framtíðin

Tæknispá 2015

Ég hef stundum dundað mér við að skoða sérstaklega ríkjandi strauma og stefnur í tæknimálum og gera “tæknispá” fyrir komandi ár með áherslu á Ísland. Þetta er auðvitað til gamans gert meira en nokkuð annað, en skerpir hugsanir manns og hugmyndir sem síðan getur nýst í leik og starfi í framhaldinu.

Spáin í fyrra birtist einmitt í Kjarnanum og heppnaðist nokkuð vel, þó – og þá sérstaklega þegar – ég segi sjálfur frá. Sumt gekk að nokkru eða öllu leyti eftir. Annað ætla ég engu að síður að halda mig við þó ef til vill hafi sumt reynst ganga hægar en ég hélt fram. Facebook mun til dæmis koma fram með greiðslulausn á árinu, annars má ég hundur heita!

Að því sögðu eru hér nokkur atriði sem ég hef trú á að muni setja mark sitt á tæknigeirann á Íslandi á árinu 2015:

  • Sýndarveruleiki: Næsta útgáfa af sýndarveruleikabúnaði er að líta dagsins ljós. Það er býsna erfitt að lýsa því fyrir þeim sem ekki hafa prófað hversu sterkt þessi tækni grípur mann. Hljóð- og myndgæði eru orðin slík að heilinn gleymir fljótt að ekki er um raunveruleikann að ræða og tafarlaust viðbragð við hreyfingum höfuðs og líkama því sem næst fullkomnar blekkinguna. Nokkrir framleiðendur munu að öllum líkindum setja sýndarveruleikagræjur á almennan markað á þessu ári. Oculus Rift, sem hóf sögu sína á Kickstarter, en var keypt af Facebook á árinu sem leið á tvo milljarða bandaríkjadala, setti að mörgu leyti tóninn hér og er með mjög lofandi tækni, en Sony er þeim skammt að baki og Samsung nálgast markaðinn á talsvert annan hátt með áherslu á þráðlausa tækni. Það er enginn vafi í mínum huga að þessi tækni verður komin í mjög almenna notkun innan 3-5 ára, þó erfitt sé að spá um það nákvæmlega hversu hraður vöxturinn verður.

    Eins og með flesta nýja tækni þarf áhugavert efni og lausnir til að nýta tæknina og sýna hvað í henni býr. Allnokkur íslensk nýsköpunarfyrirtæki eru þegar farin að prófa sig áfram á þessu sviði. CCP greip Oculus Rift báðum höndum mjög snemma. Valkyrie leikurinn sem þeir útbjuggu og byggir á EVE Online heiminum er með vinsælustu sýniforritum fyrir þessa tækni nú þegar. Nokkur sprotafyrirtæki hafa líka þegar litið dagsins ljós á Íslandi sem vinna með þessa tækni og má ætla áhugaverðra hluta frá þeim á árinu. Þar á meðal eru Sólfar, Mure (sem nýlega fékk fjármögnun frá Eyri) og Aldin. Ég spái því að við eigum eftir að heyra mikið af þessum fyrirtækjum á síðari hluta ársins þegar nær dregur almennri dreifingu á þessum nýju sýndarveruleikalausnum.

  • Rauntímavinnsla: Hafi síðustu ár verið ár gríðargagna (e. “Big Data”), þá eru þau næstu ár rauntímavinnslu á þessum gögnum. Tölvukerfi, allt frá stjórnkerfum vinnslulína í matvælafyrirtækjum yfir í viðskiptakerfi fjármálamarkaða framleiða gríðarlegt magn gagna. Hingað til hefur verið nógu krefjandi að ná að grípa þessi gögn og greina þau svo og vinna úr þeim eftir á. Eftir því sem tækninni til þess fleygir fram og reiknigetan verður meiri – í takti við lögmál Moores – er að verða raunhæfur kostur að vinna úr þessum gögnum og bregðast við í rauntíma, jafnvel með sjálfvirkum hætti. Þetta mun hafa í för með sér bætta þjónustu, aukna framleiðni og færri glötuð tækifæri í hvers kyns framleiðslu, sölu og þjónustu. Þetta svið hefur hlotið nafnið Operational Intelligence, sem nefna mætti “rekstrargreind” upp á íslensku. Að minnsta kosti eitt íslenskt sprotafyrirtæki – Activity Stream – hefur þegar náð umtalsverðum árangri á þessu sviði og líklegt að framsækin íslensk fyrirtæki munu byrja að huga að rekstrargreindarlausnum þegar á þessu ári.
  • Sprotageirinn fær fjármagn: Þetta er nánast endurtekning á spádómi fyrra árs, en með vaxandi árangri íslenskra sprotafyrirtækja er loksins útlit fyrir að umtalsvert fjármagn fari að leita í nýsköpunargeirann. Annað væri eiginlega fráleitt. Lífeyris- og fjárfestingasjóðir innan fjármagnshafta geta varla haldið áfram að blása í fasteigna- og hlutbréfabólur innanlands án þess að einhverjum verði á endanum litið til þeirra stóru – en sannarlega áhættusömu – ávöxtunarmöguleika sem liggja í hraðvaxtarfyrirtækjum með alþjóðlegar áherslur. Þarna eru meira að segja tækifæri til að komast – að minnsta kosti óbeint – í tekjur og söluhagnað í erlendri mynt!

    Frá aldamótum hefur ekki verið um auðugan garð að gresja í fjármögnunarkostum fyrir sprota- og vaxtafyrirtæki og undanfarin misseri má segja að þar hafi verið nær alger þurrð þegar fjárþörfin er komin yfir fáa tugi milljóna króna. Nú er raunverulega útlit fyrir að það breytist. Nokkrir aðilar hafa verið að undirbúa stofnun áhættufjárfestingasjóða, hvern þeirra af stærðargráðunni 4-5 milljarðar króna. Ég spái því að tveir af þessum hópum nái markmiði sínu og verði þá þar með tveir stærstu sjóðir af slíku tagi sem settir hafa verið upp á Íslandi. Þetta mun breyta nýsköpunarlandslaginu verulega og gera íslenskum frumkvöðlunm kleift að reyna sínar hugmyndir hraðar og ákveðnar en hingað til hefur tíðkast.

    Sífellt fleiri aðilar í þessum geira eru líka að ná að mynda sterk tengsl við erlenda fjárfesta, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum. Slík tengsl geta undið hratt upp á sig ef vel gengur og eru allmörg dæmi um að nýsköpunarklasar hafi myndast hér og þar í heiminum í kringum eitt eða tvö sprotafyrirtæki sem náð hafa árangri og þar með beint kastljósi og tengslum “heim”.

  • Plain Vanilla leggur allt undir: Spútnikfyrirtækið Plain Vanilla stendur í ströngu þessa dagana. Eins og fram hefur komið allt frá því að fyrirtækið tók inn stóra fjármögnun frá heimsþekktum fjárfestum í lok árs 2013, stefnir fyrirtækið á að breyta spurningaleiknum vel heppnaða – QuizUp – í samfélagsnet sem tengi saman fólk með sameiginleg áhugamál. Ef þeim tekst viðlíka vel til með þessa umbreytingu og þeim tókst með markaðfærslu leiksins í upphafi getur þetta verið ótrúlega stórt tækifæri. Áhættan er mikil, en það sem reynt er við er af svipuðu tagi og það sem Instagram, Snapchat eða WhatsApp hefur áður tekist: að ná með sterkum hætti til tuga eða jafnvel hundruða milljóna manna. Takist það – sem auðvitað er langt í frá gefið – mun “Thor” hugsanlega í alvöru standa frammi fyrir því að þurfa að svara spurningunni hvort hann sé til í að selja fyrirtækið fyrir milljarð dollara (spólið á ca. 4:10 í myndbandinu). Líklega hefur ekkert íslenskt sprotafyrirtæki áður staðið frammi fyrir jafn stóru tækifæri. Til að þetta gangi upp þarf ekki bara frábæra útfærslu, framúrskarandi markaðssetningu og sterka eftirfylgni, heldur líka heilmikla heppni. Þetta mun allt spilast út með einhverjum hætti núna á árinu og verður verulega spennandi að fylgjast með.
  • Íslendingar læra alþjóðlega sölu og markaðssetningu: Það sem háð hefur flestum íslenskum tæknifyrirtækjum í gegnum tíðina er markviss og góð sölu- og markaðsstarfsemi. Mörg þeirra hafa verið með glimrandi góðar hugmyndir, fína tækni, pakkað þeirri tækni inn sem ágætum vörum en síðan klikkað algerlega á sölu- og markaðsstarfinu. Mér skilst reyndar að þetta sé að sumu leyti tilfellið í sjávarútveginum líka og margir sem telja að þar sé hægt að gera miklu betur, þó þar sé þetta starf auðvitað allt annars eðlis. Núna erum við hins vegar að læra þetta – og það hratt. Og það er allt að gerast í gegnum ferðamannaiðnaðinn. Fyrirtæki í þeim geira, allt frá flugfélögunum Icelandair og WOW niður í smáa ferðaþjónustuaðila eru að ná býsna góðum tökum á markaðssetningu á leitarvélum og samfélagsmiðlum og sölu í gegnum vefinn.

