íslenska

Framtíð tölvutækninnar

IMG_2791 copyÞegar framtíð tölvutækninnar er rædd er vinsælt að mála dökkum litum. Segja að tölvurnar muni taka völdin, að tölvurnar muni taka störfin, að samskipti í gegnum tölvu muni útrýma mannlegum samskiptum og að þeir sem ráði yfir gögnum um okkur muni geta stjórnað skoðunum okkar, orðum og gjörðum.

Ég tek ekki undir neitt af þessu. Með því er ég ekki að stimpla mig inn sem bjartsýnismann, ég er – eins og ein mín stærsta fyrirmynd: læknirinn, samfélagsrýnirinn og gagnagoðið Hans Rosling sagði – gallharður möguleikamaður.

Möguleikarnir eru nefnilega óþrjótandi. Í gegnum tíðina hefur hver einasta tæknibylting verið útmáluð sem endilok heimsins eins og við þekkjum hann. Og þegar mönnum hefur verið bent á það, hafa þeir í hvert einasta skipti sagt: “Já, en núna er þetta öðruvísi”. Fjórða iðnbyltingin er ekkert öðruvísi. Hún er enn eitt skrefið sem mun færa okkur betri heim, betri lífsskilyrði og meira frelsi til að sinna nýjum og merkilegari verkefnum. Gervigreind mun gerbylta krabbameinsgreiningu og seinna krabbameinsrannsóknum, þannig að við munum þurfa að finna eitthvað nýtt til að deyja úr. Gervigreind mun vissulega “taka af okkur” mikið af störfum hversdagsins, en á móti skapa tíma til að sinna bóklestri, listsköpun og frjálsri hugsun. Með henni verða líka til ný störf sem líklega munu að miklu leyti snúast um umönnun og mannleg samskipti af ýmsum toga og virðing slíkra starfa vaxa. Því ber að fagna.

Tæknin mun líka halda áfram að skapa tíma til að slæpast. En við höfum gott af því að slæpast. Okkur langar innst inni til að slæpast og oft gerast góðir hlutir einmitt þegar við leyfum okkur það. Í gegnum tíðina hafa margir þeirra sem hafa haft hvað mest fram að færa til framfara í tækni, vísindum og listum einmitt verið þeir sem fengu tækifæri til að slæpast. Leonardo da Vinci, Isaac Newton og Ada Lovelace voru öll fólk sem nutu þess að fá að slæpast. Og við njótum ávaxtanna.

Þetta þýðir auðvitað ekki að allt sé fullkomið, eða að frábær framtíð sé sjálfsögð og sjálfgefin. Því fer fjarri. Þetta þýðir ekki heldur að við eigum að horfa framhjá vandamálum sem þarfnast úrlausnar, stórum sem smáum. En án trúar á því að þau verði leyst og að framtíðin geti orðið betri verður hún það aldrei.

Við þurfum að ræða siðferðilegar spurningar varðandi gervigreind. Við þurfum að ræða hvað vernd persónuupplýsinga þýðir á tímum samfélagsmiðla og umfangsmikillar miðlægrar gagnasöfnunar. Við þurfum að ræða valdið sem tæknirisar samtímans hafa með aðgangi sínum að slíkum upplýsingum og valdið sem þeir hafa til að stjórna því hvaða upplýsingar við sjáum og lesum.

Allt þetta eru áskoranir sem við þurfum að takast á við, en þetta eru ekki í eðli sínu byltingar ólíkar þeim sem urðu þegar prenttæknin var fundin upp, þegar gufuaflið ruddi sér til rúms eða þegar verksmiðjuvædd fjöldaframleiðsla tók yfir sífellt meira af viðfangsefnum verkamanna. Allt voru þetta tæknibreytingar sem höfðu í för með sér miklar samfélagslegar breytingar, en allar leiddu þær til lengri tíma til betri heims og betra lífs fyrir þorra mannkyns. Það gerðist ekki að umsvifalaust, né af sjálfu sér, heldur yfir allnokkurn tíma fyrir tilstuðlan öflugrar gagnrýni, nýrra laga og reglugerða og nýrrar hugsunar með breyttri tækni og samfélagsgerð.

Tæknin er ekki áhyggjuefni og framþróun hennar verður ekki stöðvuð. Í tækninni felast stórkostleg tækifæri en jafnframt krefjandi úrlausnarefni. Stærsta úrlausnarefnið er samt sem áður ekki tæknilegt. Það er að svara því hvaða samfélagsgerð tryggir að allir njóti þeirra ávaxta sem tækniframfarirnar hafa í för með sér og að tryggja að sú samfélagsgerð verði ofan á. Hingað til hefur mannkyninu borið gæfa til að gera það við hvert byltingarkennda framfarastigið á fætur öðru og ég hef óbilandi trú á að við gerum það áfram.


Þessi pistill var skrifaður sem hugvekja og lokaorð í bókinni “Tölvuvæðing í hálfa öld – Upplýsingatækni á Íslandi 1964-2014” sem Skýrslutæknifélag Íslands gaf út 2018.

Hann

HANN er sko engin kelling.

HANN man gömlu góðu dagana.

HANN ver skoðanir sínar af hörku.

HANN efast um sérfræðinga.

HANN trúir ekki á loftslagsbreytingar af mannavöldum.

HANN veit að nauðgun er oft bara stelpa með móral.

HANN vill harða löggæslu.

HANN er sjálfstæður maður í sjálfstæðu landi.

HANN vill að þetta fólk leysi sín vandamál heima hjá sér.

HANN trúir á Guð.

HANN vill fleiri akreinar.

HANN tekur upp hanskann fyrir Ísrael.

HANN veit að konur nota stundum fóstureyðingar sem getnaðarvörn.

HANN sér í gegnum opinberar skýringar á því sem gerðist 11. september.

HANN er stoltur af uppruna sínum.

HANN óttast um unga fólkið okkar sem ekkert getur og ekkert kann.

Þekkir þú HANN?

Factfulness eftir Hans Rosling: Leiðarvísir að rökréttri hugsun um heiminn

Í flestri umræðu heyrast hæst þær raddir sem eru á sitthvorum öfgunum. Þar liggja oft ríkustu hagsmunirnir, heitasta sannfæringin og sterkustu tilfinningarnar. Þegar svo er gefst lítið rými fyrir yfirvegaða umræðu þar sem dregin eru fram þau gögn sem máli skipta, ólík sjónarhorn vegin og metin og niðurstaða eða málamiðlun byggð á bestu fyrirliggjandi þekkingu, vísindalegri nálgun og vandaðri rökleiðslu.

Þess vegna er bók læknisins og gagnatöframannsins heitins Hans Rosling – Factfulness – svo kærkomin. Með snörpum og skemmtilegum skrifum sýnir hann okkur lesendum annars vegar fram á það hversu skökk og úrelt heimsmynd okkar er að mörgu leyti og gefur hins vegar ráð um það hvernig best sé að nálgast flókin úrlausnarefni, hvernig hægt er að vara sig á rangfærslum og forðast rangar ályktanir þegar tilfinningarnar, áróðurinn eða vanþekkingin verða rökunum yfirsterkari.

