íslenska

Icesave-reiknir leiðréttur

Eftir ábendingu frá vökulum notanda, fundum við villu í Icesave-reikninum sem DataMarket setti í loftið í samvinnu við mbl.is í síðustu viku. Sjá fyrri færslu.

Villan gerði það að verkum að áhrif breyttrar kröfuraðar voru ofmetin í þeim tilfellum þegar endurheimtar eignir Landsbankans verða verulegar. Þetta hefur nú verið leiðrétt.

Að öðru leiti stendur reiknilíkanið óhaggað. Allar skýringar eru óbreyttar og eftir sem áður réttar.

DataMarket – sem ber ábyrgð á reikniverki Icesave-reiknisins – biðst afsökunar á þessum mistökum.

Áhrifin eru umtalsverð. Breytingin frá grunnforsendum, við það að breyta kröfuröðinni er 87,8 milljarðar króna nú í stað ríflega 200 milljarða áður. Frávik í öðrum dæmum fara – eins og segir í tilkynningunni – eftir því hve mikið af eignum Landsbankans endurheimtast.

Leiðrétting þessa efnis mun birtast á mbl.is í fyrramálið.

Þetta særir stoltið auðvitað töluvert. Ástæðuna fyrir því að þessi villa slæddist með má rekja til ónógra prófana áður en reiknirinn fór í loftið, en forsendurnar og útreikningarnir eru – eins og sjá má í útskýringum við reikninn – býsna margslungin.

Rétt skal vera rétt og við lærum af þessum mistökum.

Icesave reiknir mbl.is og DataMarket

Fyrr í kvöld var sett í loftið gagnvirk fréttaskýring um Icesave skudbindingarnar á mbl.is. Þetta er reiknivél þar sem lesa má skýringar við helstu álitaefni og óvissuþætti í samningnum og sjá hvaða áhrif breyttar forsendur hafa á skuldbindinguna sem ríkið tekst á hendur með samningnum, endurheimtur eigna og greiðsludreifinguna svo eitthvað sé nefnt.

Reiknirinn er samstarfsverkefni DataMarket (sem ég rek ásamt litlum hópi snillinga) og mbl.is. Smellið á myndina til að skoða reikninn:

Icesave reiknir

Ég er ekki síður stoltur af þeim skýringum sem settar eru fram með forsendunum, en sjálfum reikninum. Sérstaklega held ég að okkur hafi tekist að koma ágreiningnum um forgang krafna í skiljanlegan búning með þessari kynningu sem birt er í skýringum við þann lið reiknisins:

Ég vona að reiknirinn reynist hjálplegur við að skilja þetta stóra og flókna mál og mynda sér skoðun á því. Gagnrýni er að sjálfsögðu velkomin.

Drög að ávarpi Steingríms J. til Breta og Hollendinga

Ég gerði mér það að leik að setja saman drög að ávarpinu sem Steingrímur Joð þarf að flytja og koma að í alþjóðlegum fjölmiðlum á næstu dögum. Ekki hika við að koma með tillögur að úrbótum:

– – –

Dear Wouter Bos and Alister Darling,

The Icelandic parliament has today rejected the agreements on the resolution of the Icesave dispute that our negotiation teams had put together and I had signed pending the approval of the parliament.

I want to make clear that this does not mean that we reject our responsibilities for the failure of the Icelandic banks and the consequences to British and Dutch depositors. On the contrary, I want to reassure you that the Icelandic government will fulfill its obligations according to EU and EEC law and guarantee the minimum amount stated in the respective directive. If there has been any doubt whether Icelanders are required by law to do so, we are certainly required to do so morally as the heads of our government had on numerous occasions reassured financial authorities, governments and even depositors themselves that the banks were backed by the government and – furthermore – painted an unrealistic picture of the health of the Icelandic banking sector.

Icelanders are people of their words. Any government minister at any time speaks on behalf of the nation, and therefore we will honor those commitments regardless of any legal ambiguities.

A thorough discussion in parliament committees, opinions from leading specialists and heated debates among the Icelandic public has revealed that the current agreement is unacceptable.

Our negotiation team made a mistake in agreeing to it before all the facts had been put straight, and for that I apologize.

First of all, the agreement puts more responsibilities on the Icelandic government than we are required by law or our officials have ever committed to in any way. Secondly, the burden it puts on the Icelandic nation more than it will be able to handle.

It is therefore in the interest of all parties involved to sit down again and renegotiate. The terms that need changing are:

  • That the assets of Landsbanki will first serve the minimum guarantee of EUR 20,887 per depositor account BEFORE they are used to cover the further guarantees of GBP 50,000 and EUR 100,000 made by the governments of the United Kingdom and the Netherlands respectively at their own choice.
  • That the order of affairs in the event of Iceland’s failure to meet the terms of the agreement will be clarified.

I propose a personal meeting between the three of us at the earliest possible opportunity to sort out the big picture, so that we can have an updated agreement before our parliament within a few days, and then start working towards rebuilding our nations’ relationships.

Yours truly,
Steingrimur J Sigfusson,
Minister of Finance
Iceland

Þróun búsetu á Íslandi

DM-iconHjá DataMarket erum við alltaf að fikra okkur áfram í meðhöndlun og framsetningu ólíkra gagna.

Áherslan hjá okkur þessa dagana er mikið á íslenskum efnahags- og þjóðfélagsgögnum, enda stefnum við á að opna svokallað Gagnatorg um íslenskan efnahag innan skamms.

Við ákváðum að æfa okkur aðeins í framsetningu landfræðilegra gagna og reyna að gera breytingum á búsetu landsmanna síðustu öldina skil.

Gögnin sem við unnum með að þessu sinni voru mannfjöldatölur eftir sveitarfélögum sem Hagstofan heldur utan um. Afraksturinn má sjá í vídeóinu hér að neðan. Hver hringur á kortinu táknar s.s. eitt sveitarfélag og stærð hans (nánar tiltekið flatarmál) fólksfjöldann. Þar sem sveitarfélög hafa bæði sundrast og sameinast á þessum tíma, segir vídeóið einnig nokkra sögu um þá þróun, ekki síst undir það síðasta, en miklar sameingar hafa átt sér stað síðasta rúma áratuginn.

Að túlka íbúafjölda sveitarfélags í einum punkti er auðvitað aldrei yfir vafa hafið og segir aðeins hálfa söguna. Reyndar dreymir okkur um að útbúa síðar annað vídeó sem segi sýni eiginlega búsetuþróun miklu nákvæmar og betur, en það þarf að bíða – a.m.k. um hríð.

