Author: Hjalmar Gislason

About Hjalmar Gislason

Founder and CEO of GRID (https://grid.is/). Curious about data, technology, media, the universe and everything. Founder of 5 software companies.

Opin gögn og gagnsæi – yfirlýsing stjórnvalda

transparencyFyrir nokkrum vikum skrifaði ég færslu á bloggsíðu DataMarket um það sem kalla mætti “vægðarlaust gagnsæi“. Færslan gengur í stuttu máli út á það að leiðin til að endurreisa traust á Íslandi – jafnt inn á við sem út á við – felist í gagnsæi og heiðarleika á áður óþekktu stigi – að sýna svo ekki verður um villst að það sé ekkert að fela.

Færslan er skrifuð á ensku og hefur vakið dálitla athygli. Hún leiddi m.a. af sér viðtal í veftímaritinu Frontier Economy þar sem farið er dýpra í saumana á sumum þeim hugmyndum sem þar voru settar fram.

Ég hef líka skrifað og beitt mér fyrir opnum gögnum í töluverðan tíma. Opin gögn snúast í stuttu máli um það að öll gögn sem safnað er eða útbúin hjá opinberum aðilum eigi að vera opin og aðgengileg öllum, án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars, t.d. af persónuverndar- eða öryggissjónarmiðum. Á vefnum opingogn.net má nálgast drög að íslenskri þýðingu skilgreiningar á opnum gögnum.

Í raun má segja að opin gögn og vægðarlaust gagnsæi séu tvær hliðar á sama málinu:

  • Opin gögn snúast um meðferð gagna í umsjá hins opinbera.
  • Vægðarlaust gagnsæi snýst hins um það hvort e.t.v. sé ástæða til að safna eða framreiða einhver gögn til viðbótar við það sem þegar er í þeim tilgangi sérstaklega að upplýsa um framvindu eða stöðu mála.

obama-kundraUm þessar mundir gengur yfir heiminn vitundarvakning varðandi mikilvægi opinna gagna og þá sérstaklega “formfastra gagna” (e. structured data). Mest áberandi er þessi vakning í Bandaríkjunum, en þegar á fyrstu dögum í embætti gaf Obama út skýr fyrirmæli um það að opinberar stofnanir skyldu sem allra fyrst gera gagnasöfn sín aðgengileg almenningi á vefnum, án hindrana. Hann réð jafnframt í fyrsta skipti til starfa upplýsingatæknistjóra (CIO) við stjórnina – sá heitir Vivek Kundra og hefur lyft grettistaki á stuttum tíma. Helsta birtingarmynd þess er vefsvæðið Data.gov, þar sem nú má nálgast yfir 100 þúsund gagnasöfn frá hundruðum opinberra stofnanna. Þessi gögn hafa svo bæði fjölmiðlar, fyrirtæki og áhugasamir einstaklingar notað við afar áhugaverð verkefni sem opna ný tækifæri, auka skilning á flóknum þáttum samfélagsins og veita hinu opinbera aðhald.

berners-leeÍ Bretlandi hafa báðir stóru flokkarnir markað skýra stefnu í þessa veru. Stjórnin hefur þar að auki fengið til liðs við sig engan annan en Tim Berners-Lee. Berners-Lee hefur verið kallaður “faðir vefsins” og er vel að þeim titli kominn enda bjó hann til HTML staðalinn sem allar vefsíður og þar með vefurinn allur byggir á. Berners-Lee hefur í seinni tíð verið ötull talsmaður opinna gagna og hefur sennilega betri skilning á því en flestir hversu verðmætt opið aðgengi og samtengingar gagna úr ólíkum áttum getur verið.

roslingAð lokum má nefna sænska prófessorinn Hans Rosling, sem hefur með líflegri framsetningu gagna vakið marga – ekki síst alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu Þjóðirnar, OECD og jafnvel Evrópusambandið – til umhugsunar og góðra verka í því að gera sín gögn aðgengilegari en verið hefur.

Fáir hafa þó meiri þörf fyrir að meðtaka þessa hugmyndafræði en einmitt trausti rúnir Íslendingar. Ég veit fyrir víst að víða er vilji og sums staðar skilningur fyrir þessum málum, en mörg nýleg dæmi sýna mikilvægi þess að ná almennum vilja, skilningi og aðgerðum á þessu máli til þess að við getum byggt hér upp heiðarlegt samfélag trausts og samstöðu.

Í ríkjandi kerfi er litið svo á að öll gögn séu trúnaðarmál nema sérstök ástæða sé til að opna þau. Þessum hugsanahætti þarf að snúa við. Gögn opinberra aðila eiga hér eftir að vera opin nema sérstök ástæða sé til að vefja þau trúnaði.

Ég gerði mér því að leik að skrifa drög að örstuttri yfirlýsingu sem ég legg hér með til að ríkisstjórnin (og reyndar aðrir opinberir aðilar, s.s. sveitarfélög) geri að sinni og fylgi svo eftir með aðgerðum:

Öll gögn í umsjón opinberra aðila skulu hér eftir vera opin og aðgengileg almenningi án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars. Skilgreindar verða skýrar viðmiðunarreglur um hvað teljast ástæður til hindrana með tilliti til persónuverndar, öryggissjónarmiða og annara ríkari hagsmuna. Undantekningar skulu vera vel rökstuddar og skal ekki hindra aðgang meira en til að mæta þeim rökum.

Allar stofnanir hins opinbera skulu þegar í stað birta skrá yfir þau gögn og gagnasöfn sem þær ráða yfir og gera gögn þeirra aðgengileg á því formi sem þau eru nú á. Jafnframt skal skrá gagnasöfn sem ekki er opnaður aðgangur að, tilgreina efnistök þeirra, ástæður fyrir hindrunum á aðgengi og hvenær þeim hindrunum verði aflétt. Til lengri tíma skal leitast við að gera gögnin aðgengileg á stöðluðu, tölvutæku formi sem tekur tillit til allra þátta sem kveðið er á um í skilgreiningu opinna gagna.

