Author: Hjalmar Gislason

About Hjalmar Gislason

Founder and CEO of GRID (https://grid.is/). Curious about data, technology, media, the universe and everything. Founder of 5 software companies.

Presentation on Innovation (IceWeb 2008)

skjaldarmerki-2Ever since the banking crisis struck Iceland a few weeks ago, I’ve been running out and about to advocate for innovation as the way to rebuild the economy.

Yesterday, I was privileged to give a presentation on the topic at the IceWeb conference. The title of my talk was “The Innovation Renaissance” and the slides can be found below:

Með því að opna kynninguna á SlideShare er hægt að skoða hana “full screen”.

– – –

P.S. There are a few quirks in the layout as I create my presentations in Keynote, SlideShare only accepts PowerPoint files, and the conversion is not perfect. But they weren’t that pretty anyway 🙂

P.P.S. Egill Harðar “two-dot-o-ified” the Icelandic crest for my presentation – thanks!

Svona verður Næsta Ísland

new-futureEin birtingarmynd kraftsins sem hefur verið leystur úr læðingi síðustu vikur er sú að almenn umræða er hætt að snúast um efnistökin í Séð og Heyrt og farin að snúast um stóru málin – málin sem skipta máli:

Hvernig viljum við hafa Næsta Ísland? Hvernig vinnum við okkur útúr núverandi ástandi? Hvernig á að stjórna landinu? Og hver á að gera það?

Ég hef tekið þátt í ótal samræðum um öll þessi mál síðustu vikur og tók af því tilefni saman nokkra áhugaverða punkta sem ég get sagt með nokkurri vissu að ég vilji sjá einkenna Næsta Ísland:

  • Besta mögulega umhverfi til nýsköpunar. Í slíku umhverfi byggist upp fjölbreytt atvinnulíf og útflutningstekjur okkar munu ekki standa lengur á aðeins 3-4 stoðum, heldur 10-20. Í þessu umhverfi felst m.a. einfalt og hagstætt skattkerfi, einföld fyrirtækjalöggjöf, öflugt stuðningskerfi, hvatar til áhættufjárfestinga o.fl. Sjá nánar í færslunni Af hverju nýsköpun? og á nyskopun.org.
  • Gjaldmiðill sem hefur verðgildi víðar en á Íslandi. Þetta er aðeins hægt með upptöku annars gjaldmiðils eða með því að setja traustan fót – s.s. gull – undir krónuna (sem NB er varla mögulegt úr þessu). Hugmyndir um einhliða upptöku Evru eru áhugaverðar, en líklega snúnari en gefið hefur verið í skyn. Fleytingu krónunnar með baklandi í stóru erlendu láni þarf að fylgja skýr áætlun um það hvernig gjaldeyrismálum verði háttað í framtíðinni. Slík áætlun gæti t.d. falið í sér að stefnt sé að upptöku annars gjaldmiðils innan 5 ára og hvernig gengi við þau skipti verði ákvarðað. Ég hef áður sett fram spádóm um gengi krónunnar eftir fleytingu, og hér er spádómur frá mér fróðari manni um málið.
  • Fagfólk í stöður ráðherra og helstu embættismanna. Þetta mætti t.a.m. gera á eftirfarandi hátt: Auglýst yrði eftir umsækjendum í stöðurnar. Nefndir fagfólks í hverju málefni (t.d. leiðtogar fyrirtækja og stofnana í viðkomandi greinum) myndu meta hæfi umsækjendanna og ef fleiri en einn er talinn jafnhæfastur eða -hæfust til verksins, kýs Alþingi milli þeirra. Alþingi, sem vinnuveitandi þeirra, getur svo sett viðkomandi af þyki hann eða hún ekki hafa staðið sig. Með þessu fæst líka nokkuð heilbrigður aðskilnaður alþingis og ríkisstjórnar. Á móti mætti fækka Alþingismönnum um 20.
  • Öll lög hafi “síðasta söludag”. Tryggt sé að öll lög komi til endurskoðunar ekki sjaldnar en á 10 ára fresti. Til athugunar sé hvort þau eigi enn rétt á sér eða megi að öðrum kosti bæta m.t.t. breyttra tíma. Svona má m.a. tryggja að löggjöfin taki tillit til tækninýjunga, breytinga í alþjóðaumhverfi o.s.frv.
  • Settur sé óháður verkefnastjóri yfir Alþingi. Verkefnastjórinn setur niður dagskrá ársins gróflega í upphafi árs og raðar svo nákvæmri dagskrá innan viku og dags. Enginn starfsmaður (les: alþingismaður) fær að fara heim fyrr en vinnu er lokið. Séu markmið ekki að nást, er það hins óháða verkefnisstjóra að meta mikilvægi og forgangsraða málum. Þingmenn eða flokkar mættu jafnvel fá fastan fjölda “mikilvægispunkta” sem þeir mega dreifa á sín mál yfir árið til að hafa áhrif á það hvaða mál eru tekin fyrir.
  • Landið allt eitt kjördæmi, ekkert lágmarksfylgi og röðun á kjörseðli. Kjördæmaskipanin tryggir jafnt vægi atkvæða og dregur úr kjördæmapoti (sem þá myndi líklega fá heitið “svæðapot”). Forgangsröðun á kjörseðli í stað þess að aðeins einum flokki sé greitt atkvæði (sjá t.d. löggjöf um þingkosningar í Ástralíu), hindrar öfgaöfl í að komast að, en afnám lágmarksfylgis tryggir á sama tíma að “litlar raddir” fá málsvara á þingi ef kjósendum þykir næg ástæða til.
  • Stóraukið gegnsæi í fjármálakerfinu. Skráning skulda- eða hlutabréfa á markað setji kröfur um fullkomið gagnsæi á rauntímaupplýsingum úr bókhaldi viðkomandi fyrirtækja. Þetta skapar þeim markað til að sækja sér fé, en gefur fjármagnseigendunum – í krafti hópsins – kleift að fylgjast grannt með stöðu fyrirtækjanna. Sama myndi gilda um sjóði, s.s. peningamarkaðssjóði, lífeyrissjóði eða aðra gjörninga sem mynda “strúktúra” ofan á markaðinn. Árs- og ársfjórðungsuppgjör eru úrelt fyrirbæri – rauntímaupplýsingagjöf er krafa nútímans. Ég hef áður skrifað um þetta í færslunni Framtíð viðskipta: Opið bókhald og fullkomið gegnsæi.
  • Stóraukið gegnsæi í fjármálum hins opinbera. Opið kerfi þar sem hver sem er getur skoðað, ekki bara samantekna liði í fjárlögum og rekstri, heldur kafað alveg niður í hverja einustu færslu hins opinbera og meðfylgjandi skýringar. Þetta tryggir frábært aðhald og dregur úr pólitískri fyrirgreiðslu af almannafé. Framsetningin á þessu gæti verið “glorified” útgáfa af framsetningu DataMarket á Fjárlagafrumvarpinu – þar sem hægt væri að kafa dýpra, sjá nánara niðurbrot, skoða fjármál einstakra stofnana og skýringar með öllu saman.
  • Öll samskipti við hið opinbera geti farið fram rafrænt. Þetta yrði ekki bara í formi vefsíðu, eins og við eigum t.d. að venjast með skattframtalið, heldur eiga bókhaldskerfi og önnur kerfi að geta tengst með sjálfvirkum hætti – með tímanum mætti jafnvel krefjast þess. Sjá bloggfærslu um “The Government API” sem ég skrifaði í fyrra. Þetta eykur skilvirkni, minnkar tvíverknað, fækkar villum og gerir – tvinnað saman við gagnsæiskröfurnar hér á undan – hverskyns undanskot afar erfið.
  • Skynsemi við ráðstöfun takmarkaðra auðlinda. Orkan, fiskurinn, andrúmsloftið og náttúran eru takmarkaðar, verðmætar auðlindir. Þær er rétt að nýta, en af skynsemi. Við hverja ráðstöfun á þessum gæðum, þarf að vega og meta ávinning á móti ókostum. Orkumálin eru þarna hvað umdeildust. Það er jafn vitlaust að vilja ekkert virkja framar eins og það er að vilja virkja allt sem virkjanlegt er. Okkar hagur er að sem mest fáist fyrir orkuna og ekki sé fórnað meiri hagsmunum fyrir minni. Þannig er augljóslega betra að fá marga meðalstóra kaupendur að orku – s.s. rannsóknagróðurhús, vélabú eða álþynnuverksmiðjur – en fáa stóra. Virðisauki samhliða orkusölunni er lykilatriði. Með tilliti til áherslu á fjölbreytni í atvinnulífi eru fleiri álver orðin hættuleg – eggin, körfurnar og allt það. Umfram allt þarf orkusala að fara fram á opnum markaði þar sem verð eru opinber og jafnræði gildir við tilboðsgerð.
  • Afnám hverskyns hindrana á vöruflutningum. Tollar, innflutningsgjöld og niðurgreiðslur ákveðinna framleiðslugreina búa til ójafnvægi sem býr til undarlega hvata og kemur í veg fyrir að við nýtum með besta hætti vinnuafl, landrými, fjármagn og verkvit í heiminum. Grænmetisrækt á Íslandi er því aðeins góð hugmynd að lágt orkuverð hér vegi upp kostnað við gróðurhús og mæti samt flutningskostnaði erlendis frá. Landbúnaður hér ætti að vera takmarkaður við þær greinar sem standast samkeppni við innfluttar vörur í gæðum og verði, eða eiga erindi á alþjóðamarkaði í samkeppni við erlendar vörur þar. Ég efast um að verksmiðjuframleiðsla á borð við svína- og kjúklingarækt geri það, en íslenskt kindakjöt er aftur á móti villibráð og þarf að koma á markað sem sem slíkri: munaðarvara í samkeppni við franska gæsalifur, rússneskan kavíar og lapplenskt hreindýrakjöt. Tollar og gjöld á vörur á borð við raftæki og neysluvörur eru hrein tímaskekkja.
  • Afnám hindrana á fjármagnsflutninga og eignarhald. Eignarhald einkaaðila ætti aldrei að takmarka við ákveðið þjóðerni. Viljum við (íslenska þjóðin) halda yfirráðum yfir ákveðnum auðlindum, eiga þær að vera í eigu ríksins, en nýtingarréttinn má leigja eða selja á opnum markaði. Með þessum hætti fáum við hingað erlent fjármagn í þær framkvæmdir eða verkefni sem okkur gætu reynst ofviða, aukum líkurnar á áhættufjármagni í greinum eins og orku eða sjávarútvegi og aukum samkeppni um þessar auðlindir sem leiðir af sér hærri tekjur til þjóðarbúsins.