    Það verður ómetanlegt þegar þessi þekking fer að leita á önnur – og að sumu leyti gjöfulli – mið og íslensk fyrirtæki í tæknigeiranum, þar sem framlegðin getur verið margfalt meiri, fara að njóta krafta þeirra sem nú eru að læra þessi fræði “hands on” í ferðageiranum. Þetta mun nýtast íslenskum tæknifyrirtækjum vel, sérstaklega þeirri gerð tæknifyrirtækja sem einmitt eru ef til vill best til þess fallin að vera með stóran hluta eða jafnvel alla sína starfsemi á Íslandi, það er hugbúnaðarfyrirtækja á einstaklings- eða smáfyrirtækjamarkaði sem veita þjónustu sína alfarið yfir netið (e. SaaS).

Já, sannarlega áhugavert ár framundan í íslenska tækniheiminum. Gleðilegt tækniár, 2015.

Upphaflega birt á Kjarnanum

Tæknispá 2014

Þessi spá mín um þróun komandi árs í heimi tækninnar birtist í hátíðarútgáfu Kjarnans fyrir nokkrum dögum.

Hér eru 6 hlutir sem ég spái því að muni gerast, eða við munum að minnsta kosti sjá stór skref í átt að á árinu 2014.

  • “Tölvan er dauð”, hefði Nietzsche kannski sagt. Það er nú kannski ekki alveg svo, en á meðan fartölvusala stendur nokkurnveginn í stað og borðtölvur eru sannarlega deyjandi fyrirbæri, er snjallsíma- og spjaldtölvueign á hraðri uppleið. Sífellt stærri hluti netnotkunar fer nú fram í gegnum þessi tæki. Þessi þróun mun halda áfram á árinu 2014 og því munum við sjá miklu fleiri vefsvæði þannig úr garði gerð að þau geri ráð fyrir að notkun sé að meirihluta með þessum hætti, eða “mobile first”, eins og það er kallað upp á ensku. Vonandi munu flestir vefir (íslenskir fréttavefir, ég er að tala við ykkur!) hætta að halda úti aðskildum vefslóðum fyrir mismunandi tæki og einbeita sér frekar að vefhönnun sem aðlagar sig að skjástærð og eiginleikum þess tækis sem lesandinn er að nota hverju sinni.
  • Öppin hverfa: Síðustu ár hefur verið það alheitasta að búa til “öpp” til að sinna hinum ýmsu afmörkuðu verkefnum á farsímum og spjaldtölvum. Við erum þarna á sama stigi farsímaþróunarinnar og þegar allir kepptust við að dreifa margmiðlunarefni fyrir tölvur á geisladiskum um og fyrir aldamótin. App er í eðli sínu forrit sem er sérskrifað til að keyra á tilteknu stýrikerfi og jafnvel afmörkuðum útgáfum þess. Geisladiskarnir dóu þegar bandbreidd á netinu og vafrar þróuðust nægilega til að ná að skapa í flestum tilfellum nokkurnveginn sömu upplifun á hefðbundinni vefsíðu og en ná í staðinn margfaldri dreifingu á við það sem diskarnir buðu upp á. Öppin hafa sannarlega sína kosti, en mörg þeirra eru í raun ekkert annað en þunn skel utan um það sem vafrinn í tækinu getur gert hvort sem er. Eftir því sem vafrar og vefþjónustur verða almennt í boði sem bjóða upp á þægilegar smágreiðslur, einfaldar leiðir til að “branda” og bókamerkja vefsíður á aðalvalmyndir tækjanna og ekki síst bjóða upp á þann sýnileika sem “app store”-in bjóða upp á, munu hefðbundnar vefsíður sækja á aftur, enda má ná sömu upplifun á þann hátt, en spara sér að gera sérstaka útgáfu fyrir hverja gerð stýrikerfis. Öppin munu enn eiga sinn sess, en meira í líkingu við það sem við þekkjum sem muninn á forriti og vefsíðu á tölvunni okkar.
  • Símafyrirtæki í vanda: Símafyrirtæki, einkum þau rótgrónari, hafa um langt árabil haft gífurlega framlegð af landlínuáskriftum – tækni sem fáir nota, en margir borga fyrir. Í þónokkurn tíma hafa þau reyndar þurft að þola að ný heimili bætist ekki endilega í þennan hóp, enda upfyllir nettenging og farsímaáskrift allar fjarskiptaþarfir og -venjur ungs fólks. Nú er þessi tekjustraumur farinn að láta verulega á sjá og eftir því sem ljósleiðaratengingar og 4G farsímasamband verður algengara og áreiðanlegra eru eldri hóparnir jafnvel að segja upp landlínuáskriftunum líka. Alltaf leiðinlegt þegar fólk hættir að gefa manni peninga.
  • Facebook alls staðar: Fyrir nokkrum árum lét ég hafa eftir mér að “Facebook væri sjónvarpið” í þeim skilningi að nú væri kvöldrútínan á heimilum landsmanna farin að snúast um að vaska upp, hátta börnin og fara svo á Facebook í stað þess – eða í raun samhliða því – að horfa á sjónvarpið. Nú er Facebook orðið miklu meira en það. Facebook er til að mynda líka dagblaðið (á dauðum stundum í deginum), sígarettan (til að taka sér hlé) og sjampóbrúsinn (til að lesa á klósettinu). Þetta er gríðarlega sterk staða sem fyrirtækið og fyrirbærið Facebook er komið í og með nær 1 af hverjum 5 jarðarbúum sem notendur eru þeir rétt að byrja að nýta sér þessa stöðu til að afla tekna. Það kæmi mér ekki á óvart að við ættum eftir að sjá Facebook rúlla út greiðslulausnum (PayPal), vefleit (Google) og verslunarlausnum (Amazon) áður en langt um líður. Og það er fátt sem getur hindrað þeirra í þessari samkeppni. Ekkert fyrirtæki veit meira um notandann, langanir hans, þrár og drauma – og hvernig má uppfylla þá.
  • Þrívíddarprentun: 2014 er ár þrívíddarprentarans. Tæknin er orðin nógu góð og ódýr til að fara að komast í almenna útbreiðslu, og notkunarmöguleikarnir eru fleiri en flesta órar fyrir. Hönnuðir eru auðvitað fyrir allnokkru búnir að tileinka sér þessa tækni sér til mikils gagns, en með almennri útbreiðslu munu hlutirnir komast á verulegt skrið. Fólk mun prenta sér leikföng, nytjahluti og listmuni. Föndurfíklar fá alveg ný tækifæri fyrir útrás. Möguleikarnir í kennslu eru ótakmarkaðir. Heimurinn er áþreifanlegur og áþreifanlegir hlutir höfða til fólks á allt annan og “náttúrulegari” hátt en það sem er bara til í tölvu. Aukin útbreiðsla mun líka kveikja nýjar hugmyndir, sprotafyrirtæki munu spretta upp og hlutirnir fara að gerast á þessum vettvangi með auknum hraða. Hugmyndaríkt fólk mun láta sér detta í hug hluti til að nýta þessa tækni á vegu sem ómögulegt er að spá fyrir um. Ég spái því sem sagt að einhver muni gera eitthvað með þessari tækni sem mér tekst ekki að spá fyrir um!
  • Sprotauppskeran heldur áfram: Árið 2013 fórum við að sjá uppskeruna af þeirri bylgju sprotafyrirtækja sem mörg hver fóru af stað eftir hrunið 2008 þegar margt hugmyndaríkt og kraftmikið fólk stóð á krossgötum í lífinu og ákvað að eltast við gamla – og stundum nýja – drauma. Plain Vanilla, Meniga, Clara, Betware og fleiri voru að ná eftirtektarverðum árangri á árinu. Við eigum eftir að sjá nokkur slík dæmi til viðbótar árið 2014 og þá fer athygli fjárfesta sem leita logandi ljósi að nýjum bólum til að blása í á bakvið gjaldeyrishöft að beinast að þessum geira. 2014 verður upphaf nýrrar sprotabólu. Þar mun margt misgáfulegt gerast, en heildaráhrifin verða sannarlega af hinu góða. Íslenski tæknigeirinn ætti að búa sig undir nýja rússíbanareið!

