íslenska

Tæknispá 2009

Ég hef tvisvar ráðist í það í kringum áramót að gera “Tæknispár” fyrir komandi ár á Íslandi (2006 og 2008). Í fyrra minntist ég t.d. á tiltölulega lítið þekktan þátt í starfsemi bankanna: Erlenda innlánsreikninga sem nefndust Kaupthing Edge og Icesave og spáði því að bankarnir ættu eftir að útvíkka þessa starfsemi. Maður ætti kannski að fara varlega!

Annars er ég bara nokkuð sáttur við árangurinn fyrir 2008, þó vissulega hafi ekki allt gengið eftir og annað gengið lengra en mig grunaði. Dæmi hver fyrir sig.

En hvað um það. Hér koma nokkrir punktar um það sem mér þykir líklegt að muni gerast á komandi ári í tæknigeiranum á Íslandi:

  • Fjöldi nýrra tæknifyrirtækja verður stofnaður: “Neyðin kennir naktri…”, og allt það. Það er fjöldi hæfileikaríks tæknifólks þarna úti að missa vinnuna. Margir búa yfir hugmyndum að vörum eða vilja koma hæfileikum sínum í verð á annan hátt. Stærsti kostnaðarliður – a.m.k. hugbúnaðarfyrirtækja – er launaliðurinn og útlögðum kostnaði á að vera hægt að halda í algeru lágmarki ef fólk er þannig stemmt. Sprotaapparatið YCombinator í Bandaríkjunum er ágætis dæmi um umhverfi sem skapað hefur verið fyrir svona fyrirtæki. Fjármögnun á bilinu 5.000-50.000 dollarar, aðstaða fyrir 2-5 manna teymi (ef þau vinna ekki bara heiman að frá sér), auk tengslamyndunar og handleiðslu frá reyndara fólki. Allt ætti þetta að virka vel í íslenskum raunveruleika þar sem lítið er um áhættufjármagn um þessar mundir, en mikið af hæfileikafólki að leita verkefna. Rétt er þó að minna á að YCombinator er sprottið upp á góðæristímum og áherslan hér verður að vera á verðmæti “í núinu” (tekjur sem duga fyrir lágmarksrekstri innan 12 mánaða) í stað langra þróunarverkefna og óljósra tekjumöguleika. Viðskiptaáætlanir sem hafa auglýsingar sem aðaltekjulind munu ekki eiga upp á pallborðið næstu 2-4 árin.
  • CCP mun halda áfram að vaxa: Þetta þrautseiga sprotafyrirtæki, sem hefur náð að byggja tekjustraum sem svarar ágætri loðnuvertíð með hugvitinu einu saman, mun halda áfram sigurgöngu sinni. Tryggur leikendahópur sem telur á við íslensku þjóðina, stöðugar viðbætur og fjölgun dreifingarleiða (EVE Online mun nú fara í búðir aftur eftir að hafa verið dreift eingöngu á netinu undanfarin ár) mun valda því. Sagan segir líka að í efnahagsþrengingum leiti fólk í afþreyingu og nú hafa einfaldlega mun fleiri heimsbúar tímann sem þarf í áhugamál á borð við fjölspilunarleiki. Mánaðargjaldið svarar til einnar bíóferðar en endist virkum spilurum í 4-8 tíma skemmtun á dag, alla daga mánaðarins. Þróun stendur einnig yfir á næsta leik CCP, fjölspilunarleik sem byggir á World of Darkness heiminum. Hann mun varla líta dagsins ljós á árinu, en gefur góð fyrirheit um komandi tíð hjá fyrirtækinu, þar sem hann á sér þegar dyggan aðdáendahóp og höfðar til breiðari hóps en EVE heimurinn, ekki síst meðal kvenþjóðarinnar sem hingað til hefur ekki verið áberandi í fjölspilunarleikjum.
  • Ríkið mun styrkja nýsköpunarstarf með margvíslegum hætti: Að einhverju leiti er þetta þegar komið fram og mikið er talað, næstum nóg til að maður trúi því að það sé ekki bara fagurgali. Einföldustu aðgerðirnar, eins og að beina atvinnuleysisgreiðslum í gegnum fyrirtæki til uppbyggingar nýrra starfa kosta ríkið nettó núll og eru augljósar. Aðrar, eins og niðurfelling skatta nýráðinna starfsmanna eða skattaafsláttur á einstaklinga og fyrirtæki gegn fjárfestingu í nýsköpun eru djarfari, en þó mögulegar. Mikilvægast er þó fyrir alla þessa starfsemi að bankakerfið, gjaldeyrismiðlun og önnur stoðkerfi komist aftur í eðlilegan farveg. Fjárfestingasjóðurinn Frumtak er sömuleiðis mikilvægt gæfuspor.
  • Ódýrari valkostir í fjarskiptum munu ná almennri notkun: Í nokkur ár hafa verið í boði ýmsar mjög svo frambærilegar lausnir í fjarskiptum, sem kosta minna en hinar hefbundnu, eða jafnvel bara hreint ekki neitt. Í einhverjum tilfellum hafa þessar lausnir jafnvel eitthvað fram yfir hinar hefðbundnu (t.d. myndsímtöl og einföld hópsímtöl í Skype), en í öðrum tilfellum, t.d. þegar kemur að farsímalausnum, þurfa notendur að sætta sig við lítilsháttar vesen, skert gæði eða aðra vankanta við notkun slíkra lausna. Einhverjar þessarra lausna hafa verið ágætlega þekktar um skeið, en þó ekki náð almennri útbreiðslu. Nú er hins vegar tími aðhalds hjá bæði fyrirtækjum og einstaklingum. Ég spái því að kreppan verði til þess að þessar lausnir nái verulega aukinni útbreiðslu og ef það gerist er það breyting sem er komin til að vera. Ég held því að kreppan eigi eftir að koma verulega illa niður á fjarskiptageiranum í skertri notkun og þar með tekjum. Þó má ekki gleyma því að þessar nýju lausnir notast allar við kerfi fjarskiptafyrirtækjanna og ganga nær allar út á að flytja með einum eða öðrum hætti yfir í gagnasamskipti það sem áður fór um hefbundna símakerfið. Þetta kallar því frekar á breytingu í viðskiptamódelum fjarskiptafyrirtækjanna en algeru hruni þeirra, því einhver þarf að borga fyrir uppbyggingu og rekstur kerfanna eftir sem áður.
  • Gegnsæi og opin miðlun upplýsinga: Leiðin til að byggja á ný upp traust í viðskiptum og fjármálastarfsemi, er aukið gegnsæi og hraðari og opnari miðlun upplýsinga. Ég vísa í fyrri færslu mína um Framtíð viðskipta til nánari útskýringar. Ég spái því að þessi sjónarmið muni byrja að ryðja sér til rúms á árinu, þó breytingin í heild sinni mun taka mun lengri tíma. Þessar breytingar gætu byrjað hvort heldur er hjá Ríkinu (með áherslu á opin gögn), eða hjá einkaaðilum sem vilja auka traust þjóðfélagsins með því að sýna svo ekki verður um villst að þau hafi ekkert að fela.
  • Netið verður þungamiðja pólitísks starfs: Unga fólkið er búið að fá áhuga á pólitík. Facebook-kynslóðin er við stjórnvölin og meira en þriðjungur þjóðarinnar skráður þar. Merki um þetta má reyndar þegar sjá víða. Á fundum borgarstjórnar undanfarið má sjá stöðubreytingar og færslur frá allnokkrum borgarfulltrúum á meðan á fundunum stendur (sönn saga). Fjöldafundir og mótmæli eru skipulögð á netinu. Komi til kosninga munu Facebook, MySpace, Twitter og YouTube spila stóran þátt. Gömlu pólitíkusarnir munu ekki vita hvaðan á þá stendur veðrið. Ég geng svo langt að halda því fram að þetta geti haft úrslitaáhrif í kosningabaráttunni, hvort sem um verður að ræða ný framboð eða að einhver gömlu flokkanna ranki við sér. Í Bandaríkjunum hefur verið talað um að kosningabarátta Baracks Obama hafi verið sú fyrsta sem “skildi Internetið”. Framboðin hér munu þurfa að gera slíkt hið sama.

