Mér fannst ástæða til að bjarga þessum þræði áður en hann félli í gleymsku Facebook-fortíðar. Það var býsna áhugaverð upplifun að fylgjast beinlínis með upphafi gossins í hópi nörda úr ýmsum áttum á Facebook og Twitter…

Mér fannst ástæða til að bjarga þessum þræði áður en hann félli í gleymsku Facebook-fortíðar. Það var býsna áhugaverð upplifun að fylgjast beinlínis með upphafi gossins í hópi nörda úr ýmsum áttum á Facebook og Twitter…

Ég ætla að hætta mér út í ansi eldfimt umræðuefni. Eftirfarandi verður að lesast með þeim fyrirvara að ég hef aldrei misst vinnuna og þekki því ekki atvinnuleysi á eigin skinni (ég hef reyndar unnið hjá sjálfum mér næstum allan starfsferilinn). Þess vegna vil ég gjarnan fá viðbrögð á neðangreint sem hjálpa mér að skilja hvar ég fer útaf brautinni, ef svo er.
Ég skil ekki hvernig stendur á því að meðan einhversstaðar er verk að vinna, þá sé einhver á atvinnuleysisbótum.
Af hverju borgar samfélagið einhverjum fyrir að gera ekki neitt, þegar sá hinn sami gæti verið einhvers staðar annars staðar að vinna samfélaginu gagn? Af hverju bjóðum við ekki upp á öryggisnet í formi þess að fólkið í landinu geti á hverjum tíma gengið í örugg íhlaupaverk og fengið greitt fyrir þau, í stað þess að greiða þeim atvinnuleysisbætur?
Þetta hefur ótal kosti:
Það er auðvitað að mörgu að huga og ekki sama hvernig þetta er gert. Í fyrsta lagi, þá er ég ekki að tala um atvinnubótavinnu, því í mínum huga felst atvinnubótavinna í að vinna þarflaus verk eins og að eitt teymi verkamanna moki skurð og annað teymi komi svo og moki ofan í hann. Verkefnin sem verða fyrir valinu þurfa að uppfylla allmörg skilyrði, þ.á.m.:
Verkefni af þessu tagi eru fjölmörg. Mannfrek verkefni sem ýmsar stofnanir hefur langað til að framkvæma, en ekki fengið fjárveitingu í; verkefni sem myndu gera samfélagið betra, en erfitt er að reikna fjárhagslega réttlætingu fyrir að leggja í, a.m.k. í upphafi. Og þessi verkefni eru af margvíslegu tagi, og gætu því nýtt margvíslega sérfræðiþekkingu sem nú er ónýtt á atvinnuleysisbótum.
Þessi vinna væri líka að mörgu leyti óhefðbundin (rétt eins og atvinnuleysisbætur eru ekki hefðbundin vinna), t.d.:
Meðan enn er til íslensk bók á Landsbókasafninu sem ekki hefur verið komið á tölvutækt form, meðan enn liggur rusl á götum og ströndum landsins, meðan enn er ógróðursett tré eða óupptekin lúpína, meðan enn á eftir að mála yfir veggjakrot einhvers staðar, meðan enn á eftir að skrá myndir í Ljósmyndasafninu og efni í eigu Ríkisútvarpsins, meðan enn á eftir að fara yfir málskjal í tengslum við hrun bankanna og meðan enn þarf að bægja illa búnum túristum frá eldgosum og sjóðandi hverum, er hægt að fækka fólki á atvinnuleysisbótum.
Þessi verkefni liggja út um allt og fólkið er á lausu. Leiðum þau saman.
Það er nefnilega ekkert til sem heitir atvinnuleysi – bara ónýtt vinnuafl sem bíður þess að komast til starfa við eitthvað uppbyggilegt.
Vanda íslensks efnahagslífs má rekja til tveggja þátta:
Hin margvíslegu efnahagslegu vandamál sem við glímum við eru öll afleiðing af eða tilbrigði við þessi tvö stef.
Vandann er sem sagt ekki að rekja til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans eða Ríkisstjórnarinnar þó alla þessa aðila megi gagnrýna og sumir þeirra hafi óumdeilanlega brugðist hlutverki sínu í aðdraganda, hruni og eftirmálum þess.
Vandann er ekki einu sinni hægt að rekja til Icesave, þrátt fyrir það sem ætla mætti á umræðunni. Þvert á móti reyndar. Það liggur við að það sé bannað að hafa orð á því, en Icesave var styrkleiki í íslenska bankakerfinu fyrir hrun, ekki veikleiki og vandinn sem nú er vegna Icesave-skuldbindinganna er afleiðing hrunsins, ekki orsök þess. Innlán styrkja bankakerfi og Icesave var virkilega vel heppnuð innlánastarfsemi.
Það er hins vegar ekki gott að reka banka sem týna 2-3 af hverjum 4 krónum sem þeim er treyst fyrir. Síst af öllu þegar það er sparifé fólks!
Vandinn var með öðrum orðum ekki peningarnir sem komu inn, heldur peningarnir sem fóru út – og komu aldrei til baka.
Í hnotskurn
Aðdraganda hrunsins má í stuttu máli lýsa svona: Þrjár viðskiptablokkir kepptust við og keyptu upp því sem næst allt atvinnulíf á landinu (og margt utan landsteinanna) á uppsprengdu verði fyrir lán frá sjálfum sér og hvorri annarri. Þegar upp var staðið skulduðu þær “sér” líklega í kringum 1500 milljarða króna, en raunverulegt virði eignanna var margfalt minna og því engin leið að þessi lán yrðu borguð til baka. Þegar ljóst var að mörg þessara lána myndu falla í vanskil og ekki var lengur hægt að velta vandanum með endurfjármögnun féllu dómínókubbarnir hratt.
