Author: Hjalmar Gislason

About Hjalmar Gislason

Founder and CEO of GRID (https://grid.is/). Curious about data, technology, media, the universe and everything. Founder of 5 software companies.

Tími stórra breytinga

Gears conceptFljótlega eftir bankahrunið í byrjun október skrifaði ég bloggfærsluna Peningar vs. raunveruleg verðmæti.

Eins og margir aðrir verð ég líklega að viðurkenna að ég skildi ekki til fulls það sem var að gerast á þessum tíma, hvorki hvað viðkom Íslandi eða heiminum í heild. Ég hef í gegnum tíðina skapað mér ákveðið óþol fyrir því að skilja ekki eitthvað, sérstaklega þegar það hefur áhrif á mig eða mína nánustu og þess vegna fékk ég skyndilega mjög aukinn áhuga á hagfræði. Ég er síðan þá búinn að plægja mig í gegnum alls kyns fróðleik á vefnum og víðar og öðlast – að ég held – a.m.k. þokkalegan skilning á því hvernig hagkerfi heimsins er hugsað.

Niðurstaðan er í stuttu máli sú að ég held að ég hafi slegið naglann beinna á höfuðið þann 12. október síðastliðinn en mig óraði fyrir: Peningar og raunveruleg verðmæti hafa undanfarna áratugi átt ótrúlega lítið skylt við hvort annað. Þetta hefur verið hálfgerður “misskilningur”. Núna er sá misskilningur smám saman að komast upp, en það er löng leið ófarin þar til undið hefur verið ofan af honum að fullu.

Þetta er ef til vill ekki upplífgandi hugmynd, en ég skal rekja það sem leiðir mig að þessari niðurstöðu.

Hvert er hlutverk peninga?

Peningar hafa tvenns konar meginhlutverk:

  • Að liðka fyrir skiptum á vörum og þjónustu: Þessu er nokkuð vel lýst í þessari sögu af Róbinson Krúsó og Frjádegi. Frjádagur var góður að týna kókoshnetur og gat týnt 8 slíkar á dag. Krúsó gat bara týnt 2 kókoshnetur á dag, en hann gat veitt 8 fiska. Frjádagur var hins vegar ömurlegur veiðimaður og náði í besta falli 2 fiskum á dag. Hvorugur vildi einhæft mataræði, svo að í stað þess að þeir eyddu báðir hálfum deginum við hvora iðju fyrir sig og uppskæru samanlagt 5 kókoshnetur og 5 fiska sömdu þeir um að hvor gerði það sem honum fórst betur úr hendi allan daginn og þeir hefðu með sér vöruskipti. Þannig varð samanlagður afrakstur dagsins 8 fiskar og 8 kókoshnetur og ágóðinn er augljós. Annað af meginhlutverkum peninga er s.s. að auðvelda okkur að skiptast á fiskum og kókoshnetum, tölvuviðgerðum og tannlækningum í flóknu og víðfeðmu neti hæfileika og auðlinda.
  • Að varðveita verðmæti (e. store of value): Oft er það þannig að þegar ég get selt eitthvað, þá vantar mig kannski ekki neitt akkúrat þá stundina. Ég gæti t.d. selt fisk í dag, en viljað borga fyrir kokteila og gistingu á Spáni í sumar, eða jafnvel góða umönnun í ellinni (lífeyrir). Peningar liðka því ekki eingöngu fyrir vöruskiptum, heldur gera okkur kleift að geyma virði þeirrar vinnu eða auðlinda sem við seldum og flytja það til í rúmi (til Spánar) og tíma (til ellinnar).

Sú staðreynd að peningar hafa sinnt þessum tveim hlutverkum ágætlega á líklega mjög ríkan þátt í aukinni velmegun undangenginna 2 alda eða svo.

Í byrjun varð að tryggja það að fólk treysti peningum með því að byggja þá á einhverju sem fólk taldi “raunveruleg verðmæti”. Fyrst voru peningarnir sjálfir úr góðmálmum eins og silfri og gulli og þegar pappírspeningar komu til sögunnar voru þeir byggðir á einhverskonar fæti, t.d. gullfæti. Sem þýðir í stuttu máli að eignarhaldi á seðli fylgir loforð um það að seðlinum sé hægt að skipta fyrir ákveðið magn af gulli í tilteknum banka.

Þetta hefur ákveðið óhagræði í för með sér, því að á móti öllum þeim vöru- og þjónustuskiptum sem við viljum eiga í þarf að geyma gull í bankahólfi einhversstaðar. Gull sem svo er aldrei sótt eða hreyft, því allir treysta peningunum. Þetta fyrirkomulag hefur komist á nokkrum sinnum í mannkynssögunni og alltaf hefur sama hugmyndin skotið upp kollinum: Meðan allir treysta peningunum, þá þurfum við í raun ekki gullið. Eða a.m.k. ekki nema bara nóg fyrir þá örfáu sérvitringa sem láta á það reyna hvort það sé hægt að fá það afhent. Fóturinn er m.ö.o. afnuminn.

Þetta gerðist að fullu í okkar vestræna hagkerfi árið 1971 þegar Nixon þurfti dollara til að borga fyrir Víetnamstríðið. Hann setti prentvélarnar á fullt og bjó til dollara í stórum stíl til að borga skuldirnar. Með því braut hann ákvæði svokallaðs Bretton Woods samkomulags sem þjóðir heims höfðu gert með sér undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Samkomulagið fól í sér að Bandaríkin sæju um varðveislu gullfótar gjaldmiðla aðildarþjóðanna og að gengi þessara gjaldmiðla yrði hengt saman og þannig tengt þessum fæti. Bretton Woods markar reyndar líka upphaf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans.

