íslenska

Skakkur heimur

  • Ef flugslys væru mun algengari en þau eru í dag, myndu þau ekki vera eins áberandi í fréttum. Fólk fengi þá á tilfinninguna að þau væru sjaldgæfari og væri ekki eins hrætt við að fljúga.
  • Eldgos teljast yfirleitt fréttnæm, en á Ítalíu er eldfjallaeyja sem heitir Stromboli. Hún hefur gosið nær samfleytt í a.m.k. 2.000 ár. Hún hefur aldrei verið í fréttum.
  • Mannskæðasta stríð samtímans er í Kongó þar sem nærri 40.000 manns deyja í hverjum mánuði af völdum stríðsins – miklu meira en í Írak og m.a.s. Darfur. Þannig er það búið að vera undanfarin 10 ár.

Það er margt sem ræður fréttavali, en í grunninn þykja óbreytt ástand og langtíma breytingar ekki fréttnæm. “Fréttir” eru stakir, ólíklegir atburðir sem rúmast innan 24 tíma hrings fréttamiðlanna. “Ljóti” heimurinn sem fréttirnar sýna er það versta í almennt þokkalega friðsömum og fallegum heimi. Það er ekki fyrr en við förum að sjá mikið af góðum fréttum sem við ættum virkilega að fara að hafa áhyggjur!

Prius vs. Hummer

Smá viðbót við pistilinn um öfgana í umræðunni um global warming.

Glottandi menn hafa ítrekað sagt mér að Prius-inn sé í raun og veru alls ekki umhverfisvænni en Hummer – satt að segja mun verri – og að auki kosti hann meira en aðrir bílar sömu stærðar.

Ég kafaði aðeins í málið.

Best þekkta “rannsóknin” um “raunveruleg umhverfisáhrif” Prius var framkvæmd af lítið þekktu en hagsmunatengdu markaðsrannsóknafyrirtæki í Bandaríkjunum. Þessi grein hefur verið hrakin af Toyota sjálfum (vitanlega), en með tilvitnunum í heldur virtari stofnanir á borð við MIT. Þessi (langa) grein er ágætis úttekt á málinu frá báðum hliðum.

Sjálfur ek ég á Prius og veit af reynslu að hann eyðir rétt rúmlega helmingnum af því sem fyrri bíll (Corolla) gerði. Prius kostar “út úr búð” hér á landi meira en Corolla, en minna en Avensis, enda liggur hann á milli þeirra í stærð. ERGO: hann er ekki dýrari.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að innan 10 ára verða nær allir bílar búnir einhvers konar “hybrid” búnaði, þ.e. búnaði sem nýtir þá orku sem fer til spillis í öðrum bílum við hraðabreytingar – og sá búnaður mun að sjálfsögðu þróast eins og önnur tækni.

Þessi umræða er því litlu skárri en sú um “Global Warming”. Enn á ný kemur í ljós að heimurinn er hvorki svartur né hvítur, en það eru einu sjónarmiðin sem fá að heyrast.

“Leiðrétt” stig í Scrabble

Ég get ekki neitað því að ég er nörd. Ein af annars ótal ótvíræðum sönnunum þess fylgir hér með.

Okkur hjónin hefur stundum grunað þegar við erum að spila Scrabble að stigin sem valin hafa verið þegar íslensk útgáfa spilsins var gerð endurspegli ekki endilega tíðni þeirra í íslensku máli.

Bara ein leið til að komast að því. Taflan hér að neðan er niðurstaða stafatalningar úr stórum íslenskum orðalista. Hún ætti því að endurspegla nokkuð vel tíðni þeirra í orðum sem löglega er hægt að setja fram í Scrabble.

Scrabble-fólki til ánægju ættu E-in – miðað við þessar niðurstöður – að vera einu færri og gefa tvö stig í stað eins. Þorn-ið ætti líka að gefa 8 stig í stað 4 og fleira, en þetta má allt sjá í eftirfarandi töflu.

