íslenska

Þegar hugmynd fær fólk…

Fyrir fimm vikum síðan mætti ég á “kick-off” fund í námskeiði sem kallast Business Innovation Lab. Námskeiðið er samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík og er ætlað að koma saman viðskiptafræðinemum í HR og hönnunarnemum í hinum ýmsu greinum í LHÍ og nýta kraft og kunnáttu hvors um sig til að koma fram með heildstæðar viðskiptahugmyndir. Ástæðan fyrir því að ég var þarna er að Guðjón félagi minn hafði platað mig til að vera einhvers konar “mentor” fyrir einn af verkefnahópunum. Mitt hlutverk var s.s. að leggja grunninn að einhverri hugmynd sem þau gætu unnið með.

Ég gróf upp eina gamla hugmynd úr glósubókunum mínum og útskýrði hana fyrir hópnum í örstuttu máli: Útvarp sem hefði það eitt umfram önnur útvörp að hafa “tímastilli”. Með öðrum orðum mætti snúa tímanum til baka og hlusta þannig á útvarpsútsendinguna eins og hún var 10 mínútum fyrr, eða hlusta á morgunútvarpið svona undir hádegið, nú eða bara stöðva útvarpsfréttirnar meðan maður svarar í símann, án þess að missa af viðtalinu við Siggu frænku. Í stuttu máli “TiVo fyrir útvarp”.

Síðustu vikur hef ég svo skipst á nokkrum tölvupóstum við hópinn, bent þeim á hvar þau geti leitað upplýsinga um eitt og annað sem tengdist útfærslunni og svo framvegis – ósköp lítið í sjálfu sér. Ég hef s.s. eiginlega ekki gert neitt, nema sleppa einni lítilli, ómótaðri hugmynd út í loftið og fylgjast svo með því hvað gerist.

Það kom mér þessvegna skemmtilega á óvart þegar ég mætti á föstudaginn á uppskeruhátíð námskeiðsins að sjá að þarna var komin heildstæð viðskiptaáætlun, vörumerki, markaðsefni og meira að segja gullfalleg frumgerð af útvarpinu sjálfu – Uturn:

Uturn útvarpið

Tækið fékk reyndar m.a.s. stutta umfjöllun í Kastljósinu á föstudagskvöldið.

Þetta er það sem gerist þegar hugmyndir fá rétta fólkið til að vinna með þær og fólkið fær jákvætt og gott stuðningsumhverfi til að gera sitt besta.

Nú ætla ég ekki að fullyrða að Uturn-útvarpið verði nokkurntíman að veruleika, en á 5 vikum er búið að taka eitthvað sem ekkert var – og hefði aldrei orðið hefði það bara setið í kollinum á mér – og breyta því í sprota sem hefur fullt tækifæri til þess að verða eitthvað miklu meira!

– – –

Til hamingju HR og LHÍ með frábært námskeið og frábært framtak og sömuleiðis allir hóparnir með sín frábæru verkefni.

Af hverju nýsköpun?

Þessa dagana er mikið talað um nýsköpun og hvernig hún sé lykillinn að því að byggja hér upp fjölbreytt og kraftmikið atvinnulíf eftir hrun bankanna. Sjálfur hef ég beitt mér töluvert í þessa veru með skrifum og grasrótarvinnu (1 | 2 | 3 | 4 | 5).

En af hverju nýsköpun? Er nýsköpun ekki bara næsta bóla sem mun svo enda á að springa framan í okkur með jafn háum hvelli og síldin 68, fiskeldið á níunda áratugnum, dotcom-bólan um aldamótin eða bankabólan 2008?

Svarið við þessu er sáraeinfalt og blákalt: Nei

Ástæðan: Með öflugri nýsköpun (sjá skilgreiningu) stuðlum við að fjölbreytileika. Í stað þess að gera eitthvað eitt – eins og okkur hættir augljóslega til að gera – gerum við margt og með því að gera nógu margt og nógu ólíkt, verðum við ekki lengur háð áföllum eða hörmungum sem dynja yfir einstakar greinar. Áfram erum við jú háð hagkerfi heimsins – það fær enginn flúið – en þar stöndum við einfaldlega ótrúlega vel að vígi með gjöful fiskimið, ódýra og umhverfisvæna orkugjafa og góða grunninnviði svo sem í fjarskipta- og samgöngukerfum.

Í staðinn fyrir eina stóra bólu sem springur með hvelli þegar á hana er stungið, verður atvinnulíf sem byggir á fjölbreyttri nýsköpun meira eins og bóluplast: hver lítil bóla getur sprungið án þess að allar hinar missi loft í leiðinni.

Þetta er mikilvægt að hafa í huga bæði til skemmri tíma og lengri. Það er freistandi að leita stórra skyndilausna, en hið rétta er að leita leiða til að skapa það umhverfi sem best getur gripið bæði stór og smá tækifæri.

Fólk virðist oft gleyma að í 100 fjögurra manna fyrirtækjum eru jafn mörg störf og í einu 400 manna fyrirtæki. Munurinn er sá að 100 fjögurra manna fyrirtæki verða svo að tíu 50 manna fyrirtækjum og mögulega að einni “súperstjörnu” með mörg hundruð stafsmenn.

Í réttu umhverfi fá réttu hugmyndirnar að vaxa og dafna og verða að verða að stórum og kraftmiklum fyrirtækjum og þær sem á einhvern hátt eru ófullkomnar (9 af hverjum 10) deyja drottni sínum. Reynslan af mistökunum og þekkingin sem byggð var upp hjá þeim sem ekki “meika það” skilar sér hins vegar aftur inn í umhverfið og eykur líkurnar á því að næstu tilraunir beri árangur.

Ekkert af ofansögðu útilokar aðra kosti, s.s. orkufrekan iðnað á borð við álver – satt best að segja fellur slíkt í mörgum tilfellum undir nýsköpun að hluta eða heild. Hins vegar þarf að vega og meta hvert tækifæri á móti þremur þáttum:

  • Þeim takmörkuðu auðlindum sem fyrir hendi eru, s.s.: orku, vatni, ósnortinni náttúru, mannafla o.s.frv.
  • Verðmætunum sem fást á móti nýtingu þessarra auðlinda.
  • Fjölbreytileika í heildarsamsetningu atvinnulífsins. Þetta er punkturinn frægi með eggin og körfurnar – og við erum vonandi búin að læra af reynslunni í þeim efnum.