Útlánin voru – eins og dæmin sanna – oft á tíðum hreinlega galin og má fullyrða að aðeins brot af þeim hefðu verið veitt, hefðu bankarnir ekki verið í eigu viðskiptablokkanna sem tóku þau.
Afleiðingar, ekki orsök
Hrunið hafði vissulega margar alvarlegar afleiðingar sem við þurfum að standa straum af. “Smotterí” eins og endurfjármögnun Seðlabankans, fjármögnun nýju bankanna, halli á rekstri ríkisins næstu árin, Icesave-skuldbindingin (hver sem hún verður) og svo fall krónunnar með tilheyrandi verðbólgu, lækkað lánshæfismat ríkis og fyrirtækja, atvinnuleysi og gjaldeyrishöft.
En munum að þetta eru allt afleiðingar vandans, ekki rót hans. Vandinn sjálfur var samþjöppun eignarhalds og galin útlán.
Þetta grunar mig að verði megin niðurstaða skýrslu rannsóknarnefndarinnar.
Í hádeginu í dag voru úrslitin í verðlaunasamkeppninni “Þú átt orðið” kynnt. Það voru fyrirtækið Já og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem stóðu fyrir þessari keppni.
Forsaga keppninnar
Forsagan er í stuttu máli sú að forritunarteymi Já og forveri þess – fyrirtækið Spurl – sem Já keypti fyrir nokkrum árum* hafa um árabil átt í samstarfi við Orðabók Háskólans (sem nú er hluti Árnastofnunar) á sviði tungutækni. Það samstarf hefur sérstaklega snúist um Beygingalýsingu íslensks nútímamáls, en það er gagnasafn sem inniheldur beygingarmyndir meira en 270 þúsund íslenskra orða.
Já hefur nýtt sér þetta safn með ýmsum hætti, t.d. til að tryggja að leit á vefnum Já.is finni íslensk nöfn, götuheiti, staði og fyrirtæki óháð því í hvaða beygingarmynd fyrirspurnir eru skrifaðar (ertu að leita að “Laugavegi” eða “Laugavegur“, “sýslumaður” eða “sýslumanninum”, o.s.frv.), við gerð tillagna þegar leitarorð eru rangt slegin inn “Leit að ‘laugvegur‘ skilaði engum niðurstöðum. Áttirðu við ‘Laugavegur’?” o.s.frv.
Já-fólk hefur því lengi vitað hvers konar verðmæti felast í þessum gögnum og við vorum nokkuð viss um að þau verðmæti kæmu fyrst almennilega í ljós þegar aðgangur að þessum gögnum væri opnaður frekar. Þannig kviknaði hugmyndin að því að Já myndi styrkja Árnastofnun og gera stofnuninni þannig kleift að aflétta þeirri gjaldtöku sem hingað til hefur verið á notkun þessarra gagna. Það varð úr, og til að hvetja hugmyndaríka einstaklinga til dáða var auk þess ákveðið að blása til þessarar verðlaunasamkeppni.
Opið aðgengi leiðir til nýsköpunar
Í stuttu máli tókst þessi tilraun vonum framar. 20 álitlegum verkefnum var skilað inn á tilsettum tíma. Það skemmtilegasta við þau var hversu fjölbreytt þau voru. Þannig náðu t.d. verðlaunaverkefnin fjögur allt frá nýrri málfræðilega áhugaverðri nálgun við orðflokkun, til tölvuleikja og allt frá gagnlegu tóli fyrir vefnotendur, til “startpakka” fyrir forritara sem vilja nýta sér þessi gögn til annarra góðra verka.Og þetta var vonandi bara byrjunin. Ég er sannfærður um að miklu fleiri en þeir sem tóku þátt í samkeppninni munu nýta sér þessi gögn hér eftir með margvíslegum hætti og veit reyndar af nokkrum slíkum verkefnum sem eru í gangi.
Þessi afrakstur styrkti mig enn frekar í trúnni um það hversu mikil verðmæti er hægt að leysa úr læðingi með því að opna aðgengi að gagnasöfnum á vegum opinberra aðila. Fjársjóðir á borð við þennan liggja vannýttir og jafnvel ónotaðir hjá stofnunum og fyrirtækjum úti um allt land, en gætu orðið að nýjum vörum, nýjum tækifærum og jafnvel nýrri þekkingu ef aðferðafræði Opinna Gagna fengi að ráða.**
Vonandi verður þingsályktunartillagan góða sem samþykkt var í þá veru fyrir áramótin sem fyrst til þess að þessi mál komist á skrið hér á landi.
– – –
* Ég var stofnandi og einn af aðaleigendum Spurl á sínum tíma
** Gögnin í Beygingarlýsingunni eru reyndar strangt til tekið ekki að öllu leyti “opin” skv. skilgreiningu opinna gagna, en sannarlega opnari en þau voru.
Ég hef nokkrum sinnum áður ráðist í það um áramót að skrifa smá hugleiðingar um það sem komandi ár gæti borið með sér í tæknigeiranum á Íslandi. Spáin fyrir nýliðið ár heppnaðist býsna vel, þannig að nú er kominn tími til að rýna aftur í telauf og garnir og spá fyrir um næstu misserin.