Núverandi útgáfa “Leiðrétt” útgáfa
Stafur Staftíðni Stig Fjöldi Stig Fjöldi
a 216.728 1 10 1 10
n 208.844 1 8 1 8
r 200.548 1 7 1 8
i 168.023 1 8 1 7
s 145.558 1 6 1 6
u 128.589 1 6 1 6
l 126.598 2 3 1 6
t 112.659 1 5 1 5
e 91.175 1 6 2 5
g 88.555 2 4 2 4
k 82.294 2 3 2 3
m 77.741 2 3 2 3
ð 75.067 2 5 2 3
f 64.970 3 3 3 3
d 45.105 4 2 3 3
v 37.539 3 2 3 2
h 34.907 3 2 3 2
ó 33.795 6 1 4 2
j 32.632 5 1 4 2
b 29.558 6 1 4 2
á 27.931 4 2 4 1
o 27.027 3 3 5 1
p 25.064 8 1 5 1
ö 24.741 7 1 6 1
æ 23.151 5 1 6 1
y 21.647 7 1 6 1
í 20.030 4 2 7 1
ú 14.753 8 1 7 1
þ 9.123 4 1 8 1
ý 7.031 9 1 8 1
é 6.574 6 1 9 1
x 1.325 10 1 10 1

iPhone tekinn til kostanna

Eins og flestum sem þekkja mig er líklega ljóst hef ég um skeið haft nokkrar væntingar til iPhone símans frá Apple.

Við frúin komum höndum yfir græjuna í morgun og fengum að leika okkur með hana í hálftíma eða svo. Til að gera langa sögu stutta stóð síminn undir væntingum og gott betur. Eins og ég hef áður sagt hefur hann s.s. ekki fleiri fídusa en finnast í betri high-end símum, en upplifunin af að nota græjuna er ljósárum á undan öllu sem ég hef séð, prófað eða heyrt af hjá keppinautunum.

Vafrinn er frábær og smáatriðin í notendaviðmótinu eru ótrúleg og flest til þess gerð að maður veit sjálfkrafa hvað maður á að gera á hverjum tíma.

Síminn er til sýnis hjá Apple búðinni á Laugavegi í dag frá 13-18 og svo um helgina í búðinni í Kringlunni. Endilega fara og kíkja.

Hugsað út fyrir kassann

Eftir að hafa melt þessa ferð okkar til Ecuador í nokkrar vikur, held ég að eftirfarandi frásögn standi upp úr.

Í Amazon-skóginum fengum við tækifæri til að heimsækja indíánaþorp. Á þessu svæði býr ættbálkur indíána sem lifir að miklu leiti eins og þeir hafa gert í árhundruð, ef ekki þúsundir. Þeir sækja allt sitt í skóginn: mat, lyf, fatnað, byggingarefni o.s.frv. Síðan þeir tóku upp samskipti við umheiminn 1978 hafa þeir lítillega sótt sér utanaðkomandi þjónustu, einkum læknis- og skólaþjónustu. Til að borga fyrir þetta hafa þeir – í samstarfi við Ecuadorsk samtök – byggt upp látlausa en framúrskarandi góða ferðaþjónustu. Þetta er gert í þeirri von að þeir þurfi ekki að selja landsvæði sitt til skógarhöggs eða olíuvinnslu, en af hvoru tveggja (trjám og olíu) er land þeirra auðugt.

Heimsóknin fór þannig fram að við fengum að heimsækja eitt heimili í þorpinu. Hvert hús er í raun lítið annað en stórt þak úr pálmalaufum sem stendur á staurum. Engir veggir eru í húsinu og rúmin eru upphækkaðir bjálkar eða tréplötur sem standa á háum fótum – í raun ekki ósvipað borðstöfuborðum.

Heimsóknin fór þannig fram að við kynntum okkur hvert og eitt fyrir heimilisföðurnum og fengum að því loknu að spyrja spurninga eins og okkur lysti – og öfugt: hann mátti spyrja okkur að hverju sem er líka.