Hvað haldið þið að gerist í tæknimálum árið 2009?

Bensínverð – eina ferðina enn

Ég hef áður gert nokkrar tilraunir með að draga upp mynd af bensínverði hér á landi miðað við þá þætti sem helst eru sagðir ráða verðmynduninni, þ.e. heimsmarkaðsverð á olíu og gengi bandaríkjadals.

Nú hefur heimsmarkaðsverðið snarfallið, en gengið á móti í hæstu hæðum. Mér fannst því tími til kominn að uppfæra þessi gögn og sjá hvernig málin standa. Ég einfaldaði líka framsetninguna dálítið frá fyrri færslum.

Á grafinu hér að neðan eru bara tvær línur. Annars vegar hið raunverulega bensínverð og hins vegar “Reiknað verð”. Gögnin um þróun bensínverðs hjá Hagstofunni ná aftur til mars 1997. Þá var bensínverðið um 78 krónur á lítrann. Reiknaða verðið er sett á sömu tölu þann mánuð, en svo látið þróast miðað við margfeldi á gengi dollars (þá 71,14 ISK) og heimsmarkaðsverð á olíu (þá 18,54 dollarar á tunnuna).

Þróun bensinverðs

Þannig má lesa af grafinu að ef aðeins þessir tveir þættir réðu bensínverði hér á landi hefði lítrinn af bensíni farið yfir 600 krónur á tímabili í fyrra! Hámarkinu hefði verið náð í júlí: 636,7 krónur á lítrann. Nú væri það hins vegar komið NIÐUR í 254,4 krónur á lítrann. Raunverulega náði bensínverðið reyndar hámarki hér þennan sama mánuð: 184,3 krónur á lítrann, en er nú í kringum 146 krónur (95 okt, með þjónustu).

Af grafinu sést að sveiflur á gengi og olíuverði skila sér (kannski sem betur fer) ekki mjög hratt og alls ekki fyllilega í bensínverði til íslenskra neytenda. Á tímabilinu frá mars 1997 til september 1999 er reiknaða verðið talsvert lægra en raunverulega verðið, en hefur verið hærra nær óslitið síðan. Þetta myndu þeir sem hefðu hagsmuni af því örugglega túlka þannig að verðið frá olíufélögunum hafi verið “of hátt” á þessu tímabili, en hafi verið “of lágt” síðan, en tvennt ber þó að varast.