Stofnanir skulu einnig gera úttekt á því hvort starfsemi þeirra gefi ástæðu til að safna sérstaklega gögnum umfram það sem þegar er gert í þeim tilgangi að auka gagnsæi á starfsemi sína eða á samfélagið almennt.

Það er ekki flókið að gefa þessa yfirlýsingu, ekki dýrt að fylgja henni eftir og reyndar að miklu leiti þegar kveðið á um þessa hluti í upplýsingalögum og annari stefnumörkun sem þegar hefur átt sér stað. Núna er bara ríkari ástæða en nokkru sinni til að láta verkin tala og endurbyggja þannig traustið sem tapaðist.

Nýting íslenskra auðlinda – ólík nálgun

sustainabilityTöluvert hefur verið rætt um náttúruauðlindir okkar Íslendinga, nýtingu þeirra og umgjörð síðustu mánuði.

Í stuttu máli er um að ræða tvær meginauðlindir sem nýttar eru og fluttar út í dag svo nokkru nemi: endurnýjanleg orka og sjávarfang. Í framtíðinni verða þær etv. fleiri og mætti nefna neysluvatn og jarðefnaeldsneyti í því samhengi.

Þó þessar tvær meginauðlindir okkar séu í eðli sínu býsna ólíkar, gilda mörg sömu lögmálin um þær. Hvort tveggja eru þetta auðlindir sem endurnýja sig og unnt er að nýta umtalsvert án þess að á þær gangi frá ári til árs. Bæði virkjanakostir og fiskimið liggja að mestu utan hefðbundins eignalands og má því með góðum rökum segja að þær séu í grunninn sameign þjóðarinnar. Af þessu mætti ráða að umgjörð þessarra tveggja mikilvægu atvinnuvega ætti að mestu að lúta sömu lögmálum. Ef við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæm hljótum við að byggja nýtingu þessara auðlinda á sömu grundvallarreglum – og ef ekki, þá hljóta að minnsta kosti að liggja góð rök að baki því.

Kerfin eru hins vegar gerólík.

  • Orkuvinnsla hefur frá upphafi verið nær alfarið á vegum hins opinbera. Landsvirkjun, Orkuveitan og önnur orkufyrirtæki hafa verið í eigu hins opinbera og skilað sínum arði þangað þegar hann hefur verið til staðar. Ríkið hefur sömuleiðis gert, ábyrgst og liðkað fyrir mörgum stærstu fjárfestingum sem gerðar hafa verið í orkugeiranum. Þrátt fyrir að margar þessara framkvæmda hafi verið umdeildar hefur verið nokkuð almenn sátt um þetta fyrirkomulag eignarhalds, hvort sem stjórnvöld á hverjum tíma hafa kennt sig við hægri eða vinstri.
  • Um fiskveiðarnar gegnir hins vegar allt öðru máli. Úthlutun veiðiheimilda er jú á höndum hins opinbera, en í seinni tíð held ég að segja megi að öll vinnsla, fjárfesting og nýting þessarar auðlindar hafi verið á höndum einkaaðila. Litið hefur verið svo á að umsvif þessara fyrirtækja, skattgreiðslur þeirra og nú síðast mjög hóflegt auðlindagjald sé endurgjald þessara aðila fyrir nýtingu auðlindarinnar. Þrátt fyrir að fiskveiðistjórnunarkerfið sé mjög umdeilt virðist sömuleiðis gilda almenn sátt um það að nýting þessarar auðlindar sé á höndum einkaaðila, hvort sem menn kenna sig við hægri eða vinstri. Satt að segja man ég ekki eftir einum einasta manni sem hefur lagt til breytingar á þann veg að útgerð yrði almennt í höndum opinberra aðila – deilurnar hafa frekar snúist um endurgjald þeirra fyrir þá nýtingu.

Hvernig stendur á þessum mikla mun á því hvernig við meðhöndlum þessar náttúruauðlindir? Erum við ekki í hrópandi mótsögn við sjálf okkur með því að nálgast þær með svona ólíkum hætti? Þurfum við ekki að setja niður fyrir okkur einhver grundvallarviðmið í því hvernig við viljum að allar auðlindir séu nýttar þannig að þær nýtist landsmönnum sem best og hefja svo umbætur á þessum kerfum með hliðsjón af því? Þá munum við líka eiga auðveldara með að ákveða hvernig nýta eigi aðrar auðlindir, þegar og ef vinnsla þeirra hefst í stórum stíl.

Ég held að það væri okkur hollt að skoða þessi kerfi vandlega, reyna að átta okkur á því hvort það er einhver eðlismunur á auðlindunum sem réttlætir mismunandi nálgun í nýtingu þeirra og reyna að setja niður þær grundvallarreglur sem við viljum að gildi um þær. Mér vitanlega hefur þetta aldrei verið gert.

Tugmilljarða misræmi í Icesave skjölum

Ég bið ykkur um að lesa eftirfarandi færslu mjög vandlega og með gagnrýnum huga áður en þið dragið nokkrar ályktanir, eða hefjið upphrópanir út frá því sem hér kemur fram. Þetta er afar viðkvæmt efni, óvíst að ég hafi rétt fyrir mér og góðar líkur á að það sem hér kemur fram eigi sér eðlilegar skýringar sem hafi engin áhrif þegar allt kemur til alls. Sem sagt: Anda rólega

Uppfært 20. ágúst, 2009 kl. 18:20: Skýring hefur fengist á fyrra atriðinu sem nefnt er í færslunni. Sjá athugasemd #7 í athugasemdakerfinu.

Uppfært 21. ágúst 2009 kl 18:30: Skýring hefur nú einnig fengist á síðara atriðinu. Sjá athugasemd #8 í athugasemdakerfinu.

Ég er kreppuklámhundur. Að hluta til hef ég afsökun. Það að liggja yfir gögnum er vinnan mín – meira að segja það að liggja yfir Icesave-gögnum.

