íslenska

Tæknispá 2010

Ég hef nokkrum sinnum áður ráðist í það um áramót að skrifa smá hugleiðingar um það sem komandi ár gæti borið með sér í tæknigeiranum á Íslandi. Spáin fyrir nýliðið ár heppnaðist býsna vel, þannig að nú er kominn tími til að rýna aftur í telauf og garnir og spá fyrir um næstu misserin.

  • Sprotaheimurinn: Það eru magnaðir hlutir að gerast í heimi nýsköpunar og sprotastarfsemi í tæknigeiranum. Eftir 5-6 steindauð ár þar á undan, brustu allar flóðgáttir við hrun bankanna. Þar kemur líklega tvennt til: 1) Hreyfing á fólki sem ýmist missti vinnuna, eða fékk nóg og yfirgaf stöður sem kannski voru aldrei sérlega skemmtilegar, bara vel borgaðar; og 2) Gerbreytt afstaða almennings, stjórnvalda og fjölmiðla – það var loksins komið veður til að skapa.
    • Fyrstu ávextirnir af sprotum hrunsins: Allnokkur sprotafyrirtæki komu frá sér úrvalsvörum árið 2009. Má þar nefna: heimilisfjármálagræjuna Meniga, tölvuleikina Peter und Vlad og Audiopuzzle frá Dexoris, Vaktarann frá CLARA sem fylgist með umræðu á netinu, tölvuleikina Symbol6, Soft Freak Fiesta og Vikings of Thule frá Gogogic og smálánaþjónustuna Uppsprettu.

      Sum þessara fyrirtækja voru jafnvel stofnuð eftir hrun, þannig að hraðinn er mikill. Ég reikna með að sjá enn meiri grósku í þessu á komandi ári. Öll áðurnefnd fyrirtæki eru ýmist að þróa endurbættar útgáfur af sínum vörum eða nýjar vörur væntanlegar frá þeim á árinu. Til viðbótar má nefna að vörur eða stórar viðbætur eru væntanlegar frá næstum öllum hinum fyrirtækjunum í Icelandic Gaming Industry (IGI) auk Mobilitus, Medizza, Gogoyoko, DataMarket og ýmsum fleirum sem ég er ýmist að gleyma eða hreinlega veit ekki af. Eins hlakka ég mikið til að sjá og kynnast betur því sem koma mun út úr “hands-on” nýsköpunarsetrinu í Toppstöðinni.

      Ég sé því fyrir mér að í sprotaheiminum verði árið 2010 enn viðburðaríkara en nýliðið ár og þar verða líklega bæði stórir sigrar og talsverð vonbrigði.

    • Of miklir peningar: Það eru að safnast býsna miklir peningar í sjóði sem ætla að fjárfesta í efnilegum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum á næstunni: Frumtak, sem upphaflega átti að verða 4,5 milljarða sjóður hefur úr meira en helmingi þeirrar upphæðar að moða þrátt fyrir einhverja óvissu um fjárframlög gömlu bankanna; Bjarkar-sjóðurinn sem er í umsjón Auðar Capital stefnir vel á annan milljarð; Nýsköpunarsjóður hefur úr talsverðu að moða; Tækniþróunarsjóður hefur 720 milljónir á fjárlögum næsta árs, af hverjum líklega um helmingur fer til slíkra fyrirtækja. Að auki eru allnokkrir hópar að setja saman bæði litla og umtalsvert stóra sjóði sem ætlað er að fjárfesta í tækifærum af þessu tagi. Ég hugsa að það láti nærri að 5-7 milljarðar séu eyrnamerktir í sprota- og nýsköpunarfjárfestingar þessa dagana!

      Þetta er auðvitað langt frá því að vera vandamál í sjálfu sér, en allir þessir peningar eru að elta tiltölulega fá – raunverulega góð – tækifæri. Hættan við allt þetta fé er sú að það leiti of víða og að forsvarsmenn sjóðanna hafi ekki þolinmæði til að bíða eftir tækifærum sem þeir hafa raunverulega tröllatrú á. Þannig gæti farið svo að of mörg fyrirtæki fái litlar frumfjárfestingar, en svo verði of litlir peningar eftir til að fylgja eftir þeim sem klóra sig fram úr fyrstu árunum og tryggja að þau nái virkilega að blómstra. Þetta hefur gerst áður. Nýsköpunarsjóður, eins og hann var rekinn í kringum árið 2000, er mjög gott dæmi um slíkt. Líklega hefði komið meira útúr honum með færri og stærri fjárfestingum.

      Sem sagt: Gott að það sé úr miklu fé að moða, en því má ekki smyrja of þunnt.

    • Of fátt hæft fólk: Það er ekkert atvinnuleysi í tæknigeiranum. Það er auðvitað alltaf slagur um besta fólkið, en það er vöntun á fólki af öllum stærðum og gerðum. Að einhverju leyti stafar þetta af því að aðsókn í tölvu- og tækninám var áberandi lítil á uppgangstíma bankanna. Við höfum ekki alið upp mikið af slíku fólki síðustu árin. Hins vegar stafar þetta af því að eftirspurnin hefur líklega aldrei verið meiri. Þó eitthvað hafi dregið saman í tölvudeildum bankanna og hjá sumum þjónustufyrirtækjum í upplýsingatæknigeiranum er það þó minna en ætla mætti. A.m.k. einn bankinn er m.a.s. að bæta við sig fólki um þessar mundir. Á sama tíma ætlar t.d. CCP eitt og sér að bæta við sig 160 manns á næstu mánuðum (þó ekki bara á Íslandi) og hefur þegar vaxið gríðarlega. Lauslega áætlað starfa um 200 manns hjá sprotafyrirtækjunum sem nefnd voru hér að ofan og restin af atvinnulífinu hefur tekið slakanum í upplýsingatæknigeiranum fegins hendi og ráðið til sín töluvert af fólki sem þau höfðu ekki tök á að slást um við bankana á sínum tíma.

      Ég sé fyrir mér að þessi mannekla muni hamla vexti sprotafyrirtækja umtalsvert.

    • Leikjabólan: Góður maður reiknaði út að Ísland ætti innan við 10 menn sem væru framúrskarandi (meira en 3 staðalfrávik frá meðaltali) í hverju sem er. Þetta gilti jafnt um Seðlabankastjóra sem sundmenn. Þessi staðreynd, að viðbættum þeim skorti á fólki sem er í upplýsingatæknigeiranum almennt veldur mér svolitlum áhyggjum fyrir hönd íslenska tölvuleikjaiðnaðarins sem nú er í örum vexti. Það kemur alls ekki á óvart að ýmsir feti í fótspor velgengninnar sem CCP fagnar, og heilt yfir er auðvitað frábært að sjá gróskuna sem m.a. kemur fram í starfsemi IGI. En gæðin, fólkið og hugmyndaauðgin hljóta að dreifast full þunnt þegar svona mikið er um að vera í jafn sérhæfðum geira og raun ber vitni.

      Ég spái því að þessi mikla starfsemi á þröngu sviði eigi eftir að sliga einhver leikjafyrirtæki, sem annars hafa alla burði til að slá í gegn.

  • Gögn og meiri gögn: Ýmis málefni sem tengjast gögnum, og þá ekki síst opnum gögnum eru mér afar hugleikin. Hér er tvennt sem ég sé fyrir mér að gerist í þeim efnum á árinu.
    • Opin gögn: Á haustmánuðum 2009 var lögð fram þingsályktunartillaga 12 þingmanna, jafnt úr stjórn sem stjórnarandstöðu, um opnara aðgengi að opinberum gögnum. Jafnframt var lögð fram fyrirspurn til forsætisráðherra um afstöðu hennar til þessara mála. Þótt svarið sem barst nú rétt fyrir áramótin sé afar varfærið og taki ekki djúpt í árinni, er boltinn greinilega farinn að rúlla varðandi það að breyta umgjörð þessara mála.

      Ég sé fyrir mér að breytingar verði gerðar á upplýsingalögum áður en árið er úti, aðgengi að opinberum gögnum rýmkað til mikilla muna og að áherslan verði á “upplýsingaskyldu stjórnvalda fremur en upplýsingarétt almennings” eins og segir í niðurlagi þingsályktunartillögunnar.

    • Greining gagna: Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið mun mjög líklega sýna, svo ekki verður um villst, hversu mikill máttur upplýsingatækninnar er þegar kemur að því að greina gögn. Ég á von á að sjá þar tengslanet, atburðarásir og hreinlega uppljóstranir á einstökum málum sem fengnar hafa verið með því að keyra greiningar á gríðarlegt magn gagna í leit að eftirtektarverðum mynstrum, óeðlilegum færslum og grunsamlegum tengslum og samskiptum ýmissa aðila. Ég skrifaði pistil um þetta efni í byrjun árs og þykist vita að þessi mál hafi verið tekin traustum tökum.

      Ég sé fyrir mér að þetta muni opna augu atvinnulífsins og stjórnvalda fyrir því hversu verðmæt og öflug greining og úrvinnsla gagna getur verið.

