Fljótlega eftir bankahrunið í byrjun október skrifaði ég bloggfærsluna Peningar vs. raunveruleg verðmæti.
Eins og margir aðrir verð ég líklega að viðurkenna að ég skildi ekki til fulls það sem var að gerast á þessum tíma, hvorki hvað viðkom Íslandi eða heiminum í heild. Ég hef í gegnum tíðina skapað mér ákveðið óþol fyrir því að skilja ekki eitthvað, sérstaklega þegar það hefur áhrif á mig eða mína nánustu og þess vegna fékk ég skyndilega mjög aukinn áhuga á hagfræði. Ég er síðan þá búinn að plægja mig í gegnum alls kyns fróðleik á vefnum og víðar og öðlast – að ég held – a.m.k. þokkalegan skilning á því hvernig hagkerfi heimsins er hugsað.
Niðurstaðan er í stuttu máli sú að ég held að ég hafi slegið naglann beinna á höfuðið þann 12. október síðastliðinn en mig óraði fyrir: Peningar og raunveruleg verðmæti hafa undanfarna áratugi átt ótrúlega lítið skylt við hvort annað. Þetta hefur verið hálfgerður “misskilningur”. Núna er sá misskilningur smám saman að komast upp, en það er löng leið ófarin þar til undið hefur verið ofan af honum að fullu.
Þetta er ef til vill ekki upplífgandi hugmynd, en ég skal rekja það sem leiðir mig að þessari niðurstöðu.
Hvert er hlutverk peninga?
Peningar hafa tvenns konar meginhlutverk:
- Að liðka fyrir skiptum á vörum og þjónustu: Þessu er nokkuð vel lýst í þessari sögu af Róbinson Krúsó og Frjádegi. Frjádagur var góður að týna kókoshnetur og gat týnt 8 slíkar á dag. Krúsó gat bara týnt 2 kókoshnetur á dag, en hann gat veitt 8 fiska. Frjádagur var hins vegar ömurlegur veiðimaður og náði í besta falli 2 fiskum á dag. Hvorugur vildi einhæft mataræði, svo að í stað þess að þeir eyddu báðir hálfum deginum við hvora iðju fyrir sig og uppskæru samanlagt 5 kókoshnetur og 5 fiska sömdu þeir um að hvor gerði það sem honum fórst betur úr hendi allan daginn og þeir hefðu með sér vöruskipti. Þannig varð samanlagður afrakstur dagsins 8 fiskar og 8 kókoshnetur og ágóðinn er augljós. Annað af meginhlutverkum peninga er s.s. að auðvelda okkur að skiptast á fiskum og kókoshnetum, tölvuviðgerðum og tannlækningum í flóknu og víðfeðmu neti hæfileika og auðlinda.
- Að varðveita verðmæti (e. store of value): Oft er það þannig að þegar ég get selt eitthvað, þá vantar mig kannski ekki neitt akkúrat þá stundina. Ég gæti t.d. selt fisk í dag, en viljað borga fyrir kokteila og gistingu á Spáni í sumar, eða jafnvel góða umönnun í ellinni (lífeyrir). Peningar liðka því ekki eingöngu fyrir vöruskiptum, heldur gera okkur kleift að geyma virði þeirrar vinnu eða auðlinda sem við seldum og flytja það til í rúmi (til Spánar) og tíma (til ellinnar).
Sú staðreynd að peningar hafa sinnt þessum tveim hlutverkum ágætlega á líklega mjög ríkan þátt í aukinni velmegun undangenginna 2 alda eða svo.
Í byrjun varð að tryggja það að fólk treysti peningum með því að byggja þá á einhverju sem fólk taldi “raunveruleg verðmæti”. Fyrst voru peningarnir sjálfir úr góðmálmum eins og silfri og gulli og þegar pappírspeningar komu til sögunnar voru þeir byggðir á einhverskonar fæti, t.d. gullfæti. Sem þýðir í stuttu máli að eignarhaldi á seðli fylgir loforð um það að seðlinum sé hægt að skipta fyrir ákveðið magn af gulli í tilteknum banka.
Þetta hefur ákveðið óhagræði í för með sér, því að á móti öllum þeim vöru- og þjónustuskiptum sem við viljum eiga í þarf að geyma gull í bankahólfi einhversstaðar. Gull sem svo er aldrei sótt eða hreyft, því allir treysta peningunum. Þetta fyrirkomulag hefur komist á nokkrum sinnum í mannkynssögunni og alltaf hefur sama hugmyndin skotið upp kollinum: Meðan allir treysta peningunum, þá þurfum við í raun ekki gullið. Eða a.m.k. ekki nema bara nóg fyrir þá örfáu sérvitringa sem láta á það reyna hvort það sé hægt að fá það afhent. Fóturinn er m.ö.o. afnuminn.