Það getur vel verið að orkufrekur iðnaður skori á einhverjum tíma hæst á þessu prófi. Hann gerði það nánast örugglega á sínum tíma, þegar ákvörðun var tekin um að reisa álverið í Straumsvík. En það er engan veginn augljóst núna.

Hvað þarf þá að gera?
Til að svara einmitt þessari spurningu, hefur verið opnaður vettvangurinn Nýsköpun.org.

Markmið þessa vettvangs er að stuðla að því að á Íslandi verði besta hugsanlega umhverfi til nýsköpunar. Vefurinn er ekki settur fram í nafni neinnar stofnunar eða samtaka, heldur sem opinn vettvangur sem allir sem hafa áhuga á að þetta markmið verði að veruleika geta hjálpað til við að byggja upp. Samhliða þessu hefur líka verið sett upp samnefnt tengslanet á vefnum LinkedIn. LinkedIn er líklega öflugasta viðskiptatenglanet sem völ er á – eiginlega eins konar Facebook fyrir viðskiptasambönd, til að setja það í samhengi fyrir þau ykkar sem ekki þekkja til.

Ef þið hafið áhuga á að leggja ykkar af mörkum, er fátt einfaldara.

Hagkerfi stór og smá

Í einum af uppsveitum Borgarfjarðar býr rútubílstjóri á leigulóð.

Fyrir nokkrum árum skuldaði hann landeigandanum leigu – sagan segir 50.000 krónur. Fyrir skuldinni skrifaði hann ávísun og afhenti landeigandanum. Landeigandinn taldi ólíklegt að innistæða væri fyrir ávísuninni, en lét gott heita.

Skömmu síðar var komið að því að landeigandinn stæði skil á útsvari til sveitarinnar. Sem hluta af greiðslu þess, afhenti hann oddvitanum áðurnefnda ávísun. Oddvitinn taldi ólíklegt að innistæða væri fyrir ávísuninni, en lét gott heita.

Sveitin stóð á þessum tíma ásamt fleiri sveitarfélögum að sameiginlegum skólarekstri. Oddvitinn leggur því fram fé til reksturs skólans og þar á meðal áðurnefnda ávísun. Skólastjórinn taldi ólíklegt að innistæða væri fyrir ávísuninni, en lét gott heita.

Skólinn stendur svo fyrir skólaakstri í sveitunum sem hann þjónustar. Einn af skólabílstjórunum var einmitt umræddur rútubílstjóri. Skólastjórinn gerði upp við hann skömmu síðar og notaði til þess áðurnefnda ávísun. Rútubílstjórinn sá enga sérstaka ástæðu til að innleysa ávísunina.

– – –

Aðra áhugaverða dæmisögu af litlum hagkerfum má finna í þessari frásögn um Péturs-krónuna í Arnarfirði í brjun 20. aldarinnar.

Umhverfi sprotafyrirtækja

Mér var bent á skýrslu um umhverfi sprotafyrirtækja á Íslandi, sem ég man að ég sá á sínum tíma – og minnir reyndar að ég hafi tekið þátt í að svara:

Þetta er býsna góð úttekt á þessu umhverfi og gagnlegur leiðarvísir, núna þegar virkilega þarf að huga að þessum málum og þá ekki síst þeim fyrirtækjum sem einmitt eru komin af stað. Ég leyfi mér að draga fram eina mynd úr skýrslunni sem sýnir svart á hvítu hve sorglega þessi mál hafa þróast undanfarin ár.

Stofnár sprotafyrirtækja

Greiningadeild Hjalla

Ég er alger amatör í hagfræði og fjármálum. Ég hef samt ekki enn séð neinn virkilega rýna í stöðuna sem upp er komin hér á landi og hvert stóra myndin í efnahag þjóðarinnar stefnir og ef enginn vill gera hlutina fyrir mann, þá verður maður að gera þá sjálfur.

Eftirfarandi hugleiðingar geta því ekki verið verri en hvað annað. Það getur þá a.m.k. vonandi einhver bent mér á það hvar ég fer útaf sporinu í þessum hugleiðingum.

Skuldbindingar þjóðarinnar vegna innlána bankanna

  • Við erum um það bil að taka á okkur þær skuldbindingar sem bankarnir höfðu skrifað okkur fyrir að okkur forspurðum. Þetta eru fjarri því allar skuldbindingar þeirra, “bara” þær sem evrópsk og alþjóðalög kveða á um að séu á ábyrgð heimalands bankaútibúa. Þessi tala virðist vera af stærðargráðunni 1.000 milljarðar króna með skekkjumörk upp á nokkur hundruð milljarða. Endanleg tala ræðst að miklu leiti af því hver túlkun þessarra alþjóðalaga er, enda hefur líklega aldrei fyrr reynt á þau með þessum hætti. Gengið sem miðað er við er augljóslega hin stóra breytan í þessu dæmi.
  • Á móti þessum skuldbindingum eru svo verðandi þrotabú gömlu bankanna. Eins og ég skil það eru ofangreindar skuldbindingar forgangskröfur í þau bú, vegna þess að um innistæður er að ræða. M.v. að eignir þeirra námu 14.437 milljörðum um mitt ár og að aðeins um 4.000 milljarðar af þeim voru fluttir yfir í nýju bankana, þá má vera ansi illa komið ef ekki fæst upp í skuldbindingarnar. Engu að síður þurfum við líklega að taka þessa upphæð að láni til að borga innistæðueigendunum á meðan verið er að koma nógu miklu af eignum í verð.

Nettóniðurstaða af þessu gæti þá verið sú að við þurfum að taka gríðarstórt lán til tiltölulega skamms tíma, en myndum enda á núlli þegar búið væri að selja eignir gömlu bankanna sem því nemur. Ofan á þetta verður þó hatrammur slagur við aðra kröfuhafa í þrotabú gömlu bankanna, enda eru 10.000 milljarðar ekki svo lítil tala. “Menn hafa beygt sig eftir minna” eins og sagt er.