  • Vélabú og annar milli-orkufrekur iðnaður: Mér leiðist orðið “gagnaver” og held mig því við að reyna að koma nýyrðinu “vélabú” að í staðinn. Vélabú Verne var mikið í umræðunni í lok árs. Ég tel litlar líkur á að verkefnið detti uppfyrir, en það er þó ljóst að aðkoma Novator mun breytast. Það hefur alltaf legið fyrir að þeirra hlutur myndi minnka við þá fjárfestingu sem nú er á lokametrunum. Ekki er ólíklegt að hlutafjáraukningin sé á bilinu 25%-50% og þá fer 40% hlutur Novators í Verne niður í 20%-30%. Eins er ekki alveg loku fyrir það skotið að Novator verði keypt út úr hluthafahópnum til að sefa gagnrýnisraddirnar. Verkefnið er hins vegar af þeirri stærðargráðu að það verður varla stoppað. 90 milljarða fjárfesting í erlendum gjaldeyri er satt að segja svo stór að burtséð frá öllum framkvæmdunum, störfunum og öðrum umsvifum, kann slíkt gjaldeyrisinnstreymi jafnvel að lyfta gengi krónunnar lítillega. Það er líklegt til að hljóma eins og of góð músík í eyrum fleiri en bara stjórnmálamanna.

    Eins er með þessu verkefni loksins verið að dreifa orkueggjunum okkar í fleiri körfur en áliðnaðarins eins. Segja má að aflþynnuverksmiðja Becromal hafi verið fyrsta skrefið í þá átt í seinni tíð. Ýmsar þreifingar eru einnig í gangi um framleiðslu bæði á sólarkísil og koltrefjum.

    Ég sé fyrir mér (og vona) að fleiri slík verkefni komist af stað á árinu og þá í stað álvers á Bakka og jafnvel líka í Helguvík.

  • Pólitík og netið: Um síðustu áramót spáði ég því að netið, og þá ekki síst samfélagsvefir, ættu eftir að leika lykilhlutverk í pólitísku starfi árið 2009. Þetta er reyndar orðið svo áberandi núna að það er ótrúlegt að á sama tíma fyrir ári síðan voru til dæmis aðeins örfáir stjórnmálamenn og líklega enginn stjórnmálaflokkur með opna síðu á Facebook.

    Við sáum líka ýmsa aðra pólitíska vinkla spretta upp úr þessum jarðvegi: Mótmælin voru að miklu leyti skipulögð á Facebook, Appelsínuguli-hópurinn, hópar með og á móti ESB, með og á móti ýmsum útgáfum af Icesave samningum, með og á móti lýðræði, með og á móti sól. 2010 verða sveitastjórnarkosningar og strax má sjá þess merki að frambjóðendur í prófkjörum og listar sem boðnir eru fram eru komnir í startholurnar með Facebook-viðveru, Twitter-tilraunir og notkun nýrra miðla til að dreifa upplýsingum og áróðri.

    Að teknu tilliti til takmarkaðra fjárráða held ég að Facebook og netið verði þungamiðjan í aðdraganda þessara sveitastjórnarkosninga, sérstaklega í stærri sveitarfélögunum.

  • Opinn hugbúnaður: Sífellt fleiri eru að átta sig á því að í boði eru ágætir valkostir við flestan séreignarhugbúnað. Ýmislegt mælir með aukinni notkun opins hugbúnaðar jafnt hjá hinu opinbera, í einkageiranum og á heimilum landsins. Kostnaður er eitt þeirra atriða, en þó ekki endilega eins borðleggjandi og hörðustu fylgimenn vilja meina. Þjálfunarkostnaður, þjónusta og töpuð vinna á meðan skiptin fara fram er umtalsverður og sumar “commercial” lausnir standa reyndar samkeppni frá opnum hugbúnaði enn langtum framar (og öfugt – svo það sé sagt).

    Persónulega þykja mér rök á borð við þau að gæta þess að starfsaðferðir festist ekki í viðjum einstakra framleiðanda, t.d. vegna lokaðra skráarsniða eða að verkferlar krefjist ákveðinna, dýrra séreignarlausna vega mun þyngra. Eins þarf skólakerfið að gæta þess að draga ekki vagn tiltekinna fyrirtækja. Það er hins vegar jákvæð þróun að sem flestir átti sig á því að það eru valkostir við þann hugbúnað sem þeir hafa vanist.

    Ég sé fyrir mér að opinn hugbúnaður muni ryðja sér nokkuð afgerandi til rúms hjá hinu opinbera á árinu og í auknum mæli í einkageiranum líka.

  • Hræringar á fjarskiptamarkaði: Fjarskiptamarkaðurinn er – eins og svo margt annað í samfélaginu – dálítið upp í loft eftir bankahrunið.

    Teymi, aðaleigandi Vodafone fór á hausinn árið 2009, félögin fengu gríðarmiklar skuldir afskrifaðar og eignarhaldið er núna í höndum Landsbankans að mestu leyti. Landsbankinn leysti jafnframt til sín stóran hluta í Tali á árinu.

    Nova hefur gengið framúrskarandi vel að ná til sín viðskiptavinum í farsímaþjónustu, en er nánast örugglega enn rekið með allmiklum halla. Ólíklegt er að eigendur hafi mikið fé til að standa undir því áfram og því er 2010 líklega árið sem Nova þarf að fara að standa undir sér. Það þýðir væntanlega gerbreytta verðskrá og tilboð. Fyrirtækið er að auki að stórum hluta í eigu Novators, og ég get ímyndað mér að stjórnendur Nova hafi svitnað verulega í látunum vegna Verne. Það er aldrei að vita hvenær sambærileg reiði gæti bitnað á öðrum fyrirtækjum sem tengjast Novator og Nova liggur vel við höggi, þar sem fyrirtækið starfar á einstaklingsmarkaði fyrst og fremst.

    Hlutdeild Símans á farsímamarkaði fór í fyrsta sinn niður fyrir 50% á árinu, en fyrirtækið er engu að síður í afburðastöðu í fjarskiptageiranum í heild. Afkoma Símans er líklega mjög góð eins og alltaf hefur verið, en eignarhaldið gæti raskast verulega á árinu. Síminn er jú í eigu Skipta og þar liggja að mestu leyti lánin sem notuð voru til kaupanna á Símanum á sínum tíma. Skipti eru svo aftur í eigu Exista og “Exista er í eigu guðs almáttugs” eins og einn félagi minn komst að orði.

    Það er engin leið að sjá fyrir hvernig þessi markaður á eftir að stokkast upp á árinu, en það er deginum ljósara að hér verða miklar hræringar. Ólíklegt er að Síminn fái að taka of mikinn þátt í samþjöppun á þessum markaði af samkeppnisástæðum og því ætla ég að leyfa mér að spá því að eignarhald Nova, Tals og Vodafone eigi eftir að renna saman að einhverju leyti á árinu 2010.

Hvað haldið þið að muni gerast á árinu? Einhver til í að veðja á móti mér í einhverjum af þessum vangaveltum? Er ég úti á þekju í einhvejrum málum?

Gleðilegt tækniár!

Af rökræðum og skattareiknum

Ég er landleysingi í pólitík. Hef mjög mikinn áhuga á pólitískri umræðu og sterkar skoðanir á mörgum málum, en gæti aldrei fellt mig við það að elta einhverjar flokkslínur í flestum málum. Ég hallast reyndar að því að flokkshollusta sé að mörgu leyti þægindi sem fólk sækir í til að þurfa ekki að setja sig inn í málin og mynda sér sína eigin afstöðu.

Í hverju máli reyni ég einfaldlega að afla mér upplýsinga eins og kostur er. Lesa helstu röksemdafærslu beggja hliða og mynda mér smám saman skoðun útfrá því. Mér finnst það líka styrkur að geta skipt um skoðun þegar nýjar upplýsingar eða rök í málum koma upp á yfirborðið, þó að í pólitík virðist oftast litið á það sem veikleika – næstum jafn mikinn veikleika og að vera sammála “andstæðingum” sínum. Við höfum meira að segja haft forystumenn í stjórnmálum sem hreykja sér af því að hafa aldrei skipt um skoðun!

Þetta er einn af stóru drifkröftunum að baki DataMarket. Þjóðin á gríðarlega mikið af merkilegum gögnum sem liggja lítið – eða jafnvel ekkert – notuð hér og þar í samfélaginu. Með betra aðgengi að þessum gögnum og tólum sem hjálpa fólki að setja hlutina í samhengi, hef ég trú á því að við getum tekið miklu upplýstari ákvarðanir á öllum stigum þjóðlífsins: í einkalífinu, í fyrirtækjarekstri og í stjórnsýslunni.

Góð kenning sem ég hef oft stuðst við er að skoðanamyndun verði í þremur skrefum:

  1. Fyrst þurfa nauðsynlegar staðreyndir að liggja fyrir
  2. Síðan greinum við þessi gögn og staðreyndir með tiltækum tólum
  3. Loks byggir hvert okkar niðurstöðu eða dóma á undangenginni greiningu

Við þurfum ekki öll að komast að sömu niðurstöðu. Við höfum mismunandi lífsgildi, áherslur og sýn á það hvað skipti mestu máli í lífinu. Rökræða snýst í raun að miklu leyti um skref #2, þar sem fólk tekst á um greiningu staðreyndanna og reynir svo að fikra sig – og stundum andmælendur sína eða áheyrendur með sér – í átt að niðurstöðu. Í góðri rökræðu eru menn til í að sýna öðrum lífsgildum virðingu, meta forgangsröðun sína og reyna að sjá hlutina með augum annara. Ef menn leggja samt ekki út frá sömu staðreyndum – eða gögnum – verður rökræðan aldrei góð.

Sem dæmi mætti taka að tvær fylkingar eigi að mynda sér skoðun á ágæti samnings. Önnur fylkingin hefur séð samninginn og öll undirliggjandi gögn, en hin fylkingin ekki. Í þessu tilfelli er gagnslaust að reyna nokkurskonar rökræðu um ágæti samningsins. Það er ekkert til að greina – og allar tilraunir til þess verða fálmkenndar og gerðar í lausu lofti.

