Eftir því sem líður frá bankahruninu er að koma betur og betur í ljós hversu stálheppin við höfum verið með margt í þessari atburðarás. Það merkilega er samt að fæst af þessu voru ákvarðanir sem teknar voru af stjórnvöldum á hverjum tíma. Þetta voru heldur ekki tillögur stjórnarandstöðu eða fólksins í landinu. Þetta voru satt að segja hlutir sem gerðust ÞRÁTT FYRIR þessa aðila og það sem þeir vildu. Eða í besta falli vegna heilbrigðrar togstreitu þeirra á milli. Mest hefur þetta ferli samt verið tilviljunum háð.
Við erum sem sagt þjóðin sem grísaðist í gegnum algert bankahrun. Geri aðrir betur.
Hér eru þrjú dæmi um þessa grísni:
- Neyðarlögin og að bjarga ekki bönkunum: Ríkið bjargaði ekki bönkunum af því að það gat það ekki. Okkar lukka hér var að enginn vildi lána okkur og kerfið var allt of stórt til að við réðum við þetta án lána. Trúið mér, ef risalán hefði fengist sumarið 2008 – eins og sannarlega stóð til – hefðu stjórnvöld tekið því fegins hendi og við hefðum farið inn í sama vítahring og Írar eru í núna. Dælt peningum inn í vitavonlausa banka og skellt reikningnum á skattgreiðendur komandi áratuga. Við erum kannski að tala um 2000 milljarða eða svo! Í raun hefðum við sett okkur í algerlega vonlausa stöðu.Kröfuhafar bankanna hefðu lítinn sem engan skell tekið, eigendurnir nokkurn, en við venjulega fólkið alveg svakalegan. Neyðarlögin hefðu aldrei verið sett með þeim hætti sem gert var, við hefðum ekki fengið neina Rannsóknarnefnd og þar með ekki fengið að vita hversu illa kerfið var statt í raun og hve rotið margt var sem þar fór fram. Það þarf enginn að segja mér að írsku bankarnir sem nú er verið að bjarga séu mikið frábrugðnir okkar bönkum – en Írar munu líklega ekki fá að vita það. Þeir fá bara að borga.
Ólán okkar er kannski bara að þetta gerðist ekki þegar kerfið riðaði í “litlu kreppunni” árið 2006. Og þó – þá hefðum við sennilega fengið lán og bjargað bönkunum, sem hefðu haldið áfram enn keikari en fyrr með enn g
rlaðari kröfuhafa og eigendur með staðfesta ríkisábyrgð á bakvið sig. - Að samþykkja ekki arfaslæma Icesave-samninga: Ég hef alltaf verið á því að vegna neyðarlaganna beri Ísland ábyrgð á þeim innistæðum sem þrotabú Landsbankans og Tryggingasjóður innistæðueigenda eiga ekki fyrir. Á sama máli hafa æðstu ráðamenn þjóðarinnar reyndar líka verið á hverjum tíma (Bjarni Ben, 28. nóv 2008 / Steingrímur síðar), þó þeir slái aðeins öðruvísi í hestinn þegar þeir eru ekki við völd (Steingrímur J. Sigfússon, 28. nóv 2008 / Bjarni síðar).Það þýðir samt ekki að það eigi að semja á hvaða kjörum sem er. Ríkisstjórn D og S skrifaði í flýti undir viljayfirlýsingu [innskot 29.12.2010: við Hollendinga] á fáránlegum kjörum. Svavar Gests samdi um lítið skárri kjör. Með fyrirvörum Alþingis batnaði sá samningur þó töluvert (öll skjöl þessara mála hér). Þegar þessum samningi var engu að síður hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu gaf það íslensku samninganefndinni sterkt tromp á hendi og LOKSINS var leitað til erlendra fagmanna um aðstoð við að leysa málið.