Í sjálfu sér má segja að þetta sé allt í lagi. Þ.e.a.s. þetta er í lagi meðan allir treysta kerfinu. Við ætluðum hvort eð er aldrei að kaupa gull fyrir fiskinn sem við seldum. Meðan einhver er til í að afhenda mér kókoshnetur fyrir hann er ég sáttur og gullið skiptir ekki máli. Meðan peningarnir eru ávísun á vinnu eða verðmæti í framtíðinni eru allir sáttir, enda komu þeir sem greiðsla fyrir vinnu eða verðmæti í fortíðinni. Eða hvað?

Nú kemur held líklega stærsta lexían í þessum pistli. Ef þið hafið ekki meðtekið þennan sannleik áður þá er þetta mjög erfitt skref. Það tók mig nokkrar vikur að meðtaka þetta og afskrifa það að þetta væri ekki bara samsæriskenning einhverra vitleysinga: Peningar eru skuld. Stærsti hluti þeirra peninga sem eru til er ekki vísun í vinnu eða verðmæti sem afhent voru í fortíðinni, heldur á vinnu eða verðmæti sem á eftir að afhenda í framtíðinni.

Ekki nóg með þetta sé erfitt að meðtaka, heldur er annar erfiður sannleikur í þessu: Bankar framleiða peninga. Ekki bara Seðlabankar sem prenta peninga eins og við vitum, heldur bara venjulegir bankar eins og Kaupþing, Sparisjóður Svarfdæla og HSBC.

Það er til mjög góð teiknimynd sem útskýrir þetta mál ágætlega. Hún heitir Money as Debt. (Breytt 8. feb 2009, kl 22:30 – sjá athugasemdir)

Þetta er inntakið í teiknimyndinni Money as Debt, þó hún nái reyndar ekki öllum atriðum málsins alveg rétt.

Við skulum aftur á móti láta eftirfarandi dæmi nægja til að byrja að koma hausnum utan um málið: Þú ætlar að kaupa þér íbúð og ferð í banka til að sækja um lán. Bankinn tekur vel í það og lánar þér 20 milljónir. En hvaðan koma þessar 20 milljónir? Haltu þér fast. Bankinn býr til stærstan hluta þessara peninga úr loftinu einu saman! Hvernig getur hann það? Jú, með því að skrifa upp á lánið ert þú búinn lofa bankanum að vinna fyrir hann í framtíðinni. Þessa vinnu þína getur bankinn fært til bókar hjá sér sem eign á móti peningunum sem þeir lána þér. Bankakerfið allt tekur þessa eign góða og gilda og því eru orðnir til nýjir peningar sem sá sem seldi íbúðina getur núna notað til að kaupa sér fisk, kókoshnetur og utanlandsferðir.

Svokölluð bindiskylda segir til um hversu stóran hluta þessarrar upphæðar bankinn má búa til úr lausu lofti. 10% bindiskylda þýðir að bankinn þarf að hafa undir höndum 2 milljónir í beinhörðum peningum til að mega búa til hinar 18 milljónirnar. Þessar 2 milljónir geta t.d. verið innistæða foreldra þinna á bankabók.

Við getum sem sagt með mjög mikilli einföldun sagt að ef bindiskylda upp á 10% er fullnýtt sé 1 króna af hverjum 10 vinna sem unnin var í fortíðinni og hinar 9 ávísun á vinnu eða verðmæti í framtíðinni.

Vextir og vöxtur

Nú er það samt svo að vinna sem unnin er í dag er verðmætari en vinna sem unnin er eftir 10 ár. Þú vilt jú frekar láta lækna tönnina núna en bíða með það í 10 ár. Þess vegna fer sá sem á pening fram á það að fá vexti af eign sinni. (Sleppum algerlega verðbólgu í þetta skiptið til að einfalda málið). Þú borgar líka vexti til bankans af peningunum sem hann bjó til fyrir þig. Gjarnan er talað um að eðlilegir vextir séu 3-5% að raunvirði.

Nú skulum við aðeins stíga til baka, hætta að tala um peninga og velta fyrir okkur raunverulegum verðmætum og vexti þeirra (sjá aftur fyrri færslu). Ég held að gróft á litið megi skipta raunverulegum verðmætum í 3 flokka:

  • Endurnýjanlegar náttúruauðlindir: Til þessa flokks teljast lífrænar náttúruauðlindir s.s. fiskur, skógar og kornakrar; og endurnýjanlegir orkugjafar s.s. vatnsafl, sólarorka, jarðhiti o.fl. Þetta eru verðmæti sem vaxa “af sjálfu sér” og hægt er að taka af ákveðið magn á hverju ári án þess að skerða grunninn. Þannig getum við t.d. veitt ákveðið magn af fiski eða unnið ákveðið magn af orku árlega út í hið óendanlega ef við finnum rétt jafnvægi og réttar aðferðir. Hver slík auðlind gefur því af sér jafnt magn verðmæta á ári.
  • Aðrar náttúruauðlindir: Til þessa flokks teljast allar aðrar náttúruauðlindir, s.s. jarðefnaeldsneyti, góðmálmar, ólífrænt hráefni til framleiðslu o.þ.h. Þessar auðlindir getum við lært að nýta betur, en þær eru endanlegar, fara minnkandi og á einhverjum tímapunkti nær vinnsla þeirra hámarki. Í tilfelli olíunnar er þetta það sem kallað hefur verið “peak oil“. Hvort sem sá tími er þegar kominn, enn nokkur ár í hann eða jafnvel heil öld, er ljóst að sá punktur mun koma. Við brennum á hverju ári því magni af olíu sem varð til á milljónum ára, þannig að dæmið er ekki mjög flókið. Þessar auðlindir fara s.s. minnkandi.
  • Mannafl og hugvit: Þetta er vinnan sem við og tækin sem við notum geta skilað af sér. Mannkyninu fjölgar sífellt, þannig að grunnurinn vex ennþá (en mun og þarf að ná jafnvægi innan skamms). Mikilvægari þátturinn hér er raunar hugvitið, þekkingin og sérhæfingin sem Krúsó og Frjádagur þekktu svo vel. Þetta er í daglegu tali kallað framleiðniaukning, þar sem hver unnin klukkustund skilar af sér meiri verðmætum með nýrri verkþekkingu, sérhæfingu og verlagi. Þessi auðlind fer því vaxandi, en ekki auðvelt að geta sér til um takmörk hennar. Henni eru þó allnokkrar skorður settar af hinum gerðum verðmæta: Hversu mikils er ein vinnustund virði við að ýta bíl? Hvað þarf margar vinnustundir til að ýta bíl sömu vegalengd og einn lítri af bensíni getur gert? Hver á að ýta bílnum ef ekki er til bensín?