Þetta er ástæðan fyrir því að gagnsæi og opið gagnaaðgengi er lykilatriði í samfélaginu. Þannig munum við taka okkar bestu ákvarðanir og vera fær um að gagnrýna, mótmæla eða styðja það sem gert er með rökum – en ekki af pólitískri flokkshlýðni.

Skattareiknir

Hvatningin til að skrifa um þetta bloggfærslu núna er umræða sem skapast hefur undanfarna daga um nýlegan skattareikni Sjálfstæðisflokksins. Eins og fram hefur komið í umræðunni, á DataMarket þar hlut að máli. Við tókum að okkur að afla ýmissa gagna varðandi skattamál fyrir flokkinn. Í framhaldi af þeirri gagnaöflun settum við upp Excel-módel sem auglýsingastofan studdist við þegar reiknirinn var forritaður. Ákvörðun um endanlegar forsendur að baki þeim útreikningum og framsetningu niðurstaðnanna er tekin af flokksmönnum.

Samkvæmt okkar bestu vitund er reiknirinn villulaus eins og hann stendur nú. Fyrstu klukkutímana fór hann í loftið án þess að tekið væri tillit til nýs frítekmarks á fjármagnstekjur, en það var lagað um leið og ábending barst þar um. Eins voru mjög afmörkuð jaðarskilyrði sem leiddu til undarlegrar niðurstöðu þegar heimili með 2 fyrirvinnur var ofarlega í 2. skattþrepinu – það hefur einnig verið lagað. DataMarket ber ábyrgð á þessum villum og ónógum prófunum á líkaninu, en þeim var á engan hátt ætlað að villa um fyrir neinum, enda hefði það verið býsna óábyrg nálgun.

Enda er það líka svo að fæstir sem stungið hafa niður penna um þessa herferð Sjálfstæðisflokksins hafa haft neitt við útreikningana að athuga, heldur forsendurnar sem miðað er við. Og þá er eðlilegt að næsta spurning sé: Hvor fylkingin hefur rétt fyrir sér?

Svarið er etv. ekki hjálplegt: Báðir hafa rétt fyrir sér.

Staðreyndirnar liggja nokkuð skýrt fyrir. Þær eru í stuttu máli þessar:

  • Tekið verður upp þriggja þrepa tekjuskattskerfi þar sem skatthlutfallið verður:
    • 24,1% af fyrstu 200þús krónum tekjuskattstofns (mánaðarlaun að frádregnu iðgjaldi í lífeyrissjóð)
    • 27,0% af 200-650þús krónum
    • 33,0% af því sem fer yfir 650þús krónur
  • Persónuafsláttur hækkar um 2.000 krónur á mánuði frá því sem nú er og verður 44.205 krónur.
  • Fjármagnstekjuskattur verður 18% en þó aðeins af fjármagntekjum umfram 100þús krónur á ári.
  • Breytingar á neyslusköttum munu hafa áhrif til hækkunar verðlags, sem mun hafa áhrif á verðtryggð lán, innkaup, afborganir lána og aðra neyslu.

Sjálfstæðismenn kusu að fara þá leið að bera þessar staðreyndir saman við skattkerfið eins og það var í upphafi þessa árs og núgildandi lög. Þetta hefur eftirfarandi í för með sér:

  • Miðað er við eitt skattþrep með 24,1% tekjuskatti eins og var fyrri helming ársins.
  • Persónuafsláttur á skv. núgildandi lögum að hækka í takt við verðlag OG skv. samkomulagi aðila á launamarkaði um 2.000 krónur að auki. Þetta myndi þýða að hann yrði á næsta ári u.þ.b. 48.000 krónur á mánuði.
  • Miðað er við 10% fjármagnstekjuskatt eins og var fyrri helming ársins í ár.
  • Verðlagshækkanir vegna breytinga á skattkerfinu fyrr á þessu ári eru teknar með í reikninginn og verðlagsáhrif skattbreytinganna verða því samanlagt 1,8% í stað 0,8% – 1,0% áhrifa af breytingunum nú um áramótin.

Ríkisstjórnin vill hins vegar miða við kerfið eins og það er núna. Það þýðir að nýja kerfið er borið saman við:

  • Tvö skattþrep sem tóku gildi um mitt ár:
    • 24,1% af tekjum upp að 700þús krónum á mánuði
    • 32,1% af tekjum yfir 700þús krónum á mánuði
  • Núgildandi 15% fjármagnstekjuskatt.
  • 0,8% – 1,0% verðlagsáhrif skattbreytinga um áramótin.
  • Persónuafslátt upp á 42.205 krónur á mánuði eins og er á yfirstandandi ári.

Deilurnar snúast því ekki um það hvernig kerfið var eða verður – gögnin – heldur um túlkun þeirra eða greiningu. Enginn leggur til röng gögn, en hvor kýs að greina þau gögn með sínum hætti, væntanlega í von um að fá fólk á sína skoðun svo vitnað sé í þrjú skref rökræðunnar hér að ofan.

Menn geta svo gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn fyrir að teygja sínar forsendur inn á þetta ár og fyrir að það sé auðvelt að koma með svona gagnrýni í stjórnarandstöðu þegar menn standa ekki raunverulega frammi fyrir ákvarðanatökunni.

Að sama skapi væri hægt að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að tala um lækkun skatta með hækkun persónuafsláttar um 2.000 krónur en láta hjá líða að minnast á að að óbreyttu hefði hækkun persónuafsláttarins verið mun meiri. Eða það að kalla nýja eignaskattinn “auðlegðarskatt” og að tekjuöflun af honum “gefi um 3 ma. kr., er verði nýttir til að hækka greiðslur barnabóta og vaxtabóta”. Skattur á “auðlegð” er líklegri til vinsælda en “eigna”-skattur og þessir tilteknu 3 milljarðar fara auðvitað alveg jafnt í að greiða vaxtagjöld ríkissjóðs, reka Landspítalann, greiða listamannalaun eða hvað annað sem ríkið tekur sér fyrir hendur.

Hvert og eitt okkar verður að horfa á þetta með sínum eigin gagnrýna hætti og reyna að komast að eigin niðurstöðu um það hvað okkur þyki ásættanlegt og nauðsynlegt í ljósi stöðunnar. Það er þó allavega kostur að rökrætt skuli á grunni staðreynda, en ekki tilfinninga og upphrópana eins og allt of oft vill verða í pólitíkinni.

Nýja Kauphöll takk

kauphoell.width-900.jpgUndanfarna daga hafa verið ræddar í fjölmiðlum hugmyndir um að skrá í Kauphöllina fyrirtæki sem bankarnir hafa tekið yfir og koma þeim þannig í almenningseigu.

Í grunninn held ég að þetta sé góð hugmynd. Að mörgu leiti betri en beint söluferli í umsjón bankanna sjálfra og án alls efa betra en það handstýrða og ógagnsæja ferli sem virðist vera í gangi með önnur.

Hins vegar þarf Kauphöllin að taka verulega til í sínum ranni ef hún á að verða vettvangur þessara viðskipta. Ég er ekki einu sinni viss um að Kauphöllin í þeirri mynd sem hún hefur verið starfrækt eigi sér viðreisnar von. Ástæðan? Jú, Kauphöllin er ein þeirra stofnana sem gerbrást í aðdraganda Hrunsins og þarf að líta í eigin barm, viðurkenna mistök sína og ábyrgð og breyta starfsháttum og reglum áður en hún er tilbúin til að taka þátt í endurreisnarstarfinu.

Byrjum á smá bakgrunnsupplýsingum…

Um hlutafélög
Hlutafélög eru stórmerkilegar stofnanir. Þau gera fólki úr ólíkum áttum kleift að taka saman höndum um verkefni sem hver og einn hefði verið ófær um einn og sér. Sumir geta lagt mikið til þeirrar hugmyndar eða þess verks sem fyrir höndum er og aðrir minna, en ramminn á að tryggja að allir sitji við sama borð og njóti ávaxtanna – og taki á sig áhættuna – í hlutfalli við það sem þeir leggja til.

Að auki takmarkar hlutafélagaformið ábyrgð hluthafanna við það fé sem þeir leggja félaginu til og þannig geta menn lagt verkefni lið, án þess að eiga á hættu að tapa öðru en því sem þeir hafa eyrnamerkt verkefninu. Þetta er líka mikilvægt, því fáir myndu leggja áhættusömu verkefni lið ef það gæti sjálfkrafa stofnað öllum eigum þeirra í hættu. Þetta á líka að öllu jöfnu að þýða það að hlutafélag fái aldrei að stofna til skuldbindinga umfram það sem hlutaféð, rekstur fyrirtækisins og eignir þess geti staðið undir.

Hlutafélög verða þannig til þess að margvísleg verkefni geta orðið að veruleika, sem annars yrðu ekki og ýta þannig undir nýsköpun, skapa störf og auka – þegar vel tekst til – lífsgæði okkar og samfélag. Gunnhugmyndin á bakvið hlutafélagaformið er því besta mál.

Hlutabréfamarkaðir eru að sama skapi mikilvægir. Virk viðskipti með hlutabréf í félagi mynda verð á þeim og meta þannig í raun í sífellu stöðu og framtíðarhorfur fyrirtækisins. Þetta gerir fólki sem lagt hefur verkefni til fé kleift að losa fjármuni á sanngjörnu verði á hverjum tíma og njóta þannig ávaxtanna – eða taka á sig það tap – sem orðið hefur yfir það tímabil sem viðkomandi hlutur var í þeirra eigu. Þetta minnkar enn frekar tregðu fólks við að leggja fé í hlutafélag. Ekki þarf að bíða þar til verkefninu er lokið, eða fyrirtækið fer að borga arð til að geta losað um það fé sem lagt var inn.

