Author: Hjalmar Gislason

About Hjalmar Gislason

Founder and CEO of GRID (https://grid.is/). Curious about data, technology, media, the universe and everything. Founder of 5 software companies.

“Þróunarlandið” Ísland

Ég hef fengið allskonar uppbyggileg viðbrögð við þessum síðustu færslum mínum (1 | 2 | 3) um uppbyggingu í þekkingariðnaðnum hér á landi. Sjá t.d. athugasemdirnar við síðustu færslu. Að öðrum ólöstuðum, bera þó af viðbrögð félaga míns – Stefáns Baxter, snillings og frumkvöðuls par excellance.

Ég fékk leyfi hjá honum til að birta þetta, enda á þetta brýnt erindi í umræðuna. Stebba hlotnast líka sá heiður að vera fyrsti – og etv. síðasti – gestabloggarinn á hjalli.com 🙂

Það er ástæðulaust að taka fram að ég get nánast tekið undir hvert orð hér:

Sterk staða og siðferðileg skylda lífeyrissjóða
Almennar skattaívilnanir ættu vissulega að hvetja til fjárfestinga í nýsköpun en ástandið gefur ekki tilefni til að halda að það það verði mikið af fyrirtækjum sem munu geta nýtt sér það alveg á næstunni. Það er hins vegar ljóst að lífeyrissjóðirnir eru enn sterkir, þrátt fyrir áföll, og að þeir eru ekki bara í aðstöðu til að koma að þessum málum heldur ber einnig rík siðferðileg skylda til þess. Það má leiða líkum að því að breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar, ef svo illa fer að ungt fólk flytjist umvörpum erlendis, myndi koma niður á þeim með nokkrum þunga.

Aðkoma lífeyrissjóða að fjárfestingarfélögum í nágrannalöndum okkar er þekkt og þar hefur verið farin sú leið, í þeim tilfellum sem ég þekki, að fjárfestingasjóðir sem eru einkareknir og skipaðir hæfu fólki fá með sér lífeyrissjóði sem bakhjarla og eftirlitsaðila frekar en að sjóðirnir sjálfir reyni að manna þetta. Það er mikilvægt að slík félög hafi á að skipa hæfu fagfólki sem nær, með gegnsæi og faglegum vinnubrögðum, að hefja sig yfir allan vafa um að þeir stjórnist af einhverju öðru en heilindum og meti verk að verðleikum.

Völd spilla. Því miður er það þannig að jafnvel vönduðustu menn venjast völdum og þegar það gerist er voðinn vís. Ég dreg það ekki í nokkurn efa að flestir þeirra sem hafa afvegaleiðst hafa í upphafi viljað vel og verið drifnir af einlægum vilja til að gera vel. Í þessu starfi, sem og annarstaðar, þarf því að huga að gegnsæi og hæfilega reglulegum mannabreytingum. Skuggi pólitískra áhrifa og vinargreiða má ekki falla á þetta starf.

Ungt fólk og nýsköpun
Án þess að aldur eigi að vera ráðandi í vali verkefna eða sérstakur áhrifavaldur þá tel ég ástæðu til að huga að þeirri einföldu staðreynd að þeir sem ekki eru bundnir átthagafjötrum munu frekar en aðrir fara af landi brott ef verulega harnar á dalnum. Íslensk ættjarðarást og samstaða mun fleyta okkur langt en við verðum að standa vörð um það unga samfélag sem við eigum hér. Aldurssamsetning þjóðarinnar [innskot HG: Sjá graf] er eitt af því allra mikilvægasta sem við eigum. Frjótt og spennandi umhverfi fyrir þá sem eru nú í þeim sporum sem við vorum í þegar Internetvæðingin hófst þarf að finna sérlega fyrir því að hér séu tækifæri til að vaxa bæði innan starfs og utan. (“Við” erum á fertugsaldrinum)

Hámarka jaðaráhrif
Ég tel nokkuð víst að þegar moldviðrinu lægir munum við sjá tæknimenntað fólk finna sér spennandi viðfangsefni, það er ekki nokkur vafi. Þá þarf að huga sérstaklega að verkefnum sem reiða sig einnig á stærri hópa, sem hugsanlega búa ekki yfir jafn mikilli sérþekkingu, því þau verkefni eru sérstaklega áhugaverð til hliðsjónar af því að hámarka jaðarverkanir. Gagnaöflun og -vinnsla eru dæmi um verkefni sem geta gert góða vöru enn betri og skapað umtalsverð störf. Eitt af því sem ég tel mig hafa lært á undanförnum árum er að gögn og viðskiptasambönd veita mun meiri samkeppnishæfni og hærri samkeppnisþröskuld en tæknilausnir geta gert einar og sér.