Sum þessara fyrirtækja voru jafnvel stofnuð eftir hrun, þannig að hraðinn er mikill. Ég reikna með að sjá enn meiri grósku í þessu á komandi ári. Öll áðurnefnd fyrirtæki eru ýmist að þróa endurbættar útgáfur af sínum vörum eða nýjar vörur væntanlegar frá þeim á árinu. Til viðbótar má nefna að vörur eða stórar viðbætur eru væntanlegar frá næstum öllum hinum fyrirtækjunum í Icelandic Gaming Industry (IGI) auk Mobilitus, Medizza, Gogoyoko, DataMarket og ýmsum fleirum sem ég er ýmist að gleyma eða hreinlega veit ekki af. Eins hlakka ég mikið til að sjá og kynnast betur því sem koma mun út úr “hands-on” nýsköpunarsetrinu í Toppstöðinni.
Ég sé því fyrir mér að í sprotaheiminum verði árið 2010 enn viðburðaríkara en nýliðið ár og þar verða líklega bæði stórir sigrar og talsverð vonbrigði.
Þetta er auðvitað langt frá því að vera vandamál í sjálfu sér, en allir þessir peningar eru að elta tiltölulega fá – raunverulega góð – tækifæri. Hættan við allt þetta fé er sú að það leiti of víða og að forsvarsmenn sjóðanna hafi ekki þolinmæði til að bíða eftir tækifærum sem þeir hafa raunverulega tröllatrú á. Þannig gæti farið svo að of mörg fyrirtæki fái litlar frumfjárfestingar, en svo verði of litlir peningar eftir til að fylgja eftir þeim sem klóra sig fram úr fyrstu árunum og tryggja að þau nái virkilega að blómstra. Þetta hefur gerst áður. Nýsköpunarsjóður, eins og hann var rekinn í kringum árið 2000, er mjög gott dæmi um slíkt. Líklega hefði komið meira útúr honum með færri og stærri fjárfestingum.
Sem sagt: Gott að það sé úr miklu fé að moða, en því má ekki smyrja of þunnt.
Ég sé fyrir mér að þessi mannekla muni hamla vexti sprotafyrirtækja umtalsvert.
Ég spái því að þessi mikla starfsemi á þröngu sviði eigi eftir að sliga einhver leikjafyrirtæki, sem annars hafa alla burði til að slá í gegn.
Ég sé fyrir mér að breytingar verði gerðar á upplýsingalögum áður en árið er úti, aðgengi að opinberum gögnum rýmkað til mikilla muna og að áherslan verði á “upplýsingaskyldu stjórnvalda fremur en upplýsingarétt almennings” eins og segir í niðurlagi þingsályktunartillögunnar.
Ég sé fyrir mér að þetta muni opna augu atvinnulífsins og stjórnvalda fyrir því hversu verðmæt og öflug greining og úrvinnsla gagna getur verið.
Eins er með þessu verkefni loksins verið að dreifa orkueggjunum okkar í fleiri körfur en áliðnaðarins eins. Segja má að aflþynnuverksmiðja Becromal hafi verið fyrsta skrefið í þá átt í seinni tíð. Ýmsar þreifingar eru einnig í gangi um framleiðslu bæði á sólarkísil og koltrefjum.
Ég sé fyrir mér (og vona) að fleiri slík verkefni komist af stað á árinu og þá í stað álvers á Bakka og jafnvel líka í Helguvík.
Við sáum líka ýmsa aðra pólitíska vinkla spretta upp úr þessum jarðvegi: Mótmælin voru að miklu leyti skipulögð á Facebook, Appelsínuguli-hópurinn, hópar með og á móti ESB, með og á móti ýmsum útgáfum af Icesave samningum, með og á móti lýðræði, með og á móti sól. 2010 verða sveitastjórnarkosningar og strax má sjá þess merki að frambjóðendur í prófkjörum og listar sem boðnir eru fram eru komnir í startholurnar með Facebook-viðveru, Twitter-tilraunir og notkun nýrra miðla til að dreifa upplýsingum og áróðri.
Að teknu tilliti til takmarkaðra fjárráða held ég að Facebook og netið verði þungamiðjan í aðdraganda þessara sveitastjórnarkosninga, sérstaklega í stærri sveitarfélögunum.
Persónulega þykja mér rök á borð við þau að gæta þess að starfsaðferðir festist ekki í viðjum einstakra framleiðanda, t.d. vegna lokaðra skráarsniða eða að verkferlar krefjist ákveðinna, dýrra séreignarlausna vega mun þyngra. Eins þarf skólakerfið að gæta þess að draga ekki vagn tiltekinna fyrirtækja. Það er hins vegar jákvæð þróun að sem flestir átti sig á því að það eru valkostir við þann hugbúnað sem þeir hafa vanist.
Ég sé fyrir mér að opinn hugbúnaður muni ryðja sér nokkuð afgerandi til rúms hjá hinu opinbera á árinu og í auknum mæli í einkageiranum líka.
Teymi, aðaleigandi Vodafone fór á hausinn árið 2009, félögin fengu gríðarmiklar skuldir afskrifaðar og eignarhaldið er núna í höndum Landsbankans að mestu leyti. Landsbankinn leysti jafnframt til sín stóran hluta í Tali á árinu.