Þetta gerðist að fullu í okkar vestræna hagkerfi árið 1971 þegar Nixon þurfti dollara til að borga fyrir Víetnamstríðið. Hann setti prentvélarnar á fullt og bjó til dollara í stórum stíl til að borga skuldirnar. Með því braut hann ákvæði svokallaðs Bretton Woods samkomulags sem þjóðir heims höfðu gert með sér undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Samkomulagið fól í sér að Bandaríkin sæju um varðveislu gullfótar gjaldmiðla aðildarþjóðanna og að gengi þessara gjaldmiðla yrði hengt saman og þannig tengt þessum fæti. Bretton Woods markar reyndar líka upphaf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans.
Í sjálfu sér má segja að þetta sé allt í lagi. Þ.e.a.s. þetta er í lagi meðan allir treysta kerfinu. Við ætluðum hvort eð er aldrei að kaupa gull fyrir fiskinn sem við seldum. Meðan einhver er til í að afhenda mér kókoshnetur fyrir hann er ég sáttur og gullið skiptir ekki máli. Meðan peningarnir eru ávísun á vinnu eða verðmæti í framtíðinni eru allir sáttir, enda komu þeir sem greiðsla fyrir vinnu eða verðmæti í fortíðinni. Eða hvað?
Nú kemur held líklega stærsta lexían í þessum pistli. Ef þið hafið ekki meðtekið þennan sannleik áður þá er þetta mjög erfitt skref. Það tók mig nokkrar vikur að meðtaka þetta og afskrifa það að þetta væri ekki bara samsæriskenning einhverra vitleysinga: Peningar eru skuld. Stærsti hluti þeirra peninga sem eru til er ekki vísun í vinnu eða verðmæti sem afhent voru í fortíðinni, heldur á vinnu eða verðmæti sem á eftir að afhenda í framtíðinni.
Ekki nóg með þetta sé erfitt að meðtaka, heldur er annar erfiður sannleikur í þessu: Bankar framleiða peninga. Ekki bara Seðlabankar sem prenta peninga eins og við vitum, heldur bara venjulegir bankar eins og Kaupþing, Sparisjóður Svarfdæla og HSBC.
Það er til mjög góð teiknimynd sem útskýrir þetta mál ágætlega. Hún heitir Money as Debt. (Breytt 8. feb 2009, kl 22:30 – sjá athugasemdir)
Þetta er inntakið í teiknimyndinni Money as Debt, þó hún nái reyndar ekki öllum atriðum málsins alveg rétt.
Við skulum aftur á móti láta eftirfarandi dæmi nægja til að byrja að koma hausnum utan um málið: Þú ætlar að kaupa þér íbúð og ferð í banka til að sækja um lán. Bankinn tekur vel í það og lánar þér 20 milljónir. En hvaðan koma þessar 20 milljónir? Haltu þér fast. Bankinn býr til stærstan hluta þessara peninga úr loftinu einu saman! Hvernig getur hann það? Jú, með því að skrifa upp á lánið ert þú búinn lofa bankanum að vinna fyrir hann í framtíðinni. Þessa vinnu þína getur bankinn fært til bókar hjá sér sem eign á móti peningunum sem þeir lána þér. Bankakerfið allt tekur þessa eign góða og gilda og því eru orðnir til nýjir peningar sem sá sem seldi íbúðina getur núna notað til að kaupa sér fisk, kókoshnetur og utanlandsferðir.
Svokölluð bindiskylda segir til um hversu stóran hluta þessarrar upphæðar bankinn má búa til úr lausu lofti. 10% bindiskylda þýðir að bankinn þarf að hafa undir höndum 2 milljónir í beinhörðum peningum til að mega búa til hinar 18 milljónirnar. Þessar 2 milljónir geta t.d. verið innistæða foreldra þinna á bankabók.
Við getum sem sagt með mjög mikilli einföldun sagt að ef bindiskylda upp á 10% er fullnýtt sé 1 króna af hverjum 10 vinna sem unnin var í fortíðinni og hinar 9 ávísun á vinnu eða verðmæti í framtíðinni.