Ég geri mér grein fyrir að margt af ofantöldu þarf að nálgast af varfærni. Sumt mun taka allmörg ár að færa til betri vegar og í mörgum tilfellum verður þörf á sérstökum aðgerðum til að gera umbreytinguna sem sársaukalausasta.

Ég tek öllum góðum rökum gegn þessum hugmyndum og áskil mér fullan rétt til að skipta um skoðun í ljósi slíkra, en tel þó að ofangreint standist allharða rökræðu.

Þegar hugmynd fær fólk…

Fyrir fimm vikum síðan mætti ég á “kick-off” fund í námskeiði sem kallast Business Innovation Lab. Námskeiðið er samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík og er ætlað að koma saman viðskiptafræðinemum í HR og hönnunarnemum í hinum ýmsu greinum í LHÍ og nýta kraft og kunnáttu hvors um sig til að koma fram með heildstæðar viðskiptahugmyndir. Ástæðan fyrir því að ég var þarna er að Guðjón félagi minn hafði platað mig til að vera einhvers konar “mentor” fyrir einn af verkefnahópunum. Mitt hlutverk var s.s. að leggja grunninn að einhverri hugmynd sem þau gætu unnið með.

Ég gróf upp eina gamla hugmynd úr glósubókunum mínum og útskýrði hana fyrir hópnum í örstuttu máli: Útvarp sem hefði það eitt umfram önnur útvörp að hafa “tímastilli”. Með öðrum orðum mætti snúa tímanum til baka og hlusta þannig á útvarpsútsendinguna eins og hún var 10 mínútum fyrr, eða hlusta á morgunútvarpið svona undir hádegið, nú eða bara stöðva útvarpsfréttirnar meðan maður svarar í símann, án þess að missa af viðtalinu við Siggu frænku. Í stuttu máli “TiVo fyrir útvarp”.

Síðustu vikur hef ég svo skipst á nokkrum tölvupóstum við hópinn, bent þeim á hvar þau geti leitað upplýsinga um eitt og annað sem tengdist útfærslunni og svo framvegis – ósköp lítið í sjálfu sér. Ég hef s.s. eiginlega ekki gert neitt, nema sleppa einni lítilli, ómótaðri hugmynd út í loftið og fylgjast svo með því hvað gerist.

Það kom mér þessvegna skemmtilega á óvart þegar ég mætti á föstudaginn á uppskeruhátíð námskeiðsins að sjá að þarna var komin heildstæð viðskiptaáætlun, vörumerki, markaðsefni og meira að segja gullfalleg frumgerð af útvarpinu sjálfu – Uturn:

Uturn útvarpið

Tækið fékk reyndar m.a.s. stutta umfjöllun í Kastljósinu á föstudagskvöldið.

Þetta er það sem gerist þegar hugmyndir fá rétta fólkið til að vinna með þær og fólkið fær jákvætt og gott stuðningsumhverfi til að gera sitt besta.

Nú ætla ég ekki að fullyrða að Uturn-útvarpið verði nokkurntíman að veruleika, en á 5 vikum er búið að taka eitthvað sem ekkert var – og hefði aldrei orðið hefði það bara setið í kollinum á mér – og breyta því í sprota sem hefur fullt tækifæri til þess að verða eitthvað miklu meira!

– – –

Til hamingju HR og LHÍ með frábært námskeið og frábært framtak og sömuleiðis allir hóparnir með sín frábæru verkefni.

Af hverju nýsköpun?

Þessa dagana er mikið talað um nýsköpun og hvernig hún sé lykillinn að því að byggja hér upp fjölbreytt og kraftmikið atvinnulíf eftir hrun bankanna. Sjálfur hef ég beitt mér töluvert í þessa veru með skrifum og grasrótarvinnu (1 | 2 | 3 | 4 | 5).

En af hverju nýsköpun? Er nýsköpun ekki bara næsta bóla sem mun svo enda á að springa framan í okkur með jafn háum hvelli og síldin 68, fiskeldið á níunda áratugnum, dotcom-bólan um aldamótin eða bankabólan 2008?

Svarið við þessu er sáraeinfalt og blákalt: Nei

Ástæðan: Með öflugri nýsköpun (sjá skilgreiningu) stuðlum við að fjölbreytileika. Í stað þess að gera eitthvað eitt – eins og okkur hættir augljóslega til að gera – gerum við margt og með því að gera nógu margt og nógu ólíkt, verðum við ekki lengur háð áföllum eða hörmungum sem dynja yfir einstakar greinar. Áfram erum við jú háð hagkerfi heimsins – það fær enginn flúið – en þar stöndum við einfaldlega ótrúlega vel að vígi með gjöful fiskimið, ódýra og umhverfisvæna orkugjafa og góða grunninnviði svo sem í fjarskipta- og samgöngukerfum.

Í staðinn fyrir eina stóra bólu sem springur með hvelli þegar á hana er stungið, verður atvinnulíf sem byggir á fjölbreyttri nýsköpun meira eins og bóluplast: hver lítil bóla getur sprungið án þess að allar hinar missi loft í leiðinni.

Þetta er mikilvægt að hafa í huga bæði til skemmri tíma og lengri. Það er freistandi að leita stórra skyndilausna, en hið rétta er að leita leiða til að skapa það umhverfi sem best getur gripið bæði stór og smá tækifæri.