Annars vegar skiptir mjög miklu máli hvar upphafspunkturinn er settur. Hér ræðst það af því hversu langt aftur gögnin ná. Hins vegar endurtek ég það sem sagt var í upphaflegu færslunni. Það eru einfaldlega miklu fleiri þættir sem ráða bensínverði hér á landi heldur en þessir tveir, þar á meðal:

  • Í október 1999 var gerð skattalagabreyting þar sem vörugjaldi á bensíni var breytt úr prósentu í fasta krónutölu.
  • Þó hráolíuverð sveiflist til, þá hefur það ekki sömu áhrif á seinni stig vinnslunnar, s.s. hreinsun olíunnar og fullvinnslu í söluhæft eldsneyti á bíla.
  • Flutningskostnaður á eldsneytinu hingað til lands helst ekki að fullu í hendur við eldsneytisverð.
  • Innlendi þátturinn í verðinu er óháður ofangreindum sveiflum.

Til gamans má geta að verðbólgan á því tímabili sem grafið nær til er 86,6% (vísitalan fór úr 178,4 í 332,9). Það samsvarar svo að segja nákvæmlega þeirri hækkun sem orðið hefur á bensínverði á sama tímabili.

Fjárlögin í myndum – uppfærsla

Gögnin frá annarri umræðu Alþingis um fjárlagafrumvarpið 2009 komu inn á Fjárlagavefinn um helgina.

Í tilefni af því uppfærði ég myndræna framsetningu DataMarket á fjárlögunum (sjá upphaflega bloggfærslu) til að hægt sé að sjá með nokkuð þægilegum hætti þær breytingar sem gerðar hafa verið á útgjöldum Ríkisins og einstakra ráðuneyta í meðförum þingsins.

Ég bætti líka inn leitarmöguleika, þannig að hægt er að slá inn hluta úr heiti einstakra rekstrarliða til að finna þá í frumvarpinu.

Það væri gríðarlega gaman að taka þetta “alla leið” og tengja t.d. saman myndritin og viðeigandi skýringatexta í sjálfu frumvarpinu, sem og að lesa inn eldri fjárlög, breytingar á þeim í meðförum þingsins og svo auðvitað samanburð við ríkisreikning sama árs.

Það er svona viku vinna að ganga vel frá þessu, þannig að það gerist líklega ekki fyrr en ég fæ kostunaraðila á þetta, eða DataMarket þarf að vinna gögnin upp í tengslum við önnur verkefni.

Það má smella á myndina til að opna nýju græjuna:

Fyrirtæki sem heita FS#

Það stökk á mig eins og líklega fleiri þegar fyrirtækið FS7 (félag Finns Ingólfssonar sem hagnaðist á viðskiptum með Icelandair) komst í hámæli hve mjög nafn félagsins minnti á FS37 (seinna Stím) og FS38 (fyrirtæki í tengslum við Pálma Haraldsson og Fons sem lánaði FS37 peninga – sama frétt).

Gagnanördið ég brá mér því á Fyrirtækjaskrá á vef Ríkisskattstjóra og fletti upp öðrum félögum sem bera sambærileg nöfn (mynstrið “FS#”). Hér er niðurstaðan:

FS3 ehf 540706-0500   Ártorgi 1 550 Sauðárkrókur
FS6 ehf 640806-1170 Kringlunni 4-12 103 Reykjavík
FS7 ehf 640806-1250 Suðurlandsbraut 18   103 Reykjavík
FS10 ehf 601206-1290 Smáratorgi 3 201 Kópavogur
FS10 Holding ehf   620607-1850 Smáratorgi 3 201 Kópavogur
FS11 ehf 601206-1370 Heiðarhjalla 43 200 Kópavogur
FS13 ehf 601206-1530 Fellsmúla 11 108 Reykjavík
FS19 ehf 500407-0500 Vindheimum 116 Reykjavík
FS25 ehf 610607-1010 Hlyngerði 3 108 Reykjavík
FS28 ehf 450707-1120 Hesthömrum 18 112 Reykjavík
FS38 ehf 661007-2220 Suðurgötu 22 101 Reykjavík
FS45 ehf 591108-1070 Fiskislóð 45 101 Reykjavík
FS50 ehf 611207-3520 Síðumúla 2 108 Reykjavík
FS53 ehf 611207-3440 Tjarnargötu 4 101 Reykjavík
FS58 ehf 420408-1020 Þverholti 2 270 Mosfellsbær
FS61 ehf 630508-0880 Borgartúni 27 105 Reykjavík

Nú er ekkert í þessum lista sem segir að þau eigi eitthvað sameiginlegt annað en nafnið. Þó vekur athygli mína að fyrirtækin eru stofnuð í tímaröð. Aðeins tvö fyrirtæki brjóta þá reglu: FS10 Holding ehf, sem líklega er stofnað í tengslum við FS10 síðar og FS45, sem er til heimilis að Fiskislóð 45 og því nafnið líklega tilviljun.

Lausleg könnun leiddi í ljós að aðrar tveggja stafa samsetningar fylgt eftir með tölustöfum eru alls ekki algengar. Þetta vekur nokkrar spurningar:

  • Fyrir hvað stendur FS?
  • Ef þetta er sería, hvað varð þá um hin FS fyrirtækin? (við vitum að FS37 varð Stím)
  • Á þetta sér einhverjar sárameinlausar skýringar eins og að Fyrirtækjaskrá úthluti FS# raðnúmerum ef heiti fyrirtækis kemur ekki frá stofnendum?

Er einhvers staðar blaðamaður að leita að áhugaverðu verkefni?