Virk aðkoma
Auðvitað eru til menn og konur hér sem kunna að sitja í virkri stjórn, stjórn sem aðstoðar við úrlausn verkefna og veitir þann stuðning og aðhald sem nýsköpunarfyrirtækjum er hollt að hafa, en það virðist því miður vera algengara að sjá óvirkar stjórnir eða “eftirlitshunda”. Ég tel mikilvægt að þeir aðilar sem hafa staðið sig sem best á því sviði hér verði fengnir í þetta uppbyggingarstarf og þá ekki síst til þess að fræða og þjálfa aðra í því að veita réttan stuðning og hæfilegt aðhald. Það er þarna sem reynsla þeirra sem eldri eru og brenndari nýtist sem best.

Viðskiptalíkön
Gæta þarf sérstaklega að því að tækifæri, sem kunna að vera hagkvæm við núverandi aðstæður, geti staðist breytingar þegar við færumst aftur nær fyrri stöðu og þurfa að búa yfir sveigjanleika til að bregðast við því. Það er einnig jákvætt að verkefni séu þannig að hægt sé að hluta þau niður í viðráðanlegar einingar, byrja smátt, fá tekjumyndun og halda síðan áfram til móts við stærri markmið. Ég held að það skipti máli fyrir ferlið í heild sinni og trúverðuleika þess að verkefni sem það fjárfestir í nái tiltölulega fljótt að standa undir sér, að hluta aða öllu leiti. Að minsta kosti er óæskilegt að fjárfesta í svo stórum verkefnum að árangur verður tormældur. Hlutverk þolinmóðs fjármagns er að sjálfsögðu mikilvægt en ég held þó að “Fail Fast” nálgun, sé hún ekki óbilgjörn og beinlínis óþolinmóð, sé réttari við þessar ástæður því það verður hlutverk annarra að vera langtímafjárfestar.

Höldum upp á mistökin ekki síður en árangurinn
Það er þekkt staðreynd að í svona starfi eru áræðnar hugmyndir sem virka ekki jafn mikilvægar og þær sem virka og án þess að gera því skóna að fallið sé markmiðið þá þarf að vera full meðvitund um það frá upphafi að fall er fararheill í þessu sem öðrum. Við slíkar aðstæður er því mikilvægt að halda því á lofti að verkefni sem skila ekki tilætluðum árangri séu ekki endanlegur dómur yfir einstaklingunum sem að því komu og að þeir og þekking þeirra verði virkjuð á öðrum vettvangi.

Koffice
Koffice er gömul hugmynd sem varð til á .com tímanum og snýr að nýtingu sameiginlegs svæðis til klaks. Nafnið segir eiginlega meira en allar lýsingar um hvað um er að ræða en frjótt umhverfi þar sem léttleikinn fær að ráða er eiginlega meira við hæfi núna en þegar smjör draup af hverju strái. Slík aðstaða er ekki bara frjó heldur er mikil samhjálp innbyggð í hana. Vinnu-, fundar- og samkomuaðstaða er það sem málið snýst um og ég held að þetta, ásamt hefðbundnari klak aðstöðu sé málið. Að nýta það tækjahaf sem nú stendur ónotað ætti að vera forgangsverkefni. Húsnæði og vilji er það eina sem þarf til.

Hugmyndir verða, að stóru leiti, að vera þeirra sem eiga að fórna sér fyrir þær
Að “stýrihópur” komi að hugmyndum er eitt, að forma þær og móta upp í hendurnar á öðrum er eitthað allt annað. Ég tel að hlutverk fjárfestingarsjóða, sem munu verða til við þessar aðstæður, eigi alls ekki að vera móta, hvað þá fullmóta, hugmyndir upp í hendurnar á öðrum til eftirfylgni. Áhugi og trú er drifkraftur nýsköpunar. Áhugi og trú á eigin hugmyndum er nánast undantekningalaust meiri áhugi á hugmyndum annarra. Slíkir aðilar þurfa því að einbeita sér að því að að veita aðstoð við að vinna úr þeim, brjóta þær upp í skynsamlegar einingar, skerpa sýn á hvernig hægt sé að vinna úr þeim og ná að slípa þær til frekar til en að móta þær frá grunni. Aðeins með því að virkja grasrótina að fullu er hægt að ná tilætluðum árangri og aðeins með því að nýta reynslu þeirra sem brenndastir eru styttum við okkur leið að þeim markmiðum.

Leitin að samlegðinni – komið í veg fyrir endurtekningar
Þó að miðstýring sé slæmt orð getur hún þjónað ákveðnum tilgangi hér, þeim að koma í veg fyrir endurtekningar/tvíverknað og ekki síður að til hámarka samlegðaráhrif. Of lítið hefur verið gert að því í íslenskri upplýsingatækni að fyrirtæki leiti leiða til að samnýta íslenskar lausnir erlendis. Síendurtekin gerð hjóla virðist oft hafa verið okkar sérsvið og samkeppni á heimamarkaði um íslenskar lausnir í bókhaldi, vefumsýslu, bíla- og fasteignasölukerfum, sem dæmi, hefur ætlað allt um koll að keyra. Nú þegar endurskipulagning stendur fyrir dyrum held ég að rétt sé að laga líka til í þessum málum og sjá til þess að jafnvel aðilar í samkeppni á heimamarkaði taki á sig rögg og samræmi aðgerðir erlendis. Þetta sama á við um þau nýju verkefni sem nú munu verða til. Tryggja þarf að þau séu ekki of samleit og leita þarf allra leið til að hámarka samlegðaráhrif þeirra.

