íslenska

Vorum við öll sofandi?

Undanfarnir dagar hafa verið merkilegir. Vikurnar tvær hér á undan virðast hafa farið í þunglyndi og “refresh” á mbl.is, vb.is og Eyjunni hjá voðalega mörgum. Ég er þar engan veginn undanskilinn.

Síðustu tvo daga hef ég aftur á móti orðið þess var að þetta er mjög að snúast við. Fólk er farið að sjá tækifærin sem opnast við svona endaskipti á samfélaginu.

Ég bý svo vel að þekkja og vera tengdur stórum hópi af mjög frjóu og skapandi fólki á ótal sviðum þjóðlífsins og í kjölfar bloggfærslna (1 | 2) og “Tvitta” um ástandið hefur mikið af þessu fólki haft samband með einum eða öðrum hætti.

Það er ótrúlegur kraftur sem nú er að leysast úr læðingi og áhrifa hans mun verða vart í pólitík, listum og skapandi iðnaði á næstunni og um langa hríð.

Nýja Ísland verður bæði kraftmeira, skemmtilegra og ríkara en það gamla. Búið ykkur undir breytingar!

Peningar vs. raunveruleg verðmæti

Í hamaganginum undanfarna daga hafa sótt að mér allskyns heimspekilegar pælingar. Sumar þeirra snúast um eðli peninga og hversu mikið peningar eigi skylt við raunveruleg verðmæti. Þarna er ég ekki að tala um mjúku hliðina – að raunveruleg verðmæti felist í ást, kærleika og hamingju (slíkt er einfaldlega á öðrum kvarða) – heldur hefðbundin veraldleg verðmæti. Getur verið að tengingin þarna á milli hafi glatast einhversstaðar í hagsögunni?

Bara núna síðustu tvær vikur hafa íslenskir fjárfestar og eignamenn víst tapað eignum af stærðargráðunni 500 1.000 milljarðar bara í markaðsvirði bankanna þriggja. Manni skilst að allmörg hundruð milljarðar til viðbótar séu tapaðir eða muni tapast á næstu dögum og vikum. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr þessum atburðum eða þeim afleiðingum sem þær þeir munu hafa í för með sér – sem eiga eftir að verða gríðarlegar. En eitthvað segir mér þó að ef “raunveruleg” verðmæti af þessari stærðargráðu hefðu tapast væri það mun alvarlegra mál.

Setjum þessar tölur í samhengi. Ef við gefum okkur að íbúðarhúsnæði meðalheimilis á landinu kosti 20-25 milljónir, þá samsvarar 1.000 milljarða króna tap því að 40-50 þúsund heimili hefðu eyðilagst fullkomlega, t.d. í jarðskjálfta! Fjöldi heimila á landinu er rétt um 110 þúsund, þannig að þetta væru um 40% íslenskra heimila.

Við getum sett þetta í annað samhengi og horft á útflutningsverðmæti fiskaflans okkar. Það var á síðasta ári tæplega 128 milljarðar króna. Þannig að 1.000 milljarðar samsvara 8 ára útflutningsverðmæti á fiski!

Ég held að við getum verið sammála um að íbúðarhúsnæði og fiskur eru “raunveruleg” verðmæti.

Ímyndum okkur svo að á fimmtudaginn hefðum við vaknað upp við þær fréttir að meira en þriðjungur íslensks íbúðarhúsnæðis væri ónýtur eða að allur fiskur væri horfinn af Íslandsmiðum næstu 8 árin. Er hrun bankanna sambærilegt? Eða getur kannski verið að eitthvað af þessum 1.000 milljörðum séu ekki og hafi aldrei verið “raunveruleg” verðmæti? Að það hafi ekki verið hægt að rekja öll þessi verðmæti niður eftir hagkerfinu á “fast”, þ.e. til vinnuframlags, orku, auðlinda eða annarra óumdeilanlega raunverulegra verðmæta?