Fólk virðist oft gleyma að í 100 fjögurra manna fyrirtækjum eru jafn mörg störf og í einu 400 manna fyrirtæki. Munurinn er sá að 100 fjögurra manna fyrirtæki verða svo að tíu 50 manna fyrirtækjum og mögulega að einni “súperstjörnu” með mörg hundruð stafsmenn.

Í réttu umhverfi fá réttu hugmyndirnar að vaxa og dafna og verða að verða að stórum og kraftmiklum fyrirtækjum og þær sem á einhvern hátt eru ófullkomnar (9 af hverjum 10) deyja drottni sínum. Reynslan af mistökunum og þekkingin sem byggð var upp hjá þeim sem ekki “meika það” skilar sér hins vegar aftur inn í umhverfið og eykur líkurnar á því að næstu tilraunir beri árangur.

Ekkert af ofansögðu útilokar aðra kosti, s.s. orkufrekan iðnað á borð við álver – satt best að segja fellur slíkt í mörgum tilfellum undir nýsköpun að hluta eða heild. Hins vegar þarf að vega og meta hvert tækifæri á móti þremur þáttum:

  • Þeim takmörkuðu auðlindum sem fyrir hendi eru, s.s.: orku, vatni, ósnortinni náttúru, mannafla o.s.frv.
  • Verðmætunum sem fást á móti nýtingu þessarra auðlinda.
  • Fjölbreytileika í heildarsamsetningu atvinnulífsins. Þetta er punkturinn frægi með eggin og körfurnar – og við erum vonandi búin að læra af reynslunni í þeim efnum.

Það getur vel verið að orkufrekur iðnaður skori á einhverjum tíma hæst á þessu prófi. Hann gerði það nánast örugglega á sínum tíma, þegar ákvörðun var tekin um að reisa álverið í Straumsvík. En það er engan veginn augljóst núna.

Hvað þarf þá að gera?
Til að svara einmitt þessari spurningu, hefur verið opnaður vettvangurinn Nýsköpun.org.

Markmið þessa vettvangs er að stuðla að því að á Íslandi verði besta hugsanlega umhverfi til nýsköpunar. Vefurinn er ekki settur fram í nafni neinnar stofnunar eða samtaka, heldur sem opinn vettvangur sem allir sem hafa áhuga á að þetta markmið verði að veruleika geta hjálpað til við að byggja upp. Samhliða þessu hefur líka verið sett upp samnefnt tengslanet á vefnum LinkedIn. LinkedIn er líklega öflugasta viðskiptatenglanet sem völ er á – eiginlega eins konar Facebook fyrir viðskiptasambönd, til að setja það í samhengi fyrir þau ykkar sem ekki þekkja til.

Ef þið hafið áhuga á að leggja ykkar af mörkum, er fátt einfaldara.

Hagkerfi stór og smá

Í einum af uppsveitum Borgarfjarðar býr rútubílstjóri á leigulóð.

Fyrir nokkrum árum skuldaði hann landeigandanum leigu – sagan segir 50.000 krónur. Fyrir skuldinni skrifaði hann ávísun og afhenti landeigandanum. Landeigandinn taldi ólíklegt að innistæða væri fyrir ávísuninni, en lét gott heita.

Skömmu síðar var komið að því að landeigandinn stæði skil á útsvari til sveitarinnar. Sem hluta af greiðslu þess, afhenti hann oddvitanum áðurnefnda ávísun. Oddvitinn taldi ólíklegt að innistæða væri fyrir ávísuninni, en lét gott heita.

Sveitin stóð á þessum tíma ásamt fleiri sveitarfélögum að sameiginlegum skólarekstri. Oddvitinn leggur því fram fé til reksturs skólans og þar á meðal áðurnefnda ávísun. Skólastjórinn taldi ólíklegt að innistæða væri fyrir ávísuninni, en lét gott heita.

Skólinn stendur svo fyrir skólaakstri í sveitunum sem hann þjónustar. Einn af skólabílstjórunum var einmitt umræddur rútubílstjóri. Skólastjórinn gerði upp við hann skömmu síðar og notaði til þess áðurnefnda ávísun. Rútubílstjórinn sá enga sérstaka ástæðu til að innleysa ávísunina.

– – –

Aðra áhugaverða dæmisögu af litlum hagkerfum má finna í þessari frásögn um Péturs-krónuna í Arnarfirði í brjun 20. aldarinnar.

Umhverfi sprotafyrirtækja

Mér var bent á skýrslu um umhverfi sprotafyrirtækja á Íslandi, sem ég man að ég sá á sínum tíma – og minnir reyndar að ég hafi tekið þátt í að svara:

Þetta er býsna góð úttekt á þessu umhverfi og gagnlegur leiðarvísir, núna þegar virkilega þarf að huga að þessum málum og þá ekki síst þeim fyrirtækjum sem einmitt eru komin af stað. Ég leyfi mér að draga fram eina mynd úr skýrslunni sem sýnir svart á hvítu hve sorglega þessi mál hafa þróast undanfarin ár.

Stofnár sprotafyrirtækja

Greiningadeild Hjalla

Ég er alger amatör í hagfræði og fjármálum. Ég hef samt ekki enn séð neinn virkilega rýna í stöðuna sem upp er komin hér á landi og hvert stóra myndin í efnahag þjóðarinnar stefnir og ef enginn vill gera hlutina fyrir mann, þá verður maður að gera þá sjálfur.