Við erum því með þrjár gerðir af raunverulegum verðmætum: Ein þeirra fer þverrandi, ein gefur af sér fast magn af verðmætum á ári og ein vex, en er þó takmörk sett af hinum tveimur. Ef aukningin í mannafli og hugviti jafnar út óendurnýjanlegu auðlindirnar, þá sitjum við uppi með flatan vöxt árlega, þ.e. jafna aukningu verðmæta á ári, en ekki veldisvöxt eins og vextir á peningum heimta.

Ef jafnvægið er öðruvísi þýðir það annað hvort að við getum reiknað með örlitlum veldisvexti verðmæta (framleiðnin vex hraðar en gengið er á náttúruauðlindirnar) eða minnkun verðmæta (við göngum hraðar á auðlindirnar en framleiðniaukningin nær að mæta). Hvort heldur sem er ætti þessi formúla að stefna á jafnvægi (veldisvöxtur hefur alltaf takmörk og hugvitið nær á einhverjum tímapunkti að mæta verðmætarýrnuninni).

Það má a.m.k. ljóst vera að veldisvöxtur verðmæta mun ekki ganga út í hið óendanlega. Veldisvöxtur peninga (sem eru uppfinning okkar mannanna) getur alveg haldið áfram, en það mun bara þýða að hver peningaeining mun benda á sífellt minni raunveruleg verðmæti.

Samhengi peninga, veldisvaxtar og náttúruauðlinda er lýst gríðarlega vel í fyrirlestri Chris Martenson: The Crash Course. Ég mæli eindregið með honum.

Lánabólan

Undanfarið hefur í heiminum öllum verið búið til gríðarlegt magn af peningum. Eins og sagt var hér að ofan eru þeir peningar ávísun á vinnu eða verðmæti í framtíðinni og fara auk þess fram á vexti. Til að mæta vöxtunum þarf að framleiða enn meira af peningum og því hefur verið reynt að nýta hráefni til peningaframleiðslu til hins ítrasta. Hráefnið í peninga eru einfaldlega lántakendur. Hvort sem það erum við almúginn að taka lán fyrir íbúð eða bíl, eða eignarhaldsfélög og vogunarsjóðir að taka lán fyrir uppkaupum á fyrirtækjum er hægt að nota okkur sem lántakendur til að framleiða peninga til að mæta kröfunni um síaukna peninga.

Þetta getur augljóslega ekki gengið út í hið óendanlega. Peningaframleiðsla í veldisvexti verður að hætta og kerfið er dæmt til að hrynja. Við getum mögulega skuldsett sjálf okkur til dauðadags (betra þó, ef við vitum af því), en innan mjög skamms mun einhver sjá í gegnum þokuna og hugsa “þetta getur ekki gengið, við borgum ekki”.

Reyndar virðist ekki þurfa að koma til þess. Árið 2007 kom að því að það fundust ekki lengur fleiri lántakendur til að nota sem hráefni í meiri peningaframleiðslu. Sífellt fleiri gátu ekki borgað af lánunum sínum, sérstaklega þeir sem ætluðu að borga af þeim með vöxtunum af síðasta láni sem þeir tóku og leiðréttingarferli hófst.

Þegar lántakandi getur ekki lengur borgað af láninu sínu og það fellur á hann þá hverfur peningurinn sem varð til þegar hann tók lánið. Þetta er það sem er að gerast í heiminum núna. Það er ekki bara svo að einhverjir hafi skotið peningum undan og feli þá einhversstaðar þar sem ekki er hægt að ná í þá – þó það hafi vafalaust gerst að litlu leiti. Mest af þessum peningum er samt bara horfinn: Púff, bang – ekki lengur til!

Enda var hann bara loft og vísaði ekki á raunveruleg verðmæti – alveg eins og ég grísaði á í október þegar ég vissi sáralítið um þessi mál.

Eða eins og Voltaire sagði víst: “Paper money eventually returns to its intrinsic value – zero.”

Niðurstaðan

Eins og Georg Bjarnfreðarson hefði vafalaust bent á er þetta kerfi sem við höfum lifað við “bara misskilningur”. Það er rétt hjá honum, en það getur verið frekar sársaukafullt að leiðrétta misskilning, sérstaklega þegar um svona gígantískan misskilning er að ræða. Vangræði Georgs blikna a.m.k. í samanburðinum.