Vextir og vöxtur
Nú er það samt svo að vinna sem unnin er í dag er verðmætari en vinna sem unnin er eftir 10 ár. Þú vilt jú frekar láta lækna tönnina núna en bíða með það í 10 ár. Þess vegna fer sá sem á pening fram á það að fá vexti af eign sinni. (Sleppum algerlega verðbólgu í þetta skiptið til að einfalda málið). Þú borgar líka vexti til bankans af peningunum sem hann bjó til fyrir þig. Gjarnan er talað um að eðlilegir vextir séu 3-5% að raunvirði.
Nú skulum við aðeins stíga til baka, hætta að tala um peninga og velta fyrir okkur raunverulegum verðmætum og vexti þeirra (sjá aftur fyrri færslu). Ég held að gróft á litið megi skipta raunverulegum verðmætum í 3 flokka:
- Endurnýjanlegar náttúruauðlindir: Til þessa flokks teljast lífrænar náttúruauðlindir s.s. fiskur, skógar og kornakrar; og endurnýjanlegir orkugjafar s.s. vatnsafl, sólarorka, jarðhiti o.fl. Þetta eru verðmæti sem vaxa “af sjálfu sér” og hægt er að taka af ákveðið magn á hverju ári án þess að skerða grunninn. Þannig getum við t.d. veitt ákveðið magn af fiski eða unnið ákveðið magn af orku árlega út í hið óendanlega ef við finnum rétt jafnvægi og réttar aðferðir. Hver slík auðlind gefur því af sér jafnt magn verðmæta á ári.
- Aðrar náttúruauðlindir: Til þessa flokks teljast allar aðrar náttúruauðlindir, s.s. jarðefnaeldsneyti, góðmálmar, ólífrænt hráefni til framleiðslu o.þ.h. Þessar auðlindir getum við lært að nýta betur, en þær eru endanlegar, fara minnkandi og á einhverjum tímapunkti nær vinnsla þeirra hámarki. Í tilfelli olíunnar er þetta það sem kallað hefur verið “peak oil“. Hvort sem sá tími er þegar kominn, enn nokkur ár í hann eða jafnvel heil öld, er ljóst að sá punktur mun koma. Við brennum á hverju ári því magni af olíu sem varð til á milljónum ára, þannig að dæmið er ekki mjög flókið. Þessar auðlindir fara s.s. minnkandi.
- Mannafl og hugvit: Þetta er vinnan sem við og tækin sem við notum geta skilað af sér. Mannkyninu fjölgar sífellt, þannig að grunnurinn vex ennþá (en mun og þarf að ná jafnvægi innan skamms). Mikilvægari þátturinn hér er raunar hugvitið, þekkingin og sérhæfingin sem Krúsó og Frjádagur þekktu svo vel. Þetta er í daglegu tali kallað framleiðniaukning, þar sem hver unnin klukkustund skilar af sér meiri verðmætum með nýrri verkþekkingu, sérhæfingu og verlagi. Þessi auðlind fer því vaxandi, en ekki auðvelt að geta sér til um takmörk hennar. Henni eru þó allnokkrar skorður settar af hinum gerðum verðmæta: Hversu mikils er ein vinnustund virði við að ýta bíl? Hvað þarf margar vinnustundir til að ýta bíl sömu vegalengd og einn lítri af bensíni getur gert? Hver á að ýta bílnum ef ekki er til bensín?
Við erum því með þrjár gerðir af raunverulegum verðmætum: Ein þeirra fer þverrandi, ein gefur af sér fast magn af verðmætum á ári og ein vex, en er þó takmörk sett af hinum tveimur. Ef aukningin í mannafli og hugviti jafnar út óendurnýjanlegu auðlindirnar, þá sitjum við uppi með flatan vöxt árlega, þ.e. jafna aukningu verðmæta á ári, en ekki veldisvöxt eins og vextir á peningum heimta.
Ef jafnvægið er öðruvísi þýðir það annað hvort að við getum reiknað með örlitlum veldisvexti verðmæta (framleiðnin vex hraðar en gengið er á náttúruauðlindirnar) eða minnkun verðmæta (við göngum hraðar á auðlindirnar en framleiðniaukningin nær að mæta). Hvort heldur sem er ætti þessi formúla að stefna á jafnvægi (veldisvöxtur hefur alltaf takmörk og hugvitið nær á einhverjum tímapunkti að mæta verðmætarýrnuninni).
Það má a.m.k. ljóst vera að veldisvöxtur verðmæta mun ekki ganga út í hið óendanlega. Veldisvöxtur peninga (sem eru uppfinning okkar mannanna) getur alveg haldið áfram, en það mun bara þýða að hver peningaeining mun benda á sífellt minni raunveruleg verðmæti.