Það má því segja að hlutafélög og góður hlutabréfamarkaður sé forsenda fyrir kröftugu atvinnulífi, nýsköpun og uppbyggingu.

Íslenska Kauphöllin var aftur á móti ekki góður hlutabréfamarkaður – og Kofinn sem eftir stendur verður aldrei góð Höll nema til komi grundvallarbreytingar á starfsemi hennar.

Upplýsingagjöf

Lykillinn að ofangreindum kostum hlutafélaga og hlutabréfamarkaða er öflug upplýsingagjöf. Því betri upplýsingar sem kaupendur og eigendur hluta í félaginu hafa um stöðu þess á hverjum tíma, því betri aðstöðu eru þeir í til að meta áhættu og möguleika félagsins. Það er því algert lykilatriði að allir hafi jafnan og eins mikinn aðgang að upplýsingum eins og hægt er – annars skapast ójafnvægi og óvissa um þá þætti sem þurfa að liggja til grundvallar við verðmat hlutanna.

Þetta er líka reynt að tryggja með hlutafélagalögunum og starfsreglum hlutabréfamarkaða. Þeir sem hafa meiri upplýsingar um starfsemina en aðrir, s.s. stjórnendur, stjórnarmenn og í sumum tilvikum aðrir starfsmenn fyrirtækjanna, kallast innherjar – og um viðskipti þeirra með hluti gilda aðrar reglur en um almenna fjárfesta. Öllum öðrum á að tryggja jafnan og öruggan aðgang að upplýsingum. Í tilfelli kauphalla er þetta gert með reglum um birtingu ársreikninga, ársfjórðungsuppgjöra og þess á milli sérstakra tilkynninga ef ástæða er til.

Hrunið kom upp um algera brotalöm í þessari upplýsingagjöf í íslensku Kauphöllinni. Það vantaði svo sem sjaldnast upp á það að umræddum skjölum væri skilað (þó þess séu dæmi, einkum eftir Hrun), en þau sögðu bara ekki alla söguna. Reyndar má segja að þau hafi oft sagt bara einhverja allt aðra sögu – sögu af einhverjum félögum sem aldrei voru til nema í hugum eigendanna og þeirra sem sáu um “upplýsinga”-gjöfina:

  • Flókið net krosseignatengsla kom í veg fyrir að eignarhald á félögunum væri ljóst;
  • Stórlega ýktar “óefnislegar eignir” og “viðskiptavild” (sem reyndar eru hvort tveggja hugtök sem eiga fullan rétt á sér ef rétt er með farið) komu í veg fyrir að nokkuð væri hæft í efnahagsreikningum fyrirtækjanna;
  • Sýndarviðskipti – oft með lánum frá félögunum sjálfum – héldu uppi falsaðri eftirspurn eftir bréfum og þar með verði þeirra; og
  • Tap af óvarlegum viðskiptum var falið með því að selja “eitraðar eignir” inn í nýstofnuð dótturfélög sem áttu svo jafnvel ekkert annað.
  • Endurskoðendur félaganna kvittuðu upp á allt saman með glöðu geði og léðu þessum upplýsingum þar með trúverðugleika.

Þessi listi gæti hæglega verið lengri og lengist reyndar sífellt eftir því sem fleiri kurl koma til grafar.

Allt þetta átti sér stað í Kauphöllinni – þeirri sem nú ætlar að taka þátt í endurreisninni. Þeim til varnar má reyndar segja að það sama hefur að einhverju leiti átt sér stað í kauphöllum úti um allan heim, en það þýðir ekki að við eigum bara að endurvekja sama kerfið. Það partý er búið og ef það verður aftur veisla, verður hún á allt öðrum forsendum, með öðrum boðslista og mun hófstilltari skemmtiatriðum.

Við eigum ekki að sætta okkur við óbreytt fyrirkomulag. Ef við ætlum að virkja kosti hlutafélagaformsins aftur til fulls þarf nýja hugsun og nýjar reglur.

Annan október í fyrra, þegar hamfarirnar voru varla byrjaðar, skrifaði ég þessa færslu sem stendur jafnvel enn frekar fyrir sínu nú en þá. Ég held ég noti bara eftirfarandi klausu úr henni til að lýsa því hvert ég er að fara:

Lög um upplýsingagjöf í kauphallarviðskiptum eiga sér meira en aldarlanga sögu og tilgangur þeirra er að markaðsaðilar sitji við sama borð með bestu fáanlegu upplýsingar á hverjum tíma. Á þeim tíma sem lögin eru mótuð, hefur ársfjórðungsleg birting á rekstrartölum líklega verið ansi stíf krafa – jaðrað við það að vera rauntíma upplýsingagjöf með þeirra tíma tækni. Í dag er þessu öðruvísi farið. Það er ekkert sem stoppar kauphallir í að setja kröfur um rauntímaaðgengi að hverju sem þeir kjósa. Já – jafnvel inn í bókhald fyrirtækjanna, sjóðsstreymi þeirra, útistandandi kröfur og eignastöðu.

Þannig gæti fjárfestir, hvort sem hann er að fjárfesta í hlutabréfum, skuldabréfum, eða einhverjum sjóðum, grafið sig niður í minnstu smáatriði fjárfestingar sinnar. Svolítið eins og DataMarket og fjárlögin, nema bara á miklu stærri skala og með miklu meiri nákvæmni.

Ef svona hefði verið, hefðu margir verið búnir að benda á samsetninguna í Sjóði 9 og hversu mikið hékk þar á fáum, tengdum aðilum. Það hefði líka verið búið að grafa í alla undirmálsvafningana og gagnrýna þá. Hrunið stafar af miklu leiti af því að fáir, ef nokkur, hafði tækin til að sjá í gegnum flækjuna sem búið var að spinna í allskyns fjármálagjörningum.

Ég held að þegar þessum hamförum á fjármálamörkuðum lýkur og menn fara að endurskoða leikreglurnar, sé eitthvað á þessa leið líklegt til að verða ofan á. Ekkert annað en fullkomið gegnsæi á öll tiltæk gögn getur aukið tiltrú almennings á þessum mörkuðum aftur.

Warren Buffet fjárfestir aldrei í neinu sem hann skilur ekki. Með rauntímaaðgang í undirliggjandi vef fjármála- og bókhaldskerfa myndu allir hafa tólin til að skilja það sem að baki fjárfestingum þeirra og hópnum sem heild treystandi til að veita markaðsaðilum aðhald með því að rýna í þessar tölur með og beita allskyns greiningar- og birtingartólum til að koma auga á veilurnar í kerfinu.

– – –

Aðrar færslur frá mér (og DataMarket) um tengd málefni:

Fimm staðreyndir um skattkerfið – reiknilíkan

Picture 17Við hjá DataMarket vorum að uppfæra reiknilíkan sem við gerðum í fyrra til að lýsa staðgreiðsluskattakerfinu á Íslandi. Líkanið tekur núna mið af nýjustu fáanlegu gögnum um launadreifingu landsmanna, hátekjuskattinum sem lagður var á í sumar og svo er hægt að stilla upp fleiri en einu hátekjuþrepi.

Þannig má t.d. bera saman áætlaða staðgreiðslu af núverandi kerfi og þriggja þrepa kerfinu sem sagt er að sé til umræðu í stjórnkerfinu. Út frá því má áætla að samanlögð staðgreiðsla hækki um tæpa 10 milljarða við þessa breytingu (eða rúmlega 15 ef miðað er við að enginn hátekjuskattur væri tekinn, líkt og var í upphafi þessa árs).

Módelinu er – eins og öðru sem við gerum hjá DataMarket – ætlað að lýsa staðreyndum út frá bestu fáanlegu upplýsingum og stuðla að upplýstri umræðu um flókin mál sem þó skipta okkur öll máli. Við reynum okkar besta til að það sem sett er fram í nafni fyrirtækisins sé hlutlaust og sannleikanum samkvæmt. Nóg er víst af villandi umræðu samt.

Ég hvet ykkur til að skoða módelið og sjá hvaða áhrif ólíkar leiðir hafa á ykkar kjör. Á efri tveim myndunum getið þið t.d. séð hvaða áhrif skattbreytingar hafa á ykkar eigin ráðstöfunartekjur.