Styðsta leiðin að markinu – Að byggja undir og í kring um fyrirtæki sem eru þegar til
Ég er viss um að allir þeir sem nú stjórna fyrirtækjum sem vinna að verkefnum sem þegar eru farin að afla tekna, sérstaklega erlendis, þyki ekki slæmt til þess að hugsa að nú losni hæfileikaríkt fólk úr álögum fjármálafyrirtæka landsins og að auðveldara verði að fá hæft starfsfólk á viðráðanlegum launum. Að sjálfsögðu mun hluti þess fólks sem nú “losnar” fara beint í að mæta sárri þörf þeirra og á þeim vettvangi mun það vinna að uppbyggingunni “innanfrá”. Þó eru alltaf einhverjir sem viljast gerast sinnar gæfu smiðir og ef þeir trúa á speki Andy Grove hjá Intel, um að best sé að stofna fyrirtæki í dalnum þar sem hann er dýpstur – þá sé öll uppsveiflan eftir, þá munu þeir ekki láta núverandi aðstæður aftra sér, þvert á móti.

Til að byggja brú á milli þess nýja og þess sem fyrir er vellti ég fyrir mér hvort ekki megi nýta hluta þessara nýju verkefna í beinum tengslum við þau gömlu. Nýjar lausnir sem gera núverandi lausnir betri eða stækka markhóp þeirra eru verkefni sem líklega þurfa stystan tíma til að ná árangri og í þeim eru samlegðaráhrifin mest. Ég geri mér reyndar ekki fyllilega grein fyrir því hversu raunhæft það er að skipuleggja hluta þeirrar vinnu sem nú fer í gang með þessum hætti en hugmyndin er með öðrum orðum sú að “nýjir” aðilar sem vilja starfa við sitt eigið geti gert það í fullri samvinnu við þá sem fyrir eru. Viðbótarvirkni og útvíkkun núverandi lausna gæti þannig verið sproti að einhverju nýju en á sama tíma notað viðskiptavild og viðskiptasambönd þeirra sem fyrir eru. Mjög einfalt dæmi um þetta gæti verið nýtt fyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun (concept, útlits etc.) og smíði þrívíddarmódela fyrir leikjaiðnaðinn en myndi byrja á því að smíða fyrir EVE (CCP).

Skjölun, prófanir og notendaþjónusta
Fyrirtæki sem myndi sérhæfa sig í tæknilegri skjölun, prófunum og þjónustu við tæknilausnir gæti eflaust nýtt starfskrafta breiðs hóps og mætt þörf sem íslensk hugbúnaðarfyrirtæki hafa mörg hver, svo ég kveði ekki of sterkt að orði, hundsað til margra ára. Því hefur verið haldið fram á gárungum að Íslendingar séu sérfræðingar í að búa til “Alpha” hugbúnað en að reynsla okkar af því að búa til fullbúnar hilluvörur sé afskaplega takmörkuð. Sameiginleg þjónusta á þessu svið er eitthvað sem mætti skoða en ég geri mér grein fyrir að umræðuefnið þykir afskaplega óspennandi og and-kúl.

Viðskiptasambönd
Það er erfitt að treysta öðrum fyrir viðskiptasamböndum sínum og erfiðast ef maður treystir því ekki að vel verði með þau farið. Fátt er verra, í því samehngi, en að nýta viðskiptasambönd sín til að koma á misheppnaðum verkefnum eða öðru sem kann að skaða sambandið til lengri eða skemmri tíma. Við núverandi aðstæður eru góð viðskiptasambönd sérstaklega mikils virði og viðskiptatækifæri sem eitt fyrirtæki getur ekki nýtt sér gæti verið sprotinn að stofnun annars á sama hátt og ónýttar markaðsleiðir eins gætu verið lífæð annarra. Það hefur að einhverju leiti verið Útflutningsráðs að huga að slíku en ég er viss um að með bættu samráði væri að hægt að nýta núverandi sambönd og söluleiðir mun betur en gert er. Þetta krefst þess þó vitanlega að allir komi fram við þessi sambönd af virðingu og skilning á því hvaða ábyrgð fylgir því að nýta viðskiptasambönd annarra.

Öflun gjaldeyristekna – Hugbúnaður sem útflutningsafurð – Ísland sem “þróunarland”
Ég gef mér í öllu þessu að við séum að beina athygli okkar að verkefnum sem eru ætluð til útflutning í einu eða öðru formi. Hugbúnaðargerð fyrir heimamarkað er blindhæð þó svo að sama hugbúnaðargerð, ætluðum til útflutnings, sem nýtir heimamarkað fyrir kjölfestu, rannsóknir og þróun sé hins vegar breiðstræti. Þarna er ábyrgð stjórnvalda og þeirra sem sjá um upplýsingatæknilega-innviði mikil. Við eigum að sjá til þess að hér sé til staðar allur sá infrastructure sem nausynlegur er til að gera Ísland að þróunarparadís í upplýsingatækni og ég er þess full viss að fullur vilji er meðal aðila tengdum þessu máli að gera Ísland að afbragðs “þróunarlandi”. Þetta mál hefur oft verið rætt og ég minnist sérstaklega umræðu um þetta 1998/1999 en nú er lag.

