íslenska

Delicious Library: Magnað tól!

Var að upplifa eitt af þessum “þetta er ótrúlegt” nörda-mómentum rétt í þessu.

Delicious Library heitir forrit sem hjálpar fólki að halda utan um bókasafnið sitt (og reyndar kvikmyndir, geisladiska og tölvuleiki líka).

Ég heyrði fyrst um þetta kerfi fyrir örugglega bráðum 2 árum, en þar sem þetta er bara fyrir Makka gat ég ekki prufuekið því. Mér hraus líka hálfpartinn hugur við að slá inn ISBN bókanúmerin á öllum 40 hillumetrunum okkar til að koma þeim inn í kerfið.

Ákvað svo að prófa græjuna loksins núna eftir að vinnufélagi minn benti mér á stórkostlegan fídus í græjunni – þeir nota vefmyndavél (sem í tilfelli Makkans er innbyggð) til að skanna strikamerkin á bókunum! Og þetta bara virkar. Kerfið flettir svo upp öllum upplýsingum um bókina á Amazon og skráir sjálfvirkt inn.

Ég tók nokkrar erlendar bækur af handahófi úr safninu og þær fundust allar. Því miður eru ekki upplýsingar um íslenskar bækur á Amazon, en ég slæ þá bara inn þá 10 hillumetrana 😉

Er ekki tæknin samt stórkostleg?

– – –

P.S. Smá tips til þeirra sem ætla að prófa þetta. Það þarf svolítið góða birtu til myndavélin grípi strikamerkið og það á að snúa þvert á rauðu rendurnar.

Tækni og vit: Þriðja kynslóðin kemur

Greinin sem fylgir er sú síðari af tveimur greinum sem ég skrifaði fyrir Tækni og vit blaðið sem dreift var með Viðskiptablaðinu á föstudaginn. Sýningin Tækni og vit hefst á fimmtudaginn og lofar góðu.


Um þessar mundir er umsóknarfrestur rekstrarleyfa fyrir þriðju kynslóðar farsímanet – eða 3G – hérlendis að renna út. Allt að fjórum aðilum verður úthlutað leyfum og útlit er fyrir að a.m.k. þrjú fyrirtæki muni sækja um slík leyfi: Síminn, Vodafone og nýtt félag á vegum Björgólfs Thors Björgólfssonar sem gengur undir vinnuheitinu Nova (sjá vef Novators).

Þriðja kynslóðin er á flestan hátt eðlilegt framhald á þróun fjarskiptaneta undanfarin ár. Þriðju kynslóðar farsímanet taka umfram allt við því hlutverki sem núverandi farsímanet (sem oft er vísað til sem annarar eða 2,5 kynslóðar neta) hafa, þ.e. að flytja tal og SMS skilaboð. Líklega munu fæstir notendur verða varir við nokkurn mun á þessum þjónustuþáttum. Helsta breytingin með tilkomu þriðju kynslóðarinnar felst í auknum gagnaflutningshraða. Fræðilega eiga nýjustu þriðju kynslóðar kerfi að geta flutt álíka mikið gagnamagn og bestu ADSL tengingar sem í boði eru í dag, en ýmsir umhverfisþættir, auk þeirrar staðreyndar að þessi bandvídd skiptist á milli allra notenda í sama sendireit (þeirra sem tengjast sama farsímasendi), gerir það að verkum að raunhæft er að tala um að notandi nái etv. 1 mbit/s tengingu – sem verður þó að teljast algott. Algengar heimatengingar fyrir 2-3 árum náðu varla þessum hraða.

Samhliða þessum aukna hraða má búast við að farsímafyrirtækin leggi aukna áherslu á hverskyns gagnaþjónustu. Margir vita reyndar varla af þeim möguleikum sem í boði eru í dag. Í farsímanum er nefnilega hægt að lesa fréttir, nálgast hvers kyns upplýsingar og afþreyingu með tiltölulega einföldum hætti og hefur reyndar verið hægt um árabil. Hafiði ekki þegar prófað þetta, skora ég á ykkur að finna það sem heitir “Síminn WAP” eða “Vodafone Live” í símunum ykkar (eftir því hjá hvoru símafyrirtækinu þið eruð). Á mörgum símum er sérstakur hnappur með mynd af hnetti eða stafnum “i” sem opnar beint netgátt viðkomandi farsímafyrirtækis. Í öðrum símum gætuð þið þurft að leita undir einhverju sem heitir t.d. “Internet services”. Þegar þið einu sinni hafið fundið þetta verðið þið sjálfsagt mörg hissa hversu margt er í boði þarna: Fréttir af mbl.is, símaskráruppflettingar frá Já, Google leit, einfaldir leikir, upplýsingar um dagskrá kvikmyndahúsa og sjónvarpsstöðva, brandarar, teiknimyndasögur og margt fleira.