Samhengi peninga, veldisvaxtar og náttúruauðlinda er lýst gríðarlega vel í fyrirlestri Chris Martenson: The Crash Course. Ég mæli eindregið með honum.
Lánabólan
Undanfarið hefur í heiminum öllum verið búið til gríðarlegt magn af peningum. Eins og sagt var hér að ofan eru þeir peningar ávísun á vinnu eða verðmæti í framtíðinni og fara auk þess fram á vexti. Til að mæta vöxtunum þarf að framleiða enn meira af peningum og því hefur verið reynt að nýta hráefni til peningaframleiðslu til hins ítrasta. Hráefnið í peninga eru einfaldlega lántakendur. Hvort sem það erum við almúginn að taka lán fyrir íbúð eða bíl, eða eignarhaldsfélög og vogunarsjóðir að taka lán fyrir uppkaupum á fyrirtækjum er hægt að nota okkur sem lántakendur til að framleiða peninga til að mæta kröfunni um síaukna peninga.
Þetta getur augljóslega ekki gengið út í hið óendanlega. Peningaframleiðsla í veldisvexti verður að hætta og kerfið er dæmt til að hrynja. Við getum mögulega skuldsett sjálf okkur til dauðadags (betra þó, ef við vitum af því), en innan mjög skamms mun einhver sjá í gegnum þokuna og hugsa “þetta getur ekki gengið, við borgum ekki”.
Reyndar virðist ekki þurfa að koma til þess. Árið 2007 kom að því að það fundust ekki lengur fleiri lántakendur til að nota sem hráefni í meiri peningaframleiðslu. Sífellt fleiri gátu ekki borgað af lánunum sínum, sérstaklega þeir sem ætluðu að borga af þeim með vöxtunum af síðasta láni sem þeir tóku og leiðréttingarferli hófst.
Þegar lántakandi getur ekki lengur borgað af láninu sínu og það fellur á hann þá hverfur peningurinn sem varð til þegar hann tók lánið. Þetta er það sem er að gerast í heiminum núna. Það er ekki bara svo að einhverjir hafi skotið peningum undan og feli þá einhversstaðar þar sem ekki er hægt að ná í þá – þó það hafi vafalaust gerst að litlu leiti. Mest af þessum peningum er samt bara horfinn: Púff, bang – ekki lengur til!
Enda var hann bara loft og vísaði ekki á raunveruleg verðmæti – alveg eins og ég grísaði á í október þegar ég vissi sáralítið um þessi mál.
Eða eins og Voltaire sagði víst: “Paper money eventually returns to its intrinsic value – zero.”
Niðurstaðan
Eins og Georg Bjarnfreðarson hefði vafalaust bent á er þetta kerfi sem við höfum lifað við “bara misskilningur”. Það er rétt hjá honum, en það getur verið frekar sársaukafullt að leiðrétta misskilning, sérstaklega þegar um svona gígantískan misskilning er að ræða. Vangræði Georgs blikna a.m.k. í samanburðinum.
Leiðréttingarferlið sem farið er í gang verður langt og snúið. Ég held persónulega að það eigi enn eftir að hverfa mjög miklir peningar áður en þeir ná samhengi við raunveruleg verðmæti. Leiðréttingar hafa líka tilhneygingu til að skjóta yfir markið og verða að brotlendingu í stað snertilendingar eins og við þekkjum. Leiðréttingin mun hafa í för með sér miklar tilfærslur á völdum og auði, sem í mörgum tilfellum kann að vera sanngjarnt en mun klárlega valda miklum óstöðugleika á meðan á því stendur.
Jafnframt þarf að koma upp nýju peningakerfi í heiminum, því í grunninn eru bæði peningar og lán alger forsenda fyrir því að við getum haldið áfram að nota, njóta og deila gæðum jarðarinnar. M.v. deilurnar sem spruttu um styttuna af Tómasi Guðmundssyni, gæti ég trúað að menn ættu eftir að vera nokkra stund að koma sér saman um eitthvað eins og þetta.
Þegar öllu er á botninn hvolft eru Íslendingar auðugir af raunverulegum verðmætum af öllum þeim þrem gerðum sem að ofan eru nefndar og því alls ekki útséð með það hvar við munum standa að – segjum – 10 árum liðnum þegar þessi “misskilningur” verður vonandi nokkurnveginn úr sögunni.
– – –
P.S. Ég er enn bara amatör í þessum fræðum og bið því lesendur um að gagnrýna, pota í og leiðrétta það sem hér að ofan er sagt til að skerpa skilning minn og annarra á viðfangsefninu.