Á mælikvarða raunverulegra verðmæta höfum við ef til vill varla tapað neinu. Bankakerfið, líkt og mörg önnur stoðþjónusta er vissulega mikilvægur þáttur í því að halda raunverulegri verðmætasköpun gangandi. Því gangverki er mikilvægt að koma af stað aftur, en við eigum næstum því, ef ekki alveg jafnmikið af raunverulegum verðmætum núna eins og við áttum fyrir 2 vikum síðan. Verst ef það þarf að nota eitthvað af þessum raunverulegum verðmætum til að borga fyrir skuldirnar sem urðu til við að kaupa allar þessar óraunverulegu eignir.

Ég trúi enn einart á markaðshagkerfið, en mér sýnist á öllu að það þurfi að spóla ansi duglega til baka og vinda ofan af allri flækjunni sem er búið að spinna ofan á grunngildi hagfræðinnar, gildin sem virðast minna á það á ca. 10 ára fresti – og í þetta sinna af óvenju miklum krafti – að eru ófrávíkjanleg. Það sem skiptir máli er að skapa eitthvað, framleiða og búa til – nokkuð sem hefur þótt allt að því hallærislegt undanfarin ár.

Vinnuframlag, orka og aðrar auðlindir – þetta eru raunverulegu verðmætin. Öll önnur starfsemi – þar með talin bankastarfsemi – snýst svo um að þessi verðmæti nýtist sem best, séu unnin sem hagkvæmast og skili sem mestu til þeirra sem að verðmætasköpuninni standa.

Þegar þetta er orðið klárt geta peningar kannski aftur orðið mælikvarði á raunveruleg verðmæti.

P.S. Þessar pælingar eru aðeins heimspekilegar vangaveltur enda er ég í besta falli amatör í hagfræði. Ef þið viljið lesa eitthvað um þessi mál frá fólki sem veit í alvöru um hvað það er að tala, þá bendi ég annars vegar á Villa Þorsteins sem skrifar þessa dagana bestu greiningarnar á stöðunni og atburðunum öllum hér heima og hins vegar á greinina The End of Prosperity? í TIME magazine (ekki missa af samhangandi 10 skrefa útlistun Time á því hvernig þetta allt byrjaði og hvert það gæti leitt).

Framtíð viðskipta: Opið bókhald og fullkomið gegnsæi?

Ég átti umtalverða peninga í hinum “áhættulausa” og nú alræmda Sjóði 9 hjá Glitni. Það þýðir ekkert að gráta það, þó auðvitað fylgist maður með því hvernig umræðan þróast um það hvort sjóðurinn hafi verið kominn út fyrir yfirlýsta fjárfestingastefnu sína og þá möguleg eftirmál þess.

Þegar ég talaði við minn mann í bankanum í gær, fékk ég þær upplýsingar að eitt af því sem Glitnir hyggðist gera til að auka trúverðugleika bankans – og ekki síður sjóða hans – væri að opna bækur sjóðsins. Ég gat ekki skilið það öðruvísi en svo að í stað þess að gefa öðru hverju (að mér sýnist árlega) út yfirlit yfir það hvað er á bakvið eignir sjóðsins, þá yrði það gert stöðugt – jafnvel í rauntíma. Þannig gæti maður á hverjum tíma séð hvaða skuldabréf sjóðurinn ætti og metið útfrá því á eigin forsendu áhættu hans.

Þetta hitti á einhverjar taugar hjá mér, þar sem ég hef verið að velta mér mikið uppúr gögnum og þá ekki síst fjármálatengdum gögnum síðustu mánuði og hef verið að komast á þá skoðun – óháð þessu atviki – að framtíð viðskipta liggi í rauntíma upplýsingagjöf að öllu leiti.