Tæknispá 2010

Ég hef nokkrum sinnum áður ráðist í það um áramót að skrifa smá hugleiðingar um það sem komandi ár gæti borið með sér í tæknigeiranum á Íslandi. Spáin fyrir nýliðið ár heppnaðist býsna vel, þannig að nú er kominn tími til að rýna aftur í telauf og garnir og spá fyrir um næstu misserin.

  • Sprotaheimurinn: Það eru magnaðir hlutir að gerast í heimi nýsköpunar og sprotastarfsemi í tæknigeiranum. Eftir 5-6 steindauð ár þar á undan, brustu allar flóðgáttir við hrun bankanna. Þar kemur líklega tvennt til: 1) Hreyfing á fólki sem ýmist missti vinnuna, eða fékk nóg og yfirgaf stöður sem kannski voru aldrei sérlega skemmtilegar, bara vel borgaðar; og 2) Gerbreytt afstaða almennings, stjórnvalda og fjölmiðla – það var loksins komið veður til að skapa.
    • Fyrstu ávextirnir af sprotum hrunsins: Allnokkur sprotafyrirtæki komu frá sér úrvalsvörum árið 2009. Má þar nefna: heimilisfjármálagræjuna Meniga, tölvuleikina Peter und Vlad og Audiopuzzle frá Dexoris, Vaktarann frá CLARA sem fylgist með umræðu á netinu, tölvuleikina Symbol6, Soft Freak Fiesta og Vikings of Thule frá Gogogic og smálánaþjónustuna Uppsprettu.

      Sum þessara fyrirtækja voru jafnvel stofnuð eftir hrun, þannig að hraðinn er mikill. Ég reikna með að sjá enn meiri grósku í þessu á komandi ári. Öll áðurnefnd fyrirtæki eru ýmist að þróa endurbættar útgáfur af sínum vörum eða nýjar vörur væntanlegar frá þeim á árinu. Til viðbótar má nefna að vörur eða stórar viðbætur eru væntanlegar frá næstum öllum hinum fyrirtækjunum í Icelandic Gaming Industry (IGI) auk Mobilitus, Medizza, Gogoyoko, DataMarket og ýmsum fleirum sem ég er ýmist að gleyma eða hreinlega veit ekki af. Eins hlakka ég mikið til að sjá og kynnast betur því sem koma mun út úr “hands-on” nýsköpunarsetrinu í Toppstöðinni.

      Ég sé því fyrir mér að í sprotaheiminum verði árið 2010 enn viðburðaríkara en nýliðið ár og þar verða líklega bæði stórir sigrar og talsverð vonbrigði.

    • Of miklir peningar: Það eru að safnast býsna miklir peningar í sjóði sem ætla að fjárfesta í efnilegum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum á næstunni: Frumtak, sem upphaflega átti að verða 4,5 milljarða sjóður hefur úr meira en helmingi þeirrar upphæðar að moða þrátt fyrir einhverja óvissu um fjárframlög gömlu bankanna; Bjarkar-sjóðurinn sem er í umsjón Auðar Capital stefnir vel á annan milljarð; Nýsköpunarsjóður hefur úr talsverðu að moða; Tækniþróunarsjóður hefur 720 milljónir á fjárlögum næsta árs, af hverjum líklega um helmingur fer til slíkra fyrirtækja. Að auki eru allnokkrir hópar að setja saman bæði litla og umtalsvert stóra sjóði sem ætlað er að fjárfesta í tækifærum af þessu tagi. Ég hugsa að það láti nærri að 5-7 milljarðar séu eyrnamerktir í sprota- og nýsköpunarfjárfestingar þessa dagana!

      Þetta er auðvitað langt frá því að vera vandamál í sjálfu sér, en allir þessir peningar eru að elta tiltölulega fá – raunverulega góð – tækifæri. Hættan við allt þetta fé er sú að það leiti of víða og að forsvarsmenn sjóðanna hafi ekki þolinmæði til að bíða eftir tækifærum sem þeir hafa raunverulega tröllatrú á. Þannig gæti farið svo að of mörg fyrirtæki fái litlar frumfjárfestingar, en svo verði of litlir peningar eftir til að fylgja eftir þeim sem klóra sig fram úr fyrstu árunum og tryggja að þau nái virkilega að blómstra. Þetta hefur gerst áður. Nýsköpunarsjóður, eins og hann var rekinn í kringum árið 2000, er mjög gott dæmi um slíkt. Líklega hefði komið meira útúr honum með færri og stærri fjárfestingum.

      Sem sagt: Gott að það sé úr miklu fé að moða, en því má ekki smyrja of þunnt.

    • Of fátt hæft fólk: Það er ekkert atvinnuleysi í tæknigeiranum. Það er auðvitað alltaf slagur um besta fólkið, en það er vöntun á fólki af öllum stærðum og gerðum. Að einhverju leyti stafar þetta af því að aðsókn í tölvu- og tækninám var áberandi lítil á uppgangstíma bankanna. Við höfum ekki alið upp mikið af slíku fólki síðustu árin. Hins vegar stafar þetta af því að eftirspurnin hefur líklega aldrei verið meiri. Þó eitthvað hafi dregið saman í tölvudeildum bankanna og hjá sumum þjónustufyrirtækjum í upplýsingatæknigeiranum er það þó minna en ætla mætti. A.m.k. einn bankinn er m.a.s. að bæta við sig fólki um þessar mundir. Á sama tíma ætlar t.d. CCP eitt og sér að bæta við sig 160 manns á næstu mánuðum (þó ekki bara á Íslandi) og hefur þegar vaxið gríðarlega. Lauslega áætlað starfa um 200 manns hjá sprotafyrirtækjunum sem nefnd voru hér að ofan og restin af atvinnulífinu hefur tekið slakanum í upplýsingatæknigeiranum fegins hendi og ráðið til sín töluvert af fólki sem þau höfðu ekki tök á að slást um við bankana á sínum tíma.

      Ég sé fyrir mér að þessi mannekla muni hamla vexti sprotafyrirtækja umtalsvert.

    • Leikjabólan: Góður maður reiknaði út að Ísland ætti innan við 10 menn sem væru framúrskarandi (meira en 3 staðalfrávik frá meðaltali) í hverju sem er. Þetta gilti jafnt um Seðlabankastjóra sem sundmenn. Þessi staðreynd, að viðbættum þeim skorti á fólki sem er í upplýsingatæknigeiranum almennt veldur mér svolitlum áhyggjum fyrir hönd íslenska tölvuleikjaiðnaðarins sem nú er í örum vexti. Það kemur alls ekki á óvart að ýmsir feti í fótspor velgengninnar sem CCP fagnar, og heilt yfir er auðvitað frábært að sjá gróskuna sem m.a. kemur fram í starfsemi IGI. En gæðin, fólkið og hugmyndaauðgin hljóta að dreifast full þunnt þegar svona mikið er um að vera í jafn sérhæfðum geira og raun ber vitni.

      Ég spái því að þessi mikla starfsemi á þröngu sviði eigi eftir að sliga einhver leikjafyrirtæki, sem annars hafa alla burði til að slá í gegn.