Eftirfarandi hugleiðingar geta því ekki verið verri en hvað annað. Það getur þá a.m.k. vonandi einhver bent mér á það hvar ég fer útaf sporinu í þessum hugleiðingum.

Skuldbindingar þjóðarinnar vegna innlána bankanna

  • Við erum um það bil að taka á okkur þær skuldbindingar sem bankarnir höfðu skrifað okkur fyrir að okkur forspurðum. Þetta eru fjarri því allar skuldbindingar þeirra, “bara” þær sem evrópsk og alþjóðalög kveða á um að séu á ábyrgð heimalands bankaútibúa. Þessi tala virðist vera af stærðargráðunni 1.000 milljarðar króna með skekkjumörk upp á nokkur hundruð milljarða. Endanleg tala ræðst að miklu leiti af því hver túlkun þessarra alþjóðalaga er, enda hefur líklega aldrei fyrr reynt á þau með þessum hætti. Gengið sem miðað er við er augljóslega hin stóra breytan í þessu dæmi.
  • Á móti þessum skuldbindingum eru svo verðandi þrotabú gömlu bankanna. Eins og ég skil það eru ofangreindar skuldbindingar forgangskröfur í þau bú, vegna þess að um innistæður er að ræða. M.v. að eignir þeirra námu 14.437 milljörðum um mitt ár og að aðeins um 4.000 milljarðar af þeim voru fluttir yfir í nýju bankana, þá má vera ansi illa komið ef ekki fæst upp í skuldbindingarnar. Engu að síður þurfum við líklega að taka þessa upphæð að láni til að borga innistæðueigendunum á meðan verið er að koma nógu miklu af eignum í verð.

Nettóniðurstaða af þessu gæti þá verið sú að við þurfum að taka gríðarstórt lán til tiltölulega skamms tíma, en myndum enda á núlli þegar búið væri að selja eignir gömlu bankanna sem því nemur. Ofan á þetta verður þó hatrammur slagur við aðra kröfuhafa í þrotabú gömlu bankanna, enda eru 10.000 milljarðar ekki svo lítil tala. “Menn hafa beygt sig eftir minna” eins og sagt er.

Endurræsing krónunnar
Til að koma gjaldeyrisviðskiptum aftur í gang þarf verulega digran gjaldeyrissjóð. Villi Þorsteins skrifaði mjög áhugaverðan pistil um það hvernig þessi endurræsing er sambland af stærðfræði, sálfræði og leikjafræði. Helstu atriði eru þessi:

  • Eftir innstreymi fjármagns til landsins undanfarin ár er gríðarlega mikið af “hræddu fé” í íslenskum krónum. Þetta eru útlendingar sem eiga eignir í krónum og væru til í að skipta þeim út fyrir svo að segja hvað sem er á svo að segja hvaða gengi sem er. Þarna eru sannanlega 300 milljarðar sem eftir standa í jöklabréfum og að auki vafalaust nokkur hundruð milljarðar til viðbótar í öðrum eignum sem erfiðara er að henda reiður á.
  • Hræddir Íslendingar bæta ofan á þetta. Þeir sem eiga eignir í íslenskum krónum munu horfa til þess að skipta a.m.k. hluta sinna eigna í gjaldmiðil sem einhversstaðar annarsstaðar er tekinn trúanlegur – svona “just in case” að allt fari í enn meiri steik. Umfang hugsanlegs landflótta bætir enn á þennan þátt. Þessi staða er reyndar efni í heilan pistil útaf fyrir sig þar sem þetta er sennilega fyrsta dæmi sögunnar um 300.000 manna siðklemmu fangans (e. prisoner’s dilemma). Heildin nýtur góðs af því að allir sitji kyrrir, en þeir fyrstu sem fara hagnast á því. Tökum það seinna…

Við þessu virðast vera tvö svör:

  • Nægilega stórt gjaldeyrislán til að geta skipt öllum “hræddu krónunum” í erlenda mynt. Það undarlega í þessari stöðu er aftur kennslubókardæmi í leikjafræði: Ef lánið er nógu stórt til að flestallir treysti því að þeir geti skipt krónum í aðra mynt um alla fyrirsjáanlega framtíð, þá verður aðeins brot af því notað. Ef það er of lítið mun það hverfa eins og dögg fyrir sólu og við erum engu bættari! “Nóg” í þessu samhengi gæti aftur verið af stærðargráðunni 1.000 milljarðar. Í báðum tilfellum er ljóst að á meðan þeir hræddu losa sig, verður gengið á krónunni mjöööög lágt. Við erum ekki að tala um Evrur á 130-150 kall, heldur auðveldlega 300 krónur eða meira meðan það versta gengur yfir!
  • Samningur við Evrópusambandið og evrópska seðlabankann um einhverskonar vikmörk á gengi krónunnar, svipað og danska krónan er í núna (sjá þriðju málsgrein). Þessi samningur mun þó í ljósi aðstæðna aldrei verða gerður á neinu sem gæti talist “hagstætt” gengi, en myndi koma í veg fyrir fáránlegt yfirskot í genginu eins og í hinni leiðinni. Þetta myndi augljóslega aldrei vera annað en fyrsta skref í inngöngu í Evrópusambandið og upptöku Evru.

Hvorugt hljómar eins og góður kostur. Annað hvort sjáum við fram á óðaverðbólgu af því sem næst Zimbabveskri stærðargráðu á næstu mánuðum, eða við sitjum við uppi með að krónurnar okkar verða að Evrum á ömurlegu gengi. Aðrar leiðir er erfitt að sjá í stöðunni.

