Næsta Ísland

Fimm staðreyndir um skattkerfið – reiknilíkan

Picture 17Við hjá DataMarket vorum að uppfæra reiknilíkan sem við gerðum í fyrra til að lýsa staðgreiðsluskattakerfinu á Íslandi. Líkanið tekur núna mið af nýjustu fáanlegu gögnum um launadreifingu landsmanna, hátekjuskattinum sem lagður var á í sumar og svo er hægt að stilla upp fleiri en einu hátekjuþrepi.

Þannig má t.d. bera saman áætlaða staðgreiðslu af núverandi kerfi og þriggja þrepa kerfinu sem sagt er að sé til umræðu í stjórnkerfinu. Út frá því má áætla að samanlögð staðgreiðsla hækki um tæpa 10 milljarða við þessa breytingu (eða rúmlega 15 ef miðað er við að enginn hátekjuskattur væri tekinn, líkt og var í upphafi þessa árs).

Módelinu er – eins og öðru sem við gerum hjá DataMarket – ætlað að lýsa staðreyndum út frá bestu fáanlegu upplýsingum og stuðla að upplýstri umræðu um flókin mál sem þó skipta okkur öll máli. Við reynum okkar besta til að það sem sett er fram í nafni fyrirtækisins sé hlutlaust og sannleikanum samkvæmt. Nóg er víst af villandi umræðu samt.

Ég hvet ykkur til að skoða módelið og sjá hvaða áhrif ólíkar leiðir hafa á ykkar kjör. Á efri tveim myndunum getið þið t.d. séð hvaða áhrif skattbreytingar hafa á ykkar eigin ráðstöfunartekjur.

– – –

Að þessu sögðu langar mig að setja fram nokkrar persónulegar skoðanir og athugasemdir með hliðsjón af reiknilíkaninu. Þær eru s.s. mínar eigin og ekki settar fram í nafni fyrirtækisins (enda hafa fyrirtæki ekki skoðanir):

  • Skatthlutfall af meðaltekjum er um 28%: Þetta er staðreynd. Meðaltals heildartekjur skv. Hagstofunni voru 454þús á mánuði 2008. Þegar tekið hefur verið tillit til persónuafsláttarins þýðir það að einstaklingur með þær tekjur borgar u.þ.b. 125þús krónur á mánuði í staðgreiðsluskatt. Það sem meira er: Sá sem hefur 200þús krónur í tekjur borgar aðeins um 16% sinna tekna í skatt og sá sem hefur 1 milljón á mánuði myndi borga 33%, jafnvel þó enginn væri hátekjuskatturinn. Milljón króna maðurinn borgaði þannig um 330þús, meðan 200þús króna maðurinn borgar 32þús krónur. Það er því mikil einföldun að segja að á Íslandi sé 37% tekjuskattur.
  • Enginn mun greiða 47% skatt: Jafnvel þótt róttækustu hugmyndir sem heyrst hafa um hátekjuskattsþrepin verði að veruleika mun enginn greiða 47% skatt af heildartekjum sínum. Í því þriggja þrepa kerfi sem nefnt hefur verið myndi einstaklingur með 1,6 milljónir króna í mánaðarlaun þó “aðeins” borga rétt rúmlega 41% tekna sinna í skatt.
  • Persónuafslátturinn er einfaldasta hátekjuskattkerfið: Eins og sjá má af ofangreindum dæmum erum við erum þegar með kerfi sem leggur mun hærri skattbyrði á þá sem hafa hæstu tekjurnar. Þetta er gert með persónuafslættinum. Hann tryggir það að þeir sem hafa lægstu tekjurnar greiði litla sem enga skatta og þeir sem hafa hæstu skattana greiði meira. Takið t.d. eftir því í fyrsta punktinum hér að ofan að einstaklingur með 5 sinnum hærri tekjur (milljón á móti 200þús á mánuði) greiðir 10 sinnum hærri skatta. Án þrepa myndast svo engir skrítnir hvatar til að umbuna starfsmönnum með frídögum eða öðrum fríðindum frekar en að hækka þá í launum, eða fara á annan hátt í kringum lögin eða anda þeirra.
  • Þrepaskatturinn skapar samfélaginu kostnað: Ef þriggja þrepa skattur verður að veruleika er framundan heilmikil vinna. Gera þarf breytingar á bókhaldskerfum allra fyrirtækja, og því miður eru þau mjög mis-sveigjanleg. Aukin vinna verður við eftirlit og utanumhald á vegum skattstjóra og innheimtuaðila, skattframtal verður flóknara, meiri hætta á mistökum o.s.frv., o.s.frv. Ég leyfi mér að fullyrða að samanlagður kostnaður samfélagsins við hugbúnaðarbreytingarnar einar vegna þessa nýja kerfis verði ekki undir einum milljarði króna. Og ef einhver vill halda því fram að það sé nú bara atvinnuskapandi, skal þeim hinum sama bent á að það er ekki atvinnuleysi í stétt hugbúnaðarfólks. Þvert á móti er vöntun á hæfu fólki.
  • Hægt er að ná sama tekjuauka OG HJÁLPA ÞEIM LAUNALÆGSTU MEIRA án þrepaskattsins: Eins og sýnt var í upphafi mun 3 þrepa kerfið færa ríkinu u.þ.b. 10 milljarða tekjuauka m.v. það tveggja þrepa kerfi sem nú er í notkun. Þeir launalægstu munu njóta lítillega góðs af lækkun á grunnþrepinu og þeir tekjuhæstu munu greiða verulega meira. En sjáið nú ÞETTA DÆMI. Þarna er aðeins eitt þrep. Persónuafslátturinn hefur verið hækkaður í 58.500 kr á mánuði og skatthlutfallið í 42,8%. Tekjuauki ríkisins er sá sami en þeir tekjulægstu koma mun betur út. Sá sem hefur 200þús á mánuði greiðir í þessu módeli rúmlega 5.000 krónum minna en í núverandi kerfi og nærri 3.000 krónum minna en í fyrirhuguðu 3 þrepa kerfi. Skatturinn á þá tekjuhæstu er hins vegar nokkuð svipaður og nú er og væri t.d. enn rétt undir 40% af tekjum í kringum 1,6 milljónir á mánuði, eða mjög svipaður og í núverandi 2 þrepa kerfi.