Ég er þess vegna búinn að skoða fleiri tölur og velta mér meira uppúr því hvernig þessir hlutir hanga saman en mér er hollt. Við það hafa vaknað nokkrar spurningar, sem ég hef – þrátt fyrir margvíslegar tilraunir – ekki getað fengið viðhlýtandi skýringu á. Hér að neðan má sjá tvö þessara atriða. Bæði þessi atriði eru í besta falli einfaldur misskilningur minn eða saklaus mistök þeirra sem í hlut eiga, en í versta falli tugmilljarða yfirsjónir við meðferð málsins. Ég ætla að gera ráð fyrir því fyrrnefnda þar til annað kemur í ljós.

1. 150 milljón evra misræmi í Icesave skjölum

Í lánasamningnum við Hollendinga er eftirfarandi klausa (í íslenskri þýðingu af Ísland.is):

2.1.2 Fjárhæð endurgreiðslunnar nemur 1.329.242.850 evrum (einum milljarði þrjú hundruð tuttugu og níu milljónum tvö hundruð fjörtíu og tvö þúsund átta hundruð og fimmtíu evrum).

Í skjali sem hefur gengið manna á milli um dreifingu innistæðufjárhæða á Icesave reikningunum er hins vegar þetta yfirlit:

icesave-distribution

Ég sé þetta skjal ekki í þeim gögnum sem lögð hafa verið fram á vef Alþingis með málinu, en það á uppruna sinn í Landsbankanum, virðist tekið saman í lok mars á þessu ári og á að sýna stöðuna þann 8. október 2008, daginn eftir að Landsbankinn var tekinn yfir.

Talan sem ég hef dregið rauðan kassa utan um eru heildarinnistæður á Icesave í Hollandi undir 20.887 evra markinu. Hún ætti sem sagt að samsvara lánsfjárhæðinni, en eins og sjá má er hún þarna 1.180.611.896 eða u.þ.b. 150 milljónum evra lægri en lánsfjárhæðin. Allar tölur aðrar, s.s. heildarinnistæður og fjöldi innlánseigenda stemma við önnur gögn sem fram hafa komið. Í samningnum við Hollendinga er enginn fyrirvari er gerður við þessa upphæð og því um endanlega fjárhæð að ræða.

Ég hef enga ástæðu til að efast um uppruna skjalsins sem um ræðir. Það er auðvitað hugsanlegt að seinna hafi komið í ljós einhver skekkja og nýtt skjal verið útbúið, en það er allavegana þess virði að fá skýringar á þessum mun. 150 milljón evrur eru jú u.þ.b. 27,5 milljarðar króna á gengi dagsins og það 27,5 milljarðar sem við þurfum að borga til baka og borga vexti af næstu árin.

Í tilfelli bresku reikningana eru samsvarandi fjárhæðir 2.350.000.000 og 2.239.478.713 pund. Þar munar sem sagt ca. 110 milljón pundum. Samningurinn við Breta er hins vegar að þessu leyti aðeins annars eðlis. Þar kemur fram að um lánalínu sé að ræða, upphæðin sé hámark og að endanleg upphæð verði að líkindum lægri og ráðist af útgreiðslum breska ríkisins og breska innlánstryggingasjóðsins. Að auki er í Excel-skjalinu reiknað með að 20.887 evra lágmarkstryggingin samsvari 16.500 pundum, en í samningnum er miðað við annað gengi og þar samsvarar hún 16.873 pundum sem skýrir hluta þessa mismunar. Ég hef því ekki áhyggjur af breska samningnum að þessu leyti.

2. Misræmi í endurheimtuferlum á eignum Landsbanka
Einu gögnin sem hafa – mér vitanlega – verið gerð opinber um áætlaðan endurheimtuferil á eignum LÍ, eru í fylgiskjali 2 með skriflegri umsögn SÍ um Icesave (bls. 18). Þar er þessi tafla:

icesave-si-fylgiskjal2

Þarna eru höfuðstóll og greiðslur gefnar upp í GBP, EUR og svo (væntanlega) reiknað samanlagt yfir í ISK. Gengisforsendurnar fyrir hvorn gjaldmiðil eru svo gefnar í öftustu 2 dálkunum.

Aftur hef ég samt dregið rauðan kassa utan um nokkrar tölur. Ég fór nefnilega að vinna með þessar talnaraðir og þá kom í ljós að fyrstu 7 árin kemur formúlan ((Greiðslur í GBP * Gengi GBP) + (Greiðslur í EUR * Gengi EUR)) ekki heim og saman við Greiðslur í ISK.

Tökum 2009 sem dæmi. Þar er sagt að greiðslur í krónum séu 66.112 milljónir (rúmir 66 milljarðar). Greiðslur í pundum eru hins vegar 220 milljónir og í evrum 125 milljónir. Miðað við gengisforsendurnar í öftustu tveim dálkunum lítur formúlan þá svona út ((220 * 177,46) + (125 * 158,18)) = 58.814 milljónir (tæpir 59 milljarðar). Þarna munar s.s. einum 7 milljörðum. Þessi skekkja er gegnum gangandi í þessum dálki allt til ársins 2015 að því ári meðtöldu, þ.e. á þeim tíma sem eignir Landsbankans eiga að vera að koma til lækkunar á höfuðstólnum.

Samtals munar á þessum 7 árum rétt rúmum 79 milljörðum á reiknaðri fjárhæð og þeirri sem fram kemur í töflunni, þannig að spurningin er: Hvor talan er rétt?

Ég vona að minnsta kosti að enginn sé að taka stórar ákvarðanir útfrá þessum tölum nema viðkomandi viti hverju má treysta í þessu og hvort möguleiki sé á að rangar eða misvísandi tölur liggi nokkur staðar sem forsendur útreikninga t.d. á greiðslubyrði vegna samningsins.

– – –

Eins og ég sagði í upphafi færslunnar: Vonandi á þetta sér hvort tveggja góðar og gildar skýringar og ég vil ekki valda stormi í vatnsglasi með þessum vangaveltum. Mér líður bara ekki vel með skekkjur upp á meira en 100 milljarða í gögnum sem liggja til grundvallar einu af stærstu málum í sögu þjóðarinnar.