Mikið væri annars gaman ef Fyrirtækjaskrá myndi opna betur á sínar opinberu upplýsingar til að einfalda allskyns athuganir sem þessar. Ég er viss um að margt áhugavert er hægt að finna bara útfrá nöfnum, stofnendum, samþykktum, stofnsamningum og ársskýrslum sem fyrirtækjum ber að skila inn, án þess að brjóta eðlilega leynd yfir þessum upplýsingum. Sjá nánar um Opin Gögn.

Kreppan er kerfisvilla

Risaskjaldbaka á Galapagos-eyjumGátan er leyst: Kreppan er kerfisvilla.

Með:

  • …þá peningamálastefnu sem var í gangi,
  • …örmyntina okkar – krónuna,
  • …götótt regluverk
  • …vanbúið eftirlitskerfi; og
  • …þær ytri aðstæður sem verkuðu á hagkerfið – fyrst til vaxtar og svo til hafta

…var þetta óhjákvæmilegt.

Þetta hefur sem sagt ekkert með einstaka auðmenn, banka eða fjárfestingarfyrirtæki að gera, þó það dragi í sjálfu sér ekkert úr ábyrgð þeirra þegar og ef í ljós kemur að þeir hafi brotið reglur, lög og siðferði í einhverjum málum.

Frjáls markaður er lífrænt kerfi. Ótal aðilar mætast í gríðarstórri og flókinni heild sem enginn hefur fullkomna yfirsýn yfir, né áttar sig á afleiðingum stórra eða smárra atvika á afkomu einstakra tegunda eða vistkerfisins í heild. Eins og önnur lífræn kerfi reynir markaðurinn á þanmörk sín á alla mögulega vegu, en lífræn kerfi eru jafnframt framúrskarandi við að finna lausnir sem henta vel þeim aðstæðum sem umhverfið býður upp á hverju sinni. Stöðugt umhverfi leiðir af sér fjölbreytt kerfi sem leitar jafnvægis, óstöðugt eða takmarkað umhverfi leiðir til sérhæfingar sem getur reynst dýrkeypt.

Þannig þróast finkur með langan og boginn gogg þar sem blóm með djúpa blómbotna bjóða upp á ljúffengan hunangssafa. Þannig spretta upp menn eins og Hannes Smárason í því fyrirtækjaumhverfi sem hér var boðið upp á. Ef ekki finkan, þá fyllir einhver önnur tegund þessa hillu vistkerfisins. Ef ekki Hannes, þá einhver annar.

Þegar meiriháttar breytingar verða á fæðuframboði, munu sum dýrin neyðast til að skipta yfir í fæðu sem þau voru ekki vön að borða áður. Þegar alþjóðleg lánsfjárkreppa skellur á mun einhver stofna hávaxta innlánsreikninga í stað þess að fjármagna sig með lánsfé. Ef ekki Landsbankinn, þá einhver annar.

Munurinn á vistkerfinu og hagkerfinu er sá að umgjörð hagkerfisins er mannanna verk. Henni er hægt að breyta til að bregðast við breyttum aðstæðum. Auka fæðuframboðið, stækka beitarsvæðin, grisja skóginn.  Umgjörðinni okkar var ekki breytt nógu hratt né reglunum fylgt nógu vel eftir. Finkurnar kláruðu hunangssafann, grasið reyndist rándýrunum óætt og vistkerfið hrundi.

Gjaldeyrishöft og gengismál

Tveir punktar sem hafa skotið sér í kollinn á mér síðustu daga:

  • Gjaldeyrisreglur Seðlabankans: Stjórnvöld eru komin á það stig að búa til reglurnar “as they go along”. Villi var duglegur um helgina – fyrir hönd Verne og CCP – að benda á skaðsemi þessarra reglna fyrir sprotastarfsemi og erlendar fjárfestingar (nokkuð sem við þurfum einmitt nú frekar en nokkru sinni). Þessu var svarað með fundi í gær þar sem fram kom – samkvæmt fréttum“að gjaldeyrisreglurnar hefti ekki beina erlenda fjárfestingu. Túlkun Seðlabanka sé sú að bein erlend fjárfesting sé kaup á 10% eignarhlutur eða meira. Þetta þýðir að fyrirtæki hér geta fengið útlendinga til að fjárfesta í rekstrinum, ef eignarhlutur þeirra fer yfir 10%.”

    Ég er ekki að skálda þetta! Hvað gengur mönnum til? Í fyrsta lagi er ómögulegt að túlka orðanna hljóðan í reglum Seðlabankans á þennan veg. Þennan skilning fá aðeins þeir sem fara á fund hjá Seðlabanka og Viðskiptaráðherra og þá bara í orði eða hvað? Og hver eru rökin fyrir því að útlendingar megi eiga meira en 10% en ekki minna? Hvað ef þeir kaupa 15%, en svo minnkar eignahlutur þeirra síðar? Af hverju 10%? Þessu fylgja engin rök og erfitt einu sinni að ímynda sér hver þau gætu verið. Voru þeir ekki búnir að frétta að við “…kind of need the money”?

    Stærsti skaðinn af þessum gjörningi er samt sá að nú er orðið greinilegt að stjórnvöld eru komin í þann ham að þeim er trúandi til að setja hvaða reglur sem er, hvenær sem er og túlka þær svo eftir hentugleika. Undir slíkum kringumstæðum munu erlendir fjárfestar forðast Ísland eins og heitan eldinn og var nú nóg samt.

