tölvur & tækni

Tæknispá 2016

Ég hef stundum (2006, 2008, 2009, 2010, 2014, 2015) gert það að gamni mínu í upphafi árs að spá fyrir um hluti sem muni einkenna komandi ár í tæknigeiranum, þá sérstaklega frá íslensku sjónarhorni.

Þetta hefur gengið upp og ofan og dæmi hver fyrir sig, en ég er að minnsta kosti ekki enn af baki dottinn. Hér koma nokkur atriði sem ég tel að muni einkenna komandi ár:

  • Gervigreind: Það eru vægast sagt ótrúlegir hlutir að gerast í heimi gervigreindar þessi misserin. Þetta á eftir að vera stóra sagan í tækniheiminum öllum á komandi árum og á eftir að hafa áhrif á allt! Ég ætla bara að nota stóru orðin: Þetta mun hafa að minnsta kosti jafn mikil – ef ekki meiri – áhrif á heiminn en tilkoma internetsins.

    Í stuttu máli er það sem hefur gerst að menn eru að ná svo góðum tökum á djúpum tauganetum (e. deep neural networks) að það jafnast á við getu mannsheilans þegar kemur að tilteknum, afmörkuðum verkefnum. Auðveldast er að hugsa þetta þannig að allt sem menn geta þjálfað sig til að gera “án umhugsunar” (hugsun sem á sér stað í “System 1” fyrir þá sem hafa lesið Thinking Fast and Slow eftir Kahneman) verður hægt að þjálfa tölvur til að gera – og í mörgum tilfellum betur en menn. Allt frá því að keyra bíla (sem raunar er svo gott sem leyst vandamál nú þegar), til þess að þekkja fólk á myndum, til þess að “diktera” talað mál jafn vel og mennskur ritari, til þess að greina sjúkdómseinkenni útfrá röntgenmynd. Allt!


    Þetta mun hafa gríðarleg áhrif og gerbreyta mörgu í okkar nánasta umhverfi á næstu 10 árum. Heilt yfir er þetta þróun sem er til hins góða, en það munu verða heilmikil samfélagsleg áhrif af því líka þegar fjöldinn allur af ósérhæfðum störfum verður betur leystur með tölvu en með fólki.


    Ég ætla ekki að halda því fram að áhrifin á nýhöfnu ári verði mjög áberandi. Þó munum við mörg hafa rekið okkur á eitthvað sem nýtir þessa tækni áður en árið er úti. Hins vegar verður þetta allra heitasta sviðið í nýsköpunarheiminum, og við munum sjá fjöldan allan af fyrirtækjum spretta upp sem nýta þessa nýju tækni, sem öfugt við margar fyrri tæknibylgjur byggir nær algerlega á opnum hugbúnaði. Kapphlaupið núna snýst að mörgu leyti ekki um tæknina sjálfa, heldur um bestu gögnin til að þjálfa þessa tækni til margvíslegra verka og þar er enn og verður talsvert um gögn í einkaeigu sem munu gera þeim fyrstu og bestu kleift að eigna sér tiltekin svið í þessum geira.


    Mér vitanlega eru mjög fáir að veita þessu sviði athygli á Íslandi enn sem komið er, og er það mjög miður.


  • Sjónvarp framtíðarinnar – loksins: Fyrir bráðum 10 árum skrifaði ég pistil sem nefndist “Afþreying framtíðarinnar“. Þar lagði ég útfrá þáttunum Rockstar Supernova þar sem “Magni okkar” dró þjóðina með sér í eitt af sínum alræmdu æðum. Undirliggjandi var þetta: Í framtíðinni mun línuleg dagskrá leggjast af og fólk horfa á það efni sem það vill, þegar það vill, með þeirri undantekningu að beinar útsendingar, hvort heldur frá íþróttaviðburðum, skemmtidagskrá eða fréttaviðburðum, sem og frumsýningar á vinsælu efni munu enn sameina áhorfendur og þá jafnvel í auknum mæli á heimsvísu en ekki bara innan landa. Þetta er auðvitað orðið að veruleika að allnokkru leyti, en stækkað útbreiðslusvæði Netflix er stórt skref í þessa átt. Bandaríski efnisrisinn HBO (sem framleiðir margar af vinsælustu þáttaröðum veraldar, allt frá Game of Thrones til Simpsons) steig líka skref í þessa átt á liðnu ári hér í Bandaríkjunum og fór að selja áskriftir yfir netið kapal- og útsendingarmiðlum. Ef þeir feta í fótspor Netflix og hefja dreifingu á heimsvísu, þá fyrst má Jón Gnarr fara að hafa áhyggjur af því að áskrifendur leiti til alþjóðlegra veitna, frekar en íslenskra dreifingaraðila.
  • Íslenska VR-ið: Einn af spádómum síðasta árs var að við myndum heyra mikið frá íslenskum fyrirtækjum sem væru að fást við sýndarveruleika, og nefndi þar meðal annars Valkyrie leikinn frá CCP, Sólfar, Aldin og Mure. Það má segja að þetta hafi gengið eftir. CCP tók nokkuð afgerandi kúrs í þessa átt og fékk samhliða stærstu fjárfestingu sem íslenskt sprotafyrirtæki í tölvugeiranum hefur fengið, eða um 30 milljónir dollara frá hinum virta sjóði NEA. Skömmu síðar sást til Mark Suckerberg prófa og mæra Gunjack leikinn þeirra og hafa margir haft stór orð um þá upplifun sem hann er. Sólfar fékk jafnframt góða fjármögnun og hefur vakið athygli, einkum fyrir sýndarveruleikaupplifun af Everest*. Aldin og Mure hafa jafnframt verið að gera góða hluti og við munum heyra meira frá þeim báðum á árinu.

    Hér er því að verða vísir að þekkingarklasa á nýju og allspennandi sviði og vonandi að háskólarnir sem og stærri fyrirtæki innlend – og jafnvel erlend – sjái sér hag í að tengja sig þeirri þróun og efla hana þar með. Samspil sprotafyrirtækja, stærri fyrirtækja, háskóla og fjárfestingasjóða er akkúrat það sem þarf til að upphaf af þessu tagi festi rætur og beri ávöxt.


  • Íslenska umhverfið: Heilt yfir er íslenska tækniumhverfið í ágætri stöðu og 2016 mun að líkindum bæta þar enn úr.
    • Létting gjaldeyrishafta mun hafa mikið að segja með möguleika íslenskra félaga til að sækja sér erlent fjármagn – og þá þekkingu sem því getur fylgt. Ég óttast þó að enn muni líða allmörg ár þar til hefðbundnir alþjóðlegir áhættufjárfestingasjóðir verði tilbúnir að fjárfesta í íslenskum félögum – og kemur þar reyndar fleira til. Þangað til svo er mun sá tími koma fyrr eða síðar í lífi flestra okkar nýsköpunarfyrirtækja að þau þurfa að koma móðurfélögum sínum, hugverkum og þar með stærstum hluta hagnaðar fyrir erlendis.
    • Mannekla er viðloðandi í hugbúnaðargeiranum og verður ekkert lát á miðað við allt það sem er í gangi. Þetta á ekki bara við um forritara, heldur nánast öll þau störf sem að hugbúnaðargerð, rekstri tæknifyrirtækja og svo auðvitað sölu og markaðssetningu tæknilausna. Enn eru of fáir að útskrifast úr þessum fögum þrátt fyrir mikla aukningu á undanförnum árum og eins eru þeir sem útskrifast ef til vill með helst til einsleita þekkingu. Eins er alveg stórundarlegt að enn sé mjög flókið og tímafrekt mál fyrir sérfræðinga á þessum sviðum að fá hér atvinnu- og dvalarleyfi komi þeir frá löndum utan EES.
    • Starfsemi alþjóðlegra fyrirtækja í þessum geira á Íslandi er nánast engin. Það er mikilvægt í bland við það sem hér sprettur upp að fólk hafi tækifæri að vinna hjá stórum, öflugum, alþjóðlegum fyrirtækjum. Bæði eykur það úrval starfa og möguleika fyrir fólk í geiranum, en ekki síður eykur það reynslu fólksins í tæknigeiranum af slíku umhverfi – með öllum sínum kostum og göllum – öllum til hagsbóta. Ég er stoltur af þeirri uppbyggingu sem Qlik hefur staðið fyrir hér eftir kaupin á DataMarket í fyrra, en við þurfum fleiri, stærri og fjölbreyttari fyrirtæki hingað til að skapa meiri breidd og “dínamík” í íslenska tækniumhverfið. Ég spái því að hafin verði vinna við að laða slík fyrirtæki hingað á árinu.
    • Stóru vaxtarfjárfestingasjóðirnir þrír Frumtak II, Eyrir Sprotar og Brunnur fjárfestu talsvert á nýliðnu ári, en eiga enn umtalsverða fjármuni sem þeir þurfa að koma í vinnu fyrr en síðar. Nú eru sjóðirnir komnir vel af stað og 2016 verður því líklega stærsta ár Íslandssögunnar þegar kemur að framtaksfjármögnun íslenskra tæknifyrirtækja. Húrra fyrir því!

* Tek fram að ég er hluthafi í Sólfari í gegnum fjárfestingasjóðinn Investa.

– – –

Upphaflega birt á Kjarnanum

Tæknispá 2015

Ég hef stundum dundað mér við að skoða sérstaklega ríkjandi strauma og stefnur í tæknimálum og gera “tæknispá” fyrir komandi ár með áherslu á Ísland. Þetta er auðvitað til gamans gert meira en nokkuð annað, en skerpir hugsanir manns og hugmyndir sem síðan getur nýst í leik og starfi í framhaldinu.

Spáin í fyrra birtist einmitt í Kjarnanum og heppnaðist nokkuð vel, þó – og þá sérstaklega þegar – ég segi sjálfur frá. Sumt gekk að nokkru eða öllu leyti eftir. Annað ætla ég engu að síður að halda mig við þó ef til vill hafi sumt reynst ganga hægar en ég hélt fram. Facebook mun til dæmis koma fram með greiðslulausn á árinu, annars má ég hundur heita!