Þetta gefur smjörþefinn af sumu því sem ætla má að verði í boði með tilkomu þriðju kynslóðarinnar, upplifunin mun bara færast nær því sem við þekkjum á Vefnum í tölvunum okkar. Betri skjáir og meiri gagnaflutningshraði gerir upplifunina betri og líflegri með meiri grafík, styttri svartíma og nýjum möguleikum, t.d. aukinni áherslu á myndefni og vídeóklippur. Efnið sem þið nálgist úr símanum er í rauninni allt á Vefnum, í mörgum tilfellum bara aðlagað að litlum skjám og öðrum takmörkunum og í sumum tilfellum möguleikum sem farsíminn býður upp á. Úr nettengum farsíma er hægt að sækja hvaða vefsíðu sem vera skal – spurningin er bara hversu vel hún kemur út í farsímanum – nokkuð sem vefhönnuðir gefa sífellt meiri gaum.

En þriðja kynslóðin opnar líka aðra möguleika. Má þar nefna niðurhal á tónlist, útsendingar á sjónvarpsefni og myndsímtöl.

Myndsímtölin hafa verið eins konar tákngerving þriðju kynslóðarinnar – og já – með tilkomu þriðju kynslóðar þjónustu verða myndsímtöl sjálfkrafa möguleg. Notendur munu þá ekki bara geta heyrt í viðmælandanum heldur líka séð hann, eða öllu heldur “frá honum”. Reynslan erlendis hefur sýnt að myndsímtöl eru lítið notuð til beinna samtala eða myndfunda, en meira til að sýna viðmælandanum það sem fram fer í kringum mann – t.d. flotta kjólinn í búðinni eða stemmninguna á tónleikunum. Þetta er einn af þessum möguleikum sem erfitt er að spá fyrir um notkunina á og það sem notendur munu gera með myndsímtölum á vafalaust eftir að koma mönnum á óvart.

Tónlistin er annar áhugaverður möguleiki. Farsímaframleiðendur sjá fyrir sér að síminn taki smám saman yfir hlutverk sérhæfðra MP3 spilara – að fólk muni henda iPoddinum og nota símann sinn í staðinn. Apple deilir reyndar þessari framtíðarsýn eins og sjá má á iPhone símanum sem væntanlegur er síðar á þessu ári (rétt samt að taka fram að fyrstu gerðir hans munu ekki búa yfir 3G tengingum). Með þriðju kynslóðinni verður streymandi tónlist og niðurhal á lögum í síma mjög þægilegt. Þarna gætum við séð símafyrirtækin bjóða upp á hluti eins og aðgang að tónlistarsafni í áskrift, eða kaup á stökum lögum til niðurhals í símann.

Flutningsgetan í þriðju kynslóðar kerfunum er líka meiri en nóg til að dreifa streymandi myndefni. Skjáirnir eru vissulega ekki stórir, en duga í mörgum tilfellum til. Sumt efni þarf ekki stóra skjái og í öðrum tilfellum hefur fólk ekki tök á að komast í “hefðbundið” sjónvarp og þá getur bjargað deginum að ná útsendingunni í farsímanum – við getum notað íþróttaútsendingar sem handahófskennt dæmi. Notkun á farsímasjónvarpi hefur komið nokkuð á óvart þar sem slíkt hefur verið sett í gagnið erlendis og er eðlilega mjög frábrugðið notkun á hefðbundnu sjónvarpi bæði í efnisvali notenda og notkunarmynstri.