Leiðréttingarferlið sem farið er í gang verður langt og snúið. Ég held persónulega að það eigi enn eftir að hverfa mjög miklir peningar áður en þeir ná samhengi við raunveruleg verðmæti. Leiðréttingar hafa líka tilhneygingu til að skjóta yfir markið og verða að brotlendingu í stað snertilendingar eins og við þekkjum. Leiðréttingin mun hafa í för með sér miklar tilfærslur á völdum og auði, sem í mörgum tilfellum kann að vera sanngjarnt en mun klárlega valda miklum óstöðugleika á meðan á því stendur.

Jafnframt þarf að koma upp nýju peningakerfi í heiminum, því í grunninn eru bæði peningar og lán alger forsenda fyrir því að við getum haldið áfram að nota, njóta og deila gæðum jarðarinnar. M.v. deilurnar sem spruttu um styttuna af Tómasi Guðmundssyni, gæti ég trúað að menn ættu eftir að vera nokkra stund að koma sér saman um eitthvað eins og þetta.

Þegar öllu er á botninn hvolft eru Íslendingar auðugir af raunverulegum verðmætum af öllum þeim þrem gerðum sem að ofan eru nefndar og því alls ekki útséð með það hvar við munum standa að – segjum – 10 árum liðnum þegar þessi “misskilningur” verður vonandi nokkurnveginn úr sögunni.

– – –

P.S. Ég er enn bara amatör í þessum fræðum og bið því lesendur um að gagnrýna, pota í og leiðrétta það sem hér að ofan er sagt til að skerpa skilning minn og annarra á viðfangsefninu.

Raunverulegt skatthlutfall á Íslandi

Uppfært 11. nóvember 2009: Sjá umræður um uppfært reiknilíkan.

– – –

Fyrirkomulag skattamála hefur verið dálítið í umræðunni síðustu daga og verður áreiðanlega talsvert fram yfir kosningar.

Sitt sýnist hverjum og mikið er talað um skattþrep, hátekjuskatta, hækkun persónuafsláttar og svo framvegis. Ég ákvað því að teikna einfalda mynd sem getur hjálpað talsvert við að átta sig á staðreyndunum í þessari umræðu.

Myndin hér að neðan sýnir “raunverulegt skatthlutfall” hjá meðal-Íslendingi sem fall af tekjum:

raunverulegt-skatthlutfallÞetta sýnir sem sagt það hlutfall af umsömdum mánaðarlaunum sem launþegi borgar í skatta, þ.e. tekjuskatt að viðbættu meðalútsvari, sem samkvæmt vef Ríkisskattstjóra er samanlagt 37,2%.

Við sjáum auðvitað fljótt að í raun borgar enginn alveg það hlutfall. Meira að segja sá sem er með 2 milljónir í mánaðarlaun borgar “bara” 35,09% í skatta. Ástæðan er auðvitað persónuafslátturinn, sem á yfirstandandi ári er 42.205 krónur á mánuði. Persónuafslátturinn þýðir sem sagt að raunverulegt skatthlutfall þess sem er með 200.000 krónur í mánaðarlaun er þó ekki nema 16,1%. Sá sem er með 300.000 í mánaðarlaun borgar raunverulega 23,13% af tekjum sínum í skatt og sá sem er með 500.000 krónur borgar 28,76% af tekjum sínum í skatta.

Með þessum hætti er kerfið okkar þegar þannig að þeir sem eru með hærri tekjur borga verulega hærra hlutfall af þeim í skatta. M.ö.o. tryggir persónuafslátturinn eins konar hátekjuskatt, en hefur þann kost umfram hann að mynda ekki skattþrep sem geta haft mjög neikvæð jaðaráhrif (eins og að hvetja launagreiðendur til að borga þóknanir umfram tiltekna upphæð frekar í formi einhverskonar fríðinda).

Vilji ríkið auka skatttekjur sínar er því mikið nær að breyta tekjuskatthlutfalli og persónuafslætti til að stilla af þessa kúrfu en að leggja á sérstaka hátekjuskatta.

Eins mætti skoða breytingu á neyslusköttum á borð við virðisaukaskattinn, því þar borgar sá sem er með hærri tekjur og eyðir duglega sannarlega mun meira til þjóðarbúsins (í krónum, ekki hlutfallslega) en sá sem hefur minna milli handanna. Auk þess hvetur það til sparnaðar.

Persónulega er ég mun meiri fylgismaður niðurskurðar í ríkisútgjöldum til að mæta þeim erfiðleikum sem framundan eru. Áhugasamir geta spreytt sig á því að finna útgjaldaliði sem skera mætti niður í þessari framsetningu á fjárlögunum.

Verkefnin vantar ekki…

Áður birt á vef Hugmyndaráðuneytisins.

Á hverjum morgni labba ég fram hjá aðstöðu Listaháskólans við Skipholt. Þar í glugga stendur “Stefnumót bænda og hönnuða”. Smá Gúggl leiddi í ljós að þetta er verkefni sem hlaut styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís og er “frumkvöðlaverkefni í þágu atvinnulífsins þar sem tvær starfstéttir eru leiddar saman til að skapa einstaka afurð.”

Þetta er auðvitað frábært framtak, en getum við ekki tekið okkur þetta til fyrirmyndar á ótal sviðum eins og “ástandið” er?

Sem dæmi, þá varð ég undrandi á því þegar ég var að taka saman lista yfir sprotafyrirtæki hér á landi hversu mörg þeirra – sérstaklega þau sem ekki eru í hugbúnaðarbransanum – eru með arfaslakar vefsíður. Þarna er tækifæri fyrir vefsnillinga að taka til hendinni. Búa til vel útlítandi, vel skrifaða vefi, leitarvélabesta fyrir þau orð sem máli skipta, beita Facebook, YouTube og öðrum samfélagsmiðlum þar sem það á við og jafnvel búa til hnitmiðaða, en ódýra vefauglýsingaherferð, t.d. með Google Ads.