Smellið á myndina hér að neðan til að opna myndbandið í fullum gæðum.

Á glænýju bloggi DataMarket má svo finna nánari upplýsingar um það hvernig myndbandið var unnið, hvaðan gögnin eru fengin, hvernig þau voru unnin og svo framvegis.

urbanization

100 dagar – tilraun í “opnu aðhaldi”

sjs-jsÞann 11. maí kynnti ný ríkisstjórn stjórnarsáttmála sinn og samhliða honum aðgerðaáætlun yfir verkefni sem hún hyggðist ljúka á fyrstu 100 dögum stjórnarsetunnar. Að flestu leyti eru svona vinnubrögð til fyrirmyndar: gagnsemi “to-do” lista er margsönnuð og þarna voru að auki sett fram mælanleg og nokkuð skýr markmið fyrir fyrstu skref nýrrar stjórnar.

Ég ákvað því að gera smá tilraun með áhrifamátt netsins og “opins aðhalds” við ríkisstjórnina og setti samdægurs upp einfalda vefsíðu þar sem atriðin á voru listuð og dagarnir taldir niður. Síðan þá hef ég merkt við atriði eftir því sem þau hafa verið kláruð og ég hef orðið þess var. Þannig er hægt að fylgjast með því hver staðan í þessum aðgerðum er á hverjum tíma.

Þetta hefur verið mjög áhugaverð tilraun. Alls hafa hátt í 20þús manns skoðað listann og ég hef fengið fjöldan allan af tölvupóstskeytum um atriði sem er lokið, álitaefni og aðrar ábendingar. Þessi skeyti hafa spannað allt litrófið bæði í pólitík og samfélagsstöðu. Þannig veit ég fyrir víst að fylgst er með þessum lista af þingmönnum, aðstoðarmönnum ráðherra, stjórnarandstæðingum og fólki sem hefur (greinilega) afar heitar skoðanir á þjóðfélagsmálum.

Tvívegis hefur stjórnin svo sent frá sér tilkynningar um það hvernig þeim miði í að vinna niður þennan aðgerðalista. Sú fyrri (sem reyndar var frétt á RÚV, en nokkuð örugglega byggð á tilkynningu frá forsætisráðuneytinu) birtist þann 30. maí síðastliðinn. Þar sagði að 10 atriðum af 48 væri lokið. Þá hafði ég aðeins merkt við 4 atriði á listanum og þetta kom mér því nokkuð á óvart. Ég lagðist yfir listann og leitaði heimilda um þessi 10 atriði. Viðmiðunin var sú að til að atriði teldist lokið væri hægt að finna á helstu fréttamiðlum eða vefmiðlum stjórnarráðsins staðfestingu á því að atriðinu væri sannanlega lokið. Niðurstaðan var sú að í 4 tilfellum af þessum 10 fann ég engar heimildir – aðrar en frétt RÚV – um að svo væri í raun og veru.

Síðari tilkynningin barst nú á föstudaginn. Þar segir að 21 atriði af 48 sé lokið. Ég fór yfir þennan lista með sama hætti og komst að því að mér höfðu sannanlega yfirsést nokkur atriði sem lokið hefur verið við eða tilkynnt um síðustu daga. Hins vegar get ég alls ekki kvittað undir 21 atriði. Mín niðurstaða er sú að 15 atriðum sé lokið.

Viðmiðunin er – sem fyrr sagði – að hægt sé að finna staðfestingu á því að verkefnunum sé lokið, en sömuleiðis virðist stjórnin túlka “aðgerðir” nokkuð duglega sér í hag. Hér er útlistun á þeim atriðum sem orkuðu tvímælis í mínum huga, þar á meðal þeim 6 þar sem ég er ósammála túlkuninni í tilkynningu stjórnarinnar:

  • Liður númer 5 í tilkynningu ráðuneytisins segir að ríkisstjórnin hafi “Stóraukið samráð við hagsmunasamtök á vinnumarkaði þar sem skipst hefur verið á skoðunum um ríkisfjármál, atvinnumál og stöðugleikasáttmála.” Þetta atriði er ekki á hinum upphaflega lista. Þar er aftur á móti #31: “Samráðsvettvangur ríkisstjórnar, sveitarfélaga, landbúnaðarins og aðila vinnumarkaðarins settur á fót.” Er þetta sami punkturinn? Eru fulltrúar sveitarfélaga og landbúnaðarins með í þessu “stóraukna samráði”? Vísar þetta til viðræðna um stöðugleikasáttmálann svokallaða?
    Niðurstaða: Ég gef þessu – þar til þessi orðalagsbreyting hefur verið útskýrð.
     
  • Atriði númer 6 í tilkynningunni segir að stjórnin hafi “Hafið vinnu við gerð yfirlits um stöðu og þróun lykilstærða í samfélaginu til að skilgreina vanda samtímans og framtíðarvalkosti í mikilvægum málaflokkum.” Þetta samsvarar atriði #47 á upphaflega listanum. Ég gat ekki fundið neinar heimildir aðrar en fréttatilkynningar stjórnvalda um að þessu atriði væri lokið. Hvað er verið að gera? Hver er að gera það? Hvar getum við fylgst með þessari vinnu?
    Niðurstaða: Ekki merkt við.
     
  • Atriði númer 14 í tilkynningu ráðuneytisins segir að stjórnin hafi “Skipað starfshóp til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða með þátttöku allra stjórnmálaflokka á Alþingi og fjölmargra hagsmunasamtaka.” Þetta samsvarar punkti #7 í upphaflega listanum sem hljóðar einfaldlega svo: “Endurskoðun hafin á fiskveiðistjórnunarkerfinu.” Besta heimild sem ég fann um aðgerðir tengdar þessu atriði var tilkynning sjávarútvegsráðuneytisins frá 5. júní. Þar segir að “Jón Bjarnason [hafi] ákveðið að skipa starfshóp um endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar” og að “eftirtöldum aðilum verið boðið að tilnefna fulltrúa í starfshópinn…”. Ég get ekki fallist á það að þetta þýði að endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins sé hafin. Starfshópurinn hefur eftir því sem næst verður komist ekki einu sinni verið skipaður og þar með engin vinna hafin.
    Niðurstaða: Ekki merkt við.
     
