Óformlegum samtökum bölsýnismanna hefur ekki líkað bjartsýnin í mér síðastliðna viku (meira: 1 | 2) og skorað á mig að nefna dæmi um alla þessa jákvæðu hluti sem eru í gangi eða eru að fæðast.
Gjöriði svo vel.
Þekkingariðnaður
Undanfarin ár hefur þekkingariðnaður utan bankanna hefur verið gersveltur mannafli og sprotastarfsemi skort fjármagn. Ástæðan er tvíþætt:
- Annars vegar hefur fjármálageirinn sogað til sín hæfasta fólkið með ómótstæðilegum kjörum í því sem virtist öruggt umhverfi. Jafnvel fólk sem vissi að því myndi ekki finnast viðfangsefnin spennandi – og vildu helst vera þarna úti að skapa eitthvað – lét til leiðast, etv. með því hugarfari að njóta þessa ástands meðan það varði, koma sér upp þekkingu og etv. smá sjóði sem seinna mætti ganga á til að eltast við það sem það raunverulega vildi gera í lífinu.
- Hins vegar voru engir í því að fjármagna frumstig fyrirtækja. Viðkvæðið hjá flestum sjóðum strax árið 2005 var orðið “við fjárfestum ekki fyrir minna en 200 milljónir”. Þessi tala var komin upp í 500 milljónir undir það síðasta. Enginn var hins vegar í því að búa til og hjálpa fyrirtækjum á þann stall að þau væru tilbúin að taka við slíkri fjárfestingu. Ef svo hefði verið, ættum við nú kannski stærri flóru fyrirtækja til að taka við yfirflæði hæfileikafólks út á markaðinn.
Gott er til þess að vita að á þessum tíma hugsuðu þó einhverjir til þessara mála. Nýsköpunarsjóður, lífeyrissjóðir og bankarnir settu fyrr á þessu ári saman sjóðinn Frumtak, með alls 4,6 milljarða króna í stofnfé. Þetta er lang-stærsti sjóður þessarar gerðar sem settur hefur verið upp hér á landi. Þeir báru meira að segja til þess gæfu að ráða reynslumikinn rað-frumkvöðul með viðskiptaþekkingu til að leiða sjóðinn og hugmyndin að sjóðnum er á markaðsforsendum. Sjóðurinn á að ávaxta sig eins og sambærilegir sjóðir og ekki vera litaður byggða-, flokka- eða annarri pólitík, en slíkt hefur viljað brenna við í svipuðu framtaki þegar það hefur verið alfarið á höndum hins opinbera. Þessi sjóður er til, hluti af peningunum hefur þegar verið greiddur inn og stjórnarfundur sjóðsins þar sem taka á afstöðu til fyrstu fjárfestinga hans verður haldinn nú á mánudag.
Því miður hefur skapast einhver óvissa um það hvort sjóðnum sé heimilt að hefja fjárfestingar strax, vegna þess að hann á enn skuldaviðurkenningar frá “gömlu” bönkunum upp á þeirra framlög. Að láta slíkan formgalla stöðva sjóðinn í að veita góðum málum brautargengi núna þegar þörfin er mest, er þó eiginlega óhugsandi. Þetta er alfarið undir Ríkisstjórninni komið og ákvörðunin er einföld. Jafnvel þó hún sem nýr eigandi bankanna dragi þeirra framlög til baka (sem hún ætti ekki að gera) er það eina sem þarf til að koma þó afganginum af þessu fé í umferð að eyða þeirri óvissu. Erfitt er að sjá fyrir sér að einhver stjórnmálamaður láti góma sig við að hafa staðið í vegi fyrir því!
Ég þykist líka hafa fyrir því traustar heimildir að a.m.k. hluta af fyrirsjáanlegum kostnaði Ríkisins vegna uppsagnarfresta og atvinnuleysisgreiðslna verði beint í annan farveg, þ.e. í gegnum fyrirtæki sem vilja ráða þetta fólk til starfa (sjá fyrri færslu).
Þekkingarfyrirtæki sem hafa glöð viljað ráða fólk og stofna til nýrra verkefna undanfarin ár eru því núna allt í einu á 2-3 vikum komin í gerbreytta stöðu: Mikið framboð af fólki, lægri launakröfur og meira að segja fjármagn til að mæta ráðningum og leggja til nýrra verka. Þarna er sko aldeilis kraftur að losna úr læðingi.
Og hvaða fyrirtæki eru þetta svo?
Verne Holdings stendur um þessar mundir í stærstu einstöku fjárfestingu í þekkingariðnaði sem hér hefur verið gerð. Áætlanir þeirra um risa-vélabú (gagnaver) í Reykjanesbæ standa óhikaðar.