Sérsvið Roslings var lýðheilsa og dæmin í bókinni eru flest á sviði heilbrigðis og lýðfræði, en hann kemur víða við: náttúruvernd, stjórnsýsla, stjórnkerfi, fjölmiðlun, fyrirtækjarekstur, fjármálakerfið og fleira. Umfram allt á aðferðafræðin sem Rosling kennir með þessum dæmum í bókinni við á nánast öllum sviðum.

Inn í þetta blandast svo sögur frá ævintýralegum starfsferli Roslings, fyrst sem ungur læknir á vettvangi í mörgum fátækari ríkjum heims, síðar sem kennari í Svíþjóð og loks sem hálfgerð “gagnastjarna” sem ferðaðist um heiminn, flutti erindi og umgekkst margt af áhrifamesta fólkinu í heiminum. Frásagnirnar eru auðmjúkar og afhjúpandi. Margar hverjar stórskemmtilegar, en aðrar grafalvarlegar. Ég viðurkenni að mér vöknaði um augun að minnsta kosti í tvígang við lestur bókarinnar – annars vegar af mjög sorglegum afleiðingum af ákvarðanatöku sem Rosling átti þátt í og í hitt skiptið af hetjulegri framgöngu í hættulegum kringumstæðum í smáþorpi í Lýðveldinu Kongó (þá Zaire). Vísbending: Hetjan þar var ekki okkar maður Hans.

Rosling verður seint kenndur við ákveðna pólitíska hugmyndafræði. Raunar eru ein sterkustu skilaboð bókarinnar þau að heimurinn er svo margslunginn að svarið felst aldrei í einni stefnu sem leysi allt: Hann dásamar frjálsan markað, en bendir á að hann þýði ekki að það þurfi ekki reglur og sterk stjórnvöld. Hann talar fyrir jöfnuði og jafnrétti á mörgum sviðum, en bendir líka á að það þýði ekki að lausnin sé að stjórnvöld taki og dreifi gæðunum jafnt á alla.

Ég held að enginn lesandi leggi þessa bók frá sér án þess að hugmyndum hans eða hennar um heiminn hafi verið storkað, jafnvel á svolítið óþægilegan hátt – og í því felst styrkur bókarinnar. Með manngæsku, raunsæi og rökhyggju í fyrirrúmi gefur Rosling lesendum ástæðu til að anda aðeins léttar yfir fréttum símiðlanna en brýnir þá á sama tíma til að hjálpa til við að takast á við þau vandamál sem raunverulega þarfnast lausnar til að framtíðin haldi áfram á þeirri braut sem síðastliðnar aldir hafa verið: Framfarir sem hafa heilt yfir bætt lífsgæði manna alls staðar í heiminum stórkostlega. Og hann gefur okkur fulla ástæðu til að trúa því að svo geti orðið, ef við höldum ekki af braut vísinda, raka og yfirvegunar.

– – –

Hans Rosling lést úr krabbameini snemma árs 2017. Hann hafði þá tileinkað síðasta ár ævi sinnar því að rita þessa bók. Sonur hans Ola og tengdadóttir Anna sem höfðu unnið með honum lengi undir hatti Gapminder samtakanna sem Rosling stofnaði luku við verkið og halda vinnu Rosling áfram. Það er mikill missir af Rosling: Vísindi, ákvarðanataka byggð á þekkingu og gögnum og rökhyggja þurfa að eiga sinn “Attenborough” og Rosling er sennilega sá sem hefur komist næst því.

Horft niður um glerþakið

Ég hætti nýverið í vinnunni. Við taka nokkrir mánuðir af umhugsun, hvíld og ferðalögum sem er alveg tímabært eftir 10 ára hlaup með DataMarket og svo Qlik eftir að fyrirtækin runnu saman. Í haust fer ég svo örugglega aftur að gera það sem ég kann best: Að setja af stað eitthvað nýtt.

Hvað það nákvæmlega verður er enn í mótun, en ég er eiginlega búinn að hugsa meira um það hvernig ég vil gera það, en nákvæmlega hvað ég vil gera.

Eitt af því sem mér finnst mikilvægt er að tryggja að hópurinn sem að málum standi sé fjölbreyttur. Þar spila kynjahlutföllin stóra rullu. Ég hef áður skrifað um það hversu erfiðlega gekk að fá konur til starfa hjá DataMarket þrátt fyrir nokkuð ítarlegar tilraunir, m.a. í lykilstöður.

En nú er blaðið er autt og dauðafæri að byggja upp blandaðan hóp frá upphafi. Ég veit líka að ef ég gæti ekki að verður þetta umsvifalaust hópur sem samanstendur bara af fertugum körlum eins og mér.

Eitt af því sem ég hef velt talsvert fyrir mér í þessari dínamík eru samskipti fólks af sitthvoru kyninu og hvernig óttinn um að eitthvað annað búi að baki getur litað þau. Eða jafnvel óttinn við þann ótta.

Ég hef mjög gaman af að fylgjast með því sem skapandi fólk á Íslandi er að gera. Einu sinni til tvisvar í viku heyri ég í fólki sem ég þekki lítið eða ekkert, en er að setja af stað fyrirtæki, velta fyrir sér möguleikum eða leita ráða varðandi nýsköpun, fjármögnun, markaðssókn erlendis eða annað þar sem ég hef ef til vill eitthvað fram að færa.

Langoftast er þetta fólk sem ég er kynntur fyrir, eða hefur samband við mig að fyrra bragði, en það kemur líka fyrir að ég rekst á fólk sem mér finnst vera að gera áhugaverða hluti og hef samband við það að fyrra bragði.

Hins vegar er yfirgnæfandi meirihluti þessarra samskipta við karla. Og því meira sem ég hugsa um það, þeim mun meira held ég að það sé ekki í hlutfalli við karla umfram konur sem eru að gera Góða Hluti(TM) á þessum sviðum.

Ég viðurkenni til dæmis fúslega að ég er feimnari við að hafa af fyrra bragði samband við ungar konur sem ég þekki ekki, en eru að gera áhugaverða hluti, sennilega af lítt meðvituðum (fyrr en nú) ótta um að það verði á einhvern hátt misskilið: “Hey, ég hef verið að fylgjast á netinu með því sem þú ert að gera, og mér finnst það töff! Ertu til í spjall við tækifæri?” (ég get alveg verið ótvíræðari, en þið skiljið hvað ég meina)

Og kannski er þetta svona í hina áttina líka: Kannski eru kvenkyns frumkvöðlar ragari við að setja sig í samband við karlkyns mentora/fjárfesta vegna þess að alltof margir okkar hafa hagað sér eins og fífl í gegnum tíðina.