Nýja Ísland: Nokkur forgangsmál

Meira um kraftinn sem er að losna úr læðingi og hverng hægt er að virkja hann.

Meðan útbrunnu pólitíkusarnir, reiðu álitsgjafarnir og fátæku auðmennirnir eru að taka til eftir partíið og rífast um það hvort bankakerfið stækkaði of mikið fyrir baklandið eða baklandið fylgdi ekki nógu vel eftir bankakerfinu (hvort kom á undan eggið eða hænan?) er nauðsynlegt að ganga hratt og örugglega til verka í uppbyggingarstarfi. Stór hluti þeirra sem eru núna að missa vinnuna eru vel menntað og hæfileikaríkt fólk í þekkingarstörfum. Það þarf að skapa ný störf við þeirra hæfi til að nýta þessa þekkingu og koma í veg fyrir alvarlegan landflótta þessa fólks og annarra sem eiga að bera þjóðfélagið á komandi árum.

Hér eru nokkur sundurlaus atriði sem hægt er að framkvæma:

  • Ígildi atvinnuleysisbóta til að skapa ný störf: Í stað þess að borga starfsmönnum bankanna (og öðrum sem munu missa vinnuna á næstu vikum) uppsagnarfrest og svo taki Ríkið við og borgi atvinnuleysisbætur, á að bjóða fyrirtækjum sem vilja ráða þetta fólk sömu upphæð yfir 6-12 mánaða tímabil gegnt því að þau leggi fram annað eins á móti. Við þetta eru engar nýjar skuldbindingar af hálfu ríkisins, fyrirtækin fá nýtt starfsfólk og fólkið fær vinnu strax og hærri tekjur en ella. Borðleggjandi.
  • Fjárfestingarsjóðir í nýsköpun: Það þarf að setja upp og/eða efla fjárfestingasjóði (ekki styrkjasjóði) til nýsköpunar. Þessir sjóðir þurfa að vera skipaðir hæfileikaríku starfsfólki með þekkingu á fjármálum, fyrirtækjarekstri og vöruþróun (ekki pólitískt völdum embættismönnum) sem geta bæði valið úr lífvænlegustu hugmyndunum á markaðsforsendum og leiðbeint og stutt fyrirtækin í gegnum uppbygginguna. Sjóðirnir þurfa að hafa nægt fjármagn – og hugmyndunum að vera stillt upp þannig – að sjóðurinn geti tekið þátt í blábyrjun verkefna fyrir lítið fé, en fylgt þeim svo eftir (helst í samvinnu við aðra fjárfesta) ef áætlanir ganga í samræmi við það sem lagt er upp með. Leggja þarf áherslu á alþjóðlegar hugmyndir sem skapa munu gjaldeyristekjur og sjóðirnir eiga að vera reknir algerlega á markaðsforsendum. Markmiðið er að þeir ávaxti sig eins og aðrir sambærilegir sjóðir en séu ekki notaðir til að veita pólitíska fyrirgreiðslu. Þetta setur miklar kröfur á gagnsæi og ætti að vera opið okkur – skattgreiðendunum sem fjárfestum í þessu – eins mikið og unnt er.
  • Skattaívilnanir til nýsköpunar: Almennt er ég á móti því að flækja skattkerfið frekar en orðið er. Í ljósi mjög sérstakra aðstæðna mætti þó setja núna upp plan – sem renni sitt skeið t.d. á 5 árum – sem veiti nýsköpunarfyrirtækjum sérstaka fyrirgreiðslu t.d. í formi niðurfellingu eða afsláttar af tekjuskatti á starfmenn þeirra. Þetta hefur gefist vel t.d. í Kanada og Ísrael til að koma af stað öflugum þekkingariðnaði.
  • Aðstaða og stoðþjónusta fyrir þá sem vilja: Ríkið á núna ósköpin öll af tölvubúnaði, skrifstofuaðstöðu og öðru sem fer fyrir lítið nema því sé komið í notkun sem fyrst. Nú er tilvalið að koma upp klakstöðvum og bjóða nýjum fyrirtækjum upp á framúrskarandi aðstöðu fyrir lítið fé. Á svona stað(i) ætti líka að bjóða fyrirtækjum með stoðdeildaþjónustu, s.s. bókhald, skrifstofuvörur, tölvuþjónustu og kaffihúsarekstur 🙂 aðstöðu, enda samnýtist slík þjónusta mjög vel, sérstaklega þegar nálægðin er mikil.

Vorum við öll sofandi?