  • Atriði númer 15 í tilkynningunni segir að stjórnvöld hafi “Lagt fram náttúruverndaráætlun til ársins 2013 til þess að stuðla að traustri verndun íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd á Íslandi.” Þetta samsvarar atriði #39 á upphaflega listanum: “Náttúruverndaráætlun til ársins 2013 lögð fram á Alþingi.” Reyndin er sú að þessi áætlun var lögð fram í desember 2008 og ef marka má feril málsins á vef Alþingis hefur ekkert verið hreyft við þessu máli á yfirstandandi þingi og þar með ekki á starfstíma núverandi ríkisstjórnar. Það er líklega rétt að merkja við þetta atriði, en erfitt fyrir starfandi ríkisstjórn að eigna sér heiðurinn af því.
    Niðurstaða: Merkt sem lokið, en um leið útskrifað sem ódýrasta aðgerð stjórnarinnar á listanum – henni var lokið áður en stjórnin tók til starfa 🙂
     
  • Atriði númer 17 í tilkynningunni: “[Ríkisstjórnin hefur] hafið vinnu við endurskoðun upplýsingalaga til að auka aðgengi almennings og fjölmiðla að opinberum upplýsingum.” samsvarar atriði #22 á upphaflega listanum: “Endurskoðun hafin á upplýsingalögum í því augnamiði að auka aðgengi almennings og fjölmiðla að upplýsingum stjórnarráðsins.” Samkvæmt þessari frétt forsætisráðuneytisins frá 22. maí, sýnist mér að um þetta gildi hið sama og um atriði 14. Í frétt ráðuneytisins felst ekkert nýtt. “Ákvörðun” ríkisstjórnarinnar þann 19. maí var að gera það sem hún var þegar búin að segjast ætla að gera í 100 daga áætluninni. Nefndin hefur – skv. því sem næst verður komist – ekki verið skipuð og því ekki hægt að segja að vinna við endurskoðun þessarra laga sé hafin.
    Niðurstaða: Ekki merkt við.
     
  • Atriði númer 18 í tilkynningunni segir að stjórnin hafi “Hafið vinnu við mótun menningarstefnu til framtíðar í samráði við listamenn.” Þetta samsvarar atriði #42 á upphaflega listanum. Í menntamálaráðuneytinu hefur verið starfrækt svokölluð Skrifstofa menningarmála að minnsta kosti frá árinu 2004. Meðal hlutverka hennar er að “[undirbúa] mótun menningarstefnu, [hafa] umsjón með framkvæmd hennar og annast almenna stjórnsýslu á sviði menningarmála.” Það væri því býsna ódýrt að telja það til afreka nýju ríkisstjórnarinnar. Um það að þessi vinna hafi breyst eða hún tekin til endurskoðunar í tíma nýrrar stjórnar get ég engar heimildir fundið á vefjum stjórnarráðsins eða fréttamiðlum og því ómögulegt að sannreyna að eitthvað hafi verið gert í þessu máli.
    Niðurstaða: Ekki merkt við fyrr en skýrt hefur verið hver munurinn er á áformum stjórnarinnar og þeirri vinnu sem þegar var í gangi. Ef sá munur er ekki til staðar má merkja við þetta atriði, en þá lendir það í harðri samkeppni við náttúruverndaráætlunina um ódýrasta bragðið á listanum.
     
  • Atriði 21 í tilkynningunni segir að stjórnin hafi “Tekið ákvörðun um eigendastefnu og eignarhald bankanna í ríkisstjórn.” Þetta samsvarar atriði #3 í upphaflega listanum. Þetta er gott að heyra – stórtíðindi reyndar – en ómögulegt að sannreyna fyrr en þessi ákvörðun hefur verið gefin út og birt almenningi. Ég get því ekki merkt við þennan lið – en ólíklegt að það fari framhjá manni þegar ákvörðunin sem sagt er að liggi fyrir verður kynnt!
    Niðurstaða: Ekki merkt við.

Okkur ríkisstjórninni ber s.s. ekki alveg saman um framgang hennar. Að hluta til er um túlkunaratriði að ræða, í einhverjum tilfellum segist stjórnin vera búin með atriði sem hún hefur/getur ekki sagt okkur frá og í einhverjum tilfellum er líklega bara um skort á upplýsingagjöf stjórnarinnar – eða leitarhæfileikum mínum að ræða.

Tilraunin heldur augljóslega áfram næstu 65 dagana og ég er nokkuð viss um að það á fleira áhugavert eftir að koma út úr henni. Ábendingar, hugmyndir og gagnrýni velkomin.

Framtíð og gengi íslensku krónunnar

picture-9Framtíð og gengi krónunnar er ein af stærstu spurningunum núna í endurreisninni, enda snertir þetta mál svo að segja alla aðra þætti sem máli skipta: skuldastöðu þjóðarbúsins, stöðu heimila og fyrirtækja, efnahag bankanna, vísitölu neysluverðs og svo framvegis.

Það skiptir því ekki litlu máli að reyna að átta sig á hvaða þættir munu ráða genginu og hvað verður um krónugreyið.

Ég skrifaði reyndar pistil í þessa veru upppúr miðjum október, sem mér sýnist hafa staðist tímans tönn ágætlega og standi að miklu leiti fyrir sínu þó margt hafi skýrst síðan þá. Það eru einna helst lokaorðin – þar sem ég fullyrði að stöðugleiki fáist aðeins með tengingu við stærra myntkerfi – sem ég er ekki alveg jafn viss um og áður. Það stafar að hluta til af þeirri vantrú sem ég hef öðlast á þá peningamálastjórnun sem flestar myntir heimsins notast við, en að hluta til af því að ég hef þá trú að litlar myntir geti nýst litlum hagkerfum betur en stórar EF rétt er haldið á spilunum.

(Það er hérna sem þið eigið að hrista hausinn í vantrú og hneykslan á vitleysunni í mér og gefa mér svo séns og lesa áfram)

Ekki sama króna og króna

Það sem við höfum kallað “íslensk króna” eru í rauninni margar myntir. Íslenska krónan lýtur þeirri gengis- og peningamálastefnu sem rekin er hverju sinni. Íslenska krónan sem lagði upp laupana í október síðastliðnum var tekin upp í mars 2001 þegar Seðlabankinn tók upp svokallað verðbólgumarkmið. Hún náði því aðeins 7 og 1/2 árs aldri.

Íslenska krónan sem við búum við núna í gjaldeyrishöftunum er svo önnur mynt. Ekkert vit er að reyna að lesa eitthvað í hreyfingar á skráðu gengi þeirrar krónu frá degi til dags. Til þess að átta okkur á því sem “markaðurinn er að segja” þyrftum við að vita hver er að kaupa, hver er að selja og hversu mikið. Sérstaklega skiptir máli hversu mikið Seðlabankinn tekur þátt í þessum viðskiptum.