Hvað af ofantöldu íslensku farsímafélögin munu bjóða upp á verður tíminn að leiða í ljós og vel má vera að þau lumi á einhverju í pokahorninu sem ekki hefur verið talið upp hér. Við búum að því að þriðju kynslóðar þjónusta hefur nú verið rekin um nokkura ára skeið erlendis og þar hefur orðið til reynsla sem nýtast mun hér. Fæst þeirra erlendu fyrirtækja sem óðu af stað í þriðju kynslóðina í “bólunni” munu nokkurntíman ná að greiða niður fjárfestingar í tækni, þróun og leyfum með þriðju kynslóðar þjónustu einni saman og verða því að sækja þá peninga í aðra vasa. Hér búum við að því að leyfisgjöldin verða hófsöm og tæknin er orðin allvel þroskuð nú þegar farið er af stað. Það verður því spennandi að sjá hvaða nýju þjónustuþættir munu standa okkur til boða hér á næstu misserum.

Þriðja kynslóðin er skref í áttina að heimi þar sem tölvurnar okkar og tækin eru alltaf tengd netinu, alls staðar. Þetta er samt bara þróun, en engin bylting – á margan hátt það sama og GSM var fyrir NMT. Síminn verður áfram umfram allt tæki til að tala í, en tækin taka á sig aðra mynd, nýjir möguleikar opnast og verða smám saman meira notaðir. Svo heldur þróunin áfram – fjórða kynslóðin er þegar komin af teikniborðinu og sú fimmta á það.

Tækni og vit: Framtíð Netsins

Greinin sem fylgir er önnur af tveimur greinum sem ég skrifaði fyrir Tækni og vit blaðið sem dreift var með Viðskiptablaðinu á föstudaginn. Sýningin Tækni og vit hefst á fimmtudaginn og lofar góðu.


Á 10 árum hefur Netið orðið svo órjúfanlegur þáttur af samfélaginu, að það liggur við að spádómar um framtíð þess séu spádómar um framtíðina í heild sinni. Einhverjum kann að finnast þetta djúpt í árinni tekið, en sjáiði bara hverju Netið hefur áorkað á sínum stutta líftíma. Það er Netið sem veldur því að bankarnir hafa lokað útibúum í gríð og erg á síðustu árum. Það er Netið sem – að minnsta kosti að hluta til – gerir þeim kleift að opna í álíka erg og gríð ýmiskonar þjónustu erlendis. Það er Netið sem veldur flestum afsögnum stjórmálamanna vegna spillingar og það er Netið sem hefur skýtur efnilegum tónlistarmönnum upp á stjörnuhimininn.

Og Netið hefur ekki bara áhrif á okkur vesturlandabúana sem notum það dags daglega, heldur í auknum mæli á heimsbyggðina alla. Heimurinn verður gegnsærri með hjálp Netsins. Það er erfiðara að leyna hörmungum stríða og hungursneyða, og auðveldara að komast í samband við fólk sem upplifir fréttirnar sjálft. Það er líka auðveldara fyrir hryðjuverkamenn að skipuleggja sig án þess að eftir því sé tekið sem og fyrir misheiðarleg stjórnvöld og félagasamtök að dreifa villandi upplýsingum til að breiða yfir vísindalegar staðreyndir.

Samt eru innan við tíu ár síðan flest okkar heyrðu fyrst talað um Netið. Ímyndið ykkur þau áhrif sem Netið mun hafa á næstu 10 ef þróunin verður viðlíka hröð.

Þær þjóðfélagsbreytingar sem Netið mun hafa í för með sér á komandi árum get ég ómögulega spáð um, en þykist hafa nokkra innsýn í þá tæknilegu þróun sem framundan er. Oft er reyndar talað um það að við nördarnir ofmetum það sem gerist á tveimur árum, en vanmetum það sem gerist á tíu – þannig að við skulum miða við tíu. Þá verða allir búnir að gleyma þessari grein hvort sem er 🙂

Eftir tíu ár verða öll gögnin þín geymd á Netinu. Það er auðvitað fásinna að stór hluti tölvunotenda í dag skuli treysta einum hörðum diski fyrir mestöllu lífi sínu – bæði einkalífi og vinnu. Allir harðir diskar bila á endanum – spurningin er bara hvenær. Að öllum líkindum verða það fjarskiptafyrirtæki sem munu bjóða mönnum ótakmarkað geymslupláss með netaðganginum sínum. Annar möguleiki er sá að vefrisarnir á borð við Google og Yahoo! geri það. Hin raunverulega geymsla á gögnunum verður dreifð bæði í tíma og rúmi þannig á þann hátt að möguleikinn á að þau muni nokkurn tíman týnast er fræðilegur í versta falli. Gögnin verða líka “þægari” en hingað til hefur verið. Hvern langar ekki að geyma alla tengiliðina sína á einum stað og svo séu þeir aðgengilegir í tölvupóstinum, í símanum og líka í nýja símanum þegar þeim gamla hafi verið stolið. Sama gildir um dagbókina, minnispunktana og tölvupóstinn. Allt aðgengilegt hvaðan sem er og hægt að leita í öllu heila klabbinu á örskotsstundu.