Aðkoma Lee Buchheit er líklega ein af stóru gæfunum í þessu máli. Nú liggur á borðinu samningur sem virðist á nokkuð eðlilegum kjörum. Hann er þó auðvitað ekki ásættanlegur fyrir þá sem halda því fram að við eigum ekki að borga yfir höfuð. Við þá má segja þetta: Ef minnstu líkur eru á því að Ísland tapi málaferlum vegna mismununar innistæðueigenda, þá má horfa á fyrirliggjandi Icesave-samning sem frábæra tryggingu. Við borgum áætlað 50 ma. króna til að tryggja okkur fyrir tjóni sem mundi hlaupa á u.þ.b. 1300 milljörðum.
Reyndar hef ég rökstuddan grun um að gæfa okkar hér eigi eftir að verða enn meiri og þrotabú Landsbankans muni á endanum borga þetta svo til upp til agna.
- Að fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að málum: Mig grunar að sögubækur framtíðarinnar munu segja eitthvað á þessa leið: “Framkvæmd áætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Ísland tókst í flesta staði vel og hefur aðhaldið sem utanaðkomandi eftirlit fól í sér hefur líklega hindrað margvísleg axarsköft sem stjórnvöld hefðu annars gert í hita leiksins eða í leit að skammvinnum vinsældum.”Með þessu er ég hvorki að segja að AGS sé einhver góðgerðarstofnun, né heldur að stjórnvöld hafi engin axarsköft gert. Hlutverk AGS er hins vegar að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfi heimsins og aðildarlandanna og hér á landi krafðist það aðallega aðstoðar við stjórnvöld og eftirfylgni með aðgerðum þeirra. Engar dómsdagsspánna um að AGS myndi selja auðlindirnar okkar eða hneppa okkur í sérstakt skuldafangelsi hafa gengið eftir.
Og engar þeirra óskhyggju-hugmynda sem voru í gangi um flata niðurfellingu skulda, “að færa klukkuna” til 1. jan. 2008, að þjóðnýta (eða því sem næst) lífeyrissjóðina, að taka einhliða upp annan gjaldmiðil eða aðrar kanínur sem draga átti upp úr hatti urðu að veruleika – blessunarlega.
Núna, þegar 2 ár eru liðin frá bankahruninu lítur stóra myndin í efnahagsmálum Íslands í raun furðulega vel út. Það mun taka nokkurn tíma fyrir sértækari mál (einkum skuldir heimila og skuldir og eignarhald fyrirtækja) að spilast út og það verður ekki sársaukalaust. Öll merkin benda samt til þess að botninum sé náð og nú tekur við stígandi lukka.
Fyrir nú svo utan alla hina gæfuna.
Ekki búast samt við neinum kraftaverkum. Efnahagsmál heimsins líta ekki vel út, enda hafa aðrar þjóðir hamast við að blása lofti í sprungnar blöðrur. Bandaríkin, Bretland, Evrusvæðið og Kína eru öll í býsna erfiðum málum og þeirri atburðarás er engan veginn lokið.


Það kann að virðast fráleitt þegar horft er á venjulegan fréttatíma, en við lifum á tímum mestu velmegunar, öryggis og friðar sem mannkynið hefur nokkurntíman upplifað. Fólk lifir lengur, minna hlutfall mannkyns líður skort og minni líkur eru á að vera myrtur af náunganum eða drepinn í stríði en nokkru sinni fyrr.
“Crash course” örfyrirlestrarnir fóru eins og eldur um sinu á netinu í fyrra. Þar tekur hagfræðispekúlantinn Chris Martenson fyrir grundvallaratriði í efnahagskerfi heimsins, hvenig það er uppbyggt og hvers vegna hann telur að við stöndum frammi fyrir stórum breytingum á næstu 20 árum.
Ég hef gaman af samsæriskenningum og þessa dagana er enginn skortur á þeim. Allt eftir því hvernig hugur manna hallast virðist til dæmis hægt að kenna Davíð Oddssyni, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Evrópusambandinu eða nú síðast Magma Enegry um nær allt sem aflaga fer á Íslandi.

















