Framtíð og gengi krónunnar er ein af stærstu spurningunum núna í endurreisninni, enda snertir þetta mál svo að segja alla aðra þætti sem máli skipta: skuldastöðu þjóðarbúsins, stöðu heimila og fyrirtækja, efnahag bankanna, vísitölu neysluverðs og svo framvegis.
Það skiptir því ekki litlu máli að reyna að átta sig á hvaða þættir munu ráða genginu og hvað verður um krónugreyið.
Ég skrifaði reyndar pistil í þessa veru upppúr miðjum október, sem mér sýnist hafa staðist tímans tönn ágætlega og standi að miklu leiti fyrir sínu þó margt hafi skýrst síðan þá. Það eru einna helst lokaorðin – þar sem ég fullyrði að stöðugleiki fáist aðeins með tengingu við stærra myntkerfi – sem ég er ekki alveg jafn viss um og áður. Það stafar að hluta til af þeirri vantrú sem ég hef öðlast á þá peningamálastjórnun sem flestar myntir heimsins notast við, en að hluta til af því að ég hef þá trú að litlar myntir geti nýst litlum hagkerfum betur en stórar EF rétt er haldið á spilunum.
(Það er hérna sem þið eigið að hrista hausinn í vantrú og hneykslan á vitleysunni í mér og gefa mér svo séns og lesa áfram)
Ekki sama króna og króna
Það sem við höfum kallað “íslensk króna” eru í rauninni margar myntir. Íslenska krónan lýtur þeirri gengis- og peningamálastefnu sem rekin er hverju sinni. Íslenska krónan sem lagði upp laupana í október síðastliðnum var tekin upp í mars 2001 þegar Seðlabankinn tók upp svokallað verðbólgumarkmið. Hún náði því aðeins 7 og 1/2 árs aldri.
Íslenska krónan sem við búum við núna í gjaldeyrishöftunum er svo önnur mynt. Ekkert vit er að reyna að lesa eitthvað í hreyfingar á skráðu gengi þeirrar krónu frá degi til dags. Til þess að átta okkur á því sem “markaðurinn er að segja” þyrftum við að vita hver er að kaupa, hver er að selja og hversu mikið. Sérstaklega skiptir máli hversu mikið Seðlabankinn tekur þátt í þessum viðskiptum.
Fram til 2001 setti Seðlabankinn sér ákveðin vikmörk í gengi krónunnar, þar áður voru önnur viðmið og svo koll af kolli. Sennilega hefur hin “íslenska króna” sem fyrst kom fram sem sjálfstæð mynt 1918 (hafði áður verið tengd dönsku krónunni) gengið í gegnum 10-20 tímabil mismunandi peningastjórnunnar og er því í raun rétt að tala um að 10-20 mismunandi gjaldmiðlar hafi verið hér í gangi síðan þá.
Þessar mismunandi stefnur í peningastjórnun eru mannanna verk og það erum við – Íslendingar – sem ráðum því hvernig henni er stýrt á hverjum tíma. Því miður höfum við ekki borið gæfu til að detta niður á góða leið í þessum málum, en við vitum þó a.m.k. um nokkrar útfærslur sem við ætlum hér eftir að forðast!
Næsti gjaldmiðill sem tekinn verður upp á Íslandi verður nefnilega ekki Evra, heldur enn ein útgáfa af íslenskri krónu. Þarna gildir einu hvort sótt verður um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Krónuna þarf fyrr en seinna að leysa úr gjaldeyrishöftunum, við munum búa við þá stefnu í a.m.k. 5 ár (líklega mun lengur) og það skiptir gríðarlega miklu máli hvaða aðferð verður þá fyrir valinu.
Helstu markmiðin við það val eru líklega:
- Að stefnan hjálpi til við þá endurreisn sem framundan er á næstu árum.
- Að koma í veg fyrir spákaupmennsku með gjaldmiðilinn.
- Að hindra of hraðar breytingar í genginu, en jafnframt hafa sveigjanleika til að bregðast við langtíma breytingum á efnahag þjóðarinnar.