Lög um upplýsingagjöf í kauphallarviðskiptum eiga sér meira en aldarlanga sögu og tilgangur þeirra er að markaðsaðilar sitji við sama borð með bestu fáanlegu upplýsingar á hverjum tíma. Á þeim tíma sem lögin eru mótuð, hefur ársfjórðungsleg birting á rekstrartölum líklega verið ansi stíf krafa – jaðrað við það að vera rauntíma upplýsingagjöf með þeirra tíma tækni. Í dag er þessu öðruvísi farið. Það er ekkert sem stoppar kauphallir í að setja kröfur um rauntímaaðgengi að hverju sem þeir kjósa. Já – jafnvel inn í bókhald fyrirtækjanna, sjóðsstreymi þeirra, útistandandi kröfur og eignastöðu.

Þannig gæti fjárfestir, hvort sem hann er að fjárfesta í hlutabréfum, skuldabréfum, eða einhverjum sjóðum, grafið sig niður í minnstu smáatriði fjárfestingar sinnar. Svolítið eins og DataMarket og fjárlögin, nema bara á miklu stærri skala og með miklu meiri nákvæmni.

Ef svona hefði verið, hefðu margir verið búnir að benda á samsetninguna í Sjóði 9 og hversu mikið hékk þar á fáum, tengdum aðilum. Það hefði líka verið búið að grafa í alla undirmálsvafningana og gagnrýna þá. Hrunið stafar af miklu leiti af því að fáir, ef nokkur, hafði tækin til að sjá í gegnum flækjuna sem búið var að spinna í allskyns fjármálagjörningum.

Ég held að þegar þessum hamförum á fjármálamörkuðum lýkur og menn fara að endurskoða leikreglurnar, sé eitthvað á þessa leið líklegt til að verða ofan á. Ekkert annað en fullkomið gegnsæi á öll tiltæk gögn getur aukið tiltrú almennings á þessum mörkuðum aftur.

Warren Buffet fjárfestir aldrei í neinu sem hann skilur ekki. Með rauntímaaðgang í undirliggjandi vef fjármála- og bókhaldskerfa myndu allir hafa tólin til að skilja það sem að baki fjárfestingum þeirra og hópnum sem heild treystandi til að veita markaðsaðilum aðhald með því að rýna í þessar tölur með og beita allskyns greiningar og birtingartólum til að koma auga á veilurnar í kerfinu.

Fjárlagafrumvarpið í myndum

Fjárlagafrumvarp ársins 2009 var kynnt í dag. Frumvarpið sjálft er doðrantur sem fáir hafa undir höndum. Hægt er að lesa sig í gegnum frumvarpið á Fjárlagavef Fjármálaráðuneytisins, en það er ekki beinlínis aðgengilegt og ekki auðvelt að átta sig á stóru samhengi hlutanna.

DataMarket brást skjótt við og vann gögnin á meðfærilegara form. Útkoman er vefsvæði þar sem hægt er að sjá með þægilegum hætti í hvað stjórnvöld ætla að nota peningana okkar á komandi ári.

Á forsíðunni er yfirlit yfir ráðuneytin, raðað eftir útgjaldaröð. Með því að smella á súluna fyrir eitthvert ráðuneytið birtist skipting útgjalda þess og svo koll af kolli. Gögnin ná reyndar bara 3 þrep niður og oft langar mann að komast dýpra, en fjárlagafrumvarpið nær einfaldlega ekki lengra. Næsta þrep eru rekstraráætlanir einstakra stofnana og þær eru ekki fáanlegar að svo komnu máli.

Ég fullyrði að aldrei hefur verið jafnauðvelt að túlka, rýna og gagnrýna fjárlagafrumvarp á Íslandi eins og með þessu einfalda tóli. Ég bendi á að ef þið viljið efna til umræðu um einstök ráðuneyti eða rekstrarliði, þá á hvert þeirra sér sína slóð, sem hægt er að tengja beint á í bloggi eða senda tengil í tölvupósti eða á MSN.

Hér eru – sem dæmi – áætluð útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs á komandi ári.

Skemmtið ykkur!

– – –

P.S. Þeir sem hafa áhuga á að komast í sjálf gögnin á einhverju formi sem leyfir frekari úrvinnslu (t.d. í Excel) eru hvattir til að setja sig í samband.