Ástæðan fyrir því að viðkomandi fyrirtæki eru ekki með betri vefsíðu eru líklega tíma- og peningaskortur og mögulega skilningsleysi, miklu frekar en áhugaleysi. Þessi fyrirtæki myndu því vafalaust taka því fegins hendi ef einhver kæmi til þeirra og bæðist til að taka vefmálin í gegn. Greiðsla gæti hreinlega falist í tekjuskiptingu á þeim tekjum sem andlitslyftingin skilaði. Þetta á í mörgum tilfellum að vera hægt að mæla býsna nákvæmlega, t.d. aukinn fjöldi (eða jafnvel upphaf) pantanna í gegnum vefinn. Ég væri til í að smíða nýjan vef fyrir sum þessarra fyrirtækja fyrir 10-20% af þeim tekjum sem ég held að hægt væri að skapa þeim með betri vef.

Útfærslur varðandi útlagðan kostnað, tekjuskiptingu, samningstíma, viðhald og annað getur verið margskonar, en grundvallaratriðið er það að hvorugur aðilinn þarf að leggja neitt til (nema vinnu sína auðvitað) til að láta á þetta reyna.

Svipað fyrirkomulag mætti sjá fyrir sér í fleiri sérfræðistörfum: sölumálum, almennum markaðsmálum, fjármálaumsjón, gerð viðskiptaáætlana og svo mætti lengi telja.

Aðalmálið er að allir græða. Verkefnalausir fá verkefni og í framhaldinu tekjur í samræmi við árangur, fyrirtækin fá ódýra aðstoð og möguleika á nýjum tekjum (eða sparnað, t.d. með betra aðhaldi í fjármálunum) og öllum er í hag að sem best takist til.

Ég hvet fyrirtæki sem etv. hafa ekki úr nægum verkefnum að moða og fólk sem misst hefur vinnuna til að hugsa út fyrir boxið og finna tækifæri af þessum toga þar sem þeir geta boðið krafta sína og þekkingu með öðru sniði en almennt tíðkast, t.d. eins og hér er lýst.

Íslenska hagkerfið sett í samhengi

Þrátt fyrir að Money:Tech ráðstefnan hafi verið slegin af, ákváðum við DataMarket menn að halda áfram með fyrirlesturinn um ris og fall íslenska hagkerfisins. Meira um hann og birtingu hans síðar.

Hér er samt önnur mynd sem segir meira en mörg orð. Flatarmál myntanna sýnir hlutfallslega stærð þeirra hagkerfa sem hana nota:

isk-relative

Engu að síður hefur maður heyrt sögur af því að íslenska krónan hafi verið ein af þeim 6-8 myntum sem margir alþjóðlegir gjaldeyrismiðlarar sýndu hvað mesta athygli. Geðveiki?

Athugið að flatarmálið getur verið villandi. Svona liti þetta út ef það væri sett í stöplarit.
isk-relative-cols

P.S. Stærðin sem þarna er borin saman er verg þjóðarframleiðsla viðkomandi þjóða. Sem viðskiptamynt er dollarinn í raun margfalt stærri.

Appelsínugulur

Ég sýni lit:

appelsinugulur

Appelsínugulur er sameiginleg yfirlýsing friðsamra mótmælenda.

Við erum appelsínugul

Við erum friðsöm

Við viljum breytingar

Appelsínugulur…

  • … er friðsöm krafa um breytingar
  • … merkir að sá sem fer fram með ofbeldi eða skemmdarverkum talar ekki í þínu nafni
  • … er krafa um að Alþingi endurnýi umboð sitt frá fólkinu í landinu strax
  • … lýsir hvorki stjórnmálaskoðun né stendur fyrir neitt annað en hér er upp talið

Appelsínugulur á sér engan málsvara, heldur eru allir þeir sem styðja þessa yfirlýsingu málsvarar hennar

Vertu í appelsínugulu, sýndu lit.

Það ætla ég a.m.k. að gera.

P.S. Sjá Appelsínugulur á Facebook

Af mótmælum, ímyndarmálum og skrílslátum

Uppfært: Ég er Appelsínugulur.

Ég er sammála meginkröfum mótmælenda:

  • Ríkisstjórnin þarf að víkja
  • Stjórn og stjórnendur Seðlabanka og Fjármálaeftirlits þurfa að víkja
  • Boða þarf til kosninga sem fyrst

Framan af keypti ég þau rök að ekki væri rétt að “skipta um hest í miðri á”; að betra væri að hafa sitjandi stjórn við völd og leyfa henni að vinna sig út úr stöðunni í krafti þekkingar sinnar á aðstæðum en að nýtt fólk þyrfti að setja sig inn í stöðuna – hversu alvarleg svo sem mistök fyrri stjórnar voru.

Síðan þá hefur sýnt sig að það er ekkert plan. Sitjandi stjórn veit ekkert hvernig hún ætlar upp úr ánni og öslar hana miðja með bægslagangi og látum. Sé eitthvað plan í gangi, eru viðkomandi a.m.k. fullkomlega vanhæf um að miðla því hvert það plan er og efla trú innan lands eða utan á því að hér sé verið að vinna gott starf. Þessi skortur á miðlunarhæfileikum er í raun einn og sér nóg ástæða til að stjórnin þurfi að víkja, enda er það mikilvægasta í stöðunni að sýna að það sé eitthvað plan, að viðurkenna mistök, leita ráða hjá sér hæfara fólki og miðla þessum aðgerðum með almenningi.

Geir Haarde á að vera í sjónvarpinu í klukkutíma á hverjum mánudegi að segja okkur hvað planið er fyrir vikuna, hvaða nýju upplýsingar liggi nú fyrir, hverju hafi orðið ágengt, hvað hafi mistekist og hvernig sé verið að taka á því: Staða lýðveldisins.