– – –

Að þessu sögðu langar mig að setja fram nokkrar persónulegar skoðanir og athugasemdir með hliðsjón af reiknilíkaninu. Þær eru s.s. mínar eigin og ekki settar fram í nafni fyrirtækisins (enda hafa fyrirtæki ekki skoðanir):

  • Skatthlutfall af meðaltekjum er um 28%: Þetta er staðreynd. Meðaltals heildartekjur skv. Hagstofunni voru 454þús á mánuði 2008. Þegar tekið hefur verið tillit til persónuafsláttarins þýðir það að einstaklingur með þær tekjur borgar u.þ.b. 125þús krónur á mánuði í staðgreiðsluskatt. Það sem meira er: Sá sem hefur 200þús krónur í tekjur borgar aðeins um 16% sinna tekna í skatt og sá sem hefur 1 milljón á mánuði myndi borga 33%, jafnvel þó enginn væri hátekjuskatturinn. Milljón króna maðurinn borgaði þannig um 330þús, meðan 200þús króna maðurinn borgar 32þús krónur. Það er því mikil einföldun að segja að á Íslandi sé 37% tekjuskattur.
  • Enginn mun greiða 47% skatt: Jafnvel þótt róttækustu hugmyndir sem heyrst hafa um hátekjuskattsþrepin verði að veruleika mun enginn greiða 47% skatt af heildartekjum sínum. Í því þriggja þrepa kerfi sem nefnt hefur verið myndi einstaklingur með 1,6 milljónir króna í mánaðarlaun þó “aðeins” borga rétt rúmlega 41% tekna sinna í skatt.
  • Persónuafslátturinn er einfaldasta hátekjuskattkerfið: Eins og sjá má af ofangreindum dæmum erum við erum þegar með kerfi sem leggur mun hærri skattbyrði á þá sem hafa hæstu tekjurnar. Þetta er gert með persónuafslættinum. Hann tryggir það að þeir sem hafa lægstu tekjurnar greiði litla sem enga skatta og þeir sem hafa hæstu skattana greiði meira. Takið t.d. eftir því í fyrsta punktinum hér að ofan að einstaklingur með 5 sinnum hærri tekjur (milljón á móti 200þús á mánuði) greiðir 10 sinnum hærri skatta. Án þrepa myndast svo engir skrítnir hvatar til að umbuna starfsmönnum með frídögum eða öðrum fríðindum frekar en að hækka þá í launum, eða fara á annan hátt í kringum lögin eða anda þeirra.
  • Þrepaskatturinn skapar samfélaginu kostnað: Ef þriggja þrepa skattur verður að veruleika er framundan heilmikil vinna. Gera þarf breytingar á bókhaldskerfum allra fyrirtækja, og því miður eru þau mjög mis-sveigjanleg. Aukin vinna verður við eftirlit og utanumhald á vegum skattstjóra og innheimtuaðila, skattframtal verður flóknara, meiri hætta á mistökum o.s.frv., o.s.frv. Ég leyfi mér að fullyrða að samanlagður kostnaður samfélagsins við hugbúnaðarbreytingarnar einar vegna þessa nýja kerfis verði ekki undir einum milljarði króna. Og ef einhver vill halda því fram að það sé nú bara atvinnuskapandi, skal þeim hinum sama bent á að það er ekki atvinnuleysi í stétt hugbúnaðarfólks. Þvert á móti er vöntun á hæfu fólki.
  • Hægt er að ná sama tekjuauka OG HJÁLPA ÞEIM LAUNALÆGSTU MEIRA án þrepaskattsins: Eins og sýnt var í upphafi mun 3 þrepa kerfið færa ríkinu u.þ.b. 10 milljarða tekjuauka m.v. það tveggja þrepa kerfi sem nú er í notkun. Þeir launalægstu munu njóta lítillega góðs af lækkun á grunnþrepinu og þeir tekjuhæstu munu greiða verulega meira. En sjáið nú ÞETTA DÆMI. Þarna er aðeins eitt þrep. Persónuafslátturinn hefur verið hækkaður í 58.500 kr á mánuði og skatthlutfallið í 42,8%. Tekjuauki ríkisins er sá sami en þeir tekjulægstu koma mun betur út. Sá sem hefur 200þús á mánuði greiðir í þessu módeli rúmlega 5.000 krónum minna en í núverandi kerfi og nærri 3.000 krónum minna en í fyrirhuguðu 3 þrepa kerfi. Skatturinn á þá tekjuhæstu er hins vegar nokkuð svipaður og nú er og væri t.d. enn rétt undir 40% af tekjum í kringum 1,6 milljónir á mánuði, eða mjög svipaður og í núverandi 2 þrepa kerfi.

Ef sækja á svona miklar viðbótarskatttekjur í vasa almennings á annað borð, af hverju þá að flækja hlutina þegar þeir geta verið einfaldir?

Þangað til einhver færir góð rök fyrir öðru leyfi ég mér að fullyrða: Fjölþrepa skattkerfi er heimskulegt! Það hefur fjölmarga ókosti og enga kosti sem kerfi persónuafsláttar getur ekki leyst á betri og einfaldari hátt.

Opin gögn á Alþingi

detectiveStundum verður manni að ósk sinni hraðar en við mætti búast.

Fyrir sjö vikum síðan birti ég bloggfærslu undir titlinum “Opin gögn og gagnsæi – yfirlýsing stjórnvalda“. Þar fór ég yfir þá vitundarvakningu sem er að verða varðandi aðgengi að opinberum gögnum og gagnasöfnum, hvernig þetta spilar inn í þá gagnsæisumræðu sem nú er í gangi og gerði mér að leik að skrifa drög að stuttri yfirlýsingu sem ég lagði til að hið opinbera gerði að sinni.

Núna á föstudaginn var lögð fram þingsályktunartillaga, sem er efnislega í stórum dráttum samhljóma þessum drögum mínum.

Tillagan er lögð fram af breiðum hópi þingmanna, en það er þó að öðrum ólöstuðum varaþingmaður VG – Davíð Stefánsson – sem hefur átt frumkvæðið af því að keyra þetta áfram. Davíð hefur verið mjög áhugasamur um þessi málefni a.m.k. frá því að hann sat fyrirlestur í Hugmyndaráðuneytinu í byrjun árs þar sem ég flutti erindi um opin gögn og gagnaframsetningu. Reyndar hafa pólitíkusar úr – ég held ég megi segja – öllum flokkum sýnt málinu mikinn skilning og áhuga, enda er þetta mál sem í raun ætti ekki að höfða betur til einnar stefnu í pólitík en annarar.

Nú verður gaman að fylgjast með þessu máli í meðförum þingsins og sjá hvort þetta leiði til lagabreytinga og breytts hugsanaháttar varðandi aðgengi að opinberum gögnum.

Ég mæli með að fólk lesi tillöguna. Þetta er heilt yfir aðgengilegur, góður og umfram allt gáfulegur texti.

Opin veðurgögn – skref í rétta átt

Á þriðjudaginn var stigið lítið en mikilvægt skref í átt að opnum gögnum á Íslandi.

Þá var nefnilega opnaður aðgangur almennings að Gagnatorgi veðurupplýsinga. Á þessu gagnatorgi má með einföldum hætti nálgast allar veðurathuganir Veðurstofu Íslands sem skráðar eru í gagnagrunna hennar. Þessar athuganir taka til u.þ.b. 200 veðurstöðva víðsvegar um landið og ná í sumum tilvikum allt aftur til ársins 1931.

Mörgum þeim sem e.t.v. eru ekki heitir áhugamenn um veðurfar og veðurupplýsingar kann að finnast lítið til koma, enda er virkni lausnarinnar tiltölulega afmörkuð og augljósar viðbætur sem hægt er að gera t.d. til að bæta myndræna framsetningu þessara veðurgagna og almennt upplýsingagildi. Lausninni var þó ekki ætlað að gera annað eða meira á þessu stigi málsins en að gera gögnin auðveldlega aðgengileg skólafólki, áhugamönnum um veðurfar og öðrum sem kunna að hafa gagn af þeim.

Mig langar samt að benda á að þetta er að mörgu leiti mjög merkilegt skref, því það setur það tóninn fyrir það sem koma skal í opnu gagnaaðgengi hér á landi.

Veðurgögnin sem þarna er opnað aðgengi að eru afurð áratuga starfs óeigingjarnra athugunarmanna, veðurfræðinga, tæknimanna og annara sem komið hafa að því að byggja upp öflugt kerfi veðurathugana hér á landi. Og frá og með þriðjudeginum skila þessi gögn sér jafnóðum inn í Gagnatorg veðurupplýsinga og eru samstundis aðgengileg landsmönnum öllum.

Þetta eru þau gögn sem liggja að baki þeim veðurspám, spálíkönum og veðurrannsóknum sem stundaðar hafa verið hér á landi; ómetanlegur grunnur að þekkingu, öryggi landsmanna og nýtingu okkar á gæðum lands og sjávar.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að opið aðgengi almennings, skólafólks, fræðasamfélags og einkafyrirtækja að þessum gögnum mun leiða af sér enn meiri þekkingu, fróðleik og verðmæti. Menntaskólanemendur munu nota Gagnatorgið til heimildaöflunar, grunnskólanemendur munu þar kynnast samhengi vindstyrks og vindáttar í sinni heimabyggð og af hverju afi segir að það komi alltaf þoka þegar hann er “að austan”. Flugáhugamenn munu finna flugvöllum sínum stað og ef til vill mun einhver áhugamaður um veðurfar gera merkilega uppgötvun um veðrið á Akureyri. Hver veit?

Líklega eiga merkilegustu áhrif þess að opna aðgengi að þessum gögnum eftir að vera eitthvað sem við höfum ekki hugmyndaflug til að ímynda okkur núna.

Ég tek heilshugar undir það sem Menntamálaráðherra sagði við opnun gagnatorgsins:

Opinber gögn sem safnað hefur verið fyrir opinbert fé eru fjársjóður sem enn er að stóru leiti óuppgötvaður. Veðurgögn eru aðeins eitt af ótal dæmum.

Opið gagnaaðgengi tilheyrir alls ekki einhverri ákveðinni stefnu í pólitík – þetta er eitt af þeim málum sem allir ættu að geta verið sammála um hvort sem þeir aðhyllast svokallaða hægri- eða vinstri-stefnu í pólitík. Óheft og jafnt aðgengi að upplýsingum er t.d. grundvallaratriði í frjálsum markaðsbúskap og þó ólíkar stefnur greini á um hve mikil umsvif ríkisins eigi að vera, held ég að fólk sé almennt sammála um að okkur beri að hámarka verðmæti þess sem unnið er fyrir opinbert fé.

Í opnara aðgengi að gögnum hins opinbera bíða fjölmörg tækifæri vísindamanna, skólafólks, nýsköpunar og atvinnulífs framtíðarinnar. Opnun Gagnatorgs veðurupplýsinga er bara lítið skref á þeirri braut, en ég er viss um að við munum á næstu mánuðum og árum sjá aðgengi opnað að fjölmörgum öðrum gagnasöfnum sem munu knýja nýsköpun og þekkingu og auka aðhald almennings og fjölmiðla að starfsemi jafnt hins opinbera sem einkaaðila.