Að því sögðu eru hér nokkur atriði sem ég hef trú á að muni setja mark sitt á tæknigeirann á Íslandi á árinu 2015:

  • Sýndarveruleiki: Næsta útgáfa af sýndarveruleikabúnaði er að líta dagsins ljós. Það er býsna erfitt að lýsa því fyrir þeim sem ekki hafa prófað hversu sterkt þessi tækni grípur mann. Hljóð- og myndgæði eru orðin slík að heilinn gleymir fljótt að ekki er um raunveruleikann að ræða og tafarlaust viðbragð við hreyfingum höfuðs og líkama því sem næst fullkomnar blekkinguna. Nokkrir framleiðendur munu að öllum líkindum setja sýndarveruleikagræjur á almennan markað á þessu ári. Oculus Rift, sem hóf sögu sína á Kickstarter, en var keypt af Facebook á árinu sem leið á tvo milljarða bandaríkjadala, setti að mörgu leyti tóninn hér og er með mjög lofandi tækni, en Sony er þeim skammt að baki og Samsung nálgast markaðinn á talsvert annan hátt með áherslu á þráðlausa tækni. Það er enginn vafi í mínum huga að þessi tækni verður komin í mjög almenna notkun innan 3-5 ára, þó erfitt sé að spá um það nákvæmlega hversu hraður vöxturinn verður.

    Eins og með flesta nýja tækni þarf áhugavert efni og lausnir til að nýta tæknina og sýna hvað í henni býr. Allnokkur íslensk nýsköpunarfyrirtæki eru þegar farin að prófa sig áfram á þessu sviði. CCP greip Oculus Rift báðum höndum mjög snemma. Valkyrie leikurinn sem þeir útbjuggu og byggir á EVE Online heiminum er með vinsælustu sýniforritum fyrir þessa tækni nú þegar. Nokkur sprotafyrirtæki hafa líka þegar litið dagsins ljós á Íslandi sem vinna með þessa tækni og má ætla áhugaverðra hluta frá þeim á árinu. Þar á meðal eru Sólfar, Mure (sem nýlega fékk fjármögnun frá Eyri) og Aldin. Ég spái því að við eigum eftir að heyra mikið af þessum fyrirtækjum á síðari hluta ársins þegar nær dregur almennri dreifingu á þessum nýju sýndarveruleikalausnum.

  • Rauntímavinnsla: Hafi síðustu ár verið ár gríðargagna (e. “Big Data”), þá eru þau næstu ár rauntímavinnslu á þessum gögnum. Tölvukerfi, allt frá stjórnkerfum vinnslulína í matvælafyrirtækjum yfir í viðskiptakerfi fjármálamarkaða framleiða gríðarlegt magn gagna. Hingað til hefur verið nógu krefjandi að ná að grípa þessi gögn og greina þau svo og vinna úr þeim eftir á. Eftir því sem tækninni til þess fleygir fram og reiknigetan verður meiri – í takti við lögmál Moores – er að verða raunhæfur kostur að vinna úr þessum gögnum og bregðast við í rauntíma, jafnvel með sjálfvirkum hætti. Þetta mun hafa í för með sér bætta þjónustu, aukna framleiðni og færri glötuð tækifæri í hvers kyns framleiðslu, sölu og þjónustu. Þetta svið hefur hlotið nafnið Operational Intelligence, sem nefna mætti “rekstrargreind” upp á íslensku. Að minnsta kosti eitt íslenskt sprotafyrirtæki – Activity Stream – hefur þegar náð umtalsverðum árangri á þessu sviði og líklegt að framsækin íslensk fyrirtæki munu byrja að huga að rekstrargreindarlausnum þegar á þessu ári.
  • Sprotageirinn fær fjármagn: Þetta er nánast endurtekning á spádómi fyrra árs, en með vaxandi árangri íslenskra sprotafyrirtækja er loksins útlit fyrir að umtalsvert fjármagn fari að leita í nýsköpunargeirann. Annað væri eiginlega fráleitt. Lífeyris- og fjárfestingasjóðir innan fjármagnshafta geta varla haldið áfram að blása í fasteigna- og hlutbréfabólur innanlands án þess að einhverjum verði á endanum litið til þeirra stóru – en sannarlega áhættusömu – ávöxtunarmöguleika sem liggja í hraðvaxtarfyrirtækjum með alþjóðlegar áherslur. Þarna eru meira að segja tækifæri til að komast – að minnsta kosti óbeint – í tekjur og söluhagnað í erlendri mynt!

    Frá aldamótum hefur ekki verið um auðugan garð að gresja í fjármögnunarkostum fyrir sprota- og vaxtafyrirtæki og undanfarin misseri má segja að þar hafi verið nær alger þurrð þegar fjárþörfin er komin yfir fáa tugi milljóna króna. Nú er raunverulega útlit fyrir að það breytist. Nokkrir aðilar hafa verið að undirbúa stofnun áhættufjárfestingasjóða, hvern þeirra af stærðargráðunni 4-5 milljarðar króna. Ég spái því að tveir af þessum hópum nái markmiði sínu og verði þá þar með tveir stærstu sjóðir af slíku tagi sem settir hafa verið upp á Íslandi. Þetta mun breyta nýsköpunarlandslaginu verulega og gera íslenskum frumkvöðlunm kleift að reyna sínar hugmyndir hraðar og ákveðnar en hingað til hefur tíðkast.

    Sífellt fleiri aðilar í þessum geira eru líka að ná að mynda sterk tengsl við erlenda fjárfesta, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum. Slík tengsl geta undið hratt upp á sig ef vel gengur og eru allmörg dæmi um að nýsköpunarklasar hafi myndast hér og þar í heiminum í kringum eitt eða tvö sprotafyrirtæki sem náð hafa árangri og þar með beint kastljósi og tengslum “heim”.

  • Plain Vanilla leggur allt undir: Spútnikfyrirtækið Plain Vanilla stendur í ströngu þessa dagana. Eins og fram hefur komið allt frá því að fyrirtækið tók inn stóra fjármögnun frá heimsþekktum fjárfestum í lok árs 2013, stefnir fyrirtækið á að breyta spurningaleiknum vel heppnaða – QuizUp – í samfélagsnet sem tengi saman fólk með sameiginleg áhugamál. Ef þeim tekst viðlíka vel til með þessa umbreytingu og þeim tókst með markaðfærslu leiksins í upphafi getur þetta verið ótrúlega stórt tækifæri. Áhættan er mikil, en það sem reynt er við er af svipuðu tagi og það sem Instagram, Snapchat eða WhatsApp hefur áður tekist: að ná með sterkum hætti til tuga eða jafnvel hundruða milljóna manna. Takist það – sem auðvitað er langt í frá gefið – mun “Thor” hugsanlega í alvöru standa frammi fyrir því að þurfa að svara spurningunni hvort hann sé til í að selja fyrirtækið fyrir milljarð dollara (spólið á ca. 4:10 í myndbandinu). Líklega hefur ekkert íslenskt sprotafyrirtæki áður staðið frammi fyrir jafn stóru tækifæri. Til að þetta gangi upp þarf ekki bara frábæra útfærslu, framúrskarandi markaðssetningu og sterka eftirfylgni, heldur líka heilmikla heppni. Þetta mun allt spilast út með einhverjum hætti núna á árinu og verður verulega spennandi að fylgjast með.
  • Íslendingar læra alþjóðlega sölu og markaðssetningu: Það sem háð hefur flestum íslenskum tæknifyrirtækjum í gegnum tíðina er markviss og góð sölu- og markaðsstarfsemi. Mörg þeirra hafa verið með glimrandi góðar hugmyndir, fína tækni, pakkað þeirri tækni inn sem ágætum vörum en síðan klikkað algerlega á sölu- og markaðsstarfinu. Mér skilst reyndar að þetta sé að sumu leyti tilfellið í sjávarútveginum líka og margir sem telja að þar sé hægt að gera miklu betur, þó þar sé þetta starf auðvitað allt annars eðlis. Núna erum við hins vegar að læra þetta – og það hratt. Og það er allt að gerast í gegnum ferðamannaiðnaðinn. Fyrirtæki í þeim geira, allt frá flugfélögunum Icelandair og WOW niður í smáa ferðaþjónustuaðila eru að ná býsna góðum tökum á markaðssetningu á leitarvélum og samfélagsmiðlum og sölu í gegnum vefinn.

    Það verður ómetanlegt þegar þessi þekking fer að leita á önnur – og að sumu leyti gjöfulli – mið og íslensk fyrirtæki í tæknigeiranum, þar sem framlegðin getur verið margfalt meiri, fara að njóta krafta þeirra sem nú eru að læra þessi fræði “hands on” í ferðageiranum. Þetta mun nýtast íslenskum tæknifyrirtækjum vel, sérstaklega þeirri gerð tæknifyrirtækja sem einmitt eru ef til vill best til þess fallin að vera með stóran hluta eða jafnvel alla sína starfsemi á Íslandi, það er hugbúnaðarfyrirtækja á einstaklings- eða smáfyrirtækjamarkaði sem veita þjónustu sína alfarið yfir netið (e. SaaS).

Já, sannarlega áhugavert ár framundan í íslenska tækniheiminum. Gleðilegt tækniár, 2015.

Upphaflega birt á Kjarnanum

Tæknispá 2014

Þessi spá mín um þróun komandi árs í heimi tækninnar birtist í hátíðarútgáfu Kjarnans fyrir nokkrum dögum.

Hér eru 6 hlutir sem ég spái því að muni gerast, eða við munum að minnsta kosti sjá stór skref í átt að á árinu 2014.