Með öðrum orðum: Ekki rjúka upp til handa og fóta og halda að ég hafi rétt fyrir mér með þetta og að afleiðingarnar séu með einhverjum hætti tjón eða hugsanlegt tjón af þeim stærðargráðum sem hér um ræðir. Fyrst skulum við sjá hvort það er ekki einhver þarna úti sem getur bent mér á mistúlkun í ofangreindum atriðum, eða komið með ný gögn eða haldbærar skýringar á þessum skekkjum.

Icesave-reiknir leiðréttur

Eftir ábendingu frá vökulum notanda, fundum við villu í Icesave-reikninum sem DataMarket setti í loftið í samvinnu við mbl.is í síðustu viku. Sjá fyrri færslu.

Villan gerði það að verkum að áhrif breyttrar kröfuraðar voru ofmetin í þeim tilfellum þegar endurheimtar eignir Landsbankans verða verulegar. Þetta hefur nú verið leiðrétt.

Að öðru leiti stendur reiknilíkanið óhaggað. Allar skýringar eru óbreyttar og eftir sem áður réttar.

DataMarket – sem ber ábyrgð á reikniverki Icesave-reiknisins – biðst afsökunar á þessum mistökum.

Áhrifin eru umtalsverð. Breytingin frá grunnforsendum, við það að breyta kröfuröðinni er 87,8 milljarðar króna nú í stað ríflega 200 milljarða áður. Frávik í öðrum dæmum fara – eins og segir í tilkynningunni – eftir því hve mikið af eignum Landsbankans endurheimtast.

Leiðrétting þessa efnis mun birtast á mbl.is í fyrramálið.

Þetta særir stoltið auðvitað töluvert. Ástæðuna fyrir því að þessi villa slæddist með má rekja til ónógra prófana áður en reiknirinn fór í loftið, en forsendurnar og útreikningarnir eru – eins og sjá má í útskýringum við reikninn – býsna margslungin.

Rétt skal vera rétt og við lærum af þessum mistökum.

Icesave reiknir mbl.is og DataMarket

Fyrr í kvöld var sett í loftið gagnvirk fréttaskýring um Icesave skudbindingarnar á mbl.is. Þetta er reiknivél þar sem lesa má skýringar við helstu álitaefni og óvissuþætti í samningnum og sjá hvaða áhrif breyttar forsendur hafa á skuldbindinguna sem ríkið tekst á hendur með samningnum, endurheimtur eigna og greiðsludreifinguna svo eitthvað sé nefnt.

Reiknirinn er samstarfsverkefni DataMarket (sem ég rek ásamt litlum hópi snillinga) og mbl.is. Smellið á myndina til að skoða reikninn:

Icesave reiknir

Ég er ekki síður stoltur af þeim skýringum sem settar eru fram með forsendunum, en sjálfum reikninum. Sérstaklega held ég að okkur hafi tekist að koma ágreiningnum um forgang krafna í skiljanlegan búning með þessari kynningu sem birt er í skýringum við þann lið reiknisins:

Ég vona að reiknirinn reynist hjálplegur við að skilja þetta stóra og flókna mál og mynda sér skoðun á því. Gagnrýni er að sjálfsögðu velkomin.

Drög að ávarpi Steingríms J. til Breta og Hollendinga

Ég gerði mér það að leik að setja saman drög að ávarpinu sem Steingrímur Joð þarf að flytja og koma að í alþjóðlegum fjölmiðlum á næstu dögum. Ekki hika við að koma með tillögur að úrbótum:

– – –

Dear Wouter Bos and Alister Darling,

The Icelandic parliament has today rejected the agreements on the resolution of the Icesave dispute that our negotiation teams had put together and I had signed pending the approval of the parliament.

I want to make clear that this does not mean that we reject our responsibilities for the failure of the Icelandic banks and the consequences to British and Dutch depositors. On the contrary, I want to reassure you that the Icelandic government will fulfill its obligations according to EU and EEC law and guarantee the minimum amount stated in the respective directive. If there has been any doubt whether Icelanders are required by law to do so, we are certainly required to do so morally as the heads of our government had on numerous occasions reassured financial authorities, governments and even depositors themselves that the banks were backed by the government and – furthermore – painted an unrealistic picture of the health of the Icelandic banking sector.

Icelanders are people of their words. Any government minister at any time speaks on behalf of the nation, and therefore we will honor those commitments regardless of any legal ambiguities.

A thorough discussion in parliament committees, opinions from leading specialists and heated debates among the Icelandic public has revealed that the current agreement is unacceptable.

Our negotiation team made a mistake in agreeing to it before all the facts had been put straight, and for that I apologize.

First of all, the agreement puts more responsibilities on the Icelandic government than we are required by law or our officials have ever committed to in any way. Secondly, the burden it puts on the Icelandic nation more than it will be able to handle.

It is therefore in the interest of all parties involved to sit down again and renegotiate. The terms that need changing are:

  • That the assets of Landsbanki will first serve the minimum guarantee of EUR 20,887 per depositor account BEFORE they are used to cover the further guarantees of GBP 50,000 and EUR 100,000 made by the governments of the United Kingdom and the Netherlands respectively at their own choice.
  • That the order of affairs in the event of Iceland’s failure to meet the terms of the agreement will be clarified.

I propose a personal meeting between the three of us at the earliest possible opportunity to sort out the big picture, so that we can have an updated agreement before our parliament within a few days, and then start working towards rebuilding our nations’ relationships.

Yours truly,
Steingrimur J Sigfusson,
Minister of Finance
Iceland

Þróun búsetu á Íslandi

DM-iconHjá DataMarket erum við alltaf að fikra okkur áfram í meðhöndlun og framsetningu ólíkra gagna.