Nú er undir áhugamönnum um veður, vísindi og opið gagnaaðgengi að sýna hvað í þeim – og veðurgögnunum – býr og sanna þar með hverju opið gagnaaðgengi getur áorkað.

– – –

Það eru fyrirtækin Reiknistofa í veðurfræði og DataMarket (sem undirritaður rekur ásamt öðrum) sem standa að þróun og rekstri Gagnatorgsins.

Fimm ráð handa frumkvöðlum

Start09Aðstandendur Start09 átaksins báðu mig um að skrifa nokkra punkta um það sem ég hefði lært af því að koma á fót sprotafyrirtækjum í gegnum tíðina. Textinn hér að neðan er útkoman úr því, en þessir punktar birtust á vefnum þeirra núna á mánudaginn.

Síðan ég útskrifaðist úr menntaskóla hef ég varla gert annað en að stofna og reyna að koma á legg sprotafyrirtækjum. Fyrirtækið sem ég rek núna – DataMarket – er fjórða fyrirtækið sem ég stofna í félagi við aðra undanfarin 12 ár. Sumt hefur gengið upp, annað ekki – eins og gengur. Í öllum tilfellum hafa verið bæði stórir sigrar og stór vonbrigði. Að starta sprotafyrirtæki er rússíbanareið: skemmtilegt, skelfilegt og alls ekki fyrir alla.

Hér eru fimm heilræði um sprotastarf sem ég þykist hafa lært sjálfur eða af öðrum í mínum rússíbanaferðum.

1. Haldið væntingunum í skefjum
Það er alveg saman hvað þið eruð klár, eruð með góða hugmynd, gott fólk, snjalla markaðssetningu, ómissandi vöru eða skothelt einkaleyfi – langlíklegasta niðurstaðan úr þessu sprikli er að fyrirtækið gangi ekki upp. Að það hætti rekstri eða renni út í sandinn þegar plönin ganga ekki eftir. Þetta er staðreynd. Tölfræðin einfaldlega segir það.

Langflest sprotafyrirtæki eru hætt starfsemi 3-4 árum eftir stofnun. Önnur malla áfram, etv. í ágætum rekstri en án þess að virkilega “meika það”. Mjög fá slá í gegn og í flestum tilfellum tekur það þá næstum áratug af harki. Frægð, frami og ríkidæmi er fágæt undantekning, ekki reglan. Og munið að hlutafé er einskis virði fyrr en einhver hefur keypt það af ykkur!

Þetta þýðir ekki að þið eigið ekki að hafa trú á því sem þið eruð að gera. Þið verðið að hafa það, annars eru örlögin ráðin strax. En væntingastjórnunin er mikilvæg, ekki bara fyrir þig, heldur líka fyrir fólkið í kringum ykkur: starfsfólkið, ættingja, vini og samstarfsaðila.

Hafiði fæturna á jörðinni, þó hausinn sé í skýjunum.

Það sem á að drífa ykkur áfram er möguleikinn á að dæmið gangi upp, ekki fullvissan um það… og svo auðvitað hvað þetta er fáránlega gaman!

2. Það sem þið eruð að gera er EKKI leyndarmál
Ekki hika við að segja öllum sem heyra vilja hvað þið eruð að fást við. Ekki halda að allir muni stela hugmyndinni ykkar. Þið eruð heppinn að fólk vill hlusta. Staðreyndin er sú að flestir eiga eftir að reynast hjálplegir: koma með góðar athugasemdir, tengja ykkur við verðmæta samstarfsaðila eða viðskiptavini, bera út fagnaðarerindið fyrir ykkur eða jafnvel vilja vinna með ykkur eða fjárfesta í hugmyndinni.

Veltið því fyrir ykkur eitt augnablik: Hversu margir eru í þeirri aðstöðu, skilja hugmyndina ykkar svo vel, geta komið saman þeim hóp og fjármagni sem til þarf og eru til í að leggja allt undir og um leið nógu bíræfinn til að taka YKKAR hugmynd og gera hana að veruleika fyrir framan nefið á ykkur? Enginn. Og þið mynduð hvort sem er mala þá, því það eruð þið sem eruð búin að velta fyrir ykkur öllum hliðum málsins í marga mánuði, búin að setja saman hóp, setja saman plan, átta ykkur á samkeppninni, skoða markhópinn, finna hentugustu leiðirnar til að dreifa vörunni og svo framvegis. Þið eruð fólkið til að gera þessa hugmynd að veruleika, aðrir sem hafa frumkvöðlaeðlið í sér eru hvort eð er með sínar eigin hugmyndir.

Þegar öllu er á botninn hvorlft er hugmyndin líka minnsti hlutinn af árangrinum. 99% árangursins næst með blóði svita og tárum, eða eins og Edison sagði: “It’s 1% inspiration and 99% perspiration”. Hann vissi líklega sitthvað um nýsköpun og sprotastarfsemi.

3. Leyfið ykkur að skipta um skoðun
Þegar þið eruð lögð af stað með nýsköpunarhugmynd er alveg gefið að tilviljanir munu leika stærsta hlutverkið í því hvernig til tekst. Þið leggið líklega af stað með nokkuð skýra hugmynd, en eftir því sem þið veltið henni betur fyrir ykkur, þeim mun fleiru komist þið að sem hefur áhrif á þá sýn. Hún kann jafnvel að virðast fjarlægari þegar þið áttið ykkur á því hvað það tekur langan tíma að þróa hana, hvað samkeppnin á viðkomandi markaði er í raun mikil og hversu erfitt er að ná til væntanlegra notenda hennar.

Þá er gott að muna að það er styrkleikamerki að skipta um skoðun. Ekki endilega að taka vinkilbeygju og fara að gera eitthvað allt annað, en að breyta stefnunni, forma hugmyndirnar og styrkja viðskiptaáætlunina með tilliti til nýrra upplýsinga. Ekki halda að fjárfestar eða samstarfsaðilar muni missa trúna á ykkur. Sé þetta gert með góðum rökum munu þeir þvert á móti öðlast aukna trú og nýjir aðilar fá hana.

Algengustu breytingar af þessu tagi er að finna sér smærri hillu eða áfanga á leiðinni að stóra markmiðinu. Líklega kemur í ljós að upphaflega hugmyndin var of stór í sniðum. Það reynist ekki raunhæft að sigra heiminn í einu skrefi, en það eru mögulega smærri sigrar á leiðinni þangað. Hugsanlega hefur lokatakmarkið alls ekki breyst, en þið hafið fundið ýmis smærri tækifæri á leiðinni þangað.

Ef þið hafið dottið niður á spennandi svið er eins víst að upphaflega lokatakmarkið náist aldrei, en að það séu áhugaverðar beygjur á leiðinni þangað sem etv. reynast mikið merkilegari en upphaflega takmarkið þegar allt kemur til alls.

4. Hafið góða sögu að segja
Þið þurfið að vera góðir sögumenn. Hvert er vandamálið sem er verið að leysa? Af hverju eruð þið fólkið til að gera það? Hvernig kviknaði hugmyndin? Svörin við þessum spurningum þurfa að vera spennandi sögur með upphaf, ris og endi. Helst spennu, drama, blóð og eltingaleiki líka ef vel á að vera.

Hvers vegna? Vegna þess að fólk elskar sögur. Þetta á eftir að hjálpa ykkur að komast að í fjölmiðlum, hjálpa ykkur að útskýra það sem þið eruð að fást við fyrir fjárfestum og samstarfsaðilum. Gera viðskiptavini áhugasama um að versla við ykkur. Allt er auðveldara ef þið getið sagt áhugaverðar sögur.

Hollensk verktakafyrirtæki eru það fyrsta sem fólki dettur í hug þegar á að reisa flóðvarnargarð einhversstaðar í heiminum, enda þekkja allir Holland sem landið undir sjávarmáli og hafa heyrt söguna um strákinn sem stakk puttanum í gatið. Þetta er frábær saga, en Hollensk fyrirtæki eru ekkert sérstaklega fær í að byggja flóðvarnargarða – þau sem það gera eru flest frá Belgíu!

Decode segir frábæra sögu um uppruna Íslendinga, Össur segir frábærar sögur um spretthlauparann Oscar Pistorius, Apple segir söguna af því hvernig tveir vinir smíðuðu fyrstu tölvurnar í bílskúrnum hjá foreldrum sínum, Coke segir söguna af leynilegu uppskriftinni og Richard Branson gerir í því að eltast við ævintýri til að geta vakið athygli á því sem Virgin er að fást við þá stundina. Þetta eru engar tilviljanir – fyrirtækin hafa komist áfram á þessum sögum, etv. mis-meðvituð um það hvað þau voru að gera.

5. Ógeðslega erfitt og skelfilega gaman
Það er ekkert 9-5 djobb að koma af stað nýju fyrirtæki. Þetta eru langir vinnudagar og þar fyrir utan verðiði vakin og sofin í að velta fyrir ykkur ýmsu sem við kemur fyrirtækinu. Kannski með áhyggjur af fjármálunum, kannski með frábæra nýja hugmynd sem getur betrumbætt vöruna, kannski bara lausn á vandamálinu sem þið voruð akkúrat að glíma við í dag.