Það er krefjandi að finna leiðir til að útskýra fyrir manni með þennan bakgrunn, við hvað maður starfar, hvar maður býr og við hvaða aðstæður. Þó ég reyndi að vanda mig, heyrði ég að túlkurinn (sem túlkaði úr ensku yfir á spænsku og svo annar af spænsku yfir á indíánamálið) tók hugtök eins og “telecommunications” og útskýrði þau frekar. Eins fylgdu hugtaki eins og “London” (ferðafélagar okkar voru þaðan) útskýringin: “London er í Bretlandi eins og Quito er í Ecuador” (Quito verandi höfuðborgin þar). Eðlilega.

Á hinn bóginn var alveg ljóst af samræðunum að fólkið í skóginum áttaði sig á því að það sem gerist í heiminum hefur áhrif á þau. Að ákvarðanir annarra manna langt utan þeirra áhrifasviðs gæti kippt stoðunum undan lífi þeirra í einni svipan. Og þrátt fyrir takmarkaða þekkingu voru þau forvitin um heiminn fyrir utan, siði, venjur og aðstæður almennt þar sem við byggjum.

Í raun höfum við svipaða sögu að segja af heimsókn okkar í þorp við rætur Kilimanjaro í fyrra. Þar fóru þorpsbúar t.d. og báðust fyrir við stóra tréið í skóginum þegar árásirnar voru gerðar á tvíburaturnana í New York – m.a. til þess að biðja um að ferðamenn myndu ekki hætta að koma í einhvers konar ótta við restina af heiminum.

Morguninn eftir flugum við svo til Quito. Í túristaskoppi okkar þar rákumst við á Bandarískt par. Skemmtilegt og víðsýnt fólk og eins og flestir Bandaríkjamenn sem maður hittir – og höfðu þar af leiðandi hugmynd um að eitthvað er til utan þeirra heimabæjar og eru jafnvel með vegabréf.

Við fórum að segja þeim frá heimsókninni í indíánaþorpið. Þau sögðu okkur þá frá nágrannakonu sinni í heimabænum sínum í Illinois. Þetta er víst indælis kona á sjötugsaldri og ekkert nema gott um hana að segja. Hún hefur hins vegar lokað sig alveg frá umheiminum og vill helst ekki vita um neitt sem gerist utan götunnar sinnar. Hún hefur ekki horft á fréttir í 20 ár og segir aðspurð að fréttir séu bara óþægilegar. Hún stressist öll upp og vill bara lifa í sínum litla, þægilega og verndaða heimi. Myndin sem dregin er upp af heiminum í fréttum er af grimmum heimi sem best er að skipta sér sem minnst af. Að ferðast er óhugsandi. Hafiði ekki heyrt um öll morðin, stríðin, sjúkdómana og hugrið þarna úti. Best er að halda sig heima – og vita ekki neitt.

Þessi litla saga mín hefur engan endi, en á þessum vikum sem liðnar eru síðan við komum heim, hefur mér ítrekað verið hugsað til þeirra tveggja. Annars vegar indíánans sem býr einangraður í skóginum, hefur mjög takmarkaða menntun og aðgang að upplýsingum en skilur að allt í heiminum er tengt og hefur áhrif hvað á annað með ófyrirsjánalegum afleiðingum. Og hins vegar vinalegu konunnar í miðríkjum Bandaríkjanna sem hefur aðgang að öllum heimsins upplýsingum, en lokar sig af og vill sem minnst af neinu vita nema blómunum í garðinum og hvenær nágrannabörnin koma heim úr skólanum.

Líkindin og munurinn á aðstæðum þessarra tveggja einstaklinga eru bara eitthvað svo umhugsunarverð.

Global Warming og öfgar

Sýning RÚV á “The Great Global Warming Swindle” í vikunni hefur hrist duglega upp í umræðunni um hnattræna hlýnun. Sem er gott.