Ekki nóg með gögnin heldur verða flest forritin sem við notum keyrð á Vefnum. Vafrinn tekur að möru leyti við hlutverki stýrikerfisins. Í dag glíma menn við að skrifa hugbúnað fyrir ákveðin stýrikerfi þannig að sem flestir geti notað þau. En vandinn er sá að flóra stýrikerfanna fer vaxandi. Fyrir 5 árum mátti nokkurnvegin treysta því að “venjulegur” notandi keyrði Windows. Í dag eiga bæði Mac OS og m.a.s. smám saman Linux auknum vinsældum að fagna í þeirra hópi og það er þróun sem er bara rétt að byrja. Á sama tíma verða símar og lófatölvur sífellt öflugari og þannig bætist enn við stýrikerfaflóruna. Eina leiðin til að skrifa forrit sem ná til allra þessarra notenda er að skrifa þau fyrir Vefinn og styðjast þá eins og mögulegt er við vefstaðla sem allir Vafrarnir skilja og styðja. Ritvinnslan, töflureiknirinn og glærukynningarnar munu öll fara fram í gegnum vafra. Þessu fylgir að auki sá kostur að vefforrit vinna í eðli sínu með gögn sem vistuð eru á Netinu og þannig samræmist þetta spádómnum á undan.

Dæmi um vefútfærslur algengra forrita
Ritvinnsla: Google docs
Töflureiknir: Google docs
Einfaldur gagnagrunnur: DabbleDB
Teikniforrit: Pixenate

Ástæðan fyrir því að ég er svona sannfærður um þessa framtíðarsýn er að allt ofantalið er til í dag (sjá dæmi í kassa til hliðar). Viðfangsefni næstu 10 ára er að gera þetta nógu einfalt, skiljanlegt og aðgengilegt til að það gagnist venjulegu fólki – og það er ærið verk.

Einn af lyklunum að þessari framtíðarsýn er hröð og áreiðanleg nettenging, hvar og hvenær sem er. Líklega verða öll tæki undantekningarlaust þráðlaus eftir 10 ár. Ekki svo að skilja að nettenging heimilanna verður áfram um símalínur og þó í auknum mæli ljósleiðara, en innan veggja heimilisins verður svo þráðlaust net – þetta er nú svo algengt nú þegar að það tekur því varla að spá því. Úti á víðavangi verður líka hægt að fá stórgóða tengingu. Ég ætla að skjóta á að meira að segja í dreifbýli verði hægt að fá þráðlausa nettengingu sem jafnast á við bestu ADSL tengingar sem í boði eru í dag og í þéttbýlinu eitthvað miklu betra. Spurningin er bara hversu mikinn hraða höfum við þörf fyrir?

Fyrir tæpum 4 árum velti ég þessari spurningu fyrir mér í tengslum við nettengingar heimilanna. Þá reiknaði ég út að jafnvel þó allir fjölskyldumeðlimir væru að horfa á sitt eigið háskerpusjónvarp, hver í sínu horni og öll sú önnur notkun sem ég gat á þeim tíma ímyndað mér – væri erfitt að sjá fyrir að eitt heimili þyrfti meira en 50mbit/s hraða. Eða um það bil 4 sinnum meiri hraða en boðið er upp á í ADSL tengingum í dag. Það sem ég hafði ekki áttað mig á þá var sú framtíðarsýn sem sett er fram hér að ofan. Þó svo að það sé nokkuð gefið að allt það afþreyingarefni sem okkur mun standa til boða eftir 10 ár muni koma um Netið með einum eða öðrum hætti – þá er það ekki það sem setur kröfurnar um hraða. Það er ekki stanslaus straumur af háskerpu myndefni sem mun stjórna þörfinni, heldur það að geta unnið með gögn – og þá oft þung gögn – á örskotshraða yfir Netið. Notandi myndvinnsluforrits mun ekki sætta sig við að vefforritið hans vinni nokkuð hægar en forritið sem hann áður keyrði á vélinni sinni, hvað þá ef um hljóð- eða kvikmyndavinnslu er að ræða.