  • Gögn og meiri gögn: Ýmis málefni sem tengjast gögnum, og þá ekki síst opnum gögnum eru mér afar hugleikin. Hér er tvennt sem ég sé fyrir mér að gerist í þeim efnum á árinu.
    • Opin gögn: Á haustmánuðum 2009 var lögð fram þingsályktunartillaga 12 þingmanna, jafnt úr stjórn sem stjórnarandstöðu, um opnara aðgengi að opinberum gögnum. Jafnframt var lögð fram fyrirspurn til forsætisráðherra um afstöðu hennar til þessara mála. Þótt svarið sem barst nú rétt fyrir áramótin sé afar varfærið og taki ekki djúpt í árinni, er boltinn greinilega farinn að rúlla varðandi það að breyta umgjörð þessara mála.

      Ég sé fyrir mér að breytingar verði gerðar á upplýsingalögum áður en árið er úti, aðgengi að opinberum gögnum rýmkað til mikilla muna og að áherslan verði á “upplýsingaskyldu stjórnvalda fremur en upplýsingarétt almennings” eins og segir í niðurlagi þingsályktunartillögunnar.

    • Greining gagna: Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið mun mjög líklega sýna, svo ekki verður um villst, hversu mikill máttur upplýsingatækninnar er þegar kemur að því að greina gögn. Ég á von á að sjá þar tengslanet, atburðarásir og hreinlega uppljóstranir á einstökum málum sem fengnar hafa verið með því að keyra greiningar á gríðarlegt magn gagna í leit að eftirtektarverðum mynstrum, óeðlilegum færslum og grunsamlegum tengslum og samskiptum ýmissa aðila. Ég skrifaði pistil um þetta efni í byrjun árs og þykist vita að þessi mál hafi verið tekin traustum tökum.

      Ég sé fyrir mér að þetta muni opna augu atvinnulífsins og stjórnvalda fyrir því hversu verðmæt og öflug greining og úrvinnsla gagna getur verið.

  • Vélabú og annar milli-orkufrekur iðnaður: Mér leiðist orðið “gagnaver” og held mig því við að reyna að koma nýyrðinu “vélabú” að í staðinn. Vélabú Verne var mikið í umræðunni í lok árs. Ég tel litlar líkur á að verkefnið detti uppfyrir, en það er þó ljóst að aðkoma Novator mun breytast. Það hefur alltaf legið fyrir að þeirra hlutur myndi minnka við þá fjárfestingu sem nú er á lokametrunum. Ekki er ólíklegt að hlutafjáraukningin sé á bilinu 25%-50% og þá fer 40% hlutur Novators í Verne niður í 20%-30%. Eins er ekki alveg loku fyrir það skotið að Novator verði keypt út úr hluthafahópnum til að sefa gagnrýnisraddirnar. Verkefnið er hins vegar af þeirri stærðargráðu að það verður varla stoppað. 90 milljarða fjárfesting í erlendum gjaldeyri er satt að segja svo stór að burtséð frá öllum framkvæmdunum, störfunum og öðrum umsvifum, kann slíkt gjaldeyrisinnstreymi jafnvel að lyfta gengi krónunnar lítillega. Það er líklegt til að hljóma eins og of góð músík í eyrum fleiri en bara stjórnmálamanna.

    Eins er með þessu verkefni loksins verið að dreifa orkueggjunum okkar í fleiri körfur en áliðnaðarins eins. Segja má að aflþynnuverksmiðja Becromal hafi verið fyrsta skrefið í þá átt í seinni tíð. Ýmsar þreifingar eru einnig í gangi um framleiðslu bæði á sólarkísil og koltrefjum.

    Ég sé fyrir mér (og vona) að fleiri slík verkefni komist af stað á árinu og þá í stað álvers á Bakka og jafnvel líka í Helguvík.

  • Pólitík og netið: Um síðustu áramót spáði ég því að netið, og þá ekki síst samfélagsvefir, ættu eftir að leika lykilhlutverk í pólitísku starfi árið 2009. Þetta er reyndar orðið svo áberandi núna að það er ótrúlegt að á sama tíma fyrir ári síðan voru til dæmis aðeins örfáir stjórnmálamenn og líklega enginn stjórnmálaflokkur með opna síðu á Facebook.

    Við sáum líka ýmsa aðra pólitíska vinkla spretta upp úr þessum jarðvegi: Mótmælin voru að miklu leyti skipulögð á Facebook, Appelsínuguli-hópurinn, hópar með og á móti ESB, með og á móti ýmsum útgáfum af Icesave samningum, með og á móti lýðræði, með og á móti sól. 2010 verða sveitastjórnarkosningar og strax má sjá þess merki að frambjóðendur í prófkjörum og listar sem boðnir eru fram eru komnir í startholurnar með Facebook-viðveru, Twitter-tilraunir og notkun nýrra miðla til að dreifa upplýsingum og áróðri.

    Að teknu tilliti til takmarkaðra fjárráða held ég að Facebook og netið verði þungamiðjan í aðdraganda þessara sveitastjórnarkosninga, sérstaklega í stærri sveitarfélögunum.

  • Opinn hugbúnaður: Sífellt fleiri eru að átta sig á því að í boði eru ágætir valkostir við flestan séreignarhugbúnað. Ýmislegt mælir með aukinni notkun opins hugbúnaðar jafnt hjá hinu opinbera, í einkageiranum og á heimilum landsins. Kostnaður er eitt þeirra atriða, en þó ekki endilega eins borðleggjandi og hörðustu fylgimenn vilja meina. Þjálfunarkostnaður, þjónusta og töpuð vinna á meðan skiptin fara fram er umtalsverður og sumar “commercial” lausnir standa reyndar samkeppni frá opnum hugbúnaði enn langtum framar (og öfugt – svo það sé sagt).

    Persónulega þykja mér rök á borð við þau að gæta þess að starfsaðferðir festist ekki í viðjum einstakra framleiðanda, t.d. vegna lokaðra skráarsniða eða að verkferlar krefjist ákveðinna, dýrra séreignarlausna vega mun þyngra. Eins þarf skólakerfið að gæta þess að draga ekki vagn tiltekinna fyrirtækja. Það er hins vegar jákvæð þróun að sem flestir átti sig á því að það eru valkostir við þann hugbúnað sem þeir hafa vanist.

    Ég sé fyrir mér að opinn hugbúnaður muni ryðja sér nokkuð afgerandi til rúms hjá hinu opinbera á árinu og í auknum mæli í einkageiranum líka.

  • Hræringar á fjarskiptamarkaði: Fjarskiptamarkaðurinn er – eins og svo margt annað í samfélaginu – dálítið upp í loft eftir bankahrunið.

    Teymi, aðaleigandi Vodafone fór á hausinn árið 2009, félögin fengu gríðarmiklar skuldir afskrifaðar og eignarhaldið er núna í höndum Landsbankans að mestu leyti. Landsbankinn leysti jafnframt til sín stóran hluta í Tali á árinu.

    Nova hefur gengið framúrskarandi vel að ná til sín viðskiptavinum í farsímaþjónustu, en er nánast örugglega enn rekið með allmiklum halla. Ólíklegt er að eigendur hafi mikið fé til að standa undir því áfram og því er 2010 líklega árið sem Nova þarf að fara að standa undir sér. Það þýðir væntanlega gerbreytta verðskrá og tilboð. Fyrirtækið er að auki að stórum hluta í eigu Novators, og ég get ímyndað mér að stjórnendur Nova hafi svitnað verulega í látunum vegna Verne. Það er aldrei að vita hvenær sambærileg reiði gæti bitnað á öðrum fyrirtækjum sem tengjast Novator og Nova liggur vel við höggi, þar sem fyrirtækið starfar á einstaklingsmarkaði fyrst og fremst.

    Hlutdeild Símans á farsímamarkaði fór í fyrsta sinn niður fyrir 50% á árinu, en fyrirtækið er engu að síður í afburðastöðu í fjarskiptageiranum í heild. Afkoma Símans er líklega mjög góð eins og alltaf hefur verið, en eignarhaldið gæti raskast verulega á árinu. Síminn er jú í eigu Skipta og þar liggja að mestu leyti lánin sem notuð voru til kaupanna á Símanum á sínum tíma. Skipti eru svo aftur í eigu Exista og “Exista er í eigu guðs almáttugs” eins og einn félagi minn komst að orði.