Myndræn framsetning gagna: Mannfjöldaþróun á Íslandi

Eins og nafnið gefur til kynna snýst DataMarket um öflun og miðlun hvers kyns gagna. Ég er þessvegna búinn að vera að velta mér mikið síðustu vikurnar uppúr allskyns gagnamálum og þeim möguleikum sem góð og aðgengileg gögn opna.

Myndræn framsetning er eitt af því sem getur gefið gögnum mjög aukið vægi og – ef vel tekst til – dregið fram staðreyndir sem annars eru faldar í talnasúpunni.

Ég gerði smá tilraun með mannfjöldagögn frá Hagstofunni. Byggt á tölum um aldurs- og kynjaskiptingu frá 1841 til dagsins í dag bjó ég til gagnvirka hreyfimynd sem sýnir hvernig mannfjöldapíramídinn (einnig þekkt sem aldurspíramídi) þróast á tímabilinu. Útkomuna má sjá með því að smella á myndina hér að neðan.

Smellið á myndina til að spila

 

Græni liturinn sýnir 18 ára og yngri, rauði liturinn 67 ára og eldri og guli liturinn þá sem eru þar á milli.

Myndin bendir á nokkrar áhugaverða hluti í mannfjöldaþróun Íslendinga:

  • Barnadauði: Fyrstu árin er sorglegt að sjá hvernig yngstu árgangarnir – sérstaklega sá allra yngsti – ná ekki að færast upp. Þetta segir sína sögu um barnadauða, aðbúnað barna og “heilsugæslu” þessa tíma.
  • “Baby boom”: Fram að lokum seinni heimstyrjaldarinnar vex og eldist þjóðin nokkuð jafnt og þétt. Reyndar dregur aðeins úr fæðingum framan af seinna stríði, en svo verður alger sprenging – það sem kallað er “baby boom” upp á ensku og á sér klárlega sína hliðstæðu hér. Þessi “barnasprengja” hefur verið rakin til aukinnar hagsældar, betra heilbrigðiskerfis og almennrar bjartsýni í kjölfar stríðsins. Uppúr 1960 jafnast svo stærð árganganna út aftur með tilkomu getnaðarvarna og skipulagðari barneignum en tíðkuðust fram að því.
  • Erlent vinnuafl: Síðasta sagan í þessum gögnum sýnir svo uppgangssveiflu síðustu ára. Ef þið skrefið ykkur í gegnum árin frá 2005-2008 (til þess eru örvatakkarnir) má sjá greinilega aukningu í aldurshópnum á bilinu 20-50 ára, sérstaklega karla megin. Aldurshópar geta eðli málsins ekki stækkað af náttúrulegum ástæðum (enginn fæðist 25 ára) þannig að þessi aukning stafar af aðfluttum umfram brottflutta. Þarna er líklega kominn hluti þess erlenda vinnuafls sem hingað hefur leitað í góðæri og framkvæmdum síðustu ára.

Sjálfsagt má lesa fleira út úr þessari mynd, en ég eftirlæt ykkur frekari greiningu 🙂

Örfá orð um tæknina

Myndin er gerð í stórskemmtilegu tóli sem nefnist Processing og gerir svona vinnslu tiltölulega einfalda. Hægt er að keyra bæði stakar myndir og vídeó út úr Processing, en til að ná fram gagnvirkni er keyrt út svokallað Java Applet. Sjálfur væri ég hrifnari af að sjá þetta sem Flash, þar sem stuðningur við það er almennari og útfærsla þess í vöfrunum á margan hátt skemmtilegri en Java (fljótara að ræsast, flöktir síður, o.fl.), en það verður ekki á allt kosið.

Allar hugmyndir, ábendingar og álit vel þegin.