Ef sækja á svona miklar viðbótarskatttekjur í vasa almennings á annað borð, af hverju þá að flækja hlutina þegar þeir geta verið einfaldir?

Þangað til einhver færir góð rök fyrir öðru leyfi ég mér að fullyrða: Fjölþrepa skattkerfi er heimskulegt! Það hefur fjölmarga ókosti og enga kosti sem kerfi persónuafsláttar getur ekki leyst á betri og einfaldari hátt.

Opin gögn á Alþingi

detectiveStundum verður manni að ósk sinni hraðar en við mætti búast.

Fyrir sjö vikum síðan birti ég bloggfærslu undir titlinum “Opin gögn og gagnsæi – yfirlýsing stjórnvalda“. Þar fór ég yfir þá vitundarvakningu sem er að verða varðandi aðgengi að opinberum gögnum og gagnasöfnum, hvernig þetta spilar inn í þá gagnsæisumræðu sem nú er í gangi og gerði mér að leik að skrifa drög að stuttri yfirlýsingu sem ég lagði til að hið opinbera gerði að sinni.

Núna á föstudaginn var lögð fram þingsályktunartillaga, sem er efnislega í stórum dráttum samhljóma þessum drögum mínum.

Tillagan er lögð fram af breiðum hópi þingmanna, en það er þó að öðrum ólöstuðum varaþingmaður VG – Davíð Stefánsson – sem hefur átt frumkvæðið af því að keyra þetta áfram. Davíð hefur verið mjög áhugasamur um þessi málefni a.m.k. frá því að hann sat fyrirlestur í Hugmyndaráðuneytinu í byrjun árs þar sem ég flutti erindi um opin gögn og gagnaframsetningu. Reyndar hafa pólitíkusar úr – ég held ég megi segja – öllum flokkum sýnt málinu mikinn skilning og áhuga, enda er þetta mál sem í raun ætti ekki að höfða betur til einnar stefnu í pólitík en annarar.

Nú verður gaman að fylgjast með þessu máli í meðförum þingsins og sjá hvort þetta leiði til lagabreytinga og breytts hugsanaháttar varðandi aðgengi að opinberum gögnum.

Ég mæli með að fólk lesi tillöguna. Þetta er heilt yfir aðgengilegur, góður og umfram allt gáfulegur texti.

Opin veðurgögn – skref í rétta átt

Á þriðjudaginn var stigið lítið en mikilvægt skref í átt að opnum gögnum á Íslandi.

Þá var nefnilega opnaður aðgangur almennings að Gagnatorgi veðurupplýsinga. Á þessu gagnatorgi má með einföldum hætti nálgast allar veðurathuganir Veðurstofu Íslands sem skráðar eru í gagnagrunna hennar. Þessar athuganir taka til u.þ.b. 200 veðurstöðva víðsvegar um landið og ná í sumum tilvikum allt aftur til ársins 1931.

Mörgum þeim sem e.t.v. eru ekki heitir áhugamenn um veðurfar og veðurupplýsingar kann að finnast lítið til koma, enda er virkni lausnarinnar tiltölulega afmörkuð og augljósar viðbætur sem hægt er að gera t.d. til að bæta myndræna framsetningu þessara veðurgagna og almennt upplýsingagildi. Lausninni var þó ekki ætlað að gera annað eða meira á þessu stigi málsins en að gera gögnin auðveldlega aðgengileg skólafólki, áhugamönnum um veðurfar og öðrum sem kunna að hafa gagn af þeim.

Mig langar samt að benda á að þetta er að mörgu leiti mjög merkilegt skref, því það setur það tóninn fyrir það sem koma skal í opnu gagnaaðgengi hér á landi.

Veðurgögnin sem þarna er opnað aðgengi að eru afurð áratuga starfs óeigingjarnra athugunarmanna, veðurfræðinga, tæknimanna og annara sem komið hafa að því að byggja upp öflugt kerfi veðurathugana hér á landi. Og frá og með þriðjudeginum skila þessi gögn sér jafnóðum inn í Gagnatorg veðurupplýsinga og eru samstundis aðgengileg landsmönnum öllum.

Þetta eru þau gögn sem liggja að baki þeim veðurspám, spálíkönum og veðurrannsóknum sem stundaðar hafa verið hér á landi; ómetanlegur grunnur að þekkingu, öryggi landsmanna og nýtingu okkar á gæðum lands og sjávar.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að opið aðgengi almennings, skólafólks, fræðasamfélags og einkafyrirtækja að þessum gögnum mun leiða af sér enn meiri þekkingu, fróðleik og verðmæti. Menntaskólanemendur munu nota Gagnatorgið til heimildaöflunar, grunnskólanemendur munu þar kynnast samhengi vindstyrks og vindáttar í sinni heimabyggð og af hverju afi segir að það komi alltaf þoka þegar hann er “að austan”. Flugáhugamenn munu finna flugvöllum sínum stað og ef til vill mun einhver áhugamaður um veðurfar gera merkilega uppgötvun um veðrið á Akureyri. Hver veit?

Líklega eiga merkilegustu áhrif þess að opna aðgengi að þessum gögnum eftir að vera eitthvað sem við höfum ekki hugmyndaflug til að ímynda okkur núna.

Ég tek heilshugar undir það sem Menntamálaráðherra sagði við opnun gagnatorgsins:

Opinber gögn sem safnað hefur verið fyrir opinbert fé eru fjársjóður sem enn er að stóru leiti óuppgötvaður. Veðurgögn eru aðeins eitt af ótal dæmum.