Endurræsing krónunnar
Til að koma gjaldeyrisviðskiptum aftur í gang þarf verulega digran gjaldeyrissjóð. Villi Þorsteins skrifaði mjög áhugaverðan pistil um það hvernig þessi endurræsing er sambland af stærðfræði, sálfræði og leikjafræði. Helstu atriði eru þessi:

  • Eftir innstreymi fjármagns til landsins undanfarin ár er gríðarlega mikið af “hræddu fé” í íslenskum krónum. Þetta eru útlendingar sem eiga eignir í krónum og væru til í að skipta þeim út fyrir svo að segja hvað sem er á svo að segja hvaða gengi sem er. Þarna eru sannanlega 300 milljarðar sem eftir standa í jöklabréfum og að auki vafalaust nokkur hundruð milljarðar til viðbótar í öðrum eignum sem erfiðara er að henda reiður á.
  • Hræddir Íslendingar bæta ofan á þetta. Þeir sem eiga eignir í íslenskum krónum munu horfa til þess að skipta a.m.k. hluta sinna eigna í gjaldmiðil sem einhversstaðar annarsstaðar er tekinn trúanlegur – svona “just in case” að allt fari í enn meiri steik. Umfang hugsanlegs landflótta bætir enn á þennan þátt. Þessi staða er reyndar efni í heilan pistil útaf fyrir sig þar sem þetta er sennilega fyrsta dæmi sögunnar um 300.000 manna siðklemmu fangans (e. prisoner’s dilemma). Heildin nýtur góðs af því að allir sitji kyrrir, en þeir fyrstu sem fara hagnast á því. Tökum það seinna…

Við þessu virðast vera tvö svör:

  • Nægilega stórt gjaldeyrislán til að geta skipt öllum “hræddu krónunum” í erlenda mynt. Það undarlega í þessari stöðu er aftur kennslubókardæmi í leikjafræði: Ef lánið er nógu stórt til að flestallir treysti því að þeir geti skipt krónum í aðra mynt um alla fyrirsjáanlega framtíð, þá verður aðeins brot af því notað. Ef það er of lítið mun það hverfa eins og dögg fyrir sólu og við erum engu bættari! “Nóg” í þessu samhengi gæti aftur verið af stærðargráðunni 1.000 milljarðar. Í báðum tilfellum er ljóst að á meðan þeir hræddu losa sig, verður gengið á krónunni mjöööög lágt. Við erum ekki að tala um Evrur á 130-150 kall, heldur auðveldlega 300 krónur eða meira meðan það versta gengur yfir!
  • Samningur við Evrópusambandið og evrópska seðlabankann um einhverskonar vikmörk á gengi krónunnar, svipað og danska krónan er í núna (sjá þriðju málsgrein). Þessi samningur mun þó í ljósi aðstæðna aldrei verða gerður á neinu sem gæti talist “hagstætt” gengi, en myndi koma í veg fyrir fáránlegt yfirskot í genginu eins og í hinni leiðinni. Þetta myndi augljóslega aldrei vera annað en fyrsta skref í inngöngu í Evrópusambandið og upptöku Evru.

Hvorugt hljómar eins og góður kostur. Annað hvort sjáum við fram á óðaverðbólgu af því sem næst Zimbabveskri stærðargráðu á næstu mánuðum, eða við sitjum við uppi með að krónurnar okkar verða að Evrum á ömurlegu gengi. Aðrar leiðir er erfitt að sjá í stöðunni.

Góð ráð reynast sem sagt dýr – ef þau fást þá yfir höfuð.

“Rétt” gengi krónunnar
Með algeru hruni bankageirans er auðveldara en verið hefur í langan tíma að átta sig á því hvert “rétt” gengi krónunnar er.

Ef allt er eðlilegt og ekki er um stórkostlega fjármagnsflutninga inn og út úr kerfinu að ræða, á gengi gjaldmiðils að stefna nokkurnveginn á það að verðmæti innflutnings og útflutnings sé hið sama – að hinn svokallaði vöruskiptajöfnuður sé u.þ.b. 0.

Hátt gengi krónunnar undanfarin ár hefur stafað af miklu innstreymi fjármagns, bæði í fjárfestingum á borð við Kárahnjúka og Reyðarál og í kaupum á skuldabréfum, “jöklabréfunum” svokölluðu þar sem menn hafa sóst eftir háum vöxtum íslensku krónunnar. Fall krónunnar það sem af er árinu hefur svo stafað af fjármagnsflæði í hina áttina, þegar jöklabréfin hafa verið leyst út – bæði beint og óbeint – og með því að Íslendingar hafa sóst eftir að færa sínar eignir í erlenda gjaldmiðla.

Ef “hrædda fénu” er útrýmt með stóru gjaldeyrisláni (sjá að ofan) er kominn grundvöllur fyrir gengismyndun á grunni vöruskiptajöfnuðar. Hagkerfið verður með öðrum orðum farið að byggja á raunverulegum verðmætum, ekki spákaupmennsku. Aflaverðmæti (verð á fiski * aflamagn), orkuverð, álverð (að stórum hluta til afleitt af orkuverði) og dugnaður, færni og þekking íslensks vinnuafls verða allt í einu það sem skiptir máli.

Þar sem stórlega hefur dregið úr innflutningi (færri Range Roverar og flatskjáir) og útflutningsverðmæti hefur aldrei verið meira (hærra gengi, meiri álframleiðsla, og ál- og fiskverð í sögulegum hæðum þó hvert tveggja fari lækkandi akkúrat þessa mánuði) má gæla við að þetta raungengi íslensku krónunnar sé í kringum gengisvísitöluna 150-160.

Allir fjármagnsflutningar, svo sem er afborganir Íslands af svimandi háum lánum (=lægra gengi) eða fjárfestingar útlendinga hér á landi t.d. í stóriðju, orkufyrirtækjum eða mögulega olíuvinnsluleyfum (=hærra gengi) munu svo raska þessu jafnvægi sem fyrr. Ekki gleyma í þeirri jöfnu að “hærra gengi” er ekki það sama og “betra gengi”.

Niðurstaða greiningardeildar Hjalla
Það virðast vera “tvær mögulegar framtíðir” fyrir okkur núna – að því gefnu að báðar séu opnar. Við ráðum því því miður ekki lengur sjálf. Þessar leiðir eru:

  • Fljótandi króna og stórt erlent gjaldeyrislán, sem þýðir svakalegt tímabundið högg í formi óðaverðbólgu í nokkra mánuði. Því tímabili ætti svo að fylgja “óðaverðhjöðnun” þegar hrædda féð er farið og hefðbundin hagfræði tekur við. Verðbólgan og -hjöðnunin myndu reyndar sennilega mælast umtalsvert hærri en raunveruleg hækkun og lækkun útgjalda þar sem verðbólgumælingar taka ekki nærri strax tillit til breytinga eins og samdráttar í neyslu eða staðgöngu ódýrari vara (pylsur í stað piparsteikur, strætó í stað einkabíls eða núðlusúpa í stað fersks ítalsks ravioli).
  • Upptaka Evru við neyðarskilyrði á arfaslöku gengi m.v. það sem við höfum átt að venjast. Þetta jafngildir í raun stórfelldri niðurfærslu á eignum Íslendinga núna og um ókomna framtíð.