Opin gögn – nýtt vefsvæði

Við erum, nokkrir félagar, að hleypa af stokkunum í dag nýju vefsvæði: opingogn.net

Það er hann Borgar sem fékk hugmyndina að þessu framtaki í vor eftir að ég flutti erindi um aðgengi að opinberum gögnum á hádegisverðarfundi sem Sjá og Marimo stóðu fyrir. Borgar setti upp vefinn og hýsir hann, en við Már höfum reynt að vera duglegir að hjálpa til.

Vefurinn er Wiki-vefur, þannig að við hvetjum sem flesta til að hjálpa til.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í tilgang vefsins hér enda á hann að útskýra sig sjálfur. Þeir sem reglulega lesa þetta blogg eru líka líklega búnir að fá nóg af boðskapnum:

Uppfært 11:41: Eyjan gerði Opnum Gögnum skil í morgunsárið.

Bankastærðfræði 101

Þann 1. apríl síðastliðinn stofnaði ég banka. Þetta er alþjóðlegt fjármálafyrirtæki og af þeim sökum var höfuðstóllinn auðvitað í erlendri mynt: 1.000 evrur í fimm brakandi 200 evra seðlum.

Sökum framtaksleysis hefur lánastarfsemin látið á sér standa og seðlarnir eru enn á náttborðinu – og nú líður að fyrsta ársfjórðungsuppgjörinu. Mér skilst að greiningardeildir bankanna bíði í ofvæni.

Ég geri auðvitað upp í krónum, enda fékk ég ekki leyfi til annars frekar en aðrar bankastofnanir – það er víst hættulegt fyrir þjóðarhaginn.

Útlitið er svona líka glæsilegt. 1.000 evrurnar sem ég keypti 1. apríl fyrir 120.340 krónur reynast nú vera 131.810 króna virði. 9,5% ávöxtun á 3 mánuðum. Það jafngildir nærri 44% ávöxtun á ársgrundvelli – og þeir segja að það sé kreppa!

Rétt áðan hringdi svo vinur minn frá Frakklandi. Hann spurði út í bankastarfsemina. Þar sem hann skilur auðvitað ekki verðmæti í íslenskum krónum umreiknaði ég hagnaðinn – 11.470 krónur – í evrur og gat stoltur sagt honum að hagnaður fjórðungsins væri 87 evrur og ef svo héldi fram sem horfði yrði ég búinn að tvöfalda höfuðstólinn á rétt um tveimur árum. Hann óskaði mér til hamingju með að vera búinn að finna mína hillu í lífinu – það væri ekki að spyrja að þessum Íslendingum þegar bankastarfsemi væri annars vegar.

Eftir að við slitum samtalinu varð mér litið á fagurlega sléttaða seðlana, sem enn eru í bréfaklemmunni sem ég fékk í Laugavegsútibúi Landsbankans. Til öryggis tók ég klemmuna af og taldi.

Hvar eru þessar 87 evrur?

hjalli.com á nýjum slóðum

Ég er horfinn í skýið.

Ég hef ákveðið að hætta að reka minn eigin vefþjón og bloggkerfi og koma þessu frekar fyrir í hýstri umsjón hjá WordPress.com. Þá þarf ég ekki lengur að sjá sjálfur um að uppfæra bloggkerfið, viðhalda spamvörnunum og tryggja að óprúttnir aðilar nýti ekki nýjustu öryggisholurnar í viðkomandi kerfum. Það er alveg 700 króna virði á ári 🙂

Í sama mund flutti ég reyndar hjalli.com póstinn yfir á Google Apps – þar get ég notað allar Google þjónusturnar, s.s. GMail, Google Calendar og Google Docs á eigin léni. Ekki slæmt.

Þetta hefur hingað til verið hýst hjá snillingunum í Basis og ég þakka þeim fyrir frábæra þjónustu. Ég verð áfram með sandkassann minn (tilraunaserverinn þar sem ég fikta með forritun eins og How far… þjónustuna) hjá þeim.

Annars er þessi færsla mest tilraunafærsla til að sjá hvort þetta er allt komið í lag. Það brotna einhverjar gamlar slóðir við yfirfærsluna, en RSS-slóðirnar eiga að vera óbreyttar. Ef þið rekist á eitthvað sem ég hef bramlað í hamaganginum þá eru ábendingar vel þegnar.