Netið eftir 10 ár þarf því að ráða við gríðarlegan hraða, en oft bara í mjög stutta stund, t.d. akkúrat á meðan mynd er opnuð. Þetta krefst þess líka að hraðinn verði mikill í báðar áttir, en staðreyndin er sú að á flestum nettengingum dagsins í dag er hraðinn inn á heimilið margfaldur á við það sem hann er frá því – enda þörfin á flutningum í þá áttina takmörkuð.

Öðru hverju skjóta upp kollinum fréttir um að Netið sé á vonarvöl, það muni hrynja og því þurfi að hefjast handa strax við að þróa “nýtt Internet”. Þetta hjálpar örugglega til við að fá rannsóknarstyrki, en er í sjálfu sér fjarstæða. Þó margt mætti auðvitað betur fara á Netinu, þá hefur það staðist allar raunir hingað til og mun halda áfram að þróast og yfirstíga nýjar hindranir. Auðvitað munu koma fram nýjungar og betrumbætur, en notendur munu ekki þurfa að tengjast “Netinu 2”. Úrbæturnar verða ósýnilegar notendum og gerast að mestu í kyrrþey rétt eins og breytingarnar sem hafa fært Netið frá því að vera áhugamál fárra þúsunda manna fyrir 15 árum yfir í það að sinna ótrúlegustu þörfum og óskum stórs hluta mannkyns í dag.

Reynslan af Prius

Nú erum við búin að eiga Priusinn í bráðum fimm mánuði.

Þó að þetta séu orðnir furðu algengir bílar, er fólk oft að spyrja okkur út í reynsluna af honum. Hér kemur hún í hnotskurn.

Stutta útgáfan er að reynslan er mjög góð. Þetta er bíll og hagar sér að öllu leyti sem slíkur. Krafturinn er sambærilegur við aðra meðal-fólksbíla sem við höfum átt, jafnvel ívíð meiri. Plássið í honum er fínt og hann kemur manni á milli staða. Til þess eru jú bílar.

Nú er líka komin reynsla á þetta með eyðsluna. Fyrsta athugasemdin þar er að við erum á margan hátt óheppilegir Prius eigendur. Við keyrum 6-7 mínútur í og úr vinnu og á þeim tíma er bíllinn ennþá að hitna – rafmagnsvélin fer aldrei almennilega að taka við þar sem miðstöðin er enn að hitna og líklega einhverjar olíur og svona líka. Þetta er sérstaklega áberandi þegar kalt er í veðri og hitastigið hefur greinileg, bein áhrif á eyðsluna.

Meðaleyðslan okkar er þessvegna í kringum 8,5 lítrar á hundraðið – samanborið við 11,0-11,5 á Corollunni í svipuðum akstri. Þegar maður ekur hins vegar í lengri tíma eða er kominn út á þjóðvegina er sagan allt önnur. Meðaleyðslan þegar Priusinn er búinn að vera í gangi í 10 mínútur eða meira er 5,0-5,5 lítrar á hundraðið nokkurnveginn sama hvar er. Það koma alveg kaflar þar sem maður ekur vel undir 5 lítrum á hundraðið í venjulegum þjóðvegaakstri. Þetta er sambærilegt við það sem gefið er upp fyrir allra sparneytnustu díselbílana, en þeir eru yfirleitt mun minni, auk þess sem uppgefin eyðsla fyrir bíla er oftast í lægri kantinum.

Annað er bara eins og það á að vera. Það hefur ekkert bilað og yfirhöfuð ekkert vesen. Það eina sem er er að fólk hefur einhverra hluta vegna verið iðnara við að keyra á okkur en áður – þannig að hann er núna á réttingaverkstæði. Ég held að maður geti ekki kennt tvinn-vélinni um það 🙂

Koltvísýringsverksmiðjan í Reyðarfirði

Hugleiðing:

  • Kexverksmiðjur framleiða mest af kexi
  • Bílaverksmiðjur framleiða mest af bílum
  • Álverksmiðjur framleiða mest af … koltvísýringi

Ættu þær þá ekki að heita koltvísýringsverksmiðjur? 😉

– – –

Lægsta talan sem ég fann var 1,2 tonn af CO2 per tonn af áli (síða 5).