Fram til 2001 setti Seðlabankinn sér ákveðin vikmörk í gengi krónunnar, þar áður voru önnur viðmið og svo koll af kolli. Sennilega hefur hin “íslenska króna” sem fyrst kom fram sem sjálfstæð mynt 1918 (hafði áður verið tengd dönsku krónunni) gengið í gegnum 10-20 tímabil mismunandi peningastjórnunnar og er því í raun rétt að tala um að 10-20 mismunandi gjaldmiðlar hafi verið hér í gangi síðan þá.

Þessar mismunandi stefnur í peningastjórnun eru mannanna verk og það erum við – Íslendingar – sem ráðum því hvernig henni er stýrt á hverjum tíma. Því miður höfum við ekki borið gæfu til að detta niður á góða leið í þessum málum, en við vitum þó a.m.k. um nokkrar útfærslur sem við ætlum hér eftir að forðast!

Næsti gjaldmiðill sem tekinn verður upp á Íslandi verður nefnilega ekki Evra, heldur enn ein útgáfa af íslenskri krónu. Þarna gildir einu hvort sótt verður um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Krónuna þarf fyrr en seinna að leysa úr gjaldeyrishöftunum, við munum búa við þá stefnu í a.m.k. 5 ár (líklega mun lengur) og það skiptir gríðarlega miklu máli hvaða aðferð verður þá fyrir valinu.

Helstu markmiðin við það val eru líklega:

  • Að stefnan hjálpi til við þá endurreisn sem framundan er á næstu árum.
  • Að koma í veg fyrir spákaupmennsku með gjaldmiðilinn.
  • Að hindra of hraðar breytingar í genginu, en jafnframt hafa sveigjanleika til að bregðast við langtíma breytingum á efnahag þjóðarinnar.
  • Að uppfylla skilyrði EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns.

Vafalaust eru þessi markmið eitthvað fleiri.

Jafnvægis- og raungengi

Áður en lengra er haldið skulum við skoða tvö hugtök sem stundum koma upp í umræðunni, en fæstir vita hvað þýða í raun. Þetta eru hugtökin jafnvægisgengi og raungengi. Hvort tveggja eru tilraunir til að meta hvert “rétt gengi” gjaldmiðils er ef allt væri með felldu.

Í stuttu máli segir kenningin um raungengi að verð á samskonar vörum og þjónustu ætti alltaf að vera það sama milli landa, annars myndu einstaklingar nýta sér verðmuninn til hagnaðar. M.ö.o. ef verðlag t.d. hér á landi yrði áberandi hærra en í nágrannalöndunum myndi það þýða aukna verslun okkar erlendis (eða búferlaflutninga úr landi) og minnkandi áhuga útlendinga á að versla hér. Með sama hætti: ef verðlag hér yrði áberandi lægra þýddi það aukna verslun heima fyrir og aukinn áhuga útlendinga á verslun hér. Við höfum svo sannarlega séð þessar kenningar standast ágætlega síðustu mánuðina og jafnvel árin.

Hugtakið jafnvægisgengi virðist reyndar nokkuð á reiki og er stundum notað um raungengi eins og því er lýst hér að ofan. Sú merking sem ég á við er það gengi krónunnar sem veldur því að viðskiptajöfnuður við útlönd sé sem næst núlli. Með öðrum orðum, það gengi sem veldur því að tekjur okkar frá útlöndum séu sem næst gjöldum okkar til útlanda. Þarna spila inn í útflutningur og innflutningur, kaup og sala á þjónustu og síðast (en í okkar tilfelli alls ekki síst) fjármagnstekjur og -gjöld.

Reyndar leitast jafnvægis- og raungengi eins og þeim er lýst hér líklega við sama – eða mjög svipað – gengi til lengri tíma, en tímabundnar aðstæður geta valdið því að svo sé ekki (t.d. mikið streymi fjármagns í aðra hvora áttina, snöggar breytingar á inn- eða útflutningi o.s.frv.).

Þetta eru sem sagt mér vitanlega helstu kenningar um “rétt gengi” gjaldmiðla. Og hvert skyldi þá rétt gengi íslensku krónunnar vera? Seðlabankinn er svo vinsamlegur að mæla raungengi krónunnar. Hér má sjá þróun þess síðasta áratuginn:

raungengi-isk

Þessi mæling segir sem sagt til um það hvernig verðlag hér hefur þróast samanborið við nágrannalöndin. Eins og sjá má er raungengið í algeru sögulegu lágmarki og því full ástæða til að ætla að það ætti að styrkjast mjög verulega frá núverandi skráðu gengi. Tekið skal fram að vísitalan miðast eingöngu við verðlag eins og það var hér á landi í janúar 2000 og er því ekkert endilega “réttara” en annað. Meðaltal vísitölunnar þessi 10 ár er reyndar 99,6 – eða furðunærri upphafspunktinum.

Gengisfallið nú hefur valdið því að verðlag hér er verulega lægra en erlendis. Verðlag hér var klárlega verulega mikið hærra t.d. árið 2007. Raungengið liggur því þarna á milli, en útreikningur á “réttu raungengi” er mjög flókinn þar sem ekki er til nein samræmd neysluverðsmæling. Gefum okkur að gildið 90 færi nærri því að sýna sambærilegt verðlag hér og í helstu nágrannalöndum (þetta væri gagnlegt að reikna út á mun nákvæmari hátt).

Gamla góða gengisvísitala krónunnar væri skv. því nálægt 150 sem myndi þýða að Evran væri á 117, Dollarinn á 88 og Pundið á 130.

Það er hins vegar tvennt sem kemur í veg fyrir að jafnvægisgengið sé eins álitlegt:

  • Hræddu krónurnar” sem nefndar voru í fyrri færslu, þ.e. fjármagn sem útlendingar eiga í íslenskum krónum (t.d. jöklabréfum, öðrum krónubréfum og innistæðum) og svo að einhverju marki hræddar krónur Íslendinga sem ætla að skipta sínum fjármunum að einhverju eða jafnvel öllu leiti í erlenda mynt um leið og færi gefst vegna vantrúar sinnar á íslenskri efnahagsstjórnun.
  • Afborganir og vaxtagreiðslur af erlendum skuldum Íslendinga, þar sem þær greiðslur munu augljóslega þurfa að fara fram í erlendri mynt og mynda því streymi fjármagns úr landinu. Skuldir Íslendinga hver við annan í íslenskum krónum skipta engu í þessu samhengi. (Reyndar held ég að það sé hægt að eiga miklu meira við þær og stokka þær meira upp á nýtt en verið hefur í umræðunni – en það er mál í aðra færslu). Hér er auðvitað átt við skuldastöðu þjóðarinnar í heild, þ.e. ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og heimila við erlenda aðila – ekki bara skuldir Ríkisins, sem mest hafa verið í umræðunni og mér sýnist reyndar ætla að verða tiltölulega viðráðanlegar.