Nova hefur gengið framúrskarandi vel að ná til sín viðskiptavinum í farsímaþjónustu, en er nánast örugglega enn rekið með allmiklum halla. Ólíklegt er að eigendur hafi mikið fé til að standa undir því áfram og því er 2010 líklega árið sem Nova þarf að fara að standa undir sér. Það þýðir væntanlega gerbreytta verðskrá og tilboð. Fyrirtækið er að auki að stórum hluta í eigu Novators, og ég get ímyndað mér að stjórnendur Nova hafi svitnað verulega í látunum vegna Verne. Það er aldrei að vita hvenær sambærileg reiði gæti bitnað á öðrum fyrirtækjum sem tengjast Novator og Nova liggur vel við höggi, þar sem fyrirtækið starfar á einstaklingsmarkaði fyrst og fremst.
Hlutdeild Símans á farsímamarkaði fór í fyrsta sinn niður fyrir 50% á árinu, en fyrirtækið er engu að síður í afburðastöðu í fjarskiptageiranum í heild. Afkoma Símans er líklega mjög góð eins og alltaf hefur verið, en eignarhaldið gæti raskast verulega á árinu. Síminn er jú í eigu Skipta og þar liggja að mestu leyti lánin sem notuð voru til kaupanna á Símanum á sínum tíma. Skipti eru svo aftur í eigu Exista og “Exista er í eigu guðs almáttugs” eins og einn félagi minn komst að orði.
Það er engin leið að sjá fyrir hvernig þessi markaður á eftir að stokkast upp á árinu, en það er deginum ljósara að hér verða miklar hræringar. Ólíklegt er að Síminn fái að taka of mikinn þátt í samþjöppun á þessum markaði af samkeppnisástæðum og því ætla ég að leyfa mér að spá því að eignarhald Nova, Tals og Vodafone eigi eftir að renna saman að einhverju leyti á árinu 2010.
Hvað haldið þið að muni gerast á árinu? Einhver til í að veðja á móti mér í einhverjum af þessum vangaveltum? Er ég úti á þekju í einhvejrum málum?
Gleðilegt tækniár!
Ég er landleysingi í pólitík. Hef mjög mikinn áhuga á pólitískri umræðu og sterkar skoðanir á mörgum málum, en gæti aldrei fellt mig við það að elta einhverjar flokkslínur í flestum málum. Ég hallast reyndar að því að flokkshollusta sé að mörgu leyti þægindi sem fólk sækir í til að þurfa ekki að setja sig inn í málin og mynda sér sína eigin afstöðu.
Í hverju máli reyni ég einfaldlega að afla mér upplýsinga eins og kostur er. Lesa helstu röksemdafærslu beggja hliða og mynda mér smám saman skoðun útfrá því. Mér finnst það líka styrkur að geta skipt um skoðun þegar nýjar upplýsingar eða rök í málum koma upp á yfirborðið, þó að í pólitík virðist oftast litið á það sem veikleika – næstum jafn mikinn veikleika og að vera sammála “andstæðingum” sínum. Við höfum meira að segja haft forystumenn í stjórnmálum sem hreykja sér af því að hafa aldrei skipt um skoðun!
Þetta er einn af stóru drifkröftunum að baki DataMarket. Þjóðin á gríðarlega mikið af merkilegum gögnum sem liggja lítið – eða jafnvel ekkert – notuð hér og þar í samfélaginu. Með betra aðgengi að þessum gögnum og tólum sem hjálpa fólki að setja hlutina í samhengi, hef ég trú á því að við getum tekið miklu upplýstari ákvarðanir á öllum stigum þjóðlífsins: í einkalífinu, í fyrirtækjarekstri og í stjórnsýslunni.
Góð kenning sem ég hef oft stuðst við er að skoðanamyndun verði í þremur skrefum:
Við þurfum ekki öll að komast að sömu niðurstöðu. Við höfum mismunandi lífsgildi, áherslur og sýn á það hvað skipti mestu máli í lífinu. Rökræða snýst í raun að miklu leyti um skref #2, þar sem fólk tekst á um greiningu staðreyndanna og reynir svo að fikra sig – og stundum andmælendur sína eða áheyrendur með sér – í átt að niðurstöðu. Í góðri rökræðu eru menn til í að sýna öðrum lífsgildum virðingu, meta forgangsröðun sína og reyna að sjá hlutina með augum annara. Ef menn leggja samt ekki út frá sömu staðreyndum – eða gögnum – verður rökræðan aldrei góð.
Sem dæmi mætti taka að tvær fylkingar eigi að mynda sér skoðun á ágæti samnings. Önnur fylkingin hefur séð samninginn og öll undirliggjandi gögn, en hin fylkingin ekki. Í þessu tilfelli er gagnslaust að reyna nokkurskonar rökræðu um ágæti samningsins. Það er ekkert til að greina – og allar tilraunir til þess verða fálmkenndar og gerðar í lausu lofti.
Þetta er ástæðan fyrir því að gagnsæi og opið gagnaaðgengi er lykilatriði í samfélaginu. Þannig munum við taka okkar bestu ákvarðanir og vera fær um að gagnrýna, mótmæla eða styðja það sem gert er með rökum – en ekki af pólitískri flokkshlýðni.