Tvær skemmtilegar tæknisögur

Ég er svo heppinn að vera þessa dagana staddur á ráðstefnu sem nefnist Web 2.0 Expo í San Francisco. Fyrsti dagurinn var í gær og margt fróðlegt sem þar kom fram. Að öðrum ólöstuðum stóð þó fyrirlestur Clay Shirky, prófessors við NYU. Shirky er einskonar upplýsingatækni-félagsfræðingur, þ.e. hann veltir mikið fyrir sér þeim breytingum sem eru að verða á samfélaginu samhliða þróun upplýsingatækninnar.

Hér eru tvær stórskemmtilegar og merkilegar sögur sem hann sagði í erindi sínu í gær – hér lauslega endursagðar af mér á íslensku:

Shirky var í viðtali við sjónvarpsfréttamann sem var að velta fyrir sér samfélagsmiðlum á borð við Wikipediu. Shirky byrjar að segja henni sögu um færsluna um Plútó og hvernig Wikipedia-samfélagið tók á því þegar Plútó var lækkaður í tign úr reikistjörnu í loftstein á óvenjulegri braut um sólina. Þetta var nokkuð stórt mál og menn tókust á um breytingarnar, en komust þó að niðurstöðu.

Viðbrögð fréttamannsins sem Shirky hafði ætlað að heilla með þessari sögu voru svona “lúser-stara”, þögn og svo “Hvernig hefur fólkið tíma í svona lagað?”.

Við þetta snappaði Shirky víst og benti henni á að engum sem ynni við sjónvarp réttlættist að spyrja svona. Og svo fór hann að reikna: Heildartíminn sem hefur farið í að byggja upp Wikipediu – allar greinar á öllum tungumálum – er núna um 100 milljón vinnustundir. Þetta er vissulega há tala – enda stórkostlegt verk í flesta staði – en ef hún er sett í samhengi við sjónvarpsáhorf verður hún að nánast engu. Um síðustu helgi eyddu Bandaríkjamenn einir 100 milljón stundum í það eitt að horfa á auglýsingar í sjónvarpinu! Á ári horfa Bandaríkjamenn á sjónvarp í 200 milljarða klukkustunda og heimurinn allur um það bil 1000 milljarða stunda. Það eru 10.000 Wikipediur – á ári!

Tíminn sem fréttakonan var að spyrja um kemur til af minnkandi sjónvarpsáhorfi og Shirky bað menn um að ímynda sér hvað við gætum átt von á að sjá ef núverandi trend um minnkandi sjónvarpsáhorf heldur áfram að gefa af sér svipaða vinnu.

Hin sagan er miklu sætari, en bendir líka á áhugaverða breytingu.

Faðir og fjögurra ára dóttir eru að horfa á Disney-teiknimynd í sjónvarpinu. Nú kemur að einhverjum kafla í myndinni þar sem dótturinni fannst heldur lítið vera að gerast. Hún stendur upp og skríður á bakvið sjónvarpið.

Pabbinn á von á einhverju skemmtilegu eins og að hún sé að athuga hvort hún geti náð teiknmyndafígúrunum sem séu þarna einhvernvegin inni í eða á bakvið imbakassann, en í staðinn fer hún að róta í snúrunum.

Pabbinn spyr hana hvað hún sé að gera.

“Leita að músinni” var auðvitað svarið sem hann fékk.

Fjögurra ára krakkar vita nefnilega að skjár sem ekki er með mús eða ekki a.m.k. hægt að eiga í gagnvirkum samskiptum við með einhverjum hætti – er bilaður skjár. Þetta er kynslóðin sem við erum að ala upp og segir sennilega mikið um það hvernig upplýsinga- og afþreyingarneysla á eftir að breytast á næstu árum.

Datt í hug að deila þessu með ykkur 🙂