Opið gagnaaðgengi tilheyrir alls ekki einhverri ákveðinni stefnu í pólitík – þetta er eitt af þeim málum sem allir ættu að geta verið sammála um hvort sem þeir aðhyllast svokallaða hægri- eða vinstri-stefnu í pólitík. Óheft og jafnt aðgengi að upplýsingum er t.d. grundvallaratriði í frjálsum markaðsbúskap og þó ólíkar stefnur greini á um hve mikil umsvif ríkisins eigi að vera, held ég að fólk sé almennt sammála um að okkur beri að hámarka verðmæti þess sem unnið er fyrir opinbert fé.

Í opnara aðgengi að gögnum hins opinbera bíða fjölmörg tækifæri vísindamanna, skólafólks, nýsköpunar og atvinnulífs framtíðarinnar. Opnun Gagnatorgs veðurupplýsinga er bara lítið skref á þeirri braut, en ég er viss um að við munum á næstu mánuðum og árum sjá aðgengi opnað að fjölmörgum öðrum gagnasöfnum sem munu knýja nýsköpun og þekkingu og auka aðhald almennings og fjölmiðla að starfsemi jafnt hins opinbera sem einkaaðila.

Nú er undir áhugamönnum um veður, vísindi og opið gagnaaðgengi að sýna hvað í þeim – og veðurgögnunum – býr og sanna þar með hverju opið gagnaaðgengi getur áorkað.

– – –

Það eru fyrirtækin Reiknistofa í veðurfræði og DataMarket (sem undirritaður rekur ásamt öðrum) sem standa að þróun og rekstri Gagnatorgsins.

Opin gögn og gagnsæi – yfirlýsing stjórnvalda

transparencyFyrir nokkrum vikum skrifaði ég færslu á bloggsíðu DataMarket um það sem kalla mætti “vægðarlaust gagnsæi“. Færslan gengur í stuttu máli út á það að leiðin til að endurreisa traust á Íslandi – jafnt inn á við sem út á við – felist í gagnsæi og heiðarleika á áður óþekktu stigi – að sýna svo ekki verður um villst að það sé ekkert að fela.

Færslan er skrifuð á ensku og hefur vakið dálitla athygli. Hún leiddi m.a. af sér viðtal í veftímaritinu Frontier Economy þar sem farið er dýpra í saumana á sumum þeim hugmyndum sem þar voru settar fram.

Ég hef líka skrifað og beitt mér fyrir opnum gögnum í töluverðan tíma. Opin gögn snúast í stuttu máli um það að öll gögn sem safnað er eða útbúin hjá opinberum aðilum eigi að vera opin og aðgengileg öllum, án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars, t.d. af persónuverndar- eða öryggissjónarmiðum. Á vefnum opingogn.net má nálgast drög að íslenskri þýðingu skilgreiningar á opnum gögnum.

Í raun má segja að opin gögn og vægðarlaust gagnsæi séu tvær hliðar á sama málinu:

  • Opin gögn snúast um meðferð gagna í umsjá hins opinbera.
  • Vægðarlaust gagnsæi snýst hins um það hvort e.t.v. sé ástæða til að safna eða framreiða einhver gögn til viðbótar við það sem þegar er í þeim tilgangi sérstaklega að upplýsa um framvindu eða stöðu mála.

obama-kundraUm þessar mundir gengur yfir heiminn vitundarvakning varðandi mikilvægi opinna gagna og þá sérstaklega “formfastra gagna” (e. structured data). Mest áberandi er þessi vakning í Bandaríkjunum, en þegar á fyrstu dögum í embætti gaf Obama út skýr fyrirmæli um það að opinberar stofnanir skyldu sem allra fyrst gera gagnasöfn sín aðgengileg almenningi á vefnum, án hindrana. Hann réð jafnframt í fyrsta skipti til starfa upplýsingatæknistjóra (CIO) við stjórnina – sá heitir Vivek Kundra og hefur lyft grettistaki á stuttum tíma. Helsta birtingarmynd þess er vefsvæðið Data.gov, þar sem nú má nálgast yfir 100 þúsund gagnasöfn frá hundruðum opinberra stofnanna. Þessi gögn hafa svo bæði fjölmiðlar, fyrirtæki og áhugasamir einstaklingar notað við afar áhugaverð verkefni sem opna ný tækifæri, auka skilning á flóknum þáttum samfélagsins og veita hinu opinbera aðhald.

berners-leeÍ Bretlandi hafa báðir stóru flokkarnir markað skýra stefnu í þessa veru. Stjórnin hefur þar að auki fengið til liðs við sig engan annan en Tim Berners-Lee. Berners-Lee hefur verið kallaður “faðir vefsins” og er vel að þeim titli kominn enda bjó hann til HTML staðalinn sem allar vefsíður og þar með vefurinn allur byggir á. Berners-Lee hefur í seinni tíð verið ötull talsmaður opinna gagna og hefur sennilega betri skilning á því en flestir hversu verðmætt opið aðgengi og samtengingar gagna úr ólíkum áttum getur verið.

roslingAð lokum má nefna sænska prófessorinn Hans Rosling, sem hefur með líflegri framsetningu gagna vakið marga – ekki síst alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu Þjóðirnar, OECD og jafnvel Evrópusambandið – til umhugsunar og góðra verka í því að gera sín gögn aðgengilegari en verið hefur.

Fáir hafa þó meiri þörf fyrir að meðtaka þessa hugmyndafræði en einmitt trausti rúnir Íslendingar. Ég veit fyrir víst að víða er vilji og sums staðar skilningur fyrir þessum málum, en mörg nýleg dæmi sýna mikilvægi þess að ná almennum vilja, skilningi og aðgerðum á þessu máli til þess að við getum byggt hér upp heiðarlegt samfélag trausts og samstöðu.

Í ríkjandi kerfi er litið svo á að öll gögn séu trúnaðarmál nema sérstök ástæða sé til að opna þau. Þessum hugsanahætti þarf að snúa við. Gögn opinberra aðila eiga hér eftir að vera opin nema sérstök ástæða sé til að vefja þau trúnaði.