Fyrir tækninördana mætti eiginlega segja að það þurfi að Scrum-a sig út úr ástandinu.

Ef boðað verður til kosninga þarf að gera það með óvenjulegum hætti. Við megum ekki við því að missa vikur eða mánuði á mikilvægustu stundum lýðveldisins í það að menn fari að heyja kosningabaráttu og ástandi versni enn hraðar með engan við stýrið. Satt best að segja held ég að það verði að finna leið til að koma á neyðarstjórn hæfra, ópólitískra (eða a.m.k. þverpólitískra) manna og kvenna á meðan kosningar eru undirbúnar. Hver sú leið er veit ég ekki enn.

Til að byggja upp traust má svo enginn koma að nýrri stjórn eða stofnunum Ríkisins hér eftir af þeim sem sannarlega má segja að hafi verið á vakt yfir þeim hlutum sem úrskeiðis fóru. Þar á meðal eru:

  • Geir H. Haarde sem forsætisráðherra á vakt og “Direktören for det hele”
  • Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem leiðtogi í stjórnarsamstarfinu og ábyrg fyrir því
  • Árni Mathiesen sem fjármálaráðherra á vakt í versta efnahagshruni Vesturlanda í seinni tíð
  • Björgvin G. Sigurðsson sem viðskiptaráðherra á sömu vakt
  • Davíð Oddsson sem Seðlabankastjóri á sömu vakt, maðurinn sem sá allt fyrir en gerði samt ekkert í því
  • Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson sem Seðlabankastjórar á sömu vakt
  • Jón Sigurðsson og Jónas Fr. Jónsson sem stjórnendur Fjármálaeftirlitsins sem sáu ekki á mælana meðan allt fór til fjandans
  • Aðrir stjórnarmenn Fjármálaeftirlitsins og fulltrúar í bankaráði Seðlabankans

Þetta er svo ekki tæmandi listi og er ekki í neinni sérstakri röð eftir eðli eða mikilvægi ábyrgðar.

Þrátt fyrir ofansagt, þá getur og má stjórnin ekki segja af sér eftir atburði eins og þá sem urðu í gær.

Ég VEIT að flestir mótmælendur höguðu sér vel og meintu vel, en það er líka staðreynd að þarna var allnokkur hópur fólks sem gekk fram með ofbeldi og skemmdarverkum og ögraði lögreglunni vísvitandi. Sökum slagsíðu sem alltaf er á fréttaflutningi virðist þetta án efa stærri hluti og alvarlegri en í raun var, en það breytir engu. Við viljum ekki eyðileggja ímynd okkar sem þjóðar enn meira en orðið er með því að láta líta út sem svo að við séum þjóð sem kemur stjórnvöldum frá með ofbeldi. Burtséð frá öllum staðreyndum málsins verður það sú mynd sem dregin verður upp í fjölmiðlum heimsins ef myndefni gærdagsins er sett í samhengi við það að ríkisstjórnin fari frá í dag. Ég tala nú ekki um ef þessi atburðarás vindur enn frekar upp á sig.

Við erum í nógu slæmum málum ímyndarlega – pössum okkur!

Það sem þarf eru fjölmenn, friðsöm mótmæli með skýrar kröfur.

Ég er tilbúinn að mæta til að leggja áherslu á ofansagt, en ég get ekki staðið undir því – í orðsins fyllstu merkingu – að einu sinni lítill hluti hópsins vaði uppi með þeim hætti sem sást í gær. Þá þarf ég að fara. Ég veit að það eru margir sem eru samstíga mér í þessu.

Því segi ég við mótmælendur: Fleiri og fleiri munu mæta og leggja málstað ykkar lið því fleiri klukkustundir og svo dagar líða án þess að til átaka eða skemmdarverka komi. Þetta tekur innan við viku.

Væri ekki áhrifaríkt að sjá ríkisstjórnina víkja undir tugum þúsunda þögulla, alvarlegra og yfirvegaðra mótmælenda? Væru það ekki góð skilaboð frá okkur um að Næsta Ísland verði byggt og stjórnað af skynsömu og vel meinandi fólki?

Icesave and Icelandic deposits

As DataMarket‘s Money:Tech gig (see previous entry) approaches, we’re starting to see all sorts of interesting data coming together to form our “DataMarket on the Icelandic Economy”.

Some graphs just speak for themselves. Here’s one that caught my eye today:

deposits-icesave1

The numbers are millions ISK.

Note that these are only deposits in Icelandic banks and their immediate branch offices, not the subsidiaries of Icelandic banks registered elsewhere. It therefore only includes Icesave (UK and Netherlands) and a minority of Kaupthing Edge’s operations (Finland, Norway, Germany and Austria). See here.

We’ve marked the month Icesave is opened (UK branch). Another interesting breaking point in the graph is in early 2008. Guess what? Icesave Netherlands was started in May 2008. So, just before the crash – foreign depositors held more than half of “Icelandic” deposits (1,710 billion ISK out of a total of 3,123 billion)!

In our upcoming tool, users will be able to view and correlate a wealth of Icelandic economy time series and mark them with events and news headlines interactively. It will be a pretty powerful tool!

Tæknispá 2009

Ég hef tvisvar ráðist í það í kringum áramót að gera “Tæknispár” fyrir komandi ár á Íslandi (2006 og 2008). Í fyrra minntist ég t.d. á tiltölulega lítið þekktan þátt í starfsemi bankanna: Erlenda innlánsreikninga sem nefndust Kaupthing Edge og Icesave og spáði því að bankarnir ættu eftir að útvíkka þessa starfsemi. Maður ætti kannski að fara varlega!