  • “Tölvan er dauð”, hefði Nietzsche kannski sagt. Það er nú kannski ekki alveg svo, en á meðan fartölvusala stendur nokkurnveginn í stað og borðtölvur eru sannarlega deyjandi fyrirbæri, er snjallsíma- og spjaldtölvueign á hraðri uppleið. Sífellt stærri hluti netnotkunar fer nú fram í gegnum þessi tæki. Þessi þróun mun halda áfram á árinu 2014 og því munum við sjá miklu fleiri vefsvæði þannig úr garði gerð að þau geri ráð fyrir að notkun sé að meirihluta með þessum hætti, eða “mobile first”, eins og það er kallað upp á ensku. Vonandi munu flestir vefir (íslenskir fréttavefir, ég er að tala við ykkur!) hætta að halda úti aðskildum vefslóðum fyrir mismunandi tæki og einbeita sér frekar að vefhönnun sem aðlagar sig að skjástærð og eiginleikum þess tækis sem lesandinn er að nota hverju sinni.
  • Öppin hverfa: Síðustu ár hefur verið það alheitasta að búa til “öpp” til að sinna hinum ýmsu afmörkuðu verkefnum á farsímum og spjaldtölvum. Við erum þarna á sama stigi farsímaþróunarinnar og þegar allir kepptust við að dreifa margmiðlunarefni fyrir tölvur á geisladiskum um og fyrir aldamótin. App er í eðli sínu forrit sem er sérskrifað til að keyra á tilteknu stýrikerfi og jafnvel afmörkuðum útgáfum þess. Geisladiskarnir dóu þegar bandbreidd á netinu og vafrar þróuðust nægilega til að ná að skapa í flestum tilfellum nokkurnveginn sömu upplifun á hefðbundinni vefsíðu og en ná í staðinn margfaldri dreifingu á við það sem diskarnir buðu upp á. Öppin hafa sannarlega sína kosti, en mörg þeirra eru í raun ekkert annað en þunn skel utan um það sem vafrinn í tækinu getur gert hvort sem er. Eftir því sem vafrar og vefþjónustur verða almennt í boði sem bjóða upp á þægilegar smágreiðslur, einfaldar leiðir til að “branda” og bókamerkja vefsíður á aðalvalmyndir tækjanna og ekki síst bjóða upp á þann sýnileika sem “app store”-in bjóða upp á, munu hefðbundnar vefsíður sækja á aftur, enda má ná sömu upplifun á þann hátt, en spara sér að gera sérstaka útgáfu fyrir hverja gerð stýrikerfis. Öppin munu enn eiga sinn sess, en meira í líkingu við það sem við þekkjum sem muninn á forriti og vefsíðu á tölvunni okkar.
  • Símafyrirtæki í vanda: Símafyrirtæki, einkum þau rótgrónari, hafa um langt árabil haft gífurlega framlegð af landlínuáskriftum – tækni sem fáir nota, en margir borga fyrir. Í þónokkurn tíma hafa þau reyndar þurft að þola að ný heimili bætist ekki endilega í þennan hóp, enda upfyllir nettenging og farsímaáskrift allar fjarskiptaþarfir og -venjur ungs fólks. Nú er þessi tekjustraumur farinn að láta verulega á sjá og eftir því sem ljósleiðaratengingar og 4G farsímasamband verður algengara og áreiðanlegra eru eldri hóparnir jafnvel að segja upp landlínuáskriftunum líka. Alltaf leiðinlegt þegar fólk hættir að gefa manni peninga.
  • Facebook alls staðar: Fyrir nokkrum árum lét ég hafa eftir mér að “Facebook væri sjónvarpið” í þeim skilningi að nú væri kvöldrútínan á heimilum landsmanna farin að snúast um að vaska upp, hátta börnin og fara svo á Facebook í stað þess – eða í raun samhliða því – að horfa á sjónvarpið. Nú er Facebook orðið miklu meira en það. Facebook er til að mynda líka dagblaðið (á dauðum stundum í deginum), sígarettan (til að taka sér hlé) og sjampóbrúsinn (til að lesa á klósettinu). Þetta er gríðarlega sterk staða sem fyrirtækið og fyrirbærið Facebook er komið í og með nær 1 af hverjum 5 jarðarbúum sem notendur eru þeir rétt að byrja að nýta sér þessa stöðu til að afla tekna. Það kæmi mér ekki á óvart að við ættum eftir að sjá Facebook rúlla út greiðslulausnum (PayPal), vefleit (Google) og verslunarlausnum (Amazon) áður en langt um líður. Og það er fátt sem getur hindrað þeirra í þessari samkeppni. Ekkert fyrirtæki veit meira um notandann, langanir hans, þrár og drauma – og hvernig má uppfylla þá.
  • Þrívíddarprentun: 2014 er ár þrívíddarprentarans. Tæknin er orðin nógu góð og ódýr til að fara að komast í almenna útbreiðslu, og notkunarmöguleikarnir eru fleiri en flesta órar fyrir. Hönnuðir eru auðvitað fyrir allnokkru búnir að tileinka sér þessa tækni sér til mikils gagns, en með almennri útbreiðslu munu hlutirnir komast á verulegt skrið. Fólk mun prenta sér leikföng, nytjahluti og listmuni. Föndurfíklar fá alveg ný tækifæri fyrir útrás. Möguleikarnir í kennslu eru ótakmarkaðir. Heimurinn er áþreifanlegur og áþreifanlegir hlutir höfða til fólks á allt annan og “náttúrulegari” hátt en það sem er bara til í tölvu. Aukin útbreiðsla mun líka kveikja nýjar hugmyndir, sprotafyrirtæki munu spretta upp og hlutirnir fara að gerast á þessum vettvangi með auknum hraða. Hugmyndaríkt fólk mun láta sér detta í hug hluti til að nýta þessa tækni á vegu sem ómögulegt er að spá fyrir um. Ég spái því sem sagt að einhver muni gera eitthvað með þessari tækni sem mér tekst ekki að spá fyrir um!
  • Sprotauppskeran heldur áfram: Árið 2013 fórum við að sjá uppskeruna af þeirri bylgju sprotafyrirtækja sem mörg hver fóru af stað eftir hrunið 2008 þegar margt hugmyndaríkt og kraftmikið fólk stóð á krossgötum í lífinu og ákvað að eltast við gamla – og stundum nýja – drauma. Plain Vanilla, Meniga, Clara, Betware og fleiri voru að ná eftirtektarverðum árangri á árinu. Við eigum eftir að sjá nokkur slík dæmi til viðbótar árið 2014 og þá fer athygli fjárfesta sem leita logandi ljósi að nýjum bólum til að blása í á bakvið gjaldeyrishöft að beinast að þessum geira. 2014 verður upphaf nýrrar sprotabólu. Þar mun margt misgáfulegt gerast, en heildaráhrifin verða sannarlega af hinu góða. Íslenski tæknigeirinn ætti að búa sig undir nýja rússíbanareið!

Besta ræða Steve Jobs

Steve Jobs er fallinn frá. Hann er öllum frumkvöðlum fyrirmynd og við erum mörg sem lítum upp til hans. Í minningu kappans ákvað ég að færa í íslenska þýðingu bestu ræðu Steve Jobs, og reyndar eina bestu ræðu sögunnar að mínu mati.

Ræðan var flutt við úskrift nemenda úr Stanford-háskóla þann 12. júní árið 2005 og á erindi við alla, ekki bara tölvufólk og sprotaflón, heldur alla sem velta fyrir sér lífinu og tilverunni:

Það er mér heiður að vera með ykkur í dag þegar þið brautskráist frá einum besta háskóla heims. Í sannleika sagt er þetta það næsta sem ég hef komist slíkri útskrift. Mig langar að segja ykkur þrjár sögur úr lífi mínu. Það er allt og sumt. Engin stórræði. Bara þrjár sögur.

Fyrsta sagan fjallar um það að mynda tengingar.

Ég hætti í námi við Reed-háskóla eftir 6 mánaða skólagöngu, en var viðloðandi skólann í aðra 18 mánuði áður en ég sagði að fullu skilið við skólann. En af hverju hætti ég þá?

Sagan hefst áður en ég fæddist. Líffræðileg móðir mín var ungur og ógiftur háskólanemi og ákvað að gefa mig til ættleiðingar. Hún hafði sterka skoðun á því að fólkið sem ættleiddi mig ætti að vera háskólagengið fólk. Það hafði því verið gengið frá því að ég yrði ættleiddur af lögfræðingi og konunni hans. Nema hvað, þegar ég skaust í heiminn ákváðu þau á síðustu stundu að þau vildu heldur stelpu. Foreldrar mínir, sem voru á biðlista, fengu því símtal um miðja nótt: “Óvænt erum við hér með nýfæddan strák; viljið þið taka hann?” Þau svöruðu: “Að sjálfsögðu.” Líffræðileg móðir mín komst síðar að því að mamma hafði aldrei útskrifast úr háskóla og pabbi hafði aldrei lokið menntaskólanámi. Hún neitaði því að skrifa undir endanlegu ættleiðingarskjölin. Það var ekki fyrr enn nokkrum mánuðum síðar þegar foreldrar mínir lofuðu að ég myndi fara í háskólanám að hún féllst á að ganga frá pappírunum.

Og 17 árum síðar fór ég í háskóla. Í barnaskap mínum valdi ég skóla sem var næstum eins dýr og Stanford. Þetta þýddi að allur sparnaður verkafólksins, foreldra minna, fór í skólagjöldin mín. Að sex mánuðum liðnum sá ég ekki að námið væri þess virði. Ég hafði enga hugmynd um hvað ég vildi gera í lífinu og enga hugmynd um hvernig háskólinn myndi hjálpa mér að svara þeirri spurningu. Og hér var ég að eyða öllum þeim sparnaði sem foreldrar mínir höfðu safnað á lífsleiðinni. Þannig að ég ákvað að segja mig frá náminu og treysti því að þetta myndi allt reddast einhvern veginn. Þessi ákvörðun hræddi mig mjög, en þegar ég lít til baka sé ég að þetta var einhver besta ákvörðun sem ég hef nokkurntíman tekið. Um leið og ég hætti í formlega náminu þurfti ég ekki lengur að sækja kúrsa sem ég hafði engan áhuga á og gat laumast inn í kúrsa sem virtust áhugaverðir.

Þetta var ekki eintóm gleði og hamingja. Ég var ekki með herbergi á heimavist þannig að ég svaf á gólfinu í herbergjum vina minna. Ég safnaði flöskum sem ég seldi fyrir 5 sent til að kaupa mat og á hverjum sunnudegi gekk ég 7 mílur þvert yfir bæinn til að fá eina almennilega máltíð í Hare Krishna-hofinu. Mér fannst þetta frábært. Og margt af því sem ég rakst með því að elta forvitni mína og brjóstvit reyndist mér ómetanlegt síðar. Ég skal gefa ykkur eitt dæmi:

Reed-háskóli bauð á þessum tíma upp á nám í skrautritun. Hugsanlega besta slíka nám sem boðið var upp á í landinu. Á háskólasvæðinu var hvert einasta plakat, hver einasta merking á hverri einustu skúffu, fallega skrautrituð. Þar sem ég hafði hætt í formlegu námi og þurfti ekki að stunda hefðbundin fög, ákvað ég að læra skrautritun. Ég lærði muninn á steinskrift og þverendaletri, um breytilegt bil á milli stafa eftir samstæðum þeirra og hvað það er sem gerir framúrskarandi letur framúrskarandi. Þetta var fallegt, sagnfræðilegt og hafði listrænan blæ þeirrar gerðar sem vísindin ná ekki að fanga, og þetta heillaði mig.