Grafið hér að neðan sýnir þessar tvær leiðir. Tímakvarðinn er viljandi án skala.

Sjálfum hugnast mér betur fyrri kosturinn, jafnvel þó hann líti út fyrir að vera sársaukafullur – að því gefnu að enginn bendi mér á alvarlega ágalla á ofangreindu. Náist þetta jafnvægi hlýtur samt sem áður að vera forgangsatriði að skapa þar eftir stöðugleika í gjaldeyrismálum. Sá stöðugleiki fæst ekki nema með kjölfestu í stærra myntkerfi. Það er orðið svo augljóst að það þarf ekki að ræða það frekar.

Sprotastarfsemi í stormviðri

Þrátt fyrir að bjartsýni sé nauðsynleg, má hún auðvitað ekki vera úr tengslum við raunveruleikann.

Mig langaði þess vegna til að benda á stórgott lesefni sem setur nýsköpun, frumkvöðlastarfsemi og reyndar fyrirtækjarekstur almennt í núverandi þrengingum í ágætt samhengi.

  • Annars vegar er það kynning sem bandaríski VC sjóðurinn Sequoia Capital, hélt fyrir sín fyrirtæki í síðustu viku. Þessi sjóður hefur meðal annars komið snemma inn í fyrirtæki á borð við Apple, Yahoo!, Google og Flextronics, þannig að það er full ástæða til að hlusta á þeirra ráðleggingar. Myndin sem þeir draga upp af hagkerfi heimsins er ekki glæsileg, en þeir leggja líka til punkta fyrir fyrirtækin til að vinna sig framúr því.

  • Hins vegar er það grein Pauls Graham – sprotafjárfestis og frumkvöðuls: Why to Start a Startup in a Bad Economy?, en þar fer hann í gegnum það af hverju fjárfestar og frumkvöðlar ættu (og ættu ekki) að stofna fyrirtæki núna og reyndar af hverju staða efnahagsmála er afgangsstærð í þeirri spurningu.

Sprota og -þekkingarfyrirtæki

Uppfært 29. október, 2008: Söfnun þessarra upplýsinga hefur verið flutt á vefinn Nýsköpun.org. Færslan var uppfærð m.t.t. þess.

Við erum hérna nokkur að reyna að koma saman lista yfir helstu sprota- og þekkingarfyrirtæki landsins. Þetta er gert í því skyni að geta sýnt að þetta sé raunverulega til og eitthvað sem getur vaxið upp úr rústum bankahrunsins.

Listinn er hér. Vefurinn er Wiki-svæði og hver sem er getur breytt þessum lista og bætt við hann með því einu að skrá sig.

Listinn er upphaflega byggður á upplýsingum frá Frjálsri Verslun og er hvorki tæmandi né 100% réttur, en við ætlum að laga það. Endilega skráið upplýsingar um ykkur eða fyrirtæki sem þið vitið um.

Sprota- og þekkingarfyrirtæki á Íslandi

Ástæður til bjartsýni

Óformlegum samtökum bölsýnismanna hefur ekki líkað bjartsýnin í mér síðastliðna viku (meira: 1 | 2) og skorað á mig að nefna dæmi um alla þessa jákvæðu hluti sem eru í gangi eða eru að fæðast.

Gjöriði svo vel.

Þekkingariðnaður
Undanfarin ár hefur þekkingariðnaður utan bankanna hefur verið gersveltur mannafli og sprotastarfsemi skort fjármagn. Ástæðan er tvíþætt:

  • Annars vegar hefur fjármálageirinn sogað til sín hæfasta fólkið með ómótstæðilegum kjörum í því sem virtist öruggt umhverfi. Jafnvel fólk sem vissi að því myndi ekki finnast viðfangsefnin spennandi – og vildu helst vera þarna úti að skapa eitthvað – lét til leiðast, etv. með því hugarfari að njóta þessa ástands meðan það varði, koma sér upp þekkingu og etv. smá sjóði sem seinna mætti ganga á til að eltast við það sem það raunverulega vildi gera í lífinu.
  • Hins vegar voru engir í því að fjármagna frumstig fyrirtækja. Viðkvæðið hjá flestum sjóðum strax árið 2005 var orðið “við fjárfestum ekki fyrir minna en 200 milljónir”. Þessi tala var komin upp í 500 milljónir undir það síðasta. Enginn var hins vegar í því að búa til og hjálpa fyrirtækjum á þann stall að þau væru tilbúin að taka við slíkri fjárfestingu. Ef svo hefði verið, ættum við nú kannski stærri flóru fyrirtækja til að taka við yfirflæði hæfileikafólks út á markaðinn.

Gott er til þess að vita að á þessum tíma hugsuðu þó einhverjir til þessara mála. Nýsköpunarsjóður, lífeyrissjóðir og bankarnir settu fyrr á þessu ári saman sjóðinn Frumtak, með alls 4,6 milljarða króna í stofnfé. Þetta er lang-stærsti sjóður þessarar gerðar sem settur hefur verið upp hér á landi. Þeir báru meira að segja til þess gæfu að ráða reynslumikinn rað-frumkvöðul með viðskiptaþekkingu til að leiða sjóðinn og hugmyndin að sjóðnum er á markaðsforsendum. Sjóðurinn á að ávaxta sig eins og sambærilegir sjóðir og ekki vera litaður byggða-, flokka- eða annarri pólitík, en slíkt hefur viljað brenna við í svipuðu framtaki þegar það hefur verið alfarið á höndum hins opinbera. Þessi sjóður er til, hluti af peningunum hefur þegar verið greiddur inn og stjórnarfundur sjóðsins þar sem taka á afstöðu til fyrstu fjárfestinga hans verður haldinn nú á mánudag.