Góð ráð reynast sem sagt dýr – ef þau fást þá yfir höfuð.

“Rétt” gengi krónunnar
Með algeru hruni bankageirans er auðveldara en verið hefur í langan tíma að átta sig á því hvert “rétt” gengi krónunnar er.

Ef allt er eðlilegt og ekki er um stórkostlega fjármagnsflutninga inn og út úr kerfinu að ræða, á gengi gjaldmiðils að stefna nokkurnveginn á það að verðmæti innflutnings og útflutnings sé hið sama – að hinn svokallaði vöruskiptajöfnuður sé u.þ.b. 0.

Hátt gengi krónunnar undanfarin ár hefur stafað af miklu innstreymi fjármagns, bæði í fjárfestingum á borð við Kárahnjúka og Reyðarál og í kaupum á skuldabréfum, “jöklabréfunum” svokölluðu þar sem menn hafa sóst eftir háum vöxtum íslensku krónunnar. Fall krónunnar það sem af er árinu hefur svo stafað af fjármagnsflæði í hina áttina, þegar jöklabréfin hafa verið leyst út – bæði beint og óbeint – og með því að Íslendingar hafa sóst eftir að færa sínar eignir í erlenda gjaldmiðla.

Ef “hrædda fénu” er útrýmt með stóru gjaldeyrisláni (sjá að ofan) er kominn grundvöllur fyrir gengismyndun á grunni vöruskiptajöfnuðar. Hagkerfið verður með öðrum orðum farið að byggja á raunverulegum verðmætum, ekki spákaupmennsku. Aflaverðmæti (verð á fiski * aflamagn), orkuverð, álverð (að stórum hluta til afleitt af orkuverði) og dugnaður, færni og þekking íslensks vinnuafls verða allt í einu það sem skiptir máli.

Þar sem stórlega hefur dregið úr innflutningi (færri Range Roverar og flatskjáir) og útflutningsverðmæti hefur aldrei verið meira (hærra gengi, meiri álframleiðsla, og ál- og fiskverð í sögulegum hæðum þó hvert tveggja fari lækkandi akkúrat þessa mánuði) má gæla við að þetta raungengi íslensku krónunnar sé í kringum gengisvísitöluna 150-160.

Allir fjármagnsflutningar, svo sem er afborganir Íslands af svimandi háum lánum (=lægra gengi) eða fjárfestingar útlendinga hér á landi t.d. í stóriðju, orkufyrirtækjum eða mögulega olíuvinnsluleyfum (=hærra gengi) munu svo raska þessu jafnvægi sem fyrr. Ekki gleyma í þeirri jöfnu að “hærra gengi” er ekki það sama og “betra gengi”.

Niðurstaða greiningardeildar Hjalla
Það virðast vera “tvær mögulegar framtíðir” fyrir okkur núna – að því gefnu að báðar séu opnar. Við ráðum því því miður ekki lengur sjálf. Þessar leiðir eru:

  • Fljótandi króna og stórt erlent gjaldeyrislán, sem þýðir svakalegt tímabundið högg í formi óðaverðbólgu í nokkra mánuði. Því tímabili ætti svo að fylgja “óðaverðhjöðnun” þegar hrædda féð er farið og hefðbundin hagfræði tekur við. Verðbólgan og -hjöðnunin myndu reyndar sennilega mælast umtalsvert hærri en raunveruleg hækkun og lækkun útgjalda þar sem verðbólgumælingar taka ekki nærri strax tillit til breytinga eins og samdráttar í neyslu eða staðgöngu ódýrari vara (pylsur í stað piparsteikur, strætó í stað einkabíls eða núðlusúpa í stað fersks ítalsks ravioli).
  • Upptaka Evru við neyðarskilyrði á arfaslöku gengi m.v. það sem við höfum átt að venjast. Þetta jafngildir í raun stórfelldri niðurfærslu á eignum Íslendinga núna og um ókomna framtíð.

Grafið hér að neðan sýnir þessar tvær leiðir. Tímakvarðinn er viljandi án skala.

Sjálfum hugnast mér betur fyrri kosturinn, jafnvel þó hann líti út fyrir að vera sársaukafullur – að því gefnu að enginn bendi mér á alvarlega ágalla á ofangreindu. Náist þetta jafnvægi hlýtur samt sem áður að vera forgangsatriði að skapa þar eftir stöðugleika í gjaldeyrismálum. Sá stöðugleiki fæst ekki nema með kjölfestu í stærra myntkerfi. Það er orðið svo augljóst að það þarf ekki að ræða það frekar.

Sprotastarfsemi í stormviðri

Þrátt fyrir að bjartsýni sé nauðsynleg, má hún auðvitað ekki vera úr tengslum við raunveruleikann.

Mig langaði þess vegna til að benda á stórgott lesefni sem setur nýsköpun, frumkvöðlastarfsemi og reyndar fyrirtækjarekstur almennt í núverandi þrengingum í ágætt samhengi.

  • Annars vegar er það kynning sem bandaríski VC sjóðurinn Sequoia Capital, hélt fyrir sín fyrirtæki í síðustu viku. Þessi sjóður hefur meðal annars komið snemma inn í fyrirtæki á borð við Apple, Yahoo!, Google og Flextronics, þannig að það er full ástæða til að hlusta á þeirra ráðleggingar. Myndin sem þeir draga upp af hagkerfi heimsins er ekki glæsileg, en þeir leggja líka til punkta fyrir fyrirtækin til að vinna sig framúr því.