Áherslan hjá okkur þessa dagana er mikið á íslenskum efnahags- og þjóðfélagsgögnum, enda stefnum við á að opna svokallað Gagnatorg um íslenskan efnahag innan skamms.

Við ákváðum að æfa okkur aðeins í framsetningu landfræðilegra gagna og reyna að gera breytingum á búsetu landsmanna síðustu öldina skil.

Gögnin sem við unnum með að þessu sinni voru mannfjöldatölur eftir sveitarfélögum sem Hagstofan heldur utan um. Afraksturinn má sjá í vídeóinu hér að neðan. Hver hringur á kortinu táknar s.s. eitt sveitarfélag og stærð hans (nánar tiltekið flatarmál) fólksfjöldann. Þar sem sveitarfélög hafa bæði sundrast og sameinast á þessum tíma, segir vídeóið einnig nokkra sögu um þá þróun, ekki síst undir það síðasta, en miklar sameingar hafa átt sér stað síðasta rúma áratuginn.

Að túlka íbúafjölda sveitarfélags í einum punkti er auðvitað aldrei yfir vafa hafið og segir aðeins hálfa söguna. Reyndar dreymir okkur um að útbúa síðar annað vídeó sem segi sýni eiginlega búsetuþróun miklu nákvæmar og betur, en það þarf að bíða – a.m.k. um hríð.

Smellið á myndina hér að neðan til að opna myndbandið í fullum gæðum.

Á glænýju bloggi DataMarket má svo finna nánari upplýsingar um það hvernig myndbandið var unnið, hvaðan gögnin eru fengin, hvernig þau voru unnin og svo framvegis.

urbanization

100 dagar – tilraun í “opnu aðhaldi”

sjs-jsÞann 11. maí kynnti ný ríkisstjórn stjórnarsáttmála sinn og samhliða honum aðgerðaáætlun yfir verkefni sem hún hyggðist ljúka á fyrstu 100 dögum stjórnarsetunnar. Að flestu leyti eru svona vinnubrögð til fyrirmyndar: gagnsemi “to-do” lista er margsönnuð og þarna voru að auki sett fram mælanleg og nokkuð skýr markmið fyrir fyrstu skref nýrrar stjórnar.

Ég ákvað því að gera smá tilraun með áhrifamátt netsins og “opins aðhalds” við ríkisstjórnina og setti samdægurs upp einfalda vefsíðu þar sem atriðin á voru listuð og dagarnir taldir niður. Síðan þá hef ég merkt við atriði eftir því sem þau hafa verið kláruð og ég hef orðið þess var. Þannig er hægt að fylgjast með því hver staðan í þessum aðgerðum er á hverjum tíma.

Þetta hefur verið mjög áhugaverð tilraun. Alls hafa hátt í 20þús manns skoðað listann og ég hef fengið fjöldan allan af tölvupóstskeytum um atriði sem er lokið, álitaefni og aðrar ábendingar. Þessi skeyti hafa spannað allt litrófið bæði í pólitík og samfélagsstöðu. Þannig veit ég fyrir víst að fylgst er með þessum lista af þingmönnum, aðstoðarmönnum ráðherra, stjórnarandstæðingum og fólki sem hefur (greinilega) afar heitar skoðanir á þjóðfélagsmálum.

Tvívegis hefur stjórnin svo sent frá sér tilkynningar um það hvernig þeim miði í að vinna niður þennan aðgerðalista. Sú fyrri (sem reyndar var frétt á RÚV, en nokkuð örugglega byggð á tilkynningu frá forsætisráðuneytinu) birtist þann 30. maí síðastliðinn. Þar sagði að 10 atriðum af 48 væri lokið. Þá hafði ég aðeins merkt við 4 atriði á listanum og þetta kom mér því nokkuð á óvart. Ég lagðist yfir listann og leitaði heimilda um þessi 10 atriði. Viðmiðunin var sú að til að atriði teldist lokið væri hægt að finna á helstu fréttamiðlum eða vefmiðlum stjórnarráðsins staðfestingu á því að atriðinu væri sannanlega lokið. Niðurstaðan var sú að í 4 tilfellum af þessum 10 fann ég engar heimildir – aðrar en frétt RÚV – um að svo væri í raun og veru.

Síðari tilkynningin barst nú á föstudaginn. Þar segir að 21 atriði af 48 sé lokið. Ég fór yfir þennan lista með sama hætti og komst að því að mér höfðu sannanlega yfirsést nokkur atriði sem lokið hefur verið við eða tilkynnt um síðustu daga. Hins vegar get ég alls ekki kvittað undir 21 atriði. Mín niðurstaða er sú að 15 atriðum sé lokið.

Viðmiðunin er – sem fyrr sagði – að hægt sé að finna staðfestingu á því að verkefnunum sé lokið, en sömuleiðis virðist stjórnin túlka “aðgerðir” nokkuð duglega sér í hag. Hér er útlistun á þeim atriðum sem orkuðu tvímælis í mínum huga, þar á meðal þeim 6 þar sem ég er ósammála túlkuninni í tilkynningu stjórnarinnar:

  • Liður númer 5 í tilkynningu ráðuneytisins segir að ríkisstjórnin hafi “Stóraukið samráð við hagsmunasamtök á vinnumarkaði þar sem skipst hefur verið á skoðunum um ríkisfjármál, atvinnumál og stöðugleikasáttmála.” Þetta atriði er ekki á hinum upphaflega lista. Þar er aftur á móti #31: “Samráðsvettvangur ríkisstjórnar, sveitarfélaga, landbúnaðarins og aðila vinnumarkaðarins settur á fót.” Er þetta sami punkturinn? Eru fulltrúar sveitarfélaga og landbúnaðarins með í þessu “stóraukna samráði”? Vísar þetta til viðræðna um stöðugleikasáttmálann svokallaða?
    Niðurstaða: Ég gef þessu – þar til þessi orðalagsbreyting hefur verið útskýrð.
     