    Það er engin leið að sjá fyrir hvernig þessi markaður á eftir að stokkast upp á árinu, en það er deginum ljósara að hér verða miklar hræringar. Ólíklegt er að Síminn fái að taka of mikinn þátt í samþjöppun á þessum markaði af samkeppnisástæðum og því ætla ég að leyfa mér að spá því að eignarhald Nova, Tals og Vodafone eigi eftir að renna saman að einhverju leyti á árinu 2010.

Hvað haldið þið að muni gerast á árinu? Einhver til í að veðja á móti mér í einhverjum af þessum vangaveltum? Er ég úti á þekju í einhvejrum málum?

Gleðilegt tækniár!

Tæknispá 2009

Ég hef tvisvar ráðist í það í kringum áramót að gera “Tæknispár” fyrir komandi ár á Íslandi (2006 og 2008). Í fyrra minntist ég t.d. á tiltölulega lítið þekktan þátt í starfsemi bankanna: Erlenda innlánsreikninga sem nefndust Kaupthing Edge og Icesave og spáði því að bankarnir ættu eftir að útvíkka þessa starfsemi. Maður ætti kannski að fara varlega!

Annars er ég bara nokkuð sáttur við árangurinn fyrir 2008, þó vissulega hafi ekki allt gengið eftir og annað gengið lengra en mig grunaði. Dæmi hver fyrir sig.

En hvað um það. Hér koma nokkrir punktar um það sem mér þykir líklegt að muni gerast á komandi ári í tæknigeiranum á Íslandi:

  • Fjöldi nýrra tæknifyrirtækja verður stofnaður: “Neyðin kennir naktri…”, og allt það. Það er fjöldi hæfileikaríks tæknifólks þarna úti að missa vinnuna. Margir búa yfir hugmyndum að vörum eða vilja koma hæfileikum sínum í verð á annan hátt. Stærsti kostnaðarliður – a.m.k. hugbúnaðarfyrirtækja – er launaliðurinn og útlögðum kostnaði á að vera hægt að halda í algeru lágmarki ef fólk er þannig stemmt. Sprotaapparatið YCombinator í Bandaríkjunum er ágætis dæmi um umhverfi sem skapað hefur verið fyrir svona fyrirtæki. Fjármögnun á bilinu 5.000-50.000 dollarar, aðstaða fyrir 2-5 manna teymi (ef þau vinna ekki bara heiman að frá sér), auk tengslamyndunar og handleiðslu frá reyndara fólki. Allt ætti þetta að virka vel í íslenskum raunveruleika þar sem lítið er um áhættufjármagn um þessar mundir, en mikið af hæfileikafólki að leita verkefna. Rétt er þó að minna á að YCombinator er sprottið upp á góðæristímum og áherslan hér verður að vera á verðmæti “í núinu” (tekjur sem duga fyrir lágmarksrekstri innan 12 mánaða) í stað langra þróunarverkefna og óljósra tekjumöguleika. Viðskiptaáætlanir sem hafa auglýsingar sem aðaltekjulind munu ekki eiga upp á pallborðið næstu 2-4 árin.
  • CCP mun halda áfram að vaxa: Þetta þrautseiga sprotafyrirtæki, sem hefur náð að byggja tekjustraum sem svarar ágætri loðnuvertíð með hugvitinu einu saman, mun halda áfram sigurgöngu sinni. Tryggur leikendahópur sem telur á við íslensku þjóðina, stöðugar viðbætur og fjölgun dreifingarleiða (EVE Online mun nú fara í búðir aftur eftir að hafa verið dreift eingöngu á netinu undanfarin ár) mun valda því. Sagan segir líka að í efnahagsþrengingum leiti fólk í afþreyingu og nú hafa einfaldlega mun fleiri heimsbúar tímann sem þarf í áhugamál á borð við fjölspilunarleiki. Mánaðargjaldið svarar til einnar bíóferðar en endist virkum spilurum í 4-8 tíma skemmtun á dag, alla daga mánaðarins. Þróun stendur einnig yfir á næsta leik CCP, fjölspilunarleik sem byggir á World of Darkness heiminum. Hann mun varla líta dagsins ljós á árinu, en gefur góð fyrirheit um komandi tíð hjá fyrirtækinu, þar sem hann á sér þegar dyggan aðdáendahóp og höfðar til breiðari hóps en EVE heimurinn, ekki síst meðal kvenþjóðarinnar sem hingað til hefur ekki verið áberandi í fjölspilunarleikjum.
  • Ríkið mun styrkja nýsköpunarstarf með margvíslegum hætti: Að einhverju leiti er þetta þegar komið fram og mikið er talað, næstum nóg til að maður trúi því að það sé ekki bara fagurgali. Einföldustu aðgerðirnar, eins og að beina atvinnuleysisgreiðslum í gegnum fyrirtæki til uppbyggingar nýrra starfa kosta ríkið nettó núll og eru augljósar. Aðrar, eins og niðurfelling skatta nýráðinna starfsmanna eða skattaafsláttur á einstaklinga og fyrirtæki gegn fjárfestingu í nýsköpun eru djarfari, en þó mögulegar. Mikilvægast er þó fyrir alla þessa starfsemi að bankakerfið, gjaldeyrismiðlun og önnur stoðkerfi komist aftur í eðlilegan farveg. Fjárfestingasjóðurinn Frumtak er sömuleiðis mikilvægt gæfuspor.
  • Ódýrari valkostir í fjarskiptum munu ná almennri notkun: Í nokkur ár hafa verið í boði ýmsar mjög svo frambærilegar lausnir í fjarskiptum, sem kosta minna en hinar hefbundnu, eða jafnvel bara hreint ekki neitt. Í einhverjum tilfellum hafa þessar lausnir jafnvel eitthvað fram yfir hinar hefðbundnu (t.d. myndsímtöl og einföld hópsímtöl í Skype), en í öðrum tilfellum, t.d. þegar kemur að farsímalausnum, þurfa notendur að sætta sig við lítilsháttar vesen, skert gæði eða aðra vankanta við notkun slíkra lausna. Einhverjar þessarra lausna hafa verið ágætlega þekktar um skeið, en þó ekki náð almennri útbreiðslu. Nú er hins vegar tími aðhalds hjá bæði fyrirtækjum og einstaklingum. Ég spái því að kreppan verði til þess að þessar lausnir nái verulega aukinni útbreiðslu og ef það gerist er það breyting sem er komin til að vera. Ég held því að kreppan eigi eftir að koma verulega illa niður á fjarskiptageiranum í skertri notkun og þar með tekjum. Þó má ekki gleyma því að þessar nýju lausnir notast allar við kerfi fjarskiptafyrirtækjanna og ganga nær allar út á að flytja með einum eða öðrum hætti yfir í gagnasamskipti það sem áður fór um hefbundna símakerfið. Þetta kallar því frekar á breytingu í viðskiptamódelum fjarskiptafyrirtækjanna en algeru hruni þeirra, því einhver þarf að borga fyrir uppbyggingu og rekstur kerfanna eftir sem áður.
  • Gegnsæi og opin miðlun upplýsinga: Leiðin til að byggja á ný upp traust í viðskiptum og fjármálastarfsemi, er aukið gegnsæi og hraðari og opnari miðlun upplýsinga. Ég vísa í fyrri færslu mína um Framtíð viðskipta til nánari útskýringar. Ég spái því að þessi sjónarmið muni byrja að ryðja sér til rúms á árinu, þó breytingin í heild sinni mun taka mun lengri tíma. Þessar breytingar gætu byrjað hvort heldur er hjá Ríkinu (með áherslu á opin gögn), eða hjá einkaaðilum sem vilja auka traust þjóðfélagsins með því að sýna svo ekki verður um villst að þau hafi ekkert að fela.
  • Netið verður þungamiðja pólitísks starfs: Unga fólkið er búið að fá áhuga á pólitík. Facebook-kynslóðin er við stjórnvölin og meira en þriðjungur þjóðarinnar skráður þar. Merki um þetta má reyndar þegar sjá víða. Á fundum borgarstjórnar undanfarið má sjá stöðubreytingar og færslur frá allnokkrum borgarfulltrúum á meðan á fundunum stendur (sönn saga). Fjöldafundir og mótmæli eru skipulögð á netinu. Komi til kosninga munu Facebook, MySpace, Twitter og YouTube spila stóran þátt. Gömlu pólitíkusarnir munu ekki vita hvaðan á þá stendur veðrið. Ég geng svo langt að halda því fram að þetta geti haft úrslitaáhrif í kosningabaráttunni, hvort sem um verður að ræða ný framboð eða að einhver gömlu flokkanna ranki við sér. Í Bandaríkjunum hefur verið talað um að kosningabarátta Baracks Obama hafi verið sú fyrsta sem “skildi Internetið”. Framboðin hér munu þurfa að gera slíkt hið sama.