Skattareiknir
Hvatningin til að skrifa um þetta bloggfærslu núna er umræða sem skapast hefur undanfarna daga um nýlegan skattareikni Sjálfstæðisflokksins. Eins og fram hefur komið í umræðunni, á DataMarket þar hlut að máli. Við tókum að okkur að afla ýmissa gagna varðandi skattamál fyrir flokkinn. Í framhaldi af þeirri gagnaöflun settum við upp Excel-módel sem auglýsingastofan studdist við þegar reiknirinn var forritaður. Ákvörðun um endanlegar forsendur að baki þeim útreikningum og framsetningu niðurstaðnanna er tekin af flokksmönnum.
Samkvæmt okkar bestu vitund er reiknirinn villulaus eins og hann stendur nú. Fyrstu klukkutímana fór hann í loftið án þess að tekið væri tillit til nýs frítekmarks á fjármagnstekjur, en það var lagað um leið og ábending barst þar um. Eins voru mjög afmörkuð jaðarskilyrði sem leiddu til undarlegrar niðurstöðu þegar heimili með 2 fyrirvinnur var ofarlega í 2. skattþrepinu – það hefur einnig verið lagað. DataMarket ber ábyrgð á þessum villum og ónógum prófunum á líkaninu, en þeim var á engan hátt ætlað að villa um fyrir neinum, enda hefði það verið býsna óábyrg nálgun.
Enda er það líka svo að fæstir sem stungið hafa niður penna um þessa herferð Sjálfstæðisflokksins hafa haft neitt við útreikningana að athuga, heldur forsendurnar sem miðað er við. Og þá er eðlilegt að næsta spurning sé: Hvor fylkingin hefur rétt fyrir sér?
Svarið er etv. ekki hjálplegt: Báðir hafa rétt fyrir sér.
Staðreyndirnar liggja nokkuð skýrt fyrir. Þær eru í stuttu máli þessar:
Sjálfstæðismenn kusu að fara þá leið að bera þessar staðreyndir saman við skattkerfið eins og það var í upphafi þessa árs og núgildandi lög. Þetta hefur eftirfarandi í för með sér:
Ríkisstjórnin vill hins vegar miða við kerfið eins og það er núna. Það þýðir að nýja kerfið er borið saman við:
Deilurnar snúast því ekki um það hvernig kerfið var eða verður – gögnin – heldur um túlkun þeirra eða greiningu. Enginn leggur til röng gögn, en hvor kýs að greina þau gögn með sínum hætti, væntanlega í von um að fá fólk á sína skoðun svo vitnað sé í þrjú skref rökræðunnar hér að ofan.
Menn geta svo gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn fyrir að teygja sínar forsendur inn á þetta ár og fyrir að það sé auðvelt að koma með svona gagnrýni í stjórnarandstöðu þegar menn standa ekki raunverulega frammi fyrir ákvarðanatökunni.
Að sama skapi væri hægt að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að tala um lækkun skatta með hækkun persónuafsláttar um 2.000 krónur en láta hjá líða að minnast á að að óbreyttu hefði hækkun persónuafsláttarins verið mun meiri. Eða það að kalla nýja eignaskattinn “auðlegðarskatt” og að tekjuöflun af honum “gefi um 3 ma. kr., er verði nýttir til að hækka greiðslur barnabóta og vaxtabóta”. Skattur á “auðlegð” er líklegri til vinsælda en “eigna”-skattur og þessir tilteknu 3 milljarðar fara auðvitað alveg jafnt í að greiða vaxtagjöld ríkissjóðs, reka Landspítalann, greiða listamannalaun eða hvað annað sem ríkið tekur sér fyrir hendur.
Hvert og eitt okkar verður að horfa á þetta með sínum eigin gagnrýna hætti og reyna að komast að eigin niðurstöðu um það hvað okkur þyki ásættanlegt og nauðsynlegt í ljósi stöðunnar. Það er þó allavega kostur að rökrætt skuli á grunni staðreynda, en ekki tilfinninga og upphrópana eins og allt of oft vill verða í pólitíkinni.
Undanfarna daga hafa verið ræddar í fjölmiðlum hugmyndir um að skrá í Kauphöllina fyrirtæki sem bankarnir hafa tekið yfir og koma þeim þannig í almenningseigu.
Í grunninn held ég að þetta sé góð hugmynd. Að mörgu leiti betri en beint söluferli í umsjón bankanna sjálfra og án alls efa betra en það handstýrða og ógagnsæja ferli sem virðist vera í gangi með önnur.
Hins vegar þarf Kauphöllin að taka verulega til í sínum ranni ef hún á að verða vettvangur þessara viðskipta. Ég er ekki einu sinni viss um að Kauphöllin í þeirri mynd sem hún hefur verið starfrækt eigi sér viðreisnar von. Ástæðan? Jú, Kauphöllin er ein þeirra stofnana sem gerbrást í aðdraganda Hrunsins og þarf að líta í eigin barm, viðurkenna mistök sína og ábyrgð og breyta starfsháttum og reglum áður en hún er tilbúin til að taka þátt í endurreisnarstarfinu.
Byrjum á smá bakgrunnsupplýsingum…
Um hlutafélög
Hlutafélög eru stórmerkilegar stofnanir. Þau gera fólki úr ólíkum áttum kleift að taka saman höndum um verkefni sem hver og einn hefði verið ófær um einn og sér. Sumir geta lagt mikið til þeirrar hugmyndar eða þess verks sem fyrir höndum er og aðrir minna, en ramminn á að tryggja að allir sitji við sama borð og njóti ávaxtanna – og taki á sig áhættuna – í hlutfalli við það sem þeir leggja til.