- Að uppfylla skilyrði EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns.
Vafalaust eru þessi markmið eitthvað fleiri.
Jafnvægis- og raungengi
Áður en lengra er haldið skulum við skoða tvö hugtök sem stundum koma upp í umræðunni, en fæstir vita hvað þýða í raun. Þetta eru hugtökin jafnvægisgengi og raungengi. Hvort tveggja eru tilraunir til að meta hvert “rétt gengi” gjaldmiðils er ef allt væri með felldu.
Í stuttu máli segir kenningin um raungengi að verð á samskonar vörum og þjónustu ætti alltaf að vera það sama milli landa, annars myndu einstaklingar nýta sér verðmuninn til hagnaðar. M.ö.o. ef verðlag t.d. hér á landi yrði áberandi hærra en í nágrannalöndunum myndi það þýða aukna verslun okkar erlendis (eða búferlaflutninga úr landi) og minnkandi áhuga útlendinga á að versla hér. Með sama hætti: ef verðlag hér yrði áberandi lægra þýddi það aukna verslun heima fyrir og aukinn áhuga útlendinga á verslun hér. Við höfum svo sannarlega séð þessar kenningar standast ágætlega síðustu mánuðina og jafnvel árin.
Hugtakið jafnvægisgengi virðist reyndar nokkuð á reiki og er stundum notað um raungengi eins og því er lýst hér að ofan. Sú merking sem ég á við er það gengi krónunnar sem veldur því að viðskiptajöfnuður við útlönd sé sem næst núlli. Með öðrum orðum, það gengi sem veldur því að tekjur okkar frá útlöndum séu sem næst gjöldum okkar til útlanda. Þarna spila inn í útflutningur og innflutningur, kaup og sala á þjónustu og síðast (en í okkar tilfelli alls ekki síst) fjármagnstekjur og -gjöld.
Reyndar leitast jafnvægis- og raungengi eins og þeim er lýst hér líklega við sama – eða mjög svipað – gengi til lengri tíma, en tímabundnar aðstæður geta valdið því að svo sé ekki (t.d. mikið streymi fjármagns í aðra hvora áttina, snöggar breytingar á inn- eða útflutningi o.s.frv.).
Þetta eru sem sagt mér vitanlega helstu kenningar um “rétt gengi” gjaldmiðla. Og hvert skyldi þá rétt gengi íslensku krónunnar vera? Seðlabankinn er svo vinsamlegur að mæla raungengi krónunnar. Hér má sjá þróun þess síðasta áratuginn:
Þessi mæling segir sem sagt til um það hvernig verðlag hér hefur þróast samanborið við nágrannalöndin. Eins og sjá má er raungengið í algeru sögulegu lágmarki og því full ástæða til að ætla að það ætti að styrkjast mjög verulega frá núverandi skráðu gengi. Tekið skal fram að vísitalan miðast eingöngu við verðlag eins og það var hér á landi í janúar 2000 og er því ekkert endilega “réttara” en annað. Meðaltal vísitölunnar þessi 10 ár er reyndar 99,6 – eða furðunærri upphafspunktinum.
Gengisfallið nú hefur valdið því að verðlag hér er verulega lægra en erlendis. Verðlag hér var klárlega verulega mikið hærra t.d. árið 2007. Raungengið liggur því þarna á milli, en útreikningur á “réttu raungengi” er mjög flókinn þar sem ekki er til nein samræmd neysluverðsmæling. Gefum okkur að gildið 90 færi nærri því að sýna sambærilegt verðlag hér og í helstu nágrannalöndum (þetta væri gagnlegt að reikna út á mun nákvæmari hátt).
Gamla góða gengisvísitala krónunnar væri skv. því nálægt 150 sem myndi þýða að Evran væri á 117, Dollarinn á 88 og Pundið á 130.