Hver sem ástæðan er, þá er þetta samskiptahindrun sem þarf að ryðja úr vegi til að jafna kynjahlutföllin í geiranum. Þannig að: Konur, ekki hika við að setja ykkur í samband ef þið eruð í sprotahugleiðingum. Og sömuleiðis skal ég reyna að láta ekki “óttann við óttann” hafa áhrif á mín samskipti og sækjast eftir samskiptum við frumkvöðla og efnilegt sprotafólk af báðum kynjum á sama hátt og auðvitað á nákvæmlega sömu forsendum.

Tæknispá ársins 2018

Það eru núna 12 ár síðan ég gerði það fyrst að gamni mínu að setja í upp­hafi árs fram spá yfir hluti sem ættu eftir að verða ofar­lega á baugi á kom­andi ári. Þó þetta sé sam­kvæm­is­leikur öðru frem­ur, er engu að síður áhuga­vert að skoða eldri spár (20062008200920102014201520162017) og sjá hvað hefur gengið eftir – og ekki síður hvað ekki!

Í fyrra voru það sjálf­keyr­andi bílar, fals­frétt­ir, samdauna tæknirisar, sýnd­ar­veru­leiki og fjár­mögn­un­ar- og þekk­ing­ar­um­hverfi íslenskra sprota­fyr­ir­tækja sem fengu sess í spánni. Hér á eftir fer það sem ég tel að verði ofar­lega á baugi á árinu sem nú er að hefj­ast.

Gervi­greind

Gervi­greind hefur verið mikið í frétt­unum und­an­farið ár, og ekki að ástæðu­lausu. Á þessu sviði hafa orðið stór­kost­legar fram­farir á und­an­förnum 2-3 árum og kemur þar einkum þrennt til: Síaukin og ódýr­ari vinnslu­geta, ný aðferða­fræði við útfærslu tauga­neta (svokölluð „deep learn­ing”) og síð­ast en ekki síst óvenju­lega almennur aðgangur að bestu tólum á þessu sviði þar sem leið­andi hug­bún­aður hefur verið gerður aðgengi­legur undir opnum leyfum og jafn­framt upp­settur og til­bú­inn til notk­unar fyrir hvern sem er gegnt vægu (eða jafn­vel engu) gjaldi hjá aðilum eins og Google, Amazon og Microsoft.

Frétt­irnar fara alltaf hæst þegar gervi­greindin lætur til sín taka á sviðum sem okkur þykja „mann­leg”, svo sem því að lesa í röntgen­mynd­ir, keyra bíla eða þýða tungu­mál. Jafn­vel enn meiri athygli fær svo fram­ganga þeirra í borð­spilum á borð við skák og Go, en þau tíð­indi urðu í báðum þessum leikjum á árinu að for­rit sem ekki fékk neina for­skrift aðra en regl­urnar gat „æft sig sjálft” þangað til það varð betra en bestu mennsku leik­menn heims!

Það sem færri átta sig á er að tækni á borð við þessa er að baki allskyns hlutum sem fólk er beint og óbeint farið að nota dags dag­lega allt frá Snapchat-filt­erum til raun­tíma­eft­ir­lits með kredit­korta­færsl­um. Með öðrum orðum í hlutum sem eru fjarri því að vera „mennskir” eða yfir­höfuð innan mann­legrar getu.

Hins vegar eru þetta allt ansi sér­hæfð verk og gervi­greind­ar­for­rit eiga það sam­eig­in­legt að vera ekki sér­lega skap­andi. Okkur hættir til að ofmeta hversu nærri mann­legri greind og hugsun þessi tækni sé og sjá í því annað hvort meiri ógn eða tæki­færi en raun­veru­lega eru til staðar – að minnsta kosti til skamms tíma. Hins vegar er umræðan um það hvort setja skuli reglu­verk og þá hvernig um notkun slíkrar tækni tíma­bær og ég spái því að hún verði áber­andi á árinu. Ég segi samt eins og einn vinur minn og fyrrum sam­starfs­fé­lagi: „Ég hef engar áhyggjur af gervi­greind fyrr en hún finnur hjá sér löngun til að gera eitt­hvað merki­legra en að keyra bíl eða tefla skák.”

Þangað til eru mörg ár. Raunar er það svo að fremstu vís­inda­menn á þessu sviði telja sig flestir enn langt frá því að skilja hvers konar stökk þyrfti til að það gæti ger­st, eða hvort tæknin og aðferða­fræðin sem nú er notuð sé yfir­höfuð á þeirri leið.

Raf­myntir

Bitcoin komst heldur betur í frétt­irnar á liðnu ári, og verður enn um sinn ekki síst vegna ótrú­legra verð­hækk­ana og -sveiflna. Enda voru frétt­irnar í lok árs margar á þann veg að hér hlyti að vera um bólu að ræða. Sagan segir að Jos­eph Kenn­edy hafi ákveðið að selja öll hluta­bréfin sín rétt fyrir krepp­una miklu þegar lyftu­vörður gaf honum ráð­legg­ingar um fjár­fest­ingar í hluta­bréf­um. Á Íslandi heyrði ég nýlega sögu af pípara sem var að velta fyrir sér spá­kaup­mennsku með Bitcoin. Kannski er það okkar merki?

Ég ætla raunar að ganga lengra hér en flestir og spá miklu verð­falli Bitcoin á árinu 2018. Þar koma nokkrir hlutir til aðrir en bólu­merk­in, meðal ann­ars þau að með auk­inni athygli og veltu aukast lík­urnar á því að ein­hvers konar reglu­verki verði komið á þessi við­skipti, enda er einn af eft­ir­sóttum eig­in­leikum raf­mynta á borð við Bitcoin að við­skiptin eru nafn­laus, erfitt að rekja þau og ágóði af hvers kyns við­skiptum með þær ósýni­legur skatt­yf­ir­völd­um. Hin meg­in­á­stæðan fyrir spá minni er að orku­notkun í Bitcoin heim­inum er komin langt út fyrir skyn­sem­is­mörk (hvar sem þau svo sem voru) og undir lok árs bár­ust fréttir af því a meiri raf­orka færi í Bitcoin en sem svar­aði allri raf­orku­notkun Dan­merk­ur. Þetta sýnir ekki bara að það stytt­ist í ein­hvers­konar þol­mörk, heldur er þetta líka lík­legt til að kalla á bakslag meðal nör­da­sam­fé­lags­ins sem hefur drifið vöxt­inn að miklu leyti hingað til og lík­legt að leiði af sér aðr­ar, skyldar en skyn­sam­legri lausnir hvað þetta varð­ar. Hin und­ir­liggj­andi og stór­merki­lega „blockchain” tækni er nefni­lega komin til að vera – og ekki bara sem hryggjar­stykkið í raf­mynt­um, heldur alls kyns færslum öðrum, frá lista­verka­við­skiptum til gagna­miðl­un­ar.