Ég gerði mér því að leik að skrifa drög að örstuttri yfirlýsingu sem ég legg hér með til að ríkisstjórnin (og reyndar aðrir opinberir aðilar, s.s. sveitarfélög) geri að sinni og fylgi svo eftir með aðgerðum:

Öll gögn í umsjón opinberra aðila skulu hér eftir vera opin og aðgengileg almenningi án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars. Skilgreindar verða skýrar viðmiðunarreglur um hvað teljast ástæður til hindrana með tilliti til persónuverndar, öryggissjónarmiða og annara ríkari hagsmuna. Undantekningar skulu vera vel rökstuddar og skal ekki hindra aðgang meira en til að mæta þeim rökum.

Allar stofnanir hins opinbera skulu þegar í stað birta skrá yfir þau gögn og gagnasöfn sem þær ráða yfir og gera gögn þeirra aðgengileg á því formi sem þau eru nú á. Jafnframt skal skrá gagnasöfn sem ekki er opnaður aðgangur að, tilgreina efnistök þeirra, ástæður fyrir hindrunum á aðgengi og hvenær þeim hindrunum verði aflétt. Til lengri tíma skal leitast við að gera gögnin aðgengileg á stöðluðu, tölvutæku formi sem tekur tillit til allra þátta sem kveðið er á um í skilgreiningu opinna gagna.

Stofnanir skulu einnig gera úttekt á því hvort starfsemi þeirra gefi ástæðu til að safna sérstaklega gögnum umfram það sem þegar er gert í þeim tilgangi að auka gagnsæi á starfsemi sína eða á samfélagið almennt.

Það er ekki flókið að gefa þessa yfirlýsingu, ekki dýrt að fylgja henni eftir og reyndar að miklu leiti þegar kveðið á um þessa hluti í upplýsingalögum og annari stefnumörkun sem þegar hefur átt sér stað. Núna er bara ríkari ástæða en nokkru sinni til að láta verkin tala og endurbyggja þannig traustið sem tapaðist.

Nýting íslenskra auðlinda – ólík nálgun

sustainabilityTöluvert hefur verið rætt um náttúruauðlindir okkar Íslendinga, nýtingu þeirra og umgjörð síðustu mánuði.

Í stuttu máli er um að ræða tvær meginauðlindir sem nýttar eru og fluttar út í dag svo nokkru nemi: endurnýjanleg orka og sjávarfang. Í framtíðinni verða þær etv. fleiri og mætti nefna neysluvatn og jarðefnaeldsneyti í því samhengi.

Þó þessar tvær meginauðlindir okkar séu í eðli sínu býsna ólíkar, gilda mörg sömu lögmálin um þær. Hvort tveggja eru þetta auðlindir sem endurnýja sig og unnt er að nýta umtalsvert án þess að á þær gangi frá ári til árs. Bæði virkjanakostir og fiskimið liggja að mestu utan hefðbundins eignalands og má því með góðum rökum segja að þær séu í grunninn sameign þjóðarinnar. Af þessu mætti ráða að umgjörð þessarra tveggja mikilvægu atvinnuvega ætti að mestu að lúta sömu lögmálum. Ef við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæm hljótum við að byggja nýtingu þessara auðlinda á sömu grundvallarreglum – og ef ekki, þá hljóta að minnsta kosti að liggja góð rök að baki því.

Kerfin eru hins vegar gerólík.

  • Orkuvinnsla hefur frá upphafi verið nær alfarið á vegum hins opinbera. Landsvirkjun, Orkuveitan og önnur orkufyrirtæki hafa verið í eigu hins opinbera og skilað sínum arði þangað þegar hann hefur verið til staðar. Ríkið hefur sömuleiðis gert, ábyrgst og liðkað fyrir mörgum stærstu fjárfestingum sem gerðar hafa verið í orkugeiranum. Þrátt fyrir að margar þessara framkvæmda hafi verið umdeildar hefur verið nokkuð almenn sátt um þetta fyrirkomulag eignarhalds, hvort sem stjórnvöld á hverjum tíma hafa kennt sig við hægri eða vinstri.
  • Um fiskveiðarnar gegnir hins vegar allt öðru máli. Úthlutun veiðiheimilda er jú á höndum hins opinbera, en í seinni tíð held ég að segja megi að öll vinnsla, fjárfesting og nýting þessarar auðlindar hafi verið á höndum einkaaðila. Litið hefur verið svo á að umsvif þessara fyrirtækja, skattgreiðslur þeirra og nú síðast mjög hóflegt auðlindagjald sé endurgjald þessara aðila fyrir nýtingu auðlindarinnar. Þrátt fyrir að fiskveiðistjórnunarkerfið sé mjög umdeilt virðist sömuleiðis gilda almenn sátt um það að nýting þessarar auðlindar sé á höndum einkaaðila, hvort sem menn kenna sig við hægri eða vinstri. Satt að segja man ég ekki eftir einum einasta manni sem hefur lagt til breytingar á þann veg að útgerð yrði almennt í höndum opinberra aðila – deilurnar hafa frekar snúist um endurgjald þeirra fyrir þá nýtingu.

Hvernig stendur á þessum mikla mun á því hvernig við meðhöndlum þessar náttúruauðlindir? Erum við ekki í hrópandi mótsögn við sjálf okkur með því að nálgast þær með svona ólíkum hætti? Þurfum við ekki að setja niður fyrir okkur einhver grundvallarviðmið í því hvernig við viljum að allar auðlindir séu nýttar þannig að þær nýtist landsmönnum sem best og hefja svo umbætur á þessum kerfum með hliðsjón af því? Þá munum við líka eiga auðveldara með að ákveða hvernig nýta eigi aðrar auðlindir, þegar og ef vinnsla þeirra hefst í stórum stíl.