Undanfarnir dagar hafa verið merkilegir. Vikurnar tvær hér á undan virðast hafa farið í þunglyndi og “refresh” á mbl.is, vb.is og Eyjunni hjá voðalega mörgum. Ég er þar engan veginn undanskilinn.

Síðustu tvo daga hef ég aftur á móti orðið þess var að þetta er mjög að snúast við. Fólk er farið að sjá tækifærin sem opnast við svona endaskipti á samfélaginu.

Ég bý svo vel að þekkja og vera tengdur stórum hópi af mjög frjóu og skapandi fólki á ótal sviðum þjóðlífsins og í kjölfar bloggfærslna (1 | 2) og “Tvitta” um ástandið hefur mikið af þessu fólki haft samband með einum eða öðrum hætti.

Það er ótrúlegur kraftur sem nú er að leysast úr læðingi og áhrifa hans mun verða vart í pólitík, listum og skapandi iðnaði á næstunni og um langa hríð.

Nýja Ísland verður bæði kraftmeira, skemmtilegra og ríkara en það gamla. Búið ykkur undir breytingar!

Peningar vs. raunveruleg verðmæti

Í hamaganginum undanfarna daga hafa sótt að mér allskyns heimspekilegar pælingar. Sumar þeirra snúast um eðli peninga og hversu mikið peningar eigi skylt við raunveruleg verðmæti. Þarna er ég ekki að tala um mjúku hliðina – að raunveruleg verðmæti felist í ást, kærleika og hamingju (slíkt er einfaldlega á öðrum kvarða) – heldur hefðbundin veraldleg verðmæti. Getur verið að tengingin þarna á milli hafi glatast einhversstaðar í hagsögunni?

Bara núna síðustu tvær vikur hafa íslenskir fjárfestar og eignamenn víst tapað eignum af stærðargráðunni 500 1.000 milljarðar bara í markaðsvirði bankanna þriggja. Manni skilst að allmörg hundruð milljarðar til viðbótar séu tapaðir eða muni tapast á næstu dögum og vikum. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr þessum atburðum eða þeim afleiðingum sem þær þeir munu hafa í för með sér – sem eiga eftir að verða gríðarlegar. En eitthvað segir mér þó að ef “raunveruleg” verðmæti af þessari stærðargráðu hefðu tapast væri það mun alvarlegra mál.

Setjum þessar tölur í samhengi. Ef við gefum okkur að íbúðarhúsnæði meðalheimilis á landinu kosti 20-25 milljónir, þá samsvarar 1.000 milljarða króna tap því að 40-50 þúsund heimili hefðu eyðilagst fullkomlega, t.d. í jarðskjálfta! Fjöldi heimila á landinu er rétt um 110 þúsund, þannig að þetta væru um 40% íslenskra heimila.

Við getum sett þetta í annað samhengi og horft á útflutningsverðmæti fiskaflans okkar. Það var á síðasta ári tæplega 128 milljarðar króna. Þannig að 1.000 milljarðar samsvara 8 ára útflutningsverðmæti á fiski!

Ég held að við getum verið sammála um að íbúðarhúsnæði og fiskur eru “raunveruleg” verðmæti.

Ímyndum okkur svo að á fimmtudaginn hefðum við vaknað upp við þær fréttir að meira en þriðjungur íslensks íbúðarhúsnæðis væri ónýtur eða að allur fiskur væri horfinn af Íslandsmiðum næstu 8 árin. Er hrun bankanna sambærilegt? Eða getur kannski verið að eitthvað af þessum 1.000 milljörðum séu ekki og hafi aldrei verið “raunveruleg” verðmæti? Að það hafi ekki verið hægt að rekja öll þessi verðmæti niður eftir hagkerfinu á “fast”, þ.e. til vinnuframlags, orku, auðlinda eða annarra óumdeilanlega raunverulegra verðmæta?

Á mælikvarða raunverulegra verðmæta höfum við ef til vill varla tapað neinu. Bankakerfið, líkt og mörg önnur stoðþjónusta er vissulega mikilvægur þáttur í því að halda raunverulegri verðmætasköpun gangandi. Því gangverki er mikilvægt að koma af stað aftur, en við eigum næstum því, ef ekki alveg jafnmikið af raunverulegum verðmætum núna eins og við áttum fyrir 2 vikum síðan. Verst ef það þarf að nota eitthvað af þessum raunverulegum verðmætum til að borga fyrir skuldirnar sem urðu til við að kaupa allar þessar óraunverulegu eignir.

Ég trúi enn einart á markaðshagkerfið, en mér sýnist á öllu að það þurfi að spóla ansi duglega til baka og vinda ofan af allri flækjunni sem er búið að spinna ofan á grunngildi hagfræðinnar, gildin sem virðast minna á það á ca. 10 ára fresti – og í þetta sinna af óvenju miklum krafti – að eru ófrávíkjanleg. Það sem skiptir máli er að skapa eitthvað, framleiða og búa til – nokkuð sem hefur þótt allt að því hallærislegt undanfarin ár.