Annars er ég bara nokkuð sáttur við árangurinn fyrir 2008, þó vissulega hafi ekki allt gengið eftir og annað gengið lengra en mig grunaði. Dæmi hver fyrir sig.

En hvað um það. Hér koma nokkrir punktar um það sem mér þykir líklegt að muni gerast á komandi ári í tæknigeiranum á Íslandi:

  • Fjöldi nýrra tæknifyrirtækja verður stofnaður: “Neyðin kennir naktri…”, og allt það. Það er fjöldi hæfileikaríks tæknifólks þarna úti að missa vinnuna. Margir búa yfir hugmyndum að vörum eða vilja koma hæfileikum sínum í verð á annan hátt. Stærsti kostnaðarliður – a.m.k. hugbúnaðarfyrirtækja – er launaliðurinn og útlögðum kostnaði á að vera hægt að halda í algeru lágmarki ef fólk er þannig stemmt. Sprotaapparatið YCombinator í Bandaríkjunum er ágætis dæmi um umhverfi sem skapað hefur verið fyrir svona fyrirtæki. Fjármögnun á bilinu 5.000-50.000 dollarar, aðstaða fyrir 2-5 manna teymi (ef þau vinna ekki bara heiman að frá sér), auk tengslamyndunar og handleiðslu frá reyndara fólki. Allt ætti þetta að virka vel í íslenskum raunveruleika þar sem lítið er um áhættufjármagn um þessar mundir, en mikið af hæfileikafólki að leita verkefna. Rétt er þó að minna á að YCombinator er sprottið upp á góðæristímum og áherslan hér verður að vera á verðmæti “í núinu” (tekjur sem duga fyrir lágmarksrekstri innan 12 mánaða) í stað langra þróunarverkefna og óljósra tekjumöguleika. Viðskiptaáætlanir sem hafa auglýsingar sem aðaltekjulind munu ekki eiga upp á pallborðið næstu 2-4 árin.
  • CCP mun halda áfram að vaxa: Þetta þrautseiga sprotafyrirtæki, sem hefur náð að byggja tekjustraum sem svarar ágætri loðnuvertíð með hugvitinu einu saman, mun halda áfram sigurgöngu sinni. Tryggur leikendahópur sem telur á við íslensku þjóðina, stöðugar viðbætur og fjölgun dreifingarleiða (EVE Online mun nú fara í búðir aftur eftir að hafa verið dreift eingöngu á netinu undanfarin ár) mun valda því. Sagan segir líka að í efnahagsþrengingum leiti fólk í afþreyingu og nú hafa einfaldlega mun fleiri heimsbúar tímann sem þarf í áhugamál á borð við fjölspilunarleiki. Mánaðargjaldið svarar til einnar bíóferðar en endist virkum spilurum í 4-8 tíma skemmtun á dag, alla daga mánaðarins. Þróun stendur einnig yfir á næsta leik CCP, fjölspilunarleik sem byggir á World of Darkness heiminum. Hann mun varla líta dagsins ljós á árinu, en gefur góð fyrirheit um komandi tíð hjá fyrirtækinu, þar sem hann á sér þegar dyggan aðdáendahóp og höfðar til breiðari hóps en EVE heimurinn, ekki síst meðal kvenþjóðarinnar sem hingað til hefur ekki verið áberandi í fjölspilunarleikjum.
  • Ríkið mun styrkja nýsköpunarstarf með margvíslegum hætti: Að einhverju leiti er þetta þegar komið fram og mikið er talað, næstum nóg til að maður trúi því að það sé ekki bara fagurgali. Einföldustu aðgerðirnar, eins og að beina atvinnuleysisgreiðslum í gegnum fyrirtæki til uppbyggingar nýrra starfa kosta ríkið nettó núll og eru augljósar. Aðrar, eins og niðurfelling skatta nýráðinna starfsmanna eða skattaafsláttur á einstaklinga og fyrirtæki gegn fjárfestingu í nýsköpun eru djarfari, en þó mögulegar. Mikilvægast er þó fyrir alla þessa starfsemi að bankakerfið, gjaldeyrismiðlun og önnur stoðkerfi komist aftur í eðlilegan farveg. Fjárfestingasjóðurinn Frumtak er sömuleiðis mikilvægt gæfuspor.
  • Ódýrari valkostir í fjarskiptum munu ná almennri notkun: Í nokkur ár hafa verið í boði ýmsar mjög svo frambærilegar lausnir í fjarskiptum, sem kosta minna en hinar hefbundnu, eða jafnvel bara hreint ekki neitt. Í einhverjum tilfellum hafa þessar lausnir jafnvel eitthvað fram yfir hinar hefðbundnu (t.d. myndsímtöl og einföld hópsímtöl í Skype), en í öðrum tilfellum, t.d. þegar kemur að farsímalausnum, þurfa notendur að sætta sig við lítilsháttar vesen, skert gæði eða aðra vankanta við notkun slíkra lausna. Einhverjar þessarra lausna hafa verið ágætlega þekktar um skeið, en þó ekki náð almennri útbreiðslu. Nú er hins vegar tími aðhalds hjá bæði fyrirtækjum og einstaklingum. Ég spái því að kreppan verði til þess að þessar lausnir nái verulega aukinni útbreiðslu og ef það gerist er það breyting sem er komin til að vera. Ég held því að kreppan eigi eftir að koma verulega illa niður á fjarskiptageiranum í skertri notkun og þar með tekjum. Þó má ekki gleyma því að þessar nýju lausnir notast allar við kerfi fjarskiptafyrirtækjanna og ganga nær allar út á að flytja með einum eða öðrum hætti yfir í gagnasamskipti það sem áður fór um hefbundna símakerfið. Þetta kallar því frekar á breytingu í viðskiptamódelum fjarskiptafyrirtækjanna en algeru hruni þeirra, því einhver þarf að borga fyrir uppbyggingu og rekstur kerfanna eftir sem áður.
  • Gegnsæi og opin miðlun upplýsinga: Leiðin til að byggja á ný upp traust í viðskiptum og fjármálastarfsemi, er aukið gegnsæi og hraðari og opnari miðlun upplýsinga. Ég vísa í fyrri færslu mína um Framtíð viðskipta til nánari útskýringar. Ég spái því að þessi sjónarmið muni byrja að ryðja sér til rúms á árinu, þó breytingin í heild sinni mun taka mun lengri tíma. Þessar breytingar gætu byrjað hvort heldur er hjá Ríkinu (með áherslu á opin gögn), eða hjá einkaaðilum sem vilja auka traust þjóðfélagsins með því að sýna svo ekki verður um villst að þau hafi ekkert að fela.
  • Netið verður þungamiðja pólitísks starfs: Unga fólkið er búið að fá áhuga á pólitík. Facebook-kynslóðin er við stjórnvölin og meira en þriðjungur þjóðarinnar skráður þar. Merki um þetta má reyndar þegar sjá víða. Á fundum borgarstjórnar undanfarið má sjá stöðubreytingar og færslur frá allnokkrum borgarfulltrúum á meðan á fundunum stendur (sönn saga). Fjöldafundir og mótmæli eru skipulögð á netinu. Komi til kosninga munu Facebook, MySpace, Twitter og YouTube spila stóran þátt. Gömlu pólitíkusarnir munu ekki vita hvaðan á þá stendur veðrið. Ég geng svo langt að halda því fram að þetta geti haft úrslitaáhrif í kosningabaráttunni, hvort sem um verður að ræða ný framboð eða að einhver gömlu flokkanna ranki við sér. Í Bandaríkjunum hefur verið talað um að kosningabarátta Baracks Obama hafi verið sú fyrsta sem “skildi Internetið”. Framboðin hér munu þurfa að gera slíkt hið sama.