Hvað haldið þið að gerist í tæknimálum árið 2009?

Svona verður Næsta Ísland

new-futureEin birtingarmynd kraftsins sem hefur verið leystur úr læðingi síðustu vikur er sú að almenn umræða er hætt að snúast um efnistökin í Séð og Heyrt og farin að snúast um stóru málin – málin sem skipta máli:

Hvernig viljum við hafa Næsta Ísland? Hvernig vinnum við okkur útúr núverandi ástandi? Hvernig á að stjórna landinu? Og hver á að gera það?

Ég hef tekið þátt í ótal samræðum um öll þessi mál síðustu vikur og tók af því tilefni saman nokkra áhugaverða punkta sem ég get sagt með nokkurri vissu að ég vilji sjá einkenna Næsta Ísland:

  • Besta mögulega umhverfi til nýsköpunar. Í slíku umhverfi byggist upp fjölbreytt atvinnulíf og útflutningstekjur okkar munu ekki standa lengur á aðeins 3-4 stoðum, heldur 10-20. Í þessu umhverfi felst m.a. einfalt og hagstætt skattkerfi, einföld fyrirtækjalöggjöf, öflugt stuðningskerfi, hvatar til áhættufjárfestinga o.fl. Sjá nánar í færslunni Af hverju nýsköpun? og á nyskopun.org.
  • Gjaldmiðill sem hefur verðgildi víðar en á Íslandi. Þetta er aðeins hægt með upptöku annars gjaldmiðils eða með því að setja traustan fót – s.s. gull – undir krónuna (sem NB er varla mögulegt úr þessu). Hugmyndir um einhliða upptöku Evru eru áhugaverðar, en líklega snúnari en gefið hefur verið í skyn. Fleytingu krónunnar með baklandi í stóru erlendu láni þarf að fylgja skýr áætlun um það hvernig gjaldeyrismálum verði háttað í framtíðinni. Slík áætlun gæti t.d. falið í sér að stefnt sé að upptöku annars gjaldmiðils innan 5 ára og hvernig gengi við þau skipti verði ákvarðað. Ég hef áður sett fram spádóm um gengi krónunnar eftir fleytingu, og hér er spádómur frá mér fróðari manni um málið.
  • Fagfólk í stöður ráðherra og helstu embættismanna. Þetta mætti t.a.m. gera á eftirfarandi hátt: Auglýst yrði eftir umsækjendum í stöðurnar. Nefndir fagfólks í hverju málefni (t.d. leiðtogar fyrirtækja og stofnana í viðkomandi greinum) myndu meta hæfi umsækjendanna og ef fleiri en einn er talinn jafnhæfastur eða -hæfust til verksins, kýs Alþingi milli þeirra. Alþingi, sem vinnuveitandi þeirra, getur svo sett viðkomandi af þyki hann eða hún ekki hafa staðið sig. Með þessu fæst líka nokkuð heilbrigður aðskilnaður alþingis og ríkisstjórnar. Á móti mætti fækka Alþingismönnum um 20.
  • Öll lög hafi “síðasta söludag”. Tryggt sé að öll lög komi til endurskoðunar ekki sjaldnar en á 10 ára fresti. Til athugunar sé hvort þau eigi enn rétt á sér eða megi að öðrum kosti bæta m.t.t. breyttra tíma. Svona má m.a. tryggja að löggjöfin taki tillit til tækninýjunga, breytinga í alþjóðaumhverfi o.s.frv.
  • Settur sé óháður verkefnastjóri yfir Alþingi. Verkefnastjórinn setur niður dagskrá ársins gróflega í upphafi árs og raðar svo nákvæmri dagskrá innan viku og dags. Enginn starfsmaður (les: alþingismaður) fær að fara heim fyrr en vinnu er lokið. Séu markmið ekki að nást, er það hins óháða verkefnisstjóra að meta mikilvægi og forgangsraða málum. Þingmenn eða flokkar mættu jafnvel fá fastan fjölda “mikilvægispunkta” sem þeir mega dreifa á sín mál yfir árið til að hafa áhrif á það hvaða mál eru tekin fyrir.
  • Landið allt eitt kjördæmi, ekkert lágmarksfylgi og röðun á kjörseðli. Kjördæmaskipanin tryggir jafnt vægi atkvæða og dregur úr kjördæmapoti (sem þá myndi líklega fá heitið “svæðapot”). Forgangsröðun á kjörseðli í stað þess að aðeins einum flokki sé greitt atkvæði (sjá t.d. löggjöf um þingkosningar í Ástralíu), hindrar öfgaöfl í að komast að, en afnám lágmarksfylgis tryggir á sama tíma að “litlar raddir” fá málsvara á þingi ef kjósendum þykir næg ástæða til.
  • Stóraukið gegnsæi í fjármálakerfinu. Skráning skulda- eða hlutabréfa á markað setji kröfur um fullkomið gagnsæi á rauntímaupplýsingum úr bókhaldi viðkomandi fyrirtækja. Þetta skapar þeim markað til að sækja sér fé, en gefur fjármagnseigendunum – í krafti hópsins – kleift að fylgjast grannt með stöðu fyrirtækjanna. Sama myndi gilda um sjóði, s.s. peningamarkaðssjóði, lífeyrissjóði eða aðra gjörninga sem mynda “strúktúra” ofan á markaðinn. Árs- og ársfjórðungsuppgjör eru úrelt fyrirbæri – rauntímaupplýsingagjöf er krafa nútímans. Ég hef áður skrifað um þetta í færslunni Framtíð viðskipta: Opið bókhald og fullkomið gegnsæi.
  • Stóraukið gegnsæi í fjármálum hins opinbera. Opið kerfi þar sem hver sem er getur skoðað, ekki bara samantekna liði í fjárlögum og rekstri, heldur kafað alveg niður í hverja einustu færslu hins opinbera og meðfylgjandi skýringar. Þetta tryggir frábært aðhald og dregur úr pólitískri fyrirgreiðslu af almannafé. Framsetningin á þessu gæti verið “glorified” útgáfa af framsetningu DataMarket á Fjárlagafrumvarpinu – þar sem hægt væri að kafa dýpra, sjá nánara niðurbrot, skoða fjármál einstakra stofnana og skýringar með öllu saman.
  • Öll samskipti við hið opinbera geti farið fram rafrænt. Þetta yrði ekki bara í formi vefsíðu, eins og við eigum t.d. að venjast með skattframtalið, heldur eiga bókhaldskerfi og önnur kerfi að geta tengst með sjálfvirkum hætti – með tímanum mætti jafnvel krefjast þess. Sjá bloggfærslu um “The Government API” sem ég skrifaði í fyrra. Þetta eykur skilvirkni, minnkar tvíverknað, fækkar villum og gerir – tvinnað saman við gagnsæiskröfurnar hér á undan – hverskyns undanskot afar erfið.
  • Skynsemi við ráðstöfun takmarkaðra auðlinda. Orkan, fiskurinn, andrúmsloftið og náttúran eru takmarkaðar, verðmætar auðlindir. Þær er rétt að nýta, en af skynsemi. Við hverja ráðstöfun á þessum gæðum, þarf að vega og meta ávinning á móti ókostum. Orkumálin eru þarna hvað umdeildust. Það er jafn vitlaust að vilja ekkert virkja framar eins og það er að vilja virkja allt sem virkjanlegt er. Okkar hagur er að sem mest fáist fyrir orkuna og ekki sé fórnað meiri hagsmunum fyrir minni. Þannig er augljóslega betra að fá marga meðalstóra kaupendur að orku – s.s. rannsóknagróðurhús, vélabú eða álþynnuverksmiðjur – en fáa stóra. Virðisauki samhliða orkusölunni er lykilatriði. Með tilliti til áherslu á fjölbreytni í atvinnulífi eru fleiri álver orðin hættuleg – eggin, körfurnar og allt það. Umfram allt þarf orkusala að fara fram á opnum markaði þar sem verð eru opinber og jafnræði gildir við tilboðsgerð.
  • Afnám hverskyns hindrana á vöruflutningum. Tollar, innflutningsgjöld og niðurgreiðslur ákveðinna framleiðslugreina búa til ójafnvægi sem býr til undarlega hvata og kemur í veg fyrir að við nýtum með besta hætti vinnuafl, landrými, fjármagn og verkvit í heiminum. Grænmetisrækt á Íslandi er því aðeins góð hugmynd að lágt orkuverð hér vegi upp kostnað við gróðurhús og mæti samt flutningskostnaði erlendis frá. Landbúnaður hér ætti að vera takmarkaður við þær greinar sem standast samkeppni við innfluttar vörur í gæðum og verði, eða eiga erindi á alþjóðamarkaði í samkeppni við erlendar vörur þar. Ég efast um að verksmiðjuframleiðsla á borð við svína- og kjúklingarækt geri það, en íslenskt kindakjöt er aftur á móti villibráð og þarf að koma á markað sem sem slíkri: munaðarvara í samkeppni við franska gæsalifur, rússneskan kavíar og lapplenskt hreindýrakjöt. Tollar og gjöld á vörur á borð við raftæki og neysluvörur eru hrein tímaskekkja.
  • Afnám hindrana á fjármagnsflutninga og eignarhald. Eignarhald einkaaðila ætti aldrei að takmarka við ákveðið þjóðerni. Viljum við (íslenska þjóðin) halda yfirráðum yfir ákveðnum auðlindum, eiga þær að vera í eigu ríksins, en nýtingarréttinn má leigja eða selja á opnum markaði. Með þessum hætti fáum við hingað erlent fjármagn í þær framkvæmdir eða verkefni sem okkur gætu reynst ofviða, aukum líkurnar á áhættufjármagni í greinum eins og orku eða sjávarútvegi og aukum samkeppni um þessar auðlindir sem leiðir af sér hærri tekjur til þjóðarbúsins.