Þetta eru semsagt þau atriði sem þarf að skýra til að átta sig á því hversu langt frá raungenginu gengi krónunnar ætti að vera á næstu misserum. Hér skiptir miklu máli hversu vel tekst til í ýmiskonar samningum. Margt bendir til að styttist í land hvað varðar erlendu fjármagseigendurna. Sú lending mun væntanlega hleypa þeim mest “desperat” út á mjög lágu gengi en festa þolinmóðara fé ýmist í lengri skuldabréfum hér á landi eða jafnvel í fjárfestingum í uppbyggingu (þá vona ég að hugmyndir Guðjóns Más um endurreisnarsjóð nái eyrum þeirra sem ráða).

Sömuleiðis virðist hylla undir samninga varðandi Icesave lánið (sem n.b. hefur mér vitanlega ekki enn verið veitt og hefur skv. því enn ekki kostað okkur krónu), en enn er mörgu ósvarað um aðra þætti sem skipta máli í þessu samhengi.

Næsta króna

Nú er ég bara leikmaður í þessu öllu saman, en ég sé ekki annað en það sé til tiltölulega einföld lausn sem uppfylli öll fyrr talin markmið og sé að auki tiltölulega einföld í framkvæmd.

Næsta króna verði einfaldlega miðuð við það að halda genginu rétt fyrir neðan jafnvægisgengi á hverjum tíma. Sem sagt að tryggja að í hverjum mánuði komi örlítið meiri gjaldeyrir til landsins en fari úr landi og hjá þjóðinni safnist smám saman upp gjaldeyrisforði. Þetta getur gerst á frjálsum og opnum markaði, með inngripum Seðlabanka ef markaðurinn leitar langt út fyrir þetta jafnvægi, enda á hann alltaf að hafa efni á því þar sem forðinn er verulegur nú þegar og mun að jafnaði aukast mánaðarlega með þessum aðgerðum.

Þetta mun þýða það að gengi krónunnar verður lágt fyrst um sinn meðan mestu afborganirnar fara fram af skuldunum, en gengið mun svo smám saman stefna á raungengið sem að ofan var nefnt.

Hvaða leið sem verður farin er a.m.k. ljóst í mínum huga að það má alls ekki negla gengið við neitt, hvorki vikmörk við Evru í tenglsum við inngöngu í ESB, annan gjaldmiðil né myntkörfu nema sá nagli sé nálægt raungenginu. Þangað mun gengið nefnilega sigla á endanum, þegar okkur hefur tekist að taka til eftir fyrrum valdhafa og aðra óráðsíumenn – þá sem fæddu af sér og hina sem svo myrtu – síðustu íslensku krónu.

Framtíðarsýn Íslands, endurreisn og uppbygging

Guðjón Már félagi minn hefur verið að vinna frábæra vinnu með Hugmyndaráðuneytið undanfarna mánuði, ásamt öllu því hæfileikaríka fólki sem hefur gefið sig að verkefninu með honum.

Hann er núna búinn að setja saman myndbönd sem lýsa þem hugmyndum sem þar hafa myndast um nauðsyn þess að Íslendingar hafi framtíðarsýn og hvernig endurreisn og uppbyggingu hér gæti verið háttað næstu ár.

Þetta er algert skylduáhorf fyrir alla sem láta sig framtíð Íslands einhverju varða:

Myndböndin á vef Hugmyndaráðuneytisins

Hægrimaður velur Vinstri Græn

picture-2Ég hef alltaf haft þann djöful að draga að þurfa að mynda mér mínar eigin skoðanir og geta ekki bara fylgt einhverri línu.

Gróft á litið aðhyllist ég kapítalisma og frjálshyggju þó ég hafi efasemdir um þær útfærslur sem beitt hefur verið síðustu áratugi. Ég trúi því samt að með breytingum og aðlögun muni þessar grunnstefnur mæta öðrum helstu lífsgildum mínum, þ.e.: jafnrétti, heiðarleika og varfærinni nýtingu náttúruauðlinda.

Þegar liðið hefur að kosningum hef ég reynt að átta mig á því hvaða flokkur eða framboð mér finnst líklegastur til að veita þessum lífsskoðunum mest brautargengi. Að vandlega íhuguðu máli, þá sýnist mér að í kosningunum eftir viku sé atkvæði mínu best varið til VG! Hvernig í ósköpunum má það vera?

Hér er smá úttekt á þeim kostum sem ég tel yfirhöfuð koma til greina, svona nokkurnveginn í vinsældaröð eins og hún er í kollinum á mér núna:

  • Sjálfstæðisflokkurinn: Þetta er flokkurinn sem ég kaus í allmörgum kosningum eftir að ég yfirhöfuð fór að fylgjast með pólitík. Í orði er þetta líklega sú stefna sem liggur næst mínum lífsskoðunum: Frjáls markaður, lágir skattar, lítil ríkisumsvif o.s.frv. Í verki hafa Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks bara alls ekki sýnt þetta – satt að segja bara þvert á móti. Vitlaus stefna í atvinnu- og peningamálum síðustu ár, aðgerðaleysi í kjölfar hrunsins, viljaleysi til að horfast í augu við eigin mistök, hagsmunapot, baktjaldamakk og sterkar vísbendingar um hreina spillingu útiloka flokkinn alveg núna og þangað til hann tekur duglega til í sínum ranni. Ég gafst upp á þeim útaf Árna Johnsen á sínum tíma. Það mál gaf einfaldlega merki um að það væri eitthvað miklu meira að þarna, eins og síðar hefur komið á daginn. Loks er mannvalið bara alls ekki sannfærandi núna – þrátt fyrir einstaka undantekningar.
  • Framsóknarflokkurinn: Á tímabili í upphafi árs var ég á því að hér væri virkilega eitthvað gott að gerast. Ný forysta, ferskur og sannfærandi, nýr leiðtogi og loforð um breytingar. Eini gallinn var mjög svo vafasöm fortíð flokksins: Framsóknarflokkurinn var enn Framsóknarflokkurinn, sem síðan hefur einmitt komið á daginn. Þetta er enn sami gamli flokkurinn og breytingarnar engar. Þetta sannaðist endanlega þegar nýr formaður gat ekki einu sinni fylgt eftir áskorun í beinni útsendingu til eigin flokksmanns um að veita innsýn í prófkjörsbókhaldið sitt. Hann var þá ekki leiðtogi eftir allt saman. Og hvað var að gömlu Framsókn? Íraksstríðið, stóriðjustefnan, Alfreð Þorsteinsson, Finnur Ingólfsson, S-hópurinn, Orkuveitumálið, … á ég að halda áfram?
  • Borgarahreyfingin: Eina ferska blóðið í framboði. Það eitt og sér er stór kostur, en því miður ekki nægjanlegt. Margt gott í stefnunni, en ef til vill fullmikil reiði í gangi. “Frysting á eignum grunaðra auðmanna” er hugarfar sem hræðir mig. Það eru þegar ákvæði í lögum um frystingu eigna við rannsókn sakamála og þeim verður að sjálfsögðu beitt innan þess ramma sem þar býðst. Niðurfærsla vísitölu, afnám verðtryggingar og upptaka annars gjaldmiðils eru allt hlutir sem fólki finnst gott að heyra, en eru mjög flókin mál sem þarf að nálgast með mun meiri varfærni en fram kemur í stefnu flokksins. Ég er ekki viss um að frambjóðendur þeirra, sem upp tilhópa eru strangheiðarlegt og ágætt fólk, hafi fullkominn skilning á því hvaða vandamál er þar við að etja.
  • Samfylking: Flokkurinn sem ég myndi kjósa ef ekki væri fyrir tvennt: Samþykkt laga um fjárfestingasamning vegna álversins í Helguvík og afdráttarlausa afstöðu flokksins til Evrópusambandsins.

