarvakning varðandi mikilvægi opinna gagna og þá sérstaklega “formfastra gagna” (e. structured data). Mest áberandi er þessi vakning í Bandaríkjunum, en þegar á fyrstu dögum í embætti gaf Obama út skýr fyrirmæli um það að opinberar stofnanir skyldu sem allra fyrst gera gagnasöfn sín aðgengileg almenningi á vefnum, án hindrana. Hann réð jafnframt í fyrsta skipti til starfa upplýsingatæknistjóra (CIO) við stjórnina – sá heitir Vivek Kundra og hefur lyft grettistaki á stuttum tíma. Helsta birtingarmynd þess er vefsvæðið Data.gov, þar sem nú má nálgast yfir 100 þúsund gagnasöfn frá hundruðum opinberra stofnanna. Þessi gögn hafa svo bæði fjölmiðlar, fyrirtæki og áhugasamir einstaklingar notað við afar áhugaverð verkefni sem opna ný tækifæri, auka skilning á flóknum þáttum samfélagsins og veita hinu opinbera aðhald.

berners-leeÍ Bretlandi hafa báðir stóru flokkarnir markað skýra stefnu í þessa veru. Stjórnin hefur þar að auki fengið til liðs við sig engan annan en Tim Berners-Lee. Berners-Lee hefur verið kallaður “faðir vefsins” og er vel að þeim titli kominn enda bjó hann til HTML staðalinn sem allar vefsíður og þar með vefurinn allur byggir á. Berners-Lee hefur í seinni tíð verið ötull talsmaður opinna gagna og hefur sennilega betri skilning á því en flestir hversu verðmætt opið aðgengi og samtengingar gagna úr ólíkum áttum getur verið.

roslingAð lokum má nefna sænska prófessorinn Hans Rosling, sem hefur með líflegri framsetningu gagna vakið marga – ekki síst alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu Þjóðirnar, OECD og jafnvel Evrópusambandið – til umhugsunar og góðra verka í því að gera sín gögn aðgengilegari en verið hefur.

Fáir hafa þó meiri þörf fyrir að meðtaka þessa hugmyndafræði en einmitt trausti rúnir Íslendingar. Ég veit fyrir víst að víða er vilji og sums staðar skilningur fyrir þessum málum, en mörg nýleg dæmi sýna mikilvægi þess að ná almennum vilja, skilningi og aðgerðum á þessu máli til þess að við getum byggt hér upp heiðarlegt samfélag trausts og samstöðu.

Í ríkjandi kerfi er litið svo á að öll gögn séu trúnaðarmál nema sérstök ástæða sé til að opna þau. Þessum hugsanahætti þarf að snúa við. Gögn opinberra aðila eiga hér eftir að vera opin nema sérstök ástæða sé til að vefja þau trúnaði.

Ég gerði mér því að leik að skrifa drög að örstuttri yfirlýsingu sem ég legg hér með til að ríkisstjórnin (og reyndar aðrir opinberir aðilar, s.s. sveitarfélög) geri að sinni og fylgi svo eftir með aðgerðum:

Öll gögn í umsjón opinberra aðila skulu hér eftir vera opin og aðgengileg almenningi án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars. Skilgreindar verða skýrar viðmiðunarreglur um hvað teljast ástæður til hindrana með tilliti til persónuverndar, öryggissjónarmiða og annara ríkari hagsmuna. Undantekningar skulu vera vel rökstuddar og skal ekki hindra aðgang meira en til að mæta þeim rökum.

Allar stofnanir hins opinbera skulu þegar í stað birta skrá yfir þau gögn og gagnasöfn sem þær ráða yfir og gera gögn þeirra aðgengileg á því formi sem þau eru nú á. Jafnframt skal skrá gagnasöfn sem ekki er opnaður aðgangur að, tilgreina efnistök þeirra, ástæður fyrir hindrunum á aðgengi og hvenær þeim hindrunum verði aflétt. Til lengri tíma skal leitast við að gera gögnin aðgengileg á stöðluðu, tölvutæku formi sem tekur tillit til allra þátta sem kveðið er á um í skilgreiningu opinna gagna.

Stofnanir skulu einnig gera úttekt á því hvort starfsemi þeirra gefi ástæðu til að safna sérstaklega gögnum umfram það sem þegar er gert í þeim tilgangi að auka gagnsæi á starfsemi sína eða á samfélagið almennt.

Það er ekki flókið að gefa þessa yfirlýsingu, ekki dýrt að fylgja henni eftir og reyndar að miklu leiti þegar kveðið á um þessa hluti í upplýsingalögum og annari stefnumörkun sem þegar hefur átt sér stað. Núna er bara ríkari ástæða en nokkru sinni til að láta verkin tala og endurbyggja þannig traustið sem tapaðist.