Nýju sæstrengirnir Danice og Greenland Connect gera m.a. ofangreint gagnaver mögulegt og munu ýta undir frekari fjárfestingar af þessu tagi.
CCP er í gríðarlega öflugri stöðu. Reikningar félagsins eru ekki opinberir en nærri 300.000 áskrifendur borga þeim að meðaltali á bilinu 11-15$ á mánuði. “You do the math…”
Í miðjum stórstorminum gerðist hið ótrúlega. Fyrirtækið OZ, sem margir muna eftir um aldamótin var selt til Nokia. Óþolinmótt fjármagn og aðlaðandi umhverfi nýsköpunar í Kanada gerði það reyndar að verkum að fyrirtækið var jafnað við jörðu hér heima og endurreist á rústunum þar ytra. Engu að síður eru þar nokkrir öflugir íslenskir frumkvöðlar sem nú hafa efnast vel og munu – ef ég þekki þá rétt – ekki standa aðgerðalausir.
Mörg minni fyrirtæki sem lítið hefur farið fyrir eru líka í ágætum málum og eiga mörg hver enn meiri tækifæri nú en áður. Ég nefni í engri sérstakri röð: Calidris, Dohop, ORF líftækni, Caoz, Gogogic, Marimo og áfram mætti telja. Að auki eru mörg minni fyrirtæki á fyrstu metrunum, þar á meða mitt eigið DataMarket. Ég biðst afsökunar á því að listinn er litaður af fyrirtækjum í upplýsingatækni – en þar þekki ég best til.
Vonandi standa svo stóru þekkingarfyrirtækin okkar: Marel, Össur og Actavis vel að vígi, þrátt fyrir að hafa að einhverju leiti tekið þátt í skuldsettum útrásarævintýrum síðustu missera.
Síðast en ekki síst má ekki vanmeta þann mikla fjölda hugmynda- og hæfileikafólks sem núna stendur á krossgötum og þarf að velta fyrir sér hvað það eigi að gera næst í lífinu. Út úr slikum hugrenningum koma oftast góðir hlutir, þó það kunni að vera erfitt í fyrstu. Úr þessum farvegi mun spretta fjöldinn allur af fyrirtækjum og einhver þeirra munu vaxa og dafna til að verða að stórveldum.
Listir og pólitík
Það er alþekkt að í kjölfar þrenginga og hörmunga verður mikill uppgangur í listum og menningu. Að skrifa bók eða mála á striga kostar ekki mikið og fyrir skapandi fólk sem lendir í þeirri aðstöðu að hafa mikinn tíma og etv. takmörkuð fjárráð er þetta fyrirtaks hobbí. Þannig fer etv. hópur fólks núna í listsköpun sem annars hefði aldrei látið þá hæfileika njóta sín þar sem þeir voru einfaldlega of uppteknir í vinnunni!
Þessu til staðfestingar heyrði ég í vinkonu minni í vikunni sem var í áhrifastöðu í einum bankanna. Framtíðin er enn óljós frá bankans hendi, en hún er ákveðin. Hún ætlar núna að skrifa bókina sem hún hefur svo oft reynt að byrja á í flugvélum og öðrum takmörkuðum tíma sem hún hafði aflögu. Núna verður þessi bók að veruleika. Ég bíð spenntur.
Sömuleiðis heyri ég í sífellt fleira vel gefnu hæfileikafólki sem nú vill fara að láta til sín taka í pólitík. Þetta er fólk sem áður leit á pólitík sem sandkassaleikinn sem hún hefur verið, en að fólkið sem þar væri gæti þó alla vegana ekki gert mikinn skaða. Annað hefur nú aldeilis komið á daginn (þó pólitíkusarnir eigi ekki sökina einir) og fólk sér þörfina til breytinga. Algerrar hreinsunar jafnvel.
Gömlu fyrirgreiðslu- og hagsmunapólitíkusarnir eiga ekki séns ef þetta fólk fer að láta til sín taka. Staðreyndin er sú að stór hluti a.m.k. þess hóps sem ég tilheyri, hefur aldrei átt beinan samhljóm hjá neinum af þeim flokkum sem í boði eru og þess í stað sveiflast á milli illskástu kostanna. Þetta fólk er núna tilbúið að fylkja sér á bakvið nýja valkosti og jafnvel taka þátt af krafti í pólitík sem ekki er í fjötrum sögu þeirra flokka sem fyrir eru.
Mér segir svo hugur um að pólitíkst landslag verði gerbreytt þegar við förum að sjá fram út úr mesta moldviðrinu.
– – –
Þetta er meðal þess sem gefur mér tilefni til bjartsýni.