Vinnuframlag, orka og aðrar auðlindir – þetta eru raunverulegu verðmætin. Öll önnur starfsemi – þar með talin bankastarfsemi – snýst svo um að þessi verðmæti nýtist sem best, séu unnin sem hagkvæmast og skili sem mestu til þeirra sem að verðmætasköpuninni standa.

Þegar þetta er orðið klárt geta peningar kannski aftur orðið mælikvarði á raunveruleg verðmæti.

P.S. Þessar pælingar eru aðeins heimspekilegar vangaveltur enda er ég í besta falli amatör í hagfræði. Ef þið viljið lesa eitthvað um þessi mál frá fólki sem veit í alvöru um hvað það er að tala, þá bendi ég annars vegar á Villa Þorsteins sem skrifar þessa dagana bestu greiningarnar á stöðunni og atburðunum öllum hér heima og hins vegar á greinina The End of Prosperity? í TIME magazine (ekki missa af samhangandi 10 skrefa útlistun Time á því hvernig þetta allt byrjaði og hvert það gæti leitt).

To: Gordon Brown – From: An Icelander

Dear Mr. Brown,
(cc: The international press)

Here in Iceland, we are busy dealing with a series of mistakes in government, regulation and banking operations.

As a result of a total collapse of our banking system, customers in the UK have feared for their deposits in Icelandic banks, just like every single Icelander has. In accordance with international law, the Icelandic government has relatively clearly stated that it will guarantee the minimums required for private citizens. (They’re not always good with words – sorry about that…)

Municipalities and organizations – that are by law considered “professional investors” – may unfortunately have lost significant amounts. Up to 1% of their assets in some cases as I’ve understood. It may come as a surprise to you, but professional investors all over the world are losing gigantic amounts these days. Even 10s of % per day in some cases. Iceland is not to blame for that.

I know that it’s considered good domestic politics to find a common enemy in the time of crisis. It can hide facts about one’s own failing policies and create a team spirit at home, rallying against the new foe. Seems like your little scheme worked.

Up here is an entire nation – where most of us citizens are at a real risk of losing pretty much everything we own – we’re trying to put up a fight. If you can help even just a tiny bit by clearing up your deliberate misunderstanding – great. If you can’t, please stop bullying us, find someone of your own size to pick on and leave us alone while we try to rebuild our society more or less from scratch.

Your lad,
Hjalmar

The future of finance: Total transparency?

The financial crisis hit Iceland full force last Monday. One of our banks was pretty much nationalized, followed by a large investment company filing the equivalent of Chapter 11. This led to significant losses by a large “risk free” money market fund, that stored a part or all of the personal savings of some 12 thousand people in it – yours truly included. You can read more about the macro of this all in the international press. And don’t worry about me – my personal loss is manageable.

The whole incident – however – reinforced ideas I’ve been contemplating the last few months about the future of global finance, once the current economic hurricane subsides. I’ve been coming to the conclusion that the only thing that can restore the confidence in the financial markets is total transparency.

The reinforcement came as I spoke with my contact at the bank after learning about my loss. He said that what the bank was doing to gain confidence in the money market fund (and the bank in general) was to open the books completely. Meaning – as I understood it – that they’d publish the composition of the fund in detail online and update it “live” if and when there were any changes in that composition. Something that they’ve ’till now only done once a year in an annual report.

To me, this sounded like a small-scale version of my vision for the future of finance. Total transparency, where anybody can at any time dig through any details on his or her investments.

First, some history… When financial markets – as we know them now – were forming, one of the fundamental ideas was that all players in the market should have equal access to the best possible information on any bond, security and share available. For that reason, strict rules were put in place about how and when companies filed their data. Remember that this is about a century ago – in a very different age in terms of technology and communication. Quarterly filings were pretty much “real time” and very demanding on the companies’ financial operations.

Today we live in a very different world. Real time communication and crunching of terabytes of data is within the reach of pretty much anybody. “Quarterly”, let alone “annually” is not something we settle for when it comes to news, communication or even entertainment. “On-demand” and “real time” is the name of the game. Why should we settle for anything less in our investments?

My prediction is that we’ll see the rise of exchanges were real time access to EVERYTHING is going to be a prerequisite for listing. That investors will be able to dig through the portfolio of the funds they’ve invested in, into the fundamentals of the portfolio companies, all the way down to the smallest details of their financials; their current cash flow situation, bank account balances, write-offs and salary costs – to name a few examples.

Obviously, no single person would dig through all this data, but the very possibility and the combined power of the crowd, would put all actions under scrutiny making stupendous bonuses, hiding of Bermuda straw huts as mortgage in supposedly A-rated securities funds and golden parachute executive agreements visible to the famous “hand of the market”.

Quarterly filings of creatively accounted fundamentals is soooo “twentieth century”. Total real-time transparency is the way of the future.

Framtíð viðskipta: Opið bókhald og fullkomið gegnsæi?

Ég átti umtalverða peninga í hinum “áhættulausa” og nú alræmda Sjóði 9 hjá Glitni. Það þýðir ekkert að gráta það, þó auðvitað fylgist maður með því hvernig umræðan þróast um það hvort sjóðurinn hafi verið kominn út fyrir yfirlýsta fjárfestingastefnu sína og þá möguleg eftirmál þess.