Því miður hefur skapast einhver óvissa um það hvort sjóðnum sé heimilt að hefja fjárfestingar strax, vegna þess að hann á enn skuldaviðurkenningar frá “gömlu” bönkunum upp á þeirra framlög. Að láta slíkan formgalla stöðva sjóðinn í að veita góðum málum brautargengi núna þegar þörfin er mest, er þó eiginlega óhugsandi. Þetta er alfarið undir Ríkisstjórninni komið og ákvörðunin er einföld. Jafnvel þó hún sem nýr eigandi bankanna dragi þeirra framlög til baka (sem hún ætti ekki að gera) er það eina sem þarf til að koma þó afganginum af þessu fé í umferð að eyða þeirri óvissu. Erfitt er að sjá fyrir sér að einhver stjórnmálamaður láti góma sig við að hafa staðið í vegi fyrir því!

Ég þykist líka hafa fyrir því traustar heimildir að a.m.k. hluta af fyrirsjáanlegum kostnaði Ríkisins vegna uppsagnarfresta og atvinnuleysisgreiðslna verði beint í annan farveg, þ.e. í gegnum fyrirtæki sem vilja ráða þetta fólk til starfa (sjá fyrri færslu).

Þekkingarfyrirtæki sem hafa glöð viljað ráða fólk og stofna til nýrra verkefna undanfarin ár eru því núna allt í einu á 2-3 vikum komin í gerbreytta stöðu: Mikið framboð af fólki, lægri launakröfur og meira að segja fjármagn til að mæta ráðningum og leggja til nýrra verka. Þarna er sko aldeilis kraftur að losna úr læðingi.

Og hvaða fyrirtæki eru þetta svo?

Verne Holdings stendur um þessar mundir í stærstu einstöku fjárfestingu í þekkingariðnaði sem hér hefur verið gerð. Áætlanir þeirra um risa-vélabú (gagnaver) í Reykjanesbæ standa óhikaðar.

Nýju sæstrengirnir Danice og Greenland Connect gera m.a. ofangreint gagnaver mögulegt og munu ýta undir frekari fjárfestingar af þessu tagi.

CCP er í gríðarlega öflugri stöðu. Reikningar félagsins eru ekki opinberir en nærri 300.000 áskrifendur borga þeim að meðaltali á bilinu 11-15$ á mánuði. “You do the math…”

Í miðjum stórstorminum gerðist hið ótrúlega. Fyrirtækið OZ, sem margir muna eftir um aldamótin var selt til Nokia. Óþolinmótt fjármagn og aðlaðandi umhverfi nýsköpunar í Kanada gerði það reyndar að verkum að fyrirtækið var jafnað við jörðu hér heima og endurreist á rústunum þar ytra. Engu að síður eru þar nokkrir öflugir íslenskir frumkvöðlar sem nú hafa efnast vel og munu – ef ég þekki þá rétt – ekki standa aðgerðalausir.

Mörg minni fyrirtæki sem lítið hefur farið fyrir eru líka í ágætum málum og eiga mörg hver enn meiri tækifæri nú en áður. Ég nefni í engri sérstakri röð: Calidris, Dohop, ORF líftækni, Caoz, Gogogic, Marimo og áfram mætti telja. Að auki eru mörg minni fyrirtæki á fyrstu metrunum, þar á meða mitt eigið DataMarket. Ég biðst afsökunar á því að listinn er litaður af fyrirtækjum í upplýsingatækni – en þar þekki ég best til.

Vonandi standa svo stóru þekkingarfyrirtækin okkar: Marel, Össur og Actavis vel að vígi, þrátt fyrir að hafa að einhverju leiti tekið þátt í skuldsettum útrásarævintýrum síðustu missera.

Síðast en ekki síst má ekki vanmeta þann mikla fjölda hugmynda- og hæfileikafólks sem núna stendur á krossgötum og þarf að velta fyrir sér hvað það eigi að gera næst í lífinu. Út úr slikum hugrenningum koma oftast góðir hlutir, þó það kunni að vera erfitt í fyrstu. Úr þessum farvegi mun spretta fjöldinn allur af fyrirtækjum og einhver þeirra munu vaxa og dafna til að verða að stórveldum.

Listir og pólitík
Það er alþekkt að í kjölfar þrenginga og hörmunga verður mikill uppgangur í listum og menningu. Að skrifa bók eða mála á striga kostar ekki mikið og fyrir skapandi fólk sem lendir í þeirri aðstöðu að hafa mikinn tíma og etv. takmörkuð fjárráð er þetta fyrirtaks hobbí. Þannig fer etv. hópur fólks núna í listsköpun sem annars hefði aldrei látið þá hæfileika njóta sín þar sem þeir voru einfaldlega of uppteknir í vinnunni!

Þessu til staðfestingar heyrði ég í vinkonu minni í vikunni sem var í áhrifastöðu í einum bankanna. Framtíðin er enn óljós frá bankans hendi, en hún er ákveðin. Hún ætlar núna að skrifa bókina sem hún hefur svo oft reynt að byrja á í flugvélum og öðrum takmörkuðum tíma sem hún hafði aflögu. Núna verður þessi bók að veruleika. Ég bíð spenntur.

Sömuleiðis heyri ég í sífellt fleira vel gefnu hæfileikafólki sem nú vill fara að láta til sín taka í pólitík. Þetta er fólk sem áður leit á pólitík sem sandkassaleikinn sem hún hefur verið, en að fólkið sem þar væri gæti þó alla vegana ekki gert mikinn skaða. Annað hefur nú aldeilis komið á daginn (þó pólitíkusarnir eigi ekki sökina einir) og fólk sér þörfina til breytinga. Algerrar hreinsunar jafnvel.

Gömlu fyrirgreiðslu- og hagsmunapólitíkusarnir eiga ekki séns ef þetta fólk fer að láta til sín taka. Staðreyndin er sú að stór hluti a.m.k. þess hóps sem ég tilheyri, hefur aldrei átt beinan samhljóm hjá neinum af þeim flokkum sem í boði eru og þess í stað sveiflast á milli illskástu kostanna. Þetta fólk er núna tilbúið að fylkja sér á bakvið nýja valkosti og jafnvel taka þátt af krafti í pólitík sem ekki er í fjötrum sögu þeirra flokka sem fyrir eru.

Mér segir svo hugur um að pólitíkst landslag verði gerbreytt þegar við förum að sjá fram út úr mesta moldviðrinu.

– – –

Þetta er meðal þess sem gefur mér tilefni til bjartsýni.

“Þróunarlandið” Ísland

Ég hef fengið allskonar uppbyggileg viðbrögð við þessum síðustu færslum mínum (1 | 2 | 3) um uppbyggingu í þekkingariðnaðnum hér á landi. Sjá t.d. athugasemdirnar við síðustu færslu. Að öðrum ólöstuðum, bera þó af viðbrögð félaga míns – Stefáns Baxter, snillings og frumkvöðuls par excellance.