Ekkert af þessu hafði minnstu möguleika til að nýtast mér seinna á ævinni. En tíu árum síðar, þegar við vorum að hanna fyrstu Macintosh tölvuna, rifjaðist þetta allt upp fyrir mér. Og við útfærðum þetta allt sem hluta af Makkanum. Hún var fyrsta tölvan með fallegu letri. Ef ég hefði ekki sótt akkúrat þennan áfanga í háskóla hefði Makkinn aldrei boðið upp á mismunandi leturgerðir eða hlutfallslegt stafabil. Og þar sem Windows apaði bara upp það sem Makkinn gerði, hefði sennilega engin einkatölva boðið upp á slíkt. Ef ég hefði ekki hætt í námi hefði ég aldrei sótt þennan áfanga í skrautritun og einkatölvur byðu ef til vill ekki upp á fallegt letur. Auðvitað var ómögulegt að átta sig á þessari tengingu þegar ég var í háskólanum, en það var mjög auðvelt þegar litið var til baka 10 árum síðar.

Ég endurtek, það er ómögulegt að sjá tengingar fyrirfram; þú getur einungis áttað þig á þeim þegar þú lítur til baka. Þú verður því að treysta því að hlutirnir tengist einhvern veginn seinna á lífsleiðinni. Þú þarft að treysta einhverju – tilfinningunni í maganum, örlögunum, lífinu, karma, einhverju. Þessi nálgun hefur aldrei svikið mig og hún hefur mótað líf mitt.

Önnur sagan fjallar um ástríðu og missi

Ég var heppinn – ég fann mína ástríðu snemma í lífinu. Við Woz stofnuðum Apple í bílskúr foreldra minna þegar ég var tvítugur. Við unnum hörðum höndum, og á 10 árum óx Apple úr því að vera við tveir í bílskúr í tveggja milljarða dollara fyrirtæki með 4.000 starfsmenn. Við hleyptum af stokkunum okkar bestu vöru – Macintosh tölvunni – ári áður og ég var rétt nýorðinn þrítugur. Og þá var mér sagt upp. Hvernig getur manni verið sagt upp störfum hjá fyrirtæki sem maður stofnar sjálfur? Tjah, samhliða vexti Apple réðum við til starfa mann sem ég taldi ákaflega hæfileikaríkan til að reka fyrirtækið með mér, og það gekk vel fyrsta árið eða svo. Þá tók framtíðarsýn okkar ólíka stefnu sem leiddi á endanum til ósættis. Stjórn fyrirtækisins tók afstöðu með honum. Þannig að þrítugur var ég settur af. Og það með mjög áberandi hætti. Allt það sem ég hafði beint kröftunum að því að byggja upp sem fullorðinn maður var farið, og það nísti inn að beini.

Ég vissi hreint ekki hvað ég átti að gera í nokkra mánuði. Mér fannst ég hafa brugðist fyrri kynslóð frumkvöðla – að ég hefði misst kyndilinn sem mér var færður. Ég fór á fund David Packard og Bob Noyce og reyndi að biðja þá afsökunar á að hafa mistekist svona hrapalega. Ég var opinberlega misheppnaður og ég hugsaði jafnvel um að flýja úr dalnum. En ég tók smám saman að átta mig á einu – ég hafði enn ástríðu fyrir því sem ég var að fást við. Atburðarásin hjá Apple hafði ekki breytt því neitt. Mér hafði verið hafnað, en ég var enn ástfanginn. Og ég ákvað að byrja upp á nýtt.

Ég áttaði mig ekki á því þá, en það kom í ljós að brottreksturinn frá Apple var það besta sem hefði getað hent mig. Í stað byrðanna sem fylgdu góðum árangri kom léttirinn af því að vera byrjandi á ný, ekki jafn viss í minni sök og áður. Þetta frelsi leiddi til einhvers frjóasta tímabils lífs míns.

Á næstu fimm árum stofnaði ég fyrirtæki sem hét NeXT, annað sem heitir Pixar og varð ástfanginn af ótrúlegri konu sem varð síðar eiginkona mín. Pixar framleiddi heimsins fyrstu tölvugerðu teiknimynd, Toy Story, og er í dag öflugasti teiknimyndaframleiðandi veraldar. Merkileg atburðarás varð til þess að Apple keypti NeXT, ég fór aftur til Apple og tæknin sem við þróuðum hjá NeXT er hjartað í endurreisn Apple. Og við Laurene eigum saman yndislega fjölskyldu.

Ég er nokkuð sannfærður um að ekkert af þessu hefði gerst ef ég hefði ekki verið rekinn frá Apple. Þetta var ekki bragðgott meðal, en það virðist vera að sjúklingurinn hafi þurft á því að halda. Stundum slær lífið mann í höfuðið með múrsteini. Ekki missa trúna. Ég er sannfærður um að það eina sem hélt mér gangandi var ástríðan fyrir því sem ég fékkst við. Maður verður að finna þessa ástríðu. Þetta gildir jafnt um lífið sem lífsförunautana. Vinnan er stór hluti af lífinu og eina leiðin til að vera virkilega ánægður er finnast maður vera að vinna framúrskarandi vinnu. Og leiðin til að vinna framúrskarandi vinnu er að hafa ástríðu fyrir því sem maður er að gera. Ef þú hefur ekki fundið hana ennþá, haltu áfram að leita. Ekki sætta þig við minna. Eins og með önnur hjartans mál, veistu þegar það rétta er fundið. Og, eins og öll góð sambönd, batnar það bara með árunum. Haldu áfram að leita þar til þú hefur fundið þína ástríðu. Ekki sætta þig við minna.

Þriðja sagan er um dauðann.

Þegar ég var 17 ára, las ég tilvitnun sem var eitthvað á þessa leið: “Ef þú verð hverjum degi eins og hann væri þinn síðasti, muntu á endanum hafa rétt fyrir þér.” Þetta hafði áhrif á mig, og síðan þá, síðustu 33 ár, hef ég litið í spegilinn á hverjum morgni og spurt sjálfan mig: “Ef dagurinn í dag væri síðasti dagur lífs míns, myndi mig langa að gera það sem ég er að fara að gera í dag?” Og í hvert skipti sem svarið hefur verið “Nei” of marga daga í röð, veit ég að ég þarf að breyta einhverju.

Hafandi í huga að innan skamms muni ég deyja er mikilvægasta tækið sem ég hef fundið til að hjálpa mér við að taka stóru ákvarðanirnar á lífsleiðinni. Vegna þess að næstum allt – allar væntingar, allt stolt, allur ótti við niðurlæginguna sem felst í mistökum – allt þetta bliknar í samanburði við dauðann og eftir stendur það sem raunverulega skiptir máli. Hafandi í huga að innan skamms muni maður deyja er besta aðferðin sem ég kann til að forðast þá hugsanavillu að maður hafi einhverju að tapa. Þú ert þegar nakinn. Það er ástæðulaust að fylgja ekki draumum sínum eftir.

Fyrir um það bil ári síðan var ég greindur með krabbamein. Ég fór í rannsókn klukkan hálf átta um morguninn og hún sýndi svo ekki var um að villast æxli í brisinu. Ég vissi ekki einu sinni hvað bris var. Læknarnir sögðu mér að þetta væri nær örugglega ólæknandi mein og að ég mætti búast við því að eiga þrjá til sex mánuði ólifaða. Læknirinn ráðlagði mér að fara heim og koma mínum málum í farveg, sem þýðir á læknamáli að maður eigi að búa sig undir dauðann. Það þýðir að reyna að segja börnunum þínum á nokkrum mánuðum allt það sem þú hélst að þú hefðir næstu 10 ár til að segja þeim. Það þýðir að ganga þannig um hnútana að fráfall þitt sé eins fyrirhafnarlítið og mögulegt er fyrir fjölskylduna. Það þýðir að kveðja fólkið sitt.

Þennan dag lifði ég við þessa greiningu. Um kvöldið fór ég í magaspeglun, þar sem þeir tróðu slöngu niður hálsinn á mér, í gegnum magann, alla leið niður í garnirnar, stungu nál í brisið og náðu nokkrum frumum úr æxlinu. Ég var í lyfjamóki, en eiginkona mín, sem var með mér á staðnum sagði að þegar læknarnir skoðuðu frumurnar í smásjá fóru þeir að gráta þar sem í ljós kom að þetta var mjög sjaldgæf gerð krabbameins í brisi sem unnt er að lækna með skurðaðgerð. Ég fór í þessa skurðaðgerð og nú er allt í góðu lagi.

Þetta er það næsta sem ég hef komist því að standa frammi fyrir dauðanum, og ég vona að þetta sé það næsta sem ég kemst því í nokkra áratugi til viðbótar. Eftir þessa upplifun get ég þó sagt ykkur af heldur meiri sannfæringu en þegar dauðinn var fyrir mér aðeins gagnlegt, en fjarlægt hugtak:

Engan langar til að deyja. Jafnvel fólk sem vill fara til himna vill ekki deyja til að komast þangað. Og samt er dauðinn það sem bíður okkar allra. Enginn hefur nokkru sinni sloppið við hann. Og þannig á það líka að vera, vegna þess að Dauðinn er líklega besta uppfinning Lífsins. Hann er það sem drífur áfram þróun Lífsins. Hann grisjar úr það gamla og býr til rými fyrir það nýja. Núna eruð þið það nýja, en einn daginn eftir ekki svo ýkja langan tíma, verðið þið smám saman það gamla og verðið grisjuð úr. Þið fyrirgefið dramatíkina, en svona er þetta.

Þið hafið takmarkaðan tíma. Ekki sóa honum í að lifa lífi einhvers annars. Ekki festast í viðjum einhverra kredda – að lifa lífinu með hliðsjón af því sem öðru fólki finnst. Ekki láta háværar skoðanir annarra yfirgnæfa ykkar innri rödd. Og mikilvægast af öllu, hafið kjark til að fylgja því sem hjartað og brjóstvitið segir ykkur. Einhvern veginn vita þau hvað þið raunverulega viljið. Allt annað er aukaatriði.