    Ef síðustu 5 ár hafa kennt okkur eitthvað, er það hversu óholl óhófleg áhersla á einstök verkefni eða greinar getur verið. Álversframkvæmdirnar fyrir austan settu af stað atburðarásina sem styrkti krónuna, blés út bankana og sprakk svo fyrir hálfu ári síðan. Eftir stöndum við með sama kaupmátt og fyrir framkvæmdirnar (og fallandi), margfalt meira atvinnuleysi (og vaxandi), miklu meiri skuldir (og óvissu), gjaldmiðil í henglum og það að 80% af raforkuframleiðslu okkar (og vaxandi) fara í starfsemi sem við erum að öllum líkindum að borga með þessi misserin. Á sama tíma náði önnur heilbrigð uppbyggingarstarfsemi ekki að njóta sín. Með Helguvík og Bakka er eins og menn ætli að lækna sárið á hálsinum með sömu fallexinni og Samfylkingin í þetta sinn í broddi fylkingar. Jæks!

    Í Evrópumálunum er ég efasemdamaður. Ekki andvígur, en afar varkár. Ég er ekki einu sinni sannfærður um að það sé rétt að fara í aðildarviðræður til að skoða hvað er í boði á meðan við erum “hnípin þjóð í vanda”. Við munum þurfa að komast upp úr mestu lægðinni á eigin spýtur og þó að stefnan inn í Evrópusambandið eyði etv. einhverri óvissu núna, þá munum við ekki fá að ganga þar inn fyrr en við þurfum ekki lengur á því að halda. Þegar þar að kemur eru framtíðarhorfur okkar bjartar hvort sem er utan eða innan sambands og það hversu ólíkt Ísland er Evrópu almennt (ég læt mér nægja að nefna aldurssamsetningu og auðlindir) fær mig til að efast um að okkar hag sé best borgið þar. Reyndar hef ég, eins og sagt var í upphafi, efasemdir um framtíð þeirrar tegundar hagfræði sem stunduð hefur verið um nær allan heim síðustu áratugi og held því að Evran eigi sér ekki framtíð frekar en aðrir gjaldmiðlar þeirrar stefnu. Evran er því slæm sem meginrök þess að ganga í sambandið.

    Loks þykir mér Samfylkingin hafa komist fulllétt frá þeirri ábyrgð sem hún ber sem annar tveggja stjórnarflokka í lokaaðdraganda hrunsins, þegar enn voru ótal tækifæri til að lágmarka skaðann.

  • Vinstri Græn: Ég er sammála þeim í málefnum stóriðjunnar. Ég er sammála þeim í Evrópumálum. Ég er meira að segja sammála þeim í málum sem einu sinni skiptu mig miklu máli eins og varðandi aðskilnað Ríkis og Kirkju. Ég er samt í grófum dráttum ósammála vinstri mönnum almennt og þar með mjög mörgu í stefnu VG, en ég treysti þeim og þau eru heiðarleg. Katrín Jakobs og Steingrímur Joð eru einu stjórnmálamennirnir sem hafa “gerst sekir” um það að segja óþægilegan sannleikann eins og hann blasir við og það met ég ósegjanlega mikið. Þetta gefur mér fyrirheit um nýja tíma í stjórnmálum – tíma gegnsæis og heiðarleika.

    Heimurinn er orðinn býsna öfugsnúinn þegar það þarf vinstra fólk til að taka til í ríkisfjármálunum eftir þenslu og hagstjórnarmistök hægri manna! En þannig er það og ég held að þau séu rétta fólkið til þess. VG mun komast upp með að lækka laun ríkisstarfsmanna, sem er mildasta og um leið áhrifaríkasta aðgerðin til að skera þar niður til skemmri tíma. Sjálfstæðisflokkurinn myndi aldrei geta það. Ekki þarf að óttast aukningu ríkisumsvifa þar sem þau eru nær alger eftir þjóðnýtingu bankanna í haust hvort eð er.

    Ég viðurkenni að ég er hræddur við gífuryrði Atla Gíslasonar um aðgerðir gegn auðmönnum og óttast Lilju Mósesdóttur sem helsta hugmyndafræðing þeirra í peningamálum. Ég er heldur ekki sáttur við barnalega afstöðu Guðfríðar Lilju og Kolbrúnar Halldórsdóttur í mörgum málum, en það er að mestu skaðlaust. Flokkurinn sem verður með þeim í stjórn mun vonandi forða okkur frá stærstu axarsköftunum.

    Að lokum má hugga sig við það að næsta Ríkisstjórn mun áreiðanlega ekki endast meira en eitt kjörtímabil – ef hún þá nær því – og þá verður að öllum líkindum orðin dugleg endurnýjun í pólitíkinni í heild. Þá getur maður mögulega kosið eitthvað sem manni raunverulega hugnast!

Sem sagt: X-V og beita útstrikunarpennanum óspart.

Svo mörg voru þau orð. Nú er það ykkar að snúa sannfæringu minni 🙂

Blessað bankahrunið

gegnsæiÉg hef ýjað að því alveg frá því á fyrstu dögunum eftir hrun, en ég verð sífellt vissari í minni sök: Mikið óskaplega höfðum við gott af þessu bankahruni.