  • Hins vegar er það grein Pauls Graham – sprotafjárfestis og frumkvöðuls: Why to Start a Startup in a Bad Economy?, en þar fer hann í gegnum það af hverju fjárfestar og frumkvöðlar ættu (og ættu ekki) að stofna fyrirtæki núna og reyndar af hverju staða efnahagsmála er afgangsstærð í þeirri spurningu.

Sprota og -þekkingarfyrirtæki

Uppfært 29. október, 2008: Söfnun þessarra upplýsinga hefur verið flutt á vefinn Nýsköpun.org. Færslan var uppfærð m.t.t. þess.

Við erum hérna nokkur að reyna að koma saman lista yfir helstu sprota- og þekkingarfyrirtæki landsins. Þetta er gert í því skyni að geta sýnt að þetta sé raunverulega til og eitthvað sem getur vaxið upp úr rústum bankahrunsins.

Listinn er hér. Vefurinn er Wiki-svæði og hver sem er getur breytt þessum lista og bætt við hann með því einu að skrá sig.

Listinn er upphaflega byggður á upplýsingum frá Frjálsri Verslun og er hvorki tæmandi né 100% réttur, en við ætlum að laga það. Endilega skráið upplýsingar um ykkur eða fyrirtæki sem þið vitið um.

Sprota- og þekkingarfyrirtæki á Íslandi

Ástæður til bjartsýni

Óformlegum samtökum bölsýnismanna hefur ekki líkað bjartsýnin í mér síðastliðna viku (meira: 1 | 2) og skorað á mig að nefna dæmi um alla þessa jákvæðu hluti sem eru í gangi eða eru að fæðast.

Gjöriði svo vel.

Þekkingariðnaður
Undanfarin ár hefur þekkingariðnaður utan bankanna hefur verið gersveltur mannafli og sprotastarfsemi skort fjármagn. Ástæðan er tvíþætt:

  • Annars vegar hefur fjármálageirinn sogað til sín hæfasta fólkið með ómótstæðilegum kjörum í því sem virtist öruggt umhverfi. Jafnvel fólk sem vissi að því myndi ekki finnast viðfangsefnin spennandi – og vildu helst vera þarna úti að skapa eitthvað – lét til leiðast, etv. með því hugarfari að njóta þessa ástands meðan það varði, koma sér upp þekkingu og etv. smá sjóði sem seinna mætti ganga á til að eltast við það sem það raunverulega vildi gera í lífinu.
  • Hins vegar voru engir í því að fjármagna frumstig fyrirtækja. Viðkvæðið hjá flestum sjóðum strax árið 2005 var orðið “við fjárfestum ekki fyrir minna en 200 milljónir”. Þessi tala var komin upp í 500 milljónir undir það síðasta. Enginn var hins vegar í því að búa til og hjálpa fyrirtækjum á þann stall að þau væru tilbúin að taka við slíkri fjárfestingu. Ef svo hefði verið, ættum við nú kannski stærri flóru fyrirtækja til að taka við yfirflæði hæfileikafólks út á markaðinn.

Gott er til þess að vita að á þessum tíma hugsuðu þó einhverjir til þessara mála. Nýsköpunarsjóður, lífeyrissjóðir og bankarnir settu fyrr á þessu ári saman sjóðinn Frumtak, með alls 4,6 milljarða króna í stofnfé. Þetta er lang-stærsti sjóður þessarar gerðar sem settur hefur verið upp hér á landi. Þeir báru meira að segja til þess gæfu að ráða reynslumikinn rað-frumkvöðul með viðskiptaþekkingu til að leiða sjóðinn og hugmyndin að sjóðnum er á markaðsforsendum. Sjóðurinn á að ávaxta sig eins og sambærilegir sjóðir og ekki vera litaður byggða-, flokka- eða annarri pólitík, en slíkt hefur viljað brenna við í svipuðu framtaki þegar það hefur verið alfarið á höndum hins opinbera. Þessi sjóður er til, hluti af peningunum hefur þegar verið greiddur inn og stjórnarfundur sjóðsins þar sem taka á afstöðu til fyrstu fjárfestinga hans verður haldinn nú á mánudag.

Því miður hefur skapast einhver óvissa um það hvort sjóðnum sé heimilt að hefja fjárfestingar strax, vegna þess að hann á enn skuldaviðurkenningar frá “gömlu” bönkunum upp á þeirra framlög. Að láta slíkan formgalla stöðva sjóðinn í að veita góðum málum brautargengi núna þegar þörfin er mest, er þó eiginlega óhugsandi. Þetta er alfarið undir Ríkisstjórninni komið og ákvörðunin er einföld. Jafnvel þó hún sem nýr eigandi bankanna dragi þeirra framlög til baka (sem hún ætti ekki að gera) er það eina sem þarf til að koma þó afganginum af þessu fé í umferð að eyða þeirri óvissu. Erfitt er að sjá fyrir sér að einhver stjórnmálamaður láti góma sig við að hafa staðið í vegi fyrir því!

Ég þykist líka hafa fyrir því traustar heimildir að a.m.k. hluta af fyrirsjáanlegum kostnaði Ríkisins vegna uppsagnarfresta og atvinnuleysisgreiðslna verði beint í annan farveg, þ.e. í gegnum fyrirtæki sem vilja ráða þetta fólk til starfa (sjá fyrri færslu).