Þegar ég var ungur var gefið út magnað rit sem nefndist The Whole Earth Catalog. Þetta var ein af biblíum minnar kynslóðar. Upphafsmaðurinn var náungi hér í nágrenninu, í Menlo Park, að nafni Stewart Brand. Ljóðræn nálgun hans gaf ritinu líf. Þetta var í lok 7. áratugarins, fyrir tíma einkatölva og umbrotsforrita. Ritið var því allt unnið með ritvélum, skærum og Polaroid myndavélum. Þetta var eins konar Google í pappírsformi, 35 árum áður en Google kom til sögunnar: unnið af hugsjón og stútfullt af frábærum upplýsingum, viðhorfum og hugmyndum.

Stewart og hans fólk gáfu út nokkur tölublöð af The Whole Earth Catalog. Þegar það hafði runnið sitt skeið á enda gáfu þeir út sérstakt lokatölublað. Þetta var um miðjan 8. áratuginn og ég var á ykkar aldri. Á baksíðu síðasta tölublaðsins var ljósmynd af sveitavegi snemma morguns, sveitavegi eins og þeim sem maður gæti farið um á puttaferðalagi ef maður væri í ævintýrahug. Undir myndinni stóð: “Verið hungruð. Verið flón.” (“Stay hungry. Stay foolish.”) Þetta voru þeirra lokaorð þegar þau kvöddu. Verið hungruð. Verið flón. Og þetta er það sem ég hef alltaf óskað sjálfum mér. Og núna, þegar þið útskrifist, óska ég ykkur þess sama.

Verið hungruð. Verið flón.

Takk fyrir kærlega.

Hér má svo horfa á ræðuna í flutningi Jobs:

Og hér má svo nálgast upprunalega enska textann.

Nörd ársins!

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi síðastliðinn föstudag að hljóta nafnbótina Nörd ársins 2010.

Ég hef lengi beðið eftir því að einhver efndi til keppni sem ég ætti möguleika á að vinna og full ástæða til að þakka Skýrr fyrir að gera það.

Reyndar grunar mig að réttnefni titilsins væri “Athyglissjúkasta nörd ársins 2010” þar sem ég á ekki roð í marga af þeim sem hlutu tilnefningu í eiginlegum nördaskap. Líklega hefur fólki dottið í hug að tilnefna mig þar sem sum þeirra nörda-verkefna sem ég hef verið að vinna að hafa hlotið töluverða athygli, en það er auðvitað ekki síður að þakka þeim eðalnördum sem hafa unnið með mér að hlutum eins og DataMarket, Já.is og öðrum nördaskap í gegnum tíðina.

Einu sinni þótti niðurlægjandi að vera kallaður “nörd”. Fólk skiptist í þrjá hópa: “nörd”, venjulegt fólk og “töffara”. Það er hins vegar alltaf að sýna sig betur og betur að 21. öldin er öld nördanna. Þrjú dæmi:

  • Þrír ríkustu menn í heimi eru nörd
  • Borgarstjórinn í Reykjavík “var einu sinni nörd”
  • Obama hefði aldrei orðið forseti Bandaríkjanna nema með hjálp nörda-vina sinna

Eða eins og Bill Gates hafði einu sinni eftir í góðri ræðu: “Verið góð við nördana, það eru góðar líkur á að þið munið vinna fyrir eitt þeirra í framtíðinni”.

Takk fyrir mig, takk Skýrr, takk allir sem hafa nördast með mér í gegnum tíðina. Eins og sjá má var ég “geðveikislega” ánægður með titilinn:

Tæknispá 2010

Ég hef nokkrum sinnum áður ráðist í það um áramót að skrifa smá hugleiðingar um það sem komandi ár gæti borið með sér í tæknigeiranum á Íslandi. Spáin fyrir nýliðið ár heppnaðist býsna vel, þannig að nú er kominn tími til að rýna aftur í telauf og garnir og spá fyrir um næstu misserin.

  • Sprotaheimurinn: Það eru magnaðir hlutir að gerast í heimi nýsköpunar og sprotastarfsemi í tæknigeiranum. Eftir 5-6 steindauð ár þar á undan, brustu allar flóðgáttir við hrun bankanna. Þar kemur líklega tvennt til: 1) Hreyfing á fólki sem ýmist missti vinnuna, eða fékk nóg og yfirgaf stöður sem kannski voru aldrei sérlega skemmtilegar, bara vel borgaðar; og 2) Gerbreytt afstaða almennings, stjórnvalda og fjölmiðla – það var loksins komið veður til að skapa.
    • Fyrstu ávextirnir af sprotum hrunsins: Allnokkur sprotafyrirtæki komu frá sér úrvalsvörum árið 2009. Má þar nefna: heimilisfjármálagræjuna Meniga, tölvuleikina Peter und Vlad og Audiopuzzle frá Dexoris, Vaktarann frá CLARA sem fylgist með umræðu á netinu, tölvuleikina Symbol6, Soft Freak Fiesta og Vikings of Thule frá Gogogic og smálánaþjónustuna Uppsprettu.

      Sum þessara fyrirtækja voru jafnvel stofnuð eftir hrun, þannig að hraðinn er mikill. Ég reikna með að sjá enn meiri grósku í þessu á komandi ári. Öll áðurnefnd fyrirtæki eru ýmist að þróa endurbættar útgáfur af sínum vörum eða nýjar vörur væntanlegar frá þeim á árinu. Til viðbótar má nefna að vörur eða stórar viðbætur eru væntanlegar frá næstum öllum hinum fyrirtækjunum í Icelandic Gaming Industry (IGI) auk Mobilitus, Medizza, Gogoyoko, DataMarket og ýmsum fleirum sem ég er ýmist að gleyma eða hreinlega veit ekki af. Eins hlakka ég mikið til að sjá og kynnast betur því sem koma mun út úr “hands-on” nýsköpunarsetrinu í Toppstöðinni.

      Ég sé því fyrir mér að í sprotaheiminum verði árið 2010 enn viðburðaríkara en nýliðið ár og þar verða líklega bæði stórir sigrar og talsverð vonbrigði.

    • Of miklir peningar: Það eru að safnast býsna miklir peningar í sjóði sem ætla að fjárfesta í efnilegum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum á næstunni: Frumtak, sem upphaflega átti að verða 4,5 milljarða sjóður hefur úr meira en helmingi þeirrar upphæðar að moða þrátt fyrir einhverja óvissu um fjárframlög gömlu bankanna; Bjarkar-sjóðurinn sem er í umsjón Auðar Capital stefnir vel á annan milljarð; Nýsköpunarsjóður hefur úr talsverðu að moða; Tækniþróunarsjóður hefur 720 milljónir á fjárlögum næsta árs, af hverjum líklega um helmingur fer til slíkra fyrirtækja. Að auki eru allnokkrir hópar að setja saman bæði litla og umtalsvert stóra sjóði sem ætlað er að fjárfesta í tækifærum af þessu tagi. Ég hugsa að það láti nærri að 5-7 milljarðar séu eyrnamerktir í sprota- og nýsköpunarfjárfestingar þessa dagana!

      Þetta er auðvitað langt frá því að vera vandamál í sjálfu sér, en allir þessir peningar eru að elta tiltölulega fá – raunverulega góð – tækifæri. Hættan við allt þetta fé er sú að það leiti of víða og að forsvarsmenn sjóðanna hafi ekki þolinmæði til að bíða eftir tækifærum sem þeir hafa raunverulega tröllatrú á. Þannig gæti farið svo að of mörg fyrirtæki fái litlar frumfjárfestingar, en svo verði of litlir peningar eftir til að fylgja eftir þeim sem klóra sig fram úr fyrstu árunum og tryggja að þau nái virkilega að blómstra. Þetta hefur gerst áður. Nýsköpunarsjóður, eins og hann var rekinn í kringum árið 2000, er mjög gott dæmi um slíkt. Líklega hefði komið meira útúr honum með færri og stærri fjárfestingum.

      Sem sagt: Gott að það sé úr miklu fé að moða, en því má ekki smyrja of þunnt.

    • Of fátt hæft fólk: Það er ekkert atvinnuleysi í tæknigeiranum. Það er auðvitað alltaf slagur um besta fólkið, en það er vöntun á fólki af öllum stærðum og gerðum. Að einhverju leyti stafar þetta af því að aðsókn í tölvu- og tækninám var áberandi lítil á uppgangstíma bankanna. Við höfum ekki alið upp mikið af slíku fólki síðustu árin. Hins vegar stafar þetta af því að eftirspurnin hefur líklega aldrei verið meiri. Þó eitthvað hafi dregið saman í tölvudeildum bankanna og hjá sumum þjónustufyrirtækjum í upplýsingatæknigeiranum er það þó minna en ætla mætti. A.m.k. einn bankinn er m.a.s. að bæta við sig fólki um þessar mundir. Á sama tíma ætlar t.d. CCP eitt og sér að bæta við sig 160 manns á næstu mánuðum (þó ekki bara á Íslandi) og hefur þegar vaxið gríðarlega. Lauslega áætlað starfa um 200 manns hjá sprotafyrirtækjunum sem nefnd voru hér að ofan og restin af atvinnulífinu hefur tekið slakanum í upplýsingatæknigeiranum fegins hendi og ráðið til sín töluvert af fólki sem þau höfðu ekki tök á að slást um við bankana á sínum tíma.

      Ég sé fyrir mér að þessi mannekla muni hamla vexti sprotafyrirtækja umtalsvert.

    • Leikjabólan: Góður maður reiknaði út að Ísland ætti innan við 10 menn sem væru framúrskarandi (meira en 3 staðalfrávik frá meðaltali) í hverju sem er. Þetta gilti jafnt um Seðlabankastjóra sem sundmenn. Þessi staðreynd, að viðbættum þeim skorti á fólki sem er í upplýsingatæknigeiranum almennt veldur mér svolitlum áhyggjum fyrir hönd íslenska tölvuleikjaiðnaðarins sem nú er í örum vexti. Það kemur alls ekki á óvart að ýmsir feti í fótspor velgengninnar sem CCP fagnar, og heilt yfir er auðvitað frábært að sjá gróskuna sem m.a. kemur fram í starfsemi IGI. En gæðin, fólkið og hugmyndaauðgin hljóta að dreifast full þunnt þegar svona mikið er um að vera í jafn sérhæfðum geira og raun ber vitni.