Ég held að það væri okkur hollt að skoða þessi kerfi vandlega, reyna að átta okkur á því hvort það er einhver eðlismunur á auðlindunum sem réttlætir mismunandi nálgun í nýtingu þeirra og reyna að setja niður þær grundvallarreglur sem við viljum að gildi um þær. Mér vitanlega hefur þetta aldrei verið gert.

Tugmilljarða misræmi í Icesave skjölum

Ég bið ykkur um að lesa eftirfarandi færslu mjög vandlega og með gagnrýnum huga áður en þið dragið nokkrar ályktanir, eða hefjið upphrópanir út frá því sem hér kemur fram. Þetta er afar viðkvæmt efni, óvíst að ég hafi rétt fyrir mér og góðar líkur á að það sem hér kemur fram eigi sér eðlilegar skýringar sem hafi engin áhrif þegar allt kemur til alls. Sem sagt: Anda rólega

Uppfært 20. ágúst, 2009 kl. 18:20: Skýring hefur fengist á fyrra atriðinu sem nefnt er í færslunni. Sjá athugasemd #7 í athugasemdakerfinu.

Uppfært 21. ágúst 2009 kl 18:30: Skýring hefur nú einnig fengist á síðara atriðinu. Sjá athugasemd #8 í athugasemdakerfinu.

Ég er kreppuklámhundur. Að hluta til hef ég afsökun. Það að liggja yfir gögnum er vinnan mín – meira að segja það að liggja yfir Icesave-gögnum.

Ég er þess vegna búinn að skoða fleiri tölur og velta mér meira uppúr því hvernig þessir hlutir hanga saman en mér er hollt. Við það hafa vaknað nokkrar spurningar, sem ég hef – þrátt fyrir margvíslegar tilraunir – ekki getað fengið viðhlýtandi skýringu á. Hér að neðan má sjá tvö þessara atriða. Bæði þessi atriði eru í besta falli einfaldur misskilningur minn eða saklaus mistök þeirra sem í hlut eiga, en í versta falli tugmilljarða yfirsjónir við meðferð málsins. Ég ætla að gera ráð fyrir því fyrrnefnda þar til annað kemur í ljós.

1. 150 milljón evra misræmi í Icesave skjölum

Í lánasamningnum við Hollendinga er eftirfarandi klausa (í íslenskri þýðingu af Ísland.is):

2.1.2 Fjárhæð endurgreiðslunnar nemur 1.329.242.850 evrum (einum milljarði þrjú hundruð tuttugu og níu milljónum tvö hundruð fjörtíu og tvö þúsund átta hundruð og fimmtíu evrum).

Í skjali sem hefur gengið manna á milli um dreifingu innistæðufjárhæða á Icesave reikningunum er hins vegar þetta yfirlit:

icesave-distribution

Ég sé þetta skjal ekki í þeim gögnum sem lögð hafa verið fram á vef Alþingis með málinu, en það á uppruna sinn í Landsbankanum, virðist tekið saman í lok mars á þessu ári og á að sýna stöðuna þann 8. október 2008, daginn eftir að Landsbankinn var tekinn yfir.

Talan sem ég hef dregið rauðan kassa utan um eru heildarinnistæður á Icesave í Hollandi undir 20.887 evra markinu. Hún ætti sem sagt að samsvara lánsfjárhæðinni, en eins og sjá má er hún þarna 1.180.611.896 eða u.þ.b. 150 milljónum evra lægri en lánsfjárhæðin. Allar tölur aðrar, s.s. heildarinnistæður og fjöldi innlánseigenda stemma við önnur gögn sem fram hafa komið. Í samningnum við Hollendinga er enginn fyrirvari er gerður við þessa upphæð og því um endanlega fjárhæð að ræða.

Ég hef enga ástæðu til að efast um uppruna skjalsins sem um ræðir. Það er auðvitað hugsanlegt að seinna hafi komið í ljós einhver skekkja og nýtt skjal verið útbúið, en það er allavegana þess virði að fá skýringar á þessum mun. 150 milljón evrur eru jú u.þ.b. 27,5 milljarðar króna á gengi dagsins og það 27,5 milljarðar sem við þurfum að borga til baka og borga vexti af næstu árin.

Í tilfelli bresku reikningana eru samsvarandi fjárhæðir 2.350.000.000 og 2.239.478.713 pund. Þar munar sem sagt ca. 110 milljón pundum. Samningurinn við Breta er hins vegar að þessu leyti aðeins annars eðlis. Þar kemur fram að um lánalínu sé að ræða, upphæðin sé hámark og að endanleg upphæð verði að líkindum lægri og ráðist af útgreiðslum breska ríkisins og breska innlánstryggingasjóðsins. Að auki er í Excel-skjalinu reiknað með að 20.887 evra lágmarkstryggingin samsvari 16.500 pundum, en í samningnum er miðað við annað gengi og þar samsvarar hún 16.873 pundum sem skýrir hluta þessa mismunar. Ég hef því ekki áhyggjur af breska samningnum að þessu leyti.

2. Misræmi í endurheimtuferlum á eignum Landsbanka
Einu gögnin sem hafa – mér vitanlega – verið gerð opinber um áætlaðan endurheimtuferil á eignum LÍ, eru í fylgiskjali 2 með skriflegri umsögn SÍ um Icesave (bls. 18). Þar er þessi tafla:

icesave-si-fylgiskjal2

Þarna eru höfuðstóll og greiðslur gefnar upp í GBP, EUR og svo (væntanlega) reiknað samanlagt yfir í ISK. Gengisforsendurnar fyrir hvorn gjaldmiðil eru svo gefnar í öftustu 2 dálkunum.

Aftur hef ég samt dregið rauðan kassa utan um nokkrar tölur. Ég fór nefnilega að vinna með þessar talnaraðir og þá kom í ljós að fyrstu 7 árin kemur formúlan ((Greiðslur í GBP * Gengi GBP) + (Greiðslur í EUR * Gengi EUR)) ekki heim og saman við Greiðslur í ISK.