Alcoa sagði við Herald Tribune að ál… – eh – koltvísýringsverksmiðjan á Reyðarfirði framleidi 1,8 tonn af CO2 per tonn af áli.

Því skal hins vegar haldið til haga að álverksmiðja sem knúin er kolaorku framleiðir hvorki meira né minna en 18-20 tonn af CO2 per tonn af áli!

Nú verður þetta allt til á einum pínulitlum punkti í kringum rafskautin í kerjunum – er ekki hægt að safna koltvísýringnum saman og binda hann í nýtanlegt form, t.d. svipað og gervidísel?

Makki og ég

Ég er opinberlega orðinn Makka-maður. Búinn að vera að dandalast með MacBook Pro í nokkra mánuði og kunnað því vel, en skipti endanlega í gær. Makkinn er núna mín aðaltölva. Það verður líklega kveikt á Pésa í nokkra daga til viðbótar meðan ég er að sækja það sem ég er smám saman að átta mig á að ég hef gleymt þeim megin, en svo er það bara bless.

Það eru nokkrar ástæður fyrir skiptunum:

  • Apple er á mikilli siglingu og ég hef svo sem ekkert verið feiminn við að lýsa aðdáun minni á þeim sem fyrirtæki. Þeir fóru frá því að vera nærri gjaldþrota ’99 og yfir í það að vera stórgróðafyrirtæki síðustu ár – og breyttu tónlistariðnaðnum í leiðinni með iPod og iTunes.
  • Tölvurnar þeirra hafa oftast verið “solid”, en þessi mögru ár fældu marga frá því að kaupa vélarnar þeirra. Hver vildi sitja uppi með svona fjárfestingu ef fyrirtækið rúllar svo? Þetta olli því svo að fáir skrifuðu hugbúnað fyrir Makkann og það varð svo aftur til þess að færri höfðu áhuga. Nú er öldin önnur. Ekki nóg með það að hægt sé að fá nánast allan hugbúnað sem hugurinn girnist fyrir Makkann (og meira til) heldur getur maður á einfaldan hátt keyrt Windows samhliða Mac OS X og þannig öll forrit sem bara eru til fyrir Windows.
  • Verðið á Makkanum er nú orðið svipað og fyrir sambærilegar vélar frá helstu PC framleiðendunum. Líka hérna heima. Ef þið trúið því ekki – beriði saman t.d. verðskrána fyrir MacBook fartölvurnar (síðu 3 og 4) hjá Apple á Íslandi við ThinkPad vélarnar hjá Nýherja. Að vissu leiti er verið að bera saman epli (pun intended) og appelsínur, en IBM hefur síður en svo vinninginn.
  • Svo er náttúrulega allt Apple dótið svo fallegt og talar svo skemmtilega saman. iPoddinn er besti vinur MacBook og svo kemur AppleTV í þessum mánuði og iPhone þegar líður á árið…

Ég skal samt segja ykkur hver stærsti sölupunkturinn var. Það þarf oft ekki meira til. Makkinn er alltaf og undantekningarlaust tilbúinn til vinnslu um leið og ég opna vélina. Bara opna og – BÚMM – byrja að skrifa. Bæði Dell og HP vélarnar sem ég hef verið að nota síðustu 2 ár áttu það til að taka óratíma í “Resuming Windows” – sem síðan verður til þess að maður tekur þær síður með á fundi til að taka niður punkta og svona.

Ég er allavegana hæstánægður með gripinn enn sem komið er. Svo er bara að sjá hvaða veggi maður hleypur á núna þegar maður fer að nota þetta fyrir alvöru.

P.S. Þetta er ekki tómur dans á rósum: Stóra vandamálið framan af er að styðja ekki á epli-Q lyklasamsetninguna þegar maður vill skrifa @-merkið. Epli-Q lokar nefnilega umsvifalaust því forriti sem verið er að vinna í en það vill svo óskemmtilega til að eplis-takkinn er á sama stað og AltGr á makkanum (AltGr-Q er @ á Windows eins og menn vita). Tvö grá hár þar…

Af bjálkum og flísum

Menn hafa verið að hneykslast á Ólafi Ólafssyni fyrir að eyða tugum milljóna í afmælisveislu sem hann hélt í gærkvöldi. Hneykslunin á því hefur jafnvel skyggt á gjöf hans og konu hans, Ingibjörgu Kristjánsdóttur, upp á milljarð til styrktar menningarmálum og uppbyggingu í þróunarlöndum í tilefni af sama afmæli.