      Ég spái því að þessi mikla starfsemi á þröngu sviði eigi eftir að sliga einhver leikjafyrirtæki, sem annars hafa alla burði til að slá í gegn.

  • Gögn og meiri gögn: Ýmis málefni sem tengjast gögnum, og þá ekki síst opnum gögnum eru mér afar hugleikin. Hér er tvennt sem ég sé fyrir mér að gerist í þeim efnum á árinu.
    • Opin gögn: Á haustmánuðum 2009 var lögð fram þingsályktunartillaga 12 þingmanna, jafnt úr stjórn sem stjórnarandstöðu, um opnara aðgengi að opinberum gögnum. Jafnframt var lögð fram fyrirspurn til forsætisráðherra um afstöðu hennar til þessara mála. Þótt svarið sem barst nú rétt fyrir áramótin sé afar varfærið og taki ekki djúpt í árinni, er boltinn greinilega farinn að rúlla varðandi það að breyta umgjörð þessara mála.

      Ég sé fyrir mér að breytingar verði gerðar á upplýsingalögum áður en árið er úti, aðgengi að opinberum gögnum rýmkað til mikilla muna og að áherslan verði á “upplýsingaskyldu stjórnvalda fremur en upplýsingarétt almennings” eins og segir í niðurlagi þingsályktunartillögunnar.

    • Greining gagna: Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið mun mjög líklega sýna, svo ekki verður um villst, hversu mikill máttur upplýsingatækninnar er þegar kemur að því að greina gögn. Ég á von á að sjá þar tengslanet, atburðarásir og hreinlega uppljóstranir á einstökum málum sem fengnar hafa verið með því að keyra greiningar á gríðarlegt magn gagna í leit að eftirtektarverðum mynstrum, óeðlilegum færslum og grunsamlegum tengslum og samskiptum ýmissa aðila. Ég skrifaði pistil um þetta efni í byrjun árs og þykist vita að þessi mál hafi verið tekin traustum tökum.

      Ég sé fyrir mér að þetta muni opna augu atvinnulífsins og stjórnvalda fyrir því hversu verðmæt og öflug greining og úrvinnsla gagna getur verið.

  • Vélabú og annar milli-orkufrekur iðnaður: Mér leiðist orðið “gagnaver” og held mig því við að reyna að koma nýyrðinu “vélabú” að í staðinn. Vélabú Verne var mikið í umræðunni í lok árs. Ég tel litlar líkur á að verkefnið detti uppfyrir, en það er þó ljóst að aðkoma Novator mun breytast. Það hefur alltaf legið fyrir að þeirra hlutur myndi minnka við þá fjárfestingu sem nú er á lokametrunum. Ekki er ólíklegt að hlutafjáraukningin sé á bilinu 25%-50% og þá fer 40% hlutur Novators í Verne niður í 20%-30%. Eins er ekki alveg loku fyrir það skotið að Novator verði keypt út úr hluthafahópnum til að sefa gagnrýnisraddirnar. Verkefnið er hins vegar af þeirri stærðargráðu að það verður varla stoppað. 90 milljarða fjárfesting í erlendum gjaldeyri er satt að segja svo stór að burtséð frá öllum framkvæmdunum, störfunum og öðrum umsvifum, kann slíkt gjaldeyrisinnstreymi jafnvel að lyfta gengi krónunnar lítillega. Það er líklegt til að hljóma eins og of góð músík í eyrum fleiri en bara stjórnmálamanna.

    Eins er með þessu verkefni loksins verið að dreifa orkueggjunum okkar í fleiri körfur en áliðnaðarins eins. Segja má að aflþynnuverksmiðja Becromal hafi verið fyrsta skrefið í þá átt í seinni tíð. Ýmsar þreifingar eru einnig í gangi um framleiðslu bæði á sólarkísil og koltrefjum.

    Ég sé fyrir mér (og vona) að fleiri slík verkefni komist af stað á árinu og þá í stað álvers á Bakka og jafnvel líka í Helguvík.

  • Pólitík og netið: Um síðustu áramót spáði ég því að netið, og þá ekki síst samfélagsvefir, ættu eftir að leika lykilhlutverk í pólitísku starfi árið 2009. Þetta er reyndar orðið svo áberandi núna að það er ótrúlegt að á sama tíma fyrir ári síðan voru til dæmis aðeins örfáir stjórnmálamenn og líklega enginn stjórnmálaflokkur með opna síðu á Facebook.

    Við sáum líka ýmsa aðra pólitíska vinkla spretta upp úr þessum jarðvegi: Mótmælin voru að miklu leyti skipulögð á Facebook, Appelsínuguli-hópurinn, hópar með og á móti ESB, með og á móti ýmsum útgáfum af Icesave samningum, með og á móti lýðræði, með og á móti sól. 2010 verða sveitastjórnarkosningar og strax má sjá þess merki að frambjóðendur í prófkjörum og listar sem boðnir eru fram eru komnir í startholurnar með Facebook-viðveru, Twitter-tilraunir og notkun nýrra miðla til að dreifa upplýsingum og áróðri.

    Að teknu tilliti til takmarkaðra fjárráða held ég að Facebook og netið verði þungamiðjan í aðdraganda þessara sveitastjórnarkosninga, sérstaklega í stærri sveitarfélögunum.

  • Opinn hugbúnaður: Sífellt fleiri eru að átta sig á því að í boði eru ágætir valkostir við flestan séreignarhugbúnað. Ýmislegt mælir með aukinni notkun opins hugbúnaðar jafnt hjá hinu opinbera, í einkageiranum og á heimilum landsins. Kostnaður er eitt þeirra atriða, en þó ekki endilega eins borðleggjandi og hörðustu fylgimenn vilja meina. Þjálfunarkostnaður, þjónusta og töpuð vinna á meðan skiptin fara fram er umtalsverður og sumar “commercial” lausnir standa reyndar samkeppni frá opnum hugbúnaði enn langtum framar (og öfugt – svo það sé sagt).

    Persónulega þykja mér rök á borð við þau að gæta þess að starfsaðferðir festist ekki í viðjum einstakra framleiðanda, t.d. vegna lokaðra skráarsniða eða að verkferlar krefjist ákveðinna, dýrra séreignarlausna vega mun þyngra. Eins þarf skólakerfið að gæta þess að draga ekki vagn tiltekinna fyrirtækja. Það er hins vegar jákvæð þróun að sem flestir átti sig á því að það eru valkostir við þann hugbúnað sem þeir hafa vanist.

    Ég sé fyrir mér að opinn hugbúnaður muni ryðja sér nokkuð afgerandi til rúms hjá hinu opinbera á árinu og í auknum mæli í einkageiranum líka.

  • Hræringar á fjarskiptamarkaði: Fjarskiptamarkaðurinn er – eins og svo margt annað í samfélaginu – dálítið upp í loft eftir bankahrunið.

    Teymi, aðaleigandi Vodafone fór á hausinn árið 2009, félögin fengu gríðarmiklar skuldir afskrifaðar og eignarhaldið er núna í höndum Landsbankans að mestu leyti. Landsbankinn leysti jafnframt til sín stóran hluta í Tali á árinu.

    Nova hefur gengið framúrskarandi vel að ná til sín viðskiptavinum í farsímaþjónustu, en er nánast örugglega enn rekið með allmiklum halla. Ólíklegt er að eigendur hafi mikið fé til að standa undir því áfram og því er 2010 líklega árið sem Nova þarf að fara að standa undir sér. Það þýðir væntanlega gerbreytta verðskrá og tilboð. Fyrirtækið er að auki að stórum hluta í eigu Novators, og ég get ímyndað mér að stjórnendur Nova hafi svitnað verulega í látunum vegna Verne. Það er aldrei að vita hvenær sambærileg reiði gæti bitnað á öðrum fyrirtækjum sem tengjast Novator og Nova liggur vel við höggi, þar sem fyrirtækið starfar á einstaklingsmarkaði fyrst og fremst.

    Hlutdeild Símans á farsímamarkaði fór í fyrsta sinn niður fyrir 50% á árinu, en fyrirtækið er engu að síður í afburðastöðu í fjarskiptageiranum í heild. Afkoma Símans er líklega mjög góð eins og alltaf hefur verið, en eignarhaldið gæti raskast verulega á árinu. Síminn er jú í eigu Skipta og þar liggja að mestu leyti lánin sem notuð voru til kaupanna á Símanum á sínum tíma. Skipti eru svo aftur í eigu Exista og “Exista er í eigu guðs almáttugs” eins og einn félagi minn komst að orði.

    Það er engin leið að sjá fyrir hvernig þessi markaður á eftir að stokkast upp á árinu, en það er deginum ljósara að hér verða miklar hræringar. Ólíklegt er að Síminn fái að taka of mikinn þátt í samþjöppun á þessum markaði af samkeppnisástæðum og því ætla ég að leyfa mér að spá því að eignarhald Nova, Tals og Vodafone eigi eftir að renna saman að einhverju leyti á árinu 2010.

Hvað haldið þið að muni gerast á árinu? Einhver til í að veðja á móti mér í einhverjum af þessum vangaveltum? Er ég úti á þekju í einhvejrum málum?

Gleðilegt tækniár!

Nýja Kauphöll takk

kauphoell.width-900.jpgUndanfarna daga hafa verið ræddar í fjölmiðlum hugmyndir um að skrá í Kauphöllina fyrirtæki sem bankarnir hafa tekið yfir og koma þeim þannig í almenningseigu.

Í grunninn held ég að þetta sé góð hugmynd. Að mörgu leiti betri en beint söluferli í umsjón bankanna sjálfra og án alls efa betra en það handstýrða og ógagnsæja ferli sem virðist vera í gangi með önnur.

Hins vegar þarf Kauphöllin að taka verulega til í sínum ranni ef hún á að verða vettvangur þessara viðskipta. Ég er ekki einu sinni viss um að Kauphöllin í þeirri mynd sem hún hefur verið starfrækt eigi sér viðreisnar von. Ástæðan? Jú, Kauphöllin er ein þeirra stofnana sem gerbrást í aðdraganda Hrunsins og þarf að líta í eigin barm, viðurkenna mistök sína og ábyrgð og breyta starfsháttum og reglum áður en hún er tilbúin til að taka þátt í endurreisnarstarfinu.