Ég horfði á umrædda mynd á Google Video stuttu eftir að hún var upphaflega sýnd á Channel 4 í Bretlandi, en skilst að útgáfan sem var sýnd hér hafi verið lítillega breytt frá því sem þá var.

Eins og flestir nördar skora ég nokkuð hátt á einhverfu-skalanum. Ég kunni því vel við myndina að því leiti að hún spilar inn á rök, en ekki tilfinningar eins og svo margt annað sem fram hefur komið í þessari umræðu – á báðum pólum hennar.

Þessi rök hafa hins vegar verið hrakin rækilega, enda stenst myndin á köflum ekki einu sinni einfalt “common sense”. Það bendir okkur hins vegar á þá staðreynd að það eru ákaflega litlar líkur á því að við fáum nokkrar hlutlausar upplýsingar um þessi mál. Vísindagreinar sem eru á gráa svæðinu milli öfganna eru vissulega til – og eru satt að segja líklegastar til að vera réttar, en þær fá enga athygli. Fjölmiðlar hafa nefnilega sterka innri og ytri hvata til þess að birta bara öfgana.

  • Innri hvatinn felst í fréttamati: Heimsendir eða stórkostleg röskun á lífi milljóna eða milljarða manna t.d. vegna hækkunar sjávarborðs í fyrirsjáanlegri framtíð eru fréttir. Sömuleiðis eru það fréttir ef viðtekin skoðun (s.s. að hnattræn hlýnun sé af mannavöldum) er hrakin – eða einhver heldur því fram að verið sé að ljúga að heimsbyggðinni. Þannig sér maður oft slegið upp fyrirsögnum um þessa einu rannsókn á einhverju efni sem stangast á við samdóma álit þúsunda rannsókna fram að því.
  • Ytri hvatinn er öllu ógeðfelldari: Á bak við sitt hvora öfgana liggja nefnilega miklir hagsmunir. Á öðrum endanum eru umhverfissamtök og rannsóknastofnanir sem hafa lífsviðurværi sitt af styrkjum. Heimsendir í nánd er alltaf góður sölupunktur til að fá peninga úr rannsóknasjóðum eða frjáls framlög frá almenningi. Fram að þessu hefur þó enginn heimsendaspámaður haft rétt fyrir sér og hafa þó margir reynt fyrir sér á þeim vettvangi. Hagsmunir umhverfissinnanna blikna þó við hliðina á þeim sem standa á bak við hinn pólinn: meginþorra olíu- og verksmiðjuiðnaðs heimsins. Þetta veldur því að báðir aðilar stunda öfluga PR-starfsemi við að koma sínu að, en enginn stendur á bakvið slíkt fyrir hógværu skoðanirnar.

Eins og alltaf skal heimurinn vera annað hvort svartur eða hvítur.

Það sem fæstir virðast þó draga í efa lengur er að hnattræn hlýnun er staðreynd. Deilurnar snúast um hvort hún stafi að einhverju leiti af framkvæmdum mannsins.

Bölsýnismenn beggja fylkinga þurfa því – trúi þeir raunverulega því sem þeir segja – að fara að búa sig undir afleiðingarnar. Ef þetta er ekki “okkur að kenna” getum við hvort sem er ekkert gert í því. Ef verstu spár hinna ganga eftir er algerlega óraunhæft að halda að samstaða heimsbyggðarinnar um minnkun koltvísýringslosunar muni nást í tæka tíð til að það hafi þau áhrif sem til þarf.

Verstu spár nefna hækkun sjávarborðs um etv. 1 metra á næstu 100 árum. Hin fræga skýrsla IPCC segir 18-59 cm.

Hagfræðin segir okkur að núvirði eigna eftir 100 ár sé mjög nærri núlli, þannig að ef tekið er tillit til þessarra breytinga við þróun byggðar og skipulag er þetta vel viðráðanlegt. Kallar vissulega á breytingar, en ekkert sem ríkari þjóðir heims ráða ekki við. Sjáið bara breytingarnar sem hafa orðið á síðustu 100 árum – stór hluti borga Evrópu hefur sem dæmi verið reistur úr rústum a.m.k. einu sinni á þessum tíma. Vandinn liggur hjá fátæku löndunum, sem til allrar óhamingju eru sum hver þau sömu og yrðu hvað verst úti við hækkun sjávar. Það er því meira aðkallandi en nokkru sinni fyrr að þessar þjóðir brjótist út úr fátæktinni.