Ég fékk leyfi hjá honum til að birta þetta, enda á þetta brýnt erindi í umræðuna. Stebba hlotnast líka sá heiður að vera fyrsti – og etv. síðasti – gestabloggarinn á hjalli.com 🙂

Það er ástæðulaust að taka fram að ég get nánast tekið undir hvert orð hér:

Sterk staða og siðferðileg skylda lífeyrissjóða
Almennar skattaívilnanir ættu vissulega að hvetja til fjárfestinga í nýsköpun en ástandið gefur ekki tilefni til að halda að það það verði mikið af fyrirtækjum sem munu geta nýtt sér það alveg á næstunni. Það er hins vegar ljóst að lífeyrissjóðirnir eru enn sterkir, þrátt fyrir áföll, og að þeir eru ekki bara í aðstöðu til að koma að þessum málum heldur ber einnig rík siðferðileg skylda til þess. Það má leiða líkum að því að breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar, ef svo illa fer að ungt fólk flytjist umvörpum erlendis, myndi koma niður á þeim með nokkrum þunga.

Aðkoma lífeyrissjóða að fjárfestingarfélögum í nágrannalöndum okkar er þekkt og þar hefur verið farin sú leið, í þeim tilfellum sem ég þekki, að fjárfestingasjóðir sem eru einkareknir og skipaðir hæfu fólki fá með sér lífeyrissjóði sem bakhjarla og eftirlitsaðila frekar en að sjóðirnir sjálfir reyni að manna þetta. Það er mikilvægt að slík félög hafi á að skipa hæfu fagfólki sem nær, með gegnsæi og faglegum vinnubrögðum, að hefja sig yfir allan vafa um að þeir stjórnist af einhverju öðru en heilindum og meti verk að verðleikum.

Völd spilla. Því miður er það þannig að jafnvel vönduðustu menn venjast völdum og þegar það gerist er voðinn vís. Ég dreg það ekki í nokkurn efa að flestir þeirra sem hafa afvegaleiðst hafa í upphafi viljað vel og verið drifnir af einlægum vilja til að gera vel. Í þessu starfi, sem og annarstaðar, þarf því að huga að gegnsæi og hæfilega reglulegum mannabreytingum. Skuggi pólitískra áhrifa og vinargreiða má ekki falla á þetta starf.

Ungt fólk og nýsköpun
Án þess að aldur eigi að vera ráðandi í vali verkefna eða sérstakur áhrifavaldur þá tel ég ástæðu til að huga að þeirri einföldu staðreynd að þeir sem ekki eru bundnir átthagafjötrum munu frekar en aðrir fara af landi brott ef verulega harnar á dalnum. Íslensk ættjarðarást og samstaða mun fleyta okkur langt en við verðum að standa vörð um það unga samfélag sem við eigum hér. Aldurssamsetning þjóðarinnar [innskot HG: Sjá graf] er eitt af því allra mikilvægasta sem við eigum. Frjótt og spennandi umhverfi fyrir þá sem eru nú í þeim sporum sem við vorum í þegar Internetvæðingin hófst þarf að finna sérlega fyrir því að hér séu tækifæri til að vaxa bæði innan starfs og utan. (“Við” erum á fertugsaldrinum)

Hámarka jaðaráhrif
Ég tel nokkuð víst að þegar moldviðrinu lægir munum við sjá tæknimenntað fólk finna sér spennandi viðfangsefni, það er ekki nokkur vafi. Þá þarf að huga sérstaklega að verkefnum sem reiða sig einnig á stærri hópa, sem hugsanlega búa ekki yfir jafn mikilli sérþekkingu, því þau verkefni eru sérstaklega áhugaverð til hliðsjónar af því að hámarka jaðarverkanir. Gagnaöflun og -vinnsla eru dæmi um verkefni sem geta gert góða vöru enn betri og skapað umtalsverð störf. Eitt af því sem ég tel mig hafa lært á undanförnum árum er að gögn og viðskiptasambönd veita mun meiri samkeppnishæfni og hærri samkeppnisþröskuld en tæknilausnir geta gert einar og sér.

Virk aðkoma
Auðvitað eru til menn og konur hér sem kunna að sitja í virkri stjórn, stjórn sem aðstoðar við úrlausn verkefna og veitir þann stuðning og aðhald sem nýsköpunarfyrirtækjum er hollt að hafa, en það virðist því miður vera algengara að sjá óvirkar stjórnir eða “eftirlitshunda”. Ég tel mikilvægt að þeir aðilar sem hafa staðið sig sem best á því sviði hér verði fengnir í þetta uppbyggingarstarf og þá ekki síst til þess að fræða og þjálfa aðra í því að veita réttan stuðning og hæfilegt aðhald. Það er þarna sem reynsla þeirra sem eldri eru og brenndari nýtist sem best.

Viðskiptalíkön
Gæta þarf sérstaklega að því að tækifæri, sem kunna að vera hagkvæm við núverandi aðstæður, geti staðist breytingar þegar við færumst aftur nær fyrri stöðu og þurfa að búa yfir sveigjanleika til að bregðast við því. Það er einnig jákvætt að verkefni séu þannig að hægt sé að hluta þau niður í viðráðanlegar einingar, byrja smátt, fá tekjumyndun og halda síðan áfram til móts við stærri markmið. Ég held að það skipti máli fyrir ferlið í heild sinni og trúverðuleika þess að verkefni sem það fjárfestir í nái tiltölulega fljótt að standa undir sér, að hluta aða öllu leiti. Að minsta kosti er óæskilegt að fjárfesta í svo stórum verkefnum að árangur verður tormældur. Hlutverk þolinmóðs fjármagns er að sjálfsögðu mikilvægt en ég held þó að “Fail Fast” nálgun, sé hún ekki óbilgjörn og beinlínis óþolinmóð, sé réttari við þessar ástæður því það verður hlutverk annarra að vera langtímafjárfestar.

Höldum upp á mistökin ekki síður en árangurinn
Það er þekkt staðreynd að í svona starfi eru áræðnar hugmyndir sem virka ekki jafn mikilvægar og þær sem virka og án þess að gera því skóna að fallið sé markmiðið þá þarf að vera full meðvitund um það frá upphafi að fall er fararheill í þessu sem öðrum. Við slíkar aðstæður er því mikilvægt að halda því á lofti að verkefni sem skila ekki tilætluðum árangri séu ekki endanlegur dómur yfir einstaklingunum sem að því komu og að þeir og þekking þeirra verði virkjuð á öðrum vettvangi.