Byrjum á smá bakgrunnsupplýsingum…

Um hlutafélög
Hlutafélög eru stórmerkilegar stofnanir. Þau gera fólki úr ólíkum áttum kleift að taka saman höndum um verkefni sem hver og einn hefði verið ófær um einn og sér. Sumir geta lagt mikið til þeirrar hugmyndar eða þess verks sem fyrir höndum er og aðrir minna, en ramminn á að tryggja að allir sitji við sama borð og njóti ávaxtanna – og taki á sig áhættuna – í hlutfalli við það sem þeir leggja til.

Að auki takmarkar hlutafélagaformið ábyrgð hluthafanna við það fé sem þeir leggja félaginu til og þannig geta menn lagt verkefni lið, án þess að eiga á hættu að tapa öðru en því sem þeir hafa eyrnamerkt verkefninu. Þetta er líka mikilvægt, því fáir myndu leggja áhættusömu verkefni lið ef það gæti sjálfkrafa stofnað öllum eigum þeirra í hættu. Þetta á líka að öllu jöfnu að þýða það að hlutafélag fái aldrei að stofna til skuldbindinga umfram það sem hlutaféð, rekstur fyrirtækisins og eignir þess geti staðið undir.

Hlutafélög verða þannig til þess að margvísleg verkefni geta orðið að veruleika, sem annars yrðu ekki og ýta þannig undir nýsköpun, skapa störf og auka – þegar vel tekst til – lífsgæði okkar og samfélag. Gunnhugmyndin á bakvið hlutafélagaformið er því besta mál.

Hlutabréfamarkaðir eru að sama skapi mikilvægir. Virk viðskipti með hlutabréf í félagi mynda verð á þeim og meta þannig í raun í sífellu stöðu og framtíðarhorfur fyrirtækisins. Þetta gerir fólki sem lagt hefur verkefni til fé kleift að losa fjármuni á sanngjörnu verði á hverjum tíma og njóta þannig ávaxtanna – eða taka á sig það tap – sem orðið hefur yfir það tímabil sem viðkomandi hlutur var í þeirra eigu. Þetta minnkar enn frekar tregðu fólks við að leggja fé í hlutafélag. Ekki þarf að bíða þar til verkefninu er lokið, eða fyrirtækið fer að borga arð til að geta losað um það fé sem lagt var inn.

Það má því segja að hlutafélög og góður hlutabréfamarkaður sé forsenda fyrir kröftugu atvinnulífi, nýsköpun og uppbyggingu.

Íslenska Kauphöllin var aftur á móti ekki góður hlutabréfamarkaður – og Kofinn sem eftir stendur verður aldrei góð Höll nema til komi grundvallarbreytingar á starfsemi hennar.

Upplýsingagjöf

Lykillinn að ofangreindum kostum hlutafélaga og hlutabréfamarkaða er öflug upplýsingagjöf. Því betri upplýsingar sem kaupendur og eigendur hluta í félaginu hafa um stöðu þess á hverjum tíma, því betri aðstöðu eru þeir í til að meta áhættu og möguleika félagsins. Það er því algert lykilatriði að allir hafi jafnan og eins mikinn aðgang að upplýsingum eins og hægt er – annars skapast ójafnvægi og óvissa um þá þætti sem þurfa að liggja til grundvallar við verðmat hlutanna.

Þetta er líka reynt að tryggja með hlutafélagalögunum og starfsreglum hlutabréfamarkaða. Þeir sem hafa meiri upplýsingar um starfsemina en aðrir, s.s. stjórnendur, stjórnarmenn og í sumum tilvikum aðrir starfsmenn fyrirtækjanna, kallast innherjar – og um viðskipti þeirra með hluti gilda aðrar reglur en um almenna fjárfesta. Öllum öðrum á að tryggja jafnan og öruggan aðgang að upplýsingum. Í tilfelli kauphalla er þetta gert með reglum um birtingu ársreikninga, ársfjórðungsuppgjöra og þess á milli sérstakra tilkynninga ef ástæða er til.

Hrunið kom upp um algera brotalöm í þessari upplýsingagjöf í íslensku Kauphöllinni. Það vantaði svo sem sjaldnast upp á það að umræddum skjölum væri skilað (þó þess séu dæmi, einkum eftir Hrun), en þau sögðu bara ekki alla söguna. Reyndar má segja að þau hafi oft sagt bara einhverja allt aðra sögu – sögu af einhverjum félögum sem aldrei voru til nema í hugum eigendanna og þeirra sem sáu um “upplýsinga”-gjöfina:

  • Flókið net krosseignatengsla kom í veg fyrir að eignarhald á félögunum væri ljóst;
  • Stórlega ýktar “óefnislegar eignir” og “viðskiptavild” (sem reyndar eru hvort tveggja hugtök sem eiga fullan rétt á sér ef rétt er með farið) komu í veg fyrir að nokkuð væri hæft í efnahagsreikningum fyrirtækjanna;
  • Sýndarviðskipti – oft með lánum frá félögunum sjálfum – héldu uppi falsaðri eftirspurn eftir bréfum og þar með verði þeirra; og
  • Tap af óvarlegum viðskiptum var falið með því að selja “eitraðar eignir” inn í nýstofnuð dótturfélög sem áttu svo jafnvel ekkert annað.
  • Endurskoðendur félaganna kvittuðu upp á allt saman með glöðu geði og léðu þessum upplýsingum þar með trúverðugleika.

Þessi listi gæti hæglega verið lengri og lengist reyndar sífellt eftir því sem fleiri kurl koma til grafar.

Allt þetta átti sér stað í Kauphöllinni – þeirri sem nú ætlar að taka þátt í endurreisninni. Þeim til varnar má reyndar segja að það sama hefur að einhverju leiti átt sér stað í kauphöllum úti um allan heim, en það þýðir ekki að við eigum bara að endurvekja sama kerfið. Það partý er búið og ef það verður aftur veisla, verður hún á allt öðrum forsendum, með öðrum boðslista og mun hófstilltari skemmtiatriðum.

Við eigum ekki að sætta okkur við óbreytt fyrirkomulag. Ef við ætlum að virkja kosti hlutafélagaformsins aftur til fulls þarf nýja hugsun og nýjar reglur.

Annan október í fyrra, þegar hamfarirnar voru varla byrjaðar, skrifaði ég þessa færslu sem stendur jafnvel enn frekar fyrir sínu nú en þá. Ég held ég noti bara eftirfarandi klausu úr henni til að lýsa því hvert ég er að fara:

Lög um upplýsingagjöf í kauphallarviðskiptum eiga sér meira en aldarlanga sögu og tilgangur þeirra er að markaðsaðilar sitji við sama borð með bestu fáanlegu upplýsingar á hverjum tíma. Á þeim tíma sem lögin eru mótuð, hefur ársfjórðungsleg birting á rekstrartölum líklega verið ansi stíf krafa – jaðrað við það að vera rauntíma upplýsingagjöf með þeirra tíma tækni. Í dag er þessu öðruvísi farið. Það er ekkert sem stoppar kauphallir í að setja kröfur um rauntímaaðgengi að hverju sem þeir kjósa. Já – jafnvel inn í bókhald fyrirtækjanna, sjóðsstreymi þeirra, útistandandi kröfur og eignastöðu.

Þannig gæti fjárfestir, hvort sem hann er að fjárfesta í hlutabréfum, skuldabréfum, eða einhverjum sjóðum, grafið sig niður í minnstu smáatriði fjárfestingar sinnar. Svolítið eins og DataMarket og fjárlögin, nema bara á miklu stærri skala og með miklu meiri nákvæmni.

Ef svona hefði verið, hefðu margir verið búnir að benda á samsetninguna í Sjóði 9 og hversu mikið hékk þar á fáum, tengdum aðilum. Það hefði líka verið búið að grafa í alla undirmálsvafningana og gagnrýna þá. Hrunið stafar af miklu leiti af því að fáir, ef nokkur, hafði tækin til að sjá í gegnum flækjuna sem búið var að spinna í allskyns fjármálagjörningum.

Ég held að þegar þessum hamförum á fjármálamörkuðum lýkur og menn fara að endurskoða leikreglurnar, sé eitthvað á þessa leið líklegt til að verða ofan á. Ekkert annað en fullkomið gegnsæi á öll tiltæk gögn getur aukið tiltrú almennings á þessum mörkuðum aftur.

Warren Buffet fjárfestir aldrei í neinu sem hann skilur ekki. Með rauntímaaðgang í undirliggjandi vef fjármála- og bókhaldskerfa myndu allir hafa tólin til að skilja það sem að baki fjárfestingum þeirra og hópnum sem heild treystandi til að veita markaðsaðilum aðhald með því að rýna í þessar tölur með og beita allskyns greiningar- og birtingartólum til að koma auga á veilurnar í kerfinu.

– – –

Aðrar færslur frá mér (og DataMarket) um tengd málefni:

Fimm ráð handa frumkvöðlum

Start09Aðstandendur Start09 átaksins báðu mig um að skrifa nokkra punkta um það sem ég hefði lært af því að koma á fót sprotafyrirtækjum í gegnum tíðina. Textinn hér að neðan er útkoman úr því, en þessir punktar birtust á vefnum þeirra núna á mánudaginn.

Síðan ég útskrifaðist úr menntaskóla hef ég varla gert annað en að stofna og reyna að koma á legg sprotafyrirtækjum. Fyrirtækið sem ég rek núna – DataMarket – er fjórða fyrirtækið sem ég stofna í félagi við aðra undanfarin 12 ár. Sumt hefur gengið upp, annað ekki – eins og gengur. Í öllum tilfellum hafa verið bæði stórir sigrar og stór vonbrigði. Að starta sprotafyrirtæki er rússíbanareið: skemmtilegt, skelfilegt og alls ekki fyrir alla.

Hér eru fimm heilræði um sprotastarf sem ég þykist hafa lært sjálfur eða af öðrum í mínum rússíbanaferðum.

1. Haldið væntingunum í skefjum
Það er alveg saman hvað þið eruð klár, eruð með góða hugmynd, gott fólk, snjalla markaðssetningu, ómissandi vöru eða skothelt einkaleyfi – langlíklegasta niðurstaðan úr þessu sprikli er að fyrirtækið gangi ekki upp. Að það hætti rekstri eða renni út í sandinn þegar plönin ganga ekki eftir. Þetta er staðreynd. Tölfræðin einfaldlega segir það.