Tökum 2009 sem dæmi. Þar er sagt að greiðslur í krónum séu 66.112 milljónir (rúmir 66 milljarðar). Greiðslur í pundum eru hins vegar 220 milljónir og í evrum 125 milljónir. Miðað við gengisforsendurnar í öftustu tveim dálkunum lítur formúlan þá svona út ((220 * 177,46) + (125 * 158,18)) = 58.814 milljónir (tæpir 59 milljarðar). Þarna munar s.s. einum 7 milljörðum. Þessi skekkja er gegnum gangandi í þessum dálki allt til ársins 2015 að því ári meðtöldu, þ.e. á þeim tíma sem eignir Landsbankans eiga að vera að koma til lækkunar á höfuðstólnum.

Samtals munar á þessum 7 árum rétt rúmum 79 milljörðum á reiknaðri fjárhæð og þeirri sem fram kemur í töflunni, þannig að spurningin er: Hvor talan er rétt?

Ég vona að minnsta kosti að enginn sé að taka stórar ákvarðanir útfrá þessum tölum nema viðkomandi viti hverju má treysta í þessu og hvort möguleiki sé á að rangar eða misvísandi tölur liggi nokkur staðar sem forsendur útreikninga t.d. á greiðslubyrði vegna samningsins.

– – –

Eins og ég sagði í upphafi færslunnar: Vonandi á þetta sér hvort tveggja góðar og gildar skýringar og ég vil ekki valda stormi í vatnsglasi með þessum vangaveltum. Mér líður bara ekki vel með skekkjur upp á meira en 100 milljarða í gögnum sem liggja til grundvallar einu af stærstu málum í sögu þjóðarinnar.

Með öðrum orðum: Ekki rjúka upp til handa og fóta og halda að ég hafi rétt fyrir mér með þetta og að afleiðingarnar séu með einhverjum hætti tjón eða hugsanlegt tjón af þeim stærðargráðum sem hér um ræðir. Fyrst skulum við sjá hvort það er ekki einhver þarna úti sem getur bent mér á mistúlkun í ofangreindum atriðum, eða komið með ný gögn eða haldbærar skýringar á þessum skekkjum.

Icesave-reiknir leiðréttur

Eftir ábendingu frá vökulum notanda, fundum við villu í Icesave-reikninum sem DataMarket setti í loftið í samvinnu við mbl.is í síðustu viku. Sjá fyrri færslu.

Villan gerði það að verkum að áhrif breyttrar kröfuraðar voru ofmetin í þeim tilfellum þegar endurheimtar eignir Landsbankans verða verulegar. Þetta hefur nú verið leiðrétt.

Að öðru leiti stendur reiknilíkanið óhaggað. Allar skýringar eru óbreyttar og eftir sem áður réttar.

DataMarket – sem ber ábyrgð á reikniverki Icesave-reiknisins – biðst afsökunar á þessum mistökum.

Áhrifin eru umtalsverð. Breytingin frá grunnforsendum, við það að breyta kröfuröðinni er 87,8 milljarðar króna nú í stað ríflega 200 milljarða áður. Frávik í öðrum dæmum fara – eins og segir í tilkynningunni – eftir því hve mikið af eignum Landsbankans endurheimtast.

Leiðrétting þessa efnis mun birtast á mbl.is í fyrramálið.

Þetta særir stoltið auðvitað töluvert. Ástæðuna fyrir því að þessi villa slæddist með má rekja til ónógra prófana áður en reiknirinn fór í loftið, en forsendurnar og útreikningarnir eru – eins og sjá má í útskýringum við reikninn – býsna margslungin.

Rétt skal vera rétt og við lærum af þessum mistökum.

Icesave reiknir mbl.is og DataMarket

Fyrr í kvöld var sett í loftið gagnvirk fréttaskýring um Icesave skudbindingarnar á mbl.is. Þetta er reiknivél þar sem lesa má skýringar við helstu álitaefni og óvissuþætti í samningnum og sjá hvaða áhrif breyttar forsendur hafa á skuldbindinguna sem ríkið tekst á hendur með samningnum, endurheimtur eigna og greiðsludreifinguna svo eitthvað sé nefnt.

Reiknirinn er samstarfsverkefni DataMarket (sem ég rek ásamt litlum hópi snillinga) og mbl.is. Smellið á myndina til að skoða reikninn:

Icesave reiknir

Ég er ekki síður stoltur af þeim skýringum sem settar eru fram með forsendunum, en sjálfum reikninum. Sérstaklega held ég að okkur hafi tekist að koma ágreiningnum um forgang krafna í skiljanlegan búning með þessari kynningu sem birt er í skýringum við þann lið reiknisins:

Ég vona að reiknirinn reynist hjálplegur við að skilja þetta stóra og flókna mál og mynda sér skoðun á því. Gagnrýni er að sjálfsögðu velkomin.

Drög að ávarpi Steingríms J. til Breta og Hollendinga

Ég gerði mér það að leik að setja saman drög að ávarpinu sem Steingrímur Joð þarf að flytja og koma að í alþjóðlegum fjölmiðlum á næstu dögum. Ekki hika við að koma með tillögur að úrbótum:

– – –

Dear Wouter Bos and Alister Darling,

The Icelandic parliament has today rejected the agreements on the resolution of the Icesave dispute that our negotiation teams had put together and I had signed pending the approval of the parliament.

I want to make clear that this does not mean that we reject our responsibilities for the failure of the Icelandic banks and the consequences to British and Dutch depositors. On the contrary, I want to reassure you that the Icelandic government will fulfill its obligations according to EU and EEC law and guarantee the minimum amount stated in the respective directive. If there has been any doubt whether Icelanders are required by law to do so, we are certainly required to do so morally as the heads of our government had on numerous occasions reassured financial authorities, governments and even depositors themselves that the banks were backed by the government and – furthermore – painted an unrealistic picture of the health of the Icelandic banking sector.