Þar að auki eruð þið málsvarar fyrirtækisins hvar sem þið komið, hvort sem ykkur líkar betur eða verr. Gamlar frænkur eiga eftir að þurfa útskýringar í fermingarveislum á því “hvað það er nú eiginlega sem þú gerir?” og “hvernig færðu pening fyrir það?”, það verða líka tilviljanakennd tækifæri – þið lendið óvænt í matarboði með mikilvægum fjárfesti eða draumaviðskiptavininum og þá er betra að vera með allt á tæru.

Það verða vinnutarnir þar sem ljúka þarf hlutum fyrir mikilvægan fund, sýningu eða útgáfudagsetningu. 20 tíma vinnudagar, 3 í röð, pizzur og svefngalsi, stress, læti og jafnvel rifrildi.

Einmitt þess vegna er nauðsynlegt að þetta sé gaman. Ekki bara ánægjulegt, heldur ógeðslega gaman – það skemmtilegasta sem þið getið hugsað ykkur. Og það er akkúrat það sem á eftir að ráða mestu um það hvort vel tekst til. Ef vinnan er skemmtileg kemur allt hitt meira og minna af sjálfu sér, og jafnvel þó hlutirnir gangi ekki upp var það samt skemmtilegt. Hver getur sagt nei við því 🙂

Opin gögn og gagnsæi – yfirlýsing stjórnvalda

transparencyFyrir nokkrum vikum skrifaði ég færslu á bloggsíðu DataMarket um það sem kalla mætti “vægðarlaust gagnsæi“. Færslan gengur í stuttu máli út á það að leiðin til að endurreisa traust á Íslandi – jafnt inn á við sem út á við – felist í gagnsæi og heiðarleika á áður óþekktu stigi – að sýna svo ekki verður um villst að það sé ekkert að fela.

Færslan er skrifuð á ensku og hefur vakið dálitla athygli. Hún leiddi m.a. af sér viðtal í veftímaritinu Frontier Economy þar sem farið er dýpra í saumana á sumum þeim hugmyndum sem þar voru settar fram.

Ég hef líka skrifað og beitt mér fyrir opnum gögnum í töluverðan tíma. Opin gögn snúast í stuttu máli um það að öll gögn sem safnað er eða útbúin hjá opinberum aðilum eigi að vera opin og aðgengileg öllum, án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars, t.d. af persónuverndar- eða öryggissjónarmiðum. Á vefnum opingogn.net má nálgast drög að íslenskri þýðingu skilgreiningar á opnum gögnum.

Í raun má segja að opin gögn og vægðarlaust gagnsæi séu tvær hliðar á sama málinu:

  • Opin gögn snúast um meðferð gagna í umsjá hins opinbera.
  • Vægðarlaust gagnsæi snýst hins um það hvort e.t.v. sé ástæða til að safna eða framreiða einhver gögn til viðbótar við það sem þegar er í þeim tilgangi sérstaklega að upplýsa um framvindu eða stöðu mála.

obama-kundraUm þessar mundir gengur yfir heiminn vitundarvakning varðandi mikilvægi opinna gagna og þá sérstaklega “formfastra gagna” (e. structured data). Mest áberandi er þessi vakning í Bandaríkjunum, en þegar á fyrstu dögum í embætti gaf Obama út skýr fyrirmæli um það að opinberar stofnanir skyldu sem allra fyrst gera gagnasöfn sín aðgengileg almenningi á vefnum, án hindrana. Hann réð jafnframt í fyrsta skipti til starfa upplýsingatæknistjóra (CIO) við stjórnina – sá heitir Vivek Kundra og hefur lyft grettistaki á stuttum tíma. Helsta birtingarmynd þess er vefsvæðið Data.gov, þar sem nú má nálgast yfir 100 þúsund gagnasöfn frá hundruðum opinberra stofnanna. Þessi gögn hafa svo bæði fjölmiðlar, fyrirtæki og áhugasamir einstaklingar notað við afar áhugaverð verkefni sem opna ný tækifæri, auka skilning á flóknum þáttum samfélagsins og veita hinu opinbera aðhald.

berners-leeÍ Bretlandi hafa báðir stóru flokkarnir markað skýra stefnu í þessa veru. Stjórnin hefur þar að auki fengið til liðs við sig engan annan en Tim Berners-Lee. Berners-Lee hefur verið kallaður “faðir vefsins” og er vel að þeim titli kominn enda bjó hann til HTML staðalinn sem allar vefsíður og þar með vefurinn allur byggir á. Berners-Lee hefur í seinni tíð verið ötull talsmaður opinna gagna og hefur sennilega betri skilning á því en flestir hversu verðmætt opið aðgengi og samtengingar gagna úr ólíkum áttum getur verið.

roslingAð lokum má nefna sænska prófessorinn Hans Rosling, sem hefur með líflegri framsetningu gagna vakið marga – ekki síst alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu Þjóðirnar, OECD og jafnvel Evrópusambandið – til umhugsunar og góðra verka í því að gera sín gögn aðgengilegari en verið hefur.

Fáir hafa þó meiri þörf fyrir að meðtaka þessa hugmyndafræði en einmitt trausti rúnir Íslendingar. Ég veit fyrir víst að víða er vilji og sums staðar skilningur fyrir þessum málum, en mörg nýleg dæmi sýna mikilvægi þess að ná almennum vilja, skilningi og aðgerðum á þessu máli til þess að við getum byggt hér upp heiðarlegt samfélag trausts og samstöðu.

Í ríkjandi kerfi er litið svo á að öll gögn séu trúnaðarmál nema sérstök ástæða sé til að opna þau. Þessum hugsanahætti þarf að snúa við. Gögn opinberra aðila eiga hér eftir að vera opin nema sérstök ástæða sé til að vefja þau trúnaði.

Ég gerði mér því að leik að skrifa drög að örstuttri yfirlýsingu sem ég legg hér með til að ríkisstjórnin (og reyndar aðrir opinberir aðilar, s.s. sveitarfélög) geri að sinni og fylgi svo eftir með aðgerðum:

Öll gögn í umsjón opinberra aðila skulu hér eftir vera opin og aðgengileg almenningi án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars. Skilgreindar verða skýrar viðmiðunarreglur um hvað teljast ástæður til hindrana með tilliti til persónuverndar, öryggissjónarmiða og annara ríkari hagsmuna. Undantekningar skulu vera vel rökstuddar og skal ekki hindra aðgang meira en til að mæta þeim rökum.

Allar stofnanir hins opinbera skulu þegar í stað birta skrá yfir þau gögn og gagnasöfn sem þær ráða yfir og gera gögn þeirra aðgengileg á því formi sem þau eru nú á. Jafnframt skal skrá gagnasöfn sem ekki er opnaður aðgangur að, tilgreina efnistök þeirra, ástæður fyrir hindrunum á aðgengi og hvenær þeim hindrunum verði aflétt. Til lengri tíma skal leitast við að gera gögnin aðgengileg á stöðluðu, tölvutæku formi sem tekur tillit til allra þátta sem kveðið er á um í skilgreiningu opinna gagna.

Stofnanir skulu einnig gera úttekt á því hvort starfsemi þeirra gefi ástæðu til að safna sérstaklega gögnum umfram það sem þegar er gert í þeim tilgangi að auka gagnsæi á starfsemi sína eða á samfélagið almennt.

Það er ekki flókið að gefa þessa yfirlýsingu, ekki dýrt að fylgja henni eftir og reyndar að miklu leiti þegar kveðið á um þessa hluti í upplýsingalögum og annari stefnumörkun sem þegar hefur átt sér stað. Núna er bara ríkari ástæða en nokkru sinni til að láta verkin tala og endurbyggja þannig traustið sem tapaðist.

Nýting íslenskra auðlinda – ólík nálgun

sustainabilityTöluvert hefur verið rætt um náttúruauðlindir okkar Íslendinga, nýtingu þeirra og umgjörð síðustu mánuði.

Í stuttu máli er um að ræða tvær meginauðlindir sem nýttar eru og fluttar út í dag svo nokkru nemi: endurnýjanleg orka og sjávarfang. Í framtíðinni verða þær etv. fleiri og mætti nefna neysluvatn og jarðefnaeldsneyti í því samhengi.

Þó þessar tvær meginauðlindir okkar séu í eðli sínu býsna ólíkar, gilda mörg sömu lögmálin um þær. Hvort tveggja eru þetta auðlindir sem endurnýja sig og unnt er að nýta umtalsvert án þess að á þær gangi frá ári til árs. Bæði virkjanakostir og fiskimið liggja að mestu utan hefðbundins eignalands og má því með góðum rökum segja að þær séu í grunninn sameign þjóðarinnar. Af þessu mætti ráða að umgjörð þessarra tveggja mikilvægu atvinnuvega ætti að mestu að lúta sömu lögmálum. Ef við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæm hljótum við að byggja nýtingu þessara auðlinda á sömu grundvallarreglum – og ef ekki, þá hljóta að minnsta kosti að liggja góð rök að baki því.

Kerfin eru hins vegar gerólík.

