Opin veðurgögn – skref í rétta átt

Á þriðjudaginn var stigið lítið en mikilvægt skref í átt að opnum gögnum á Íslandi.

Þá var nefnilega opnaður aðgangur almennings að Gagnatorgi veðurupplýsinga. Á þessu gagnatorgi má með einföldum hætti nálgast allar veðurathuganir Veðurstofu Íslands sem skráðar eru í gagnagrunna hennar. Þessar athuganir taka til u.þ.b. 200 veðurstöðva víðsvegar um landið og ná í sumum tilvikum allt aftur til ársins 1931.

Mörgum þeim sem e.t.v. eru ekki heitir áhugamenn um veðurfar og veðurupplýsingar kann að finnast lítið til koma, enda er virkni lausnarinnar tiltölulega afmörkuð og augljósar viðbætur sem hægt er að gera t.d. til að bæta myndræna framsetningu þessara veðurgagna og almennt upplýsingagildi. Lausninni var þó ekki ætlað að gera annað eða meira á þessu stigi málsins en að gera gögnin auðveldlega aðgengileg skólafólki, áhugamönnum um veðurfar og öðrum sem kunna að hafa gagn af þeim.

Mig langar samt að benda á að þetta er að mörgu leiti mjög merkilegt skref, því það setur það tóninn fyrir það sem koma skal í opnu gagnaaðgengi hér á landi.

Veðurgögnin sem þarna er opnað aðgengi að eru afurð áratuga starfs óeigingjarnra athugunarmanna, veðurfræðinga, tæknimanna og annara sem komið hafa að því að byggja upp öflugt kerfi veðurathugana hér á landi. Og frá og með þriðjudeginum skila þessi gögn sér jafnóðum inn í Gagnatorg veðurupplýsinga og eru samstundis aðgengileg landsmönnum öllum.

Þetta eru þau gögn sem liggja að baki þeim veðurspám, spálíkönum og veðurrannsóknum sem stundaðar hafa verið hér á landi; ómetanlegur grunnur að þekkingu, öryggi landsmanna og nýtingu okkar á gæðum lands og sjávar.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að opið aðgengi almennings, skólafólks, fræðasamfélags og einkafyrirtækja að þessum gögnum mun leiða af sér enn meiri þekkingu, fróðleik og verðmæti. Menntaskólanemendur munu nota Gagnatorgið til heimildaöflunar, grunnskólanemendur munu þar kynnast samhengi vindstyrks og vindáttar í sinni heimabyggð og af hverju afi segir að það komi alltaf þoka þegar hann er “að austan”. Flugáhugamenn munu finna flugvöllum sínum stað og ef til vill mun einhver áhugamaður um veðurfar gera merkilega uppgötvun um veðrið á Akureyri. Hver veit?

Líklega eiga merkilegustu áhrif þess að opna aðgengi að þessum gögnum eftir að vera eitthvað sem við höfum ekki hugmyndaflug til að ímynda okkur núna.

Ég tek heilshugar undir það sem Menntamálaráðherra sagði við opnun gagnatorgsins:

Opinber gögn sem safnað hefur verið fyrir opinbert fé eru fjársjóður sem enn er að stóru leiti óuppgötvaður. Veðurgögn eru aðeins eitt af ótal dæmum.

Opið gagnaaðgengi tilheyrir alls ekki einhverri ákveðinni stefnu í pólitík – þetta er eitt af þeim málum sem allir ættu að geta verið sammála um hvort sem þeir aðhyllast svokallaða hægri- eða vinstri-stefnu í pólitík. Óheft og jafnt aðgengi að upplýsingum er t.d. grundvallaratriði í frjálsum markaðsbúskap og þó ólíkar stefnur greini á um hve mikil umsvif ríkisins eigi að vera, held ég að fólk sé almennt sammála um að okkur beri að hámarka verðmæti þess sem unnið er fyrir opinbert fé.

Í opnara aðgengi að gögnum hins opinbera bíða fjölmörg tækifæri vísindamanna, skólafólks, nýsköpunar og atvinnulífs framtíðarinnar. Opnun Gagnatorgs veðurupplýsinga er bara lítið skref á þeirri braut, en ég er viss um að við munum á næstu mánuðum og árum sjá aðgengi opnað að fjölmörgum öðrum gagnasöfnum sem munu knýja nýsköpun og þekkingu og auka aðhald almennings og fjölmiðla að starfsemi jafnt hins opinbera sem einkaaðila.

Nú er undir áhugamönnum um veður, vísindi og opið gagnaaðgengi að sýna hvað í þeim – og veðurgögnunum – býr og sanna þar með hverju opið gagnaaðgengi getur áorkað.

– – –

Það eru fyrirtækin Reiknistofa í veðurfræði og DataMarket (sem undirritaður rekur ásamt öðrum) sem standa að þróun og rekstri Gagnatorgsins.

One comment

  1. Heill og sæll Hjálmar, já ég get svo sannarlega tekið undir þetta með þér. Ég reyndi að koma þessari hugsun að þegar ég var á Veðurstofu Íslands fyrir 16 árum, en þar er langt um liðið og engar pólitískar forsendur, þrátt fyrir að tæknilegar forsendur hafi þá verið í sjónmáli. Við gengum svo langt að kæra VÍ fyrir samkeppnisstofnun, en úrskurður hennar dugði ekki til. En það var Ísland í þádaga. Vona að þessi viðburður marki tímamót nýrra tíma og ég er alveg sammála þér að þetta er merkilegur viðburður og í raun þáttaskil.
    Með góðri kveðju og okkur til hamingju með daginn,
    Björn Erlingsson

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s