Í flestri umræðu heyrast hæst þær raddir sem eru á sitthvorum öfgunum. Þar liggja oft ríkustu hagsmunirnir, heitasta sannfæringin og sterkustu tilfinningarnar. Þegar svo er gefst lítið rými fyrir yfirvegaða umræðu þar sem dregin eru fram þau gögn sem máli skipta, ólík sjónarhorn vegin og metin og niðurstaða eða málamiðlun byggð á bestu fyrirliggjandi þekkingu, vísindalegri nálgun og vandaðri rökleiðslu.
Þess vegna er bók læknisins og gagnatöframannsins heitins Hans Rosling – Factfulness – svo kærkomin. Með snörpum og skemmtilegum skrifum sýnir hann okkur lesendum annars vegar fram á það hversu skökk og úrelt heimsmynd okkar er að mörgu leyti og gefur hins vegar ráð um það hvernig best sé að nálgast flókin úrlausnarefni, hvernig hægt er að vara sig á rangfærslum og forðast rangar ályktanir þegar tilfinningarnar, áróðurinn eða vanþekkingin verða rökunum yfirsterkari.
Sérsvið Roslings var lýðheilsa og dæmin í bókinni eru flest á sviði heilbrigðis og lýðfræði, en hann kemur víða við: náttúruvernd, stjórnsýsla, stjórnkerfi, fjölmiðlun, fyrirtækjarekstur, fjármálakerfið og fleira. Umfram allt á aðferðafræðin sem Rosling kennir með þessum dæmum í bókinni við á nánast öllum sviðum.
Inn í þetta blandast svo sögur frá ævintýralegum starfsferli Roslings, fyrst sem ungur læknir á vettvangi í mörgum fátækari ríkjum heims, síðar sem kennari í Svíþjóð og loks sem hálfgerð “gagnastjarna” sem ferðaðist um heiminn, flutti erindi og umgekkst margt af áhrifamesta fólkinu í heiminum. Frásagnirnar eru auðmjúkar og afhjúpandi. Margar hverjar stórskemmtilegar, en aðrar grafalvarlegar. Ég viðurkenni að mér vöknaði um augun að minnsta kosti í tvígang við lestur bókarinnar – annars vegar af mjög sorglegum afleiðingum af ákvarðanatöku sem Rosling átti þátt í og í hitt skiptið af hetjulegri framgöngu í hættulegum kringumstæðum í smáþorpi í Lýðveldinu Kongó (þá Zaire). Vísbending: Hetjan þar var ekki okkar maður Hans.
Rosling verður seint kenndur við ákveðna pólitíska hugmyndafræði. Raunar eru ein sterkustu skilaboð bókarinnar þau að heimurinn er svo margslunginn að svarið felst aldrei í einni stefnu sem leysi allt: Hann dásamar frjálsan markað, en bendir á að hann þýði ekki að það þurfi ekki reglur og sterk stjórnvöld. Hann talar fyrir jöfnuði og jafnrétti á mörgum sviðum, en bendir líka á að það þýði ekki að lausnin sé að stjórnvöld taki og dreifi gæðunum jafnt á alla.
Ég held að enginn lesandi leggi þessa bók frá sér án þess að hugmyndum hans eða hennar um heiminn hafi verið storkað, jafnvel á svolítið óþægilegan hátt – og í því felst styrkur bókarinnar. Með manngæsku, raunsæi og rökhyggju í fyrirrúmi gefur Rosling lesendum ástæðu til að anda aðeins léttar yfir fréttum símiðlanna en brýnir þá á sama tíma til að hjálpa til við að takast á við þau vandamál sem raunverulega þarfnast lausnar til að framtíðin haldi áfram á þeirri braut sem síðastliðnar aldir hafa verið: Framfarir sem hafa heilt yfir bætt lífsgæði manna alls staðar í heiminum stórkostlega. Og hann gefur okkur fulla ástæðu til að trúa því að svo geti orðið, ef við höldum ekki af braut vísinda, raka og yfirvegunar.
– – –
Hans Rosling lést úr krabbameini snemma árs 2017. Hann hafði þá tileinkað síðasta ár ævi sinnar því að rita þessa bók. Sonur hans Ola og tengdadóttir Anna sem höfðu unnið með honum lengi undir hatti Gapminder samtakanna sem Rosling stofnaði luku við verkið og halda vinnu Rosling áfram. Það er mikill missir af Rosling: Vísindi, ákvarðanataka byggð á þekkingu og gögnum og rökhyggja þurfa að eiga sinn “Attenborough” og Rosling er sennilega sá sem hefur komist næst því.





Stundum verður manni að ósk sinni hraðar en við mætti búast.
Á þriðjudaginn var stigið lítið en mikilvægt skref í átt að
Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég færslu á bloggsíðu DataMarket um það sem kalla mætti “
Um þessar mundir gengur yfir heiminn vitundarvakning varðandi mikilvægi opinna gagna og þá sérstaklega “formfastra gagna” (e. structured data). Mest áberandi er þessi vakning í Bandaríkjunum, en þegar á fyrstu dögum í embætti gaf Obama út skýr fyrirmæli um það að opinberar stofnanir skyldu sem allra fyrst gera gagnasöfn sín aðgengileg almenningi á vefnum, án hindrana. Hann réð jafnframt í fyrsta skipti til starfa upplýsingatæknistjóra (CIO) við stjórnina – sá heitir Vivek Kundra og hefur
Í Bretlandi hafa báðir stóru flokkarnir markað skýra stefnu í þessa veru. Stjórnin hefur þar að auki fengið til liðs við sig engan annan en Tim Berners-Lee. Berners-Lee hefur verið kallaður “faðir vefsins” og er vel að þeim titli kominn enda bjó hann til HTML staðalinn sem allar vefsíður og þar með vefurinn allur byggir á. Berners-Lee hefur í seinni tíð verið
Að lokum má nefna sænska prófessorinn Hans Rosling, sem hefur með