Þjóðfélagið var orðið fársjúkt og það virðist sama hvar stungið er á sárin, alls staðar vellur gröfturinn út. Viðskiptalíf og stjórnmál hafa auðvitað alltaf verið samofin á Íslandi, en síðustu ár virðist sá vefnaður hafa tekið á sig nýjar og ljótari myndir. Kolkrabbar og smokkfiskar eru eftirsóknarverð gæludýr við hliðina á þeim sem virðast hafa gengið hér laus.

Líklega hefur þetta gerst í einhverskonar viðleitni stjórnmálaaflanna til að halda í völdin í breyttum heimi – heimi sem þau breyttu sjálf. Stjórnvöld hverra stefna átti að standa fyrir “frelsi til athafna” og minnkandi afskipti ríkisins, voru ekki staðfastari í trúnni en svo að undir þeim þöndust umsvif ríkisins út, skattheimta jókst (jú víst: hlutfall fjárlaga af þjóðarframleiðslu hefur farið stighækkandi allar götur síðan 1980 og líklega mun lengur). Frelsi til athafna hefur reyndar verið mjög rúmt – helst til rúmt reyndar – hjá þeim sem velþóknun hefur verið á.

Til að byrja með virðast menn hafa haldið að þeir gætu stjórnað umræðu og atburðarás eftir bankahrunið eins og hverri annarri – enda þaulvant fólk á ferð: Höldum okkar striki – engin þörf á iðrun eða yfirbót. Afsökunarbeiðni er veikleikamerki. Gerum ekki neitt og vandamálið hverfur. Álver og virkjun stoppa í gatið. Aukum þorskkvótann. Finnum olíu. Biðjum góðan Guð um að blessa okkur.

En í þetta sinn voru afglöpin of stór og skrattinn er við það að verða laus. Allskyns rannsóknarnefndir sem sumar hverjar eru m.a.s. skipaðar “röngu fólki” – jafnvel útlendingum – hafa nú aðgang að allskyns skjölum og krafan um gegnsæi og heiðarleika er að verða býsna óþolandi. Það er meira að segja talað um að það sé göfugt að kjafta frá hlutum sem gætu skipt máli. Einhverjir eru m.a.s. farnir að gera það. “En þá gæti sannleikurinn komið í ljós!” Það má auðvitað ekki undir nokkrum kringumstæðum gerast.

Styrkveitingar til Sjálfstæðisflokksins í lok árs 2006 eru bara toppurinn á ísjakanum. Ímyndið ykkur hvað á eftir að koma í ljós þegar menn fara að skoða í kjölinn hvernig staðið var að einkavæðingum síðustu tveggja áratuga, þegar fjármál í prófkjörsbaráttu verða skoðuð, þegar hagsmunatengsl byggingarfyrirtækja og skipulagsyfirvalda verða skýrari, þegar bókhald áranna 2000-2005 verður opnað. Já eða 2008 – það væri nú a.m.k. fróðlegt að sjá það.

Einhvernveginn grunar mig að það séu fá stjórnmálaöfl sem einhver völd hafa haft sem munu koma alveg hrein útúr þessari lúsaskoðun. Það virðist bara enginn átta sig á því að fólk er tilbúið að fyrirgefa, það vill bara sjá iðrun og heyra sannleikann. Sá flokkur sem kemur fram að fyrra bragði og segir okkur allar svæsnu sögurnar af sjálfum sér er sá sem við eigum eftir að treysta mest hér eftir. Því verra því betra – eða þannig. Stigiði fram og segið: “Sjáið allan skítinn okkar – svona vorum við, en nú höfum við sagt skilið við það fólk og þær hugmyndir og horfum fram á veginn”. Þetta mun kalla á frekari játningar og frekari mannfórnir, en það er ekki hægt að ganga “hreint til verks” með skítinn upp á bak.

Framsókn var næstum búin að fatta þetta, enda líklega með eina erfiðustu fortíðina. Skipti um forystu, lofaði góðu, en svo var kippt í gamla þræði sem augljóslega lágu víða um flokkinn og þoldu ekki of miklar breytingar. Þeirra tækifæri liggur samt í uppgjöri við fortíðina, þeir gætu líklega ennþá skorað ein 10% með stórsókn í heiðarleika.

Aðalatriðið framundan er auðvitað uppbyggingin. En við vitum ekki hverjum við getum treyst fyrir þeirri uppbyggingu með okkur. Þeim flokki sem gerir upp fortíðina með mest afgerandi hætti er trúandi til að standa að uppbyggingu sem byggir á nýjum gildum: gegnsæi, heiðarleika og trausti. Þessar kosningar snúast varla einu sinni um stefnu, bara að finna einhvern sem maður treystir nokkurn veginn að sé ekki fyrst og fremst að hugsa um eigin hag.

Fyrir þá stjórnmálamenn sem fatta það ekki núna, verður fallið bara stærra seinna. Stjórnvöld og fólkið í landinu þarf að vera saman í liði við að byggja upp – annars gerist hér aldrei neitt. Gamla pólitíkin er búin að vera: málþóf, andúð á hugmyndum annarra og hannaðar atburðarásir eru svoooo “fyrir kreppu” (f.k.)

Ég hef sagt útlendingum frá því að á Íslandi sé stundum talað um “Blessað stríðið” til að útskýra fyrir þeim hvers konar grundvallarbreytingar seinni heimsstyrjöldin hafði á íslenskt samfélag. Stríðinu fylgdi hér gríðarleg lífskjarabót og Ísland náði á örskömmum tíma svipaðri stöðu og þjóðirnar í kringum okkur sem ekki svo löngu áður höfðu virst heilli öld á undan okkur.

Ég ætla að leyfa mér að spá því að innan tíu ára verði farið að tala um “blessað bankahrunið” og þær góðu breytingar sem það hafði í för með sér, þegar Ísland tók forystu í gegnsæi og heiðarleika eftir “móralskt stríð” undangenginna ára.

Hlutverk upplýsingatækni í rannsókn bankahrunsins

detectiveNú eru a.m.k. fjögur embætti að rannsaka ýmsa þætti bankahrunsins:

Talsvert hefur verið talað um verkaskiptingu þessarra embætta, hæfi þeirra og aðra umgjörð, en eitt af því sem hefur komið mér á óvart er hversu lítið hefur verið rætt um sjálfar rannsóknaraðferðirnar.