Að auki takmarkar hlutafélagaformið ábyrgð hluthafanna við það fé sem þeir leggja félaginu til og þannig geta menn lagt verkefni lið, án þess að eiga á hættu að tapa öðru en því sem þeir hafa eyrnamerkt verkefninu. Þetta er líka mikilvægt, því fáir myndu leggja áhættusömu verkefni lið ef það gæti sjálfkrafa stofnað öllum eigum þeirra í hættu. Þetta á líka að öllu jöfnu að þýða það að hlutafélag fái aldrei að stofna til skuldbindinga umfram það sem hlutaféð, rekstur fyrirtækisins og eignir þess geti staðið undir.
Hlutafélög verða þannig til þess að margvísleg verkefni geta orðið að veruleika, sem annars yrðu ekki og ýta þannig undir nýsköpun, skapa störf og auka – þegar vel tekst til – lífsgæði okkar og samfélag. Gunnhugmyndin á bakvið hlutafélagaformið er því besta mál.
Hlutabréfamarkaðir eru að sama skapi mikilvægir. Virk viðskipti með hlutabréf í félagi mynda verð á þeim og meta þannig í raun í sífellu stöðu og framtíðarhorfur fyrirtækisins. Þetta gerir fólki sem lagt hefur verkefni til fé kleift að losa fjármuni á sanngjörnu verði á hverjum tíma og njóta þannig ávaxtanna – eða taka á sig það tap – sem orðið hefur yfir það tímabil sem viðkomandi hlutur var í þeirra eigu. Þetta minnkar enn frekar tregðu fólks við að leggja fé í hlutafélag. Ekki þarf að bíða þar til verkefninu er lokið, eða fyrirtækið fer að borga arð til að geta losað um það fé sem lagt var inn.
Það má því segja að hlutafélög og góður hlutabréfamarkaður sé forsenda fyrir kröftugu atvinnulífi, nýsköpun og uppbyggingu.
Íslenska Kauphöllin var aftur á móti ekki góður hlutabréfamarkaður – og Kofinn sem eftir stendur verður aldrei góð Höll nema til komi grundvallarbreytingar á starfsemi hennar.
Upplýsingagjöf
Lykillinn að ofangreindum kostum hlutafélaga og hlutabréfamarkaða er öflug upplýsingagjöf. Því betri upplýsingar sem kaupendur og eigendur hluta í félaginu hafa um stöðu þess á hverjum tíma, því betri aðstöðu eru þeir í til að meta áhættu og möguleika félagsins. Það er því algert lykilatriði að allir hafi jafnan og eins mikinn aðgang að upplýsingum eins og hægt er – annars skapast ójafnvægi og óvissa um þá þætti sem þurfa að liggja til grundvallar við verðmat hlutanna.
Þetta er líka reynt að tryggja með hlutafélagalögunum og starfsreglum hlutabréfamarkaða. Þeir sem hafa meiri upplýsingar um starfsemina en aðrir, s.s. stjórnendur, stjórnarmenn og í sumum tilvikum aðrir starfsmenn fyrirtækjanna, kallast innherjar – og um viðskipti þeirra með hluti gilda aðrar reglur en um almenna fjárfesta. Öllum öðrum á að tryggja jafnan og öruggan aðgang að upplýsingum. Í tilfelli kauphalla er þetta gert með reglum um birtingu ársreikninga, ársfjórðungsuppgjöra og þess á milli sérstakra tilkynninga ef ástæða er til.
Hrunið kom upp um algera brotalöm í þessari upplýsingagjöf í íslensku Kauphöllinni. Það vantaði svo sem sjaldnast upp á það að umræddum skjölum væri skilað (þó þess séu dæmi, einkum eftir Hrun), en þau sögðu bara ekki alla söguna. Reyndar má segja að þau hafi oft sagt bara einhverja allt aðra sögu – sögu af einhverjum félögum sem aldrei voru til nema í hugum eigendanna og þeirra sem sáu um “upplýsinga”-gjöfina:
Þessi listi gæti hæglega verið lengri og lengist reyndar sífellt eftir því sem fleiri kurl koma til grafar.
Allt þetta átti sér stað í Kauphöllinni – þeirri sem nú ætlar að taka þátt í endurreisninni. Þeim til varnar má reyndar segja að það sama hefur að einhverju leiti átt sér stað í kauphöllum úti um allan heim, en það þýðir ekki að við eigum bara að endurvekja sama kerfið. Það partý er búið og ef það verður aftur veisla, verður hún á allt öðrum forsendum, með öðrum boðslista og mun hófstilltari skemmtiatriðum.
Við eigum ekki að sætta okkur við óbreytt fyrirkomulag. Ef við ætlum að virkja kosti hlutafélagaformsins aftur til fulls þarf nýja hugsun og nýjar reglur.
Annan október í fyrra, þegar hamfarirnar voru varla byrjaðar, skrifaði ég þessa færslu sem stendur jafnvel enn frekar fyrir sínu nú en þá. Ég held ég noti bara eftirfarandi klausu úr henni til að lýsa því hvert ég er að fara:
Lög um upplýsingagjöf í kauphallarviðskiptum eiga sér meira en aldarlanga sögu og tilgangur þeirra er að markaðsaðilar sitji við sama borð með bestu fáanlegu upplýsingar á hverjum tíma. Á þeim tíma sem lögin eru mótuð, hefur ársfjórðungsleg birting á rekstrartölum líklega verið ansi stíf krafa – jaðrað við það að vera rauntíma upplýsingagjöf með þeirra tíma tækni. Í dag er þessu öðruvísi farið. Það er ekkert sem stoppar kauphallir í að setja kröfur um rauntímaaðgengi að hverju sem þeir kjósa. Já – jafnvel inn í bókhald fyrirtækjanna, sjóðsstreymi þeirra, útistandandi kröfur og eignastöðu.