Ég geri mér grein fyrir að margt af ofantöldu þarf að nálgast af varfærni. Sumt mun taka allmörg ár að færa til betri vegar og í mörgum tilfellum verður þörf á sérstökum aðgerðum til að gera umbreytinguna sem sársaukalausasta.

Ég tek öllum góðum rökum gegn þessum hugmyndum og áskil mér fullan rétt til að skipta um skoðun í ljósi slíkra, en tel þó að ofangreint standist allharða rökræðu.

Tæknispá 2008

Fyrir tveimur árum, þegar ég var með vikulega pistla á NFS um tölvur og tækni skrifaði ég Tæknispá fyrir árið 2006 – um átta hluti sem myndu gerast það ár. Árangurinn verður hver að meta fyrir sig, en hér er a.m.k. samskonar spá fyrir komandi ár.

7 hlutir sem munu gerast 2008:

  • Hægir á ráðningum í tölvugeiranum: Bankarnir hafa sogað til sín mikið af tölvutalent undanfarin 3-4 ár. Önnur fyrirtæki hafa átt fullt í fangi við að ná í og halda fólki. Fæstir hafa getað yfirboðið þau launakjör sem bankarnir hafa boðið, helst að aðrir hafi kannski getað boðið áhugaverðari verkefni og náð til sín fólki þannig.
    Með “kólnandi hagkerfi” er þetta að breytast hratt og sumar af tölvudeildum bankanna hafa þegar ákveðið að standa ekki í frekari nýráðningum að sinni. Reyndar hlýtur í sjálfu sér talsvert starf að vera óunnið ennþá í að byggja upp skilvirkar einingar úr þessum mikla fjölda nýrra starfsmanna þannig að kannski kemur þetta sér bara vel fyrir þá. Ég ætla ekki að ganga svo langt að spá því að bankarnir muni fara í uppsagnir í tölvudeildunum, en gæti þó trúað því að eitthvað af verktökum og lausafólki í verkefnum – sem þeir hafa nýtt sér umtalsvert – muni verða fækkað. Til þess er jú leikurinn að hluta til gerður að verktökum er hægt að fækka mun hraðar og einfaldar en venjulegu launafólki. Eins er líklegt að bankarnir muni prófa sig í frekara mæli áfram með úthýsingu verkefna – einkum til Austur-Evrópu.

  • Ár “Netsins í símanum”: Gagnaumferð og notkun á netinu í farsíma mun springa út hér á landi á komandi ári. Tilkoma þriðju kynslóðarneta hjá öllum símafyrirtækjunum, aukið efnis- og þjónustuframboð og eðlilegri gjaldheimta fyrir þessa notkun mun ýta undir þetta. Flöt mánaðargjöld fyrir ótakmarkaða gagnanotkun verða í boði fyrir lok ársins, en einstakir þjónustuþættir (t.d. aðgangur að tónlistarsöfnum, íþróttum eða öðru sérefni) verða gjaldfærðir á einfaldan og sýnilegan hátt.
    Öflugari handtæki munu enn auka á þessa notkun og iPhone mun sem dæmi ná verulegri útbreiðslu hvort sem hann verður formlega seldur hér á landi á árinu eða ekki. Ég spái því reyndar að ólæstir 3G iPhone símar verði fáanlegir í verslunum hér í haust. Aðrir framleiðendur munu líka koma með mjög frambærileg tæki á árinu.

  • Nova og farsímamarkaðurinn: Nýja farsímafyrirtækið Nova mun skipta um markaðsnálgun snemma á árinu og slagorðið “Stærsti skemmtistaður í heimi” verður lagt niður. Fyrirtækið mun þó halda áherslunni á afþreyingu og gagnalausnir (sbr. liðinn hér að ofan). Eftir því sem líður á árið (og reikisamningum þeirra fjölgar) mun Nova einbeita sér meira að fyrirtækjamarkaði og ná allt í allt á bilinu 3-5% markaðshlutdeild á árinu. Þreifingar munu verða uppi um samruna Nova og Vodafone, en ólíklegt að það gangi í gegn á árinu 2008.
  • Bankaútrás á Netinu: Tiltölulega óþekktur armur íslensku bankaútrásarinnar er alþjóðleg starfsemi þeirra á Netinu. Kaupþing rekur sem dæmi nokkuð vinsælan innlánabanka á netinu í Svíþjóð og Finnlandi undir nafninu Kaupthing Edge og Landsbankinn rekur sambærilega þjónustu í Bretlandi undir heitinu Icesave. Búast má við að þessi starfsemi verði útvíkkuð til fleiri landa og heilt á litið eiga íslensku bankarnir mjög mikil sóknarfæri í því að nýta sér þá reynslu og tækni sem þeir hafa aflað sér við þróun íslensku netbankanna í alþjóðlegu samhengi, enda finnst óvíða jafngóð netbankaþjónusta.
  • Vélabú mun rísa:Lagning a.m.k. tveggja nýrra sæstrengja til landsins, annars vegar DanIce strengsins og hins vegar Greenland Connect strengsins sem liggja mun frá Íslandi til Grænlands og þaðan áfram til Nova Scotia (mögulega með séríslenskri hjáleið til að sleppa við krókinn upp til Nuuk sem er á annað þúsund kílómetrar). Þannig verður Ísland á næstu 2 árum orðið vel tengt til bæði Ameríku og Evrópu. Það er jafnvel ekki útséð um lagningu Hibernia á streng til Skotlands Írlands. Að því sögðu er ljóst að á árinu verður hafið að reisa að minnsta kosti eitt stórt vélabú hér á landi á árinu og mögulega tekið í notkun þegar árið 2009.
    Áhugi á ferkari uppbyggingu vélabúa hér mun vaxa ef eitthvað er. Leggst þar á eitt skortur á grænni og hagkvæmri orku og sú þróun að hugbúnaður keyrir í síauknum mæli á Netinu, jafnvel í sveigjanlegu keyrsluumhverfi eins og gagnagrunns-, reikni- og geymsluþjónustum Amazon og Force.com. Möguleikinn á, og hagkvæmnin við slíkar lausnir fæst einmitt af því að þau eru rekin í gríðarstórum vélabúum sem þjóna meira eða minna öllum heiminum frá einum stað.