    Ég hef verið að vinna í tveimur verkefnum sem þetta hefur bein áhrif á. Nýja fyrirtækið mitt – DataMarket – mun reyndar ekki þurfa að sækja sér erlent fjármagn fyrr en líður á næsta ár, en ég óttast mjög skaðsemi þessa hringlandaháttar þá ef ekki verður búið að gerbreyta hér stjórn og skipulagi. Ég mun þurfa að íhuga mjög alvarlega að setja það upp sem erlent félag – og mig sem langar ekkert meira en að hjálpa til við að moka.

    Hitt er að ég hef verið að kynna Bandarískum fjárfestum á sviði endurnýjanlegra orkugjafa ýmis tækifæri hér. Þeir komu hér í nokkurra daga heimsókn fyrir fáum vikum síðan og sýndu ýmsum tækifærum áhuga. Uppbyggilegum tækifærum í fyrirtækjum sem þurfa að fjármagna umtalsverðar framkvæmdir á næstu árum. Við erum að fylgja þessum málum eftir núna, en ég get fullyrt að þetta rugl er ekki til að auka líkurnar á því að eitthvað verði af þeim plönum.

    Mynduð þið fjárfesta í Bólivíu ef stjórnvöld væru nýbúin að frysta peningalegar eignir útlendinga í landinu, jafnvel þó þau væru náðasamlega til í að túlka reglur sínar ykkur í hag eða veita ykkur undanþágu, a.m.k. á meðan þeim þóknast?

    Hélt ekki! En þetta er einmitt ímyndin sem tókst að búa til með laga- og reglusetningu síðustu viku. Glæsilegt alveg.

  • Lausn á krónuflóttanum? Áðurnefndar reglur eru settar til að reyna að koma í veg fyrir að gengi krónunnar falli eins og steinn við fleytinguna. Þó svo að segja öllum beri saman um að raungengi krónunnar (m.t.t. til vöruskiptajöfnuðar) sé tugum prósenta sterkara en það er nú (sjá áður í færslunni Greiningadeild Hjalla), þá gæti algert hrun nú gert það að verkum að fjármagnsflóttinn yrði enn meiri og orðið erfiðara að komast í styrkingarferli aftur. Ástæða lagasetningarinnar er því vel skiljanleg.

    Ég velti þó fyrir mér annarri leið. “Hræddustu krónurnar” eru krónur sem erlendir aðilar sem eiga í skuldabréfum hér á landi – jöklabréfin svokölluðu. Upphæð þessarra bréfa er í kringum 400 milljarðar króna. Af þeim er einhver hluti – segjum 200 milljarðar – sem munu fara um leið og þeir geta losað eitthvað af þessum fjármunum, nánast algerlega óháð gengi krónunnar eða verðinu sem þeir fá fyrir skuldabréfin. Þeir myndu ýkjulaust vera sáttir við að fá dollara fyrir krónur á genginu 250 og afar lélega ávöxtun á bréfunum sjálfum, líklega neikvæða. Að komast út með 20-25% af upphaflegri fjárfestingu myndu þeir túlka sem árangur. Þeir eru hræddir, þurfa að nota peninginn í annað og hafa engar forsendur eða aðstöðu til að meta eða nýta sér það hvort gengi krónunnar verði sterkara eftir 2 mánuði, hálft ár eða 3 ár. Þeir ætla bara að fara.

    Á móti eru svo aðilar sem hafa miklu meira innsæi í íslenskan fjármálamarkað og skilning á því hvernig gengið eigi eftir að þróast, sem eiga í dag eignir í erlendri mynt. Augljósasta dæmið eru lífeyrissjóðirnir. Eignir þeirra erlendis nema líklega um 5 milljörðum dollara (+/- milljarður til eða frá). Lífeyrissjóðirnir – og aðrir í svipaðri stöðu – gætu gert alger kostakaup núna. Samið um að kaupa hræddu krónurnar á genginu 200-250 á móti dollara og fengið um leið óviðjafnanlega ávöxtun á skuldabréfin þar sem verið væri að selja þau með verulegum afföllum. Á genginu 200 myndi þetta ekki kosta nema 1 milljarð dollara. Þó gengið myndi ekki síga nema í 110 aftur (margir trúa að 90 sé nær lagi) á næstu tveimur árum, er ljóst að kaupendurnir myndu fara hlæjandi alla leið í bankann með þennan díl.

    Og ekki nóg með það, þeir myndu á sama tíma lýsa trausti á að íslenska hagkerfið muni braggast og líklega mynda snöggan og snarpan botn í gengiskúrfuna sem marka myndi upphaf styrkingarferils hennar.

    Hvar er villan í þessu hjá mér?

CCP og loðnan

Ég rakst á það á vef Egils Helgasonar að nokkrir bloggarar eru að bera til baka þá fullyrðingu Kjartans Pierre, sem ég hafði óbeint eftir í Silfri Egils um daginn að hlutfall CCP í útflutningi sé svipað og loðnu.

Fyrst af öllu vil ég taka fram að fátt er mér fjær en að gera lítið úr sjávarútveginum og samanburðurinn einmitt gerður til að gera mikið úr CCP frekar en lítið úr loðnuveiðunum. Samanburðurinn er gerður vegna þess að allir vita að loðnuveiðar eru okkur miklvægar, en fólk á erfiðara með að skynja verðmæti á borð við þau sem CCP skapar. Sú staðreynd að þessar tölur séu af sömu stærðargráðu er því merkileg.