Koffice
Koffice er gömul hugmynd sem varð til á .com tímanum og snýr að nýtingu sameiginlegs svæðis til klaks. Nafnið segir eiginlega meira en allar lýsingar um hvað um er að ræða en frjótt umhverfi þar sem léttleikinn fær að ráða er eiginlega meira við hæfi núna en þegar smjör draup af hverju strái. Slík aðstaða er ekki bara frjó heldur er mikil samhjálp innbyggð í hana. Vinnu-, fundar- og samkomuaðstaða er það sem málið snýst um og ég held að þetta, ásamt hefðbundnari klak aðstöðu sé málið. Að nýta það tækjahaf sem nú stendur ónotað ætti að vera forgangsverkefni. Húsnæði og vilji er það eina sem þarf til.

Hugmyndir verða, að stóru leiti, að vera þeirra sem eiga að fórna sér fyrir þær
Að “stýrihópur” komi að hugmyndum er eitt, að forma þær og móta upp í hendurnar á öðrum er eitthað allt annað. Ég tel að hlutverk fjárfestingarsjóða, sem munu verða til við þessar aðstæður, eigi alls ekki að vera móta, hvað þá fullmóta, hugmyndir upp í hendurnar á öðrum til eftirfylgni. Áhugi og trú er drifkraftur nýsköpunar. Áhugi og trú á eigin hugmyndum er nánast undantekningalaust meiri áhugi á hugmyndum annarra. Slíkir aðilar þurfa því að einbeita sér að því að að veita aðstoð við að vinna úr þeim, brjóta þær upp í skynsamlegar einingar, skerpa sýn á hvernig hægt sé að vinna úr þeim og ná að slípa þær til frekar til en að móta þær frá grunni. Aðeins með því að virkja grasrótina að fullu er hægt að ná tilætluðum árangri og aðeins með því að nýta reynslu þeirra sem brenndastir eru styttum við okkur leið að þeim markmiðum.

Leitin að samlegðinni – komið í veg fyrir endurtekningar
Þó að miðstýring sé slæmt orð getur hún þjónað ákveðnum tilgangi hér, þeim að koma í veg fyrir endurtekningar/tvíverknað og ekki síður að til hámarka samlegðaráhrif. Of lítið hefur verið gert að því í íslenskri upplýsingatækni að fyrirtæki leiti leiða til að samnýta íslenskar lausnir erlendis. Síendurtekin gerð hjóla virðist oft hafa verið okkar sérsvið og samkeppni á heimamarkaði um íslenskar lausnir í bókhaldi, vefumsýslu, bíla- og fasteignasölukerfum, sem dæmi, hefur ætlað allt um koll að keyra. Nú þegar endurskipulagning stendur fyrir dyrum held ég að rétt sé að laga líka til í þessum málum og sjá til þess að jafnvel aðilar í samkeppni á heimamarkaði taki á sig rögg og samræmi aðgerðir erlendis. Þetta sama á við um þau nýju verkefni sem nú munu verða til. Tryggja þarf að þau séu ekki of samleit og leita þarf allra leið til að hámarka samlegðaráhrif þeirra.

Styðsta leiðin að markinu – Að byggja undir og í kring um fyrirtæki sem eru þegar til
Ég er viss um að allir þeir sem nú stjórna fyrirtækjum sem vinna að verkefnum sem þegar eru farin að afla tekna, sérstaklega erlendis, þyki ekki slæmt til þess að hugsa að nú losni hæfileikaríkt fólk úr álögum fjármálafyrirtæka landsins og að auðveldara verði að fá hæft starfsfólk á viðráðanlegum launum. Að sjálfsögðu mun hluti þess fólks sem nú “losnar” fara beint í að mæta sárri þörf þeirra og á þeim vettvangi mun það vinna að uppbyggingunni “innanfrá”. Þó eru alltaf einhverjir sem viljast gerast sinnar gæfu smiðir og ef þeir trúa á speki Andy Grove hjá Intel, um að best sé að stofna fyrirtæki í dalnum þar sem hann er dýpstur – þá sé öll uppsveiflan eftir, þá munu þeir ekki láta núverandi aðstæður aftra sér, þvert á móti.

Til að byggja brú á milli þess nýja og þess sem fyrir er vellti ég fyrir mér hvort ekki megi nýta hluta þessara nýju verkefna í beinum tengslum við þau gömlu. Nýjar lausnir sem gera núverandi lausnir betri eða stækka markhóp þeirra eru verkefni sem líklega þurfa stystan tíma til að ná árangri og í þeim eru samlegðaráhrifin mest. Ég geri mér reyndar ekki fyllilega grein fyrir því hversu raunhæft það er að skipuleggja hluta þeirrar vinnu sem nú fer í gang með þessum hætti en hugmyndin er með öðrum orðum sú að “nýjir” aðilar sem vilja starfa við sitt eigið geti gert það í fullri samvinnu við þá sem fyrir eru. Viðbótarvirkni og útvíkkun núverandi lausna gæti þannig verið sproti að einhverju nýju en á sama tíma notað viðskiptavild og viðskiptasambönd þeirra sem fyrir eru. Mjög einfalt dæmi um þetta gæti verið nýtt fyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun (concept, útlits etc.) og smíði þrívíddarmódela fyrir leikjaiðnaðinn en myndi byrja á því að smíða fyrir EVE (CCP).

Skjölun, prófanir og notendaþjónusta
Fyrirtæki sem myndi sérhæfa sig í tæknilegri skjölun, prófunum og þjónustu við tæknilausnir gæti eflaust nýtt starfskrafta breiðs hóps og mætt þörf sem íslensk hugbúnaðarfyrirtæki hafa mörg hver, svo ég kveði ekki of sterkt að orði, hundsað til margra ára. Því hefur verið haldið fram á gárungum að Íslendingar séu sérfræðingar í að búa til “Alpha” hugbúnað en að reynsla okkar af því að búa til fullbúnar hilluvörur sé afskaplega takmörkuð. Sameiginleg þjónusta á þessu svið er eitthvað sem mætti skoða en ég geri mér grein fyrir að umræðuefnið þykir afskaplega óspennandi og and-kúl.