Rétt að taka fram að þrátt fyrir spá mína um yfir­vof­andi hrun á verði Bitcoin á árinu, þá tel ég samt tals­verðar líkur á að myntin muni sanna sig til langs tíma sem nokk­urs­konar raf­gull. Það er, sem verð­mæti (ekki hlæja, málm­gull er einskis virði heldur í sjálfu sér) sem sjaldan skipta um hendur og litið verður á sem lang­tíma­fjár­fest­ingu.

(Gert grein fyrir hags­mun­um: Höf­undur er eig­andi fáeinna Bitcoin-a og tekur ekki að sér fjár­fest­inga­ráð­gjöf)

Per­sónu­vernd, eign­ar­hald á gögnum og fall­valtir bankar

Umræðan um per­sónu­vernd og notk­un, eign­ar­hald og miðlun á per­sónu­upp­lýs­ingum á eftir að verða mjög hávær á árinu. Margir hafa orðið til að benda á vanda­málin sem fylgja því að tækni­fyr­ir­tæki á borð við Google, Apple, Microsoft og þó sér­stak­lega Face­book hafi yfir að ráða jafn miklum upp­lýs­ingum og raun ber vitni um ekki bara staf­rænar athafnir okk­ar, heldur per­sónu­leika, drauma, þrár, kosti og lesti. Ekki bara það, heldur er afar fátt sem tak­markar það hvernig þessi fyr­ir­tæki – og önnur – mega nota þessar upp­lýs­ing­ar.

Nýjar reglur Evr­ópu­sam­bands­ins sem taka munu gildi á árinu – GDPR (General Data Prot­ect­ion Reg­ul­ation) – er fyrsta umtals­verða til­raun yfir­valda til að koma böndum á þessa gagna­söfn­un, og þá auð­vitað ekki bara þess­ara fyr­ir­tækja, heldur allra sem safna og vinna með per­sónu­grein­an­leg gögn. Þó að þessar reglur gildi „að­eins” um gögn um Evr­ópu­búa, þá er það óháð heim­il­is­festi þjón­ustu­veit­and­ans og ljóst að öllum alþjóða­fyr­ir­tækjum verður mikið í mun að mæta þessum kröf­um, enda geta við­ur­lögin numið allt að fjögur pró­sent af heild­ar­veltu fyr­ir­tækja sem reyn­ast brot­leg. Þessar reglur kveða svo ekki aðeins á um hvað gera má við gögn­in, heldur taka þau líka af öll tví­mæli um það að ein­stak­lingar hafa rétt á aðgengi að öllum gögnum sem þjón­ustu­veit­andi hefur um þá, rétt til að fá afrit af þeim – og rétt til að láta eyða þeim.

Margir hafa orðið til að benda á vandamálin sem fylgja því að tæknifyrirtæki á borð við Google, Apple, Microsoft og þó sérstaklega Facebook hafi yfir að ráða jafn miklum upplýsingum og raun ber vitni um ekki bara stafrænar athafnir okkar, heldur persónuleika, drauma, þrár, kosti og lesti.

Í svip­uðum anda eru reglu­gerðir sem inn­leiddar verða á árinu um fjár­mála­fyr­ir­tæki. Þær breyt­ingar snú­ast reyndar ekki bara um gögn­in, heldur munu þær líka auð­velda sam­keppni við rót­gróna banka og fjár­mála­stofn­an­ir. Þetta opnar fjöl­mörg tæki­færi fyrir nýsköpun og sprota­fyr­ir­tæki, en ég spái því að risa­fyr­ir­tækin sem að ofan eru nefnd verði þau sem munu hafa mest áhrif á þennan geira – og það hratt. Þannig má segja að lög­gjöfin sem á annan bóg­inn tak­markar það sem stóru tæknirisarnir geta gert muni gefa þeim ný tæki­færi á öðrum svið­um.

Ég held að fjár­mála­geir­inn í heild sinni standi á barmi gríð­ar­legra breyt­inga og við­skipta­bankar eigi eftir að eiga mjög í vök að verj­ast þegar þess­ara breyt­inga fer að verða vart. Það er þróun sem mun taka nokkur ár, en mun rýra áhrifa­vald þeirra – og verð­mæti – mjög mik­ið.

Ég er að minnsta kosti ekki sér­lega bjart­sýnn á lang­tíma­verð­mæti eign­ar­hlutar míns í bönk­unum sem „hlut­hafi” í gegnum rík­is­sjóð.

Geim­ferðir

Það eru geggj­aðir hlutir að ger­ast í geim­ferð­um. Senni­lega hefur ekki verið jafn spenn­andi að fylgj­ast með þeim síðan á tímum tungl­ferð­anna. Einka­fyr­ir­tækið SpaceX skaut hvorki meira né minna en 17 förmum á braut um jörðu á liðnu ári. Ef þið hafið ekki fylgst með svona geimskoti, þá mæli ég sterk­lega með því. Næsta geim­skot er fyr­ir­hugað föstu­dag­inn 5. eða laug­ar­dag­inn 6. jan­úar – og reyndar 12 önnur á þeirra vegum og ann­arra víðs vegar um heim í jan­ú­ar­mán­uði ein­um. Geim­skota­dag­skrána má finna hér.

Öll geim­skot SpaceX fara fram í beinni útsend­ingu á net­inu með ítar­legum upp­lýs­ingum um það hvað er að ger­ast og hver fram­vindan er. Að málm­rör á hæð við Hall­gríms­kirkju geti tek­ist á loft, skilað af sér far­ang­urs­flaug út í geimjað­ar­inn og lent svo aftur af gríð­ar­legri nákvæmni upp­rétt, stundum á sama stað og tekið var á loft um það bil 10 mín­útum síðar er ótrú­legt. Pláss í ómönn­uðum geim­förum er orðið það ódýrt að alls kyns sprota­fyr­ir­tæki spretta nú upp sem eru að ger­bylta því sem fólk taldi mögu­legt í geim­tækni fyrir innan við 10 árum. Það er til að mynda hægt að ger­ast áskrif­andi að býsna nákvæm­um, innan við 24 tíma gömlum loft­myndum af ALLRI jörð­inni hjá fyr­ir­tæki sem nefn­ist Planet. Aðeins hug­mynda­flugið setur skorður á hvað hægt er að gera með slíku – raunar bæði til góðs og ills.

Talandi um tungl­ferð­ir, þá eru hafa tvær merki­legar geim­fréttir kom­andi árs ekki farið hátt:

  • Ann­ars vegar eru nú innan við þrír mán­uðir þar til keppn­isliðin í Lunar X Prize keppn­inni munu reyna lend­ingu á tungl­inu. Í úrslitum eru 5 lið, mis­stór og mis­vel fjár­mögnuð sem keppa um verð­laun upp á 20 milljón Banda­ríkja­dali frá Google. Ef þetta tekst, er það í fyrsta sinn sem geim­far á vegum einka­að­ila mun kom­ast til tungls­ins.
  • Hins vegar hefur Elon Musk, stofn­andi Space X (með meiru) heitið því að senda mannað geim­far í flug í kringum tunglið fyrir lok árs­ins. Dag­setn­ingin hefur ekki verið gefin upp, en hann hefur greint frá því að geim­far­arnir tveir sem fara muni í ferð­ina hafi verið vald­ir, þó ekki hafi verið sagt frá því hverjir það séu.