Kári Sölmundarson er einn þeirra sem dregur þetta í efa og birtir tölur sem sýna þetta svona:

  • Loðna: 9,9 milljarðar
  • CCP: 2,4 milljarðar

Ég finn reyndar ekki alveg sömu tölur og Kári. Þegar ég legg saman loðnuflokkana í tölum Hagstofunnar um Afla og verðmæti eftir tegundum og veiðisvæðum 2003-2007, fæ ég töluna 5,3 milljarða fyrir árið 2007.

lodnuveidar-2007

Mér sýnist á öðrum tölum á vef Hagstofunnar að árið í ár líti alls ekki eins vel út hvað loðnuna varðar. Skv. þessu er aflaverðmæti loðnu janúar-ágúst á þessu ári 2,9 milljarðar samanborið við 5,3 fyrir sama tímabil í fyrra. Veiðitímabilið er frá janúar til mars, þannig að ólíklegt er að þessi tala eigi eftir að hækka.

Ég veit líka að tekjur CCP á árinu 2008 stefna í að verða um $50 milljónir. Meðalgengi dollarans það sem af er ári er 84 krónur og verður líklega nálægt 90 krónum yfir árið í heild. Samkvæmt þessum tölum lítur dæmið því svona út fyrir árið í ár:

  • Loðna: 2,9 milljarðar
  • CCP: 4,5 milljarðar

Þetta er auðvitað með fyrirvara um það að við Kári erum ekki að horfa á sömu tölurnar og virðist sem ekki sé allt aflaverðmæti loðnunnar inni í þeim tölum Hagstofu sem ég er að horfa á.

Ef horft er til virðisauka, þá er erlend fjárfesting á móti tekjum CCP svo að segja engin, meðan útgerðin þarf eðli málsins samkvæmt að kaupa ýmis aðföng, s.s. olíu og ýmsan vélabúnað erlendis frá fyrir hluta af þessum gjaldeyri.

Einnig væri áhugavert að skoða muninn á þeim virðisauka sem þessar greinar skapa m.t.t. fjárfestinga og gjaldeyristekna.

Þegar öllu er á botninn hvolft, þá skiptir auðvitað minnstu hvort loðna eða CCP skili meiru í þjóðarbúið. Á tölunum má vel sjá að hvort tveggja skiptir umtalsverðu máli. Við eigum að stuðla að því að hvort tveggja þrífist sem allra best, að hér verði til sem fjölbreyttast efnahagslíf og hljótum að geta unað hvert öðru því að vel gangi í hverju sem fólk kýs að taka sér fyrir hendur.

P.S. Ég sé að Kjartan hefur sett inn sambærilega bloggfærslu seinnipartinn í gær.

Uppfært 25. nóv, kl 13:37 m.t.t. til athugasemdar Magnúsar hér að neðan.

DataMarket hleypt af stokkunum

Jæja, þá er komið að því. Fyrsti áfangi nýja fyrirtækisins – DataMarket – lítur dagsins ljós í dag.

Eins og líklega hefur mátt lesa á milli línanna (og af nafninu) snýst DataMarket um að koma upp markaði fyrir kaup og sölu á gögnum. Þarna er einkum átt við tölfræði og töflugögn hverskonar, eða það sem upp á ensku hefur verið kallað “structured data”.

Undir þessa skilgreiningu falla m.a. hagtölur, markaðsrannsóknir, gengisupplýsingar og önnur fjármálagögn, veðurupplýsingar, íþróttaúrslit, sjónvarpsdagskrár, bílategundir, þróun í meðalþyngd ástralskra karlmanna og svo framvegis. Í raun hver þau gögn sem eðlilegt væri að setja fram sem töflu.

Gögn af þessu tagi koma víða við sögu í fyrirtækjarekstri, stjórnsýslu og í raun á svo að segja öllum sviðum mannlífsins. Það kemur mér því sífellt á óvart hversu erfitt er að finna góð gögn, fá þau afhent á hentugu sniði, að ekki sé talað um hverskonar samkeyrslu eða myndræna framsetningu.

DataMarket ætlar sér að takast á við þessi vandamál.

Í þessum fyrsta fasa kynnum við “þjónustufyrirtækið DataMarket”. Frá og með deginum í dag bjóðum við fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum upp á gagnaöflunarþjónustu. Við sjáum sem sagt um að finna þau gögn sem leitað er að, göngum frá leyfismálum, samkeyrum gögn úr ólíkum áttum og vörpum gögnunum á það snið sem viðskiptavinurinn óskar. Að auki tökum við að okkur að útbúa myndræna og/eða gagnvirka framsetningu á hvers kyns gögnum – það sem við kjósum að kalla gagnagræjur.

Þetta er að miklu leyti gert til að fá betri tilfinningu fyrir markaðnum. Átta okkur á því hvar þörfin er mest, hvers konar verkefni skjóta upp kollinum og hvar mögulega viðskiptavini okkar svíður helst þegar kemur að gagnamálum. Þessa reynslu munum við svo nota til að forgangsraða við frekari uppbyggingu DataMarket.

Markmiðið er að DataMarket verði með tímanum öflugur markaður sem leiði saman kaupendur og seljendur gagna í þægilegu sjálfsafgreiðslukerfi. Mikil vinna er óunnin þar til sú sýn verður að veruleika. Fyrstu skrefin í þá átt verða þó stigin fljótlega á næsta ári. Þú munum við opna vísi að slíkum markaði sem þó mun hafa mjög afmörkuð efnistök.

Með þessum litlu skrefum vonumst við til að geta byggt fyrirtækið upp á skynsamlegan hátt með endurgjöf sem beini okkur rétta braut í átt að lagtímamarkmiðinu.