  • Orkuvinnsla hefur frá upphafi verið nær alfarið á vegum hins opinbera. Landsvirkjun, Orkuveitan og önnur orkufyrirtæki hafa verið í eigu hins opinbera og skilað sínum arði þangað þegar hann hefur verið til staðar. Ríkið hefur sömuleiðis gert, ábyrgst og liðkað fyrir mörgum stærstu fjárfestingum sem gerðar hafa verið í orkugeiranum. Þrátt fyrir að margar þessara framkvæmda hafi verið umdeildar hefur verið nokkuð almenn sátt um þetta fyrirkomulag eignarhalds, hvort sem stjórnvöld á hverjum tíma hafa kennt sig við hægri eða vinstri.
  • Um fiskveiðarnar gegnir hins vegar allt öðru máli. Úthlutun veiðiheimilda er jú á höndum hins opinbera, en í seinni tíð held ég að segja megi að öll vinnsla, fjárfesting og nýting þessarar auðlindar hafi verið á höndum einkaaðila. Litið hefur verið svo á að umsvif þessara fyrirtækja, skattgreiðslur þeirra og nú síðast mjög hóflegt auðlindagjald sé endurgjald þessara aðila fyrir nýtingu auðlindarinnar. Þrátt fyrir að fiskveiðistjórnunarkerfið sé mjög umdeilt virðist sömuleiðis gilda almenn sátt um það að nýting þessarar auðlindar sé á höndum einkaaðila, hvort sem menn kenna sig við hægri eða vinstri. Satt að segja man ég ekki eftir einum einasta manni sem hefur lagt til breytingar á þann veg að útgerð yrði almennt í höndum opinberra aðila – deilurnar hafa frekar snúist um endurgjald þeirra fyrir þá nýtingu.

Hvernig stendur á þessum mikla mun á því hvernig við meðhöndlum þessar náttúruauðlindir? Erum við ekki í hrópandi mótsögn við sjálf okkur með því að nálgast þær með svona ólíkum hætti? Þurfum við ekki að setja niður fyrir okkur einhver grundvallarviðmið í því hvernig við viljum að allar auðlindir séu nýttar þannig að þær nýtist landsmönnum sem best og hefja svo umbætur á þessum kerfum með hliðsjón af því? Þá munum við líka eiga auðveldara með að ákveða hvernig nýta eigi aðrar auðlindir, þegar og ef vinnsla þeirra hefst í stórum stíl.

Ég held að það væri okkur hollt að skoða þessi kerfi vandlega, reyna að átta okkur á því hvort það er einhver eðlismunur á auðlindunum sem réttlætir mismunandi nálgun í nýtingu þeirra og reyna að setja niður þær grundvallarreglur sem við viljum að gildi um þær. Mér vitanlega hefur þetta aldrei verið gert.

Tugmilljarða misræmi í Icesave skjölum

Ég bið ykkur um að lesa eftirfarandi færslu mjög vandlega og með gagnrýnum huga áður en þið dragið nokkrar ályktanir, eða hefjið upphrópanir út frá því sem hér kemur fram. Þetta er afar viðkvæmt efni, óvíst að ég hafi rétt fyrir mér og góðar líkur á að það sem hér kemur fram eigi sér eðlilegar skýringar sem hafi engin áhrif þegar allt kemur til alls. Sem sagt: Anda rólega

Uppfært 20. ágúst, 2009 kl. 18:20: Skýring hefur fengist á fyrra atriðinu sem nefnt er í færslunni. Sjá athugasemd #7 í athugasemdakerfinu.

Uppfært 21. ágúst 2009 kl 18:30: Skýring hefur nú einnig fengist á síðara atriðinu. Sjá athugasemd #8 í athugasemdakerfinu.

Ég er kreppuklámhundur. Að hluta til hef ég afsökun. Það að liggja yfir gögnum er vinnan mín – meira að segja það að liggja yfir Icesave-gögnum.

Ég er þess vegna búinn að skoða fleiri tölur og velta mér meira uppúr því hvernig þessir hlutir hanga saman en mér er hollt. Við það hafa vaknað nokkrar spurningar, sem ég hef – þrátt fyrir margvíslegar tilraunir – ekki getað fengið viðhlýtandi skýringu á. Hér að neðan má sjá tvö þessara atriða. Bæði þessi atriði eru í besta falli einfaldur misskilningur minn eða saklaus mistök þeirra sem í hlut eiga, en í versta falli tugmilljarða yfirsjónir við meðferð málsins. Ég ætla að gera ráð fyrir því fyrrnefnda þar til annað kemur í ljós.

1. 150 milljón evra misræmi í Icesave skjölum

Í lánasamningnum við Hollendinga er eftirfarandi klausa (í íslenskri þýðingu af Ísland.is):

2.1.2 Fjárhæð endurgreiðslunnar nemur 1.329.242.850 evrum (einum milljarði þrjú hundruð tuttugu og níu milljónum tvö hundruð fjörtíu og tvö þúsund átta hundruð og fimmtíu evrum).

Í skjali sem hefur gengið manna á milli um dreifingu innistæðufjárhæða á Icesave reikningunum er hins vegar þetta yfirlit:

icesave-distribution

Ég sé þetta skjal ekki í þeim gögnum sem lögð hafa verið fram á vef Alþingis með málinu, en það á uppruna sinn í Landsbankanum, virðist tekið saman í lok mars á þessu ári og á að sýna stöðuna þann 8. október 2008, daginn eftir að Landsbankinn var tekinn yfir.

Talan sem ég hef dregið rauðan kassa utan um eru heildarinnistæður á Icesave í Hollandi undir 20.887 evra markinu. Hún ætti sem sagt að samsvara lánsfjárhæðinni, en eins og sjá má er hún þarna 1.180.611.896 eða u.þ.b. 150 milljónum evra lægri en lánsfjárhæðin. Allar tölur aðrar, s.s. heildarinnistæður og fjöldi innlánseigenda stemma við önnur gögn sem fram hafa komið. Í samningnum við Hollendinga er enginn fyrirvari er gerður við þessa upphæð og því um endanlega fjárhæð að ræða.

Ég hef enga ástæðu til að efast um uppruna skjalsins sem um ræðir. Það er auðvitað hugsanlegt að seinna hafi komið í ljós einhver skekkja og nýtt skjal verið útbúið, en það er allavegana þess virði að fá skýringar á þessum mun. 150 milljón evrur eru jú u.þ.b. 27,5 milljarðar króna á gengi dagsins og það 27,5 milljarðar sem við þurfum að borga til baka og borga vexti af næstu árin.

Í tilfelli bresku reikningana eru samsvarandi fjárhæðir 2.350.000.000 og 2.239.478.713 pund. Þar munar sem sagt ca. 110 milljón pundum. Samningurinn við Breta er hins vegar að þessu leyti aðeins annars eðlis. Þar kemur fram að um lánalínu sé að ræða, upphæðin sé hámark og að endanleg upphæð verði að líkindum lægri og ráðist af útgreiðslum breska ríkisins og breska innlánstryggingasjóðsins. Að auki er í Excel-skjalinu reiknað með að 20.887 evra lágmarkstryggingin samsvari 16.500 pundum, en í samningnum er miðað við annað gengi og þar samsvarar hún 16.873 pundum sem skýrir hluta þessa mismunar. Ég hef því ekki áhyggjur af breska samningnum að þessu leyti.

2. Misræmi í endurheimtuferlum á eignum Landsbanka
Einu gögnin sem hafa – mér vitanlega – verið gerð opinber um áætlaðan endurheimtuferil á eignum LÍ, eru í fylgiskjali 2 með skriflegri umsögn SÍ um Icesave (bls. 18). Þar er þessi tafla:

icesave-si-fylgiskjal2

Þarna eru höfuðstóll og greiðslur gefnar upp í GBP, EUR og svo (væntanlega) reiknað samanlagt yfir í ISK. Gengisforsendurnar fyrir hvorn gjaldmiðil eru svo gefnar í öftustu 2 dálkunum.

Aftur hef ég samt dregið rauðan kassa utan um nokkrar tölur. Ég fór nefnilega að vinna með þessar talnaraðir og þá kom í ljós að fyrstu 7 árin kemur formúlan ((Greiðslur í GBP * Gengi GBP) + (Greiðslur í EUR * Gengi EUR)) ekki heim og saman við Greiðslur í ISK.

Tökum 2009 sem dæmi. Þar er sagt að greiðslur í krónum séu 66.112 milljónir (rúmir 66 milljarðar). Greiðslur í pundum eru hins vegar 220 milljónir og í evrum 125 milljónir. Miðað við gengisforsendurnar í öftustu tveim dálkunum lítur formúlan þá svona út ((220 * 177,46) + (125 * 158,18)) = 58.814 milljónir (tæpir 59 milljarðar). Þarna munar s.s. einum 7 milljörðum. Þessi skekkja er gegnum gangandi í þessum dálki allt til ársins 2015 að því ári meðtöldu, þ.e. á þeim tíma sem eignir Landsbankans eiga að vera að koma til lækkunar á höfuðstólnum.

Samtals munar á þessum 7 árum rétt rúmum 79 milljörðum á reiknaðri fjárhæð og þeirri sem fram kemur í töflunni, þannig að spurningin er: Hvor talan er rétt?

Ég vona að minnsta kosti að enginn sé að taka stórar ákvarðanir útfrá þessum tölum nema viðkomandi viti hverju má treysta í þessu og hvort möguleiki sé á að rangar eða misvísandi tölur liggi nokkur staðar sem forsendur útreikninga t.d. á greiðslubyrði vegna samningsins.

– – –

Eins og ég sagði í upphafi færslunnar: Vonandi á þetta sér hvort tveggja góðar og gildar skýringar og ég vil ekki valda stormi í vatnsglasi með þessum vangaveltum. Mér líður bara ekki vel með skekkjur upp á meira en 100 milljarða í gögnum sem liggja til grundvallar einu af stærstu málum í sögu þjóðarinnar.

Með öðrum orðum: Ekki rjúka upp til handa og fóta og halda að ég hafi rétt fyrir mér með þetta og að afleiðingarnar séu með einhverjum hætti tjón eða hugsanlegt tjón af þeim stærðargráðum sem hér um ræðir. Fyrst skulum við sjá hvort það er ekki einhver þarna úti sem getur bent mér á mistúlkun í ofangreindum atriðum, eða komið með ný gögn eða haldbærar skýringar á þessum skekkjum.