Ég held þó reyndar að auð­veld­asti spá­dómur árs­ins sé að Musk verði sjálfur annar þeirra!

Stjórnmálaflokkarnir og ég (2017)

Hvað ég kaus. Hvað ég kaus ekki – og af hverju.

Ég kaus utan kjörfundar í síðustu viku. Að venju hugsaði ég mig nokkuð vandlega um, en á endanum gat ég raðað öllum flokkunum 10 upp í röð sem ég var sáttur við. Sú röð fylgir hér fyrir neðan ásamt útskýringu með hverjum kosti í tvít-lengd eða skemmri.

  1. Viðreisn: Ég er ekki sannfærður enn, en tilraunin til að skapa frjálslyndan, heiðarlegan, alþjóða- og markaðssinnaðan jafnaðarmannaflokk þarf að fá annað tækifæri.
  2. Björt framtíð: Málefnalega sama og Viðreisn. Þessir flokkar hefðu átt að sameinast áður en listum var skilað inn. Veikara bakland, en fyrirmyndarfólk í forsvari.
  3. Píratar: Róttæki kosturinn sem ég gat hugsað mér. Tilhugsunin um “uppfært stýrikerfi” fellur mér í geð, en hópurinn hefur verið of óstabíll og óútreiknanlegur til að ég treysti honum fyrir mínu atkvæði.
  4. Samfylkingin: Hefur flust of mikið til vinstri síðustu ár. Finnst eins og þessi flokkur viti aldrei alveg hvert hann er að fara (né hvaðan hann kom).

    — Ekkert hér fyrir neðan kom raunverulega til greina —

  5. Framsóknarflokkurinn: Gamla “góða” framsókn komin aftur. Trausta sveitafólkið sem myndi bjarga mér úr skafli ef ég festist. Fólk forfeðra minna. Verst að hagsmuna- og stefnumál þeirra fara nánast ekki saman með mínum að neinu leyti. Óþægileg forsaga sem er ef til vill ekki alveg horfin.
  6. Vinstri græn: Treysti fólkinu, en ósammála stefnunni í eiginlega öllu.
  7. Sjálfstæðisflokkurinn: Treysti ekki fólkinu, en sammála (yfirlýstri) stefnu að mörgu leyti. Ef henni væri nú fylgt eftir…
  8. Alþýðufylkingin: Var ekki búið að fullreyna þessa hugmyndafræði?
  9. Flokkur fólksins: Þjóðernis- og einangrunarhyggja sem boðuð er með hræðsluáróðri á ekkert erindi í upplýstu nútímasamfélagi.
  10. Miðflokkurinn: Málefnalega sama og Flokkur fólksins, nema með Sigmund Davíð sem hefur fyrir löngu misst alla virðingu mína – og síst gert eitthvað til að vinna hana aftur.

Er ég þá ekki örugglega búinn að móðga alla?

Ég er ekki bjartsýnismaður

Margir sem þekkja mig segja mig bjartsýnismann. Það er sennilega vegna þess að ég sé flesta hluti í jákvæðu ljósi, hef almennt þá trú að fólki gangi gott til með gerðum sínum og sé tækifæri frekar en ógnir í flestum kringumstæðum. Ekki svo að skilja að ég láti ekki í mér heyra þegar mér finnst að eitthvað megi betur fara, en ég er bjargfastur í þeirri trú að heilt á litið batni heimurinn í sífellu – og raunar býsna hratt.

Að hluta til stafar þetta sjónarhorn auðvitað af því að ég hef verið mjög heppinn í lífinu. Heppinn að fæðast inn í góðar fjölskyldur, heppinn að alast upp í afar friðsælu og farsælu samfélagi, heppinn með heilsuna, lífsförunautinn, soninn, starfs- og viðskiptaferilinn og flest annað.

Heppni er afar vanmetinn þáttur í öllum velgengnissögum og oft eru þeir sem velgengni njóta þeir sem hvað blindastir eru á þær tilviljanir sem komu þeim þangað sem þeir eru.

Heppni er nauðsynleg allri velgengni, en það er ekki þar með sagt að hún sé nægjanleg. Eftirfarandi hefur verið eignað mörgum, en ég heyrði það fyrst haft eftir sænska skíðasnillingnum Ingmar Stenmark: “Því meira sem ég æfi mig, því heppnari verð ég.” Það þarf með öðrum orðum að haga málum þannig að þegar heppnina ber að garði, sé maður í aðstöðu til að njóta hennar. Og lykillinn að því er að horfa á heiminn með opnum augum: Sjá tækifærin þar sem aðrir sjá ógnirnar, vera tilbúin að taka vel ígrundaða áhættu frekar en að halda sig alltaf við það sem er öruggt og trúa því að almennt hafi hlutir tilhneigingu til að þróast í rétta átt ef nógu margir eru ákveðnir í að láta það gerast.

Bjartsýni er með öðrum orðum eins konar sjálfsköpuð sannindi: Með bjartsýni að vopni eykur maður líkurnar á betri framtíð. Noam Chomsky orðaði þetta svona (þýðingin er mín):

“Bjartsýni er aðferð til að skapa betri framtíð, því ef þú trúir því að framtíðin geti orðið betri ertu líklegari til að stíga fram og taka ábyrgð á því að svo verði.”

En það er líka full ástæða til að trúa því að framtíðin verði betri. Það er nokkurn veginn sama hvar drepið er niður fæti, gögnin sýna að á nær öllum sviðum hafa líf og lífsskilyrði og manna verið að batna. Ekki bara síðustu öldina eins og myndirnar hér að neðan sýna, heldur öldum og árþúsundum saman. Og það er ekkert sem bendir til þess að við séum nú á einhverjum tímapunkti þar sem þessi þróun ætti að snúast við.

Þetta þýðir auðvitað ekki að allt sé fullkomið, eða að frábær framtíð sé sjálfsögð og sjálfgefin – því fer fjarri. Þetta þýðir ekki heldur að við eigum að horfa framhjá vandamálum sem þarfnast úrlausnar, stórum sem smáum. En án trúar á því að þau verði leyst og að framtíðin geti orðið betri verður hún það aldrei.