Til þess eru þrjú atriði mikilvægust: auknar samgöngur, ódýrari og einfaldari fjarskipti og niðurfelling (verndar)tolla og innflutningsgjalda. Í einu orði: Hnattvæðing.

Hér gæti samt farið svo að fylkingarnar í hlýnunarumræðunni yrðu sammála. Þær falla nefnilega að verulegu leiti saman við þá hópa sem helst eru á móti hnattvæðingu. Umhverfissinnar á þeim forsendum að hnattvæðingin auki útblástur og aðra mengun (sem var vandinn til að byrja með) og stangist á við “local” hugsanaháttinn sem þar er svo vinsæll (fólk annarsstaðar má þá bara halda áfram að vera fátækt). “Big business” er hins vegar á móti niðurfellingu gjalda þar sem það raskar virðiskeðjunum sem þau hafa lært (og að einhverju leyti mótað til) að gera sér að féþúfu.

Á síðustu mánuðum hef ég smám saman farið að hallast að því að hnattræna hlýnunin muni enda eins og 2000-vandinn. Öfgarnir í þeirri umræðu voru svipaðir. Öðru megin var heimsendir – hinum megin blásið á áhyggjurnar. Í dag hlæjum við að hysteríunni, en munum hins vegar aldrei vita hversu illa hefði farið ef ekkert hefði verið gert.

Á sama hátt er líklegast að það rétta í “global warming” umræðunni sé einhversstaðar á gráa svæðinu. Togstreita öfganna mun verða til þess að haldið verður áfram að leitast við að draga úr CO2 losun, en mun á mun hófsamari hátt en tillögur þeirra sem lengst vilja ganga.

Í framtíðinni mun svo verða hlegið að öfgamönnunum enda munu annars vegar aðgerðirnar draga úr áhrifunum og hins vegar lífríkið og mannkynið aðlaga sig að þessum breytingum rétt eins og öðrum og meiri breytingum í gegnum tíðina.

Niðurstaðan sem þetta allt leiðir mig til er að við Vesturlandabúar – sem höfum aldeilis efni á því – eigum vissulega að leitast við að draga úr útblæstri og jafna okkar koltvísýringslosun, en við megum ekki láta það hafa áhrif á ferðalög og alþjóðleg viðskipti. Þeir sem hafa mestar áhyggjur ættu ekki bara að reyna að vera kolefnisjafnir – heldur hreinlega kolefnisjákvæðir.

Þannig búum við til svigrúm fyrir nauðsynlega framþróun þróunarríkjanna. Fátækt þeirra er nefnilega vandi sem er ekki yfirvofandi, heldur yfirstandandi og snertir þegar meira en milljarð manna a.m.k. jafn sárt nú þegar eins og afleiðingar hnattrænnar hlýnunar geta gert eftir áratugi.

Ergo: Meiri hnattvæðingu OG minni koltvísýring.

Bloggari Símans

Blogg Smans Á mánudaginn fór Blogg Símans í loftið á blogg.siminn.is

Hugmyndin er að byggja upp fróðlegt og lifandi blogg um tölvur, tækni og fjarskipti. Efnistökin verða víð: umfjöllun um nýjar græjur, sniðugan hugbúnað, skemmtilegar vefsíður, tölvuleiki, framtíð, nútíð og fortíð Internetsins og svo framvegis.