Icelanders are people of their words. Any government minister at any time speaks on behalf of the nation, and therefore we will honor those commitments regardless of any legal ambiguities.

A thorough discussion in parliament committees, opinions from leading specialists and heated debates among the Icelandic public has revealed that the current agreement is unacceptable.

Our negotiation team made a mistake in agreeing to it before all the facts had been put straight, and for that I apologize.

First of all, the agreement puts more responsibilities on the Icelandic government than we are required by law or our officials have ever committed to in any way. Secondly, the burden it puts on the Icelandic nation more than it will be able to handle.

It is therefore in the interest of all parties involved to sit down again and renegotiate. The terms that need changing are:

  • That the assets of Landsbanki will first serve the minimum guarantee of EUR 20,887 per depositor account BEFORE they are used to cover the further guarantees of GBP 50,000 and EUR 100,000 made by the governments of the United Kingdom and the Netherlands respectively at their own choice.
  • That the order of affairs in the event of Iceland’s failure to meet the terms of the agreement will be clarified.

I propose a personal meeting between the three of us at the earliest possible opportunity to sort out the big picture, so that we can have an updated agreement before our parliament within a few days, and then start working towards rebuilding our nations’ relationships.

Yours truly,
Steingrimur J Sigfusson,
Minister of Finance
Iceland

100 dagar – tilraun í “opnu aðhaldi”

sjs-jsÞann 11. maí kynnti ný ríkisstjórn stjórnarsáttmála sinn og samhliða honum aðgerðaáætlun yfir verkefni sem hún hyggðist ljúka á fyrstu 100 dögum stjórnarsetunnar. Að flestu leyti eru svona vinnubrögð til fyrirmyndar: gagnsemi “to-do” lista er margsönnuð og þarna voru að auki sett fram mælanleg og nokkuð skýr markmið fyrir fyrstu skref nýrrar stjórnar.

Ég ákvað því að gera smá tilraun með áhrifamátt netsins og “opins aðhalds” við ríkisstjórnina og setti samdægurs upp einfalda vefsíðu þar sem atriðin á voru listuð og dagarnir taldir niður. Síðan þá hef ég merkt við atriði eftir því sem þau hafa verið kláruð og ég hef orðið þess var. Þannig er hægt að fylgjast með því hver staðan í þessum aðgerðum er á hverjum tíma.

Þetta hefur verið mjög áhugaverð tilraun. Alls hafa hátt í 20þús manns skoðað listann og ég hef fengið fjöldan allan af tölvupóstskeytum um atriði sem er lokið, álitaefni og aðrar ábendingar. Þessi skeyti hafa spannað allt litrófið bæði í pólitík og samfélagsstöðu. Þannig veit ég fyrir víst að fylgst er með þessum lista af þingmönnum, aðstoðarmönnum ráðherra, stjórnarandstæðingum og fólki sem hefur (greinilega) afar heitar skoðanir á þjóðfélagsmálum.

Tvívegis hefur stjórnin svo sent frá sér tilkynningar um það hvernig þeim miði í að vinna niður þennan aðgerðalista. Sú fyrri (sem reyndar var frétt á RÚV, en nokkuð örugglega byggð á tilkynningu frá forsætisráðuneytinu) birtist þann 30. maí síðastliðinn. Þar sagði að 10 atriðum af 48 væri lokið. Þá hafði ég aðeins merkt við 4 atriði á listanum og þetta kom mér því nokkuð á óvart. Ég lagðist yfir listann og leitaði heimilda um þessi 10 atriði. Viðmiðunin var sú að til að atriði teldist lokið væri hægt að finna á helstu fréttamiðlum eða vefmiðlum stjórnarráðsins staðfestingu á því að atriðinu væri sannanlega lokið. Niðurstaðan var sú að í 4 tilfellum af þessum 10 fann ég engar heimildir – aðrar en frétt RÚV – um að svo væri í raun og veru.

Síðari tilkynningin barst nú á föstudaginn. Þar segir að 21 atriði af 48 sé lokið. Ég fór yfir þennan lista með sama hætti og komst að því að mér höfðu sannanlega yfirsést nokkur atriði sem lokið hefur verið við eða tilkynnt um síðustu daga. Hins vegar get ég alls ekki kvittað undir 21 atriði. Mín niðurstaða er sú að 15 atriðum sé lokið.

Viðmiðunin er – sem fyrr sagði – að hægt sé að finna staðfestingu á því að verkefnunum sé lokið, en sömuleiðis virðist stjórnin túlka “aðgerðir” nokkuð duglega sér í hag. Hér er útlistun á þeim atriðum sem orkuðu tvímælis í mínum huga, þar á meðal þeim 6 þar sem ég er ósammála túlkuninni í tilkynningu stjórnarinnar:

  • Liður númer 5 í tilkynningu ráðuneytisins segir að ríkisstjórnin hafi “Stóraukið samráð við hagsmunasamtök á vinnumarkaði þar sem skipst hefur verið á skoðunum um ríkisfjármál, atvinnumál og stöðugleikasáttmála.” Þetta atriði er ekki á hinum upphaflega lista. Þar er aftur á móti #31: “Samráðsvettvangur ríkisstjórnar, sveitarfélaga, landbúnaðarins og aðila vinnumarkaðarins settur á fót.” Er þetta sami punkturinn? Eru fulltrúar sveitarfélaga og landbúnaðarins með í þessu “stóraukna samráði”? Vísar þetta til viðræðna um stöðugleikasáttmálann svokallaða?
    Niðurstaða: Ég gef þessu – þar til þessi orðalagsbreyting hefur verið útskýrð.
     