  • Atriði númer 6 í tilkynningunni segir að stjórnin hafi “Hafið vinnu við gerð yfirlits um stöðu og þróun lykilstærða í samfélaginu til að skilgreina vanda samtímans og framtíðarvalkosti í mikilvægum málaflokkum.” Þetta samsvarar atriði #47 á upphaflega listanum. Ég gat ekki fundið neinar heimildir aðrar en fréttatilkynningar stjórnvalda um að þessu atriði væri lokið. Hvað er verið að gera? Hver er að gera það? Hvar getum við fylgst með þessari vinnu?
    Niðurstaða: Ekki merkt við.
     
  • Atriði númer 14 í tilkynningu ráðuneytisins segir að stjórnin hafi “Skipað starfshóp til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða með þátttöku allra stjórnmálaflokka á Alþingi og fjölmargra hagsmunasamtaka.” Þetta samsvarar punkti #7 í upphaflega listanum sem hljóðar einfaldlega svo: “Endurskoðun hafin á fiskveiðistjórnunarkerfinu.” Besta heimild sem ég fann um aðgerðir tengdar þessu atriði var tilkynning sjávarútvegsráðuneytisins frá 5. júní. Þar segir að “Jón Bjarnason [hafi] ákveðið að skipa starfshóp um endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar” og að “eftirtöldum aðilum verið boðið að tilnefna fulltrúa í starfshópinn…”. Ég get ekki fallist á það að þetta þýði að endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins sé hafin. Starfshópurinn hefur eftir því sem næst verður komist ekki einu sinni verið skipaður og þar með engin vinna hafin.
    Niðurstaða: Ekki merkt við.
     
  • Atriði númer 15 í tilkynningunni segir að stjórnvöld hafi “Lagt fram náttúruverndaráætlun til ársins 2013 til þess að stuðla að traustri verndun íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd á Íslandi.” Þetta samsvarar atriði #39 á upphaflega listanum: “Náttúruverndaráætlun til ársins 2013 lögð fram á Alþingi.” Reyndin er sú að þessi áætlun var lögð fram í desember 2008 og ef marka má feril málsins á vef Alþingis hefur ekkert verið hreyft við þessu máli á yfirstandandi þingi og þar með ekki á starfstíma núverandi ríkisstjórnar. Það er líklega rétt að merkja við þetta atriði, en erfitt fyrir starfandi ríkisstjórn að eigna sér heiðurinn af því.
    Niðurstaða: Merkt sem lokið, en um leið útskrifað sem ódýrasta aðgerð stjórnarinnar á listanum – henni var lokið áður en stjórnin tók til starfa 🙂
     
  • Atriði númer 17 í tilkynningunni: “[Ríkisstjórnin hefur] hafið vinnu við endurskoðun upplýsingalaga til að auka aðgengi almennings og fjölmiðla að opinberum upplýsingum.” samsvarar atriði #22 á upphaflega listanum: “Endurskoðun hafin á upplýsingalögum í því augnamiði að auka aðgengi almennings og fjölmiðla að upplýsingum stjórnarráðsins.” Samkvæmt þessari frétt forsætisráðuneytisins frá 22. maí, sýnist mér að um þetta gildi hið sama og um atriði 14. Í frétt ráðuneytisins felst ekkert nýtt. “Ákvörðun” ríkisstjórnarinnar þann 19. maí var að gera það sem hún var þegar búin að segjast ætla að gera í 100 daga áætluninni. Nefndin hefur – skv. því sem næst verður komist – ekki verið skipuð og því ekki hægt að segja að vinna við endurskoðun þessarra laga sé hafin.
    Niðurstaða: Ekki merkt við.
     
  • Atriði númer 18 í tilkynningunni segir að stjórnin hafi “Hafið vinnu við mótun menningarstefnu til framtíðar í samráði við listamenn.” Þetta samsvarar atriði #42 á upphaflega listanum. Í menntamálaráðuneytinu hefur verið starfrækt svokölluð Skrifstofa menningarmála að minnsta kosti frá árinu 2004. Meðal hlutverka hennar er að “[undirbúa] mótun menningarstefnu, [hafa] umsjón með framkvæmd hennar og annast almenna stjórnsýslu á sviði menningarmála.” Það væri því býsna ódýrt að telja það til afreka nýju ríkisstjórnarinnar. Um það að þessi vinna hafi breyst eða hún tekin til endurskoðunar í tíma nýrrar stjórnar get ég engar heimildir fundið á vefjum stjórnarráðsins eða fréttamiðlum og því ómögulegt að sannreyna að eitthvað hafi verið gert í þessu máli.
    Niðurstaða: Ekki merkt við fyrr en skýrt hefur verið hver munurinn er á áformum stjórnarinnar og þeirri vinnu sem þegar var í gangi. Ef sá munur er ekki til staðar má merkja við þetta atriði, en þá lendir það í harðri samkeppni við náttúruverndaráætlunina um ódýrasta bragðið á listanum.
     
  • Atriði 21 í tilkynningunni segir að stjórnin hafi “Tekið ákvörðun um eigendastefnu og eignarhald bankanna í ríkisstjórn.” Þetta samsvarar atriði #3 í upphaflega listanum. Þetta er gott að heyra – stórtíðindi reyndar – en ómögulegt að sannreyna fyrr en þessi ákvörðun hefur verið gefin út og birt almenningi. Ég get því ekki merkt við þennan lið – en ólíklegt að það fari framhjá manni þegar ákvörðunin sem sagt er að liggi fyrir verður kynnt!
    Niðurstaða: Ekki merkt við.

Okkur ríkisstjórninni ber s.s. ekki alveg saman um framgang hennar. Að hluta til er um túlkunaratriði að ræða, í einhverjum tilfellum segist stjórnin vera búin með atriði sem hún hefur/getur ekki sagt okkur frá og í einhverjum tilfellum er líklega bara um skort á upplýsingagjöf stjórnarinnar – eða leitarhæfileikum mínum að ræða.

Tilraunin heldur augljóslega áfram næstu 65 dagana og ég er nokkuð viss um að það á fleira áhugavert eftir að koma út úr henni. Ábendingar, hugmyndir og gagnrýni velkomin.