  • Decodeme og 23andme: Decode mun fara í samstarf með fyrirtækinu 23andme á sviði persónulegra erfðaprófa. Eftirspurn er þegar eftir slíkum prófum og hún mun fara vaxandi. 23andme er stofnað af Anne Wojcicki, eiginkonu Sergey Brin sem er annar af stofnendum Google, og fær sitt fjármagn að mestu þaðan. Athyglin sem það hefur vakið hefur gefið 23andme verulegt forskot á Decodeme í þessari glænýju grein (sjá gróflega bloggathygli og umferðartölur). Decode er aftur á móti í frumrannsóknum og hefur að líkindum mun sterkari vísindalegan bakgrunn en 23andme. Með peninga og markaðsafl Google á bakvið 23andme og vísindalega getu og þekkingu Decode er þetta gríðarlegt tækifæri fyrir báða aðila.
  • CCP ungar út: Nú þegar leikjaframleiðandinn CCP er orðið stórt og öflugt fyrirtæki eftir aðdáunarverða þrautseigju í hartnær áratug er ljóst að fleiri horfa til leikjamarkaðarins. Þetta er markaður í örum vexti, íslenskir fjárfestar hafa orðið skilning á tækifærunum sem í honum felast og góð þekking er orðin til í þessum hópi á þeirri tækni, nálgun og aðferðafræði sem gerir góðan fjölspilunarleik. Fyrirtæki með svipaðar hugmyndir munu spretta upp og byggja á þessari reynslu og aðstæðum – og ekkert nema gott um það að segja. Við megum búast við að sjá allar stærðir og gerðir af slíkum pælingum – allt frá veflægum “kaffipásu”-útgáfum sem notast etv. við Flash yfir í stóra og flókna þrívíddarleiki sem ganga lengra en EVE Online í stærð, umfangi og flækjustigi.

Er ég að gleyma einhverju? 😉

Þriðjudagstæknin: Tæknispá – átta hlutir sem gerast árið 2006

Í Þriðjudagstækninni í dag ætlum við að kíkja í kristalskúluna og velta fyrir okkur hvað árið 2006 muni hafa í för með sér í tölvu- og tæknigeiranum.

“Það er erfitt að spá, einkum um framtíðina” er haft eftir danska eðlisfræðingnum Niels Bohr. Engu að síður keppast menn um hver áramót við að reyna að spá fyrir um það hvað komandi ár muni hafa í för með sér og ég get auðvitað ekki verið minni maður.

Hér eru átta hlutir sem ég spái að muni gerast á árinu 2006 í heimi tækni, tölva og internetsins:

  • Íslenskt sprotafyrirtæki verður keypt af erlendu stórfyrirtæki. Það eru nokkur lítil fyrirtæki að gera virkilega flotta hluti þessa dagana. Félagar mínir í Hex og dohop, eru þar á meðal. 3-plus (sem framleiðir DVD-kids) kemur vel til greina líka. CCP, Industria og Friðrik Skúlason geta nú líklega ekki talist sprotafyrirtæki lengur en eru öll að gera hluti sem gætu hæglega lent þeim á innkaupalista einhvers risanna sem eru margir í innkaupaleiðöngrum þessa dagana, eiga gríðarlega fjármuni og standa frammi fyrir aukinni samkeppni.

  • Tölvudeild a.m.k. eins af bönkunum verður spunnið frá og gert að sér fyrirtæki sem mun herja á alþjóðamarkað. Það sem bankarnir eru að bjóða upp á hér á landi, t.d. heimabankarnir okkar eru líklega þeir bestu í heiminum. Eins gæti vel verið að einhver finni áhugaverðan flöt á að nýta einstaka möguleika Reiknistofu Bankanna í stærra samhengi, en það er staðreynd að víðast hvar í heiminum tekur 2-3 daga að millifæra peninga á milli bankastofnanna og jafnvel á milli reikninga hjá sama banka, sem hlýtur að þýða að það séu tækifæri í bættri þjónustu.

    …og ekki spillir fyrir að slíkt “spin-of” ætti að hafa tiltölulega góðan aðgang að fjármagni.

  • Leitarvélar halda áfram að breyta heiminum. Vefsíður fyrirtækja munu í auknum mæli leggja áherslu á leit, frekar en flokkuð veftré og leitarboxin fá aukið vægi á síðunum (hér ætti ég náttúrulega skammlaust að vera með auglýsingu enda er Spurl ehf. mér vitanlega eina fyrirtækið á landinu sem sérhæfir sig í hverskonar leit).

    Leit á hörðum diskum og í tölvupósti verður líka gerð öflugari og einfaldari, en innbyggða leitarvélin í Windows Vista sem kemur út í haust mun valda vonbrigðum – ekki síst vegna þess að Microsoft þarf að passa sig á samkeppnisyfirvöldum eftir rimmur síðustu ára.

  • Vöxtur í tölvugeiranum heldur áfram, en þó hægar og með meira á bakvið sig en fyrir 5-6 árum síðan. Þetta mun valda tilfinnanlegum skorti á góðu fólki í tölvugeiranum hér heima. Fyrirtæki munu mæta þessu með úthýsingu að einhverju leiti, en einnig verður ýtt á að boðið verði upp á stuttar, praktískar námsbrautir þar sem efnilegum tölvunörðum og fikturum er breytt í hæft starfsfólk á skemmri tíma en hefðbundið háskólanám, t.d. 12 mánaða nám án sumarfrís.

  • Græjur verða í auknum mæli nettengdar. Uppfærslur á PlaystationPortable (sjá pistil síðustu viku) munu gera mun meira úr nettengunum, notkun á neti í gegnum síma mun byrja að ná sér á flug samhliða auknu framboði á slíkum þjónustum. Mac Mini frá Apple og Playstation 3 munu keppa um að vera “stofutölvan”, þ.e. nettengda boxið sem við notum til að stýra tónlist, sjónvarpsefni og annarri afþreyingu inni í stofu.

  • Google, Yahoo!, TiVo, Netflix, MSN og Apple munu öll stórbæta eða koma fram með nýjar myndveitur og “sjónvarps”-þjónustur. Jafnframt munu koma fram nýjar og áhugaverðar myndveitur sem byggja á peer-to-peer lausnum – löglega.

  • “End-user generated content”, sem e.t.v. má kalla “Efni frá alþýðunni” 🙂 upp á íslensku, þ.e. blogg, tónlist án hefðbundinna útgáfenda, heimagerð myndbönd og slíkt mun skipa sífellt stærri sess og fram koma módel sem gera þessu skapandi fólki færi á að hafa einhverjar tekjur af því sem það er að gera.

  • Síminn mun fara í útrás, enda erfitt að sjá hvernig Íslandsmarkaður einn getur staðið undir verðmati fyrirtækisins og þeim skuldbindingum sem fjárfestarnir hafa gert til að kaupa það. Fyrirtækið er tæknilega fullkomið fjarskiptafyrirtæki og hefur á að skipa þekkingu sem getur hæglega nýst annarsstaðar, ekki síst á ört vaxandi mörkuðum t.d. í Austur-Evrópu og í Bandaríkjunum (já þetta er ekki ásláttarvilla, það eru ýmis sóknarfæri í Bandaríkjunum), en það eru vissulega fleiri um hituna.

Spennandi ár framundan. Kannski verð ég fenginn til að skrifa Tölvuspá Vikunnar fyrir 2007 😉


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.