  • Atriði númer 6 í tilkynningunni segir að stjórnin hafi “Hafið vinnu við gerð yfirlits um stöðu og þróun lykilstærða í samfélaginu til að skilgreina vanda samtímans og framtíðarvalkosti í mikilvægum málaflokkum.” Þetta samsvarar atriði #47 á upphaflega listanum. Ég gat ekki fundið neinar heimildir aðrar en fréttatilkynningar stjórnvalda um að þessu atriði væri lokið. Hvað er verið að gera? Hver er að gera það? Hvar getum við fylgst með þessari vinnu?
    Niðurstaða: Ekki merkt við.
     
  • Atriði númer 14 í tilkynningu ráðuneytisins segir að stjórnin hafi “Skipað starfshóp til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða með þátttöku allra stjórnmálaflokka á Alþingi og fjölmargra hagsmunasamtaka.” Þetta samsvarar punkti #7 í upphaflega listanum sem hljóðar einfaldlega svo: “Endurskoðun hafin á fiskveiðistjórnunarkerfinu.” Besta heimild sem ég fann um aðgerðir tengdar þessu atriði var tilkynning sjávarútvegsráðuneytisins frá 5. júní. Þar segir að “Jón Bjarnason [hafi] ákveðið að skipa starfshóp um endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar” og að “eftirtöldum aðilum verið boðið að tilnefna fulltrúa í starfshópinn…”. Ég get ekki fallist á það að þetta þýði að endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins sé hafin. Starfshópurinn hefur eftir því sem næst verður komist ekki einu sinni verið skipaður og þar með engin vinna hafin.
    Niðurstaða: Ekki merkt við.
     
  • Atriði númer 15 í tilkynningunni segir að stjórnvöld hafi “Lagt fram náttúruverndaráætlun til ársins 2013 til þess að stuðla að traustri verndun íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd á Íslandi.” Þetta samsvarar atriði #39 á upphaflega listanum: “Náttúruverndaráætlun til ársins 2013 lögð fram á Alþingi.” Reyndin er sú að þessi áætlun var lögð fram í desember 2008 og ef marka má feril málsins á vef Alþingis hefur ekkert verið hreyft við þessu máli á yfirstandandi þingi og þar með ekki á starfstíma núverandi ríkisstjórnar. Það er líklega rétt að merkja við þetta atriði, en erfitt fyrir starfandi ríkisstjórn að eigna sér heiðurinn af því.
    Niðurstaða: Merkt sem lokið, en um leið útskrifað sem ódýrasta aðgerð stjórnarinnar á listanum – henni var lokið áður en stjórnin tók til starfa 🙂
     
  • Atriði númer 17 í tilkynningunni: “[Ríkisstjórnin hefur] hafið vinnu við endurskoðun upplýsingalaga til að auka aðgengi almennings og fjölmiðla að opinberum upplýsingum.” samsvarar atriði #22 á upphaflega listanum: “Endurskoðun hafin á upplýsingalögum í því augnamiði að auka aðgengi almennings og fjölmiðla að upplýsingum stjórnarráðsins.” Samkvæmt þessari frétt forsætisráðuneytisins frá 22. maí, sýnist mér að um þetta gildi hið sama og um atriði 14. Í frétt ráðuneytisins felst ekkert nýtt. “Ákvörðun” ríkisstjórnarinnar þann 19. maí var að gera það sem hún var þegar búin að segjast ætla að gera í 100 daga áætluninni. Nefndin hefur – skv. því sem næst verður komist – ekki verið skipuð og því ekki hægt að segja að vinna við endurskoðun þessarra laga sé hafin.
    Niðurstaða: Ekki merkt við.
     
  • Atriði númer 18 í tilkynningunni segir að stjórnin hafi “Hafið vinnu við mótun menningarstefnu til framtíðar í samráði við listamenn.” Þetta samsvarar atriði #42 á upphaflega listanum. Í menntamálaráðuneytinu hefur verið starfrækt svokölluð Skrifstofa menningarmála að minnsta kosti frá árinu 2004. Meðal hlutverka hennar er að “[undirbúa] mótun menningarstefnu, [hafa] umsjón með framkvæmd hennar og annast almenna stjórnsýslu á sviði menningarmála.” Það væri því býsna ódýrt að telja það til afreka nýju ríkisstjórnarinnar. Um það að þessi vinna hafi breyst eða hún tekin til endurskoðunar í tíma nýrrar stjórnar get ég engar heimildir fundið á vefjum stjórnarráðsins eða fréttamiðlum og því ómögulegt að sannreyna að eitthvað hafi verið gert í þessu máli.
    Niðurstaða: Ekki merkt við fyrr en skýrt hefur verið hver munurinn er á áformum stjórnarinnar og þeirri vinnu sem þegar var í gangi. Ef sá munur er ekki til staðar má merkja við þetta atriði, en þá lendir það í harðri samkeppni við náttúruverndaráætlunina um ódýrasta bragðið á listanum.
     
  • Atriði 21 í tilkynningunni segir að stjórnin hafi “Tekið ákvörðun um eigendastefnu og eignarhald bankanna í ríkisstjórn.” Þetta samsvarar atriði #3 í upphaflega listanum. Þetta er gott að heyra – stórtíðindi reyndar – en ómögulegt að sannreyna fyrr en þessi ákvörðun hefur verið gefin út og birt almenningi. Ég get því ekki merkt við þennan lið – en ólíklegt að það fari framhjá manni þegar ákvörðunin sem sagt er að liggi fyrir verður kynnt!
    Niðurstaða: Ekki merkt við.

Okkur ríkisstjórninni ber s.s. ekki alveg saman um framgang hennar. Að hluta til er um túlkunaratriði að ræða, í einhverjum tilfellum segist stjórnin vera búin með atriði sem hún hefur/getur ekki sagt okkur frá og í einhverjum tilfellum er líklega bara um skort á upplýsingagjöf stjórnarinnar – eða leitarhæfileikum mínum að ræða.

Tilraunin heldur augljóslega áfram næstu 65 dagana og ég er nokkuð viss um að það á fleira áhugavert eftir að koma út úr henni. Ábendingar, hugmyndir og gagnrýni velkomin.