Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég færslu á bloggsíðu DataMarket um það sem kalla mætti “vægðarlaust gagnsæi“. Færslan gengur í stuttu máli út á það að leiðin til að endurreisa traust á Íslandi – jafnt inn á við sem út á við – felist í gagnsæi og heiðarleika á áður óþekktu stigi – að sýna svo ekki verður um villst að það sé ekkert að fela.
Færslan er skrifuð á ensku og hefur vakið dálitla athygli. Hún leiddi m.a. af sér viðtal í veftímaritinu Frontier Economy þar sem farið er dýpra í saumana á sumum þeim hugmyndum sem þar voru settar fram.
Ég hef líka skrifað og beitt mér fyrir opnum gögnum í töluverðan tíma. Opin gögn snúast í stuttu máli um það að öll gögn sem safnað er eða útbúin hjá opinberum aðilum eigi að vera opin og aðgengileg öllum, án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars, t.d. af persónuverndar- eða öryggissjónarmiðum. Á vefnum opingogn.net má nálgast drög að íslenskri þýðingu skilgreiningar á opnum gögnum.
Í raun má segja að opin gögn og vægðarlaust gagnsæi séu tvær hliðar á sama málinu:
- Opin gögn snúast um meðferð gagna í umsjá hins opinbera.
- Vægðarlaust gagnsæi snýst hins um það hvort e.t.v. sé ástæða til að safna eða framreiða einhver gögn til viðbótar við það sem þegar er í þeim tilgangi sérstaklega að upplýsa um framvindu eða stöðu mála.
Um þessar mundir gengur yfir heiminn vitundarvakning varðandi mikilvægi opinna gagna og þá sérstaklega “formfastra gagna” (e. structured data). Mest áberandi er þessi vakning í Bandaríkjunum, en þegar á fyrstu dögum í embætti gaf Obama út skýr fyrirmæli um það að opinberar stofnanir skyldu sem allra fyrst gera gagnasöfn sín aðgengileg almenningi á vefnum, án hindrana. Hann réð jafnframt í fyrsta skipti til starfa upplýsingatæknistjóra (CIO) við stjórnina – sá heitir Vivek Kundra og hefur lyft grettistaki á stuttum tíma. Helsta birtingarmynd þess er vefsvæðið Data.gov, þar sem nú má nálgast yfir 100 þúsund gagnasöfn frá hundruðum opinberra stofnanna. Þessi gögn hafa svo bæði fjölmiðlar, fyrirtæki og áhugasamir einstaklingar notað við afar áhugaverð verkefni sem opna ný tækifæri, auka skilning á flóknum þáttum samfélagsins og veita hinu opinbera aðhald.
Í Bretlandi hafa báðir stóru flokkarnir markað skýra stefnu í þessa veru. Stjórnin hefur þar að auki fengið til liðs við sig engan annan en Tim Berners-Lee. Berners-Lee hefur verið kallaður “faðir vefsins” og er vel að þeim titli kominn enda bjó hann til HTML staðalinn sem allar vefsíður og þar með vefurinn allur byggir á. Berners-Lee hefur í seinni tíð verið ötull talsmaður opinna gagna og hefur sennilega betri skilning á því en flestir hversu verðmætt opið aðgengi og samtengingar gagna úr ólíkum áttum getur verið.
Að lokum má nefna sænska prófessorinn Hans Rosling, sem hefur með líflegri framsetningu gagna vakið marga – ekki síst alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu Þjóðirnar, OECD og jafnvel Evrópusambandið – til umhugsunar og góðra verka í því að gera sín gögn aðgengilegari en verið hefur.
Fáir hafa þó meiri þörf fyrir að meðtaka þessa hugmyndafræði en einmitt trausti rúnir Íslendingar. Ég veit fyrir víst að víða er vilji og sums staðar skilningur fyrir þessum málum, en mörg nýleg dæmi sýna mikilvægi þess að ná almennum vilja, skilningi og aðgerðum á þessu máli til þess að við getum byggt hér upp heiðarlegt samfélag trausts og samstöðu.
Í ríkjandi kerfi er litið svo á að öll gögn séu trúnaðarmál nema sérstök ástæða sé til að opna þau. Þessum hugsanahætti þarf að snúa við. Gögn opinberra aðila eiga hér eftir að vera opin nema sérstök ástæða sé til að vefja þau trúnaði.
Ég gerði mér því að leik að skrifa drög að örstuttri yfirlýsingu sem ég legg hér með til að ríkisstjórnin (og reyndar aðrir opinberir aðilar, s.s. sveitarfélög) geri að sinni og fylgi svo eftir með aðgerðum:
Öll gögn í umsjón opinberra aðila skulu hér eftir vera opin og aðgengileg almenningi án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars. Skilgreindar verða skýrar viðmiðunarreglur um hvað teljast ástæður til hindrana með tilliti til persónuverndar, öryggissjónarmiða og annara ríkari hagsmuna. Undantekningar skulu vera vel rökstuddar og skal ekki hindra aðgang meira en til að mæta þeim rökum.
Allar stofnanir hins opinbera skulu þegar í stað birta skrá yfir þau gögn og gagnasöfn sem þær ráða yfir og gera gögn þeirra aðgengileg á því formi sem þau eru nú á. Jafnframt skal skrá gagnasöfn sem ekki er opnaður aðgangur að, tilgreina efnistök þeirra, ástæður fyrir hindrunum á aðgengi og hvenær þeim hindrunum verði aflétt. Til lengri tíma skal leitast við að gera gögnin aðgengileg á stöðluðu, tölvutæku formi sem tekur tillit til allra þátta sem kveðið er á um í skilgreiningu opinna gagna.
Stofnanir skulu einnig gera úttekt á því hvort starfsemi þeirra gefi ástæðu til að safna sérstaklega gögnum umfram það sem þegar er gert í þeim tilgangi að auka gagnsæi á starfsemi sína eða á samfélagið almennt.
Það er ekki flókið að gefa þessa yfirlýsingu, ekki dýrt að fylgja henni eftir og reyndar að miklu leiti þegar kveðið á um þessa hluti í upplýsingalögum og annari stefnumörkun sem þegar hefur átt sér stað. Núna er bara ríkari ástæða en nokkru sinni til að láta verkin tala og endurbyggja þannig traustið sem tapaðist.
Töluvert hefur verið rætt um náttúruauðlindir okkar Íslendinga, nýtingu þeirra og umgjörð síðustu mánuði.




– þar til þessi orðalagsbreyting hefur verið útskýrð.
Framtíð og gengi krónunnar er ein af stærstu spurningunum núna í endurreisninni, enda snertir þetta mál svo að segja alla aðra þætti sem máli skipta: skuldastöðu þjóðarbúsins, stöðu heimila og fyrirtækja, efnahag bankanna, vísitölu neysluverðs og svo framvegis.