Svartsýni og svört (og almennt kolröng) mynd sem fólk fær af heiminum við lestur og áhorf á hefðbundna símiðla er það sem helst ógna þessari þróun. Það vantar fleiri raddir sem segja frá framförunum, hinum ótúlega fallega og spennandi heimi sem við búum í og þeirri stórkostlegu framtíð sem að öllum líkindum bíður okkar:

  • Ef við trúum ekki að hægt sé að leysa kolefnaeldsneyti af hólmi mun okkur ekki takast það og þá verða loftslagsmálin ekki leyst.
  • Ef við trúum ekki að opnari landamæri, aukin alþjóðaviðskipti og aukið alþjóðlegt samstarf muni halda áfram að auka velferð heildarinnar, þá verða flóttamenn, þjóðernishyggja og öfgahópar ofan á.
  • Ef við trúum ekki að hægt sé að innræta ungum karlmönnum virðingu fyrir konum þá verður kynbundnu ofbeldi og launamun kynjanna ekki útrýmt.
  • Og ef við trúum ekki að við náum að taka til áður en gestirnir koma, þá verður drasl þegar þeir koma.

Það þarf að tala um lausnir, ekki bara kvarta yfir vandamálum. Það þarf meiri umfjöllun um möguleikana sem felast í tækni, vísindum, lækningum og samfélagsmálum. Það þarf að fara að minnsta kosti jafnmikil orka í að hrósa og fagna því sem vel er gert og í reiðina sem fer í að taka þátt í nýjustu “dellu dagsins“.

Það bendir nefnilega allt til þess að við getum skapað betri framtíð, ef við bara trúum því, gefum henni færi á að koma og hjálpum til þar sem við á.

Það er meira að segja stærðfræðilega sannað að bjartsýni lágmarkar eftirsjá í lífinu.

Rétt eins og ein af mínum stærstu fyrirmyndum – læknirinn, samfélagsrýnirinn og gagnagoðið Hans Rosling heitinn – sagði: “Ég er ekki bjartsýnismaður, ég er grafalvarlegur möguleikamaður.”

Borgaðu fyrir fjölmiðla – núna!

paperboyÖflugir fjölmiðlar eru samfélaginu nauðsynlegir og sjaldan frekar en einmitt nú. Ég ætla svo sem ekki að rekja í löngu máli hvers vegna, enda hafa margir gert það nýlega betur en ég nokkurn tímann gæti. Sjá til dæmis hér og hér.

Ég ætla hins vegar að skora á ykkur að taka ykkur til og borga fyrir þá fjölmiðla og þá fjölmiðlun sem ykkur líkar. Auglýsingatekjur – sem eru stærsti tekjustofn flestra fjölmiðla – eru ágætar, en þær stuðla hins vegar að einsleitri fjölmiðlun og hagsmunaárekstrar við auglýsendur geta líka dregið úr biti fjölmiðla sem reiða sig eingöngu á þær.

“Heilbrigðustu” tekjur hvers fjölmiðils eru tekjur sem koma beint frá lesendum í formi áskrifta eða beinna framlaga. Margir bestu fjölmiðlar heims sækja nú tekjur með þessum hætti í auknum mæli. Það er vel og þú ættir ekki að láta þitt eftir liggja í þeim efnum.

Hugsaðu þig um og veltu fyrir þér hvaða fjölmiðlar – innlendir og erlendir – þér finnast skerpa sýn þína á málefni líðandi stundar. Þetta snýst ekki endilega um miðla sem maður er alltaf sammála, heldur miðla sem vanda til verka, taka á mikilvægum málum og fá mann til að sjá málin frá nýju sjónarhorni. Þegar þú ert komin(n) að niðurstöðu skaltu verja 10 mínútum í að gerast áskrifandi eða vildarvinur þessarra fjölmiðla.

Þetta þarf ekki að kosta meira en andvirði fáeinna kaffibolla á mánuði, en ef allir gera þetta getum við gulltryggt framúrskarandi fjölmiðlaumhverfi.

Meðal þeirra innlendu fréttamiðla sem þú getur styrkt eða gerst áskrifandi að eru:

  • Kjarninn
    • (athugið: ég er stjórnarformaður og stærsti hluthafi Kjarnans og því ekki hlutlaus)
  • Frjáls fjölmiðlun / Fréttatíminn
    • (athugið að þetta átak er háð endurskipulagningu á rekstri Fréttatímans og ekki útséð með hvað úr verður, en sjálfsagt að setja sig á blað ef Fréttatíminn kom upp í hugann hér að ofan)
  • Stundin
  • Viðskiptablaðið
  • Morgunblaðið
  • DV

Af erlendum miðlum er af nógu að taka, en hér eru nokkrir góðir:

Mér telst til að á mínu heimili séum við áskrifendur/greiðendur að 10 ofantalinna miðla – auk 4-5 annarra með þrengri efnistök svo sem varðandi tækni, vísindi og viðskipti. Það er kannski vel í lagt (við erum heppin að vera svo vel aflögufær), en endilega finndu að minnsta kosti 3 miðla sem þér líkar og styrktu þá með framlagi eða áskrift.

Núna!

Takk 🙂

Tæknispá 2017

Rithöfundurinn William Gibson sagði eitt sinn að framtíðin væri komin, henni væri bara ekki jafnt dreift. Við fyrstu sýn virðist þetta auðvitað fáránlegt, en hvað tækniþróun varðar er þetta dagsatt: Það sem er þegar orðið hversdagslegt sums staðar í heiminum er enn ár eða áratugi frá því að raungerast annars staðar, og það sem hægt er að sjá á tilraunastofum leiðandi rannsóknastofnana, í rannsóknarsetrum stórfyrirtækja og bílskúrum sprotafyrirtækja eru stundum hlutir sem eiga eftir að hafa mikil áhrif á líf okkar allra. Framtíðin er komin þar, hún á bara eftir að komast til okkar hinna.

Hér eru fimm angar framtíðarinnar sem ég held að eigi eftir að verða áberandi árið 2017:

  • Sjálfkeyrandi bílar: Það eru enn 5 ár í að alsjálfvirkir bílar verði í umtalsverðri og almennri notkun á tilteknum svæðum í heiminum og 10 ár þangað til sá veruleiki nær hingað til lands. En það þýðir ekki að tæknin sem þeir byggja á skili sér ekki til okkar hraðar. Hún er raunar þegar farin að gera það. Bílar koma með sífellt fleiri skynjurum og myndavélum sem aðstoða ökumanninn með hljóðmerkjum og betri yfirsýn. Næsta skref eru bein inngrip í aksturinn: „Cruise control” sem tekur mið af hraða umferðarinnar í kringum sig, leiðrétting akstursstefnu ef bíllinn rásar ómarkvisst yfir á næstu akgrein og bein inngrip ef bíll lenti í blinda blettinum, eða það stefnir í árekstur. Þetta magnaða myndband hér að neðan sýnir t.d. hvernig Tesla-bíll á sjálfstýringu sér fyrir hættu og grípur til öryggisráðstafana áður en ökumaðurinn hafði nokkra möguleika á að átta sig á því að einhver hætta væri á ferðum. Tækni af þessu tagi eigum við eftir að sjá í jafnvel ódýrari bílum frá og með komandi ári.