Lítið ykkur nær. Ef þið, næst þegar þið haldið upp á afmælið ykkar, látið 15-faldan veislukostnaðinn renna til góðgerðarmála, þá leyfist ykkur að hneykslast. Ætli margir geti státað sig af því?

iPhone therefore iAm

Ég skrifaði í haust um orðróminn sem hefur gengið undanfarið hálft ár eða svo um nýja símann og sjónvarpsgræjuna frá Apple.

Á þriðjudaginn gerðist það svo. Steve Jobs steig fram á sviðið af sinni alkunnu snilld og heillaði tækniheiminn upp úr skónum. Hamagangurinn í kjölfarið er svo mikill að AppleTV (sem gekk undir vinnuheitinu iTV) hefur nánast týnst í umræðunni. Sjálfur held ég að það sú græja sé næstum jafn kollvarpandi og iPhone.

En samt, bara næstum…

iPhone er græjan sem ég held að við tölvunördarnir höfum flestir látið okkur dreyma um í nokkur ár. Hún sameinar iPod, síma og nettengda lófatölvu í lítið, nett og ótrúlega fallegt tæki. Tengist bæði þráðlausum staðarnetum og gegnum GPRS (3G útgáfan kemur síðar). Keyrir MacOS X. Öllu stjórnað með næmum snertiskjá með hærri upplausn en áður hefur þekkst – og þeir lofa m.a.s. mjög góðum batterí tíma (5 tímar í tali, 16 tímar í tónlistarspilun)! Ég get varla beðið. Í júní verður hægt að fá þessa græju í Bandaríkjunum og í haust í Evrópu.

AppleTV verður hægt að fá strax í febrúar – þannig að það verður að duga í bili að fikta bara í henni 😉

Ég mæli með að fólk kíki á keynote-ið hans Jobs þar sem þetta er allt kynnt til sögunnar. Maðurinn er frábær show-maður og vídeóið er þess virði fyrir það eitt. Ég ætlaði niðrúr sófanum þegar hann sýndi “Merge calls” – fídusinn (teaser).

Það er í rauninni ýmislegt að segja í stóru samhengi hlutanna um þessa innkomu Apple á fjarskipta- og lófatölvumarkaðinn, en ég ætla að geyma það – ég er aðeins að melta þetta allt. Tek það kannski í tæknispánni fyrir 2007 sem ég er að setja saman. Sú fyrir 2006 er hér – ég reyndist nú bara nokkuð sannspár…

Pæling um evruna


Í tilefni af aukinni umræðu um evruna upp á síðkastið, þá gróf ég upp þennan póst sem ég sendi kunningja mínum síðasta vor:

Ein pæling varðandi krónuna / evruna: Þó þjóðin taki upp ekki upp Evruna, get ég þá gert það – einhliða?

Ég rek lítið fyrirtæki og stefni að því að hafa bróðurpartinn af tekjunum í erlendri mynt. Ég gæti samið við mína starfsmenn um að þeir fengju greitt í evrum, ég get átt bankareikning í evrum og ég get meira að segja borgað (a.m.k. í mörgum búðum hér í miðbænum) matvöruinnkaupin mín, kaffihúsaheimsóknir og önnur helstu útgjöld í evrum. Ég gæti í sjálfu sér meira að segja samið við mína íslensku viðskiptavini í evrum og sent þeim reikninga í evrum.

Ef nógu margir gerðu þetta, þá myndi það líklega minnka sveiflurnar á krónunni, eða a.m.k. áhrif gengissveifla á matvöruverð og neysluvöru – það gæti meira að segja verið business í því að stofna verslun sem tekur bara við greiðslum í evrum: “Evru-prís – verslun með stöðugt vöruverð”?

Sjálfsagt veit ég of lítið um hagfræði til að skilja af hverju þetta er ekki hægt og auðvitað hefur þetta ókosti líka, en aðalpunkturinn er þessi: Þarf ríkið endilega að taka upp evruna – getur fólkið ekki bara gert það?

Þó mín persónulega aðstaða hafi breyst töluvert í millitíðinni, stendur punkturinn eftir: Mun almenningur ekki bara smám saman taka upp evruna og þarf nokkuð stjórnvöld til að ákveða það?