Framtíð og gengi íslensku krónunnar

picture-9Framtíð og gengi krónunnar er ein af stærstu spurningunum núna í endurreisninni, enda snertir þetta mál svo að segja alla aðra þætti sem máli skipta: skuldastöðu þjóðarbúsins, stöðu heimila og fyrirtækja, efnahag bankanna, vísitölu neysluverðs og svo framvegis.

Það skiptir því ekki litlu máli að reyna að átta sig á hvaða þættir munu ráða genginu og hvað verður um krónugreyið.

Ég skrifaði reyndar pistil í þessa veru upppúr miðjum október, sem mér sýnist hafa staðist tímans tönn ágætlega og standi að miklu leiti fyrir sínu þó margt hafi skýrst síðan þá. Það eru einna helst lokaorðin – þar sem ég fullyrði að stöðugleiki fáist aðeins með tengingu við stærra myntkerfi – sem ég er ekki alveg jafn viss um og áður. Það stafar að hluta til af þeirri vantrú sem ég hef öðlast á þá peningamálastjórnun sem flestar myntir heimsins notast við, en að hluta til af því að ég hef þá trú að litlar myntir geti nýst litlum hagkerfum betur en stórar EF rétt er haldið á spilunum.

(Það er hérna sem þið eigið að hrista hausinn í vantrú og hneykslan á vitleysunni í mér og gefa mér svo séns og lesa áfram)

Ekki sama króna og króna

Það sem við höfum kallað “íslensk króna” eru í rauninni margar myntir. Íslenska krónan lýtur þeirri gengis- og peningamálastefnu sem rekin er hverju sinni. Íslenska krónan sem lagði upp laupana í október síðastliðnum var tekin upp í mars 2001 þegar Seðlabankinn tók upp svokallað verðbólgumarkmið. Hún náði því aðeins 7 og 1/2 árs aldri.

Íslenska krónan sem við búum við núna í gjaldeyrishöftunum er svo önnur mynt. Ekkert vit er að reyna að lesa eitthvað í hreyfingar á skráðu gengi þeirrar krónu frá degi til dags. Til þess að átta okkur á því sem “markaðurinn er að segja” þyrftum við að vita hver er að kaupa, hver er að selja og hversu mikið. Sérstaklega skiptir máli hversu mikið Seðlabankinn tekur þátt í þessum viðskiptum.

Fram til 2001 setti Seðlabankinn sér ákveðin vikmörk í gengi krónunnar, þar áður voru önnur viðmið og svo koll af kolli. Sennilega hefur hin “íslenska króna” sem fyrst kom fram sem sjálfstæð mynt 1918 (hafði áður verið tengd dönsku krónunni) gengið í gegnum 10-20 tímabil mismunandi peningastjórnunnar og er því í raun rétt að tala um að 10-20 mismunandi gjaldmiðlar hafi verið hér í gangi síðan þá.

Þessar mismunandi stefnur í peningastjórnun eru mannanna verk og það erum við – Íslendingar – sem ráðum því hvernig henni er stýrt á hverjum tíma. Því miður höfum við ekki borið gæfu til að detta niður á góða leið í þessum málum, en við vitum þó a.m.k. um nokkrar útfærslur sem við ætlum hér eftir að forðast!

Næsti gjaldmiðill sem tekinn verður upp á Íslandi verður nefnilega ekki Evra, heldur enn ein útgáfa af íslenskri krónu. Þarna gildir einu hvort sótt verður um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Krónuna þarf fyrr en seinna að leysa úr gjaldeyrishöftunum, við munum búa við þá stefnu í a.m.k. 5 ár (líklega mun lengur) og það skiptir gríðarlega miklu máli hvaða aðferð verður þá fyrir valinu.

Helstu markmiðin við það val eru líklega:

  • Að stefnan hjálpi til við þá endurreisn sem framundan er á næstu árum.
  • Að koma í veg fyrir spákaupmennsku með gjaldmiðilinn.
  • Að hindra of hraðar breytingar í genginu, en jafnframt hafa sveigjanleika til að bregðast við langtíma breytingum á efnahag þjóðarinnar.
  • Að uppfylla skilyrði EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns.

Vafalaust eru þessi markmið eitthvað fleiri.

Jafnvægis- og raungengi

Áður en lengra er haldið skulum við skoða tvö hugtök sem stundum koma upp í umræðunni, en fæstir vita hvað þýða í raun. Þetta eru hugtökin jafnvægisgengi og raungengi. Hvort tveggja eru tilraunir til að meta hvert “rétt gengi” gjaldmiðils er ef allt væri með felldu.

Í stuttu máli segir kenningin um raungengi að verð á samskonar vörum og þjónustu ætti alltaf að vera það sama milli landa, annars myndu einstaklingar nýta sér verðmuninn til hagnaðar. M.ö.o. ef verðlag t.d. hér á landi yrði áberandi hærra en í nágrannalöndunum myndi það þýða aukna verslun okkar erlendis (eða búferlaflutninga úr landi) og minnkandi áhuga útlendinga á að versla hér. Með sama hætti: ef verðlag hér yrði áberandi lægra þýddi það aukna verslun heima fyrir og aukinn áhuga útlendinga á verslun hér. Við höfum svo sannarlega séð þessar kenningar standast ágætlega síðustu mánuðina og jafnvel árin.

Hugtakið jafnvægisgengi virðist reyndar nokkuð á reiki og er stundum notað um raungengi eins og því er lýst hér að ofan. Sú merking sem ég á við er það gengi krónunnar sem veldur því að viðskiptajöfnuður við útlönd sé sem næst núlli. Með öðrum orðum, það gengi sem veldur því að tekjur okkar frá útlöndum séu sem næst gjöldum okkar til útlanda. Þarna spila inn í útflutningur og innflutningur, kaup og sala á þjónustu og síðast (en í okkar tilfelli alls ekki síst) fjármagnstekjur og -gjöld.