Þegar ég talaði við minn mann í bankanum í gær, fékk ég þær upplýsingar að eitt af því sem Glitnir hyggðist gera til að auka trúverðugleika bankans – og ekki síður sjóða hans – væri að opna bækur sjóðsins. Ég gat ekki skilið það öðruvísi en svo að í stað þess að gefa öðru hverju (að mér sýnist árlega) út yfirlit yfir það hvað er á bakvið eignir sjóðsins, þá yrði það gert stöðugt – jafnvel í rauntíma. Þannig gæti maður á hverjum tíma séð hvaða skuldabréf sjóðurinn ætti og metið útfrá því á eigin forsendu áhættu hans.

Þetta hitti á einhverjar taugar hjá mér, þar sem ég hef verið að velta mér mikið uppúr gögnum og þá ekki síst fjármálatengdum gögnum síðustu mánuði og hef verið að komast á þá skoðun – óháð þessu atviki – að framtíð viðskipta liggi í rauntíma upplýsingagjöf að öllu leiti.

Lög um upplýsingagjöf í kauphallarviðskiptum eiga sér meira en aldarlanga sögu og tilgangur þeirra er að markaðsaðilar sitji við sama borð með bestu fáanlegu upplýsingar á hverjum tíma. Á þeim tíma sem lögin eru mótuð, hefur ársfjórðungsleg birting á rekstrartölum líklega verið ansi stíf krafa – jaðrað við það að vera rauntíma upplýsingagjöf með þeirra tíma tækni. Í dag er þessu öðruvísi farið. Það er ekkert sem stoppar kauphallir í að setja kröfur um rauntímaaðgengi að hverju sem þeir kjósa. Já – jafnvel inn í bókhald fyrirtækjanna, sjóðsstreymi þeirra, útistandandi kröfur og eignastöðu.

Þannig gæti fjárfestir, hvort sem hann er að fjárfesta í hlutabréfum, skuldabréfum, eða einhverjum sjóðum, grafið sig niður í minnstu smáatriði fjárfestingar sinnar. Svolítið eins og DataMarket og fjárlögin, nema bara á miklu stærri skala og með miklu meiri nákvæmni.

Ef svona hefði verið, hefðu margir verið búnir að benda á samsetninguna í Sjóði 9 og hversu mikið hékk þar á fáum, tengdum aðilum. Það hefði líka verið búið að grafa í alla undirmálsvafningana og gagnrýna þá. Hrunið stafar af miklu leiti af því að fáir, ef nokkur, hafði tækin til að sjá í gegnum flækjuna sem búið var að spinna í allskyns fjármálagjörningum.

Ég held að þegar þessum hamförum á fjármálamörkuðum lýkur og menn fara að endurskoða leikreglurnar, sé eitthvað á þessa leið líklegt til að verða ofan á. Ekkert annað en fullkomið gegnsæi á öll tiltæk gögn getur aukið tiltrú almennings á þessum mörkuðum aftur.

Warren Buffet fjárfestir aldrei í neinu sem hann skilur ekki. Með rauntímaaðgang í undirliggjandi vef fjármála- og bókhaldskerfa myndu allir hafa tólin til að skilja það sem að baki fjárfestingum þeirra og hópnum sem heild treystandi til að veita markaðsaðilum aðhald með því að rýna í þessar tölur með og beita allskyns greiningar og birtingartólum til að koma auga á veilurnar í kerfinu.

Fjárlagafrumvarpið í myndum

Fjárlagafrumvarp ársins 2009 var kynnt í dag. Frumvarpið sjálft er doðrantur sem fáir hafa undir höndum. Hægt er að lesa sig í gegnum frumvarpið á Fjárlagavef Fjármálaráðuneytisins, en það er ekki beinlínis aðgengilegt og ekki auðvelt að átta sig á stóru samhengi hlutanna.

DataMarket brást skjótt við og vann gögnin á meðfærilegara form. Útkoman er vefsvæði þar sem hægt er að sjá með þægilegum hætti í hvað stjórnvöld ætla að nota peningana okkar á komandi ári.

Á forsíðunni er yfirlit yfir ráðuneytin, raðað eftir útgjaldaröð. Með því að smella á súluna fyrir eitthvert ráðuneytið birtist skipting útgjalda þess og svo koll af kolli. Gögnin ná reyndar bara 3 þrep niður og oft langar mann að komast dýpra, en fjárlagafrumvarpið nær einfaldlega ekki lengra. Næsta þrep eru rekstraráætlanir einstakra stofnana og þær eru ekki fáanlegar að svo komnu máli.

Ég fullyrði að aldrei hefur verið jafnauðvelt að túlka, rýna og gagnrýna fjárlagafrumvarp á Íslandi eins og með þessu einfalda tóli. Ég bendi á að ef þið viljið efna til umræðu um einstök ráðuneyti eða rekstrarliði, þá á hvert þeirra sér sína slóð, sem hægt er að tengja beint á í bloggi eða senda tengil í tölvupósti eða á MSN.