Allar ábendingar, hugmyndir og umkvartanir eru velkomin, hvort heldur er í athugasemdum hér á blogginu, eða í tölvupósti.

Nýsköpun í Silfri Egils

Ég fékk tækifæri til að koma að nokkrum orðum um nýsköpun og uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs í Silfri Egils í dag.

Hér að neðan er upptaka af spjallinu.

P.S. Ég vona að RÚV sjái í gegnum fingur sér með að það er klárlega brot á höfundarrétti að setja efni frá þeim á YouTube. Það er bara ekki alveg nógu aðgengilegt að vísa á efni á þeirra eigin vef: Upptökur af Silfri dagsins á vef RÚV.

Svona verður Næsta Ísland

new-futureEin birtingarmynd kraftsins sem hefur verið leystur úr læðingi síðustu vikur er sú að almenn umræða er hætt að snúast um efnistökin í Séð og Heyrt og farin að snúast um stóru málin – málin sem skipta máli:

Hvernig viljum við hafa Næsta Ísland? Hvernig vinnum við okkur útúr núverandi ástandi? Hvernig á að stjórna landinu? Og hver á að gera það?

Ég hef tekið þátt í ótal samræðum um öll þessi mál síðustu vikur og tók af því tilefni saman nokkra áhugaverða punkta sem ég get sagt með nokkurri vissu að ég vilji sjá einkenna Næsta Ísland:

  • Besta mögulega umhverfi til nýsköpunar. Í slíku umhverfi byggist upp fjölbreytt atvinnulíf og útflutningstekjur okkar munu ekki standa lengur á aðeins 3-4 stoðum, heldur 10-20. Í þessu umhverfi felst m.a. einfalt og hagstætt skattkerfi, einföld fyrirtækjalöggjöf, öflugt stuðningskerfi, hvatar til áhættufjárfestinga o.fl. Sjá nánar í færslunni Af hverju nýsköpun? og á nyskopun.org.
  • Gjaldmiðill sem hefur verðgildi víðar en á Íslandi. Þetta er aðeins hægt með upptöku annars gjaldmiðils eða með því að setja traustan fót – s.s. gull – undir krónuna (sem NB er varla mögulegt úr þessu). Hugmyndir um einhliða upptöku Evru eru áhugaverðar, en líklega snúnari en gefið hefur verið í skyn. Fleytingu krónunnar með baklandi í stóru erlendu láni þarf að fylgja skýr áætlun um það hvernig gjaldeyrismálum verði háttað í framtíðinni. Slík áætlun gæti t.d. falið í sér að stefnt sé að upptöku annars gjaldmiðils innan 5 ára og hvernig gengi við þau skipti verði ákvarðað. Ég hef áður sett fram spádóm um gengi krónunnar eftir fleytingu, og hér er spádómur frá mér fróðari manni um málið.
  • Fagfólk í stöður ráðherra og helstu embættismanna. Þetta mætti t.a.m. gera á eftirfarandi hátt: Auglýst yrði eftir umsækjendum í stöðurnar. Nefndir fagfólks í hverju málefni (t.d. leiðtogar fyrirtækja og stofnana í viðkomandi greinum) myndu meta hæfi umsækjendanna og ef fleiri en einn er talinn jafnhæfastur eða -hæfust til verksins, kýs Alþingi milli þeirra. Alþingi, sem vinnuveitandi þeirra, getur svo sett viðkomandi af þyki hann eða hún ekki hafa staðið sig. Með þessu fæst líka nokkuð heilbrigður aðskilnaður alþingis og ríkisstjórnar. Á móti mætti fækka Alþingismönnum um 20.
  • Öll lög hafi “síðasta söludag”. Tryggt sé að öll lög komi til endurskoðunar ekki sjaldnar en á 10 ára fresti. Til athugunar sé hvort þau eigi enn rétt á sér eða megi að öðrum kosti bæta m.t.t. breyttra tíma. Svona má m.a. tryggja að löggjöfin taki tillit til tækninýjunga, breytinga í alþjóðaumhverfi o.s.frv.
  • Settur sé óháður verkefnastjóri yfir Alþingi. Verkefnastjórinn setur niður dagskrá ársins gróflega í upphafi árs og raðar svo nákvæmri dagskrá innan viku og dags. Enginn starfsmaður (les: alþingismaður) fær að fara heim fyrr en vinnu er lokið. Séu markmið ekki að nást, er það hins óháða verkefnisstjóra að meta mikilvægi og forgangsraða málum. Þingmenn eða flokkar mættu jafnvel fá fastan fjölda “mikilvægispunkta” sem þeir mega dreifa á sín mál yfir árið til að hafa áhrif á það hvaða mál eru tekin fyrir.
  • Landið allt eitt kjördæmi, ekkert lágmarksfylgi og röðun á kjörseðli. Kjördæmaskipanin tryggir jafnt vægi atkvæða og dregur úr kjördæmapoti (sem þá myndi líklega fá heitið “svæðapot”). Forgangsröðun á kjörseðli í stað þess að aðeins einum flokki sé greitt atkvæði (sjá t.d. löggjöf um þingkosningar í Ástralíu), hindrar öfgaöfl í að komast að, en afnám lágmarksfylgis tryggir á sama tíma að “litlar raddir” fá málsvara á þingi ef kjósendum þykir næg ástæða til.
  • Stóraukið gegnsæi í fjármálakerfinu. Skráning skulda- eða hlutabréfa á markað setji kröfur um fullkomið gagnsæi á rauntímaupplýsingum úr bókhaldi viðkomandi fyrirtækja. Þetta skapar þeim markað til að sækja sér fé, en gefur fjármagnseigendunum – í krafti hópsins – kleift að fylgjast grannt með stöðu fyrirtækjanna. Sama myndi gilda um sjóði, s.s. peningamarkaðssjóði, lífeyrissjóði eða aðra gjörninga sem mynda “strúktúra” ofan á markaðinn. Árs- og ársfjórðungsuppgjör eru úrelt fyrirbæri – rauntímaupplýsingagjöf er krafa nútímans. Ég hef áður skrifað um þetta í færslunni Framtíð viðskipta: Opið bókhald og fullkomið gegnsæi.
  • Stóraukið gegnsæi í fjármálum hins opinbera. Opið kerfi þar sem hver sem er getur skoðað, ekki bara samantekna liði í fjárlögum og rekstri, heldur kafað alveg niður í hverja einustu færslu hins opinbera og meðfylgjandi skýringar. Þetta tryggir frábært aðhald og dregur úr pólitískri fyrirgreiðslu af almannafé. Framsetningin á þessu gæti verið “glorified” útgáfa af framsetningu DataMarket á Fjárlagafrumvarpinu – þar sem hægt væri að kafa dýpra, sjá nánara niðurbrot, skoða fjármál einstakra stofnana og skýringar með öllu saman.
  • Öll samskipti við hið opinbera geti farið fram rafrænt. Þetta yrði ekki bara í formi vefsíðu, eins og við eigum t.d. að venjast með skattframtalið, heldur eiga bókhaldskerfi og önnur kerfi að geta tengst með sjálfvirkum hætti – með tímanum mætti jafnvel krefjast þess. Sjá bloggfærslu um “The Government API” sem ég skrifaði í fyrra. Þetta eykur skilvirkni, minnkar tvíverknað, fækkar villum og gerir – tvinnað saman við gagnsæiskröfurnar hér á undan – hverskyns undanskot afar erfið.
  • Skynsemi við ráðstöfun takmarkaðra auðlinda. Orkan, fiskurinn, andrúmsloftið og náttúran eru takmarkaðar, verðmætar auðlindir. Þær er rétt að nýta, en af skynsemi. Við hverja ráðstöfun á þessum gæðum, þarf að vega og meta ávinning á móti ókostum. Orkumálin eru þarna hvað umdeildust. Það er jafn vitlaust að vilja ekkert virkja framar eins og það er að vilja virkja allt sem virkjanlegt er. Okkar hagur er að sem mest fáist fyrir orkuna og ekki sé fórnað meiri hagsmunum fyrir minni. Þannig er augljóslega betra að fá marga meðalstóra kaupendur að orku – s.s. rannsóknagróðurhús, vélabú eða álþynnuverksmiðjur – en fáa stóra. Virðisauki samhliða orkusölunni er lykilatriði. Með tilliti til áherslu á fjölbreytni í atvinnulífi eru fleiri álver orðin hættuleg – eggin, körfurnar og allt það. Umfram allt þarf orkusala að fara fram á opnum markaði þar sem verð eru opinber og jafnræði gildir við tilboðsgerð.
  • Afnám hverskyns hindrana á vöruflutningum. Tollar, innflutningsgjöld og niðurgreiðslur ákveðinna framleiðslugreina búa til ójafnvægi sem býr til undarlega hvata og kemur í veg fyrir að við nýtum með besta hætti vinnuafl, landrými, fjármagn og verkvit í heiminum. Grænmetisrækt á Íslandi er því aðeins góð hugmynd að lágt orkuverð hér vegi upp kostnað við gróðurhús og mæti samt flutningskostnaði erlendis frá. Landbúnaður hér ætti að vera takmarkaður við þær greinar sem standast samkeppni við innfluttar vörur í gæðum og verði, eða eiga erindi á alþjóðamarkaði í samkeppni við erlendar vörur þar. Ég efast um að verksmiðjuframleiðsla á borð við svína- og kjúklingarækt geri það, en íslenskt kindakjöt er aftur á móti villibráð og þarf að koma á markað sem sem slíkri: munaðarvara í samkeppni við franska gæsalifur, rússneskan kavíar og lapplenskt hreindýrakjöt. Tollar og gjöld á vörur á borð við raftæki og neysluvörur eru hrein tímaskekkja.
  • Afnám hindrana á fjármagnsflutninga og eignarhald. Eignarhald einkaaðila ætti aldrei að takmarka við ákveðið þjóðerni. Viljum við (íslenska þjóðin) halda yfirráðum yfir ákveðnum auðlindum, eiga þær að vera í eigu ríksins, en nýtingarréttinn má leigja eða selja á opnum markaði. Með þessum hætti fáum við hingað erlent fjármagn í þær framkvæmdir eða verkefni sem okkur gætu reynst ofviða, aukum líkurnar á áhættufjármagni í greinum eins og orku eða sjávarútvegi og aukum samkeppni um þessar auðlindir sem leiðir af sér hærri tekjur til þjóðarbúsins.

Ég geri mér grein fyrir að margt af ofantöldu þarf að nálgast af varfærni. Sumt mun taka allmörg ár að færa til betri vegar og í mörgum tilfellum verður þörf á sérstökum aðgerðum til að gera umbreytinguna sem sársaukalausasta.

Ég tek öllum góðum rökum gegn þessum hugmyndum og áskil mér fullan rétt til að skipta um skoðun í ljósi slíkra, en tel þó að ofangreint standist allharða rökræðu.