Auðvitað verður líka eitthvað fjallað um Símann og lausnirnar okkar, en þetta er upplýsingamiðill – ekki auglýsingamiðill. Þeir sem skrifa á bloggið birta þar sínar eigin skoðanir – og segja þar af leiðandi náttúrulega það sem þeim finnst. Ef bloggið væri hugsað sem endurvinnsla á fréttatilkynningum og auglýsingum myndi enginn lesa það – og þar með væri verkefnið fallið um sjálft sig.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að íslenskir bloggarar munu halda okkur við efnið í þeim málum 😉

Umsjónarmaður síðunnar er snillingurinn Davíð Halldór Lúðvíksson, en öllum starfsmönnum Símans er boðið að gerast “gestabloggarar” og koma að því sem þeim liggur á hjarta. Við eigum mikið af ákaflega færu tækni- og lausnafólki sem vonandi tekst að virkja, þannig að við hin njótum öll góðs af.

Þetta er tilraunaverkefni sem ég er stoltur af að hafa komið af stað og er ekki í nokkrum vafa um að þetta er sú leið sem fyrirtæki þurfa og munu tileinka sér í auknum mæli til að eiga í samskiptum við viðskiptavini sína á miklu meiri jafningjagrunni en hingað til hefur tíðkast. Ég er því sannfærður um að Blogg Símans er komið til að vera.

Á sama tíma opnar svona nálgun auðvitað á gagnrýni og opna umræðu, en fyrirtækin eru þá orðin þátttakendur í henni. Þau geta leiðrétt misskilning þegar við á, leiðbeint viðskiptavinum í réttan farveg með erindi sín og – að sjálfsögðu – fengið að heyra það þegar þau standa sig ekki. Þar eru þá tækifæri til að bæta sig.

Ég hlakka til að sjá hvernig þetta þróast. Endilega verið dugleg að koma með ábendingar um efnistök, framsetningu og útfærslu. Þetta er allt í mótun og þið getið hjálpað okkur í því.

Blogg Símans

Íslandshreyfingin fyrir mig – takk

Ég er búinn að komast að niðurstöðu. Ég ætla að kjósa Íslandshreyfinguna.

Áherslur þeirra eru nánast algerlega í samræmi við mína sýn á íslenskt samfélag. Mæli með að þið lesið þær, það er margt gott í þessu. Ég var ekki alveg viss með mannskapinn til að byrja með, en það hefur komið mér ánægjulega á óvart að sjá hvað Ómar er vel að sér í nær öllum málum – langt frá því að vera eins-málefnis-maður. Margrét Sverris er traust. Jakob Frímann er klárlega tækifærissinni, en hann hefur svosem sýnt í ýmsum málum að hann getur látið hlutina gerast.

Ég væri reyndar til í að kjósa einstaklinga úr nær öllum flokkum, en það er víst ekki í boði.

Ástæðan fyrir því að ég ákveð að gefa upp hvað ég kýs er sú að ég óttast að Íslandshreyfingin sé að lenda í því að fólk forðist að kjósa hana vegna þess að þau atkvæði “falli dauð”. Ef allir hugsa þannig kýs auðvitað enginn flokkinn. Óþarfi að láta h(r)æða sig frá því að kjósa I þess vegna. Skora á aðra sem hallast að Íslandshreyfingunni að segja það líka opinberlega svo þessum óvissu finnist þeir ekki einir á báti.

Loks ein ástæða fyrir því að ég get ekki kosið hvern hinna flokkanna:

  • Sjálfstæðisflokkinn: Árni Johnsen (eins og áður er sagt)
  • Samfylkingin: Ég trúi því að flokkar eigi að segja hvað þeir standa fyrir og fólkið að fylkja sér um þá stefnu, en ekki öfugt. Skoðanakannanir eru ömurleg leið til að móta stefnu og það skilar sér í linum áherslum.
  • Vinstri grænir: Ögmundur var örugglega að grínast með þetta með bankana var það ekki?
  • Framsókn: Landbúnaðar- og iðnaðarstefna þeirra ber vott um óskaplega gamaldags hugsanahátt.
  • Frjálslyndir: Þarna er fólk með skoðanir í “útlendingamálum” sem ég hef sterka andúð á.

Svo mörg voru þau orð. Náum I á þing!