Langflest sprotafyrirtæki eru hætt starfsemi 3-4 árum eftir stofnun. Önnur malla áfram, etv. í ágætum rekstri en án þess að virkilega “meika það”. Mjög fá slá í gegn og í flestum tilfellum tekur það þá næstum áratug af harki. Frægð, frami og ríkidæmi er fágæt undantekning, ekki reglan. Og munið að hlutafé er einskis virði fyrr en einhver hefur keypt það af ykkur!

Þetta þýðir ekki að þið eigið ekki að hafa trú á því sem þið eruð að gera. Þið verðið að hafa það, annars eru örlögin ráðin strax. En væntingastjórnunin er mikilvæg, ekki bara fyrir þig, heldur líka fyrir fólkið í kringum ykkur: starfsfólkið, ættingja, vini og samstarfsaðila.

Hafiði fæturna á jörðinni, þó hausinn sé í skýjunum.

Það sem á að drífa ykkur áfram er möguleikinn á að dæmið gangi upp, ekki fullvissan um það… og svo auðvitað hvað þetta er fáránlega gaman!

2. Það sem þið eruð að gera er EKKI leyndarmál
Ekki hika við að segja öllum sem heyra vilja hvað þið eruð að fást við. Ekki halda að allir muni stela hugmyndinni ykkar. Þið eruð heppinn að fólk vill hlusta. Staðreyndin er sú að flestir eiga eftir að reynast hjálplegir: koma með góðar athugasemdir, tengja ykkur við verðmæta samstarfsaðila eða viðskiptavini, bera út fagnaðarerindið fyrir ykkur eða jafnvel vilja vinna með ykkur eða fjárfesta í hugmyndinni.

Veltið því fyrir ykkur eitt augnablik: Hversu margir eru í þeirri aðstöðu, skilja hugmyndina ykkar svo vel, geta komið saman þeim hóp og fjármagni sem til þarf og eru til í að leggja allt undir og um leið nógu bíræfinn til að taka YKKAR hugmynd og gera hana að veruleika fyrir framan nefið á ykkur? Enginn. Og þið mynduð hvort sem er mala þá, því það eruð þið sem eruð búin að velta fyrir ykkur öllum hliðum málsins í marga mánuði, búin að setja saman hóp, setja saman plan, átta ykkur á samkeppninni, skoða markhópinn, finna hentugustu leiðirnar til að dreifa vörunni og svo framvegis. Þið eruð fólkið til að gera þessa hugmynd að veruleika, aðrir sem hafa frumkvöðlaeðlið í sér eru hvort eð er með sínar eigin hugmyndir.

Þegar öllu er á botninn hvorlft er hugmyndin líka minnsti hlutinn af árangrinum. 99% árangursins næst með blóði svita og tárum, eða eins og Edison sagði: “It’s 1% inspiration and 99% perspiration”. Hann vissi líklega sitthvað um nýsköpun og sprotastarfsemi.

3. Leyfið ykkur að skipta um skoðun
Þegar þið eruð lögð af stað með nýsköpunarhugmynd er alveg gefið að tilviljanir munu leika stærsta hlutverkið í því hvernig til tekst. Þið leggið líklega af stað með nokkuð skýra hugmynd, en eftir því sem þið veltið henni betur fyrir ykkur, þeim mun fleiru komist þið að sem hefur áhrif á þá sýn. Hún kann jafnvel að virðast fjarlægari þegar þið áttið ykkur á því hvað það tekur langan tíma að þróa hana, hvað samkeppnin á viðkomandi markaði er í raun mikil og hversu erfitt er að ná til væntanlegra notenda hennar.

Þá er gott að muna að það er styrkleikamerki að skipta um skoðun. Ekki endilega að taka vinkilbeygju og fara að gera eitthvað allt annað, en að breyta stefnunni, forma hugmyndirnar og styrkja viðskiptaáætlunina með tilliti til nýrra upplýsinga. Ekki halda að fjárfestar eða samstarfsaðilar muni missa trúna á ykkur. Sé þetta gert með góðum rökum munu þeir þvert á móti öðlast aukna trú og nýjir aðilar fá hana.

Algengustu breytingar af þessu tagi er að finna sér smærri hillu eða áfanga á leiðinni að stóra markmiðinu. Líklega kemur í ljós að upphaflega hugmyndin var of stór í sniðum. Það reynist ekki raunhæft að sigra heiminn í einu skrefi, en það eru mögulega smærri sigrar á leiðinni þangað. Hugsanlega hefur lokatakmarkið alls ekki breyst, en þið hafið fundið ýmis smærri tækifæri á leiðinni þangað.

Ef þið hafið dottið niður á spennandi svið er eins víst að upphaflega lokatakmarkið náist aldrei, en að það séu áhugaverðar beygjur á leiðinni þangað sem etv. reynast mikið merkilegari en upphaflega takmarkið þegar allt kemur til alls.

4. Hafið góða sögu að segja
Þið þurfið að vera góðir sögumenn. Hvert er vandamálið sem er verið að leysa? Af hverju eruð þið fólkið til að gera það? Hvernig kviknaði hugmyndin? Svörin við þessum spurningum þurfa að vera spennandi sögur með upphaf, ris og endi. Helst spennu, drama, blóð og eltingaleiki líka ef vel á að vera.

Hvers vegna? Vegna þess að fólk elskar sögur. Þetta á eftir að hjálpa ykkur að komast að í fjölmiðlum, hjálpa ykkur að útskýra það sem þið eruð að fást við fyrir fjárfestum og samstarfsaðilum. Gera viðskiptavini áhugasama um að versla við ykkur. Allt er auðveldara ef þið getið sagt áhugaverðar sögur.

Hollensk verktakafyrirtæki eru það fyrsta sem fólki dettur í hug þegar á að reisa flóðvarnargarð einhversstaðar í heiminum, enda þekkja allir Holland sem landið undir sjávarmáli og hafa heyrt söguna um strákinn sem stakk puttanum í gatið. Þetta er frábær saga, en Hollensk fyrirtæki eru ekkert sérstaklega fær í að byggja flóðvarnargarða – þau sem það gera eru flest frá Belgíu!

Decode segir frábæra sögu um uppruna Íslendinga, Össur segir frábærar sögur um spretthlauparann Oscar Pistorius, Apple segir söguna af því hvernig tveir vinir smíðuðu fyrstu tölvurnar í bílskúrnum hjá foreldrum sínum, Coke segir söguna af leynilegu uppskriftinni og Richard Branson gerir í því að eltast við ævintýri til að geta vakið athygli á því sem Virgin er að fást við þá stundina. Þetta eru engar tilviljanir – fyrirtækin hafa komist áfram á þessum sögum, etv. mis-meðvituð um það hvað þau voru að gera.

5. Ógeðslega erfitt og skelfilega gaman
Það er ekkert 9-5 djobb að koma af stað nýju fyrirtæki. Þetta eru langir vinnudagar og þar fyrir utan verðiði vakin og sofin í að velta fyrir ykkur ýmsu sem við kemur fyrirtækinu. Kannski með áhyggjur af fjármálunum, kannski með frábæra nýja hugmynd sem getur betrumbætt vöruna, kannski bara lausn á vandamálinu sem þið voruð akkúrat að glíma við í dag.

Þar að auki eruð þið málsvarar fyrirtækisins hvar sem þið komið, hvort sem ykkur líkar betur eða verr. Gamlar frænkur eiga eftir að þurfa útskýringar í fermingarveislum á því “hvað það er nú eiginlega sem þú gerir?” og “hvernig færðu pening fyrir það?”, það verða líka tilviljanakennd tækifæri – þið lendið óvænt í matarboði með mikilvægum fjárfesti eða draumaviðskiptavininum og þá er betra að vera með allt á tæru.

Það verða vinnutarnir þar sem ljúka þarf hlutum fyrir mikilvægan fund, sýningu eða útgáfudagsetningu. 20 tíma vinnudagar, 3 í röð, pizzur og svefngalsi, stress, læti og jafnvel rifrildi.

Einmitt þess vegna er nauðsynlegt að þetta sé gaman. Ekki bara ánægjulegt, heldur ógeðslega gaman – það skemmtilegasta sem þið getið hugsað ykkur. Og það er akkúrat það sem á eftir að ráða mestu um það hvort vel tekst til. Ef vinnan er skemmtileg kemur allt hitt meira og minna af sjálfu sér, og jafnvel þó hlutirnir gangi ekki upp var það samt skemmtilegt. Hver getur sagt nei við því 🙂

Þróun búsetu á Íslandi

DM-iconHjá DataMarket erum við alltaf að fikra okkur áfram í meðhöndlun og framsetningu ólíkra gagna.

Áherslan hjá okkur þessa dagana er mikið á íslenskum efnahags- og þjóðfélagsgögnum, enda stefnum við á að opna svokallað Gagnatorg um íslenskan efnahag innan skamms.

Við ákváðum að æfa okkur aðeins í framsetningu landfræðilegra gagna og reyna að gera breytingum á búsetu landsmanna síðustu öldina skil.

Gögnin sem við unnum með að þessu sinni voru mannfjöldatölur eftir sveitarfélögum sem Hagstofan heldur utan um. Afraksturinn má sjá í vídeóinu hér að neðan. Hver hringur á kortinu táknar s.s. eitt sveitarfélag og stærð hans (nánar tiltekið flatarmál) fólksfjöldann. Þar sem sveitarfélög hafa bæði sundrast og sameinast á þessum tíma, segir vídeóið einnig nokkra sögu um þá þróun, ekki síst undir það síðasta, en miklar sameingar hafa átt sér stað síðasta rúma áratuginn.

Að túlka íbúafjölda sveitarfélags í einum punkti er auðvitað aldrei yfir vafa hafið og segir aðeins hálfa söguna. Reyndar dreymir okkur um að útbúa síðar annað vídeó sem segi sýni eiginlega búsetuþróun miklu nákvæmar og betur, en það þarf að bíða – a.m.k. um hríð.

Smellið á myndina hér að neðan til að opna myndbandið í fullum gæðum.

Á glænýju bloggi DataMarket má svo finna nánari upplýsingar um það hvernig myndbandið var unnið, hvaðan gögnin eru fengin, hvernig þau voru unnin og svo framvegis.

urbanization