Reyndar leitast jafnvægis- og raungengi eins og þeim er lýst hér líklega við sama – eða mjög svipað – gengi til lengri tíma, en tímabundnar aðstæður geta valdið því að svo sé ekki (t.d. mikið streymi fjármagns í aðra hvora áttina, snöggar breytingar á inn- eða útflutningi o.s.frv.).

Þetta eru sem sagt mér vitanlega helstu kenningar um “rétt gengi” gjaldmiðla. Og hvert skyldi þá rétt gengi íslensku krónunnar vera? Seðlabankinn er svo vinsamlegur að mæla raungengi krónunnar. Hér má sjá þróun þess síðasta áratuginn:

raungengi-isk

Þessi mæling segir sem sagt til um það hvernig verðlag hér hefur þróast samanborið við nágrannalöndin. Eins og sjá má er raungengið í algeru sögulegu lágmarki og því full ástæða til að ætla að það ætti að styrkjast mjög verulega frá núverandi skráðu gengi. Tekið skal fram að vísitalan miðast eingöngu við verðlag eins og það var hér á landi í janúar 2000 og er því ekkert endilega “réttara” en annað. Meðaltal vísitölunnar þessi 10 ár er reyndar 99,6 – eða furðunærri upphafspunktinum.

Gengisfallið nú hefur valdið því að verðlag hér er verulega lægra en erlendis. Verðlag hér var klárlega verulega mikið hærra t.d. árið 2007. Raungengið liggur því þarna á milli, en útreikningur á “réttu raungengi” er mjög flókinn þar sem ekki er til nein samræmd neysluverðsmæling. Gefum okkur að gildið 90 færi nærri því að sýna sambærilegt verðlag hér og í helstu nágrannalöndum (þetta væri gagnlegt að reikna út á mun nákvæmari hátt).

Gamla góða gengisvísitala krónunnar væri skv. því nálægt 150 sem myndi þýða að Evran væri á 117, Dollarinn á 88 og Pundið á 130.

Það er hins vegar tvennt sem kemur í veg fyrir að jafnvægisgengið sé eins álitlegt:

  • Hræddu krónurnar” sem nefndar voru í fyrri færslu, þ.e. fjármagn sem útlendingar eiga í íslenskum krónum (t.d. jöklabréfum, öðrum krónubréfum og innistæðum) og svo að einhverju marki hræddar krónur Íslendinga sem ætla að skipta sínum fjármunum að einhverju eða jafnvel öllu leiti í erlenda mynt um leið og færi gefst vegna vantrúar sinnar á íslenskri efnahagsstjórnun.
  • Afborganir og vaxtagreiðslur af erlendum skuldum Íslendinga, þar sem þær greiðslur munu augljóslega þurfa að fara fram í erlendri mynt og mynda því streymi fjármagns úr landinu. Skuldir Íslendinga hver við annan í íslenskum krónum skipta engu í þessu samhengi. (Reyndar held ég að það sé hægt að eiga miklu meira við þær og stokka þær meira upp á nýtt en verið hefur í umræðunni – en það er mál í aðra færslu). Hér er auðvitað átt við skuldastöðu þjóðarinnar í heild, þ.e. ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og heimila við erlenda aðila – ekki bara skuldir Ríkisins, sem mest hafa verið í umræðunni og mér sýnist reyndar ætla að verða tiltölulega viðráðanlegar.

Þetta eru semsagt þau atriði sem þarf að skýra til að átta sig á því hversu langt frá raungenginu gengi krónunnar ætti að vera á næstu misserum. Hér skiptir miklu máli hversu vel tekst til í ýmiskonar samningum. Margt bendir til að styttist í land hvað varðar erlendu fjármagseigendurna. Sú lending mun væntanlega hleypa þeim mest “desperat” út á mjög lágu gengi en festa þolinmóðara fé ýmist í lengri skuldabréfum hér á landi eða jafnvel í fjárfestingum í uppbyggingu (þá vona ég að hugmyndir Guðjóns Más um endurreisnarsjóð nái eyrum þeirra sem ráða).

Sömuleiðis virðist hylla undir samninga varðandi Icesave lánið (sem n.b. hefur mér vitanlega ekki enn verið veitt og hefur skv. því enn ekki kostað okkur krónu), en enn er mörgu ósvarað um aðra þætti sem skipta máli í þessu samhengi.

Næsta króna

Nú er ég bara leikmaður í þessu öllu saman, en ég sé ekki annað en það sé til tiltölulega einföld lausn sem uppfylli öll fyrr talin markmið og sé að auki tiltölulega einföld í framkvæmd.

Næsta króna verði einfaldlega miðuð við það að halda genginu rétt fyrir neðan jafnvægisgengi á hverjum tíma. Sem sagt að tryggja að í hverjum mánuði komi örlítið meiri gjaldeyrir til landsins en fari úr landi og hjá þjóðinni safnist smám saman upp gjaldeyrisforði. Þetta getur gerst á frjálsum og opnum markaði, með inngripum Seðlabanka ef markaðurinn leitar langt út fyrir þetta jafnvægi, enda á hann alltaf að hafa efni á því þar sem forðinn er verulegur nú þegar og mun að jafnaði aukast mánaðarlega með þessum aðgerðum.

Þetta mun þýða það að gengi krónunnar verður lágt fyrst um sinn meðan mestu afborganirnar fara fram af skuldunum, en gengið mun svo smám saman stefna á raungengið sem að ofan var nefnt.

Hvaða leið sem verður farin er a.m.k. ljóst í mínum huga að það má alls ekki negla gengið við neitt, hvorki vikmörk við Evru í tenglsum við inngöngu í ESB, annan gjaldmiðil né myntkörfu nema sá nagli sé nálægt raungenginu. Þangað mun gengið nefnilega sigla á endanum, þegar okkur hefur tekist að taka til eftir fyrrum valdhafa og aðra óráðsíumenn – þá sem fæddu af sér og hina sem svo myrtu – síðustu íslensku krónu.