Þekkingarfyrirtæki sem hafa glöð viljað ráða fólk og stofna til nýrra verkefna undanfarin ár eru því núna allt í einu á 2-3 vikum komin í gerbreytta stöðu: Mikið framboð af fólki, lægri launakröfur og meira að segja fjármagn til að mæta ráðningum og leggja til nýrra verka. Þarna er sko aldeilis kraftur að losna úr læðingi.

Og hvaða fyrirtæki eru þetta svo?

Verne Holdings stendur um þessar mundir í stærstu einstöku fjárfestingu í þekkingariðnaði sem hér hefur verið gerð. Áætlanir þeirra um risa-vélabú (gagnaver) í Reykjanesbæ standa óhikaðar.

Nýju sæstrengirnir Danice og Greenland Connect gera m.a. ofangreint gagnaver mögulegt og munu ýta undir frekari fjárfestingar af þessu tagi.

CCP er í gríðarlega öflugri stöðu. Reikningar félagsins eru ekki opinberir en nærri 300.000 áskrifendur borga þeim að meðaltali á bilinu 11-15$ á mánuði. “You do the math…”

Í miðjum stórstorminum gerðist hið ótrúlega. Fyrirtækið OZ, sem margir muna eftir um aldamótin var selt til Nokia. Óþolinmótt fjármagn og aðlaðandi umhverfi nýsköpunar í Kanada gerði það reyndar að verkum að fyrirtækið var jafnað við jörðu hér heima og endurreist á rústunum þar ytra. Engu að síður eru þar nokkrir öflugir íslenskir frumkvöðlar sem nú hafa efnast vel og munu – ef ég þekki þá rétt – ekki standa aðgerðalausir.

Mörg minni fyrirtæki sem lítið hefur farið fyrir eru líka í ágætum málum og eiga mörg hver enn meiri tækifæri nú en áður. Ég nefni í engri sérstakri röð: Calidris, Dohop, ORF líftækni, Caoz, Gogogic, Marimo og áfram mætti telja. Að auki eru mörg minni fyrirtæki á fyrstu metrunum, þar á meða mitt eigið DataMarket. Ég biðst afsökunar á því að listinn er litaður af fyrirtækjum í upplýsingatækni – en þar þekki ég best til.

Vonandi standa svo stóru þekkingarfyrirtækin okkar: Marel, Össur og Actavis vel að vígi, þrátt fyrir að hafa að einhverju leiti tekið þátt í skuldsettum útrásarævintýrum síðustu missera.

Síðast en ekki síst má ekki vanmeta þann mikla fjölda hugmynda- og hæfileikafólks sem núna stendur á krossgötum og þarf að velta fyrir sér hvað það eigi að gera næst í lífinu. Út úr slikum hugrenningum koma oftast góðir hlutir, þó það kunni að vera erfitt í fyrstu. Úr þessum farvegi mun spretta fjöldinn allur af fyrirtækjum og einhver þeirra munu vaxa og dafna til að verða að stórveldum.

Listir og pólitík
Það er alþekkt að í kjölfar þrenginga og hörmunga verður mikill uppgangur í listum og menningu. Að skrifa bók eða mála á striga kostar ekki mikið og fyrir skapandi fólk sem lendir í þeirri aðstöðu að hafa mikinn tíma og etv. takmörkuð fjárráð er þetta fyrirtaks hobbí. Þannig fer etv. hópur fólks núna í listsköpun sem annars hefði aldrei látið þá hæfileika njóta sín þar sem þeir voru einfaldlega of uppteknir í vinnunni!

Þessu til staðfestingar heyrði ég í vinkonu minni í vikunni sem var í áhrifastöðu í einum bankanna. Framtíðin er enn óljós frá bankans hendi, en hún er ákveðin. Hún ætlar núna að skrifa bókina sem hún hefur svo oft reynt að byrja á í flugvélum og öðrum takmörkuðum tíma sem hún hafði aflögu. Núna verður þessi bók að veruleika. Ég bíð spenntur.

Sömuleiðis heyri ég í sífellt fleira vel gefnu hæfileikafólki sem nú vill fara að láta til sín taka í pólitík. Þetta er fólk sem áður leit á pólitík sem sandkassaleikinn sem hún hefur verið, en að fólkið sem þar væri gæti þó alla vegana ekki gert mikinn skaða. Annað hefur nú aldeilis komið á daginn (þó pólitíkusarnir eigi ekki sökina einir) og fólk sér þörfina til breytinga. Algerrar hreinsunar jafnvel.

Gömlu fyrirgreiðslu- og hagsmunapólitíkusarnir eiga ekki séns ef þetta fólk fer að láta til sín taka. Staðreyndin er sú að stór hluti a.m.k. þess hóps sem ég tilheyri, hefur aldrei átt beinan samhljóm hjá neinum af þeim flokkum sem í boði eru og þess í stað sveiflast á milli illskástu kostanna. Þetta fólk er núna tilbúið að fylkja sér á bakvið nýja valkosti og jafnvel taka þátt af krafti í pólitík sem ekki er í fjötrum sögu þeirra flokka sem fyrir eru.

Mér segir svo hugur um að pólitíkst landslag verði gerbreytt þegar við förum að sjá fram út úr mesta moldviðrinu.

– – –

Þetta er meðal þess sem gefur mér tilefni til bjartsýni.