    Fyrsta verulega útbreiðsla bíla án ökumanna verður líklega í vöruflutningabílum. Vöruflutningar eru að mörgu leyti auðveldara úrlausnarefni en hin fjölbreyttu not einkabílsins. Annað sem gæti flýtt fyrir þessari þróun eru öryggismál. Í kjölfar hryðjuverkanna í Nice og Berlín er vel hugsanlegt að þess verði krafist fyrr en síðar að hægt sé miðlægt að grípa inn í akstur – eða að minnsta kosti drepa á – flutningabílum við tilteknar kringumstæður, s.s. þjófnað eða hreinlega ef bílinn reynir að aka nálægt skilgreindum öryggissvæðum.

  • Tekist á við falsaðar fréttir: Dreifing á villandi og hreinlega fölsuðum fréttum og upplýsingum komst í hámæli á árinu 2016, sérstaklega í tenglsum við forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og Brexit kosninguna í Bretlandi. Við Íslendingar eigum okkar fulltrúa á þessu sviði eins og öðrum, en það er önnur saga.

    Það eru margvíslegar áhugaverðar siðferðisspurningar í þessum efnum sem ekki verða leystar með tækninni, en flestum ber þó saman um að það sé eðlilegt að vekja athygli á því ef efni sem sett er fram í fréttaformi er beinlínis uppskáldað eða rangt farið með mál í grundvallaratriðum. Að mörgu leyti minnir þetta vandamál á ruslpóst sem fór langleiðina með að eyðileggja tölvupóst sem samskiptaleið í lok síðustu aldar (meira en 90% allra póstsendinga voru ruslpóstur) og „falskar“ leitarniðurstöður sem gerðu bestu leitarvélar vefsins, s.s. AltaVista, Hotbot og Yahoo ónothæfar um svipað leyti. Í báðum tilfellum var lausnin svipuð: Samtvinnun „mannlegra“ upplýsinga og sjálfvirkra algríma. Google á tilvist sýna hreinlega að þakka yfirburðum í að takast á við síðarnefnda vandamálið.

    Lausnin á dreifingu villandi upplýsinga verður líklega með svipuðum hætti. Efni sem er augljóslega bull verður síað í burtu alfarið (nema etv. fyrir þá sem kjósa að sjá það sérstaklega) og grunsamlegt efni merkt sérstaklega eða sett í sérstakt „hólf“, ekki ólíkt því sem við þekkjum flest með ruslpóst úr tölvupóstinum okkar. Facebook er þegar farið að gera tilraunir með þetta sem lofa góðu.

  • Tæknirisarnir sífellt líkari: Munurinn á stærstu tæknirisum samtímans fer sífellt minnkandi. Þó Amazon, Google, Microsoft og Apple eigi uppruna sinn í afar ólíkum geirum og meginstarfsemi þeirra sé enn nokkuð ólík er sífellt meiri skörun á milli þeirra. Amazon var upphaflega bókabúð, en er nú heimsins stærsti sölu- og rekstraraðili gagnavera. Apple byrjaði sem tölvuframleiðandi, en leggur nú ekki síst áherslu á endursölu hugbúnaðar í gegnum App store. Google var leitarvél (og auglýsingasali), en hefur hellt sér á fullt í símaframleiðslu. Og staðnaði hugbúnaðarrisinn Microsoft er að verða „kúl“ aftur með verkefnum eins og HoloLens, kaupum á LinkedIn og ótrúlega vel heppnaðri yfirfærslu á mjólkurkúnni Office yfir í skýjaþjónustuna Office 365. (a.m.k. viðskiptalega).

    Allir þessir aðilar framleiða nú farsíma, allir bjóða upp á „cloud computing“ þjónustu, a.m.k. 3 þeirra eru að gera tilraunir með sjálfkeyrandi bíla og allir bjóðast til að geyma myndir og önnur persónuleg gögn í misgóðum vefþjónustum. Facebook nálgast svo þennan hóp úr enn einni áttinni.

    Þessi þróun mun halda áfram og pressan er að mörgu leyti á Apple, sem er nú stærsta fyrirtæki heims, en svolítið að „missa kúlið“. Undir stjórn Steve Jobs gerði Apple ekki bara kúl hluti, Apple gerði hluti kúl. Tim Cook hefur ekki – frekar en aðrir – sömu hæfileika og Jobs í því og nýlegar vörur á borð við úrið Apple Watch og nýjustu útgáfur af iPhone hafa ekki staðið almennilega undir væntingum. Apple mun líklega leggja mikið upp úr 10 ára afmælisútgáfu iPhone sem væntanleg er á árinu. Ef þeir finna ekki kanínu í þeim hatti spái ég því að Google sigli hægt og rólega fram úr þeim á næstu 1-2 árum í bæði markaðsvirði og áhrifum.

  • Viðbættur veruleiki og sýndar-: Í tæknispánni í fyrra talaði ég um sýndarveruleikann og ekki síst hlut íslenskra fyrirtækja í framvarðarsveit þar. Útbreiðsla sýndarveruleikatækja hefur ekki verið jafn hröð og bjartsýnustu spár sögðu til um, en allir helstu framleiðendur á þessum markaði stigu stór skref á árinu og hvert skref sýnir betur möguleika tækninnar. Allir framleiðendurnir eiga þó eftir 2-3 ítranir í viðbót þangað til þessi tæki eiga möguleika á almennum markaði. Gefum þessu 3-4 ár.

    Microsoft kom líka nokkuð á óvart með HoloLens-tækninni sinni sem er á sviði „viðbætts veruleika“ (e. augmented reality) sem blandar saman þrívíðum hlutum og stafrænum heimi tölvunnar við raunveruleikann og þannig „birtast“ hlutir í umhverfinu sem eru alls ekki þar. HoloLens er ekki enn komið á almennan markað og Microsoft hefur ekki gefið út hvenær svo verður, en tæknin er lygilega góð. Sýndarveruleikatæknin er umfram allt leiktæki, en viðbættur veruleiki á talsvert fleiri og augljósari praktísk not, allt frá heilbrigðisgeiranum til hermennsku (sem er auðvitað ekki praktík, en þið skiljið hvað ég á við) og skrifstofuvinnu til iðnaðarsmíða. Það er ekki ólíklegt að það eigi eftir að flýta þessari þróun eitthvað.

    Í þessum geira er líka sprotafyrirtækið Magic Leap sem mikið „hæp“ hefur verið í kringum. Fyrirtækið hefur fengið stjarnfræðilegar upphæðir í fjármögnun og lofsamlegar umsagnir frá sumum af virtustu tæknifrömuðum heimsins, en einhvernveginn finnst mér fyrirtækið líklegt til að verða fórnarlamb ofurvæntinga sem ekki verður vinnandi vegur að standa undir. Eða ég hef rangt fyrir mér og það er alger bylting í afþreyingu og samskiptum á næsta leyti. Umfjöllun Wired um fyrirtækið er í öllu falli þess virði að lesa og láta sig dreyma.