Í mínum huga er það alveg skýrt að eitt af lykilatriðunum í því að árangur náist í þessum rannsóknum er mikil og vönduð beiting upplýsingatækni. Þetta snýr bæði að því að skilja stóru mynd þeirrar atburðarásar sem átti sér stað hér á undanförnum árum sem og að finna og upplýsa einstök mál. Ég óttast hins vegar að of fáir skilji hversu mikilvægt þetta atriði er og hef flugufregnir fyrir því að a.m.k. sum þessarra embætta átti sig engan veginn á þeim verkefnum sem þau standa frammi fyrir hvað þetta varðar.

Hér eru nokkrir punktar sem etv. hjálpa til við að skilja stöðuna:

  • Allar fjármálaaðgerðir fara fram með einum eða öðrum hætti í tölvukerfum. Hjá íslensku bönkunum einum erum við að tala um hundruð þúsunda, jafnvel milljónir færslna á hverjum einasta degi í tugum ef ekki hundruðum mismunandi kerfa. Allar þessar aðgerðir eru skráðar með einhverjum hætti.
  • Auk þessarra færslna eru tölvupóstar og önnur tölvusamskipti skráð, auk þess sem öll símtöl manna á milli eru skráð og í mörgum tilfellum tekin upp skv. lögum. Um þau símtöl og tölvupóstar sem ekki eru skráð hjá bönkunum sjálfum eru til skráningar hjá fjarskiptafyrirtækjum og netveitum. Um símtölin er að lágmarki skráð að þau hafi átt sér stað og tölvupóstar og efni þeirra liggja alltaf fyrir a.m.k. í einhvern tíma hjá netveitum.
  • Afrit eru tekin af öllum gögnum bankanna – bæði úr fjármálakerfum og öðrum (t.d. skráakerfum allra vinnustöðva, póstkerfum, netþjónum o.s.fr.) – a.m.k. einu sinni á dag og þau geymd með ýmsum, öruggum hætti bæði innan og utan starfsstöðva bankanna í lengri og skemmri tíma. Sum þessarra gagna eru m.a.s. geymd í vörslu eftirlitsaðila lögum samkvæmt.
  • Ég hef nokkuð öruggar heimildir fyrir því að meðal allra fyrstu aðgerða stjórnvalda eftir hrun bankanna hafi verið að tryggja að afrit ýmissa tölvugagna kæmust í örugga vörslu þannig að ekki væri hægt að eiga við þau.
  • Mikið af þessum gögnum eru á sértæku sniði sem eiga við einstök, rándýr kerfi sem í notkun voru (og eru enn mörg hver) í bönkunum. Þessi gögn er mjög erfitt að lesa og túlka nema með notkun þessarra kerfa.
  • Allt í allt erum við hér að tala um gríðarlegt magn af gögnum – ég leyfi mér að giska á einhver hundruð terabæta fyrir þau ykkar sem sú tala segir eitthvað. Fyrir ykkur hin erum við að tala um jafngildi margra, stórra, þéttskipaðra vöruskemma ef gögnum ef prenta ætti ósköpin út.

Ef einhver hélt að svona rannsókn færi fram með aðferðafræði Matlock lögmanns með því að blaða í útprentum og afritum af pappírsskjölum, fingrafararannsókn og snjöllum yfirheyrslum á lykilvitnum, þá ættu ofangreindir punktar að sýna nokkuð glögglega að svo er ekki.

Ef ætlunin er að sanna – nú eða afsanna – kerfisbundið misferli, misræmi í afstemmingum, vísbendingar um óeðlileg verðbréfaviðskipti, samskipti aðila í tengslum við tiltekna atburði o.s.frv., þá verður það aðeins gert með býsna flókinni og sérhæfðri upplýsingatæknivinnu, mynsturgreiningum á stórum gagnasöfnum, leitarmöguleikum í hverskyns textagögnum og síðast en ekki síst þekkingu á þeim kerfum, aðferðum og starfsháttum sem viðgengust í bönkunum.

Til að taka af allan vafa um það, þá þykist ég alls ekki hafa þá þekkingu sem til þarf. Hana hefur reyndar varla nokkur einn maður. Við erum að tala um stórar og óhjákvæmilega dýrar aðgerðir, en án þeirra verður aldrei nema örlítið brot þessarar starfsemi rannsakað.

Ég vona að ofantaldir rannsóknaraðilar átti sig á þessu.

Að lokum eru hér örfá atriði sem mætti byrja á að skoða:

  • Fá a.m.k. einn stjórnanda eða millistjórnanda sem hafði með upplýsingatæknimál í hverjum banka með í rannsóknina. Ef með þarf má bjóða sektar og-/eða skuldaniðurfellingu gegnt samstarfi. Þannig fæst nauðsynleg þekking á innviðum og samhengi kerfanna, dýrmætur tími og miklir peningar sparast og líklega opnast möguleikar sem utanaðkomandi rannsakendur hefðu hreinlega ekki tök á að gera.
  • Fyrst mætti skoða afritasögu. Þar sést fljótt hvort nokkur gögn hafa horfið, átt hefur verið við skrár eftir á eða með öðrum hætti verið reynt að fela einhverjar slóðir. Þetta kynni vel að hafa verið reynt í einhverju óðagoti á ögurstundu, en er sennilega það “versta” sem einhver hefði getað gert þar sem það beinir grun beint að viðkomandi atriðum. Nær ómögulegt er að eiga þannig við gögn og afrit að slíkar slóðir sjáist ekki tiltölulega auðveldlega. Þannig er miklu líklegara að “ósnert” sönnunargögn týnist í öllu gagnaflóðinu en að tilraunir til yfirhylmingar skili árangri.
  • Greina samskiptasögu í öllum tiltækum gögnum. Hengja símanúmer og tölvupóstföng á persónur og beina sjónum að þeim sem eiga í samskiptum í kringum einstök viðskipti eða aðra atburði sem eru til rannsóknar. Eins má leita uppi öll gögn sem viðkoma tilteknum málum eða einstaklingum og rekja sig þannig í “hina áttina” frá áberandi miklum eða óvenjulegum samskiptum til viðskipta eða atburða sem eiga sér stað á svipuðum tíma. Slík greining myndi líka koma upp um samskipti milli aðila sem – ef allt væri með felldu – ættu alls ekki að eiga í samskiptum, annaðhvort vegna reglna um aðskilnað í starfsemi innan bankanna eða milli samkeppnisaðila, viðskiptablokka eða annarra.
  • Greina ýmsar lykiltölur í fjárflæði milli einstakra fyrirtækja, milli útibúa og milli landa og leita eftir skyndilegum breytingum á umfangi eða mynstrum í þessum viðskiptum.

Bara nokkrar hugmyndir – fleiri vel þegnar.