Hér eru – sem dæmi – áætluð útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs á komandi ári.

Skemmtið ykkur!

– – –

P.S. Þeir sem hafa áhuga á að komast í sjálf gögnin á einhverju formi sem leyfir frekari úrvinnslu (t.d. í Excel) eru hvattir til að setja sig í samband.

Myndræn framsetning gagna: Mannfjöldaþróun á Íslandi

Eins og nafnið gefur til kynna snýst DataMarket um öflun og miðlun hvers kyns gagna. Ég er þessvegna búinn að vera að velta mér mikið síðustu vikurnar uppúr allskyns gagnamálum og þeim möguleikum sem góð og aðgengileg gögn opna.

Myndræn framsetning er eitt af því sem getur gefið gögnum mjög aukið vægi og – ef vel tekst til – dregið fram staðreyndir sem annars eru faldar í talnasúpunni.

Ég gerði smá tilraun með mannfjöldagögn frá Hagstofunni. Byggt á tölum um aldurs- og kynjaskiptingu frá 1841 til dagsins í dag bjó ég til gagnvirka hreyfimynd sem sýnir hvernig mannfjöldapíramídinn (einnig þekkt sem aldurspíramídi) þróast á tímabilinu. Útkomuna má sjá með því að smella á myndina hér að neðan.

Smellið á myndina til að spila

 

Græni liturinn sýnir 18 ára og yngri, rauði liturinn 67 ára og eldri og guli liturinn þá sem eru þar á milli.

Myndin bendir á nokkrar áhugaverða hluti í mannfjöldaþróun Íslendinga:

  • Barnadauði: Fyrstu árin er sorglegt að sjá hvernig yngstu árgangarnir – sérstaklega sá allra yngsti – ná ekki að færast upp. Þetta segir sína sögu um barnadauða, aðbúnað barna og “heilsugæslu” þessa tíma.
  • “Baby boom”: Fram að lokum seinni heimstyrjaldarinnar vex og eldist þjóðin nokkuð jafnt og þétt. Reyndar dregur aðeins úr fæðingum framan af seinna stríði, en svo verður alger sprenging – það sem kallað er “baby boom” upp á ensku og á sér klárlega sína hliðstæðu hér. Þessi “barnasprengja” hefur verið rakin til aukinnar hagsældar, betra heilbrigðiskerfis og almennrar bjartsýni í kjölfar stríðsins. Uppúr 1960 jafnast svo stærð árganganna út aftur með tilkomu getnaðarvarna og skipulagðari barneignum en tíðkuðust fram að því.
  • Erlent vinnuafl: Síðasta sagan í þessum gögnum sýnir svo uppgangssveiflu síðustu ára. Ef þið skrefið ykkur í gegnum árin frá 2005-2008 (til þess eru örvatakkarnir) má sjá greinilega aukningu í aldurshópnum á bilinu 20-50 ára, sérstaklega karla megin. Aldurshópar geta eðli málsins ekki stækkað af náttúrulegum ástæðum (enginn fæðist 25 ára) þannig að þessi aukning stafar af aðfluttum umfram brottflutta. Þarna er líklega kominn hluti þess erlenda vinnuafls sem hingað hefur leitað í góðæri og framkvæmdum síðustu ára.

Sjálfsagt má lesa fleira út úr þessari mynd, en ég eftirlæt ykkur frekari greiningu 🙂

Örfá orð um tæknina

Myndin er gerð í stórskemmtilegu tóli sem nefnist Processing og gerir svona vinnslu tiltölulega einfalda. Hægt er að keyra bæði stakar myndir og vídeó út úr Processing, en til að ná fram gagnvirkni er keyrt út svokallað Java Applet. Sjálfur væri ég hrifnari af að sjá þetta sem Flash, þar sem stuðningur við það er almennari og útfærsla þess í vöfrunum á margan hátt skemmtilegri en Java (fljótara að ræsast, flöktir síður, o.fl.), en það verður ekki á allt kosið.

Allar hugmyndir, ábendingar og álit vel þegin.

Opin gögn – nýtt vefsvæði

Við erum, nokkrir félagar, að hleypa af stokkunum í dag nýju vefsvæði: opingogn.net

Það er hann Borgar sem fékk hugmyndina að þessu framtaki í vor eftir að ég flutti erindi um aðgengi að opinberum gögnum á hádegisverðarfundi sem Sjá og Marimo stóðu fyrir. Borgar setti upp vefinn og hýsir hann, en við Már höfum reynt að vera duglegir að hjálpa til.

Vefurinn er Wiki-vefur, þannig að við hvetjum sem flesta til að hjálpa til.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í tilgang vefsins hér enda á hann að útskýra sig sjálfur. Þeir sem reglulega lesa þetta blogg eru líka líklega búnir að fá nóg af boðskapnum:

Uppfært 11:41: Eyjan gerði Opnum Gögnum skil í morgunsárið.