  • Á Íslandi – Quiz-up áhrifin og fleira: Á Íslandi ætti að verða bæði uppskera og sáning í sprotageiranum. Við ættum að fara að sjá talsvert meira til þeirra fyrirtækja sem stóru sjóðirnir þrír: Frumtak II, SA Framtak og Eyrir Sprotar hafa verið að fjárfesta í, og einhver fyrirtæki úr fyrri sjóði Frumtaks eru líkleg til að fá einhvers konar „exit“ fljótlega. Það er að sumu leyti óheppilegt að þessir sjóðir hafi allir farið af stað á nákvæmlega sama tíma. Hefðu mátt vera 1-2 ár á milli þeirra til að sjá betri dreifingu í svona fjárfestingum. En sannarlega betra að hafa þá en ekki! Svo er að fara af stað nýr sjóður – Crowberry Capital – með örlítið aðrar áherslur sem mun hjálpa til við frumfjármögnun fyrirtækja. Það sama gildir um hinn nýja styrkjaflokk Tækniþróunarsjóðs – Vöxt – en hvort tveggja mun hjálpa til við að brúa gat sem hefur verið í íslenska fjármögnunarumhverfinu. Aflétting hafta á líka að hjálpa, þannig að heilt yfir hefur fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja aldrei verið betra hér á landi.

    Það gætir þó svolítilla „ruðningsáhrifa“ frá ferðageiranum um þessar mundir, bæði í því að hann dregur til sín fólk úr tæknigeiranum eins og öðrum, en ekki síður í gengi krónunnar sem hefur fært Ísland í mjög dýran flokk þegar kemur að hugbúnaðarstörfum. Þetta hefur allt áhrif, og ekki síst eru þessar sífelldu hag- og gengissveiflur til trafala við uppbyggingu í geiranum. Mikill kostnaður, sem útleggst í raun sem há laun á alþjóðlegan mælikvarða, er ekki endilega vandamál. Að mörgu leyti ættum við að líta á það sem kost – en sveiflur endanna á milli á kostnaðarskalanum á örfáum árum gerir alla áætlanagerð erfiða og uppbygginguna ómarkvissa.

    Við eigum við eftir að sjá nokkur ný sprotafyrirtæki spretta úr þeim jarðvegi sem endalok starfsemi Plain Vanilla á Íslandi skilur eftir sig. Þar er fólk sem hefur öðlast mikilvæga reynslu af alþjóðlegri sprotastarfsemi, myndað tengsl og skilning á því hvað þarf til að byggja upp og reka lausnir af skala sem fá ef nokkur íslensk fyrirtæki hafa áður gert. Þrátt fyrir endalokin, þá mun QuizUp áhrifanna gæta lengir, rétt eins og OZ-áhrifanna gætir enn frá því 15 árum fyrr.

Það stefnir með öðrum orðum í spennandi tækniár að venju og með vísun í orð Gibsons hér í upphafi get ég ekki beðið eftir að framtíðin dreifi betur úr sér.

Gleðilegt tækniár.

— — —

Fyrst birt á Kjarnanum.

Virkjum Andra Snæ!

CLD160513__DSC2211-1024x576Við erum heppin í forsetakosningunum í þetta sinn. Við höfum úr nokkrum góðum kostum að velja – og það er ekki sjálfgefið. Við skulum að fagna því sérstaklega að gott fólk gefi kost á sér til opinberra starfa fyrir okkur.

Þrátt fyrir það var ég ekki í vafa um mitt val frá þeirri stundu sem ljóst var að Andri Snær Magnason myndi gefa kost á sér til embættisins. Ástæðurnar fyrir því eru einfaldar: Andri Snær hefur skýra, skemmtilega og jákvæða framtíðarsýn. Framtíðarsýn sem ég deili með honum.

Ég veit að Andri er áhugamaður um margt, en í framboði sínu til forseta hefur hann lagt áherslu á þrjú málefni öðrum fremur:

  • Umhverfið: Andri talar fyrir skýrum áherslum í umhverfismálum. Langtímasýn og skynsamlegri nýtingu á auðlindum okkar samhliða fræðslu og staðfastri stefnumótun. Við Íslendingar erfðum miklar auðlindir, Andri mun hvetja okkur til að fara vel með þann auð sjálfum okkur og komandi kynslóðum til heilla.
  • Tungumálið: Af fáu eru Íslendingar stoltari en tungumálinu sínu. Sem farsæll og óvenjulega hugmyndaríkur rithöfundur hefur Andri sýnt að hann kann svo sannarlega að fara með málið. Andri hefur verið ötull við að hvetja börn og ungt fólk til lestrar, sem og stjórnvöld til að standa að nauðsynlegum stuðningi svo íslenskan verði ekki útundan í hinni öru þróun tækninnar. Íslenskan er mikilvægt mál og forsetinn getur beitt sér í því.
  • Lýðræðið: Andri hefur tekið skýra afstöðu með því að koma á nýrri stjórnarskrá á grundvelli þeirra draga sem samin voru af Stjórnlagaráði. Nú er það raunar svo að setjist maður niður og skoði – hlutlægt – núgildandi stjórnarskrá og þau drög sem fyrir liggja að nýrri, er svo gott sem ómögulegt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að sú nýja sé ekki bara nútímalegari, heldur einnig skýrari og fallegri. Svo er hún líka íslensk, ekki dönsk. Þjóð meðal þjóða hlýtur að vilja sína eigin stjórnarskrá.

Andri Snær vill nota forsetaembættið til að vekja athygli á þessum málum og hefja upp umræðuna um þau. Hann hefur auðvitað þegar sýnt og sannað að hann getur hrifið fólk með sér og haft mikil áhrif, enda hefur hann einstaka hæfileika í því að tengja saman fólk, tengja saman hugmyndir og miðla málefnum með áhrifamiklum hætti. Í forsetaembættinu mun rödd hans heyrast enn víðar og betur en áður. Til þess ættum við að veita Andra brautargengi.

Andri sprettur úr fjölbreyttum jarðvegi. Bjó ungur í útlöndum og kynntist líklega meiri fjölbreytni þar en flest okkar íslensku heimalninganna; kynntist náið íslenskri sveit þar sem innprentuð er virðingin fyrir lífinu, landinu og náttúrúnni, en líka vinnusemi, nýtni og hugkvæmni; og hefur svo starfað með skapandi fólki sem skilur hvernig með hugvitinu einu saman er ekki aðeins hægt að skapa mikil verðmæti, heldur hreinlega framtíðina sjálfa. Þessi blanda hugnast mér vel og ég hef trú á því að hún gefi manni heilbrigða sýn á heiminn, hvert hann stefnir og hvernig hægt er að hafa áhrif á hann.

Andri Snær er frambjóðandinn sem stendur fyrir allar þær breytingar sem ég – og margir fleiri – vilja sjá á íslenskri umræðu, íslensku samfélagi og íslenskum áherslum.

Verum ekki hrædd við að kjósa breytingarnar þegar þær bjóðast: Virkjum Andra Snæ Magnason!