Viðskiptasambönd
Það er erfitt að treysta öðrum fyrir viðskiptasamböndum sínum og erfiðast ef maður treystir því ekki að vel verði með þau farið. Fátt er verra, í því samehngi, en að nýta viðskiptasambönd sín til að koma á misheppnaðum verkefnum eða öðru sem kann að skaða sambandið til lengri eða skemmri tíma. Við núverandi aðstæður eru góð viðskiptasambönd sérstaklega mikils virði og viðskiptatækifæri sem eitt fyrirtæki getur ekki nýtt sér gæti verið sprotinn að stofnun annars á sama hátt og ónýttar markaðsleiðir eins gætu verið lífæð annarra. Það hefur að einhverju leiti verið Útflutningsráðs að huga að slíku en ég er viss um að með bættu samráði væri að hægt að nýta núverandi sambönd og söluleiðir mun betur en gert er. Þetta krefst þess þó vitanlega að allir komi fram við þessi sambönd af virðingu og skilning á því hvaða ábyrgð fylgir því að nýta viðskiptasambönd annarra.

Öflun gjaldeyristekna – Hugbúnaður sem útflutningsafurð – Ísland sem “þróunarland”
Ég gef mér í öllu þessu að við séum að beina athygli okkar að verkefnum sem eru ætluð til útflutning í einu eða öðru formi. Hugbúnaðargerð fyrir heimamarkað er blindhæð þó svo að sama hugbúnaðargerð, ætluðum til útflutnings, sem nýtir heimamarkað fyrir kjölfestu, rannsóknir og þróun sé hins vegar breiðstræti. Þarna er ábyrgð stjórnvalda og þeirra sem sjá um upplýsingatæknilega-innviði mikil. Við eigum að sjá til þess að hér sé til staðar allur sá infrastructure sem nausynlegur er til að gera Ísland að þróunarparadís í upplýsingatækni og ég er þess full viss að fullur vilji er meðal aðila tengdum þessu máli að gera Ísland að afbragðs “þróunarlandi”. Þetta mál hefur oft verið rætt og ég minnist sérstaklega umræðu um þetta 1998/1999 en nú er lag.

Nýja Ísland: Nokkur forgangsmál

Meira um kraftinn sem er að losna úr læðingi og hverng hægt er að virkja hann.

Meðan útbrunnu pólitíkusarnir, reiðu álitsgjafarnir og fátæku auðmennirnir eru að taka til eftir partíið og rífast um það hvort bankakerfið stækkaði of mikið fyrir baklandið eða baklandið fylgdi ekki nógu vel eftir bankakerfinu (hvort kom á undan eggið eða hænan?) er nauðsynlegt að ganga hratt og örugglega til verka í uppbyggingarstarfi. Stór hluti þeirra sem eru núna að missa vinnuna eru vel menntað og hæfileikaríkt fólk í þekkingarstörfum. Það þarf að skapa ný störf við þeirra hæfi til að nýta þessa þekkingu og koma í veg fyrir alvarlegan landflótta þessa fólks og annarra sem eiga að bera þjóðfélagið á komandi árum.

Hér eru nokkur sundurlaus atriði sem hægt er að framkvæma:

  • Ígildi atvinnuleysisbóta til að skapa ný störf: Í stað þess að borga starfsmönnum bankanna (og öðrum sem munu missa vinnuna á næstu vikum) uppsagnarfrest og svo taki Ríkið við og borgi atvinnuleysisbætur, á að bjóða fyrirtækjum sem vilja ráða þetta fólk sömu upphæð yfir 6-12 mánaða tímabil gegnt því að þau leggi fram annað eins á móti. Við þetta eru engar nýjar skuldbindingar af hálfu ríkisins, fyrirtækin fá nýtt starfsfólk og fólkið fær vinnu strax og hærri tekjur en ella. Borðleggjandi.
  • Fjárfestingarsjóðir í nýsköpun: Það þarf að setja upp og/eða efla fjárfestingasjóði (ekki styrkjasjóði) til nýsköpunar. Þessir sjóðir þurfa að vera skipaðir hæfileikaríku starfsfólki með þekkingu á fjármálum, fyrirtækjarekstri og vöruþróun (ekki pólitískt völdum embættismönnum) sem geta bæði valið úr lífvænlegustu hugmyndunum á markaðsforsendum og leiðbeint og stutt fyrirtækin í gegnum uppbygginguna. Sjóðirnir þurfa að hafa nægt fjármagn – og hugmyndunum að vera stillt upp þannig – að sjóðurinn geti tekið þátt í blábyrjun verkefna fyrir lítið fé, en fylgt þeim svo eftir (helst í samvinnu við aðra fjárfesta) ef áætlanir ganga í samræmi við það sem lagt er upp með. Leggja þarf áherslu á alþjóðlegar hugmyndir sem skapa munu gjaldeyristekjur og sjóðirnir eiga að vera reknir algerlega á markaðsforsendum. Markmiðið er að þeir ávaxti sig eins og aðrir sambærilegir sjóðir en séu ekki notaðir til að veita pólitíska fyrirgreiðslu. Þetta setur miklar kröfur á gagnsæi og ætti að vera opið okkur – skattgreiðendunum sem fjárfestum í þessu – eins mikið og unnt er.
  • Skattaívilnanir til nýsköpunar: Almennt er ég á móti því að flækja skattkerfið frekar en orðið er. Í ljósi mjög sérstakra aðstæðna mætti þó setja núna upp plan – sem renni sitt skeið t.d. á 5 árum – sem veiti nýsköpunarfyrirtækjum sérstaka fyrirgreiðslu t.d. í formi niðurfellingu eða afsláttar af tekjuskatti á starfmenn þeirra. Þetta hefur gefist vel t.d. í Kanada og Ísrael til að koma af stað öflugum þekkingariðnaði.
  • Aðstaða og stoðþjónusta fyrir þá sem vilja: Ríkið á núna ósköpin öll af tölvubúnaði, skrifstofuaðstöðu og öðru sem fer fyrir lítið nema því sé komið í notkun sem fyrst. Nú er tilvalið að koma upp klakstöðvum og bjóða nýjum fyrirtækjum upp á framúrskarandi aðstöðu fyrir lítið fé. Á svona stað(i) ætti líka að bjóða fyrirtækjum með stoðdeildaþjónustu, s.s. bókhald, skrifstofuvörur, tölvuþjónustu og kaffihúsarekstur 🙂 aðstöðu, enda samnýtist slík þjónusta mjög vel, sérstaklega þegar nálægðin er mikil.