Hvað haldið þið að gerist í tæknimálum árið 2009?

Bensínverð – eina ferðina enn

Ég hef áður gert nokkrar tilraunir með að draga upp mynd af bensínverði hér á landi miðað við þá þætti sem helst eru sagðir ráða verðmynduninni, þ.e. heimsmarkaðsverð á olíu og gengi bandaríkjadals.

Nú hefur heimsmarkaðsverðið snarfallið, en gengið á móti í hæstu hæðum. Mér fannst því tími til kominn að uppfæra þessi gögn og sjá hvernig málin standa. Ég einfaldaði líka framsetninguna dálítið frá fyrri færslum.

Á grafinu hér að neðan eru bara tvær línur. Annars vegar hið raunverulega bensínverð og hins vegar “Reiknað verð”. Gögnin um þróun bensínverðs hjá Hagstofunni ná aftur til mars 1997. Þá var bensínverðið um 78 krónur á lítrann. Reiknaða verðið er sett á sömu tölu þann mánuð, en svo látið þróast miðað við margfeldi á gengi dollars (þá 71,14 ISK) og heimsmarkaðsverð á olíu (þá 18,54 dollarar á tunnuna).

Þróun bensinverðs

Þannig má lesa af grafinu að ef aðeins þessir tveir þættir réðu bensínverði hér á landi hefði lítrinn af bensíni farið yfir 600 krónur á tímabili í fyrra! Hámarkinu hefði verið náð í júlí: 636,7 krónur á lítrann. Nú væri það hins vegar komið NIÐUR í 254,4 krónur á lítrann. Raunverulega náði bensínverðið reyndar hámarki hér þennan sama mánuð: 184,3 krónur á lítrann, en er nú í kringum 146 krónur (95 okt, með þjónustu).

Af grafinu sést að sveiflur á gengi og olíuverði skila sér (kannski sem betur fer) ekki mjög hratt og alls ekki fyllilega í bensínverði til íslenskra neytenda. Á tímabilinu frá mars 1997 til september 1999 er reiknaða verðið talsvert lægra en raunverulega verðið, en hefur verið hærra nær óslitið síðan. Þetta myndu þeir sem hefðu hagsmuni af því örugglega túlka þannig að verðið frá olíufélögunum hafi verið “of hátt” á þessu tímabili, en hafi verið “of lágt” síðan, en tvennt ber þó að varast.

Annars vegar skiptir mjög miklu máli hvar upphafspunkturinn er settur. Hér ræðst það af því hversu langt aftur gögnin ná. Hins vegar endurtek ég það sem sagt var í upphaflegu færslunni. Það eru einfaldlega miklu fleiri þættir sem ráða bensínverði hér á landi heldur en þessir tveir, þar á meðal:

  • Í október 1999 var gerð skattalagabreyting þar sem vörugjaldi á bensíni var breytt úr prósentu í fasta krónutölu.
  • Þó hráolíuverð sveiflist til, þá hefur það ekki sömu áhrif á seinni stig vinnslunnar, s.s. hreinsun olíunnar og fullvinnslu í söluhæft eldsneyti á bíla.
  • Flutningskostnaður á eldsneytinu hingað til lands helst ekki að fullu í hendur við eldsneytisverð.
  • Innlendi þátturinn í verðinu er óháður ofangreindum sveiflum.

Til gamans má geta að verðbólgan á því tímabili sem grafið nær til er 86,6% (vísitalan fór úr 178,4 í 332,9). Það samsvarar svo að segja nákvæmlega þeirri hækkun sem orðið hefur á bensínverði á sama tímabili.