Það er hins vegar tvennt sem kemur í veg fyrir að jafnvægisgengið sé eins álitlegt:
- “Hræddu krónurnar” sem nefndar voru í fyrri færslu, þ.e. fjármagn sem útlendingar eiga í íslenskum krónum (t.d. jöklabréfum, öðrum krónubréfum og innistæðum) og svo að einhverju marki hræddar krónur Íslendinga sem ætla að skipta sínum fjármunum að einhverju eða jafnvel öllu leiti í erlenda mynt um leið og færi gefst vegna vantrúar sinnar á íslenskri efnahagsstjórnun.
- Afborganir og vaxtagreiðslur af erlendum skuldum Íslendinga, þar sem þær greiðslur munu augljóslega þurfa að fara fram í erlendri mynt og mynda því streymi fjármagns úr landinu. Skuldir Íslendinga hver við annan í íslenskum krónum skipta engu í þessu samhengi. (Reyndar held ég að það sé hægt að eiga miklu meira við þær og stokka þær meira upp á nýtt en verið hefur í umræðunni – en það er mál í aðra færslu). Hér er auðvitað átt við skuldastöðu þjóðarinnar í heild, þ.e. ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og heimila við erlenda aðila – ekki bara skuldir Ríkisins, sem mest hafa verið í umræðunni og mér sýnist reyndar ætla að verða tiltölulega viðráðanlegar.
Þetta eru semsagt þau atriði sem þarf að skýra til að átta sig á því hversu langt frá raungenginu gengi krónunnar ætti að vera á næstu misserum. Hér skiptir miklu máli hversu vel tekst til í ýmiskonar samningum. Margt bendir til að styttist í land hvað varðar erlendu fjármagseigendurna. Sú lending mun væntanlega hleypa þeim mest “desperat” út á mjög lágu gengi en festa þolinmóðara fé ýmist í lengri skuldabréfum hér á landi eða jafnvel í fjárfestingum í uppbyggingu (þá vona ég að hugmyndir Guðjóns Más um endurreisnarsjóð nái eyrum þeirra sem ráða).
Sömuleiðis virðist hylla undir samninga varðandi Icesave lánið (sem n.b. hefur mér vitanlega ekki enn verið veitt og hefur skv. því enn ekki kostað okkur krónu), en enn er mörgu ósvarað um aðra þætti sem skipta máli í þessu samhengi.
Næsta króna
Nú er ég bara leikmaður í þessu öllu saman, en ég sé ekki annað en það sé til tiltölulega einföld lausn sem uppfylli öll fyrr talin markmið og sé að auki tiltölulega einföld í framkvæmd.
Næsta króna verði einfaldlega miðuð við það að halda genginu rétt fyrir neðan jafnvægisgengi á hverjum tíma. Sem sagt að tryggja að í hverjum mánuði komi örlítið meiri gjaldeyrir til landsins en fari úr landi og hjá þjóðinni safnist smám saman upp gjaldeyrisforði. Þetta getur gerst á frjálsum og opnum markaði, með inngripum Seðlabanka ef markaðurinn leitar langt út fyrir þetta jafnvægi, enda á hann alltaf að hafa efni á því þar sem forðinn er verulegur nú þegar og mun að jafnaði aukast mánaðarlega með þessum aðgerðum.
Þetta mun þýða það að gengi krónunnar verður lágt fyrst um sinn meðan mestu afborganirnar fara fram af skuldunum, en gengið mun svo smám saman stefna á raungengið sem að ofan var nefnt.
Hvaða leið sem verður farin er a.m.k. ljóst í mínum huga að það má alls ekki negla gengið við neitt, hvorki vikmörk við Evru í tenglsum við inngöngu í ESB, annan gjaldmiðil né myntkörfu nema sá nagli sé nálægt raungenginu. Þangað mun gengið nefnilega sigla á endanum, þegar okkur hefur tekist að taka til eftir fyrrum valdhafa og aðra óráðsíumenn – þá sem fæddu af sér og hina sem svo myrtu – síðustu íslensku krónu.
Guðjón Már félagi minn hefur verið að vinna frábæra vinnu með
Ég hef alltaf haft þann djöful að draga að þurfa að mynda mér mínar eigin skoðanir og geta ekki bara fylgt einhverri línu.
Ég hef 

DataMarket mun sjá um fund