Þannig gæti fjárfestir, hvort sem hann er að fjárfesta í hlutabréfum, skuldabréfum, eða einhverjum sjóðum, grafið sig niður í minnstu smáatriði fjárfestingar sinnar. Svolítið eins og DataMarket og fjárlögin, nema bara á miklu stærri skala og með miklu meiri nákvæmni.
Ef svona hefði verið, hefðu margir verið búnir að benda á samsetninguna í Sjóði 9 og hversu mikið hékk þar á fáum, tengdum aðilum. Það hefði líka verið búið að grafa í alla undirmálsvafningana og gagnrýna þá. Hrunið stafar af miklu leiti af því að fáir, ef nokkur, hafði tækin til að sjá í gegnum flækjuna sem búið var að spinna í allskyns fjármálagjörningum.
Ég held að þegar þessum hamförum á fjármálamörkuðum lýkur og menn fara að endurskoða leikreglurnar, sé eitthvað á þessa leið líklegt til að verða ofan á. Ekkert annað en fullkomið gegnsæi á öll tiltæk gögn getur aukið tiltrú almennings á þessum mörkuðum aftur.
Warren Buffet fjárfestir aldrei í neinu sem hann skilur ekki. Með rauntímaaðgang í undirliggjandi vef fjármála- og bókhaldskerfa myndu allir hafa tólin til að skilja það sem að baki fjárfestingum þeirra og hópnum sem heild treystandi til að veita markaðsaðilum aðhald með því að rýna í þessar tölur með og beita allskyns greiningar- og birtingartólum til að koma auga á veilurnar í kerfinu.
– – –
Aðrar færslur frá mér (og DataMarket) um tengd málefni:
Við hjá DataMarket vorum að uppfæra reiknilíkan sem við gerðum í fyrra til að lýsa staðgreiðsluskattakerfinu á Íslandi. Líkanið tekur núna mið af nýjustu fáanlegu gögnum um launadreifingu landsmanna, hátekjuskattinum sem lagður var á í sumar og svo er hægt að stilla upp fleiri en einu hátekjuþrepi.
Þannig má t.d. bera saman áætlaða staðgreiðslu af núverandi kerfi og þriggja þrepa kerfinu sem sagt er að sé til umræðu í stjórnkerfinu. Út frá því má áætla að samanlögð staðgreiðsla hækki um tæpa 10 milljarða við þessa breytingu (eða rúmlega 15 ef miðað er við að enginn hátekjuskattur væri tekinn, líkt og var í upphafi þessa árs).
Módelinu er – eins og öðru sem við gerum hjá DataMarket – ætlað að lýsa staðreyndum út frá bestu fáanlegu upplýsingum og stuðla að upplýstri umræðu um flókin mál sem þó skipta okkur öll máli. Við reynum okkar besta til að það sem sett er fram í nafni fyrirtækisins sé hlutlaust og sannleikanum samkvæmt. Nóg er víst af villandi umræðu samt.
Ég hvet ykkur til að skoða módelið og sjá hvaða áhrif ólíkar leiðir hafa á ykkar kjör. Á efri tveim myndunum getið þið t.d. séð hvaða áhrif skattbreytingar hafa á ykkar eigin ráðstöfunartekjur.
– – –
Að þessu sögðu langar mig að setja fram nokkrar persónulegar skoðanir og athugasemdir með hliðsjón af reiknilíkaninu. Þær eru s.s. mínar eigin og ekki settar fram í nafni fyrirtækisins (enda hafa fyrirtæki ekki skoðanir):
Ef sækja á svona miklar viðbótarskatttekjur í vasa almennings á annað borð, af hverju þá að flækja hlutina þegar þeir geta verið einfaldir?
Þangað til einhver færir góð rök fyrir öðru leyfi ég mér að fullyrða: Fjölþrepa skattkerfi er heimskulegt! Það hefur fjölmarga ókosti og enga kosti sem kerfi persónuafsláttar getur ekki leyst á betri og einfaldari hátt.
Stundum verður manni að ósk sinni hraðar en við mætti búast.
Fyrir sjö vikum síðan birti ég bloggfærslu undir titlinum “Opin gögn og gagnsæi – yfirlýsing stjórnvalda“. Þar fór ég yfir þá vitundarvakningu sem er að verða varðandi aðgengi að opinberum gögnum og gagnasöfnum, hvernig þetta spilar inn í þá gagnsæisumræðu sem nú er í gangi og gerði mér að leik að skrifa drög að stuttri yfirlýsingu sem ég lagði til að hið opinbera gerði að sinni.
Núna á föstudaginn var lögð fram þingsályktunartillaga, sem er efnislega í stórum dráttum samhljóma þessum drögum mínum.
Tillagan er lögð fram af breiðum hópi þingmanna, en það er þó að öðrum ólöstuðum varaþingmaður VG – Davíð Stefánsson – sem hefur átt frumkvæðið af því að keyra þetta áfram. Davíð hefur verið mjög áhugasamur um þessi málefni a.m.k. frá því að hann sat fyrirlestur í Hugmyndaráðuneytinu í byrjun árs þar sem ég flutti erindi um opin gögn og gagnaframsetningu. Reyndar hafa pólitíkusar úr – ég held ég megi segja – öllum flokkum sýnt málinu mikinn skilning og áhuga, enda er þetta mál sem í raun ætti ekki að höfða betur til einnar stefnu í pólitík en annarar.
Nú verður gaman að fylgjast með þessu máli í meðförum þingsins og sjá hvort þetta leiði til lagabreytinga og breytts hugsanaháttar varðandi aðgengi að opinberum gögnum.
Ég mæli með að fólk lesi tillöguna. Þetta er heilt yfir aðgengilegur, góður og umfram allt gáfulegur texti.
Á þriðjudaginn var stigið lítið en mikilvægt skref í átt að opnum gögnum á Íslandi.
Þá var nefnilega opnaður aðgangur almennings að Gagnatorgi veðurupplýsinga. Á þessu gagnatorgi má með einföldum hætti nálgast allar veðurathuganir Veðurstofu Íslands sem skráðar eru í gagnagrunna hennar. Þessar athuganir taka til u.þ.b. 200 veðurstöðva víðsvegar um landið og ná í sumum tilvikum allt aftur til ársins 1931.
Mörgum þeim sem e.t.v. eru ekki heitir áhugamenn um veðurfar og veðurupplýsingar kann að finnast lítið til koma, enda er virkni lausnarinnar tiltölulega afmörkuð og augljósar viðbætur sem hægt er að gera t.d. til að bæta myndræna framsetningu þessara veðurgagna og almennt upplýsingagildi. Lausninni var þó ekki ætlað að gera annað eða meira á þessu stigi málsins en að gera gögnin auðveldlega aðgengileg skólafólki, áhugamönnum um veðurfar og öðrum sem kunna að hafa gagn af þeim.
Mig langar samt að benda á að þetta er að mörgu leiti mjög merkilegt skref, því það setur það tóninn fyrir það sem koma skal í opnu gagnaaðgengi hér á landi.
Veðurgögnin sem þarna er opnað aðgengi að eru afurð áratuga starfs óeigingjarnra athugunarmanna, veðurfræðinga, tæknimanna og annara sem komið hafa að því að byggja upp öflugt kerfi veðurathugana hér á landi. Og frá og með þriðjudeginum skila þessi gögn sér jafnóðum inn í Gagnatorg veðurupplýsinga og eru samstundis aðgengileg landsmönnum öllum.
Þetta eru þau gögn sem liggja að baki þeim veðurspám, spálíkönum og veðurrannsóknum sem stundaðar hafa verið hér á landi; ómetanlegur grunnur að þekkingu, öryggi landsmanna og nýtingu okkar á gæðum lands og sjávar.
Ég er ekki í nokkrum vafa um að opið aðgengi almennings, skólafólks, fræðasamfélags og einkafyrirtækja að þessum gögnum mun leiða af sér enn meiri þekkingu, fróðleik og verðmæti. Menntaskólanemendur munu nota Gagnatorgið til heimildaöflunar, grunnskólanemendur munu þar kynnast samhengi vindstyrks og vindáttar í sinni heimabyggð og af hverju afi segir að það komi alltaf þoka þegar hann er “að austan”. Flugáhugamenn munu finna flugvöllum sínum stað og ef til vill mun einhver áhugamaður um veðurfar gera merkilega uppgötvun um veðrið á Akureyri. Hver veit?
Líklega eiga merkilegustu áhrif þess að opna aðgengi að þessum gögnum eftir að vera eitthvað sem við höfum ekki hugmyndaflug til að ímynda okkur núna.
Ég tek heilshugar undir það sem Menntamálaráðherra sagði við opnun gagnatorgsins:
Opinber gögn sem safnað hefur verið fyrir opinbert fé eru fjársjóður sem enn er að stóru leiti óuppgötvaður. Veðurgögn eru aðeins eitt af ótal dæmum.
Opið gagnaaðgengi tilheyrir alls ekki einhverri ákveðinni stefnu í pólitík – þetta er eitt af þeim málum sem allir ættu að geta verið sammála um hvort sem þeir aðhyllast svokallaða hægri- eða vinstri-stefnu í pólitík. Óheft og jafnt aðgengi að upplýsingum er t.d. grundvallaratriði í frjálsum markaðsbúskap og þó ólíkar stefnur greini á um hve mikil umsvif ríkisins eigi að vera, held ég að fólk sé almennt sammála um að okkur beri að hámarka verðmæti þess sem unnið er fyrir opinbert fé.
Í opnara aðgengi að gögnum hins opinbera bíða fjölmörg tækifæri vísindamanna, skólafólks, nýsköpunar og atvinnulífs framtíðarinnar. Opnun Gagnatorgs veðurupplýsinga er bara lítið skref á þeirri braut, en ég er viss um að við munum á næstu mánuðum og árum sjá aðgengi opnað að fjölmörgum öðrum gagnasöfnum sem munu knýja nýsköpun og þekkingu og auka aðhald almennings og fjölmiðla að starfsemi jafnt hins opinbera sem einkaaðila.
Nú er undir áhugamönnum um veður, vísindi og opið gagnaaðgengi að sýna hvað í þeim – og veðurgögnunum – býr og sanna þar með hverju opið gagnaaðgengi getur áorkað.
– – –
Það eru fyrirtækin Reiknistofa í veðurfræði og DataMarket (sem undirritaður rekur ásamt öðrum) sem standa að þróun og rekstri Gagnatorgsins.